Print

Mál nr. 727/2013

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 22. maí 2014.

Nr. 727/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Gintaras Bloviescius

(Kristján Stefánsson hrl.

Bjarki Þór Sveinsson hdl.)

(Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur. Sératkvæði.

G var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa með ofbeldi, hótunum og annars konar ólögmætri nauðung þröngvað A til samræðis. Var háttsemi G talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að sú aðferð sem G beitti hefði verið sérstaklega gróf. Með hliðsjón af því og með vísan til 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga var refsing hans ákveðin fangelsi í 3 ár og 6 mánuði. Þá var G gert að greiða A 1.200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. október 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.  

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með sömu vöxtum og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Gintaras Bloviescius, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 744.519 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

I

Í máli þessu er ákærða gefin að sök „nauðgun, með því að hafa síðla aðfararnætur sunnudagsins 22. apríl 2012, á heimili [sínu] ... með ofbeldi, hótunum, með annars konar ólögmætri nauðung og með því að neyta aflsmunar, þröngvað A ... til samræðis. Í því skyni að ná fram vilja sínum tók ákærði ítrekað um háls A og herti að, hélt höndum hennar og þrýsti henni niður í rúm sitt og hótaði að henda henni nakinni á dyr og að ónafngreindir einstaklingar sem hann þekkti myndu gera henni mein.“

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa „með ofbeldi, hótunum og annars konar ólögmætri nauðung“ þröngvað A til samræðis svo sem í ákæru greinir.

II

Samkvæmt gögnum málsins var A stödd í íbúð hjá vini sínum, E, [...] er ákærði hringdi í hana klukkan 06.21 að morgni umrædds sunnudags. Hún svaraði ekki en hringdi til baka nokkrum mínútum síðar. Komu þau sér saman um að hittast skömmu síðar við verslun þar nálægt. Þar settist hún í bifreið sem í voru ákærði, vinur hans F og kona G að nafni. Var ákærða og A ekið á heimili hans [...] þar sem þau dvöldu fram eftir degi. Ákærði hringdi fyrir hana á leigubifreið klukkan 13.47, sem ók henni aftur á heimili áðurnefnds E. Þaðan mun hún hafa farið að heimili móður sinnar, I, sem ekki var heima. Að líkindum er klukkan var um 15 mínútur gengin í þrjú hringdi hún í vin sinn eða kærasta, B, sem kom til hennar. Hafði B símsamband við lögreglu og tilkynnti um að ákærði, sem hann þekkti, hefði nauðgað A. Lögregla kom á heimili I klukkan 16.20 og fór með A á neyðarmóttöku Landspítalans um klukkan 17. Þar tók C hjúkrunarfræðingur á móti henni og gaf A henni og D kvensjúkdómalækni lýsingu á atvikum. Jafnframt gekkst hún undir réttarlæknisfræðilega skoðun og gaf í framhaldinu skýrslu undir umsjón L lögreglumanns um klukkan átta þá um kvöldið. 

Um sexleytið þennan dag fór lögregla á heimili ákærða og færði hann til yfirheyrslu, jafnframt því sem húsleit fór fram. Ákærði neitaði sakargiftum. Þá um daginn fór fram réttarlæknisfræðileg rannsókn á ákærða.

Ákærði er frá [...] og A frá [...]. Talar A ágæta íslensku, en ákærði naut aðstoðar túlks við skýrslugjöf.

III

Niðurstaða héraðsdóms var á því reist að leggja bæri til grundvallar trúverðugan framburð A. Á hinn bóginn hefði framburður ákærða verið ótrúverðugur. Eins og nánar greinir í héraðsdómi var frásögn A hjá lögreglu og fyrir dómi um aðdraganda hinnar ætluðu nauðgunar þó talin mismunandi í þremur atriðum er einkum vörðuðu lýsingu á atlotum hennar og ákærða, hvort þeirra hefði afklætt hana og um notkun smokks. Taldi héraðsdómur að þetta hefði ekki áhrif við mat á trúverðugleika A þar sem hún hefði borið fyrir dómi að hún hefði munað betur eftir atvikum við skýrslugjöf hjá lögreglu. Var tiltekið að A hefði borið fyrir dómi að hún hefði ekki fundið til áhrifa fíkniefna við skýrslugjöf hjá lögreglu. Þá hefðu áðurnefnd L, D og C metið frásögn hennar skýra og greinargóða og að hún hefði ekki virst vera undir vímuefnaáhrifum. Einnig vísaði dómurinn til þess að samkvæmt upptöku af skýrslugjöf hjá lögreglu yrði ekki ráðið að vímuefni hefðu haft áhrif á hæfni hennar til að gera grein fyrir málsatvikum. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi vísaði dómurinn auk þessa til framburðar áðurnefndra I, E, B og J leigubílstjóra um andlegt ástand A þá um morguninn. Þá var vísað læknisfræðilegra gagna um áverka á A og til vitnisburðar H hjúkrunarfræðings á geðsviði neyðarmóttöku Landspítalans sem hitti A nokkrum sinnum og gaf vottorð um að áfallastreituröskun hennar væri tengd þeim atburði sem hér um ræðir og lýsti hún áhrifum slíkrar röskunar á framburð þolenda kynferðisafbrota. Einnig var til stuðnings sakfellingu talið óhætt að leggja til grundvallar að skemmdir hefðu orðið á fatnaði A af völdum ákærða.

IV

A hefur borið að hún hefði ekki neytt fíkniefna frá því að atvik gerðust þar til blóð- og þvagsýni voru tekin úr henni umræddan sunnudag. Voru blóðsýni og þvagsýni tekin klukkan 17.38 og aftur blóðsýni klukkan 18.50. Í þvagi fundust kókaín, MDMA og kannabínóðar, en í blóði umtalsvert magn þessara efna, eða 45 ng/ml af kókaíni, 310 ng/ml af MDMA og 1,3 ng/ml af tetrahýdrókannabínóli. Sagði í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði að A hefði verið undir örvandi áhrifum kókaíns og MDMA og slævandi áhrifum tetrahýdrókannabínóls þegar blóðsýni var tekið klukkan 17.38. Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi kom fram hjá K deildarstjóra hjá rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræðum að ætla mætti að A hefði neytt vímuefnanna innan við sólarhring áður en sýnin voru tekin. Hefði hún verið undir áhrifum vímuefna við sýnatöku. Helmingunartími kókaíns væri hraður og ætla mætti að A hefði verið undir mjög miklum áhrifum kókaíns umræddan morgun. Aðspurð kvaðst K ekki geta fullyrt undir hversu miklum vímuáhrifum A var er hún gaf skýrslu hjá lögreglu og talaði við heilbrigðisstarfsfólk, en að hún hefði verið undir áhrifum. Einstaklingur gæti myndað þol við svona efnum sem hefði þó ekki beina þýðingu við mat á vímuáhrifum, en B bar fyrir dómi að A væri fíkniefnaneytandi.

Þrátt fyrir að starfsfólk neyðarmóttöku hefði fært í rannsóknarskýrslu sína frásögn A um að hún hefði einungis drukkið þrjá „litla bjóra“ og hún hafi þá um morguninn ekki viljað „prófa nema pínulítið“ af fíkniefnum og dregið þá ályktun að hún hefði ekki verið undir áhrifum slíkra efna, þá var það samkvæmt framansögðu ekki svo. Var A raunar ekki síður undir áhrifum fíkniefna þegar hún lýsti atvikum fyrir heilbrigðisstarfsfólki en síðar, er tekin voru tekin úr henni sýni.

Vitnið C ítrekaði fyrir dómi að hún hefði ekki merkt áhrif fíkniefna á A og talið hana trúverðuga. Á hinn bóginn kom fram hjá vitninu D, er hann var nánar spurður fyrir dómi með tilliti til framangreindra gagna, að ekki yrði útilokað að einkenni sem A hefði sýnt við komu á neyðarmóttöku hefðu í raun verið fráhvarf hjá fíkniefnaneytanda eða „blanda af báðu“, fráhvarfseinkennum og hræðslu við ákærða. Vitnið L kvaðst vilja vísa til myndbandsupptöku um skýrslugjöfina varðandi þetta atriði en hún hófst klukkan 20.03, en ekki 20.47 eins og segir í héraðsdómi. Í vottorði áðurnefndrar H um andlega líðan A sagði að hún hefði virst „ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.“ Fyrir dómi sagði vitnið að við gerð vottorðsins hefði verið gengið út frá þeim upplýsingum sem henni hefðu verið veittar. Vísaði hún til þess að kvarðar sem notaðir voru styddu trúverðugleika A. Ítrekaði hún það álit að A uppfyllti skilyrði áfallastreituröskunar og að einkenni hennar væru tengd þessum atburði. Er vitnið var upplýst fyrir dómi um fíkniefnaneyslu A umrætt sinn þá kvað hún hana hafa leynt henni og einungis sagst hafa drukkið bjór. Vitnið var á ný kölluð fyrir dóm við síðari hluta aðalmeðferðar í héraði. Aðspurð af verjanda um hvort ótti við viðbrögð maka hefðu getað kallað fram áfallastreitueinkenni, kvað vitnið að A hefði ekki verið í slíku sambandi er atvik gerðust. Benti verjandi þá á að A hefði sagt annað við skýrslutöku hjá lögreglu, en dómari kvaðst þá vilja að fram kæmi að hún hefði ekki átt maka á þessum tíma. Kom fram hjá vitninu að þekkt væri að ótti við maka gætu kallað fram einkenni áfallastreitu. Þó ekki skipti máli hvort A hafi verið undir áhrifum fíkniefna er atvik gerðust er samkvæmt öllu framansögðu varhugavert að draga jafneindregna ályktun og héraðsdómur gerir um hversu marktæk skýrslugjöf hennar var hjá heilbrigðisstarfsfólki og lögreglu umræddan dag.

Í stöðluðu skýrsluformi um réttarlæknisfræðilega skoðun á A sagði í kaflanum „Áverkar og önnur verksummerki“ við undirkaflann „einkenni nr. 1“ að vinstra megin á hálsi A hefðu verið „örlitlar petechiur, örfáir blettir á tveimur svæðum ca 6-7 ofar og 5-6 innar“. Þá sagði í undirkafla með heitinu „einkenni nr. 2“: „Engir aðrir ytri áverkar komnir ennþá“. Í umfjöllun undir heitinu „niðurstöður læknis“ voru sömu orð viðhöfð við lýsingu á áverkum og vísað til teikningar í stöðluðu formi skýrslunnar. Á teikningunni voru framangreindir blettir sérstaklega merktir sem örlitlir punktar. Ekki voru teknar ljósmyndir af þessum áverkum. Í skýrslugjöf fyrir dómi vísaði vitnið D til þess að þetta hefðu verið „smá litlar blæðingar sem koma í húð undan þrýstingsáverka eða slíku og gæti verið byrjun á stærri áverka sem kæmi seinna“ sem mar. Taldi vitnið að þetta hefðu verið þrýstingsblettir eftir hálstak og halda að þeir hefðu komið við kröftugt handtak og hefðu þeir verið „svolítið myndarlegir“. Við lok skýrslugjafar afhenti vitnið dóminum nýtt eintak af blaði úr hinni stöðluðu skýrslu þar sem ónafngreindur hjúkrunarfræðingur hefði handritað að A hefði mætt 26. apríl 2012 „í endurkomu til að ljósmynda marblett á v framhandl. Rauðbrúnn ca 2x2 cm.“ Ljósmynd eða myndir sem vísað var til fylgdu þó ekki með. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lagði ákæruvaldið ekki heldur fram slíkar myndir og gaf ekki fullnægjandi skýringu á því hvers vegna það væri ekki gert.

Vitnið C kvað D hafa fært í skýrsluna lýsingu á blettum á hálsi en telja líklegt að hún hefði einnig séð þá og skráð í sínar nótur án þess að geta fullyrt það. Sérstaklega aðspurð um áverka þá sagði vitnið: „Það er í sjálfu sér sko - voru ekki miklir líkamlegir áverkar ... en sagan hennar og þetta atvik er mér minnisstætt.“ Þá kom fram hjá vitninu að reglan væri sú að taka ljósmyndir af áverkum. Það var þó ekki gert umrætt sinn og ekki heldur er A mætti á spítalann fjórum dögum síðar til að láta taka mynd af marbletti á framhandlegg.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu lýsti A því með orðum og látbragði hvernig ákærði hefði haldið báðum höndum fremst um úlnliði sína, en tiltók ekki að hann hefði meitt hana á framhandlegg. Við endurkomuna 26. apríl 2012 var heldur ekki getið um að áverkar á hálsi A hefðu breyst í mar, eins og vitnið D taldi líklegt að gerast myndi og þótti þá ekki heldur ástæða til að taka ljósmyndir af hálsi hennar. 

Eins og greinir í héraðsdómi bar A í upphafi dómskýrslu að ákærði hefði notað smokk og fengið sáðfall. Hjá lögreglu sagði hún á hinn bóginn að hann hefði tekið af sér smokkinn, átt við hana kynmök án smokks, fróað sér og haft sáðfall í sængurverið. Var slík lýsing einnig höfð eftir henni í skýrslu neyðarmóttöku. Þegar A var við skýrslugjöf fyrir dómi bent á fyrri frásögn sína hjá lögreglu þá nefndi hún að sú lýsing væri rétt, en ákærði hefði einnig átt við hana kynmök án þess að nota smokk þótt hún myndi „ekki í hvaða tímaröð“. Skýringar A á þessu misræmi voru ekki glöggar. Sé fallist á ályktun héraðsdóms um að líta beri frekar til frásagnar A hjá lögreglu, þar sem hún hafi þá munað atvik betur, er slík aðferð varðandi þetta atriði ekki til stuðnings sakfellingu. Er þá höfð í huga rannsókn tæknideildar lögreglu á haldlögðum sængurfatnaði sem ekki styður frásögn A hjá lögreglu um að ákærða hefði orðið sáðfall í sængurverið, en þar fundust engin lífssýni. Þá komu ekki fram við réttarlæknisfræðilega rannsókn merki um sæðisfrumur í leggöngum A, en jákvæð svörun var við sæðisprófi af stroksýni teknum úr smokki er fannst á heimili ákærða. Þessi rannsóknargögn um atvik eru því til stuðnings framburði ákærða um að hann hefði notað smokk allan tímann meðan á samförum stóð.

Ákærði bar við meðferð málsins að hann hefði ekki verið undir áhrifum fíkniefna umrætt sinn og eru niðurstöður mælinga á blóð- og þvagsýnum sem úr honum voru tekin í samræmi við framburð hans um neyslu. Á hinn bóginn eru bæði þær og niðurstöður úr mælingum á sýnum úr A í ósamræmi við frásögn hennar um fíkniefnaneyslu þeirra tveggja. Í frumskýrslu lögreglu og einnig í frásögn sem höfð var eftir henni á neyðarvakt lýsti hún því að hún hefði verið að drekka bjór, en ákærði að fá sér dóp en hann væri fíkniefnasali og hefði hún fengið pínulítið hjá honum en afþakkað meira. Hjá lögreglu bar hún á sama veg um að hún hefði fengið lítið eitt af kókaíni „til þess að prófa bara“. Þá lýsti hún því fyrir dómi að hún hefði ekki neytt fíkniefna á heimili E, en ákærði hefði haft kókaín og önnur fíkniefni á heimili sínu og gefið henni pillu og kókaín. Jafnframt hefði ákærði neytt kókaíns með henni þá um morguninn. Ákærði sagði á hinn bóginn að A hefði sjálf haft efnin meðferðis í vasa sínum og ein neytt þeirra. Þess var getið í lögregluskýrslu að við húsleit lögreglu á heimili hans hefðu engin fíkniefni fundist. Þá bar vitnið F að hann hefði merkt að A væri undir áhrifum fíkniefna er hún umræddan morgun steig inn í bifreiðina, en hún hefði gónt út í loftið. G þessi gaf ekki skýrslu við meðferð málsins og heldur ekki maður að nafni O sem A sagði hafa verið heima hjá E er hún fór þaðan til fundar við ákærða.

Eins og fram kemur í héraðsdómi lýsti A því bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði hefði, í því stutta símtali við hana sem áður er getið, lýst því að hann þyrfti að tala við einhvern rússneskumælandi vegna andláts vinar síns skömmu áður. Hún hefði maldað í móinn en loks fallist á beiðni hans. Í niðurstöðum héraðsdóms var bent á að þessi frásögn hennar fengi stoð í framburði E um að A hefði skilið eftir handtösku og aðra muni á heimili hans þar sem hún hefði ætlað að snúa þangað aftur fljótlega. Fyrir dómi lýsti E því að hann hefði margoft hringt áhyggjufullur í síma A er hún skilaði sér ekki aftur heim til hans, en ekki eru í gögnum málsins upplýsingar um hringingar þessar. A kvaðst hafa þekkt ákærða í 1 til 2 ár og hefðu þau umgengist sama kunningjahóp. Hið sama sagði ákærði. Í skýrslu hjá lögreglu sem eins og áður segir var tekin nokkrum klukkustundum eftir atvik nefndi hún að ákærði umgengist svokallaða handrukkara. Þá tiltók hún að ákærði hefði lamið stúlku í andlitið sem flutt hefði verið í sjúkrabíl á spítala. Þrátt fyrir það fór A með ákærða til [...] umrætt sinn. Ákærði þvertók fyrir að hafa einhvern tímann meitt stúlku en A nefndi aldrei nafn hennar. Fyrir dómi kvaðst A ekki muna hvort hún hefði verið í sambandi við ákærða dagana áður en atvik gerðust, en símagögn staðfesta framburð ákærða um það. Bar ákærði ætíð á sama veg um að hann hefði viljað hitta A í þeim tilgangi að þau myndu skemmta sér saman. Lýsti hann því einnig að þau hefðu nokkrum sinnum áður haft kynmök, en A þvertók fyrir það. Auk þessa fær frásögn ákærða um tilefni ferðarinnar nokkra stoð í framburði vitnisins F sem kvaðst einnig þekkja A. Þá var sá maður sem á að hafa látist aldrei nafngreindur við meðferð málsins.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að framburður ákærða um tilgang þess að þau A hittust sé ólíklegri en framburður hennar í þessu efni, en hann kvað það rangt að hann hefði sagst vera nýkominn frá Englandi þar sem hann hefði nýlega fylgt vini sínum til grafar.

Héraðsdómur taldi að sökum þess að rennilás á buxum A hefði verið „slitinn“ renndi það stoðum undir sakfellingu. Við rannsókn málsins voru myndir teknar af fatnaði, en engar af buxum A og því ekki unnt að dæma um hvernig sliti var háttað á rennilásnum. Það eina sem um þetta er að finna var að vitnið D vísaði til þess að hann hefði fært upplýsingar um laskaðan rennilás í staðlaða skýrslu neyðarmóttöku eftir upplýsingum frá vitninu C þar um, en ekki kvaðst hann telja að hann hefði séð rennilásinn. Þá kom fram hjá vitninu C að líklega hefði hún orðið þessa áskynja þar sem það væri skráð í skýrsluna, en ekki gat hún staðfest það. Segir reyndar í héraðsdómi að A hefði við skýrslutöku hjá lögreglu lýst því hvernig ákærði togaði í sundur buxnaklaufina og reif rennilásinn, en af myndbandsupptöku „verður þó ekki greint hvert ástand rennilássins var.“ Auk þessa var framburður A annars konar hjá lögreglu en fyrir dómi um hvort ákærði hefði tekið hana úr fötunum eða hún gert það sjálf. Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki mikil ályktun dregin af þessu atriði til sönnunar í sakamáli.

Um rökstuðning fyrir því að framburður ákærða hafi verið ótrúverðugur nefnir héraðsdómur til viðbótar annars vegar að áðurnefnd E, B og I hefðu borið að A hefði verið miður sín og grátandi er þau hittu hana umræddan sunnudag. Að þessu virtu og miðað við framangreind læknisfræðileg gögn væri ótrúverðugt að hún hefði verið samþykk því að hafa kynferðismök við ákærða. Einnig hefði leigubílstjórinn sem ók A frá heimili ákærða greindan sunnudag borið fyrir dómi að augljóst hefði verið að henni hefði ekki liðið vel. Loks væri röng sú staðhæfing ákærða að hann hefði látið A fá peninga fyrir leigubíl frá heimili sínu. Fram væri komið með vætti A, E og leigubifreiðastjórans að hún hefði ekki átt fyrir fargjaldi.

Framburður A við meðferð málsins er mismunandi um það hvort B hafi verið kærasti hennar á þessum tíma, en við skýrslugjöf hjá lögreglu sagðist hún oftar en einu sinni eiga kærasta. Fyrir dómi sagði hún á hinn bóginn að B hafi ekki verið kærasti sinn. B lýsti því fyrir dómi að hann gæti í raun ekki sagt til um hvort þau hefðu þá verið saman þar sem þau hefðu sífellt verið að skilja og taka saman aftur, en hann hefði alltaf annast hana. Framburður leigubílstjórans var heldur ekki glöggur þegar litið er til þess að samkvæmt lögregluskýrslu var hvergi haft eftir honum að A hefði ekki liðið vel. Þvert á móti var bókað að A hefði verið vel til fara, litið vel út og verið allsgáð og hvorki virst í uppnámi né grátandi. Í þessu ljósi verður framburður leigubílstjórans fyrir dómi um þetta vart lagður til grundvallar sakfellingu. Þrátt fyrir framburð E og leigubílstjórans standa orð gegn orði um hvort ákærði hefði látið A fá peninga fyrir fargjaldi auk þess sem um er að ræða atriði sem ekki hefur mesta þýðingu í málinu og ákæra lýtur að. Þá var framburður A um dvöl hjá ákærða og heimferð sína ekki í fullu samræmi við gögn málsins. Kvað hún atvik hafa byrjað á heimili ákærða milli klukkan 12 og 12.30. Í skýrslu sama dag var haft eftir henni að eftir verknaðinn hefði ákærði sagt við hana að hún gæti farið og hringt á leigubifreið. Á hinn bóginn eru gögn um símtöl og frá leigubílastöðinni Hreyfli um „rakningu ferðar“ á þann veg að A hefði dvalið töluverðan tíma á heimili ákærða áður en hún afréð að snúa aftur í [...]. Samkvæmt gögnum þessum tók A leigubíl frá „[...]“ klukkan 13.57 og var henni ekið 9,7 km „nálægt [...]“. Er ekkert í gögnum málsins er skýrir nægilega þetta misræmi milli framburðar A og framangreindra gagna um ferðir hennar eftir atvik allt þar til hún, undir áhrifum fíkniefna, hitti vin sinn eða kærasta þegar liðið var á dag og skýrði honum grátandi frá því að ákærði hefði haft við hana samræði en gegn hennar vilja. Í kjölfarið hringdi B í lögregluna og tilkynnti um nauðgun.

V

Hér að framan hafa verið tilgreind ýmis atriði úr gögnum málsins sem héraðsdómur hefði betur mátt víkja að og telja má ákærða í hag. Við rannsókn sakamáls ber að viðhafa ákveðið verklag til tryggingar fullnægjandi sönnun en eins og að framan er rakið var því verklagi ekki fylgt nægilega í þessu máli. Meðal annars kom fram að regla væri við neyðarmóttöku að taka ljósmyndir af áverkum og fatnaði við rannsókn kynferðisbrota. Þó voru hvorki teknar ljósmyndir af buxum A né blettum á hálsi hennar. Ekki var lögð fram ljósmynd sem sögð var tekin af áverkum á framhandlegg hennar fjórum dögum eftir atvik. Við það tækifæri var hvorki tekin ljósmynd af áverkum á hálsi A né var þeim lýst í þessari viðbótarskýrslu, en samkvæmt framburði D læknis mátti búast við að mar hefði þá verið komið fram þar. Þegar litið er til framangreinds og annarra atriða sem rakin hafa verið eru rannsóknargögn um áverka þessa ekki einhlít þannig að dregin verði af þeim örugg ályktun til stuðnings sakfellingu ákærða. 

Eins og áður segir mat héraðsdómur framburð A trúverðugan, en ákærða ótrúverðugan. Taldi dómurinn meðal annars misræmi í frásögn hennar eiga sér eðlilegar skýringar auk þess sem það hefði ekki varðað atvik sem mesta þýðingu hefðu í málinu og ákæra lyti að, eins og komist var að orði. Af því sem áður segir verður þó ekki litið fram hjá þessu misræmi við úrlausn málsins. Þá verður ekki fallist á með héraðsdómi að misvísandi frásögn A um framkvæmd sjálfs verknaðarins hafi ekki þýðingu. Tel ég samkvæmt öllu framansögðu að ætla verði að sönnunarmat héraðsdóms á munnlegum framburði sé í verulegum atriðum ekki fullnægjandi. 

Í máli þessu hefur fjölskipaður héraðsdómur metið framburð ákærða og vitna sem gefinn var fyrir dómi. Hæstiréttur getur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Á hinn bóginn er til þess að líta að ákærði og A eru ein til frásagnar um málsatvik og önnur sönnunargögn ekki fullnægjandi. Tel ég því ekki rétt að heimvísa málinu til nýrrar meðferðar en að sýkna beri ákærða af sakargiftum samkvæmt sönnunarreglum 108. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Að fenginni þessari niðurstöðu tel ég að einnig beri að vísa einkaréttarkröfu frá héraðsdómi og fella allan sakarkostnað í ríkissjóð.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 23. september 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 7. maí 2013 á hendur Gintaras Bloviescius, kt. [...], [...], [...], fyrir nauðgun, með því að hafa síðla aðfaranætur sunnudagsins 22. apríl 2012, á heimili ákærða að [...], Hafnarfirði, með ofbeldi, hótunum, með annars konar ólögmætri nauðung og með því að neyta aflsmunar, þröngvað A, kt. [...], til samræðis. Í því skyni að ná fram vilja sínum tók ákærði ítrekað um háls A og herti að, hélt höndum hennar og þrýsti henni niður í rúm sitt og hótaði að henda henni nakinni á dyr og að ónafngreindir einstaklingar sem hann þekkti myndu gera henni mein.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.500.000 króna, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. apríl 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Verjandi ákærða gerir aðallega þá kröfu að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að bótakröfu í málinu verði vísað frá dómi, til vara er krafist sýknu af fram kominni bótakröfu, en til þrautavara að bætur verði stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

                Sunnudaginn 22. apríl 2012, klukkan 16:14, var lögregla kvödd að fjölbýlishúsi við [...] í Reykjavík, þar sem kona hefði óskað aðstoðar vegna nauðgunar. Er lögreglu­menn komu á vettvang hittu þeir fyrir A, brotaþola í máli þessu, og B. Kemur fram í skýrslu lögreglu að A, sem er [...], hafi talað ágæta íslensku. A hafi greint frá því að hún hefði verið stödd í heima­húsi hjá vini sínum um nóttina, en um klukkan 7 um morguninn hefði ákærði hringt og beðið hana að hitta sig. Hefði ákærði sagt henni að vinur hans hefði dáið nýlega og vildi hann ræða það við einhvern rússneskumælandi. Hún kvaðst hafa maldað í móinn, en loks fallist á beiðni hans. Ákærði hefði komið að sækja hana við verslun við [...], en hann hefði verið farþegi í bifreið með íslenskum karlmanni og konu. Hefði ákærði verið undir einhverjum áhrifum, en komið hefði fram að hann hefði verið að skemmta sér um nóttina. A kvaðst hins vegar hafa verið allsgáð. Þau hefðu ekið inn í Hafnarfjörð og hún farið með ákærða inn í hús þar. Þau hefðu farið saman inn í herbergi ákærða og þar hefði hann byrjað að „knúsa“ hana. A kvaðst margsinnis hafa beðið hann að hætta þessu en hann hefði ekki sinnt því. Hann hefði síðan læst herbergis­dyrunum, hrint henni í rúmið og haldið henni fastri. A kvaðst hafa beðið ákærða um að sleppa sér, en hann væri mjög sterkur og hefði hún verið hrædd. Hefði ákærði sagt við hana að ef hún ætlaði að vera með „vesen“ þá þekkti hann hættulegt fólk, vissi hvar hún byggi og verið með ýmsar óbeinar hótanir við hana. Hann hefði tekið nokkrum sinnum um háls hennar, hert að og sagt henni að fara úr fötunum. Hún kvaðst ekki hafa þorað öðru en að hlýða honum. Hefði ákærði haft við hana samfarir og notað verju í fyrstu, en síðan tekið hana af sér. Þegar þetta var yfirstaðið hefði hún farið út og tekið leigubifreið að heimili vina sinna í [...], en þar hefði hún skilið muni sína eftir um morguninn. Hún hefði komið þangað um klukkan 13. Síðan hefði hún farið heim til móður sinnar í [...]. Móðir hennar hefði ekki verið heima, en hún hefði hringt í B og beðið hann um að hjálpa sér. Í skýrslu lögreglu kemur fram að A hafi verið mjög stöðug í framburði og hafi frásögn hennar verið heildstæð. Hún hafi verið nokkuð róleg í tali og frásögnin verið að því er virtist í réttri röð. Þó hafi hún sjáanlega verið í uppnámi. Ekki hefði verið hægt að merkja að hún væri undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Var A flutt á Neyðarmóttöku Land­spítala, þar sem hún gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun. Lögreglumenn fóru að gisti­heimili að [...] í Hafnarfirði, þar sem ákærði dvaldist og var hann hand­tekinn í herbergi sínu.

Í gögnum málsins er móttökuskýrsla C, hjúkrunarfræðings á Neyðar­móttöku, þar sem kemur fram að brotaþoli hafi komið þangað kl. 17:00 í fylgd lögreglu. Frásögn brotaþola er skráð í skýrsluna og kemur þar m.a. fram að árásaraðili hafi haldið handlegg hennar og tekið hana hálstaki. Þá hafi hann sagst þekkja fólk sem gæti farið illa með hana. Þá kemur fram að brotaþoli hefði verið að skemmta sér með vinum um nóttina þegar gerandi hefði hringt og beðið hana að tala við sig. Hún hefði farið með honum í bifreið heim til hans. Þar hefðu þau setið í eldhúsi og talað saman. Hefði hann verið að drekka vín, en ekki hún. Þau hefðu síðan legið saman uppi í rúmi og verið að tala saman þegar hann hefði viljað hafa samfarir við hana. Hún hefði sagt nei og að þau væru vinir, en hann hefði þá orðið reiður, haldið henni fastri og tekið hana hálstaki. Hún hefði orðið hrædd og fundist betra að streitast ekki á móti þar sem ger­andinn sé stór og sterkur. Hann hefði klætt hana úr og skemmt rennilás á buxum. Hann hefði síðan haft samfarir við hana með smokk. Honum hefði þótt óþægilegt að nota smokkinn og hefði hann tekið hann af og haft sáðlát í rúmið, en verið um leið með fingur í leggöngum hennar. Í niðurlagi skýrslunnar er ritað að brotaþoli hafi komið í endurkomu á Neyðarmóttöku 26. sama mánaðar og hafi þá verið ljósmynd­aður marblettur á vinstri framhandlegg, rauðbrúnn, um tvisvar sinnum tveir senti­metrar að stærð.

Þá liggur fyrir skýrsla D kvensjúkdómalæknis um réttarlæknisfræðilega skoðun sem fram fór á brotaþola á Neyðarmóttöku. Í skýrslunni er rakin frásögn hennar af atvikum um nóttina. Kemur þar fram að hún hafi verið með vinum sínum í húsi þegar „gaur“ hringdi í hana og bað hana að hitta sig í 5 mínútur. Hún hefði farið með honum í bifreið sem vinur hans ók inn í Hafnarfjörð. Þar hefði hún farið inn með ákærða. Ákærði hefði verið að drekka bjór, en hún hefði sjálf drukkið þrjá litla bjóra kvöldið áður. Þau hefðu lagst upp í rúm og verið að tala saman. Síðan hefði hún ætlað að standa upp og fá sér að drekka. Hún hefði reynt að hringja til að láta sækja sig, en enginn hefði svarað. Ákærði hefði þá aftur farið að „kela“ við hana, en hún hefði ekki sagst vilja neitt. Hann hefði sagt „jú“, en hún hefði sagt „nei“, og beðið hann um að vera ekki leiðinlegan. Hann hefði sagt „jú“, en hún sagst ekki vilja það. Hann hefði sagt „eigum við að veðja“. Hún hefði sagst vilja fara, en hann hefði hótað að henda henni nakinni út ef hún vildi ekki sofa hjá honum. Hann hefði sagt „ég veit hvar þú átt heima og þú lendir í veseni ef þú sefur ekki hjá mér“. Hann hefði haldið áfram, en hún hefði farið að gráta. Þá hefði hann sagt henni að fara úr og þegar hún hefði neitað hefði hann ýtt henni á rúmið. Hún hefði barist á móti, en hann hefði tekið um hálsinn á henni og spurt hvort hana langaði ekki til að anda. Síðan hefði hann klætt hana úr. Hann væri miklu stærri en hún og hefði hann verið „alveg rosalega æstur“. Hún hefði vitað að ef hún myndi streitast meira á móti myndi hann ekki hika við að lemja hana, hann væri þannig gaur. Síðan hefði ákærði háttað hana úr og sagt að ef hún yrði með svona stæla myndi hann taka vídeómynd af henni og sýna vinum hennar. Ákærði hefði síðan sett á sig smokk og viljað „fara í rassinn á henni“, en hún hefði sagt nei og hefði hún líka neitað er hann vildi láta hana sjúga sig. Ákærði hefði látið hana ofan á sig, en eftir smá stund hefði hann sagt að þetta væri óþægilegt. Hún kvaðst hafa spurt hvernig hún ætti að gera þetta þegar hann vildi halda um hálsinn á henni. Ákærði hefði síðan tekið smokkinn af, farið ofan á hana og nauðgað henni, en dregið liminn út og hefði sæðið sennilega farið á rúmið. Eftir þetta hefði ákærði klætt sig og sagt: „Þú getur alveg farið núna, mér er skítsama um þig, drullaðu þér í burtu.“ Hann hefði hringt á leigubifreið fyrir hana. Hún hefði farið með leigu­bifreið­inni til vina sinna, þar sem hún hefði verið um morguninn, en dótið hennar hefði orðið þar eftir þar sem hún hefði aðeins ætlað að skreppa út í 5 mínútna rabb. Hún hefði síðan farið heim og hefði fyrrverandi kærasti hennar komið þangað. Hún hefði verið hrædd vegna þess að þetta væri „svona gaur“, en hann hefði hvatt hana til að hringja á lögregluna og láta gaurinn ekki hræða sig. Þá kom fram hjá brotaþola að ákærði hefði verið með dóp og hefði hann gefið henni að prófa pínulítið. 

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að rennilás á gallabuxum brotaþola hafi verið slitinn. Lýst er áverkum vinstra megin á hálsi brotaþola, en þar hafi verið örlitlar „petechiur“, örfáir blettir á tveimur svæðum, um 6 til 7 ofar og utar og 5 til 6 innar, sem geti samrýmst lýsingu brotaþola á hálstaki. Er þessu nánar lýst í niðurstöðukafla skýrsl­unnar, þar sem kemur m.a. fram að brotaþoli hafi verið rauð á hálsi og örlitlar „petechiur“, örfáir blettir á hálssvæði, sem að framan greinir. Er tekið fram að frekara mar geti átt eftir að koma fram. Engir áverkar hafi verið sjáanlegir á kynfærum, en roði hafi verið á ytri börmum. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli hafi mælst 176 senti­metrar á hæð og vegið 54 kg.

                Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun sem ákærði gekkst undir í kjölfar hand­töku kemur fram að hann hafi verið með tvær grannar húðrispur vinstra megin á hálsi, en ekki önnur áverkamerki. Tekið er fram að ákærði hafi mælst 186 sentimetrar á hæð og vegið 126 kg.

                A gaf skýrslu hjá lögreglu sunnudagskvöldið 22. apríl 2012 klukkan 20:47. Hún kvaðst hafa verið í heimahúsi í [...] með þremur vinum sínum um nóttina. Þau hefðu verið að hlusta á tónlist og hefði hún drukkið nokkra bjóra. Ákærði hefði hringt í hana klukkan 6:22 um morguninn, en hún hefði ekki svarað fyrr en hann hringdi aftur klukkan 6:31. Hefði ákærði sagt henni að hann væri nýkominn úr jarðarför vinar síns á Englandi og vildi fá að hitta hana. A kvað þau ákærða hafa verið vini í um eins árs skeið og töluðu þau saman á rússnesku. Hún kvaðst hafa verið treg til að hitta ákærða, en samþykkt það um síðir og hefðu þau mælt sér mót við verslun í nágrenninu. Hann hefði hringt í hana klukkan 7:19 og sagst vera við verslunina. Hún hefði farið að hitta hann, en hann hefði verið í bifreið með vini sínum og vinkonu hans og hefði ákærði setið í aftursætinu. Þeim ákærða hefði verið ekið að [...] og hefðu þau farið í íbúð hans þar. Þau hefðu sest þar við borð og spjallað saman og hefði ákærði verið með kókaín sem þau hefðu fengið sér af. Þau hefðu bæði verið þreytt og því lagst upp í rúm. Þá hefði ákærði farið að klóra henni um bakið innanklæða og niður á rass. Hún hefði sagt honum að hún vildi ekkert „vesen“ þar sem hún ætti kærasta. Ákærði hefði spurt hana hvort hún vildi hafa kyn­ferðis­mök, en hún hefði neitað því. Hann hefði gengið á eftir henni, en hún marg­neitað honum. Ákærði hefði þá sagt að hún fengi ekki að yfirgefa íbúðina og að hann myndi henda henni nakinni út ef hún svæfi ekki hjá honum. Hann hefði sagt að hann ætlaði að „ríða“ og að hann ætlaði að gera það sem hann vildi. Þegar hún hefði sagt að hún vildi það ekki hefði hann sagt að honum væri „skítsama“. A kvaðst hafa reynt að róa ákærða niður og hefði hún gengið að dyrunum og ætlað út. Ákærði hefði hins vegar komið á eftir henni og ýtt henni að rúminu. Hún kvaðst hafa verið farin að gráta þegar þarna var. Ákærði hefði heimtað að hún færi úr fötunum og sagst þekkja fólk sem gæti unnið henni mein. Hann hefði spurt hana hvort hún vildi eiga við hann munn­mök, eða hvernig hún vildi hafa þetta, hvort hann ætti að „ríða henni í rassinn“, en hún hefði neitað því. Hann hefði síðan tekið um hendur hennar og ýtt henni á rúmið. Hún hefði ekki þorað að streitast á móti þar sem ákærði væri miklu stærri og sterkari en hún. Hann hefði skipað henni að hætta að væla og tekið hana kverkataki með annarri hendinni svo að hún gat ekki andað. Þetta hefði hann gert nokkrum sinnum. Síðan hefði hann afklætt hana. Hún hefði ekki þorað að streitast á móti þar sem hann hefði öskrað á hana. Hún hefði beðið hann um að nota smokk og hefði hann þá náð í smokk inn í skáp, sett hann á sig, lagst á bakið og skipað henni að setjast ofan á liminn. Þau hefðu haft samfarir þannig í smástund, en hann hefði síðan velt henni á bakið, tekið af sér smokkinn og hent honum á rúmið. Hann hefði haft við hana samræði þar sem hún lá á bakinu, en síðan tekið liminn úr leggöngum hennar, fróað sér og fengið sáðlát ofan á sæng í rúminu. Ákærði hefði síðan viljað kyssa hana og haft á orði að annars myndi hann kalla í vini sína, sem myndu skemmta sér kynferðis­lega með henni og taka upp á myndband. Hún hefði ekki þorað annað en að kyssa hann. Ákærði hefði síðan sagt henni að fara þar sem hann væri „búinn með hana“ og hefði hann hringt á leigubifreið fyrir hana. Hún hefði farið heim til E vinar síns, þar sem hún hafði verið um nóttina, og sótt símann sinn, greiðslukort o.fl., sem hefði orðið þar eftir. Síðan hefði hún hringt til B, kærasta síns, og beðið hann um að sækja sig. A kvað ákærða hafa haft í hótunum við sig á meðan á kynferðis­mök­unum stóð. Hann hefði sagst geta fengið fólk til að meiða hana. Þá hefði hann skipað henni að þegja, en hún hefði metið það svo að hún myndi taka óþarfa áhættu á því að verða meidd illa ef hún kallaði á hjálp. Hún kvað ákærða hafa tekið sig kverka­taki nokkrum sinnum, auk þess sem hann hefði haldið fast um úlnliði hennar á meðan á kyn­ferðis­mökunum stóð. Hún kvað þau engin kynferðisleg samskipti hafa haft fyrir þennan atburð. Þá kvað hún ákærða hafa rifið rennilásinn á buxunum hennar þegar hann afklæddi hana. Skýrslutaka af A var tekin upp í hljóði og mynd og kemur fram á upptöku að hún lýsti þar og sýndi hvernig ákærði hefði togað í sundur buxna­klauf­ina og rifið rennilásinn. Af upptökunni verður þó ekki greint hvert ástand renni­láss­ins var. 

                Ákærði var yfirheyrður af lögreglu sunnudagskvöldið 22. apríl 2012. Hann greindi svo frá að A hefði hringt í hann um klukkan fjögur aðfaranótt sunnu­dags. Nánar spurður kvaðst hann hafa reynt að ná símasambandi við hana fyrr um nóttina og hefði hún síðan hringt til baka. Hann kvað A hafa spurt hvort hann væri ekki að skemmta sér og hvort þau gætu hist. Ekki væri rétt að hann hefði sagst vera nýkominn frá Englandi þar sem hann hefði fylgt vini sínum til grafar. Hann kvaðst hafa farið ásamt vinum sínum, F og G, að sækja A um sex eða sjö leytið um morguninn. Þau hefðu farið saman heim til hans, talað þar saman og haft kyn­ferðis­mök. Síðan hefði A beðið hann um að hringja á leigubifreið fyrir sig, sem hann hefði gert og hefði hún farið um klukkan 11 um morguninn. Ákærði kvað kynferðis­mökin hafa verið með vilja A. Þau hefðu þekkst um tveggja ára skeið og nokkrum sinnum haft kynferðismök. Hann kvaðst hafa látið A fá 5.000 krónur til að greiða fyrir fargjaldið með leigubifreiðinni. Hann vísaði því alfarið á bug að hafa haft í hótunum við stúlkuna eða beitt hana nauðung, eins og hún hefði lýst. Nánar spurður um farsímanotkun kvaðst hann hafa hringt til vinkonu sinnar, sem hefði pantað leigubifreiðina fyrir A. Ákærði var yfirheyrður á ný 24. ágúst 2012. Hann greindi þá frá því að vinur hans hefði fengið símtal frá manni sem hefði sagt að A myndi breyta framburði sínum ef ákærði greiddi 2.000.000 króna og myndi málinu þá vera lokið. Ákærði kvað þau A hafa haft kynferðismök í eitt eða tvö skipti áður, á afmælisdegi hans fyrir ári síðan. Þá kannaðist hann ekki við að hafa rifið rennilás á buxum A og kvað hana sjálfa hafa afklæðst.

Meðal rannsóknargagna málsins er matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eitur­efna­fræði, dagsett 29. júní 2012, vegna rannsóknar á blóðsýnum sem tekin voru úr brota­þola við réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku klukkan 17:38 og 18:50 og þvagsýni, sem tekið var klukkan 17:38. Kemur þar fram að alkóhól hafi hvorki mælst í blóði né þvagi. Í þvagi hafi fundist kókaín, vímuefnið MDMA og kanna­bínón­íðar. Í blóði hafi mælst 45 ng/ml af kókaíni, 310 ng/ml af MDMA og 1,3 ng/ml af tetra­hýdró­kannabínóli. Segir í matsgerðinni að hlutaðeigandi hafi verið undir örvandi áhrifum kókaíns og MDMA og slævandi áhrifum tetrahýdrókannabínóls þegar blóð­sýni var tekið klukkan 17:38.

Þá liggja fyrir skýrslur tæknideildar lögreglu, m.a. um rannsókn á sýnum sem tekin voru frá brotaþola á Neyðarmóttöku, úr munni og kynfærum, en fram kemur að engar sáðfrumur voru þar sjáanlegar. Sýni úr klofbót nærbuxna gaf jákvæða svörun við sæðisprófi, en engar sáðfrumur fundust við smásjárskoðun. Skýrsla um rannsókn á vett­vangi í íbúð ákærða að [...] liggur fyrir og fylgja henni ljósmyndir. Var lagt hald á rúmlak og notaða verju, sem fannst í ruslafötu í eldhúsi. Blettir á lakinu gáfu ekki jákvæða svörun við sæðisprófum. Sýni sem tekið var úr innanverðri hlið verjunnar gaf hins vegar jákvæða svörun sem sæði og voru sáðfrumur til staðar í smásjársýni.  

                Í málinu er skýrsla lögreglu um samskipti milli síma ákærða og A að morgni 22. apríl 2012 og kemur fram að hringt var úr síma ákærða í síma A klukkan 6:21, en því símtali virðist ekki hafa verið svarað. Næst hafi verið hringt úr síma A í síma ákærða klukkan 6:30 og hafi sú tenging varað í 3 mínútur og 29 sekúndur. Frá þeim tíma og til klukkan 7:17 hafi sjö tengingar verið á milli síma þeirra, en engin eftir það.

                Þá er í málinu vottorð H, hjúkrunarfræðings á geðsviði Landspítala, dagsett 29. ágúst 2013, þar sem kemur fram að A hafi sótt fimm viðtöl á deildinni frá 25. apríl 2012 til 10. júlí 2013. Kemur fram að allt viðmót A bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og lífshættu í kjölfar meintrar nauðgunar. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að hún hafi þjáðst af áfallastreituröskun eftir atburðinn. Sálræn einkenni hennar samsvari einkennum sem þekkt séu hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Þá kemur fram að A hafi ávallt virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér í viðtölum.

                Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði kvaðst hafa verið í ökuferð með vini sínum, F, og vinkonu hans. Hefði hann hringt til A til að bjóða henni í heimsókn, en hún hefði ekki svarað. Hún hefði síðan hringt til baka, þau hefðu mælt sér mót og hist um klukkan sex eða sjö um morguninn. Þau hefðu farið saman að heimili ákærða að [...]. Það hefði farið vel á með þeim. Þau hefðu setið við borð í eldhúsi og drukkið bjór. A hefði dregið kókaín upp úr vasanum og fengið sér af því. Ákærði kvað þau hafa setið og spjallað saman í rúman klukkutíma. Síðan hefðu þau farið inn í svefnherbergi og horft á myndband í sjónvarpi. Þau hefðu síðan farið að kyssast. A hefði klætt sig úr fötunum og hjálpað honum að afklæðast. Þau hefðu haft kynferðismök, en ákærði kvað sér ekki hafa orðið sáðfall. Eftir þetta hefði A sagst þurfa að fara heim vegna þess að móðir hennar ætti afmæli. Hún hefði sagt honum að hún ætti ekki peninga til að greiða fyrir leigubifreið. Hann hefði hringt á leigubifreið fyrir hana og látið hana fá 5.000 krónur fyrir farinu. Ákærði kvaðst hafa orðið mjög hissa þegar lögreglumenn komu á heimili hans síðar um daginn og hann var sakaður um að hafa nauðgað stúlkunni. Hann greindi frá því að eftir yfirheyrslu á lögreglu­stöð­inni hefði hann farið heim til nafngreinds vinar síns, sem hefði sagt honum að einhver hefði hringt til hans með þau skilaboð að ef ákærði greiddi 2.000.000 króna myndi málið ekki fara lengra. Ákærði kvaðst hafa þekkt A um þriggja ára skeið. Hann kvað þau hafa haft kynferðismök áður, í þrjú eða fjögur skipti. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að skemmdir yrðu á fatnaði stúlkunnar þegar hún klæddi sig úr. Hann hefði ekki séð rifinn rennilás á buxum hennar. Þá kvaðst hann ekki hafa skýringar á áverkum á hálsi hennar. Hann kvaðst hins vegar hafa þá skýringu á framburði stúlk­unnar að hún væri að reyna að hafa af honum fé, en hann hefði ákveðið að greiða henni ekki neitt.

A kvaðst hafa verið heima hjá E, vini sínum, þegar hún fékk símtal frá ákærða, sem sagðist vera með vinum sínum og spurði hvort þau gætu hist. A kvaðst hafa færst undan, en ákærði hefði sagt henni að honum liði illa og langaði til að tala við einhvern vegna þess að vinur hans, sem hefði búið á Englandi, hefði látist og væri hann nýkominn úr jarðarförinni. Hún kvaðst hafa fallist á að hitta ákærða og hefði hann komið að sækja hana á bifreið með manni sem heiti F og stúlku sem hún þekkti ekki. F og stúlkan hefðu ekið þeim ákærða að heimili hans í Hafnarfirði og þau hefðu farið þar inn. A tók fram að hún hefði ekki gert ráð fyrir því að vera lengi í þessari för og hefði hún skilið töskuna sína, húslykla og veski eftir hjá E. Hún hefði þó verið með farsíma sinn meðferðis.

A lýsti því að þau ákærði hefðu sest við borð í íbúð hans og hefði ákærði fengið sér bjór. Hann hefði boðið henni kókaín og hún þegið „nokkrar línur“. Þá hefði ákærði gefið henni hvíta töflu, sem hann hefði sagt að myndi hafa góð áhrif og hefði hann sjálfur tekið slíka töflu. Þau hefðu spjallað saman um stund, en hana hefði verið farið að syfja. Hún hefði viljað fara heim og ætlað að hringja og láta sækja sig, en sím­inn hennar hefði þá verið rafmagnslaus. Ákærði hefði beðið hana um að staldra við og lofað að útvega henni far heim. Hún hefði farið á salerni og beðið ákærða að athuga með bifreiðina þegar hún kom út aftur. Hann hefði sagt henni að allt væri í lagi með farið. Síðan hefði ákærði farið að reyna við hana. Hún kvað hann hafa gjörbreyst er þarna var komið og hefði hún ekki þekkt hann sem sama mann. Það hefði verið eins og hann breyttist í skepnu. Ákærði hefði sagt við hana að „það myndi fara eins og hann vildi“. Hann hefði sagt við hana að ef hún hlýddi honum ekki gæti hann fengið fólk sem hann þekkti til að vinna henni mein. Hún kvaðst hafa farið að gráta, en hann hefði sagt henni að þegja. Hún hefði reynt að fara út, en hann hefði hindrað hana og lokað dyrunum fyrir henni. Hún kvaðst hafa sest á rúmið og hefði hann sest við hlið hennar og spurt hana hvort hún vildi klæða sig úr sjálf eða hvort hann ætti að gera það. Hann hefði lagst í rúmið og hefði hún þá hlaupið að dyrunum, en þær hefðu reynst vera læstar. Ákærði hefði þá tekið hana hálstaki og hert að. A kvaðst hafa öskrað og reynt að ýta ákærða í burtu. Hann hefði sagt við hana að hún myndi hafa verra af ef hún hætti því ekki. A tók fram að hún væri miklu minni en ákærði og því hefði hún bara beðið eftir því sem myndi gerast næst. Ákærði hefði sagt við hana að því fyrr sem þetta byrjaði því fyrr yrði það búið, hann ætlaði að gera það sem hann vildi hvort eð er. Hún kvaðst hafa sest á rúmið. Ákærði hefði þá komið að henni og byrjað að rífa hana úr buxunum og við það hefði rennilásinn rifnað. Lýsti hún því nánar fyrir dóm­inum að ákærði hefði tekið í buxurnar beggja vegna við buxnaklaufina og togað í sundur. Hún kvaðst þá hafa sagt honum að hún skyldi gera þetta sjálf. Hún hefði grátið á meðan hún afklæddist og beðið hann að fá að fara, en hann hefði ekki sinnt því. Þegar hún hefði lokið við að afklæðast hefði ákærði beðið hana að hafa við sig munn­mök. Henni hefði fundist það viðbjóðslegt og sagt honum að hún vildi það ekki. Þá hefði ákærði sagt að hann ætlaði að „ríða“ henni og hefði hann sagt henni að fara ofan á sig. Hún kvaðst hafa beðið hann um að nota smokk og hefði hann orðið við því. Hún hefði síðan farið ofan á hann og þau haft samfarir þannig, en hún hefði verið grátandi á meðan. Ákærði hefði sagt henni að hætta að gráta og tekið hana hálstaki svo að hún missti andann. Hún kvaðst hafa snúið andlitinu frá honum og haldið áfram að gráta. Hún hefði setið ofan á honum og eiginlega ekki verið að gera neitt. Ákærði hefði þá hent henni í rúmið og lagst ofan á hana. Hann hefði haldið áfram að hafa við hana samfarir þannig, þangað til hann fékk sáðlát og þá tekið af sér smokkinn. Eftir þetta hefði ákærði skipað henni að klæða sig og hafa sig á brott. Hann hefði hringt á leigubifreið fyrir hana og hún hefði flýtt sér út. A kvaðst hafa beðið leigu­bif­reiðar­stjórann að aka sér heim til E, þar sem hún hefði verið fyrr um nóttina. Hún kvaðst hafa setið í framsætinu við hlið leigubifreiðarstjórans og hefði hún grátið, en snúið andlitinu frá bifreiðarstjóranum. Þegar þau komu að heimili E hefði hún hlaupið upp í íbúðina og fengið 5.000 krónur hjá E svo að hún gæti greitt fyrir leigu­bifreiðina. Hún hefði síðan sest niður hjá E og farið að gráta. Hún hefði ekki vitað hvað hún ætti að gera, en loks hringt í B, sem hefði hitt hana heima hjá henni. Þau hefðu síðan ákveðið að hringja til lögreglunnar. A kvaðst hafa litið á ákærða sem kunningja, en þau hefðu átt sameiginlega vini og hefði hún oft hitt hann í partíum. Hún neitaði því að þau hefði átt einhver kynferðisleg samskipti fyrir þennan atburð. Þá kvað hún ákærða ekki hafa látið hana hafa peninga fyrir leigubifreiðinni.

A kvað andlega og líkamlega líðan sína hafa verið skelfilega eftir atburð­inn. Hún kvaðst hafa fundið fyrir miklum ótta er ákærði tók hana hálstaki. Þá hefði líðan hennar gjörbreyst. Hún treysti ekki fólki og væri hrædd við að fara út á kvöldin. Hún kvaðst telja að þessar hugsanir myndu búa með henni alla ævi.

A kvað ákærða hafa tekið hana hálstaki oftar en einu sinni og lýsti því þannig að hann hefði tekið fast um háls hennar með annarri hendinni. Þá hefði hann öskrað nokkrum sinnum á hana, en það hefði ekki verið hátt. Nánar spurð um atburða­rásina kvaðst hún hafa afklæðst sjálf vegna þess að hún hefði ekki viljað að ákærði rifi fötin hennar. Þegar lýsingar hennar í lögregluskýrslu voru bornar undir hana kvaðst hún hafa farið sjálf úr fötunum eftir að ákærði hótaði henni. Borið var undir A það sem komið hafði fram hjá henni við skýrslutöku hjá lögreglu, að ákærði hefði afklætt hana. Kvað hún sig minna að hún hefði sjálf farið úr fötunum, en ekki útiloka að ákærði hefði aðstoðað hana við það. Bornar voru undir A lýsingar hennar í lögregluskýrslu þar sem kom fram að kynferðismökunum hefði lokið með því að ákærði hefði tekið af sér smokkinn, fróað sér og fengið sáðfall á sængina. Hún kvaðst muna þetta þannig nú að ákærði hefði fengið sáðfall í smokkinn. Hún kvaðst minnast þess að ákærði hefði verið án smokks einhvern tíma á meðan á kynferðismökunum stóð, en ekki hvenær það var. Hún tók fram að hún teldi sig hafa munað atvik betur þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Hún kvaðst telja það sem komi fram í lögreglu­skýrslu, sem hún gaf nokkrum klukkustundum eftir atburðinn, vera nær raunveru­leik­anum en það sem kæmi fram hjá henni fyrir dóminum. Þá kvaðst hún muna atvik í stórum dráttum nú en ekki í smáatriðum. A kvaðst ekki hafa fundið til vímuáhrifa þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Hún kvaðst hafa tekið inn vímuefnið MDMA nokkrum klukkustundum áður en ákærði hringdi til hennar. Þá hefði hún reykt kannabis í síðasta lagi daginn áður.

Spurð hvort hún myndi eftir því að þau ákærði hefðu legið saman uppi í rúmi og verið að „kúra“ svaraði A að það geti verið að þau hafi legið saman uppi í rúmi, en þau hefðu þó ekki verið að snerta hvort annað. Nánar spurð kvaðst hún muna eftir því að þau ákærði hefðu legið í rúminu, en ekki því að hann hefði farið að klóra henni á bakinu, eins og hún hafði lýst við skýrslutöku hjá lögreglu. Hún kvaðst þó ekki útiloka að það hefði gerst. 

A var spurð um samband þeirra B og kvað hún þau vera kærustu­par. Þau hefðu einnig verið kærustupar fyrir þennan atburð, en hlé hefði verið á sam­band­inu á þessum tíma. Þau hefðu verið „sundur og saman“ á þessum tíma.

I, móðir A, kvað dóttur sína hafa hringt til sín þennan dag og hefði hún hitt hana á Neyðarmóttöku. A hefði verið í „sjokki“, grátandi og ástand hennar hefði verið slæmt. Þá hefði þessi atburður haft slæm áhrif á hana til lengri tíma. Hún hefði þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar og taka róandi lyf. Hún hafi verið grátgjörn eftir að þetta gerðist og óttast mjög viðbrögð ákærða, sem vitninu skildist að tilheyrði einhverju „glæpagengi“. Hún kvaðst hvorki hafa tekið eftir því að föt A væru skemmd þegar þær ræddu saman á Neyðarmóttöku, né að hún væri með áverka.

B kvað A hafa hringt til sín þennan dag og hefði hann farið að hitta hana á heimili móður hennar. A hefði sagt honum hvað hefði gerst, m.a. að ákærði hefði tekið hana hálstaki. Hann kvaðst hafa hringt til yfirmanns síns til að leita ráða um hvað gera skyldi og hefði sá maður rætt við vin sinn í lögreglunni, sem hefði ráðlagt þeim að hringja til lögreglunnar. Þau hefðu gert það og hefði A grátið stanslaust á meðan þau biðu eftir lögreglunni. B kvaðst hafa merkt breyt­ingar í fari A eftir þennan atburð, einkum þannig að hún væri alltaf hrædd. Spurður kvaðst hann ekki hafa tekið eftir að rennilás á buxum hennar hefði verið rifinn í umrætt sinn.

                J leigubifreiðarstjóri kvaðst minnast þess að hafa ekið A frá [...] upp í [...] þennan dag. Hann kvaðst hafa skynjað að stúlkunni leið ekki vel og það hefði verið alveg klárt að eitthvað var ekki í lagi hjá henni. Hann hefði ekki merkt að hún væri grátandi, en taldi að stutt hefði verið í grátinn hjá henni. Borið var undir vitnið að komið hefði fram hjá honum við skýrslu­töku hjá lögreglu að stúlkan hefði hvorki verið í uppnámi né grátandi í umrætt sinn. Hann kvað það vera rétt, en hann hefði hins vegar skynjað að henni leið ekki vel. Hann kvaðst muna sérstaklega vel eftir þessari stúlku því að honum hefði fundist að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Vitnið kvaðst telja rétt vera, sem kemur fram í lögregluskýrslu sem tekin var af honum, að þegar komið var á áfangastað hefði stúlkan fengið að geyma símann sinn í bifreiðinni hjá honum, en farið inn í húsið til að sækja peninga til að greiða fyrir farið. 

E kvað A vera góða vinkonu sína og hefði hún verið heima hjá honum um nóttina fyrir atburðinn. Þau hefðu drukkið tvo bjóra eða svo. Seint um nóttina hefði A sagst ætla að stökkva út í stutta stund. Einhver hefði sótt hana, en hann hefði búist við henni aftur. Hún hefði hins vegar ekki komið aftur fyrr en daginn eftir. Þá hefði hún komið með leigubifreið og fengið peninga hjá honum til að greiða fyrir farið. Vitnið kvaðst strax hafa séð að eitthvað var að hjá henni. Hún hefði síðan brotnað saman og sagt honum grátandi hvað hefði gerst. Hún hefði síðan farið að hitta B, fyrrverandi kærasta sinn.

                Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að A hefði átt símasamskipti við ákærða, en kannaðist við að hún hefði sagt honum að ákærði hefði beðið hana um að hitta sig til að ræða um bróður sinn sem hefði dáið eða eitthvað slíkt. Hún hefði aðeins ætlað að fara út í 10 eða 15 mínútur og hefði hann haft áhyggjur af henni þegar hún sneri ekki aftur. Hún hefði skilið töskuna sína og aðra hluti eftir hjá honum því að hún hefði ætlað að koma fljótlega til baka. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu athugaverðu við fatnað A þegar hún kom til hans daginn eftir.

F kvaðst hafa verið í bifreiðinni með ákærða þegar þeir sóttu A. Hann kvaðst ekki hafa vitað til þess að ákærði og stúlkan „væru að sofa saman“, en hann hefði haft það á tilfinningunni. Vinkona hans hefði verið með þeim í bifreiðinni og hefðu þau skutlað ákærða og stúlkunni heim til ákærða.

C hjúkrunarfræðingur kvaðst hafa tekið á móti A við komu á Neyðarmóttöku og verið viðstödd læknisskoðun. Hún kvaðst hafa skráð það hjá sér að rennilás á buxum stúlkunnar hefði verið slitinn, en ekki muna það nú hvort hún sá rennilásinn, eða hvort hún hafði þetta eftir brotaþola. Buxurnar hefðu hvorki verið teknar til nánari skoðunar, né verið ljósmyndaðar. Vitnið kvað brotaþola hafa verið brugðið eftir það sem hefði gerst, en hún hefði verið í jafnvægi og frásögn hennar skýr. Hún kvaðst ekki hafa getað merkt að stúlkan væri undir áhrifum fíkniefna.

                D kvensjúkdómalæknir annaðist réttarlæknisfræðilega skoðun á A á Neyðarmóttöku. Hann kvað stúlkuna hafa komið sér fyrir sjónir sem væri hún döpur og hrædd. Ítrekað hefði komið fram hjá henni að hún væri hrædd við ákærða, sem hún sagði vera ógnvænlegan. Komið hefði fram að hún hefði verið treg að leggja fram kæru í málinu, en unnusti hennar hefði hvatt hana til þess. Vitnið kvað sér hafa fundist stúlkan trúverðug og hefði verið eðlilegt rennsli í frásögn hennar. Hann stað­festi að áverkamerki hefðu verið á hálsi stúlkunnar, eins og rakið er í skýrslu um læknis­skoðunina. Þetta hefðu verið litlar húðblæðingar á hálsi, sem komi eftir fast tak. Nokkuð átak þurfi til að svona far komi. Kröftugt handtak um hálsinn þurfi til að valda slíkum áverkum. Vitnið kvað áverkana vel geta samrýmst því að stúlkan hefði verið tekin hálstaki og hert að og að um væri að ræða för eftir fingur. Spurður kvað hann áverkana ekki hafa getað hlotist af því að stúlkan hefði rekið sig utan í eitthvað. Hann kvað athugasemd í skýrslunni um að rennilás hefði verið slitinn vera ritaða eftir upplýsingum hjúkrunarfræðings, sem hefði aðstoðað stúlkuna við að afklæðast. Hann kvaðst ekki muna til þess að hafa séð þennan rennilás. Vitnið kvaðst ekki hafa getað merkt að stúlkan hefði verið undir áhrifum vímuefna. Hann hefði skilið hana vel þótt hún talaði bjagaða íslensku og hefði hann ekki talið þörf á að fá túlk til aðstoðar.

H, hjúkrunarfræðingur á geðsviði Landspítala, staðfesti vottorð sitt sem liggur fyrir málinu. Hún kvað einkenni áfallastreituröskunar sem greindust hjá brotaþola tengjast þeim atburði sem hér um ræðir. Brotaþoli hefði greint frá því að minningar tengdar atburðinum hafi sótt á hana, hún forðist að hugsa um það sem gerðist og hafi haft svefntruflanir. Hún kvaðst þó telja batahorfur brotaþola góðar, en um væri að ræða stúlku með sterk bjargráð og aukið streituþol. Vitnið kvað það gjarnan verða að framburður brotaþola í kynferðisbrotamálum snúist um smáatriði í byrjun, en meira um atburðinn í heild er frá líður. Það sé vel þekkt að brotaþoli muni ekki allt sem gerðist eftir því sem tími líður og minningar um atburðinn verði oft ruglingslegar. Þannig geti tímaröð atburða brenglast, þar sem upp komi minningarbrot, en ekki sé víst að atburðarásin raðist rétt saman í minningunni.

K, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, gerði grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á blóðsýni frá brotaþola. Hún kvað vímuefni hafa mælst í blóðsýni sem tekið var klukkan 17:38 og hefði brotaþoli neytt þessara efna á síðastliðnum sólarhring. Vitnið hvað brotaþola að öllum líkindum hafa verið undir einhverjum áhrifum tetrahýdrókannabínóls og MDMA þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu um tveimur tímum eftir að sýnið var tekið, en tók fram að áhrifin myndu hafa verið minni en í matsgerðinni greinir. Vitnið kvað kókaín hverfa hratt úr blóði, en helmingunartími væri um 0,7 til 1,5 klukkustund.

L lögreglufulltrúi, sem annaðist skýrslutöku af brotaþola að kvöldi 22. apríl 2012, kvaðst ekki myndu hafa tekið af henni skýrslu ef hann hefði talið eitthvað athugavert við ástand hennar. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa séð rifinn rennilás á buxum stúlkunnar. Þá komu M og N, sérfræðingar í tæknideild lögreglu, fyrir dóminn og gerðu grein fyrir rannsókn sinni. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnanna.

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök og kveðst hafa haft samræði við A með hennar vilja. Ákærða og A ber ekki saman um tildrög þess að þau hittust morguninn sem um ræðir. Framburður A um að hún hafi verið treg til að hitta ákærða, en fallist á að ræða við hann í stutta stund um andlát vinar hans, fær stoð í framburði E og ber þeim saman um að hún hafi skilið handtösku sína og aðra muni eftir á heimili E, þar sem hún hefði ætlað að snúa þangað aftur fljótlega.

                A hefur borið að ákærði hafi þröngvað henni til samræðis með ofbeldi, hótunum og ólögmætri nauðung, svo sem í ákæru greinir. Hún gaf greinargóða lýsingu á atvikum við skýrslutöku hjá lögreglu sunnudagskvöldið 22. apríl 2012 og voru þær lýsingar í samræmi við frásögn hennar við hjúkrunarfræðing og lækni við réttar­læknis­fræðilega skoðun síðdegis þann dag. A greindi frá á nokkuð annan veg um ýmis atvik við aðalmeðferð málsins. Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti hún upphafi þess að ákærði hefði þröngvað henni til kynferðismaka þannig að þau hefðu legið saman uppi í rúmi þegar ákærði hefði farið að klóra henni um bakið innanklæða, niður á rass, og spurt hana hvort hún vildi hafa kynferðismök. Við aðalmeðferð málsins greindi hún hins vegar svo frá að hún hefði farið á salerni, en þegar hún hefði komið þaðan út hefði ákærði gjörbreyst og sagt að „það myndi fara eins og hann vildi“. Þá bar A fyrir dóminum að hún hefði sjálf afklæðst eftir að ákærði hefði tekið í buxurnar hennar og togað þær í sundur við rennilásinn, en hafði lýst því við skýrslutöku að ákærði hefði tekið hana úr fötunum. Loks bar hún að ákærði hefði notað smokk á meðan á kynferðismökunum stóð, en hafði áður borið að hann hefði tekið af sér smokkinn undir lokin og fengið sáðlát í rúmið. Við aðalmeðferð málsins var A spurð um misræmi í framburði hennar að þessu leyti og kvaðst hún þá muna atvik í stórum dráttum, en ekki í smáatriðum. Hún kvaðst hafa munað atvik betur við skýrslutöku hjá lögreglu nokkrum klukkustundum eftir atburðinn. A kvaðst ekki hafa fundið til vímuáhrifa er hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Bar lögreglumanni sem annaðist skýrslutökuna, lækni og hjúkrunarfræðingi sem ræddu við hana á Neyðarmóttöku, saman um að hún hefði ekki virst vera undir vímuáhrifum og að frásögn hennar hafi verið skýr og greinargóð. Hafa dómendur skoðað hljóð- og myndbandsupptöku sem tekin var af skýrslu hennar hjá lögreglu og verður ekki af henni ráðið að vímuefni sem mældust í blóði stúlkunnar hafi haft áhrif á hæfni hennar til að gera grein fyrir málsatvikum. Er það mat dómsins að misræmi í framburði A um þau atvik sem rakin hafa verið skýrist af því að allnokkuð er liðið frá atburðinum. Vísast í því sambandi jafnframt til vitnisburður H hjúkrunarfræðings, sem rakinn hefur verið. Þá verður ekki talið að misræmi hafi verið í framburði stúlkunnar um þau atvik sem mesta þýðingu hafa í málinu og ákæra lýtur að.

                Frásögn A um að ákærði hafi tekið með hendi um háls hennar og hert að til að þvinga hana til kynferðismaka, fær stoð í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun og vætti D kvensjúkdómalæknis, um húðblæðingar á hálsi hennar. Þá bar A að ákærði hefði haldið höndum hennar og fær sú frásögn stoð í upplýsingum sem C hjúkrunarfræðingur skráði í skýrslu sína um mar á hendi hennar við endurkomu fjórum dögum eftir atburðinn. A bar jafnframt að ákærði hefði tekið í buxur hennar beggja vegna við rennilás og togað í sundur og hefði rennilásinn rifnað við þetta. Kemur fram í skýrslum Neyðarmóttöku að rennilás á buxum stúlkunnar hafi verið slitinn, auk þess sem hún greindi frá því við skýrslutöku hjá lögreglu. Ekki var gerður reki að því af hálfu lögreglu að rannsaka buxurnar til að upplýsa um ásigkomulag þeirra og hjúkrunarfræðingur og lögreglumaður sem annaðist skýrslutöku af stúlkunni treystu sér ekki til að fullyrða að þau hefðu séð rennilásinn. Þrátt fyrir það þykir óhætt að leggja til grundvallar að skemmdir hafi orðið á fatnaði stúlkunnar af völdum ákærða, líkt og tilgreint er í skýrslum Neyðarmóttöku, enda verður ráðið af gögnum málsins að hún reyndi ítrekað að koma upplýsingum um það á framfæri við upphaf rannsóknarinnar.  

                Leigubifreiðarstjóri sem ók A frá heimili ákærða bar við aðalmeðferð málsins að augljóst hefði verið að stúlkunni leið ekki vel og að eitthvað hefði verið að hjá henni. Þá báru E, B og I á þá lund að hún hefði verið niðurbrotin og grátandi eftir atburðinn. Miðað við framburð vitna um líðan stúlkunnar, sem og læknisfræðileg gögn um áverka hennar, þykir ótrúverðugur framburður ákærða um að hún hafi verið samþykk því að eiga við hann kynferðismök. Þá er staðhæfing ákærða um að hann hafi látið stúlkuna fá peninga til að greiða fyrir leigubifreiðina í andstöðu við framburð hennar, J leigubifreiðastjóra og E, sem rakinn hefur verið. Enn fremur hefur framburður ákærða um fyrri kynferðisleg samskipti við stúlkuna verið misvísandi, en hún hefur alfarið hafnað því að um slíkt hafi verið að ræða.

                Framburður A er trúverðugur að mati dómsins og þykir framangreint misræmi í frásögn hennar eiga sér eðlilegar skýringar, auk þess sem það varðar ekki þau atvik sem mesta þýðingu hafa í málinu og ákæra lýtur að. Áverkar á hálsi stúlkunnar og marblettur á framhandlegg styðja þá frásögn stúlkunnar að ákærði hafi tekið hana kverkataki og haldið um hendur hennar í því skyni að þröngva henni til kynferðismaka. Fær frásögn stúlkunnar þannig stoð í læknisfræðilegum gögnum og því sem lýst var um skemmdir á fatnaði hennar. Framburður ákærða er að sama skapi ótrúverðugur um tiltekin atriði, auk þess að vera í andstöðu við framangreind gögn málsins. Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn A til grundvallar í málinu. Þykir sannað að ákærði hafi með ofbeldi, hótunum og annars konar ólögmætri nauðung þröngvað A til samræðis svo sem í ákæru greinir. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar háttsemi hans við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði er fæddur árið 1981. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Hann er í máli þessu sakfelldur fyrir nauðgun. Var sú aðferð sem ákærði beitti, að taka stúlkuna ítrekað hálstaki og herða að, sérstaklega gróf. Samkvæmt því, og með vísan til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár og 6 mánuði.

                Réttargæslumaður hefur fyrir hönd A krafist miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur auk vaxta. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í málinu liggur fyrir vottorð hjúkrunarfræðings á geðsviði Landspítala þar sem kemur fram að brotið hafi valdið stúlkunni mikilli vanlíðan og hafi hún greinst með einkenni áfallastreituröskunar, þótt ráðið verði af vitnisburði hjúkrunarfræðingsins að batahorfur séu nokkuð góðar. Á stúlkan rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og þykja þær hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.

                Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 527.100 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 348.263 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 504.037 krónur í annan sakarkostnað.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

Dóminn kveða upp Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, Ingiríður Lúðvíksdóttir og Eiríkur Jónsson, settir héraðsdómarar.

Dómsorð:

                Ákærði, Gintaras Bloviesciu, sæti fangelsi í 3 ár og 6 mánuði.

                Ákærði greiði A 1.200.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. apríl til 24. september 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 527.100 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 348.263 krónur, og 504.037 krónur í annan sakarkostnað.