Print

Mál nr. 324/2007

Lykilorð
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabótalög
  • Örorkulífeyrir

Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. mars 2008.

Nr. 324/2007.

Reynir Már Sigurvinsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni h/f og

Signýju Þorbjörgu Sigurðardóttur

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabótalög. Örorkulífeyrir.

R lenti í umferðarslysi 7. september árið 2000 og var óumdeilt í málinu bótaábyrgð vegna tjónsins hvíldi á S, sem eiganda ökutækis þess sem tjóninu olli og T sem vátryggjanda sama ökutækis. Greiddi T bætur til R að frádregnum 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris sem R átti rétt til úr lífeyrissjóðum. Við útreikning umræddrar fjárhæðar miðaði T  afvöxtunarhlutfallið 4,05. Í málinu krafðist R þess aðallega að T og S yrði gert að greiða 2.239.544 krónur en það var fjárhæð þess frádráttar sem bætur til R sættu samkvæmt framansögðu. Til vara krafðist R greiðslu á 76.302 krónum og miðaðist sú fjárhæð við að rétt hefði verið að nota afvöxtunarhlutfallið 4,5 við útreikninginn. Ekki var fallist á með R að regla 4. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1999, væri í andstöðu við 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og var aðalkröfu hans því hafnað. Hins vegar var fallist á varakröfu hans, enda byggði hún á skýru ákvæði síðastnefndrar lagagreinar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2007. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða honum 2.239.544 krónur, en til vara 76.302 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2002 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 7. september 2000 og hlaut við það líkamstjón. Stefnda Signý var eigandi bifreiðar, sem slysinu olli, en hún var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni h/f. Óumdeilt er að stefndu bera ábyrgð á tjóni áfrýjanda. Tveir menn lögðu mat á umfang þess 27. desember 2001 og komust meðal annars að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka áfrýjanda af völdum slyssins væri 25%. Ekki er ágreiningur um örorkustig. Bótauppgjör fór fram 31. júlí 2002 með greiðslu stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar h/f. Við uppgjörið dró stefndi frá skaðabótakröfu áfrýjanda 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris, sem sá síðarnefndi átti rétt til úr nokkrum lífeyrissjóðum, með vísan til ákvæðis 4. málsliðar 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og greininni var breytt með lögum nr. 37/1999. Frádráttur frá skaðabótakröfu nam samkvæmt því samtals 2.239.544 krónum og tók áfrýjandi við bótum með fyrirvara. Hann heldur fram að óheimilt hafi verið að beita frádrætti vegna greiðslu örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum samkvæmt áðurnefndu ákvæði skaðabótalaga og nemur aðalkrafa hans sömu fjárhæð og dregin var frá við bótauppgjörið. Málsástæður eru raktar í hinum áfrýjaða dómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um aðalkröfu áfrýjanda, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 311/1997 í dómasafni réttarins 1998, bls. 1976 að því er varðar nokkurt svigrúm löggjafans til að leggja mat á hvort reglur skaðabótalaga fullnægi því markmiði að tryggja tjónþolum fullar bætur fyrir fjártjón.

II.

Varakrafa áfrýjanda er á því reist að ef heimilt telst að draga hluta örorkulífeyris frá skaðabótakröfunni, beri að afvaxta framtíðarverðmæti hans með 4,5% til að ákveða eingreiðsluverðmæti lífeyrisins, en ekki 4,05% eins og stefndi hafi gert. Er óumdeilt að fjárhæð varakröfu nemur þeirri fjárhæð sem munar á þessum tveimur reikniforsendum.

Í héraðsdómi er greint frá ummælum í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 37/1999. Þar segir meðal annars í umfjöllun um 4. gr. frumvarpsins að nauðsynlegt sé við uppgjör bóta að reikna verðmæti örorkulífeyris til eingreiðslu og að eðlilegt sé að sú fjárhæð sé fundin með sömu afvöxtunarprósentu og notuð er til ákvörðunar á margfeldisstuðli í 5. gr. frumvarpsins, sbr. 6. gr. laganna. Verulegar breytingar voru gerðar á frumvarpinu við meðferð Alþingis á því og benda stefndu sérstaklega á ummæli varðandi tillögu um breytingu á margfeldisstuðli í áliti meiri hluta allsherjarnefndar Alþingis þar sem segir: „Tryggingafræðilegu stuðlarnir í 2. dálki sýna núvirði 1 kr. árslauna miðað við 4,05% ávöxtun (þ.e. 4,5% fyrir fjármagnstekjuskatt) ...“. Telja stefndu hafið yfir vafa að af hálfu löggjafans hafi bótakerfi skaðabótalaga verið hugsað þannig að sama vaxtaprósenta yrði notuð við afvöxtun örorkulífeyris til eingreiðslu og sú, sem notuð hafi verið við ávöxtun árslauna við ákvörðun margfeldisstuðuls í 6. gr. skaðabótalaga. Í báðum tilvikum skuli miðað við 4,05%. Sama vaxtaprósenta hljóti að vera notuð í báðum tilvikum svo samræmi náist.

Í 4. gr. frumvarps, sem varð að lögum nr. 37/1999, var lagt til að við útreikning á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði yrði miðað við 4,5% ársafvöxtun. Eftir breytingar, sem urðu á frumvarpinu við meðferð Alþingis á því, stóð sú tillaga óbreytt og var hún lögfest í því horfi. Áðurnefnd lögskýringargögn benda til þess að vilji hafi staðið til að sömu vaxtaprósentu yrði beitt við afvöxtun örorkulífeyris til eingreiðsluverðmætis samkvæmt 4. gr. frumvarpsins og beitt var við ákvörðun margfeldisstuðuls samkvæmt 5. gr. þess. Hvað sem því líður er texti laganna skýr um það að miðað skuli við 4,5% vexti við afvöxtun áðurnefnds lífeyris og verður ótvíræðu lagaákvæði ekki vikið til hliðar með stoð í lögskýringargögnum, svo sem stefndu krefjast í raun. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verða stefndu dæmd til að greiða áfrýjanda óskipt fjárhæð samkvæmt varakröfu þess síðastnefnda með vöxtum eins og krafist er. Stefndu verða jafnframt dæmd til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Tryggingamiðstöðin h/f og Signý Þorbjörg Sigurðardóttir, greiði óskipt áfrýjanda, Reyni Má Sigurvinssyni, 76.302 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2002 til greiðsludags.

Stefndu greiði óskipt samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renna í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var í gær er höfðað með stefnu birtri 16. apríl 2004.

Stefnandi er Reynir Már Sigurvinsson, Blómsturvöllum 6, Stokkseyri.

Stefndu eru Tryggingamiðstöðin h/f, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, og Signý Þorbjörg Sigurðardóttir,  Markarflöt 14, Garðabæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda  2.239.544 krónur auk vanskilavaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2002 til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda 76.302 krónur auk vanskilavaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2002  til greiðsludags

Þá krefst stefnandi málskostnaðar ein og mál þetta væri ekki gjafsóknamál.

Af hálfu stefndu er þess aðallega krafist að stefndu verði sýknuð af kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu.

Til vara er þess krafist að stefnufjárhæð verði lækkuð og málskostnaður verði látinn niður falla. Jafnframt er þess krafist að fjárhæð tildæmdra bóta beri dráttarvexti frá endanlegum dómsuppsögudegi til greiðsludags, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

MÁLAVEXTIR

Hinn 7. september 2000 var bifreiðinni AX-886, sem er af gerðinni Toyota Yaris, ekið aftan á bifreið stefnanda á Breiðholtsbraut í Reykjavík. Stefnda Signý var eigandi bifreiðarinnar.

Óumdeilt er að stefndu bera ábyrgð á slysinu og að stefnda, Tryggingamiðstöðinni h/f, beri að greiða bætur úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar. Tjón stefnanda var metið af læknunum Leifi N. Dungal og Atla Þór Ólasyni hinn 27. desember 2001. 

Niðurstaða þeirra var sem hér segir:

1.          Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. 

7. september 2000 til 6. september 2001

2.          Ekki telst hafa verið frekari bata að vænta

(batahvörf/stöðugleikatímapunktur) eftir

7. september 2001

3.          Þjáningabætur skv. 3. gr.      

1 ár

Þar af telst Reynir hafa verið rúmfastur í

skilningi skaðabótalaga                  

6. mars 2001 – 19. mars 2001

4.             Varanlegur miski skv. 4. gr.

15%

5.             Varanleg örorka skv. 5. gr.

25%

 

Fullnaðaruppgjör fór fram 31. júlí 2002 um aðra þætti en á eftir greinir. 

Við uppgjörið kom fram ágreiningur um frádrátt vegna eingreiðsluverðmætis greiðslna úr lífeyrissjóðum. Ágreiningur þessi lýtur að tvennu. Annars vegar hvort heimilt sé að beita frádrættinum og þá um leið hvort ákvæði 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um þann frádrátt hafi stjórnskipulegt gildi. Telur stefnandi að ákvæðið fari gegn 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hins vegar lýtur ágreiningurinn að því hvernig eigi að reikna út eingreiðsluverðmætið en stefndi notar 4,05% afvöxtun á meðan stefnandi telur að nota eigi 4,5%. Ágreiningurinn felst í því að stefnandi telur að beita eigi þeirri prósentu sem 5. gr. skl. gefi fyrirmæli um en stefndi telur að þrátt fyrir ákvæði laganna beri að nota aðra prósentutölu en þar segir, þegar búið er að taka tillit til 10% fjármagnstekjuskatts. 

Vegna ágreinings þessa var slysið gert upp með fyrirvara um frádrátt vegna greiðslu úr lífeyrissjóðum. Þótt í tjónskvittuninni standi Bætur frá Tr.stofn. og líf.sj. þá sé eingöngu um að ræða bætur frá lífeyrissjóðum sem haldið hafi verið eftir. 

Stefnandi á lífeyrisréttindi í fimm sjóðum. Þar er í fyrsta lagi um að ræða Lífeyrissjóð Suðurlands, Lífeyrissjóð Suðurnesja og Lífeyrissjóð Vestmannaeyja.  Lífeyrissjóður Suðurlands yfirtekur stigin úr tveimur síðastnefndu sjóðunum og annast uppgjörið. Einnig fær stefnandi greitt úr Sameinaða lífeyrissjóðnum. Þeir sjóðir sem hér hafa verið nefndir til sögunnar eru ekki stofnaðir á grundvelli sérstakra laga heldur grundvallast stofnun þeirra á samningi. Stefnandi fær einnig greiðslur frá Lífeyrissjóði sjómanna. Um þann sjóð vísast til laga nr. 45/1999. Fyrir liggja samþykktir Lífeyrissjóðs Suðurlands en stefnandi hefur ekki talið efni til að leggja fram frekari uppgjör frá sjóðunum, enda væri slíkt utan við grundvöll málsins þar sem ekki sé tölulegur ágreiningur um það frá hvaða fjárhæðum skuli reikna tekjutapið. Tekið skal fram að frádráttarliðirnir voru reiknaðir til 1. desember 2004 enda var ekki búist við að stefnandi fengi greitt úr lífeyrissjóðum til lengri tíma en það. 

Krafan á hendur stefndu Signýju byggist á 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en hún er skráður eigandi ökutækisins sem olli tjóninu, sbr. 88. gr. skaðabótalaga. Stefndi Tryggingamiðstöðin h/f vátryggði ökutækið og ber að höfða mál á hendur félaginu in solidum með stefndu Signýju sbr. 97. gr. umferðarlaga.

MÁLSÁSTÆÐUR OG HELSTU LAGARÖK

Á því er byggt að ákvæði 3. mgr. 5. gr. skl. um að 40% af höfuðstólsverðmæti greiðslna úr lífeyrissjóði dragist frá skaðabótum, fari gegn ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar og 65. gr. hennar. Bæði að um sérstakt brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar sé að ræða, óháð jafnræðisreglunni í 65. gr., og einnig að reglna hennar hafi ekki verið gætt þannig að þeir sæti frádrætti sem eins standi á um. 

Í stefnu eru rakin þau sjónarmið stefnanda að því hafi stundum verið haldið fram að lífeyrissjóðir séu á sviði opinbers réttar og hluti hins félagslega kerfis. Þetta sé alrangt og hafi leitt til þeirrar röngu niðurstöðu löggjafans að heimilt sé að skerða bætur vegna greiðslna úr slíkum sjóðum. Lífeyrissjóðir séu undirorpnir eignarrétti viðkomandi sjóðfélaga, þeir séu hluti hins einkaréttarlega kerfis og þeim megi öldungis jafna við aðrar tryggingar eða sparnað sem menn verði sér úti um. Þeir séu hins vegar ekki eðlislíkir hinu opinbera velferðarkerfi þannig að hægt sé að skerða tjónabætur af þeim ástæðum. Er síðan rakið upphaf hinna almennu lífeyrissjóða og afskipti löggjafans af starfsemi þeirra á hverjum tíma. Telur stefnandi að þau afskipti hafi verið misskilin og rekur ákvæði laga þar að lútandi og fjallar um upphaf og eðli almennra lífeyrissjóða. Vísar hann til 11. gr. þágildandi skattalaga nr. 74/1921 um rétt manna til að draga iðgjöld við kaup á lífeyri eða lífsábyrgð frá skattskyldum tekjum sínum. Í 10. gr. skattalaga nr. 46/1954 hafi verið sett þau skilyrði fyrir frádráttarbærni iðgjalda að hin ólögboðna lífeyristrygging væri keypt hjá lífeyrissjóði, tryggingarfélagi eða stofnun sem starfi eftir reglum sem fjármálaráðuneytið samþykkir og í þeim reglum þurfi að vera ákvæði um ávöxtun fjár og eftirlit með starfseminni. Hafi aðstæður verið þær að stéttarfélög og launþegar hefðu stofnað almenna lífeyrissjóði í frjálsum samningum án atbeina ríkisvaldsins. Engin tengsl hafi verið milli þessara sjóða og hins opinbera velferðarkerfis. Allt hafi þetta verið val viðkomandi aðila og hafi hið opinbera ekkert haft með málið að gera. Aðkoma fjármálaráðuneytisins að lífeyriskaupum hafi öldungis verið með þeim hætti sem tíðkist um hvers kyns opinbert eftirlit með starfsemi einkaaðila. Til þessa lagaákvæðis megi rekja upphaf þeirrar lögvillu að almennir lífeyrissjóðir séu hluti hins opinbera velferðarkerfis. Ákvæði 13. gr. skattalaga nr. 68/1971 sé í svipuðum dúr og fjalli um þá aðila sem ekki séu að lögum skyldugir til að kaupa sér lífeyri og skattaafslátturinn takmarkaður við 10% af launum. Á þessum tíma hafi þorri manna ekki verið skyldugur til að vera í almennum lífeyrissjóði. 

Með lögum nr. 9/1974 um starfskjör launþega o.fl. hafi sú meginbreyting orðið í 2. gr. laganna að öllum launþegum hafi verið gert skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Hvergi hafi verið hróflað við þeirri skipan að almennir lífeyrissjóðir skyldu vera einkaréttarlegs eðlis. Þannig hafi ákvæðið ekki útilokað stofnun nýrra sjóða, t.d. með samningum, eða að vinnumarkaðurinn sjálfur gerði breytingar á þeim án athafna eða samþykkis ríkisins. Í þessu hafi heldur ekki falist að starfsemi almennra lífeyrissjóða yrði leyfisskyld. Með þessum lögum hafi hið opinbera styrkt þá einkaréttarlegu skipan sem aðilar vinnumarkaðarins hefðu komið á lífeyrissjóðakerfið. Hafi ríkisvaldið þar með fest hið einkaréttarlega fyrirkomulag lífeyrismála í sessi. Í 2. gr. laganna sé skyldutryggingin takmörkuð við þá sjóði sem hlotið hafi staðfestingu fjármálaráðuneytisins. Í þessu ákvæði hafi ekki falist sú skylda að reglur almennu lífeyrissjóðanna væru staðfestar af fjármálaráðuneytinu heldur að skylduaðildin næði eingöngu til þeirra sjóða sem slíkrar staðfestingar hefðu leitað. Með lögum nr. 55/1980 hafi þessi skipan verið staðfest enn frekar. Þar hafi fjármálaráðuneytinu verið fengið úrskurðarvald um skylduaðildina, þ.e. ef ágreiningur kom upp um til hvaða sjóðs skyldi greiða. Hér hafi hins vegar verið um ósköp venjulega stjórnsýslu að ræða eins og tíðkist víða á einkaréttarlegu sviði, þ.e.a.s. að til séu úrskurðaraðilar í einkaréttarlegum málum innan stjórnsýslunnar. 

Með setningu laga nr. 30/1995 sem fólu í sér breytingu á skattalögum nr. 75/1981 hafi menn misst fótanna. Í 5. tl. 30. gr. A sé fjallað um frádráttarbærni iðgjalda í lífeyrissjóð og hljóðar það svo:  „Iðgjöld launþega sem greidd hafa verið til lífeyrissjóða sem starfa samkvæmt lögum eða hlotið hafa staðfestingu fjármálaráðuneytisins skv. 2. gr. laga nr. 55/1980, að hámarki 4% af heildarlaunum.“ Grein þessi beri vott um hreint kunnáttuleysi og misskilning þeirra sem samið hafi frumvarpið. Lög um starfskjör launþega hafi ekki falið í sér sjálfstæðar skyldur almennra lífeyrissjóða til að sækjast eftir staðfestingu fjármálaráðuneytisins heldur það að enginn yrði skyldaður til að greiða í almennan lífeyrissjóð sem ekki hefði leitað slíkrar staðfestingar skv. skattalögum. Hér hafi verið komin hringskilgreining. Þetta hafi gengið svo langt að nú hafi bætur tjónþola skv. skaðabótalögum verið skertar, með rökum sem eigi rætur að rekja til þessa misskilnings og sé réttlætingin sótt í hann að töluverðu leyti.

Nú gildi um starfsemi lífeyrissjóða lög nr. 129/1997 og felist ekkert í þeim annað en að lífeyrissjóðir séu einkaréttarleg starfsemi sem njóti opinbers eftirlits eins og viðskiptabankar, sparisjóðir o.fl.

Niðurstaðan sé sú að almennir lífeyrissjóðir starfi á einkaréttarlegum grundvelli og eingöngu slíkum. Þeir séu ekki opinbers eðlis og ekki hluti af almannatryggingakerfinu í landinu þótt tilvist sjóðanna létti álagi á slíku kerfi. 

Regla 3. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1999, miði að því að draga frá skaðabótum tekjur sem menn hafi annars staðar. Í henni séu hins vegar undanskildar greiðslur sem stafi frá tryggingarkaupum og sparnaði tjónþola sjálfs með einni undantekningu, lífeyrissjóðsframlög eigi að dragast frá skaðabótum. Hugmyndin með ákvæðinu sé að 60% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris dragist frá skaðabótum. Það sé gert með því að lækka bætur vegna varanlegrar örorku um 40% (60% - 1/3 vegna skatta = 40%). Sams konar regla sé um tímabundið tekjutap, sbr. 2. gr. skaðabótalaga (þar sé notað 60% þar sem dregið er frá tekjum sem skattleggjast að fullu).  

Ákvæði 72. gr. stjórnarskrár mæli fyrir um að eignarétturinn sé friðhelgur.  Skerðing verði að byggjast á lögum og fullar bætur að koma fyrir. 

Það sem vegi þyngst að mati stefnanda sé sú staðreynd að frá bótum fyrir missi aflahæfis hans séu dregin hans eigin eignarréttindi. Stefnandi lítur svo á að réttur hans úr lífeyrissjóði séu eignarréttindi, hann fái greiðslur úr sameiginlegum sjóði allra aðila lífeyrissjóðsins eftir reglum sem þeir hafi sjálfir sett sér, af höfuðstól sem þeir eigi í sameiningu. Tjónvaldur geti ekki fengið frádrátt á bótagreiðslu sinni m.t.t. eignarréttinda stefnanda í lífeyrissjóði frekar en gagnvart öðrum eignum hans. Eignir manna og eignatekjur koma aldrei til frádráttar skaðabótum nema í þessu eina tilfelli. Telur stefnandi þetta brjóta gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar en auk þess gegn 65. gr. þar sem þessi uppgjörsaðferð sé einsdæmi. Engu máli skiptir í þessu samhengi hvernig eigendur sjóðsins ákvarða útgreiðslur úr honum innbyrðis. Það sé þeirra mál og ákvæðum skaðabótalaga óviðkomandi. 

Ákvæði 5. gr. skaðabótalaga um skerðingu bóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði feli í sér að arður af eignarréttindum sjóðfélaga komi til frádráttar bótum þótt arður af öðrum eignarréttindum geri það ekki. Réttur til greiðslna í tilefni af tjónsatburðum skerði bætur þótt aðrar öldungis sambærilegar greiðslur geri það ekki, hvort sem sé úr slysa- og sjúkratryggingum, lífeyrissjóðum annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu eða frjálsum kaupum á tryggingum úr öldungis sambærilegum sjóðum. Ekkert hafi verið fært til réttlætingar því að láta þennan eina hóp, sem svona stendur á um, þola skerðingu bóta. Lögin mismuni og séu ekki nægilega almenn til að réttlæta þessa skerðingu á eignarréttindum. 

Verði ekki fallist á kröfur stefnanda á þessum grundvelli er á því byggt að skv. reglum lífeyrissjóðanna þurfi örorkan að vera 40% að lágmarki til að réttur sé til greiðslna úr henni. Með því að aðilar geri upp miðað við 25% örorku sé ekki slíkt orsakasamband milli slyssins og þeirra greiðslna sem stefnandi njóti úr lífeyrissjóðum, að heimilt sé að draga þær greiðslur frá bótum. Verði ekki fallist á þetta beri með sömu rökum að álykta að stefndi megi ekki draga frá hærri upphæð en 25/40 bóta. Sjóðurinn byggi á fleiri atriðum en örorku stefnanda þegar hann ákveði bótagreiðslur, m.a. taki hann tillit til þátta af félagslegum toga o.fl. sem ekki sé gert við mat skv. skaðabótalögum.  Framangreind rök fyrir aðalmálsástæðunni styðja og þessa niðurstöðu.

Um varakröfuna:

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda telur hann að lækka hefði átt bætur frá lífeyrissjóðum miðað við 4,5% afvöxtun skv. skýrum fyrirmælum í 5. gr. skl. Ekkert tilefni er til að víkja frá þeim með hugrenningum um fjármagnstekjuskatt. Auk þess sem slík niðurstaða styðst alls ekki við fullnægjandi rök. Þegar löggjafinn ákvað 4,5% vaxtafót lágu reglur um fjármagnstekjuskatt fyrir. 

Varakrafan sundurliðast þannig:

40% af eingreiðsluverðmæti lífeyris í 36 mánuði skv.

útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar á dskj. nr. 11                      kr. 2.163.242

Frádrag stefnda                                                                      kr. 2.239.544

Mismunur                                                                   kr.      76.302

Lagarök:

Um lagarök vísast til 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 3.-7. gr. og 10. gr.

Um málskostnað vísast til XXI. kafla l. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og þarf því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.

Stefndu telja stefnanda hafa fengið tjón sitt vegna varanlegrar örorku bætt að fullu skv. ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. breytingar sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 37/1999, ákvæði laganna gangi ekki gegn stjórnarskrá og beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Með setningu skaðabótalaga nr. 50/1993 og breytingum á þeim lögum, hafi löggjafinn búið til ramma utan um bótakerfi sem innihaldi útreikningsreglur vegna bóta fyrir líkamstjón. Hafi lögin meðal annars miðað að því að færa til nútímahorfs reglur um tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða. Ekki hafi falist í þessu nokkur breyting á þeirri meginreglu skaðabótaréttarins að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svari raunverulegu fjártjóni hans og hafi dómstólar byggt á þeirri meginreglu í dómsúrlausnum sínum eftir gildistöku laganna, sbr. t.d. Hrd. 1998/1762.

Í þessu máli sé ágreiningur um greiðslu bóta fyrir varanlega örorku stefnanda og komi þá til skoðunar ákvæði 5.-9. gr. skaðabótalaga. Þegar skaðabótalögin hafi verið sett árið 1993 hafi margföldunarstuðull 6. gr. laganna verið ákveðinn 7,5. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarps til þeirra laga segi að ástæða þess, að hann sé ekki hærri en það, sé meðal annars sú að engin ákvæði séu um að greiðslur frá þriðja manni, til dæmis bætur almannatrygginga, vátryggingarfé og fleira, séu dregnar frá bótakröfu hans. Hagræði þessa hafi vegið á móti því að margföldunarstuðullinn var lágur.

Verulegar breytingar hafi verið gerðar á ákvæðum skaðabótalaga með lögum nr. 37/1999. Hafi 5. og 6. gr. laganna verið breytt og verði við það að líta bæði til laga nr. 42/1996, sem breytt hafi margföldunarstuðli laganna frá 7,5 upp í 10, og fyrrnefndra laga nr. 37/1999, þar sem útreikningskerfi skaðabótalaganna hafi tekið verulegum breytingum hvað varðar bætur fyrir varanlega örorku.

Eftir breytingu skaðabótalaganna með lögum nr. 37/1999 sé nú í 5. og 6. gr. skaðabótalaga að finna reglur um hvernig reikna eigi skaðabótakröfu vegna varanlegrar fjárhagslegrar örorku. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 37/1999 komi fram að margföldunarstuðullinn í skaðabótalögum, eins og tillaga frumvarpsins reiknaði með að honum yrði breytt, sé annars eðlis en hann hafi verið í upphafi skv. skaðabótalögum nr. 50/1993. Stuðullinn nú meti heildartekjuskerðingu tjónþola, þess vegna séu ákvæði skaðabótalaga miðuð við það að greiðslur af félagslegum toga frá þriðja manni, þar á meðal hluti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum, komi til frádráttar bótum. Annars myndu bætur til tjónþola verða hærri en raunverulegt fjártjón hans.

Í 4. mgr. 5. gr. laganna sé kveðið á um hvers konar greiðslur skuli koma til frádráttar skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku. Til grundvallar þessu ákvæði liggi meginregla skaðabótaréttarins að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svari raunverulegu fjártjóni hans, eins og áður sagði.

Sambærilega reglu og er í 4. mgr. 5. gr. sé að finna í 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga hvað varði tímabundið atvinnutjón og byggist hún ennfremur á títtnefndri meginreglu skaðabótaréttarins um að tjónþoli eigi rétt á bótum sem samsvara raunverulegu tjóni hans.

 Ágreiningur í máli þessu lúti fyrst og fremst að því hvort það álit frumvarpshöfunda laga nr. 37/1999, framsögumanns á Alþingi sem og meirihluta allsherjarnefndar Alþingis, um að bótaréttur úr lífeyrissjóði sé bótaúrræði af félagslegum toga, standist ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnræði og friðhelgi eignarréttarins.

Vísa stefndu til lögskýringargagna, þar á meðal umfjöllunar í frumvarpi til laga nr. 37/1999 sem og nefndarálits meirihluta allsherjarnefndar um frv. til laga um breytingar á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993, sbr. lög nr. 42 13. maí 1996.

Stefndu árétta að fyrir gildistöku skaðabótalaga hafi dómstólar tekið mið af rétti tjónþola til greiðslu örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum við ákvörðun skaðabóta og liggi fyrir um það fjölmörg dómafordæmi Hæstaréttar Íslands. Ekki sé að sjá að slík framkvæmd hafi verið metin í andstöðu við áðurnefnd ákvæði stjórnarskrárinnar.

Stefndu telja einnig ótvírætt að löggjafinn leggi þá skyldu á alla launamenn og þá sem stunda atvinnurekstur og sjálfstæða atvinnustarfsemi, að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði. Í dag sé skylda þessi bundin í lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða. Vegna þessarar lagaskyldu verði að telja rétt til örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum annars eðlis en bótarétt úr almennum slysatryggingum. Því breyti ekki á hvaða grundvelli hver og einn lífeyrissjóður starfi, hvort sem starfsemi þeirra sé bundin í lög eða ekki. Vegna skyldutryggingarinnar verði að telja örorkulífeyri til greiðslna af félagslegum toga. Réttindi manna til greiðslu örorkulífeyris séu heldur ekki til þess fallin að skerða önnur réttindi þeirra vegna aðildar að lífeyrissjóði. Stefndu mótmæla því þeirri fullyrðingu stefnanda að eignarréttindi hans hafi verið nokkuð skert með ákvörðun hins stefnda félags á greiðslu bóta fyrir varanlega örorku hans.

Stefndu telja heildartjón stefnanda vegna varanlegrar örorku rétt reiknað  12.812.122 krónur, sbr. dskj. nr. 8. Heildartjónið sé því ákveðið. Stefnandi fái tjón sitt að fullu bætt, annars vegar með greiðslu 10.572.578 króna frá hinu stefnda félagi og hins vegar með metinni greiðslu örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum, 2.239.544 krónur.

Lagaregla 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sé sett með stjórnskipulegum hætti, með það fyrir augum að tjónþoli fái raunverulegt fjártjón sitt bætt en ekki ofbætt. Því er mótmælt að lagaregla þessi leiði til þess að aflahæfi stefnanda hafi verið skert á þeim grundvelli að skaðabótalögin tryggi ekki fullar bætur. Eins sé farið með alla tjónþola sem eins hátti til um að þessu leyti en eins og áður segi sé öllum skylt að greiða í lífeyrissjóð, sbr. lög nr. 129/1997. Mótmæla stefndu því að ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eða útreikningsreglur skaðabótalaganna, hvað varði mál stefnanda, brjóti í bága við 65. gr. eða 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Skýr fordæmi liggi fyrir hjá Hæstarétti Íslands um þetta álitaefni.

Varakrafa stefndu byggist á því að ef fallist er á kröfu stefnanda, beri við útreikning tjóns hans að miða við 4,05% ársafvöxtun við útreikning eingreiðsluverðmætis skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Í lögskýringargögnum komi skýrt fram að afvöxtunarprósenta sú sem greind er í 4. mgr. 5. gr. eigi að vera sú sama og notuð sé til ákvörðunar á stuðlinum í 5. gr., nánar tiltekið í athugasemdum með 4. gr. laga nr. 37/1999. Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar komi fram hvernig stuðlar 6. gr. skaðabótalaga séu byggðir upp. Þar komi skýrt fram að tryggingarfræðilegir stuðlar miði við 4,05% ávöxtun, þ.e. 4,5% fyrir fjármagnstekjuskatt. Stefndu telja því ótvírætt að miða verði við 4,05% ársafvöxtun og eru mótmæli gegn varakröfu stefnanda ítrekuð.

Vaxtakröfum stefnanda er almennt mótmælt. Ef til þess kæmi að stefnanda yrðu tildæmdar bætur þá er augljóst að slíkt mundi byggjast á túlkun og skýringu á skaðabótalögum sem er engan veginn auðsæ. Stefndu telja eins og áður segir að lagaákvæðin sjálf og lögskýringargögn með þeim bendi til þess að stefnandi eigi ekki rétt til frekari bóta en hann hefur þegar fengið og er fjarri lagi að stefndu dragi greiðslur til stefnanda að nauðsynjalausu. Við þessar aðstæður er óeðlilegt að hin umdeilda krafa beri dráttarvexti fyrr en endanlega hefur verið skorið úr deilunni fyrir dómi. Samkvæmt þessu og með vísan til síðari málsliðar 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eru ekki skilyrði til að dæma dráttarvexti frá því tímamarki sem stefnandi gerir kröfu um.

Málskostnaðarkröfur stefndu eru reistar á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

NIÐURSTAÐA

Með lögum nr. 37/1999 voru gerðar breytingar á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Útreikningskerfi skaðabótalaganna tók við það verulegum breytingum hvað varðar bætur fyrir varanlega örorku. Nú er í 5. og 6. gr. skaðabótalaga að finna reglur um hvernig reikna eigi skaðabótakröfu vegna varanlegrar fjárhagslegrar örorku. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 37/1999 kemur fram að margföldunarstuðullinn í skaðabótalögum, eins og tillaga frumvarpsins reiknaði með að honum yrði breytt, er annars eðlis en hann var í upphafi skv. skaðabótalögum nr. 50/1993. Stuðullinn nú metur heildartekjuskerðingu tjónþola, þess vegna eru ákvæði skaðabótalaga miðuð við það að greiðslur af félagslegum toga, eins og það er orðað í frumvarpinu, frá þriðja manni, þar á meðal hluti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum, komi til frádráttar bótum. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps til laga nr. 37/1999 segir:

„Samkvæmt gildandi lögum dragast bætur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði ekki frá bótum fyrir varanlega örorku. Í greinargerð með frumvarpinu að skaðabótalögum, nr. 50/1993, kemur fram að margföldunarstuðull laganna hafi öðrum þræði verið ákveðinn með hliðsjón af því að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja manni, t.d. almannatryggingum og vátryggingum. Þessi sjónarmið eiga ekki við í þessu frumvarpi. Margföldunarstuðull 5. gr. frumvarpsins er annars eðlis en í gildandi lögum og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verður fyrir vegna varanlegrar örorku. Vegna þessa er lagt til að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga sem koma í hlut tjónþola vegna örorkunnar. Við frádráttinn þarf að huga að því að greiðslur séu sambærilegar með því að taka tillit til skattskyldu og greiðsluforms, áður en dregið er frá skattfrjálsum og afvöxtuðum bótum fyrir varanlega örorku. Ekki er lagt til að bætur skerðist vegna slysatrygginga eða annarra bótaúrræða sem tjónþoli hefur sjálfur kostað með greiðslu iðgjalds.“

Í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga er kveðið á um hvers konar greiðslur skuli koma til frádráttar skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku. Til grundvallar þessu ákvæði liggur sú meginregla skaðabótaréttarins að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svara raunverulegu fjártjóni hans.

Í núgildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga segir:

„Frá skaðabótakröfu fyrir varanlega örorku skuli draga allar þær greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns sem slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu skal einnig draga frá skaðabótakröfu. Jafnframt skal draga skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingarfélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu.“

Sambærilega reglu er að finna í 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga hvað varðar tímabundið atvinnutjón og byggist hún enn fremur á þeirri meginreglu skaðabótaréttarins að tjónþoli eigi rétt á bótum sem samsvara raunverulegu tjóni hans.

Í áliti meirihluta allsherjarnefndar um frv. til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993, sbr. lög nr. 42 13. maí 1996, sem varð að lögum nr. 37/1999 segir eftirfarandi:

„Meðal þess sem rætt var ítarlega í nefndinni er sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu að bætur frá lífeyrissjóði og almannatryggingum dragist frá bótum vegna varanlegrar örorku. Ástæða þeirrar breytingar er sú að allt önnur sjónarmið eru uppi í frumvarpinu en í gildandi lögum hvað þetta varðar.

Margföldunarstuðullinn er annars eðlis og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verður fyrir vegna varanlegrar örorku. Áður var margfeldisstuðullinn hins vegar við það miðaður    tjónþoli  héldi  óskertum  rétti  til bóta frá þriðja  aðila,  t.d.  almannatryggingum  og  vátryggingum. í frumvarpinu er við það miðað að bætur skerðist ekki vegna slysatrygginga eða annarra bótaúrræða sem tjónþoli hefur sjálfur kostað með greiðslu iðgjalds en hins vegar komi bætur af félagslegum toga að fullu til frádráttar. Litið er svo á að bótaréttur frá lífeyrissjóði sé í senn af félagslegum toga og úrræði sem launþegi kostar sjálfur. Algengast er að vinnuveitandi greiði 60% iðgjalds til lífeyrissjóðs en launþegi 40%. Með hliðsjón af þessari skiptingu er lagt til í frumvarpinu að  60% bóta frá lífeyrissjóði komi til frádráttar skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku eins og aðrar félagslegar greiðslur. Meirihlutinn leggur til að sömu reglur gildi um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, enda eðlilegt að hið sama gildi um þetta tvennt hér. Því verði 60% af greiðslum frá lífeyrissjóði vegna tímabundins tekjutjóns dregin frá skaðabótum fyrir tímabundna örorku. Þess þarf hins vegar að gæta þegar verðmæti örorkulífeyris er dregið frá bótum fyrir varanlega örorku að við útreikning bótanna eru þær lækkaðar um þriðjung vegna skattfrelsis og svokallaðs hagræðis af eingreiðslu. Örorkulífeyrir er hins vegar skattskyldur eins og launatekjur. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að skerða útreiknað eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris um þriðjung áður en dregið er frá.

Því er lagt til í frumvarpinu að til frádráttar skaðabótum fyrir varanlega örorku komi 40% (þ.e. 2/3 af 60%) af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, sbr. 4. gr. frumvarpsins.“

Samkvæmt þessu er við það miðað að bótaúrræði sem launþegi kostar sjálfur sé af öðrum toga en framlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs en litið er á það framlag sem greiðslur frá þriðja aðila.

Fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 tóku dómstólar mið af rétti tjónþola til greiðslu örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum við ákvörðun skaðabóta og liggja fyrir um það fjölmörg dómafordæmi Hæstaréttar Íslands. Sú framkvæmd hefur ekki verið metin í andstöðu við ákvæði 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá verður að líta til þess að löggjafinn leggur þá skyldu á alla launamenn og þá sem stunda atvinnurekstur og sjálfstæða atvinnustarfsemi, að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði. Í dag er skylda þessi bundin í lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða. Vegna þessarar lagaskyldu má  líta á rétt til örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum öðrum augum en bótarétt úr almennum slysatryggingum. Ekki þykir skipta máli á hvaða grundvelli hver og einn lífeyrissjóður starfar, hvort sem starfsemi þeirra er bundin í lög eða ekki. Vegna skyldutryggingarinnar verður litið á örorkulífeyri, að því leyti sem hann myndast vegna framlags annarra en lífeyrisþega, öðrum augum en þann hluta örorkulífeyris sem myndast vegna beinna framlaga lífeyrisþegans sjálfs en sú leið var farin við breytingu á 5. gr. skaðabótalaga með lögum nr. 37/1999 eins og að framan er rakið. Dómari telur að sú leið hafi hvorki falið í sér skerðingu á eignarréttindum stefnanda né heldur felist í henni mismunun sem varði við 65. gr. stjórnarskrár. Þykir orðalagið „af félagslegum toga“ ekki skipta máli hér heldur sú staðreynd að löggjafinn lítur mismunandi augum á greiðslur úr lífeyrissjóðum eftir því hvort þær stafa frá þeim hluta sem lífeyrisþegi hefur lagt fram sjálfur eða þeim hluta sem hefur myndast vegna framlags annars aðila.

Fram kemur í lögskýringargögnum að afvöxtunarprósenta samkvæmt 4. mgr. 5. gr. eigi að vera sú sama og notuð sé til ákvörðunar á stuðli samkvæmt 5. gr. Kemur þetta fram í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar Alþingis við meðferð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/1999 þar sem segir að tryggingafræðilegir stuðlar miði við 4,05% ársafvöxtun, þ.e. 4,5% fyrir fjármagnstekjuskatt. Verður fallist á það með stefndu að miða verði við 4,05% ársafvöxtum  eins og á er byggt af hans hálfu.

Samkvæmt öllu framansögðu verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður milli aðila fellur niður.

Stefnandi hefur fengið gjafsóknarleyfi og greiðist málskostnaður hans, sem er þóknun lögmanns hans að fjárhæð 651.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, 159.495 krónum, eða samtals 810.495 krónur, úr ríkissjóði.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

             Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og Signý Þorbjörg Sigurðardóttir, skulu sýkn af kröfum stefnanda, Reynis Þórs Sigurvinssonar.

             Málskostnaður milli aðila fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 810.495 krónur, greiðist úr ríkissjóði.