Mál nr. 198/2009
- Ítak
- Hefð
- Gjafsókn
- Eignarréttur
- Fasteign
- Þjóðlenda
- Afréttur
|
Fimmtudaginn 3. júní 2010. |
Nr.
198/2009. |
Sveitarfélagið Ölfus (Ólafur
Björnsson hrl. Sigurður A.
Þóroddsson hdl.) gegn íslenska ríkinu
(Einar Karl
Hallvarðsson hrl.) |
Eignaréttur.
Fasteign. Afréttur. Hefð. Ítök. Þjóðlenda. Gjafsókn.
Ö höfðaði mál gegn íslenska ríkinu
og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar 31. maí 2006
í máli nr. 6/2004 að því leyti, sem þar var kveðið á um að Selvogs- og
Ölfusafréttur væri þjóðlenda innan nánar tilgreindra marka. Þá krafðist Ö
viðurkenningar á því að þetta landsvæði væri háð beinum eignarrétti hans. Gögn
málsins þóttu veita því enga stoð að beinn eignarréttur, sem gæti hafa við
landnám stofnast yfir þessu landi, hefði færst til Ö eða annarra, heldur aðeins
afnotaréttindi, sem fylgja jörðum á afrétti. Ö hefði engu borið við svo að
haldbært væri til stuðnings því að hann hefði haft slík yfirráð yfir afréttinum
að til álita gæti komið að hann hefði fyrir hefð unnið beinan eignarrétt yfir
landinu í heild. Var varakröfu hans því hafnað. Þá var hafnað varakröfu Ö um að
hann hefði öðlast eignarrétt að níu nánar tilgreindum landskikum innan Selvogs-
og Ölfusafréttar fyrir hefð. Loks þótti hann ekki hafa sýnt fram á að hann
hefði með hefð öðlast einkarétt til nýtingar á auðlindum í jörðu án endurgjalds
á þeim landskikum, sem þrautavarakrafa hans tók til. Var íslenska ríkið því
sýknað af kröfum Ö.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar
Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2009. Hann krefst þess
aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar 31. maí 2006 í máli
nr. 6/2004 að því leyti, sem þar er kveðið á um að Selvogs- og Ölfusafréttur sé
þjóðlenda innan eftirgreindra marka: „Úr Fálkakletti í Geitafelli í Kálfahvamm
og þaðan í Litla-Kóngsfell. Frá Litla-Kóngsfelli til austurs í Bláfjallahorn og
eftir hæstu tindum Bláfjalla í stöpul á Vífilsfelli. Þaðan í stefnu í
Sýslustein austan Lyklafells, áfram í Sýsluþúfu og í stöpul á Borgarhólnum. Þá
til suðausturs í Vörðuskeggja og þaðan í punkt við Hengilssyllur og síðan í
rauðleitan Melhnjúk fyrir framan Kýrgilshnjúka. Frá þeim punkti verður línan
dregin beint í hæsta hnjúk á Reykjafelli. Þaðan í vörðu á Skarðsmýrarfjalli,
þaðan beint í Sleggju, þaðan beina stefnu yfir Húsmúlann í Miðmúlahornið, þaðan
í vörðu er ber í Lambafellsháls og úr þeirri vörðu beint í fyrrgreindan hnjúk á
Reykjafelli. Frá þeim punkti er línan dregin beint í Lambafell, þaðan í Rauðhól
og í vörðu norðaustan til á há-Geitafellinu og loks í fyrrgreindan Fálkaklett.“
Þá krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að þetta landsvæði sé háð beinum
eignarrétti hans. Til vara krefst áfrýjandi að úrskurður óbyggðanefndar verði
ógiltur að því leyti, sem í honum felst að eftirtaldir landskikar innan
Selvogs- og Ölfusafréttar heyri til þjóðlendu, og viðurkennt að þeir séu
eignarland hans: Um 103 ha námusvæði í Bolöldu, um 2,5 ha lóð
Litlu-Kaffistofunnar, um 7,5 ha námusvæði í Jósepsdal, um 1 ha lóð Æskulýðsfylkingarinnar,
um 6 ha svæði undir Lambafellsnámu norðaustan í Lambafelli, um 1 ha lóð undir
skála í Innstadal með heitinu Hreysið, um 1 ha lóð undir Ármannsskála, um 1 ha
lóð undir skála með heitinu Skæruliðaskálinn og um 1 ha lóð undir skála með heitinu
Dverghamar, en landskikar þessir eru allir afmarkaðir nánar með hnitum í
kröfugerð áfrýjanda. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi þess að viðurkenndur
verði einkaréttur sinn til nýtingar á auðlindum í jörðu án endurgjalds á þeim
landskikum, sem í varakröfu greinir, þótt þeir verði taldir innan þjóðlendu. Í
öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án
tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms
og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Dómendur fóru á vettvang 18. maí 2010.
I
Mál þetta á rætur að rekja til þess að samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd til meðferðar 27. október 2003 nánar tilgreint landsvæði á suðvesturlandi, sem náði til sveitarfélaga í fyrrum Gullbringu- og Kjósarsýslu ásamt þeim hluta Árnessýslu, sem nefndin hafði ekki þegar tekið afstöðu til. Að fram komnum kröfum stefnda um þjóðlendumörk á þessu svæði og loknum fresti annarra til að gera athugasemdir við þær ákvað óbyggðanefnd í ágúst 2004 að fjalla um þær í sex málum og tók eitt þeirra, nr. 6/2004, til svæðis sem kennt var við Ölfus.
Fyrir óbyggðanefnd krafðist stefndi þess í máli
nr. 6/2004 að þjóðlendumörk í Ölfusi yrðu dregin sem hér segir: „Frá Kistufelli er dregin lína sjónhending að
Kálfahvammi fyrir vestan Geitafell. Þar sem sú lína sker sýslumörkin (A) er
fyrsti punktur í kröfulínu og þaðan er svo lína sjónhendingu í Kálfahvamm (B)
vestan í Geitafelli. Frá Kálfahvammi er kröfulínan dregin í Fálkaklett (C) og
frá honum í vörðu norðaustan til á há Geitafelli (D) og þaðan í Rauðhól (E) og
þaðan beina stefnu í punkt í Sanddölum (F) og þaðan í Reykjafell (G). Frá
Reykjafelli er dregin lína í Hengladalsá (H) við Orrustuhól syðst í Litla
Skarðsmýrarfjalli. Þaðan er línan látin fylgja Hengladalsá niður að Helluvaði
(I), sem er fyrir vestan Ástaðafjall, sem er merkjapunktur við Reykjatorfuland.
Síðan fylgir línan landamerkjum Reykjatorfu beina stefnu frá Helluvaði til
austnorðurs í einkennilega gjá, sem liggur í krókum til norðurs og eftir henni
og úr nyrðra gljúfri gjárinnar (J) beina stefnu til norðurs í rauðleitan
melhnjúk (K) fyrir framan svokallaða Kýrgilshnjúka ... Frá rauðleita
melhnjúknum heldur kröfulínan áfram meðfram landi Nesjavalla á austurhlið, í
Hengilsyllur (L), og þaðan í punkt (M), sem er milli Ölfusvatnslaugar og
Köldulaugar, þaðan eftir beinni stefnu í Vörðuskeggja (N).“ Undan þessu var þó
skilið land Kolviðarhóls, sem stefndi viðurkenndi að væri eignarland innan
framangreinds svæðis með nánar tilteknum merkjum. Með framangreindri lýsingu
afmarkaði stefndi kröfu sína um þjóðlendu gagnvart eignarlöndum að sunnanverðu
allt frá Herdísarvík vestast í Sveitarfélaginu Ölfusi að svokallaðri
Reykjatorfu að austan, síðan til norðurs eftir vesturjaðri Reykjatorfu að
mörkum Grímsnes- og Grafningshrepps, en þaðan áfram í norður og loks vestur
eftir merkjum Ölfusvatns, Hagavíkur og Nesjavalla að Vörðuskeggja. Í þessari
kröfugerð stefnda fólst að land norðan og vestan kröfulínu teldist þjóðlenda
allt til marka svæðisins, sem mál nr. 6/2004 fyrir óbyggðanefnd tók til, án
þess að þeim mörkum væri þar lýst frekar.
Í kröfulýsingu til óbyggðanefndar 3. júní 2004 kvaðst áfrýjandi vera
þinglýstur eigandi Selvogs- og Ölfusafréttar og krafðist þess að viðurkenndur
yrði eignarréttur sinn að landi innan afréttarins, sem hefði sömu merki og lýst
er í fyrrgreindri dómkröfu hans fyrir Hæstarétti. Landsvæðið, sem áfrýjandi
afmarkaði á þennan hátt, var að öllu leyti innan landsins, sem stefndi krafðist
samkvæmt áðursögðu að teldist til þjóðlendu. Samkvæmt kröfugerð áfrýjanda fyrir
óbyggðanefnd réðust merki afréttarins til vesturs og norðurs af jaðri
svæðisins, sem mál nr. 6/2004 tók til. Að sunnan og austan fóru þau að nokkru
saman við kröfu stefnda um þjóðlendumörk, en að öðru leyti lágu þau ofar í
landi.
Auk aðila þessa máls gerði Orkuveita Reykjavíkur meðal annarra kröfu fyrir
óbyggðanefnd í máli nr. 6/2004. Sú krafa fól í sér að merki eignarlanda
orkuveitunnar gagnvart þjóðlendu yrðu á nánar tiltekinn hátt dregin norðar og
að nokkru vestar á suðausturhluta svæðisins, sem krafa stefnda tók til, en
merki samkvæmt kröfu orkuveitunnar horfðu um leið til skerðingar á hluta
landsvæðisins, sem áfrýjandi taldi samkvæmt framansögðu innan Selvogs- og
Ölfusafréttar.
Í úrskurði óbyggðanefndar í málinu 31. maí 2006 var meðal annars komist að
þeirri niðurstöðu að mörk Selvogs- og Ölfusafréttar væru á þann veg, sem
áfrýjandi krafðist fyrir nefndinni, þar á meðal gagnvart eignarlandi
Kolviðarhóls, en fallist var á hinn bóginn á kröfu stefnda um að land innan
afréttarins væri þjóðlenda, þar sem jarðir í fyrrum Selvogshreppi og
Ölfushreppi ættu upprekstrarrétt og hefðu önnur hefðbundin afréttarnot. Með
þessu hafnaði óbyggðanefnd kröfu stefnda um þjóðlendumörk að því leyti, sem
munur var á henni og kröfu áfrýjanda um afmörkun afréttarins, en þó með þeirri
undantekningu að á suðausturhorni svæðisins, sem deilt var um fyrir nefndinni,
voru mörk þjóðlendu að nánar tilteknu leyti ákveðin á þann hátt, sem stefndi
hafði krafist, og fóru þannig út fyrir merki Selvogs- og Ölfusafréttar og inn á
svæði, sem Orkuveita Reykjavíkur hafði talið til eignarlands síns.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 21. desember 2006 og hafði uppi sömu kröfur í
héraði og hann gerir samkvæmt áðursögðu fyrir Hæstarétti. Í málinu fella
aðilarnir sig við niðurstöðu óbyggðanefndar um afmörkun Selvogs- og
Ölfusafréttar, þar á meðal gagnvart eignarlandi Kolviðarhóls. Aðilarnir deila á
hinn bóginn um hvort land á afréttinum sé háð beinum eignarrétti áfrýjanda, svo
sem hann krefst aðallega að viðurkennt verði að öllu leyti, en til vara að
nánar tilteknum hluta. Samhliða máli þessu hefur á báðum dómstigum verið rekið
mál Orkuveitu Reykjavíkur á hendur stefnda, áfrýjanda og fleirum, sbr.
hæstaréttarmálið nr. 184/2009, sem dómur er einnig felldur á í dag, en það
lýtur að mörkum áðurnefnds eignarlands orkuveitunnar og þjóðlendu, þar á meðal
gagnvart Selvogs- og Ölfusafrétti. Þótt dómkrafa áfrýjanda um viðurkenningu á
eignarrétti sínum að öllum afréttinum taki þannig að hluta til lands, sem
Orkuveita Reykjavíkur gerir eignartilkall til, varðar úrlausn um þá kröfu ekki
hagsmuni orkuveitunnar á þann hátt að nauðsyn hefði borið til aðildar hennar að
máli þessu, enda er dómur í því, sem meðal annars verður að reisa á sammæli
áfrýjanda og stefnda um merki Selvogs- og Ölfusafréttar, ekki bindandi fyrir
aðra en þá, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
II
Í málinu liggur fyrir að landamerkjabréf var
ekki gert fyrir Selvogsafrétt eða Ölfusafrétt eftir setningu landamerkjalaga
nr. 5/1882. Elstu lýsingarnar, sem beinlínis varða merki þeirra, virðast vera í
bréfi hreppstjóra Ölfushrepps til sýslumannsins í Árnessýslu 28. febrúar 1920
að því er varðar Ölfusafrétt og bréfi oddvita Selvogshrepps 19. apríl 1979 um
Selvogsafrétt, þar sem segir þó að ekki séu „nein ákveðin merki milli
afréttarlanda Selvogsbænda og heimalanda þeirra“. Með þessar lýsingar var ekki
farið á þann hátt, sem ákvæði laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl. áskilja um
gerð landamerkjabréfa. Að hluta var merkjum gagnvart afréttunum lýst í
heimildarbréfum vegna annarra lendna, þar á meðal í landamerkjaskrám jarðanna
Miðdals og Elliðakots í Kjósarsýslu 3. október 1885, bréfi um afréttarmörk
milli Ölfushrepps og Grafningshrepps frá 22. maí 1886 og landamerkjabréfi 24.
september 1889 fyrir „Selvogsafrjetti og Ölvesafrjetti að innan, en Hlíðarbæja
að neðan“, en mjög skortir þó á að heildstæð lýsing fáist á mörkum afréttanna
úr slíkum heimildum. Þótt enginn ágreiningur sé eins og áður segir milli aðila
þessa máls um merki Selvogs- og Ölfusafréttar, svo sem hann virðist nú vera
nefndur eftir sameiningu eldri sveitarfélaga, verða þau ekki studd við þinglýstar
heimildir og fer því fjarri, sem áfrýjandi hefur að nokkru borið við í
málatilbúnaði sínum, að hann njóti þinglýstrar eignarheimildar að afréttinum.
Í Landnámabók er meðal annars greint frá því að
Ingólfur Arnarson hafi numið land milli nánar tiltekinna staða á suðvesturlandi
og fellur Selvogs- og Ölfusafréttur innan þeirra marka, sem þar eru dregin um
landnámið. Því er ekki lýst í þeirri heimild hversu langt inn til lands þetta
landnám hafi náð, en hér verður sem að jafnaði í dómsmálum um mörk eignarlanda
og þjóðlendna að leggja til grundvallar að svæði sem þetta hafi verið grónari
við landnám en nú er. Hæð lands yfir sjávarmáli og staðhættir að öðru leyti á
ýmsum hlutum Selvogs- og Ölfusafréttar eru ekki slíkir að útilokað sé að land
þar hafi verið numið. Að því verður á hinn bóginn að gæta að talið hefur verið
að um árið 1000 hafi Svínahraun, sem að mestum hluta er innan afréttarins,
runnið úr Eldborg undir Lambafelli, en heildarflatarmál hraunsins mun vera yfir
15 km2. Til þess er og að líta að í gögnum málsins eru engar
heimildir um minjar um byggð á þessu landsvæði eða varanlega búsetu þar fyrir
þann tíma, sem búskapur mun hafa verið tekinn upp á Kolviðarhóli árið 1883 í
tengslum við gæslu sæluhúss. Þá liggur og fyrir að 14. desember 1893 gaf
amtmaðurinn yfir suður- og vesturamti út nýbýlisbréf handa nafngreindum manni
„fyrir landi undir Reykjafelli á afrjetti Ölvesinga“ sem kennt var síðar við
Kolviðarhól, en sú ráðstöfun, sem sótti stoð í tilskipun 15. apríl 1776 um
fríheit fyrir þá, sem vilja upp taka eyði-jarðir eða óbyggð pláz á Íslandi, var
gerð gegn andmælum Ölfushrepps. Að þessu frágengnu eru ekki heimildir í málinu
um að land þetta hafi fram á 20. öld verið haft til annars en upprekstrar og
hefðbundinna afréttarnota undir umsjón sveitarfélaga eins og almennt er um
landsvæði sem þetta. Hafi beinn eignarréttur stofnast í öndverðu með námi þessa
lands verður ekki krafist að sýnt sé fram á hvernig sá réttur hafi haldist við,
heldur aðeins að hann hafi gert það í raun, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar
29. október 2009 í máli nr. 685/2008. Framangreind atriði veita því enga stoð
að beinn eignarréttur, sem gæti hafa við landnám stofnast yfir þessu landi,
hafi færst til áfrýjanda eða annarra, heldur aðeins afnotaréttindi, sem fylgja
jörðum á afrétti. Áfrýjandi hefur engu borið við svo að haldbært sé til
stuðnings því að hann hafi haft slík yfirráð yfir afréttinum að til álita gæti
komið að hann hafi fyrir hefð unnið beinan eignarrétt yfir landinu í heild.
Samkvæmt þessu öllu verður aðalkröfu áfrýjanda hafnað.
III
Varakrafa áfrýjanda tekur sem fyrr segir til þess að viðurkennt verði að
hann njóti beins eignarréttar að níu nánar tilgreindum landskikum innan
Selvogs- og Ölfusafréttar og verði úrskurður óbyggðanefndar ógiltur að því
leyti, sem hann valdi því að landskikar þessir teljist innan þjóðlendu. Í
þremur tilvikum er um að ræða land, sem nýtt hefur verið til malarnáms, í fimm
tilvikum lóðir, þar sem reistir hafa verið skálar, einkum að því er virðist til
afnota fyrir skíðamenn, og í einu tilviki lóð, sem nýtt hefur verið undir
söluskála og veitingastað. Þessi krafa áfrýjanda er reist á því að hann hafi
öðlast eignarrétt að þessum landskikum fyrir hefð, en í kröfugerð hans eru þeir
sem áður segir afmarkaðir með hnitum og hafa á grundvelli þess verið færðir inn
á sérstakan uppdrátt. Líta verður svo á að í málatilbúnaði áfrýjanda sé í engu
þessara níu tilvika haldið fram að hann hafi á hefðartíma nýtt í eigin þágu
landið, sem hér um ræðir, heldur hafi hann unnið eignarhefð í skjóli þess að
hafa látið öðrum eftir að fara með umráð þess gegn endurgjaldi. Fallast má á
með áfrýjanda að yfirráð af þessum toga geti talist eignarráð yfir fasteign í
skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, en til þess að eignarréttur
geti á þessum grundvelli unnist fyrir hefð verður í senn að vera fullnægt því
að þeir, sem hafa haft not af landinu, hafi samkvæmt sama lagaákvæði farið með
þau umráð óslitið í minnst 20 ár fyrir gildistöku laga nr. 58/1998, sbr. 8.
mgr. 3. gr. þeirra laga, og gert það, þannig að öðrum sé sýnilegt, í skjóli
áfrýjanda, sem taki jafnframt virkan þátt í umráðum eða afnotum.
Námusvæðin þrjú, sem að framan getur, kennir áfrýjandi við Bolöldu, sem í
ýmsum gögnum málsins er nefnd Bolaalda, svo og Jósepsdal og Lambafell. Varðandi
fyrstnefnda svæðið, sem áfrýjandi kveður vera um 103 ha að flatarmáli, hefur
verið lagt fram bréf frá 6. maí 1993, þar sem Völur hf. staðfesti að félagið
hafi „haft afnot af landi til efnistöku í Bolöldum norðan Vífilsfells, frá og
með árinu 1974. Völur hf. hefur lengst af greitt fyrir efnistökuna til Samtaka
vörubílstjóra í Ölfusi, en nú síðustu ár beint til skrifstofu Ölfushrepps.“
Ekki verður séð að fyrir liggi í málinu gögn um fyrri not af þessu námusvæði
eða nánari lýsing á þeim afnotum, sem um ræddi í þessu bréfi, hvorki að því er
varðar afmörkun landsins, sem þau tóku til, umfang notanna eða á hvaða grunni
þau hafi komið til, en að því verður að gæta að tekið var sem fyrr segir fram í
bréfinu að gjald fyrir afnotin hafi mestan hluta tímans frá 1974 til 1993 verið
greitt öðrum en Ölfushreppi, sem áfrýjandi er kominn í stað fyrir. Að öðru
leyti en þessu virðast framlögð gögn um notkun þessarar námu öll snúa að
tímabili, sem hefst árið 1995, og geta þau þegar af þeirri ástæðu ekki komið
til álita sem stoð fyrir varakröfu áfrýjanda varðandi þetta námusvæði. Um
námusvæði í Jósepsdal, sem áfrýjandi kveður vera um 7,5 ha að stærð, virðist
ekkert annað liggja fyrir í málinu en bréf 9. mars 1965, þar sem tveir menn
óskuðu eftir að taka á leigu svokallaða brunanámu „hægra megin við skarðið
þegar ekið er upp í Jósepsdal.“ Ekkert er fram komið um hvernig þessu erindi
hafi verið svarað, hvernig þetta svæði kunni að hafa verið nýtt eða hver hafi
veitt heimild til þess. Um þriðja svæðið, sem áfrýjandi nefnir Lambafellsnámu
norðaustan í Lambafelli og kveður vera um 6 ha að stærð, er þess að gæta að af
gögnum málsins verður ráðið að hreppsnefnd Ölfushrepps hafi 5. ágúst 1968 veitt
heimild til efnistöku í námunda við Lambafell, en þó að virðist á öðrum stað en
fyrrnefnd náma er nú. Um notkun hennar eru engin gögn í málinu, sem varða
tímabil fyrir árið 1999. Er því eins farið um kröfu áfrýjanda varðandi þetta
námusvæði og það, sem fyrst var hér nefnt. Þegar af þessum ástæðum verður
varakröfu áfrýjanda hafnað varðandi þessi þrjú landsvæði.
Sem áður segir snýr varakrafa áfrýjanda jafnframt að fimm lóðum á Selvogs-
og Ölfusafrétti, þar sem reistir munu hafa verið skálar. Þar er fyrst að nefna
lóð, sem áfrýjandi hefur kennt við Æskulýðsfylkinguna og sagt vera um 1 ha að
stærð. Um þá lóð liggur fyrir að hreppsnefnd Ölfushrepps samþykkti 14. október
1947 að verða við beiðni Æskulýðsfylkingarinnar frá 7. sama mánaðar um leyfi
til að reisa skíðaskála vestan við Svínahraun og áskildi sér um leið árlega
greiðslu á 100 krónum. Í gögnum málsins verður ekkert frekar séð varðandi
þennan skála fram að því að sveitarfélagið gerði 15. ágúst 1982 leigusamning
til tíu ára við Alþýðubandalagið um 2.000 m2 lóð „fyrir sunnan
þjóðveg í Svínahrauni“ og var þar tekið fram að á henni væru „gömul mannvirki
sem ekki finnst eigandi að í þinglýsingarbókum“, svo og að byggingarleyfi yrði
ekki veitt fyrir nýjum mannvirkjum fyrr en þau gömlu yrðu fjarlægð. Þessum
samningi var þinglýst 31. ágúst 1982, en um notkun lóðarinnar frá þeim tíma
liggur ekkert fyrir. Í öðru lagi er um að ræða lóð í Innstadal, en áfrýjandi
kveður hana vera um 1 ha að stærð og standi á henni skáli, sem kallist Hreysið.
Hreppsnefnd Ölfushrepps samþykkti 6. júní 1944 að heimila byggingu lítils skála
á þessum stað og gerði af því tilefni leigusamning 14. maí 1945 til 50 ára við
nafngreindan mann. Annar samningur var síðan gerður um leigu á þessari lóð 15.
mars 1983, þar sem hún er sögð vera 1.000 m2 að stærð. Hvorki
virðist þessum samningum né yngri heimildarskjölum um þessa eign hafa verið
þinglýst. Í þriðja lagi snýr þessi þáttur í varakröfu áfrýjanda að lóð undir
svokallaðan Ármannsskála, sem hann segir vera um 1 ha að stærð. Ekki verður séð
að nein gögn liggi fyrir í málinu um þann skála eða lóðina. Í fjórða lagi er í
varakröfu áfrýjanda rætt um 1 ha lóð undir mannvirki, sem kallist
Skæruliðaskálinn. Af framlögum gögnum má ráða að þessi skáli hafi verið reistur
að undangenginni beiðni tveggja manna 1. júní 1946 um að fá að byggja
skíðaskála við Ólafsskarð, sem hreppsnefnd Ölfushrepps samþykkti 28. júlí sama
ár að veita leyfi fyrir til 25 ára gegn greiðslu 100 króna ársleigu, en um
þetta liggur ekkert frekar fyrir í málinu. Í fimmta lagi er í varakröfu
áfrýjanda rætt um skála við Dverghamar, sem standi á um 1 ha lóð. Í gögnum
málsins er bréfleg beiðni fjögurra manna 28. maí 1946 um „leyfi til að byggja
skíðaskála á milli Sauðadalshnúka“, sem hreppsnefnd Ölfushrepps virðist hafi
orðið við. Hreppsnefndin samþykkti síðan 21. nóvember 1961 að leyfa tveimur
öðrum mönnum að reisa skála á þessum stað með áskilnaði um að gerður yrði
leigusamningur til 20 ára og greiddar 300 krónur í ársleigu, en þar mun hafa
verið um endurbyggingu á eldri skála að ræða. Hvorki liggur fyrir slíkur
leigusamningur né önnur gögn um þetta efni. Af framansögðu er ljóst að sammerkt
er þessum tilvikum, að frátöldum svokölluðum Ármannsskála sem engin gögn eru
lögð fram um, að þeir, sem áttu hlut að máli, leituðu til sveitarstjórnar um
heimild til að byggja skála án þess að ræða um leigu á landi. Skriflegir
samningar um lóðarleigu virðast á hinn bóginn aðeins hafa verið gerðir í þremur
tilvikum, á árunum 1945, 1982 og 1983, og var eingöngu þeim frá 1982 þinglýst.
Með því hefði öðrum fyrst mátt verða kunnugt að sýnileg merki um eignarráð, sem
mannvirki á þessari einu lóð kunna að hafa borið með sér, væru tengd því að
sveitarfélagið teldi sig ráða yfir henni sem landeigandi væri. Þegar lög nr.
58/1998 tóku gildi 1. júlí á því ári voru ekki liðin 20 ár frá þinglýsingu
þessa lóðarleigusamnings, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905. Þegar af
framangreindum ástæðum verður varakröfu áfrýjanda hafnað vegna allra þessara
fimm lóða.
Loks lýtur varakrafa áfrýjanda að lóð, sem hann kveður vera um 2,5 ha að
stærð, þar sem standi söluskáli og veitingastaður með heitinu
Litla-Kaffistofan. Í málinu liggur fyrir að hreppsnefnd Ölfushrepps varð 12.
maí 1960 við beiðni Ólínu Sigvaldadóttur um „leyfi til að setja upp
veitingastofu í Svínahrauni“ og gerði hún síðan samning 15. janúar 1963 við
sveitarfélagið um að leigja til 10 ára 400 m2 lóð undir kaffistofu,
sem þegar hafi verið reist. Þá liggur og fyrir bréf til hreppsnefndarinnar 8.
september 1982 frá eigendum veitingastofunnar, þar sem óskað var eftir
framlengingu lóðarleigusamnings ásamt því að hann tæki til stærri lóðar en áður
vegna fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar. Samningur á grundvelli þessa bréfs hefur
ekki verið lagður fram. Á hinn bóginn verður ráðið af yfirliti um þinglýstar
heimildir varðandi þessa eign að lóðarleigusamningur hafi verið gerður vegna
hennar 1. desember 1982, en honum hafi ekki verið þinglýst fyrr en 26. nóvember
1991 og hann þá orðið fyrsta þinglýsta heimildin um hana. Þegar af þeim
ástæðum, sem áður voru raktar varðandi fimm lóðir undir skála, verður þessum
þætti í varakröfu áfrýjanda einnig hafnað.
Í málinu hefur áfrýjandi sem áður segir gert þá kröfu til þrautavara að
viðurkenndur verði einkaréttur sinn til nýtingar á auðlindum í jörðu án
endurgjalds á þeim landskikum, sem varakrafa hans tekur til. Í málatilbúnaði
áfrýjanda er þessi krafa sögð vera reist á „sömu sjónarmiðum og varakrafa“, en
jafnframt vísar hann til ákvæða 5. gr. laga nr. 58/1998 og „reglna um stofnun
ítaka“. Um þessa kröfu verður að gæta að því að áfrýjandi hefur ekki haldið því
fram að hann hafi nýtt auðlindir í jörðu innan þeirra sex lóða, sem varakrafa
hans tekur til, og verður því að ætla að þrautavarakrafan taki aðeins til
námusvæðanna þriggja, sem um ræðir í varakröfunni. Af þeim ástæðum, sem leiddu
samkvæmt áðursögðu til þeirrar niðurstöðu að varakröfu áfrýjanda var hafnað
varðandi þessi námusvæði, eru heldur ekki efni til að verða við þrautavarakröfu
hans með tilliti til þeirra.
Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður niðurstaða héraðsdóms staðfest
með því að kveða á um sýknu stefnda af kröfum áfrýjanda og standa þá óröskuð
ákvæði dómsins um málskostnað og gjafsóknarkostnað. Eftir úrslitum málsins
verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, en
jafnframt ber að greiða gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi úr
ríkissjóði, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum áfrýjanda, Sveitarfélagsins
Ölfuss.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr
ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 27. janúar
2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember sl., er höfðað með
stefnu birtri 21. desember 2006.
Stefnandi er Sveitarfélagið Ölfus, kt. 420369-7009,
Hafnarbergi 1, Þorlákshöfn.
Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er
fjármálaráðherra stefnt.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að felldur verði
úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 31. maí 2006 í
máli nr. 6/2004, þess efnis að Selvogs- og
Ölfusafréttur sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:
„Það er því niðurstaða óbyggðanefndar, sbr. einnig
umfjöllun í almennum niðurstöðum nefndarinnar, að landsvæði það sem nefnt er
Ölfusafréttur og Selvogsafréttur, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist
þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig
a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:
Úr Fálkakletti í Geitafelli í
Kálfahvamm og þaðan í Litla-Kóngsfell. Frá Litla-Kóngsfelli til austurs í
Bláfjallahorn og eftir hæstu tindum Bláfjalla í stöpul á Vífilsfelli. Þaðan í
stefnu í Sýslustein austan Lyklafells, áfram í Sýsluþúfu og í stöpul á
Borgarhólnum. Þá til suðausturs í Vörðuskeggja og þaðan í punkt við
Hengilssyllur og síðan í rauðleitan Melhnjúk fyrir framan Kýrgilshnjúka. Frá
þeim punkti verður línan dregin beint í hæsta hnjúk á Reykjafelli. Þaðan í
vörðu á Skarðsmýrarfjalli, þaðan beint í Sleggju, þaðan beina stefnu yfir
Húsmúlann í Miðmúlahornið, þaðan í vörðu er ber í Lambafellsháls og úr þeirri
vörðu beint í fyrrgreindan hnjúk á Reykjafelli. Frá þeim punkti er línan dregin
beint í Lambafell, þaðan í Rauðhól og í vörðu norðaustan til á há-Geitafellinu
og loks í fyrrgreindan Fálkaklett.“
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að ofangreint landssvæði sé háð
beinum eignarrétti stefnanda.
Til vara er þess krafist að neðangreind hefðbundin námasvæði og land sem stefnandi hefur leigt frá sér á Ölfusafrétti,
séu ekki þjóðlenda, heldur eignarland stefnanda og úrskurður óbyggðanefndar
felldur úr gildi að því er þau varðar:
1.
Námusvæði í Bolöldu, ca 103 ha, innan
eftirgreindra hnitsettra merkja, frá sveitarfélagamörkum gagnvart Kópavogi úr p.20 (A-hnit 376179.037, N-hnit
396965.135) réttsælis umhverfis námasvæðið um punkta 21, (A-hnit 376333.358), N-hnit 397044.817) í p.22, (A-hnit 376614.234, N-hnit
397043.663) í p.23, (A-hnit
376928.947, N-hnit 396257.216) í p.24, (A-hnit
377118.681, N-hnit 395889.617) í p.25, (A-hnit
376851.399, N-hnit 395725.293) í p.26, (A-hnit
376.243, N-hnit 395757.069) í p.27, (A-hnit
376371.986, N-hnit 395994.667) í p.28, (A-hnit
376288.975, N-hnit 396056.492) í p.29, (A-hnit
375822.842, N-hnit 396123) í p.30 (A-hnit
375819.222, N-hnit 396424.189) og svo þaðan eftir mörkum við Kópavog í p.20.
2.
Lóð Litlu-Kaffistofunnar ca 2,5
ha innan eftirgreindra hnitsettra merkja, úr p.31 (A-hnit 377308.916, N-hnit 397697.148) í p.32 (A-hnit 377307.002, N-hnit
397566.968) í p.33 (A-hnit
377113.574, N-hnit 397570.797) í p.34 (A-hnit
377103.999, N-hnit 397693.319).
3.
Náma í Jósepsdal, ca 7,5
ha, innan eftirgreindra hnitsettra merkja, úr p.40 (A-hnit 377357.857, N-hnit 396743.450) í p.41 (A-hnit 377631.232, N-hnit
396470.075) í p.42 (A-hnit
377631.232, N-hnit 396470.075) í p.43 (A-hnit
377357.857, N-hnit 396470.075).
4.
Lóð Æskulýðsfylkingarinnar ca 1 ha, úr p.44 (A-hnit 378073.157, N-hnit
396172.457) í p.45 (A-hnit
378173.157, N-hnit 396172.457) í p.47 (A-hnit
378173.157, N-hnit 396072.457) í p.46 (A-hnit
378073.157, N-hnit 396072.457).
5.
Lambafellsnáma, norðaustan í Lambafelli,
ca 6 ha úr p.1 (A-hnit
379789.997, N-hnit 393247.152) í p.2 (A-hnit
380049.618, N-hnit 393267.395) í p.3 (A-hnit
380076.684, N-hnit 393088.088) í p.4 (A-hnit
379753.188, N-hnit 393012.763).
6.
Hreysið, lóð undir skála í Innsta-Dal ca 1 ha
úr p.60 (A-hnit 386680.051,
N-hnit 369905.633) í p.61 (A-hnit
386780.051, N-hnit 396905.633) í p.62 (A-hnit
386780.051, N-hnit 396805.633) í p.63 (A-hnit
386680.051, N-hnit 396805.633).
7.
Ármannsskáli, lóð undir skála, ca 1 ha
úr p.56 (A-hnit 375361.816,
N-hnit 393922.019) í p.57 (A-hnit
375461.816, N-hnit 393922.019) í p.59 (A-hnit
375461.816, N-hnit 393822.019) í p.58 (A-hnit
375361.816, N-hnit 393822.019).
8.
Skæruliðaskálinn, lóð undir skála, ca 1 ha,
úr p.52 (A-hnit 375962.137,
N-hnit 393730.457) í p.53 (A-hnit
376062.137, N-hnit 393730.457) í p.55 (A-hnit
376062.137, N-hnit 393630.457) í p.54 (A-hnit
375962.137, N-hnit 393630.457).
9.
Dverghamar, lóð undir skála, ca 1 ha,
úr p.48 (A-hnit 376581.355,
N-hnit 394366.342) í p.49 (A-hnit
376681.355, N-hnit 394366.342) í p.51 (A-hnit
376681.355, N-hnit 394266.342) í p.50 (A-hnit
376581.355, N-hnit 394266.342).
Til þrautvara er þess krafist að viðurkennt verði að stefnandi eigi
einkarétt til nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á landi því sem í
varakröfu greinir, þ.e. Bolöldu, Jósepsdal, Lambafelli og þeirra lóða sem
stefnandi hefur leigt frá sér, innan ofangreindra tilgreindra merkja, þó landið
teljist þjóðlenda.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og
málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn í máli þessu með
bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 24. apríl 2007.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af
öllum kröfum stefnanda og honum verði gert að greiða stefnda málskostnað að
mati dómsins.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að með úrskurði óbyggðanefndar frá
31. maí 2006 í máli nr. 6/2007 var komist að þeirri niðurstöðu
að Selvogs- og Öfusafréttur væri þjóðlenda. Stefnandi bendir á að landsvæði þetta sé allt innan landnámsmarka
ef marka má lýsingu í Landnámu á landnámi Ingólfs Arnarsonar. Vestasti
hluti Ölfusafréttarins einkennist af miklum hraunum
sem setji mikinn svip á landslagið. Sjávarströndin sé gamalt hraun sem nefnt hafi verið Leitahraun og þeki það land suðvestast
í Ölfusinu. Þar þrífist aðeins melgras, en ofar sé samfelld hálendisbrún sem byrji um 50 m yfir sjó og rísi sums staðar snarbrött upp
í 300 m yfir sjó. Mikið beri á fjöllum á afréttinum, t.d.
Skarðsmýrarfjall, hluti af Lambafelli, Litla-Reykjafell, hluti af Stóra-Reykjafelli,
hluti af Vífilsfelli, Blákollur o.fl. Í aldanna rás hafi
fjölfarnar leiðir legið frá Suðurlandsundirlendinu um Ölfusafrétt til
Faxaflóasvæðisins. Stefnandi segir Ölfusafrétt vera
í eigu Ölfushrepps samkvæmt elstu heimildum.
Selvogsafréttur liggi upp af byggðinni þar sem
við taki Heiðin há, Bláfjöll og Geitarfell, en þessi fjöll tilheyri
Selvogsafrétti. Landið sé gróið heiðar- og lynggróðri
nema hæsti hluti afréttarins, Bláfjallasvæðið og efsti hluti af Heiðinni há,
séu lítið gróin. Þá sé mosavaxin hraunbreiða sem
runnið hafi úr Brennisteinsfjöllum alla leið í sjó fram. Hafi Selvogsafréttur
verið í eigu Selvogshrepps hins forna m.a. samkvæmt
ómunahefð, en eftir sameiningu Selvogshrepps við Ölfushrepp árið 1988 hafi
afrétturinn orðið eign Ölfushrepps.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir eignarréttarkröfu sína fyrst og fremst á hefð og venju en landamerki Selvogs- og
Ölfusafrétta séu aldagömul og bendi til þess að fullkominn eignarréttur
hreppanna hafi verið virtur á þessu landi frá ómunatíð. Sé úrskurður
óbyggðanefndar því rangur og brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála
Evrópuráðsins. Hafi eignarréttur stefnanda verið virtur af
öllum, m.a. af stefnda, frá ómunatíð sem m.a. hafi lýst sér í því að stefnandi
hafi getað bannað öðrum not eignarinnar. Hafi eignarréttur stefnanda verið
virtur í öllum viðskiptum varðandi landsnytjar á afréttunum, m.a.
við leigu námuréttinda og leigu lands undir mannvirki og byggi eignarhaldið
ennfremur á viðskiptavenju.
Þá bendir stefnandi á dóma
mannréttindadómstólsins um réttmætar væntingar aðila til eignarréttar sem byggist m.a á því að ríkisvaldið hafi verið athöfnum eða
athafnaleysi viðurkennt eignarréttinn, t.d. með því að þinglýsa eignaskjölum
athugasemdalaust um áratugaskeið. Stefnandi segir gildi þessara gagna eiga sér
örugga stoð í venjurétti og vísar í því sambandi til
athugasemda í frumvarpi við 5. gr. þjóðlendulaga. Hafi
ríkisvaldið nokkru sinni getað haft uppi vefengingarkröfu á hendur eigendum
Selvogs- og Ölfusafréttar, sé ljóst að hún sé niður
fallin vegna fyrningar og tómlætis. Í ljósi þeirra gjörninga sem
liggi fyrir um ráðstöfun landsins heldur stefnandi því fram að hann hafi fært
fram nægar heimildir fyrir eignartilkalli sínu og beri stefnda því að sanna að
landsvæðið sé þjóðlenda. Stefnandi vísar einnig til fyrri úrskurða nefndarinnar
þar sem það hafi verið talið skipta máli hvort land
teldist innan upphaflegs landsnáms og hvort með það hefði verið farið sem
eignarland samkvæmt elstu heimildum.
Stefnandi vísar til þess að landamerkjabréf
Selvogs- og Ölfusafrétta séu þinglesin, færð í
landamerkjabók og á þeim byggt síðan um merki Ölfusafrétta og aðliggjandi jarða
og sveitarfélaga. Ekkert komi fram í kröfugerð stefnda sem
bendi til annars en að allt land innan svæðisins hafi verið nýtt sem fullkomið
eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Hafi eigendur um
langt skeið gengið út frá því að merkjum væri rétt lýst og
eigendur grannjarða virt og viðurkennt merkin.
Stefnandi vísar til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga
og stjórnarskrár um að sambærileg mál hljóti sömu
niðurstöðu og að jafnræði ríki milli borgaranna. Ekki verði gerð ríkari
sönnunarkrafa á hendur stefnanda en til annarra landeigenda í landinu þar sem skýrar landnámslýsingar liggi fyrir. Með
vísan til landamerkjalaganna nr. 5/1882 og
síðan nr. 41/1919 og tilgangs þeirra er á því byggt að
landamerkjabréf afréttanna bendi til þess að um sé að ræða landsvæði sem háð sé
beinum eignarrétti. Hafi landamerkjalýsingar þær sem
gerðar hafi verið í kjölfar landamerkjalaganna 1882 verið víða byggðar á eldri
heimildum svo sem lögfestum máldögum og eldri landamerkjabréfum. Svo eigi
einnig við um Selvogs- og Ölfusafrétt og á því byggt
að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt landsvæði
sé eignarland en ekki þjóðlenda. Byggir stefnandi á því að úr því hefðarlög
heimili eignarhefð lands sem sé í opinberri eigu,
hljóti þeim mun fremur að vera unnt að hefða land sem ekki sé eignarrétti háð.
Stefnandi byggir á því að
stefndi hafi í greinargerð til óbyggðanefndar viðurkennt að landsvæði þetta
hefði verið numið í öndverðu en beinn eignarréttur væri fallinn niður.
Stefnandi mótmælir þessu og bendir á að á grundvelli
landamerkjalýsinga og samninga hafi beinum eignarrétti verið haldið við á svæðinu.
Útilokað sé að fullyrða um rétta afmörkun og órofa
yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi til dagsins í dag en eðlilegt að
stefndi beri hallann af vafa í þeim efnum.
Stefnandi bendir á að umrætt
landsvæði hafi verið mun grónara við landnám, eða upp í 600-700 metra hæð.
Ráði því atriði eins og staðhættir, víðátta og
gróðurfar ekki úrslitum þegar eignarréttur á svæðinu sé metinn. Geti notkun
lands gefið vísbendingar um hvort land sé eignarland eða ekki, t.d. geti mjög stór hluti lands á láglendi ekki verið í
neinum heilsársnotum af skiljanlegum ástæðum. Heimildir séu
til um að landið hafi um langan tíma verið nytjað allt árið, sbr. heimildir um beit, veglagningu, skálabyggingar, námu- og
jarðhitavinnslu. Mestu skipti þó að stefnandi hafi getað bannað
öðrum not landsins, sbr. samninga um námur og
skála á svæðinu.
Með vísan til athugasemda við frumvarpið sem orðið hafi að lögum nr. 58/1998 sé ljóst að það hafi
ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt
skeið með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá
landnámi og láta þá bera hallann af vafa í þeim efnum. Verði þjóðlendulögin því
ekki skýrð þannig að stefnandi sem þinglýstur eigandi
svæðisins, þurfi að sýna frekar fram á en hann hefur gert með framlagningu
eignarheimilda að umrætt landsvæði sé eignarland og þar með utan þjóðlendu. Hafi
eigendur svæðisins í ljósi eignarheimilda sinna og
viðurkenningu ríkisvaldsins á þeim í reynd, lengi haft réttmætar ástæður til að
vænta þess að afréttirnir séu beinum eignarrétti háðir og verði þessi
eignarréttur ekki af þeim tekinn bótalaust.
Stefnandi segir ekki
ágreining við stefnda um merki afréttanna.
Stefnandi bendir á að um áraraðir hafi öll
möguleg landgæði afréttanna verið nýtt af stefnanda og
hafi samþykki hans alltaf þurft til að nýta auðlindir innan afréttar. Stefnandi
tekur sem dæmi að Bolöldunáma sé leigð út af
Ölfushreppi og þá standi Litla-Kaffistofan á leigulóð frá hreppnum sem hafi
leigutekjur af landinu. Hafi leigusamningi verið þinglýst án
athugasemda. Sæluhús hafi löngum verið á svæðinu og
allar framkvæmdir við þau verið háðar leyfi Ölfushrepps. Skattar og lögboðin gjöld hafi verið greidd af öllu landinu og
eignarnámsbætur til þeirra eigenda á svæðinu vegna línustæða og vegalagningar.
Varakrafa stefnanda byggir á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa, þ.e. fullnaðri hefð. Sé ljóst að umráðataka
stefnanda á þeim landsvæðum er í varakröfu greini sé fullkomin og hafi hún varað í fullan hefðartíma. Hafi stefnandi nýtt
umrætt landsvæði frá upphafi og hafi aldrei verið
nokkur vafi um að hann væri til þess bær. Byggir stefnandi á því að frá því
menn tóku að nýta sér auðlindir á svæðinu hafi réttindum er þeim tengjast ekki
verið ráðstafað án samþykkis og afskipta stefnanda. Vísar stefnandi til fjölmargra samninga þar að lútandi allt frá
árinu 1967. Hafi stefnandi því um 40 ára skeið haft tekjur af hagnýtingu auðlinda á svæðinu, en með auðlindum sé átt
við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna megi úr jörðu. Í 3. gr. laga nr. 57/1998 um
rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé gert ráð
fyrir að í þjóðlendu séu auðlindir eign íslenska ríkisins nema aðrir geti
sannað eignarrétt sinn til þeirra.
Stefnandi byggir á því að hefð sé eignarheimild
að íslenskum rétti og felist í umráðum sem varað hafi
vissan tíma og verði að uppfylla tiltekin skilyrði. Sé hefð
skyld námi að því leyti að taka umráða sé nauðsynlegt skilyrði hefðar. Skilyrðin
séu fyrst og fremst virk yfirráð eignar, bein
hagnýting án löggerninga, ráðstafanir að lögum, viðhorf hefðanda og annarra
aðila. Verði því að telja skilyrði hefðarlaga um óslitið hefðarhald fullnægt
eins og mál þetta liggi fyrir. Samkvæmt
3. mgr. 2. gr. laganna
verði sá sem vefengir hefð að sýna fram á að skuldbindingar af umræddu tagi
hafi verið fyrir hendi. Komi fram sönnun um skuldbindingu sé
það á hinn bóginn hefðanda að sýna fram á að skuldbindingin hafi einhvern tíma
fallið niður. Stefnandi vísar einnig til samninga
Orkuveitu Reykjavíkur við landeigendur um kaup á landi á Hellisheiði.
Þrautavarakrafa stefnanda er byggð á sömu
sjónarmiðum og varakrafa og bent er á að samkvæmt 5. gr. þjóðlendulaga sé beinlínis gert ráð fyrir því að þeir
sem nýtt hafi land innan þjóðlendu skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði
laga þar um. Byggir stefnandi á því að útleiga lands séu réttindi sem séu með þeim hætti. Stefnandi vísar einnig til reglna um
stofnun ítaka þar sem rætt sé um að háttsemi aðila eða
þegjandi samþykki geti orðið til þess að ítaksréttur stofnist. Hafi stefnandi um
áratugaskeið notið auðlinda á umræddu landsvæði og
leigt lóðir undir skála án nokkurra athugasemda í fullan hefðartíma.
Stefnandi hefur uppi þau
mótmæli við úrskurð óbyggðanefndar að samkvæmt 1.
gr. þjóðlendulaga séu þjóðlendur utan eignarlanda, en
eignarland sé skilgreint sem landsvæði sem háð sé einkaeignarrétti þannig að
eigandinn fari með öll eignarráð þess. Stefnandi telur sig hafa þinglýsta
eignarheimild fyrir þessu landsvæði og verði því að
leggja sönnunarbyrðina á stefnda um tilvist þjóðlendu innan landamerkja
þrætusvæðanna. Stefnandi segir óumdeilt að þrætusvæðið sé innan upphaflegs
landnáms og hafi afréttarlönd þessi því sérstöðu miðað
við afrétti á miðhálendinu. Það sé stefnda að sýna fram á að beinn eignarréttur
á landinu hafi fallið niður og sé sú sönnunarregla
eðlileg með tilliti til þess að stefnandi hafi lagt fram þinglýst
landamerkjabréf fyrir landinu og margvísleg gögn sem sýni fram á að innan
þessara merkja hafi eignarréttur stefnanda verið virtur af öllum aðilum. Sú
óhóflega sönnunarbyrði sem nefndin leggi á stefnanda
með því að krefjast sannana um framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi
standist hvorki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála
Evrópuráðsins.
Stefnandi bendir á að í almennum
forsendum úrskurðarins hafi óbyggðanefnd fjallað um hefð og þýðingu hennar við
úrlausn þjóðlendumála. Hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að hefð sé eitt
dæmi um frumstofnun eignarréttar. Þá segi nefndin að við mat á því hvort tekist
hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það sé innan eða
utan landamerkja jarðar og skipti gildistaka hefðarlaga 1905 máli og hljóti að
styrkja eignartilkall í slíkum tilvikum. Skilyrði fyrir því að eignarhefð verði
unnin á landsvæði utan landamerkja jarðar séu hins vegar talin þröng, þó slíkt
sé ekki talið útilokað. Stefnandi fær ekki séð hvers vegna þessi sjónarmið
nefndarinnar eigi ekki við um þrætusvæðið. Landið sé innan þinglýstra
landamerkja og háð einkanýtingarrétti stefnanda. Landið sé ekki á miðhálendi
Íslands og fari stefndi út fyrir umboð sitt þegar hann geri þjóðlendukröfu í
svæðið. Bændur í sveitarfélaginu eigi hefðbundinn upprekstrarrétt en enginn
nema eigandinn og þeir sem leyfi hafi fengið hjá honum geti nytjað landið til
beitar, jarðefnavinnslu, landleigu eða annars. Byggist niðurstaða nefndarinnar
alfarið á því að beinn eignarréttur hafi fallið niður, samhengi eignarréttar og
sögu liggi ekki fyrir. Þessi niðurstaða sé röng með vísan til framanritaðs og
telur stefnandi að nefndin hafi metið sönnunargögn málsins ranglega og lagt
óhóflega sönnunarbyrði á stefnanda sem ekki fái staðist jafnræðisreglu
stjórnarskrárinnar.
Stefnandi vísar um lagarök
til 72. gr. stjórnarskrárinnar,
sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka við
mannréttindasáttmálann, sbr. lög nr. 62/1994. Vísað er til þjóðlendulaga nr.
58/1998 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Einnig er vísað til námulaga nr. 24/1973 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og
nýtingu á auðlindum í jörðu. Byggt er á meginreglum eignarréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennum reglum samninga- og
kröfuréttar. Þá er byggt á hefðarlögum nr. 14/1905 og vísað til almennra reglna um venjurétt, meginreglna um
traustfang og traustnám og reglna um tómlæti.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi gerir niðurstöðu óbyggðanefndar að sinni til stuðnings sýknukröfu
og bendir á að í kjölfar setningar landamerkjalaga 1882 og 1919 hafi hvorki
verið gert heildstætt landamerkjabréf fyrir Ölfusafrétt né Selvogsafrétt en
hins vegar hefðu verið gerð landamerkjabréf fyrir hluta af mörkum afréttanna. Hafi
landamerkjabréf ekki verið talin skera úr um eignarrétt og
skorti því lágmarksvísbendingar um beinan eignarrétt. Mörkum
afrétta hafi ekki verið lýst í reglugerðum um fjallskil eða notkun afrétta.
Eina heildstæða lýsingin á mörkum Selvogsafréttar sé í lýsingu
oddvita Selvogshrepps frá 19. apríl 1979 en hún
sé þess efnis að ekki séu nein ákveðin merki milli afréttarlanda Selvogsbænda
og heimalanda þeirra. Gagnvart öðrum sveitum væru landamerki afréttar- og heimalanda Selvogshrepps svohljóðandi: „Takmörk sveitarinnar eru að vestan: úr
Seljabótarnefi um Sýslustein austan Geitarhlíðar, þaðan fjöll norður í
Litla-Kóngsfell, þaðan í Stóra-Kóngsfell um Rauðuhnúka í topp Vífilsfells, sem
er norðasti markapunktur afréttarins. Að austan: úr Þrívörðum vestan
Keflavíkur, þaðan í Fálkaklett í Geitafelli, síðan yfir austanvert Geitafell um
Rauðhól í Ólafsskarðshnúk, þaðan í topp Vífilsfells. “
Fyrir liggi lýsing hreppstjóra Ölfushrepps frá 28. febrúar 1920 um
almenninga og afréttarlönd í Árnessýslu og segir svo í henni: „Um almenninga aðra enn það sem talið er að
vera afrjettarland hreppsins er hjer enga að ræða enn afrjettarland þetta er og
hefur að fornu verið norðvesturbrúnir Hellisheiðar, það er að segja Hengillinn
og dalirnir í kríngum hann þá til suðvesturs Skarðsmýrarfjall, Reykjafell,
Sauðadalahnjúkar um Lambafell og þaðan lína vestur í afrjettarmörk
Selvogsmanna. Sunnan og austan að línu þessari lyggja
búfjarlönd margra Jarða í sveitinni. Hinsvegar og norður og vestur frá fellum
þessum er hinn eiginlegi afrjettur svo sem Bolavellir Svínahraun Norðurvellir
og suðausturtaglið á Mosfellsheiði alla leið niður að sýslumörkum að vestan og
afrjettarmörkum Grafningsmanna að norðan enn sýslumörkin það er mörkin milli
Árnessýslu að austan og Gullbríngusýslu að vestan lyggja eptir línu sem dregin
er úr Vífilfelli um Bolaöldu norður í Borgarhól á Mosfellsheiði. Munu að þeim
mörkum að vestan lyggja afrjettarlönd Seltjerninga og
búfjárlönd Mosfellssveitarmanna. Úr Borgarhól lyggja svo
mörkin um suðurtaglið á Mosfellsheiði uppí Skeggja það er norðausturnornið á
Henglinum. Um enga á er að ræða í afrjettarlandi þessu nema litla sprænu sem sprettur upp í Innstadal sunnanundir
Henglinum og úr verður Hengladalsá. Um lönd þau er lyggja umhverfis Ölfushrepp
að öðru leiti skal þess getið að vestan er Selvogur og
Selvogsafrjettur. Svo með sjó fram austur að Ölfusá þá með henni uppað Sogi
ogmeð því þar til land Grafningsmanna tekur við lyggja svo búfjárlönd Ölfusinga
og Grafningsmanna saman um fjöllin vestur að Hengli.“
Stefndi byggir á því að ekkert liggi fyrir um að framangreindar lýsingar
oddvitans og hreppstjórans hafi fengið þá meðferð sem
landamerkjalög mæla fyrir um varðandi landamerkjabréf. Sé því
einungis um að ræða einhliða yfirlýsingar um mörk afréttanna. Stefndi
telur ágreiningslaust í málinu að Fálkaklettur sé hornmark jarðanna Ness,
Hlíðarenda og afréttarlands. Í lýsingu oddvitans sé
hins vegar ekki að finna neina marklýsingu afréttarins til suðurs gagnvart
jörðum í Selvogi og sé fullyrt að þar ráði engin
ákveðin merki. Samkvæmt landamerkjabréfi Strandarkirkjueigna í Selvogi frá 1890
sé hornmark til austurs dregið í Kálfahvamm og séu merki annarra jarða í
Selvogi ágreiningslaus að línu sem dregin sé úr Fálkakletti í Kálfahvamm. Hafi
nefndin komist að þeirri niðurstöðu að eignarland jarðanna Hlíðar og Stakkavíkur næði að línu sem dregin sé úr Kálfahvammi í
Litla-Kóngsfell. Hafi lína þessi úr Fálkakletti í Kálfahvamm og
þaðan í Litla-Kóngsfell verið lögð til grundvallar um mörk Selvogsafréttar.
Stefndi bendir á að óbyggðanefnd hafi lagt til grundvallar dóm
Hæstaréttar Íslands frá 1996 á bls. 2848 um mörk
Selvogsafréttar að því er varðaði nánar tilgreind merki frá Litla-Kóngsfelli
allt að stöpli á Vífilsfelli og taldi að ekki væru
efni til að gera greinarmun á stjórnsýslumörkum og eignamörkum. Þá lagði nefndin til grundvallar að því er mörk Ölfusafréttar
varðaði landamerkjabréf frá 23. janúar 1991
milli Ölfushrepps og Grafningshrepps annars vegar og Mosfellsbæjar og eigenda
Miðdals I í Mosfellsbæ hins vegar svohljóðandi: „Úr stöpli hæst á Vífilsfelli og þaðan í beina línu í sýslustein austan
Lyklafells, þaðan bein lína í Sýsluþúfu og þaðan beina línu í stöpul á
Borgarhólnum.“ Í lýsingu hreppstjóra Ölfushrepps segi að mörk
afréttarins gagnvart Grafningsafrétti liggi úr „Borgarhól ... um suðurtaglið á Mosfellsheiði upp í Skeggja, það er
norðausturhornið á Henglinum.“ Sé þessi lýsing talin í samræmi við lýsingu oddvita Grafningshrepps
á landmörkum afréttar hreppsins frá 2. júní
1978. Hins vegar hafi í lýsingu á afréttarmörkum milli Ölfus- og Grafningshreppa innan Árnessýslu frá 22. maí 1886 að mörkin hafi legið „úr vestasta horni á á Ölfusvatnsskyggni beina stefnu fyrir norðan
Hengil í vörðu sem er á Stórborgarhól.“ Geri sú lýsing
ráð fyrir að Ölfusafréttur nái allt niður að Ölfusvatnsskyggni. Það hafi þó hvorki verið talið í samræmi við landamerkjabréf
Nesjavalla frá 27. mars 1886 né landamerkjabréf
Ölfusvatnstorfu frá 15. ágúst 1885, en í báðum þeim
bréfum sé merkjum lýst norður fyrir Ölfusvatnsskyggni í hrygg nokkurn á milli
annars vegar Ölfusvatnstangans og Köldulaugar og hins vegar milli
Ölfusvatnslaugar og Köldulaugar. Séu þessi landamerkjabréf bæði samþykkt vegna
afréttar Ölfushrepps og þá sé lýsingin í
landamerkjabréfi Nesjavalla í ágætu samræmi við lýsingu hreppstjóra Ölfushrepps
og oddvita Grafningshrepps. Hafi óbyggðanefnd lagt þessi mörk
afréttarins til grundvallar. Í lýsingu hreppstjóra Ölfushrepps hafi ekki
verið vikið að mörkum afréttarins gagnvart jörðum í Grafningi að öðru leyti en
því að tekið hafi verið fram að afrétturinn sé og hafi
að fornu verið norðvesturbrúnir Hellisheiðar, þ.e.a.s. Hengillinn og dalirnir í
kringum hann. Í landamerkjabréfi fyrir Nesjavelli frá 27.
mars 1886 sé mörkum gagnvart Ölfusafrétti lýst „í Ölvisvatnsskyggni og þaðan beina stefnu í
hrygg þann, sem liggur milli Ölvisvatnslaugar og Köldulaugar. Þaðan liggja
landamerki Nesjavalla eptir beinni stefnu í Vörðuskeggja.“
Í landamerkjabréfi fyrir Krók og Ölfusvatn með
hjáleigunni Hagavík frá 15. ágúst 1885 sé mörkum
gagnvart Ölfusafrétti lýst í Ölvisvatnsskyggni og úr honum aftur beina stefnu í
bergeggjar eða brúnir þær sem myndi svonefndar Hengilssyllur, síðan liggi
merkjalínan eftir eggjum þessum og úr þeim í mel einn, bleikrauðan að sjá, er
liggur upp af Raufarbergi og þaðan í Raufarbergið sjálft. Bæði
landamerkjabréfin hafi verið samþykkt vegna Ölfusafréttar. Í landamerkjabréfi Reykjatorfunnar frá 23. ágúst 1884 sé mörkum til vesturs lýst þannig: „...úr Helluvaði beina stefnu til austnorður
í einkennilega gjá, er liggur í krókum til norðurs. Eptir þessari gjá eru
mörkin og úr nyrðsta gljúfri gjárinnar beina stefnu
til norðurs í rauðleitan melhnjúk fyrir framan svokallaða kýrgilshnjúka
(hornmark), þaðan liggja mörkin til austurs um Raufarberg... “
Fyrir óbyggðanefnd var deilt um staðsetningu rauðleita
melhnjúksins en hann mun vera hornmark gagnvart Reykjatorfu annars vegar og
jarðanna Króks og Ölfisvatns með hjáleigunni Hagavík hins vegar. Af hálfu
Orkuveitu Reykjavíkur hafi því verið haldið fram að melhnjúkurinn lægi upp af
og norðanvert við Kýrgil en af hálfu stefnda og stefnanda hafi því hins vegar
verið haldið fram að melhnjúkurinn lægi fyrir framan Kýrgilið. Var einhugur um
það fyrir nefndinni að melhóllinn ætti að ráða þegar kennileitinu hefði verið
fundinn staður. Var jafnframt tekið fram í úrskurði nefndarinnar að úrlausn
þessa ágreiningsefnis hefði einnig þýðingu í máli nr. 5/2004, en eigendur
tiltekinna jarða í Grafningi eigi aðild í því máli. Nefndin taldi ekki leika
vafa á því að annars vegar landamerkjabréf Reykjatorfunnar frá 1884 og hins
vegar landamerkjabréf fyrir jarðirnar Krók og Ölfisvatn með hjáleigunni Hagavík
frá 1885 lýsi sömu kennileitum þegar vísað sé til rauðleits melhnjúks eða
bleikrauðs mels og Raufarbergs. Réð nefndin þetta af samhengi bréfanna sem bæði
séu undirrituð með skömmu millibili af sömu einstaklingum sem verið hafi í
fyrirsvari vegna jarðanna. Þá verði ráðið af bréfunum að í grennd við melhólinn
liggi Raufarberg og hafi því verið fundinn staður í tveimur vettvangsgöngum
nefndarinnar með lögmönnum aðila. Liggi það kennileiti nær þeim melhól sem
ríkið og Sveitarfélagið Ölfus miði við um staðsetningu melhólsins en ekki hafi
verið fundið neitt annað kennileiti nærri þeim stað sem Orkuveitan miði við sem
komi heim og saman við þá lýsingu. Þá taldi nefndin að ekki yrði ráðið af
landamerkjabréfinu fyrir Krók og Ölfisvatn með hjáleigunni Hagavík að
melhóllinn taki við af Hengilssyllum og að óhjákvæmileg sjónlína sé milli
melhólsins og Hengilssyllna. Þá taldi nefndin engu geta breytt hvort sjónlína
sé milli hólsins og Reykjafells enda hefði þverlína milli þeirra marka enga
þýðingu fyrir þær jarðir sem umrædd landamerkjabréf taka til, þ.e. jarðirnar í
Grafningi og Reykjatorfuland. Lagði nefndin því til grundvallar að rauðleiti
melhóllinn væri fyrir framan Kýrgilið á þeim stað sem ríkið og Sveitarfélagið
Ölfus miði við. Voru mörk afréttarins dregin frá rauðleita melhólnum
sjónhendingu í Reykjafell og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að landsvæði
handan þeirrar þverlínu væri þjóðlenda með beitarítaki aðliggjandi jarða. Þá
komst nefndin að þeirri niðurstöðu að land úr Ölfusafrétti sem lagt var til
nýbýlisins Kolviðarhóls með nýbýlisbréfi 14. desember 1893 og aðliggjandi
landspilda sem Ölfushreppur afsalaði til Íþróttafélags Reykjavíkur 2. ágúst
1939 væri undirorpið beinum eignarrétti. Voru mörk afréttarins miðuð við línu
sem dregin var úr Reykjafelli í Lambafell og þaðan í Rauðhól. Séu mörk
Selvogsafréttar miðuð við beina línu sem dregin sé úr Rauðhól í Fálkaklett og
virðist þessi lýsing í samræmi við landamerkjabréf fyrir Selvogsafrétt og
Ölfusafrétt frá 24. september 1889 en þar sé mörkum lýst frá Ólafsskarði í
beinni línu niður eftir Lambafellshrauni í vörðu sem er norðaustan til á
há-Geitafellinu og úr henni beina línu í Fálkaklett.
Óbyggðanefnd hafi talið að ekki lægi fyrir lögformleg lýsing á
heildarmerkjum afréttanna og ekki hafi verið gert lögformlegt landamerkjabréf
fyrir Ölfusafrétt eða Selvogsafrétt í kjölfar gildistöku landamerkjalaga 1882
og 1919. Einu heildstæðu lýsingarnar séu framangreindar lýsingar oddvita
Selvogsafréttar og hreppstjóra Ölfushrepps. Hafi þær virst vera í góðu samræmi
við landamerkjalýsingar aðliggjandi jarða sem gerðar hafi verið í lok 19.
aldar. Hafi nefndin talið að merkjum gagnvart Ölfusafrétti og Selvogsafrétti
væri þarna rétt lýst. Það yrði ekki talið hafa sérstaka þýðingu þó merkjum sé
lýst með aðeins öðrum hætti í lýsingu á afréttarmörkum milli Ölfus- og
Grafningshreppa frá 1886 enda hafi sú lýsing stangast á við lýsingar á merkjum
þeirra jarða sem liggi að Ölfusafrétti og séu samþykktar vegna hans. Þeim landamerkjalýsingum
hafi einnig verið þinglýst og þær færðar í landamerkjabók án þess að séð verði
að nokkrar athugasemdir eða mótmæli hafi fyrr eða síðar komið fram.
Stefndi gerir nánari grein fyrir málsástæðum sínum og byggir
á því að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir eignarrétti sínum en sönnunarbyrði
verði ekki lögð á stefnda um að sanna sérstaklega að landið sé þjóðlenda. Hafi
ítarleg rannsókn óbyggðanefndar leitt til þess að ekki sé stoð fyrir
eignarrétti stefnanda. Stefndi mótmælir því að viðskiptavenja eða
jafnræðisregla styðji kröfur stefnanda og bendir á að stefnandi sé stjórnvald
sem trauðla geti leitað skjóls í réttarreglum um jafnræði borgaranna. Stefndi
hafnar því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir
eignarréttartilkalli á landinu og telur að löggjafinn sé einn bær til þess að
ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Geti menn ekki haft
væntingar til þess að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega
átt tilkall til. Bendi heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands ekki
til beins eignarréttar og geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra
réttinda.
Stefndi byggir á því að ekki liggi fyrir gild landamerkjabréf
fyrir afréttunum sem byggjandi sé á. Hafi þinglýsing ekki þau áhrif sem
stefnandi haldi fram og þá verði að líta til þess að með einhliða
merkjalýsingum sem gerðar hafi verið eftir 1882 hafi menn oftar en ekki verið
að eigna sér eigendalaust land án heimildar. Séu landamerkjabréf fyrst og
fremst sönnun um mörk á milli eigna en í þeim felist ekki að allt land innan
merkja skuli vera óskorað eignarland. Sé ekki hægt að þinglýsa meiri rétti en
viðkomandi eigi og geti löggjafinn einn ráðstafað slíku eigendalausu landi.
Stefndi byggir á því að engar skriflegar heimildir eða
rannsóknir á sviði fornleifafræði bendi til þess að byggð hafi að fornu og nýju
verið á umræddu landsvæði. Þá er á því byggt að lýsingar Landnámu útiloki ekki
að einstaklingseignarréttar hafi verið gefinn eftir þótt um væri að ræða
upphaflegt landnám Ingólfs Arnarsonar. Skorti allt samhengi eignarréttar og
sögu þótt talið yrði að svæðið hafi allt verið innan landnáms. Ekkert bendi til
þess að stefnandi eigi beinan eignarrétt og ekki sé hægt að fullyrða að svæðið
hafi að einhverju eða öllu leyti verið innan landnáms Ingólfs. Þá vefengir stefndi
að svæðið hafi allt verið numið og byggir á því að svæðið ofan fjalls hafi ekki
verið numið. Sé svæðið allt þess eðlis að aðeins hafi verið um að ræða afrétti
sem hafi verið teknir til sumarbeitar fyrir sauðfé. Hafi verið stofnað til
afnotaréttar með sama hætti og samnotaafréttur sé stofnaður en afréttirnir hafi
tilheyrt jörðum í sveitarfélaginu sem heild og síðar farið undir forræði
sveitarfélaganna. Hafi aðeins verið um afréttarnot að ræða sem ekki hafi tengst
sérstaklega einstökum jörðum eða stofnunum og geti svæðið ekki talist
undirorpið beinum eignarrétti.
Stefndi leggur áherslu á að umfjöllun í eldri fyrirliggjandi
heimildum sé í öllum tilvikum tengd upprekstri og afréttarnotum eins og gildi
um samnotafrétti almennt. Styðji stofnun nýbýlis að Kolviðarhóli 1893 frekar þá
ályktun að ekki hafi verið litið á umrætt landsvæði sem eignarland. Stefndi
hafnar þeim sjónarmiðum stefnanda að um þessa afrétti gildi sérsjónarmið sökum
þess að þeir liggi nærri byggð, nánast innan byggðamarka, auk þess sem þar hafi
verið fjölþættari nýting en gengur og gerist á afréttum. Stefndi telur
stefnanda ekki hafa getað lýst nákvæmlega hagnýtingu afréttanna, en þó hafi
verið lögð fram gögn um efnistöku úr námum og leigu á landspildum í nokkrum
mæli á afréttunum. Stefndi mótmælir því að þessar ráðstafanir vísi til eða
sanni að stefnandi fari með eignarráð yfir afréttunum. Bendi ekkert til annars
en að um hafi verið að ræða samnotaafrétt eins og óbyggðanefnd hafi komist að
niðurstöðu um. Stefndi bendir á að stefnandi sé stjórnvald og sanni
framangreindar ráðstafanir ekki að stefnandi hafi komið fram í krafti
viðurkenndrar eignarheimildar að svæðinu.
Stefndi telur að efnistaka stefnanda leiði ekki til þess að
hann geti litið á sig sem hefðanda réttinda, heldur hafi verið um að ræða
stjórnvald sem hafi talið sig að einhverju leyti hafa umsjón með
samnotaafrétti. Geti stopular ráðstafanir stefnanda með gerningum ekki stofnað
hefð, hvorki til eignar né afnota. Engan veginn sé um óslitið eignarhald eða
umráð að ræða og ekki á færi stefnanda að útiloka eignarrétt ríkisins. Íslenska
ríkið hafi farið með eignarráð og réttindi yfir jarðefnum þótt á eigendalausum
svæðum væri og hafi tilkall ríkisins til þessara réttinda verið lögbundið um
langan aldur. Stefndi byggir á þeirri skoðun óbyggðanefndar að heimildir um
nýtingu landsins séu ekki með þeim hætti að eignarréttindi að afréttarlandinu
hafi getað stofnast á grundvelli hefðar. Geti afréttarnot ekki stutt beinan
eignarrétt á landi fyrir hefð. Hafi nefndin bent á að stefnandi hefði ekki
haldið því fram að sveitarfélagið eða aðilar sem leiddu rétt frá því hefðu á
grundvelli hefðar stofnað til eignarréttar á einstökum afmörkuðum landspildum
innan svæðisins. Vísi nefndin til fyrri úrskurða sinna þess efnis að það væri
kleift, undir kringumstæðum sem þessum, að ákvarða einstökum aðilum réttindi á
grundvellli réttarskapandi úrræðis sem hefðar án þess að til komi bein og
ótvíræð yfirlýsing viðkomandi aðila um ákveðin og afmörkuð eignarréttindi. Nægi
almenn og óútfærð tilvísun til hefðar ekki í því tilliti. Byggir stefndi á því
að ekki sé unnt að ákveða stefnanda önnur og afmarkaðri eignarréttindi á
grundvelli hefðar. Stefndi telur engu máli skipta að stefnandi hafi greitt
gjöld af landsvæðinu og þá sé sú málsástæða órökstudd að eignarnámsbætur hafi
verið greiddar.
Stefndi telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á eignarrétt
fyrir hinu umdeilda landi. Eins og notkun afréttarlandsins hafi verið háttað
telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á
því. Sé því ekki um eignarlönd að ræða heldur þjóðlendu og bendi heimildir til
þess að um afrétt jarða í fyrrum Ölfus- og Selvogshreppum hafi verið að ræða. Liggi
engin gögn fyrir um að landsvæðið hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu
Stefndi telur kröfur stefnanda ekki verða studdar við 72. gr.
stjórnarskrárinnar eða 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála
Evrópu. Sé um að ræða þjóðlendu þar sem ekki hafi sannast í ljósi heimilda að
um eignarland sé að ræða.
Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda um afmörkuð landsvæði og
vísar til sömu raka og hér að framan.
Stefndi mótmælir þrautavarakröfu stefnanda þar sem krafist sé
einkaréttar til nýtingar á auðlindum úr jörðu án endurgjalds vegna þess lands
sem í varakröfu greinir. Engin gögn séu til um aðlindanýtingu önnur en þau að
efnistaka hafi farið fram í Bolöldu og Lambafelli og að einhverju leyti annars
staðar. Styðji þessi efnistaka með engum hætti tilkall stefnanda til
eignarréttar eða einkaréttar á nýtingu auðlinda hvers konar í jörðu. Um sé að
ræða gamlan samnotaafrétt þar sem stefnandi hafi í raun komið fram sem
stjórnvald en ekki eigandi. Þá er einnig á því byggt að allt sé óljóst um þessi
not og tímaskeið þeirra m.t.t. hefðar auk þess sem málatilbúnaður stefnanda að
þessu leyti fari á bága við eldri heimildir. Stefndi bendir á að því hafi verið
slegið föstu að íslenska ríkið hafi verið og sé eigandi að auðlindum á þeim
svæðum sem eigendalaus hafi verið talin fyrir gildistöku þjóðlendulaga, sbr.
t.d. ákvæði 2. gr. námulaga nr. 24/1974. Þau hafi verið eigendalaus á sama hátt
og þau séu það nú við ákvörðun á mörkum eignarlanda og þjóðlendna. Hafi ríkið
því eitt haft rétt til jarðefna á þessum svæðum og beri því að hafna kröfum
stefnanda. Stefndi byggir einnig á því að þótt um hafi verið að ræða nýtingu
auðlinda á hefðartíma og ekki verði á framangreint fallist geti í besta falli
komið til álita afnotaréttur á grundvelli 7. gr. hefðarlaga en ekki
eignarréttur eða einkaréttur til nýtingar. Vegna laga nr. 57/1998 væri slíkur
réttur ekki raunhæfur þar sem um sé að ræða eignarréttindi ríkisins í
þjóðlendu.
Stefndi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka
eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri
stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði
innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og
eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur
og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Með bréfi
dagsettu 27. október 2003 tilkynnti nefndin fjármálaráðherra að tekin yrðu til
meðferðar nánar tilgreind landsvæði sem tekur yfir sveitarfélög í Gullbringu-
og Kjósarsýslum, auk þess hluta Árnessýslu sem nefndin hefur ekki þegar tekið
afstöðu til, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna, en þetta svæði var hið
fjórða sem til meðferðar kom hjá nefndinni. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu
í úrskurði sínum frá 31. maí 2006 að landsvæði það sem hér er til meðferðar
væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Dómarinn fór á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér
aðstæður.
Í 1. gr. þjóðlendulaga er eignarland þannig skilgreint að um
sé að ræða landsvæði sem háð sé eignarrétti þannig að eigandi landsins fari með
öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum
tíma. Þá er þjóðlenda þannig skilgreind að um sé að ræða landsvæði utan
eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð
eignarréttindi. Afréttur er skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að
staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Eins og að framan er
rakið skal hlutverk óbyggðanefndar vera m.a. að skera úr um mörk þess hluta
þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur, sbr. b-lið 7. gr. laganna og jafnframt að
úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. c-lið 7. gr. laganna.
Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, tók
rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak
eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli
hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að
landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til
dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að
landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um
eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs
sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það
áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram
hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að
dreifa sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands
sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að
gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt
umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið
geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við
staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.
Í greinargerð með þjóðlendulögunum er
að því vikið að með afrétti sé almennt átt við tiltekið, afmarkað landsvæði, en
skiptar skoðanir séu um hvort einungis geti verið um beitarrétt eða annan
afnotarétt að ræða, þ.e. hvort slíkt landsvæði geti ýmist verið undirorpið
beinum eða óbeinum eignarrétti. Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. laganna er
hugtakið afréttur skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé og ráðast mörk
afréttar þannig af því landsvæði sem sannanlega hafi verið nýtt til sumarbeitar
fyrir búpening.
Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 58/1998,
var tekið fram að ekki verði að lögum settar sérstakar sönnunarreglur eða
lagaskilyrði fyrir því að land teljist eignarland í merkingu laganna, heldur
ráðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í
einstöku tilviki. Gildir sú regla því sem endranær að sá sem telur til
eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli
sínu sé það dregið í efa.
Óumdeilt er í máli þessu að aldrei hefur verið búið á hinu
umdeilda svæði og verður fallist á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að það kunni að
einhverju leyti eða öllu hafa verið innan upphaflegs landnáms. Þá verður
fallist á þá niðurstöðu nefndarinnar að svæðið hafi verið tekið til sumarbeitar
og annarra takmarkaðra nota. Stefnandi hefur hins vegar lagt fram margvísleg
gögn um nýtingu svæðisins hin síðari ár sem tengist efnistöku og leigu á landi
vegna útivistar og íþróttaiðkunar. Byggir stefnandi á því að þessi afnot hafi
verið það víðtæk að þau styðji beinan eignarrétt að svæðinu, eftir atvikum á
grundvelli hefðar. Ekki hafa verið lögð fram gögn um yfirfærslu hugsanlegs
eignarréttar jarða á svæðinu til stefnanda, en líklegt verður að telja að
stefnandi, sem er sveitarfélag, hafi tekið yfir umsjón samnotaafréttar sem
telja verður að hafi stofnast á svæðinu.
Kemur þá til skoðunar hvort þessi afnot stefnanda af svæðinu
hafi verið það víðtæk að eignarréttur hafi stofnast á grundvelli hefðar. Eins
og notkun svæðisins hefur verið háttað og gerð hefur verið grein fyrir hér að
framan er það álit dómsins með hliðsjón af framansögðu og með vísan til fordæma
Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að
hann hafi unnið eignarhefð á svæðinu, hvorki að öllu leyti né að hluta til. Verður
aðal- og varakröfu stefnanda því hafnað og staðfestur sá úrskurður
óbyggðanefndar að umrætt landsvæði sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig
a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Þrautavarakrafa stefnanda lýtur að því að hann eigi einkarétt
til nýtingar á auðlindum í jörðu án endurgjalds á landi því sem í varakröfu
greinir. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum
í jörðu fylgir eignarlandi eignarréttur að auðlindum í jörðu en í þjóðlendu eru
auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins nem aðrir geti sannað eignarrétt sinn
til þeirra. Hér hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stefnanda hafi ekki
tekist að sanna eignarrétt sinn að umræddu landsvæði og sé það þjóðlenda. Ber
af þeirri ástæðu að hafna þrautavarakröfu stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði,
þar með talin þóknun lögmanns hans, Torfa Ragnars Sigurðssonar hdl., 850.000
krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning
hefur dregist vegna umfangs málsins og embættisanna en dómari og lögmenn aðila
töldu endurflutning óþarfan.
DÓMSORÐ:
Staðfestur er úrskurður óbyggðanefndar frá 31. maí
2006 í máli nr. 6/2004, þess efnis að landsvæði það sem
nefnt er Ölfusafréttur og Selvogsafréttur, svo sem það er afmarkað hér á eftir,
teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr.
58/1998:
„Úr Fálkakletti í
Geitafelli í Kálfahvamm og þaðan í Litla-Kóngsfell.
Frá Litla-Kóngsfelli til austurs í Bláfjallahorn og
eftir hæstu tindum Bláfjalla í stöpul á Vífilsfelli. Þaðan í stefnu í
Sýslustein austan Lyklafells, áfram í Sýsluþúfu og í
stöpul á Borgarhólnum. Þá til suðausturs í Vörðuskeggja og
þaðan í punkt við Hengilssyllur og síðan í rauðleitan Melhnjúk fyrir framan
Kýrgilshnjúka. Frá þeim punkti verður línan dregin beint í
hæsta hnjúk á Reykjafelli. Þaðan í vörðu á Skarðsmýrarfjalli, þaðan
beint í Sleggju, þaðan beina stefnu yfir Húsmúlann í Miðmúlahornið, þaðan í
vörðu er ber í Lambafellsháls og úr þeirri vörðu beint
í fyrrgreindan hnjúk á Reykjafelli. Frá þeim punkti er línan dregin beint í
Lambafell, þaðan í Rauðhól og í vörðu norðaustan til á há-Geitafellinu og loks
í fyrrgreindan Fálkaklett.“
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin
þóknun lögmanns hans, Torfa Ragnars Sigurðssonar hdl.,
850.000 krónur.