Print

Mál nr. 221/2004

Lykilorð
  • Aflaheimild
  • Aflahlutdeild
  • Fiskveiðistjórn
  • Stjórnarskrá
  • Jafnræðisregla
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. nóvember 2004.

Nr. 221/2004.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.

 Sigurður R. Arnalds hdl.)

gegn

Loðnuvinnslunni hf.

(Kristján Þorbergsson hrl.

 Jóhannes Bjarni Björnsson hdl.)

og gagnsök

 

Aflaheimildir. Aflahlutdeild. Fiskveiðistjórn. Stjórnarskrá. Jafnræðisregla. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

 

Ekki var fallist á með L að það hafi verið andstætt jafnræðisreglu stjórnarskrár að láta ákvörðun aflahlutdeildar í norsk-íslenska síldarstofninum ráðast af veiðireynslu sökum þess áskilnaðar að skip, sem hana mynduðu, hafi frá árinu 1996 þurft að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þá þóttu ekki efni til að líta svo á að brotið væri gegn jafnræðisreglu með því að miða við veiðireynslu alls tímabilsins frá 1994 til og með 2001, við úthlutun veiðiheimilda úr stofninum, en ekki t.d. þriggja bestu veiðitímabila á undangengnum sex veiðitímabilum. Varakröfu L um ógildingu á úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins, þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu um að taka ekki mið af töfum skips L frá veiðum á árinu 2001 við úthlutun aflahlutdeildar, var svo vanreifuð af hendi L að óhjákvæmilegt var að vísa þeirri kröfu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2004. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 5. júlí 2004. Hann krefst þess aðallega að ógilt verði með dómi ákvörðun Fiskistofu 22. maí 2002 um aflahlutdeild skips hans, Hoffells SU 80, eftir ákvæðum reglugerðar nr. 348/2002 um úthlutun aflahlutdeildar og aflamarks í norsk-íslenskri síld, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

I.

Samkvæmt málatilbúnaði aðilanna hófu íslensk fiskiskip veiðar á árinu 1994 úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir áralangt hlé. Að því leyti, sem þessar veiðar fóru fram utan íslenskrar fiskveiðilögsögu, voru ekki settar skorður við þeim, en á þeim tíma giltu ákvæði reglugerðar nr. 471/1994 um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands, sem sett var með stoð í þágildandi lögum nr. 34/1976 um sama efni. Í reglugerð nr. 310/1995 um takmörkun á veiðum íslenskra skipa úr norsk-íslenska vorgotssíldarstofninum var kveðið á um heildarafla, sem heimilt var að veiða á tímabilinu frá 2. júní 1995 til 1. janúar 1996, hvort sem það var gert innan fiskveiðilandhelgi eða utan hennar. Einnig var þar mælt fyrir um skiptingu aflamarks milli skipa eftir nánari reglum, sem tóku mið af fjölda skipanna og burðargetu, en í þessum efnum komu þau skip ein til álita, sem landað höfðu síld úr umræddum stofni í maí 1995. Með reglugerð nr. 188/1996 um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 1996, sem leyst var af hólmi með reglugerð nr. 248/1996, var áskilið að skip hefðu leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. þágildandi 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Kveðið var á um leyfilegan heildarafla, sem skipt yrði milli skipa eftir líkum reglum og áður var getið. Fyrir liggur í málinu að Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, sem síðar mun hafa verið sameinað öðru félagi undir nafni gagnáfrýjanda, fékk leyfi Fiskistofu 25. maí 1996 á grundvelli síðastnefndrar reglugerðar til síldveiða á togskipi og var hámarksafli þess ákveðinn 444 lestir. Virðist þessi heimild aðeins hafa verið nýtt til að veiða 21 lest. Félagið mun ekki hafa gert skip út til slíkra veiða árið eftir, en um þær gilti reglugerð nr. 190/1997 um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum 1997, sem sett var með stoð í lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Í þeirri reglugerð var kveðið á um að veiðarnar væru háðar leyfi Fiskistofu og aðeins heimilar skipum, sem leyfi hefðu til veiða í atvinnuskyni í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Ákveðinn var samanlagður hámarksafli, en ekki var ráðgert að honum yrði skipt milli einstakra skipa.

Í lögum nr. 38/1998 um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum voru settar reglur, sem gilda áttu árin 1998, 1999 og 2000, en með lögum nr. 159/2000 var ákveðið að þær næðu jafnframt til ársins 2001. Samkvæmt þeim voru veiðarnar sem fyrr háðar leyfi Fiskistofu og urðu skip að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands. Meginhluta árlegra veiðiheimilda átti að skipta milli skipa, sem stunduðu veiðar úr stofninum næstu þrjú árin á undan eða kæmu í stað skipa, sem það höfðu gert. Áttu 40% þessara veiðiheimilda að skiptast jafnt milli skipanna, en 60% hlutfallslega eftir burðargetu þeirra. Eftir að lög nr. 38/1998 tóku gildi mun Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hafa í september 1998 keypt að utan áðurnefnt fiskiskip, Hoffell SU 80, sem smíðað var árið 1981, og fengið fyrir það leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands. Á grundvelli fyrrnefndra veiða togskips félagsins á árinu 1996 fékk það jafnframt leyfi Fiskistofu til að nýta Hoffell til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir ákvæðum laga nr. 38/1998. Ekki liggur fyrir hversu mikið skipinu var heimilað að veiða á árinu 1999, en heildarafli þess úr þessum fiskistofni mun þá hafa orðið 3.894 lestir. Á árinu 2000 fékk skipið úthlutað aflamarki, sem nam 3.420 lestum, en af því mun það hafa veitt úr stofninum 1.720 lestir.

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga gerði 8. september 2000 verksamning við skipasmíðastöð í Póllandi um breytingar á fiskiskipinu Hoffelli. Í samningnum var ekki kveðið á um það í hverju verk þetta yrði fólgið, heldur var vísað um það til fylgigagna, sem ekki hafa verið lögð fram í málinu. Í héraðsdómsstefnu lýsti gagnáfrýjandi aðdragandanum að gerð þessa samnings þannig að skipið hafi ekki reynst eins og vonir stóðu til, þar sem vindur þess hafi sífellt bilað og það því verið mikið frá veiðum. Einnig hafi komið í ljós leki á þilfari og brú vegna tjóns á síðu skipsins, sem ekki hafi verið kunnugt um, en af því hafi hlotist miklar skemmdir á lestarklæðningu og innréttingum auk tæringar í lest og á brú. Hafi því orðið að ráðast í umfangsmiklar viðgerðir á skipinu með því að endurbæta spilkerfi þess og endurnýja það að hluta, fjarlægja alla tæringu og skipta um stál, endurnýja hluta lestarklæðningar og innréttinga vegna lekaskemmda og endurnýja brú vegna tæringar. Þá hafi verið komið fyrir sjúkraklefa og skipið lengt um 8 metra, meðal annars til að mæta aukinni þyngd þess og þörf á viðbótarrými fyrir sjúkraklefa, nýtt spilkerfi og stækkun lestar. Samkvæmt samningnum átti skipið að vera komið til skipasmíðastöðvarinnar í 1. viku ársins 2001, en verkinu að ljúka á 89 dögum eftir það. Þar var einnig kveðið meðal annars á um fjárhæð og greiðslu verklauna, heimildir til breytinga á verkinu og févíti ef dráttur yrði á verklokum. Fyrir liggur að verulegar tafir urðu á lokum verksins, sem tók alls 202 daga, en um ástæður þessa segir í bréfi skipasmíðastöðvarinnar 17. júlí 2002 að þurft hafi að vinna að umfangsmikilli endurnýjun á stáli vegna tæringar, sem ekki hafi verið fyrirséð, og frekari viðgerðum en ráðgert var á spilkerfi auk viðgerða á einangrun og klæðningu í hluta íbúðarrýmis skipsins. Gagnáfrýjandi kveður skipið fyrst hafa verið tilbúið til veiða á ný 10. ágúst 2001. Af þessum sökum mun skipið ekki hafa nýtt aflamark úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2001, sem það fékk úthlutað hjá Fiskistofu 4. maí á því ári, en aflamarkið nam 2.786 lestum.

Ákvæði laga nr. 38/1998, eins og þeim var breytt með lögum nr. 159/2000, giltu sem áður segir um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árunum 1998 til og með 2001. Að liðnum gildistíma laganna féll stjórn veiðanna undir almennar reglur laga nr. 151/1996, en þó þannig að samkvæmt bráðabirgðaákvæði við þau, sem sett var með 1. gr. laga nr. 50/2002, skyldi Fiskistofa úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum á grundvelli aflareynslu þeirra eða skipa, sem þau komu í stað fyrir, á árunum 1994 til 2001 að báðum árum meðtöldum. Nánari reglur voru settar um þetta í reglugerð nr. 348/2002. Með bréfi 7. maí 2002 tilkynnti Fiskistofa Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga um bráðabirgðaúthlutun aflamarks á því ári fyrir fiskiskipið Hoffell. Var aflahlutdeild áætluð eftir veiðireynslu skipsins á árunum 1999 og 2000, auk áðurnefndra veiða annars skips félagsins árið 1996, en því til samræmis var aflamark Hoffells ákveðið til bráðabirgða 478 tonn. Gagnáfrýjandi gerði athugasemdir við þessa ákvörðun 14. maí 2002 og krafðist leiðréttingar á útreikningi veiðireynslu skipsins með tilliti til tafa frá veiðum á árinu 2001, auk þess sem mótmælt var „breytingum á úthlutunarreglum skv. reglugerð nr. 348/2002 ... og þeirri skerðingu sem breytingarnar hafa á úthlutun á veiðiheimildum til útgerðarinnar.“ Fiskistofa hafnaði þessum athugasemdum með bréfi 24. maí 2002 og tilkynnti jafnframt 22. sama mánaðar um endanlega úthlutun aflahlutdeildar Hoffells í norsk-íslenskra síldarstofninum og aflamarks á því ári, en úthlutun þessi var á sama veg og áður hafði verið ákveðið til bráðabirgða. Gagnáfrýjandi kærði 22. júlí 2002 til sjávarútvegsráðuneytisins þá ákvörðun Fiskistofu að taka ekki tillit til tafa skipsins frá veiðum á tímabilinu frá 1. janúar til 10. ágúst 2001 við ákvörðun veiðireynslu á því ári í tengslum við úthlutun aflahlutdeildar. Með úrskurði 1. október 2002 hafnaði ráðuneytið því að fella ákvörðun Fiskistofu úr gildi.

Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta 25. febrúar 2004 aðallega til að fá fellda úr gildi fyrrgreinda ákvörðun Fiskistofu 22. maí 2002 um aflahlutdeild fiskiskipsins Hoffells í norsk-íslenska síldarstofninum, en til vara til ógildingar á úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins 1. október sama ár. Í hinum áfrýjaða dómi var aðalkröfu gagnáfrýjanda hafnað, en fallist á varakröfu hans.

II.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi reisir gagnáfrýjandi aðalkröfu sína á því að reglur þær, sem bjuggu að baki ákvörðun Fiskistofu 22. maí 2002 um aflahlutdeild skips hans í norsk-íslenska síldarstofninum, hafi í tilteknum atriðum verið andstæðar jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hann ber því ekki við að ákvæði þetta standi því almennt í vegi að löggjafinn geti mælt fyrir um að fiskveiðum verði stjórnað með úthlutun veiðiheimilda eða að slík úthlutun verði látin ráðast af veiðireynslu skipa. Á hinn bóginn hafi verið andstætt ákvæðinu að leggja til grundvallar reynslu af veiðum úr þessum fiskistofni, sem frá árinu 1996 voru háðar því skilyrði að skip hefðu leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands, en með því hafi verið komið í veg fyrir að útgerð, sem ekki réði yfir skipi með slíkt leyfi, gæti orðið sér úti um veiðireynslu á því tímabili. Hafi jafnframt verið í andstöðu við jafnræðisreglu þessa að láta veiðireynslu alls tímabilsins frá 1994 til 2001 ráða ákvörðun aflahlutdeildar vegna þeirrar mismununar, sem af þessu leiddi milli þeirra, sem nýlega höfðu fengið sér skip til þessara veiða, og hinna, sem stundað höfðu veiðarnar um lengri tíma.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á með gagnáfrýjanda að andstætt hafi verið 65. gr. stjórnarskrárinnar að láta ákvörðun aflahlutdeildar í norsk-íslenska síldarstofninum ráðast af veiðireynslu sökum þess áskilnaðar að skip, sem hana mynduðu, hafi frá árinu 1996 þurft að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Sem fyrr segir giltu ákvæði laga nr. 38/1998 með áorðnum breytingum um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árunum 1998 til 2001. Frá þeim tíma hafa þessar veiðar átt undir ákvæði laga nr. 151/1996. Þegar tekin var upp takmörkun heildarafla úr fiskistofni þessum og stjórnun veiðanna með úthlutun aflaheimilda eftir síðastnefndum lögum var sett við þau bráðabirgðaákvæði með 1. gr. laga nr. 50/2002. Samkvæmt því átti Fiskistofa eins og áður greinir að úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í samræmi við veiðireynslu þeirra eða skipa, sem þau komu í staðinn fyrir, á árunum 1994 til og með 2001. Með þessu var vikið frá almennri reglu 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, en samkvæmt henni skal miða aflahlutdeild einstakra skipa við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum ef tekin er ákvörðun um að koma á takmörkun heildarafla úr stofni, sem samfelld veiðireynsla er á og ekki hefur sætt slíkum takmörkunum fyrr. Það er á valdi löggjafans að velja milli kosta um hvernig ákveða eigi veiðireynslu við úthlutun aflaheimilda þegar til þeirra er gripið við stjórn veiða úr einstökum fiskistofnum, þótt dómstólar leysi úr því hvort lög, sem reist eru á slíku vali, samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Meðal þeirra atriða, sem löggjafinn getur látið ráða vali sínu í þessum efnum, er tillit til hagsmuna af atvinnu og fjárfestingum, sem bundnir hafa verið sjávarútvegi, og til reynslu og þekkingar því samfara, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 2000, bls. 1534. Sú leið, sem löggjafinn kaus að fara með setningu laga nr. 50/2002, er samrýmanleg þessu, þótt honum hafi einnig verið aðrar leiðir færar. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að líta svo á að reglur um úthlutun aflaheimilda í norsk-íslenska síldarstofninum hafi af þessum sökum falið í sér ómálefnalega mismunun og þannig verið andstæðar 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt framangreindu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu aðaláfrýjanda af aðalkröfu gagnáfrýjanda.

III.

Varakrafa gagnáfrýjanda er sem fyrr segir um ógildingu á úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins 1. október 2002, en þar var staðfest ákvörðun Fiskistofu 22. maí 2002 um að taka ekki mið af töfum fiskiskipsins Hoffells frá veiðum á tímabilinu 1. janúar til 10. ágúst 2001 við ákvörðun veiðireynslu þess á því ári í tengslum við úthlutun aflahlutdeildar í norsk-íslenska síldarstofninum. Telur gagnáfrýjandi þá niðurstöðu efnislega ranga þegar litið sé til ákvæðis 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996.

Í síðastnefndu lagaákvæði er að finna sérreglu, sem tekur til aðstæðna þegar ákveðið hefur verið að takmarka heildarafla úr fiskistofnum, sem veiðast bæði innan og utan fiskveiðilandhelgi Íslands og samfelld veiðireynsla er á, og stjórna veiðunum með úthlutun aflahlutdeildar til skipa með slíka reynslu. Sé svo ástatt að skip, sem þetta á við um, hafi tafist frá veiðum á viðmiðunartímabili samfellt í sex mánuði eða lengur vegna meiri háttar tjóns eða bilana skal við ákvörðun aflahlutdeildar reikna því afla á þeim tíma, sem frátafirnar urðu. Eftir hljóðan þessarar reglu getur hún því aðeins átt við að meiri háttar tjón eða bilanir hafi orðið á skipi og þetta valdið því að það hafi verið frá veiðum umræddan lágmarkstíma. Verður að hvíla á þeim, sem ber þessa sérreglu fyrir sig, að sýna fram á að skilyrðum hennar sé fullnægt ef bornar eru á það brigður. Í málinu andmælir aðaláfrýjandi því að skip gagnáfrýjanda hafi tafist frá veiðum frá 1. janúar til 10. ágúst 2001 af ástæðum, sem eigi undir lagaákvæði þetta.

Þótt fallast megi á með gagnáfrýjanda að 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 geti meðal annars náð til tilvika, þar sem útgerð ákveður að láta viðhald eða endurbætur fara fram samhliða viðgerð á meiri háttar tjóni eða bilunum, fær það því ekki breytt að skýra verður reglu þessa svo að slíkt tjón eða bilanir verða einar og sér að geta hafa valdið því að skip tefðist samfellt frá veiðum í minnst sex mánuði. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga gerði sem áður segir verksamning 8. september 2000 við erlenda skipasmíðastöð og var sá samningur eftir fyrirsögn sinni um breytingar á fiskiskipinu Hoffelli. Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda tók verk þetta ekki aðeins til viðgerða á bilunum og skemmdum á skipinu, sem hann telur mega rekja til tjóns á því, heldur einnig til breytinga og annarra endurbóta. Í málinu liggja ekki fyrir viðhlítandi gögn um hverjir þessir verkþættir voru nánar eða hversu langan tíma tók að ljúka hverjum þeirra. Enn síður hefur verið aflað sérfræðilegra gagna, sem styðjast mætti við til að greina milli verkþátta, sem tengdust viðgerð á meiri háttar bilunum og skemmdum vegna tjóns á skipinu, og þeirra, sem lutu að öðrum viðgerðum eða breytingum, svo og til að leggja mat á það hvort eðlilegt hafi verið að fyrrnefndu viðgerðirnar tækju þann tíma, sem skipið var frá veiðum. Af þessum sökum er málið svo vanreifað af hendi gagnáfrýjanda að óhjákvæmilegt er að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi að því er varðar varakröfu hans.

Eftir framangreindum úrslitum málsins verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu aðaláfrýjanda, íslenska ríkisins, af aðalkröfu gagnáfrýjanda, Loðnuvinnslunnar hf., um að ógilt verði með dómi ákvörðun Fiskistofu 22. maí 2002 um aflahlutdeild fiskiskips hans, Hoffells SU 80, í norsk-íslenska síldarstofninum.

Vísað er frá héraðsdómi varakröfu gagnáfrýjanda um ógildingu úrskurðar sjávarútvegsráðuneytisins 1. október 2002.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2004.

I

Mál þetta var þingfest 25. febrúar 2004 og dómtekið 27. apríl 2004.  Stefnandi er Loðnuvinnslan hf., kt. 581201-2650, Skólavegi 59, Fáskrúðsfirði, en stefndi er íslenska ríkið og er sjávarútvegsráðherra stefnt fyrir þess hönd.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að ógilt verði með dómi ákvörðun Fiskistofu 22. maí 2002 um aflahlutdeild skips stefnanda, Hoffells SU-80, skipaskrárnúmer 2345, í norsk-íslenskri síld, samkvæmt reglugerð nr. 348/2002, um úthlutun aflaheimilda í norsk-íslenskri síld, sbr. lög nr. 50/2002.

Til vara gerir stefnandi þá kröfu að ógiltur verði með dómi úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins frá 1. október 2002 um staðfestingu á ákvörðun Fiskistofu um að hafna að taka tillit til tafa Hoffells SU-80, skipaskrárnúmer 2345, frá veiðum 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001, samkvæmt. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, vegna viðgerða, við úthlutun aflaheimilda í norsk-íslenskri síld, samkvæmt reglugerð nr. 348/2002.

Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað varðandi aðal- og varakröfu sína.

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.  Til vara krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður.

Mál þetta sætir flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga nr 91/1991.

 

II

Stefnandi kveður forsögu málsins vera þá að eftir að útgerðum hafi gefist möguleiki á að hefja veiðar á síld og kolmunna utan íslensku lögsögunnar hafi hann hafið leit að skipi sem hentaði til þeirra veiða og hafi leitin miðað að því að finna nægilega öflugt skip.  Eftir nokkra leit fann stefnandi skip árið 1998 á Írlandi, sem byggt hafði verið í Hollandi 1981, og kveður stefnandi að það hafi verið í eigu sama aðilans frá upphafi.  Hafi það verið mikið endurnýjað, meðal annars með nýlega aðalvél, nýlegar togvindur og hjálparvindur ásamt nýlegum fiskileitartækjum.  Stefnandi keypti svo nefnt skip í september 1998 og fékk það nafnið Hoffell SU 80, skipaskrárnúmer 2345.

Stefnandi kveður skipið ekki hafa reynst eins vel og vonir stóðu til og hafi vindur þess sífellt verið að bila sem gert hafi það að verkum að skipið var mikið frá veiðum.  Þá hafi komið í ljós leki á þilfari og í brú sem rekja hafi mátt til þess að skipið hefði orðið fyrir tjóni, sem stefnanda hafi ekki verið kunnugt um, en gat hafi reynst vera á bakborðssíðu skipsins.  Það hafi orðið þess valdandi að sjór hafi átt greiða leið um ytra byrði skipsins inn undir dekkið sem hafi valdið miklum skemmdum á lestarklæðningu og innréttingum, auk ótímabærrar tæringar á lest og brú.

Kemur fram hjá stefnanda að á árinu 2000 hafi bilanir á spilkerfinu verið orðnar svo tíðar og kostnaðarsamar fyrir útgerðina, vegna viðgerða og tafa frá veiðum, að ekki hafi lengur verið við unað.  Þá hafi einnig legið fyrir að ráðast þyrfti í umfangsmikla viðgerð vegna skemmda á ytra byrði skipsins og tæringar á dekki og öðrum skemmdum af völdum sjós í skipinu sjálfu.  Hafi þessar skemmdir verið orðnar svo alvarlegar að flokkunarfélag skipsins veitt lokafrest til viðgerða á tæringartjóni fram til janúar 2001.  Þá hafi Siglingastofnun Íslands lagt þá kvöð á skipið að settur yrði upp sjúkraklefi í skipinu og hafði verið um kvöðina skráð í haffærisskíreini skipsins.  Þá hafi útgerðinni einnig verið tilkynnt um það að hún gæti ekki vænst þess að undanþága vegna þessa yrði framlengd.

Vegna ofangreindra bilana á spilkerfi og tjóns vegna tæringar hafi stefnandi ekki átt annan kost í stöðunni en að ráðast í umfangsmikla viðgerð á skipinu.  Var til verksins fengin skipasmíðastöð í Póllandi.  Var stöðinni falið að gera við spilkerfi skipsins og skipta hluta þess út.  Þá var henni falið að  fjarlægja alla tæringu og skipta um stál, endurnýja hluta lestarklæðningar og innréttingar vegna lekaskemmda, koma fyrir sjúkraklefa og endurnýja brú skipsins vegna tæringar.  Einnig hafi verið ákveðið við þetta tækifæri að lengja skipið um átta metra, meðal annars til að mæta aukinni þyngd skipsins og til að mæta þörf á viðbótarrými fyrir sjúkraklefa, nýtt spilkerfi og lestarrými.

Áætlaður tími vegna þessara viðgerða og endurbóta í Póllandi voru þrír  mánuðir og samkvæmt því hefði skipið átt að vera tilbúið að fara á síld og kolmunnaveiðar í byrjun apríl 2001 og hafi tímasetningin fyrir viðgerð verið valin út frá því.  Kveður stefnandi viðgerð hafa dregist úr hófi, aðallega vegna þess að bilanir í spilkerfi og tæringartjón hafi reynst meira en gert hafi verið ráð fyrir og hafi þessi dráttur leitt til þess að skipið missti af síldveiðivertíðinni árið 2001.  Viðgerð lauk síðan ekki fyrr en um miðjan júlí 2001 og var skipið ekki tilbúið til veiða fyrr en 10. ágúst 2001 er það hélt í sína fyrstu veiðiferð eftir viðgerðina.  Hafði skipið þá verið frá veiðum frá 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001 eða í sjö mánuði og tíu daga.

Samkvæmt gögnum málsins hafði stefnandi leyfi til veiða á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum, bundið við skip hans Hoffell eldra, alveg frá því að það var gert að skilyrði samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990 sbr. 1. gr. reglugerðar nr.  248/1996.  Á grundvelli þessa veiðileyfis var stefnanda kleift að hefja síldveiðar á hinu nýja Hoffelli áður en lög nr. 1/1999 um breytingu á  fiskveiðistjórnunarlögum tóku gildi í kjölfar dóms Hæstaréttar 3. desember 1998 í máli nr. 145/1998.  Var stefnandi í hópi þeirra sem veiðar stunduðu árin 1995, 1996 og 1997 og fengu skipt með sér 90% af þeim árlegu veiðiheimildum sem í hlut Íslands komu.

Hinn 29. apríl 2002 breytti Alþingi lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands á þá leið að Fiskistofu var gert að úthluta einstökum skipum varanlegri hlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum á grundvelli aflareynslu þeirra áranna 1994-2001 eins og fram kemur í lögum nr. 50/2002.

Á grundvelli reglugerðar nr. 348/2002 um úthlutun aflahlutdeildar og aflamarks í norsk-íslenskri síld, var stefnanda send bráðabirgðaúthlutun aflamarks vegna Hoffells SU-80 fyrir árið 2002 með bréfi 7. maí 2002.  Stefnandi gerði athugasemdir við úthlutun Fiskistofu með bréfi 14. maí 2002 og í því bréfi vísaði hann til röksemda sem fram komu vegna kæru á úthlutun á aflaheimildum í kolmunna í bréfi 3. apríl 2002.  Óskaði stefnandi þess að tekið yrði að fullu tillit til frátafa  Hoffells SU-80 vegna viðgerða á tímabilinu 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001.

Með bréfi Fiskistofu 22. maí 2002 var stefnanda send tilkynning um úthlutun aflaheimilda í norsk-íslenskri síld.  Með bréfi 24. maí 2002 var stefnanda tilkynnt um þá ákvörðun Fiskistofu að hafna því að taka tillit til frátafa bátsins frá veiðum vegna viðgerða á honum á ofangreindu tímabili. Byggði Fiskistofa á því að ekki hafi verið um meiri háttar tjón eða bilanir að ræða á skipi stefnanda í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, heldur endurbætur sem hafi þurft að gera á skipinu.

Hinn 22. júlí 2002 kærði stefnandi fyrrgreinda ákvörðun Fiskistofu frá 24. maí 2002 til sjávarútvegsráðuneytisins.  Byggði stefnandi kæruna á þeim rökum að skýring Fiskistofu á ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, um mat á því hvað væri meiri háttar tjón eða bilanir, fengi ekki staðist og væri til þess fallið að mismuna aðilum við úrlausn mála, þar sem ekki væri stuðst við hlutlægan mælikvarða laganna heldur frjálst mat Fiskistofu. Taldi stefnandi mikilvægt að ráðuneytið tæki undir sjónarmið um að við skýringar á ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 verði að leggja til grundvallar hlutlægan mælikvarða en ekki hafa úrlausn mála háða frjálsu mati úrlausnaraðilans eða geðþótta hans. Taldi stefnandi að málið snerist að þessu leyti um góða stjórnsýsluhætti og að ávallt skuli leitast við að hafa skýrar og hlutlægar reglur við úrlausn og mat réttinda.

Með bréfi 8. ágúst 2002 gerði Fiskistofa athugasemdir við kæru stefnanda og kemur þar fram það mat Fiskistofu að unnt hefði verið að gera við Hoffell SU-80 á mun skemmri tíma en sex mánuðum.  Þá taldi Fiskistofa að tjón af völdum tæringar, eins og því sé lýst í stjórnsýslukæru stefnanda, geti ekki talist tjón í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, heldur hafi fremur verið um slit að ræða sem nauðsynlegt hefði verið að bæta úr. 

Stefnandi mótmælti framangreindu mati Fiskistofu með bréfi 14. ágúst 2002 og hafnaði því alfarið að hægt hefði verið að gera við umrædda bilun í spilkerfi skipsins á styttri tíma en sex mánuðum og taldi það ekki vera í verkahring Fiskistofu að meta áætlaðan viðgerðartíma fiskiskipa.  Bent var á að stefnandi hefði í stjórnsýslukæru sinni útlistað nákvæmlega hvað hafi valdið því að umrædd viðgerð hafi tekið svo langan tíma sem raun bar vitni.  Þá  mótmælti stefnandi þeirri staðhæfingu Fiskistofu að tjón vegna tæringar væri ekki eiginlegt tjón heldur væri það vegna slits sem nauðsynlegt hafi verið að bæta úr.

Hinn  1. október 2002 úrskurðaði sjávarútvegsráðuneytið í máli stefnanda og taldi ráðuneytið 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, vera undantekningareglu frá þeirri meginreglu að við útreikning aflahlutdeildar skyldi miðað við veiðireynslu viðkomandi skips og því bæri að skýra þá reglu þröngt.  Taldi ráðuneytið að við þá skýringu á ákvæðinu skipti aðdragandi bilana máli og taldi að þar sem aðdragandi bilana í máli stefnanda hafi verið langur eigi hann ekki rétt á því að fá metnar frátafir vegna viðgerða. 

Með bréfi 23. október 2003 óskaði stefnandi eftir því við Fiskistofu að fá afrit af gögnum sem vörðuðu úthlutun á aflahlutdeild til togarans Venusar HF-519 í úthafskarfa og hvernig leyst hefði verið úr töfum skipsins frá veiðum vegna bruna árið 1994.  Með bréfi 30. október 2003 sendi sjávarútvegsráðuneytið stefnanda umbeðin gögn.

Stefnandi kveður atvik í því máli þau að togarinn Venus HF-519 hafi orðið fyrir tjóni í eldsvoða 24. apríl 1994.  Samkvæmt grein í Morgunblaðinu 18. maí 1994 hafi komið fram að allar innréttingar skipsins væru ónýtar og vinnslulínan illa farin.  Kom fram að skipið hefði verið búið að veiða mikið af kvóta sínum í úthafskarfa árið 1994 er tjónið varð.   Eigandi skipsins, Hvalur hf., hafi í kjölfarið hafið leit að nýju skipi án árangurs og hafi ákveðið í maí 1995 að senda skipið til Póllands til viðgerða.

Hinn 3. janúar 1996 hafi birst grein í Morgunblaðinu þar sem fram kom að togarinn Venus væri kominn heim eftir viðgerð og gagngerar endurbætur.  Í grein þessari hafi verið sagt frá því að fyrrgreindur togari hefði verið lengdur um níu metra og innréttaður upp á nýtt.  Skipt hafi verið um skrúfu, skrúfuhring, ljósavél og gír við aðalvél.  Þá hafi millidekk verið hækkað um 40 sentímetra og skipið málað og sandblásið að innan.  Þá kemur fram í sömu grein að eftir áramót eigi að hefjast vinna við að setja nýjan fiskvinnslubúnað í skipið og sé áætlað að framkvæmdum ljúki í lok janúar eða byrjun febrúar og verði skipið þá strax sent á veiðar.

Með bréfi 24. febrúar 1997 mótmælti Hvalur hf. bráðabirgðaúthlutun Fiskistofu frá 7. febrúar 1997 á úthafskarfa og er ein af röksemdum félagsins sú að umrætt skip hafi verið frá veiðum á tímabilinu frá 24. apríl 1994 til febrúar 1996 vegna meiri háttar tjóns.  Með bréfi 11. mars 1997 féllst Fiskistofa á röksemdir Hvals hf. um að Venus hafi tafist frá úthafskarfaveiðum hluta ársins 1994 og allt árið 1995, en telur að skipið hafi ekki tafist frá veiðum árið 1996 þar sem úthafskarfaveiðar hafi ekki verið byrjaðar í febrúar er skipið var orðið klárt til veiða.  Niðurstaða Fiskistofu að þessu leyti var staðfest af sjávarútvegsráðuneytinu með úrskurði 29. júlí 1997 og fékk Hvalur hf. viðurkenndar frátafir fyrir hluta ársins 1994 og allt árið 1995.

Stefnandi aflaði skýrslu frá Ráðgarði, Skiparáðgjöf ehf. þar sem samanburður var gerður á aðdraganda að og ástæðum fyrir endurbyggingu skipanna Venusar HF-519 og Hoffells SU-80 og er skýrslan dagsett 5. apríl 2004 og undirrituð af Bolla Magnússyni en meðhöfundur skýrslunnar er Daníel Friðriksson.

Með hliðsjón af aðalkröfu stefnanda þykir rétt að rekja nokkuð málavexti varðandi þróun laga um síldveiðar og úthlutun á aflahlutdeild í norsk-íslensku síldinni svo sem stefnandi gerir í stefnu sinni.  Eins og þar kemur fram var fiskveiðilandhelgi Íslands færð út í 200 mílur með reglugerð nr. 299/1975 um fiskveiðilandhelgi Íslands, sem tók gildi 10. október 1975. Var í kjölfarið hafist handa við að endurskoða fiskveiðilöggjöf landsins sem lauk með setningu laga nr. 81/1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.  Samkvæmt þeim lögum hafði sjávarútvegsráðherra heimild til að ákveða hámark þess afla sem veiða mátti af hverri fisktegund á tilteknu tímabili.

Með reglugerð nr. 381/1975 frá 5. september 1975 var kveðið á um aflamark á síld og jafnframt kveðið á um að aflamarkinu skyldi skipt niður á einstök skip.  Kemur fram hjá stefnanda að heimildir til veiða á uppsjávarfiski hafi verið bundnar við einstök skip allt frá árinu 1980.  Skipting á heimildum til veiða á uppsjávarfiski hafi verið þannig að síldinni hafi verið skipt jafnt á síldarskipin en aflamarki í loðnu verið skipt milli skipanna þannig að hluta aflamarksins hafi verið skipt jafnt en því sem eftir stóð verið skipt eftir burðargetu. Á þeim grundvelli hafi þessi skip fengið varanlegar aflahlutdeildir í þessum stofnum samkvæmt lögum nr. 38/1990.

Með lögum nr. 82/1983 var ákvæðum laga nr. 81/1976 breytt og ráðherra veitt almenn heimild til þess að ákveða hámarksafla fyrir einstaka fiskistofna og jafnframt veitt heimild til þess að úthluta aflakvóta á einstök skip.  Áttu lögin að gilda til eins árs en voru þrívegis framlengd með nokkrum breytingum, allt þar til núverandi lög um fiskveiðar nr. 38/1990 tóku gildi.

Með gildandi lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, var aflamarkskerfið fest í sessi með ótímabundnum hætti.  Byggir fiskveiðistjórnun samkvæmt lögunum á því að ráðherra sé heimilt að takmarka veiðar á einstökum nytjastofnum við Ísland.  Reynist þörf á því að takmarka veiðar á einstökum stofnum ákveður ráðherra leyfðan heildarafla úr viðkomandi stofni og skiptir heildaraflanum á milli einstakra skipa á grundvelli aflahlutdeildar þeirra í viðkomandi stofni. Aflahlutdeild er úthlutað til einstakra skipa á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja ára, ef samfelld veiðireynsla er fyrir hendi, en annars á grundvelli fyrri veiða, stærðar og gerðar skips, sbr. 8. gr. laga nr. 38/1990.

Á grundvelli laga nr. 38/1990 var heimildum til veiða á loðnu og síld hér á landi skipt með varanlegum hætti á milli skipa sem þessar veiðar höfðu stundað síðustu þrjú árin fyrir gildistöku laganna. Veiði á viðmiðunarárunum byggðist hins vegar á aflamarki sem sömu skip, eða skip sem komið höfðu í þeirra stað, höfðu fengið á grundvelli úthlutunar á aflakvótum á einstök skip í síld frá árinu 1975 og loðnu frá árinu 1980.

Á árinu 1994 hófust að nýju veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hér við land eftir langt hlé.  Um veiðar utan fiskveiðilandhelgi Íslands giltu þá lög nr. 34/1976, en meginregla þeirra laga var að íslenskum skipum væri frjáls veiði utan fiskveiðilögsögunnar, en ráðherra hafði heimild til að setja með reglugerð reglur um þessar veiðar ef nauðsyn þætti.  Hinn 15. ágúst 1994 setti ráðherra reglugerð nr. 471/1994 um veiðar utan fiskveiðilögsögu Íslands, en samkvæmt henni voru meðal annars síld- og kolmunaveiðar frjálsar og öllum leyfðar.  Ný reglugerð um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 676/1995 var sett 28. desember 1995.  Árið 1995 gerðu Ísland og Færeyjar með sér tvíhliða samkomulag um nýtingu síldarinnar.

Með reglugerð nr. 310/1995 var kveðið á um 49.000 lesta aflahámark árið 1995 úr norsk-íslensku síldinni. Var jafnframt kveðið á um að aflahámarkinu skyldi skipt á milli íslenskra síldveiðiskipa sem landað höfðu síld úr norsk-íslenska síldarstofninum í maí 1995.  Ekki var lagt bann við framsali á aflamarki milli skipa.

Hinn 1. apríl 1996 var sett reglugerð nr. 188/1996 um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 1996, var aflamarkshámark ákveðið 244.000 lestir, en þeir einir máttu veiða síldina sem leyfi höfðu til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilögsögu Íslands samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990, ekki átti að úthluta aflamarki á einstök skip fyrr en búið væri að landa 190.000 lestum. Vorið 1996 tókust samningar milli Færeyja, Noregs, Rússlands og Íslands um nýtingu síldarstofnsins.

Hinn 8. maí 1996 var ný reglugerð sett um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 1996.  Var aflahámark ákveðið 190.000 lestir.  Þeir einir áttu rétt til að stunda þessar veiðar sem leyfi höfðu til veiða í fiskveiðilögsögu Íslands samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990.  Var aflahámarkinu skipt niður á einstök skip miðað við þau skip sem sótt höfðu um leyfi til síldveiða úr stofninum 26. apríl sama ár.  Var heimildunum skipt þannig að 182.000 lestir áttu að skiptast á milli hringnótarskipa en 8.000 lestir áttu að skiptast á milli togveiðiskipa. Framsal aflaheimilda  milli skipa var óheimilt.  Á árinu 1997 bættist Evrópusambandið í hóp samningsaðila um skiptingu veiðiheimilda í norsk-íslenska síldveiðistofninum.

Á árinu 1997 var hlutur Íslands úr leyfilegum heildarafla norsk-íslenska síldarstofnsins 233.000 lestir samkvæmt reglugerð nr. 190/1997.  Þetta árið var öllum er leyfi höfðu til veiða í atvinnuskyni innan lögsögu Íslands heimil síldveiði og var aflamarki hvorki skipt niður á skip eða skipategundir.  Með reglugerð nr. 323/1997 var síðan kveðið á um að veiðileyfi skipa í norsk-íslenskri síld féllu niður eftir fyrstu löndun eftir 31. maí 1997, en ákvæðinu var síðan breytt þannig að allir veiðileyfishafar máttu landa einu fullfermi eftir 31. maí 1997.

Með lögum nr. 38/1998 um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, frá 11. maí 1998, var kveðið á um að 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, skyldi ekki gilda um úthlutun veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum. Einnig var kveðið á um að aðeins þau skip sem leyfi höfðu til fiskveiða í lögsögu Íslands gætu fengið leyfi til veiða á norsk-íslenskri síld.  Var jafnframt kveðið á um að á árunum 1998, 1999 og 2000 skyldu gilda þær reglur um úthlutun á aflaheimildum úr norsk-íslenska síldarstofninum að 90% árlegra heimilda skyldi skipta á milli þeirra skipa sem veiðar stunduðu úr norsk-íslenska síldarstofninum á árunum 1995, 1996 og 1997 eða skipa sem komið höfðu í þeirra stað, þannig að 60% átti að skipta eftir burðargetu en 40% jafnt. Var útgerðum þessara skipa veitt heimild til að framselja hluta af aflamarki hvers árs.

10% af árlegu aflamarki átti að skipta milli annarra skipa og var framsal aflamarks í þessum flokki bannað.  Var þessu aflamarki skipt milli skipa á grundvelli burðargetu en ekkert eitt skip mátti fá meira en 25% af þessu aflamarki.

Samkvæmt reglugerð nr. 268/1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 1998, var leyfilegur heildarafli 202.000 lestir það ár og var þessum veiðiheimildum úthlutað á einstök skip samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/1998.

Samkvæmt reglugerð nr. 179/1999, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 1999, var leyfilegur heildarafli 202.000 lestir það ár og var þessum veiðiheimildum úthlutað á einstök skip samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/1998.

Samkvæmt reglugerð nr. 233/2000, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2000, var leyfilegur heildarafli 194.230 lestir það ár og var þessum veiðiheimildum úthlutað á einstök skip samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/1998. Með lögum nr. 36/2000 var takmörkunum á framsali á aflamarki milli skipa aflétt og framsal gert frjálst hjá þeim sem fengu úthlutað 90% af árlegum heimildum en áfram bannað hjá hinum er fengu aflamark af 10% hlutanum.

Með lögum nr. 159/2000 var lögum nr. 38/1998 breytt þannig að þau ættu einnig við fyrir árið 2001.

Hinn 2. maí 2002 var lögum nr. 151/1996 breytt og var með lögunum kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. skuli aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum til einstakra skipa grundvallast á aflareynslu þeirra á árunum 1994-2001.  Þá var kveðið sérstaklega á um að hafi skip komið í stað skips sem áunnið hefur sér aflareynslu, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 38/1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, skyldi það skip sem í staðinn kom njóta þeirrar aflareynslu.

Í máli þessu snýst ágreiningur aðila í meginatriðum um það hvort úthlutun Fiskistofu á varanlegri aflaheimild til skipa í norsk-íslensku síldinni samkvæmt lögum nr. 50/2002, um breytingu á lögum nr. 151/1996 sbr. reglugerð nr. 348/2002 hafi brotið gegn ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Þá er deilt um það í málinu hvort þær viðgerðir og endurbætur sem gerðar voru á Hoffelli SU-80 og urðu þess valdandi að skipið var frá veiðum í rúma sjö mánuði, falli undir það skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 að hafa verið vegna meiri háttar tjóns eða bilana.

Fyrir dóminum gáfu skýrslu útgerðarstjóri stefnanda, Eiríkur Ólafsson, og vitnin, Bolli Magnússon og Daníel Friðriksson.

III

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að við úthlutun Fiskistofu á varanlegri aflahlutdeild til skipa í norsk-íslensku síldinni, samkvæmt lögum nr. 50/2002, um breytingu á lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, sbr. reglugerð nr. 348/2002, um úthlutun aflahlutdeildar og aflamarks í norsk-íslenskri síld,  hafi jafnræðis ekki verið gætt og hafi úthlutunin brotið gegn ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar sé mælt fyrir um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Sé réttur manna til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósi meðal þeirra mannréttinda sem njóti verndar stjórnarskrárinnar.  Við takmarkanir á frelsi manna til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni verði því að gæta jafnræðis samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessu leiði að beri nauðsyn til að takmarka leyfilegan heildarafla verði að gæta þess að skerðing á hagsmunum einstaklinga, sem af þeim takmörkunum leiði, sé reist á efnislegum mælikvarða svo að jafnræðis sé gætt og megi um þetta vísa til dóms Hæstaréttar 6. apríl 2000 í máli nr. 12/2000.

Kveðst stefnandi byggja á því að þeim aðilum sem aflahlutdeild hafi átt í síld og loðnu hér við land, þ.e. þeir sem stundað hafi uppsjávarfiskveiðar og hafi ráðið yfir skipum og veiðarfærum til síldveiða, hafi verið sköpuð sérstök réttindi við úthlutun á veiðiheimildum í norsk-íslensku síldinni umfram aðra sem ekki hafi haft veiðiheimildir í uppsjávarfisk.

Stefnandi kveðst ekki gera athugasemdir við þær aðferðir sem hafi verið notaðar við stjórn fiskveiða af hálfu stefnda, þ.e. að stýra sókn með úthlutun veiðiheimilda í tilteknum stofnum, og telur að sú aðferð að byggja á veiðireynslu við úthlutun veiðiheimilda, sé almennt til þess fallin að tryggja jafnræði við úthlutun, að gættum öðrum atvikum.

Stefnandi telur hins vegar að skilyrði þess að veiðireynsla geti talist almennur hlutlægur grundvöllur fyrir úthlutun aflahlutdeildar sé að á því tímabili sem lagt sé til grundvallar við mat á veiðireynslu hafi möguleikar aðila til að afla sér veiðireynslu verið jafnir eða sambærilegir eða að minnsta kosti hafi aðgangur aðila að viðkomandi veiðum á tímabilinu verið þannig að samræmist sjónarmiðum um jafnræði.  Stefnandi telur að ef útgerðum tiltekinna skipa sé skapaður betri réttur en öðrum til veiða á tilteknu tímabili, standist það ekki kröfur 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði að leggja sama tímabil til grundvallar sem hlutlægan mælikvarða á veiðireynslu, við úthlutun á varanlegri hlutdeild í tilteknum stofni.

Samkvæmt lögum nr. 50/2002 hafi veiðireynsla áranna 1994-2001 verið lögð til grundvallar úthlutun á varanlegri aflahlutdeild í norsk-íslenskri síld.  Stefnandi byggir á því að á þessu tímabili hafi möguleikar aðila til að afla sér veiðireynslu verið svo ójafnir að það brjóti gegn ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar að byggja úthlutun aflaheimilda með varanlegum hætti á þessu tímabili.   Stefnandi kveðst byggja á því að allt frá árinu 1995 hafi þeim aðilum, sem hafi haft sérréttindi til veiða á uppsjávarfiskum hér við land, á grundvelli laga nr. 38/1990, þ.e. höfðu veiðileyfi samkvæmt áður gildandi 5. gr. laganna og aflaheimildir í síld og loðnu, verið veitt sérstök réttindi til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.  Af þeirri ástæðu samræmist það ekki ákvæðum um jafnræði að leggja veiðireynslu á þessu tímabili til grundvallar úthlutun á varanlegri aflahlutdeild úr stofninum.

Þá kveður stefnandi að allt frá árinu 1995 hafi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verið bundnar því skilyrði af hálfu stefnda að skip hefði leyfi til veiða í atvinnuskyni hér við land samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990.  Í dómi Hæstaréttar 3. desember 1998 í máli nr. 145/1998 hafi verið talið óhjákvæmilegt að líta svo á að tilhögun veiðileyfa samkvæmt þágildandi 5. gr. laga nr. 38/1990 fæli í sér mismunun milli þeirra sem leitt hafi rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipi á tilteknum tíma, og hinna sem ekki hefðu átt þess kost að komast í slíka aðstöðu.  Hafi verið talið að með ákvæðinu væri lögð tálmun við því að drjúgur hluti landsmanna gæti, að öðrum skilyrðum uppfylltum, notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign sem nytjastofnar á Íslandsmiðum væru og þeir tiltölulega fáu einstaklingar eða lögaðilar sem hefðu haft yfir að ráða skipum við veiðar í upphafi takmarkana á fiskveiðum.  Hafi 5. gr. laganna að þessu leyti verið talin í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau sjónarmið um jafnræði sem gæta þyrfti við takmörkun á atvinnufrelsi samkvæmt 1. mgr. 75. gr. hennar. Í kjölfar þessa dóms hafi 5. gr. laga nr. 38/1990 verið breytt með lögum nr. 1/1999 þannig að sett hafi verið almenn skilyrði fyrir því að fá veiðileyfi samkvæmt lögunum en það ekki bundið við það að viðkomandi réði yfir skipi sem hefði veiðileyfi samkvæmt lögum nr. 3/1988.

Stefnandi telur óhjákvæmilegt að líta svo á að með því að binda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum því skilyrði að aðili hefði veiðileyfi, samkvæmt þágildandi 5. gr. laga nr. 38/1990, hafi öðrum útgerðarmönnum verið tálmað að hefja veiðar úr stofninum með þeim hætti að það standist ekki ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar að leggja veiðireynslu sem aflað hafi verið undir þessum kringumstæðum til grundvallar varanlegri úthlutun á aflaheimildum árið 2002.  Vegna þessara takmarkana hafi stefnandi verið í þeirri stöðu, þegar hann hafi tekið ákvörðun um að leita sér að skipi sem stundað gæti veiðar á norsk-íslenskri síld og kolmunna, að hann hafi ekki aðeins þurft að útvega sér skip og fjármagna kaup á því, heldur einnig að útvega og úrelda skip með veiðileyfi á móti hinu nýja skipi til þess að það gæti fengið veiðileyfi samkvæmt þágildandi 5. gr. laga nr. 38/1990, en því hafi einnig fylgt ærinn kostnaður og fyrirhöfn.  Í þessu fyrirkomulagi hafi falist hindrun á því að stefnandi gæti fyrirvaralítið hafið veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum og hafi þeim aðilum sem rétt hafi haft til uppsjávarfiskveiða á grundvelli laga nr. 38/1990 verið veitt mikið forskot og sérréttindi að þessu leyti er möguleikar hafi opnast til veiða úr þessum nýja stofni.

Stefnandi kveðst einnig byggja á því að við úthlutun á varanlegri aflahlutdeild í tiltekinni tegund verði að hafa almenn sjónarmið um jafnræði í huga.  Við úthlutun á varanlegri aflahlutdeild til þeirra skipa sem stundi veiðar í viðkomandi stofni séu takmörk fyrir því hversu langt megi ganga í því að mismuna þeim aðilum sem nýlega séu búnir að fjárfesta í búnaði og skipum til að stunda veiðar úr viðkomandi stofni, gagnvart hinum sem hafi hafið veiðar fyrr.  Mismunun á milli þessara tveggja hópa hafi fram til þessa verið takmörkuð við þrjú ár, þ.e. samkvæmt meginreglu laga nr. 38/1990 og 151/1996 skuli við úthlutun á varanlegri aflahlutdeild miða við veiði þriggja bestu ára viðkomandi skips af síðustu sex árum.  Með þessari reglu sé tryggt að mismunun á milli þeirra sem veitt hafi í eitt til tvö ár, gagnvart hinum sem lengur hafi stundað viðkomandi veiðar, sé bundin tilteknu hámarki, enda megi ekki gleyma því að verið sé að veita sérréttindi til veiða úr stofni um ótiltekna framtíð og því auðvitað sjálfstæð spurning hvort yfir höfuð megi mismuna þeim sem þessar veiðar stundi þegar gripið sé til þess ráðs að takmarka veiðar með úthlutun á aflahlutdeild.

Með lögum nr. 50/2002 hafi verið vikið frá þessum sjónarmiðum og þeim aðilum sem nýlega hafi hafið veiðar úr stofninum verið mismunað gagnvart hinum sem stundað höfðu veiðar í lengri tíma.  Þannig hafi með lögunum verið ákveðið að leggja til grundvallar úthlutun á varanlegri aflahlutdeild veiðireynslu fyrir átta veiðitímabil eða frá og með 1994 til og með 2001. Varanlegur mismunur á þeim aðilum sem nýlega höfðu komið inn í þessar veiðar gagnvart hinum, sem veitt höfðu frá upphafi hafi þannig getað orðið gríðarlegur. Telur stefnandi að slík varanleg mismunun á aflahlutdeild í framtíðinni gagnvart þeim aðilum sem þessar veiðar hafi stundað er til takmörkunar hafi verið gripið standist ekki, enda séu við setningu laga nr. 50/2002 ekki færð gild rök fyrir svo mikilli mismunun milli einstakra skipa eða hvað heimili að auka ójöfnuð að þessu leyti við úthlutun á varanlegri aflahlutdeild í norsk-íslenskri síld umfram úthlutun á veiðiheimildum í öðrum tegundum.

Stefnandi krefst þess til vara að ógilda beri úrskurð sjávarútvegsráðuneytisins frá 1. október 2002, um úthlutun aflaheimilda í norsk-íslenskri síld, í máli stefnanda þar sem hann sé efnislega rangur með vísan til laga 151/1996, sem og með vísan til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um jafnræði og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995.

Stefnandi byggir á því að ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 sé ætlað að koma til móts við þær útgerðir sem eigi skip sem tefjast frá veiðum í lengri tíma en sex mánuði, vegna meiri háttar tjóns eða bilana, grípi stjórnvöld til þess að úthluta aflaheimild til skipa með varanlegum hætti.  Stefnandi telur það ljóst að hann hafi lent í meiri háttar tjóni og bilunum með skip sitt og að vegna þeirra hafi skipið tafist frá veiðum í rúma sjö mánuði, yfir besta veiðitímann, og af þeirri ástæðu hafi hann ekki setið við sama borð og aðrir útgerðarmenn er stjórnvöld hafi ákveðið fyrirvaralaust að skipta veiðiheimildum með varanlegum hætti úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Stefnandi telur að skýringar Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins á ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, styðjist ekki við texta laganna eða skynsamlegan tilgang ákvæðisins.  Beri að skýra ákvæðið eftir orðanna hljóðan þannig að ef bilun eða tjón á skipi leiði til þess að það sé frá veiðum í lengri tíma en sex mánuði, eigi útgerð rétt á leiðréttingu við mat á veiðireynslu, enda hafi töf þessi áhrif á úthlutun aflahlutdeildar til skipsins.

Stefnandi byggir á því að ákvæðið hafi þann tilgang að leiðrétta eða jafna stöðu útgerða ef stjórnvöld grípi til þess ráðs að skipta veiðiheimildum í tiltekinni fisktegund á milli skipa á grundvelli veiðireynslu.  Verði í þessu sambandi að hafa í huga að meginregla laga nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, sé sú að öllum íslenskum skipum séu heimilar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum sem lögin kveði á um, sbr. 4. gr. laganna.

Óvænt og ófyrirséð hafi stjórnvöld breytt um stefnu varðandi úthlutun á aflaheimildum í norsk-íslenskri síld með lögum nr. 50/2002 og ákveðið að úthluta til skipa, sem þessar veiðar höfðu stundað, varanlegri aflahlutdeild sem vera skyldi grundvöllur aflamarks ár hvert í stað þeirra reglna sem áður hafi gilt um úthlutun aflamarks. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir að ljóst væri að þeir sem ekki áttu áður uppsjávarfiskiskip væru langt á eftir þeim aðilum er slík skip áttu og notið höfðu einkaréttar til uppsjávarfiskveiða við Ísland allt frá árinu 1980 er kvótakerfið varð allsráðandi í uppsjávarfisksveiðum. 

Með lögum nr. 50/2002 hafi verið tekin sú ákvörðun að láta samanlagðan afla skips frá 1994 til og með 2001 ráða aflahlutdeild skipsins. Þegar stjórnvöld skipti aflaheimildum með varanlegum hætti á grundvelli veiða fyrir tiltekið tímabil, án nokkurs fyrirvara, sé að mati stefnanda mikilvægt að tryggt sé að mismunun eigi sér ekki stað á milli útgerða vegna þess að útgerð sé með skip á viðmiðunartímanum í viðgerð eða endurbótum vegna tjóns eða bilunar.  Stefnandi telur að tilgangur 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 byggist á þessum grunni og sé ákvæðinu ætlað að leiðrétta órétt sem skapast geti við mat á veiðireynslu fyrir tiltekið tímabil þar sem tilviljun geti ráðið því hvort skip hafi á þeim tíma verið frá veiðum í langan tíma vegna tjóns eða bilana. Í því sambandi skipti öllu máli að tafir hafi staðið lengur en í sex mánuði samkvæmt ákvæðum greinarinnar, en ekki hvort tjón eða bilun hafi verið “óvænt eða ófyrirséð” eins og byggt sé á í úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins.

Þörfin og rökin að baki því að jafna stöðu þeirra sem tafist hafi frá veiðum í meira en sex mánuði vegna tjóns eða bilana hljóti að vera þau sömu hvort heldur sem tjón eða bilun sé óvænt og ófyrirséð eða hafi lengri aðdraganda.

Stefnandi kveðst því ekki sjá að umrætt ákvæði eigi aðeins við þau tilvik sem séu “í senn alvarleg, skyndileg og ófyrirséð, og gera það að verkum að skip verði þegar óstarfhæft án þess að það verði rakið til einnar bilunar og má nefna sem dæmi bruna” eins og segi í umdeildum úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins.  Verði ekki betur séð en að ráðuneytið sé að rugla saman skilyrðum og hugtökum úr skaðabótarétti við lögskýringar sínar, þannig að halda mætti að 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 kvæði á um ábyrgð ríkisins á tjóni útgerða af missi veiðireynslu ef skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki fyrir hendi.  Þessar forsendur sjávarútvegsráðuneytisins séu að mati stefnanda álíka einkennilegar og önnur fullyrðing sem fram komi í úrskurði þess um að þegar aðdragandi slíkra bilana eða tjóns sé langur sé útgerðinni í lófa lagið að bregðast við.  Þessi fullyrðing sé ekki aðeins einkennileg í ljósi úthlutunar veiðiheimilda í norsk-íslenskri síld, heldur virðist hér sem sjávarútvegsráðuneytið vísi til eigin sakar sem ástæðu fyrir því að stefnandi beri sjálfur ábyrgð samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996.  Eigi túlkun ráðuneytisins ekkert skylt við þrönga lögskýringu á undantekningarákvæði svo sem ráðuneytið virðist bera fyrir sig í úrskurði sínum.

Stefnandi byggir á því að í ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 komi skýrlega fram að hafi frátafir orðið á útgerð skips vegna meiri háttar tjóns eða bilana í að minnsta kosti sex mánuði eigi útgerð viðkomandi skips rétt til leiðréttingar við útreikning á veiðireynslu.  Ekki séu önnur skilyrði í greininni fyrir því að stefnandi geti átt rétt til leiðréttingar.

Þá byggir stefnandi á því að honum hafi verið gróflega mismunað við úrlausn málsins hjá Fiskistofu þar sem nokkrum árum áður hafi Hvalur hf. fengið eins og hálfs árs frátöf togarans Venusar frá veiðum metna til afla þrátt fyrir að meginhluta  þess tímabils hafi skipið legið í höfn og ljóst verið að samhliða viðgerð á tjóni vegna bruna hafi farið fram gagngerar endurbætur á skipinu. 

Stefnandi telur að í úrskurði Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins í máli Hvals hf. vegna Venusar, hafi ákvæðum 3. mgr. 5. gr. verið beitt á þá leið að ekki skipti máli við mat á þeim tíma sem útgerð eigi rétt á að fá leiðréttingu fyrir, hvort töfin hafi verið vegna þess að útgerðin hafi verið að leita að nýju skipi eða ákveðið að samhliða viðgerð, vegna brunans, færu fram endurbætur á skipinu.

Sé stjórnvöldum óheimilt að beita ákvæðinu með öðrum hætti gagnvart stefnanda en gert hafi verið við úrlausn á máli Hvals hf., samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Stefnandi telur einnig að sá greinarmunur sem Fiskistofa hafi gert á viðgerð vegna annars vegar bilana og á endurbótum hins vegar gangi ekki upp.  Hafni stefnandi túlkun Fiskistofu og bendir á að fyrrgreind skýring á ákvæðinu leiði til óþolandi réttaróvissu, enda virðist sem mat á því hvort um meiri háttar tjón eða viðgerð sé að ræða eigi að fara eftir geðþótta starfsmanna Fiskistofu en ekki þeim hlutlausa mælikvarða sem lögin sjálf setji um að viðgerð og tjón teljist meiri háttar, ef það leiði til tafa frá veiðum í að minnsta kosti sex mánuði.  Ákvæðið yrði einnig þýðingarlaust ef samhliða viðgerð á meiriháttar tjóni eða bilun mætti ekki fara fram aðrar endurbætur eða viðhald á skipi, enda fari ekkert skip í slipp til meiriháttar viðgerðar án þess að í leiðinni sé framkvæmt reglubundið viðhald og aðrar nauðsynlegar endurbætur á skipinu.  Slíkt sé óhugsandi og andstætt háttarlagi hins góða og gegna útgerðarmanns og hvetji eingöngu til þess að verðmætum og tíma sé sóað.  Hafi slíkar takmarkanir átt að gilda eða bann við því að endurbætur færu fram samhliða viðgerð á bilun eða tjóni eftir ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, hefði verið nauðsynlegt að kveða á um það í lögunum sjálfum.

Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991

 

IV

Stefndi telur rétt að benda á atriði sem valdið gætu frávísun ex officio. Dómkröfur stefnanda varði ógildingu á ákvörðunum stjórnvalda varðandi úthlutun aflamarks.  Þær ákvarðanir sem tekist sé á um hafi verið teknar að vori  árið 2002 en þar hafi verið um fullnaðarúthlutun að ræða á aflamarki til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Þótt almennt verði ákvarðanir stjórnvalda bornar undir dómstóla horfi málið þannig sérstaklega við að hagsmunir af gildi umræddra ákvarðana varði ekki aðeins stefnanda heldur alla þá sem fengið hafi aflaheimildir til þeirra veiða sem málið varði.  Við þessar aðstæður sé álitamál til hvers stefnandi ætlast gangi dómur félaginu í vil, þ.e. hvort taka eigi þá upp allar úthlutanir heimilda eða hvort stefnandi hyggi á rekstur bótamáls.

Stefndi bendir því á að hugsanlega geti málið varðað frávísun að þessu leyti ef stefnandi ætlist til nýrrar úthlutunar sér til handa, enda sé málið þá að því leyti utan lögsögu dómstóla ef markmið dómkrafna horfi til nýrrar skiptingar veiðiheimilda. Lögvarða hagsmuni kynni því að skorta um annað en rekstur bótamáls að skilyrðum bótareglna uppfylltum.  Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á málsástæðum þessa efnis, þ.e. að um sé að ræða fullnaðarmat stjórnvalda og því standi það utan valdsviðs dómstóla að ógilda úthlutunina sé markmiðið með kröfunni að koma á nýrri skipan úthlutunar aflaheimildar.

Stefndi kveður að um úthlutun á veiðiheimildum í norsk-íslenskri síld árið 2002 hafi gilt bráðabirgðaákvæði laga nr. 151/1996, um fiskveiðar í lögsögu Íslands, og þar áður um úthlutanir heimilda ákvæði laga nr. 38/1998, þannig að 5. gr. laga nr. 151/1996 hafi ekki gilt frá 1998 til 2001.  Að öðru leyti hafi ákvæði laganna frá 1996 gilt.  Samkvæmt 4. gr. laga nr. 151/1996 sé öllum íslenskum skipum heimilar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum sem leiði af lögum og reglugerðum samkvæmt þeim.  Stefnandi hafi ekki mótmælt því að stjórna þurfi umræddum veiðum með takmörkunum á heildarafla og að unnt sé að skipta á milli skipa aflaheimildum eftir veiðireynslu.  Í 2. gr. laganna sé sá skýri fyrirvari gerður að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.  Sams konar regla sé í 2. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða.  Telur stefndi að málatilbúnað stefnanda verði að virða í þessu ljósi.

Stefndi kveður óumdeilt að um langt skeið hafi nauðsyn borið til að stjórna veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum og sé heildarafli sem í hlut íslenskra skipa komi takmarkaður.  Um úthlutanir aflaheimilda hafi því gilt ákvæði laga nr. 38/1998 og nr. 151/1996.  Við úthlutun aflamarks 2002 hafi Fiskistofu borið að fara eftir ákvæði til bráðabirgða samkvæmt lögum nr. 50/2002, um breytingu á lögum nr. 151/1996, sem kveði á um að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. laganna skuli stofnunin úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum. Virðist í sjálfu sér óumdeilt að Fiskistofa hafi að þessu leyti farið réttilega eftir fyrirmælum laganna, en stefnandi hafi gert efni laganna sjálfra að ágreiningsefni í málinu og byggt kröfur sínar á ákvæðum stjórnarskrár, einkum jafnræðisreglu 65. gr.

Stefndi mótmælir því að lögin og ákvörðun Fiskistofu um úthlutun aflaheimildar hafi brotið gegn ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt aflaheimildir hafi verið ákveðnar á grundvelli veiðireynslu sé það ekki svo að þeim sem stunduðu veiðar og réðu yfir skipum og veiðarfærum til síldveiða hafi verið sköpuð sérstök réttindi umfram aðra.  Þótt við það yrði miðað þá liggi fyrir að stefnandi hafi sjálfur verið í þeim hópi og hafi haft yfir að ráða skipi og leyfi til veiða úr stofninum frá þeim tíma er það var gert að skilyrði árið 1996.  Á því hafi heimild Hoffells SU-80 til veiðanna grundvallast áður en dómur Hæstaréttar hafi fallið 3. desember 1998.

Stefnandi telji skilyrði þess að veiðireynsla geti talist almennur hlutlægur grundvöllur fyrir úthlutun aflahlutdeildar sé að á því tímabili sem lagt sé til grundvallar við mat á veiðireynslu hafi möguleikar aðila til að afla sér veiðireynslu verið jafnir eða sambærilegir, að minnsta kosti verði aðgangur að viðkomandi veiðum á tímabilinu að hafa verið þannig að samræmist sjónarmiðum um jafnræði.  Stefndi kveður að stefnandi eða fyrirrennarar félagsins hafi haft skip til umráða sem tekið hafi verið mið af við úthlutanir heimilda allt frá 1996 og í reynd fyrir þann tíma, enda hafi stefnandi verið í þeim hópi sem skipt hafi með sér 90% af hlut Íslands á grundvelli b- liðar 2. gr. laga nr. 38/1998.  Það hafi ekki verið fyrr en á árinu 1998 sem ráðist hafi verið í kaup á umræddu skipi, Hoffelli SU-80, og hafi stefnandi úrelt annað skip á móti.  Stefndi kveður það hins vegar hafa verið veiðiheimildina sem færst hafi á milli og muni stefnandi hafa selt hið eldra skip sem seinna hafi verið nefnt Jón Vídalín.  Stefnandi hafi lagt út frá dómi Hæstaréttar Íslands frá 3. desember 1998 í málinu nr. 145/1998 og að þar hafi verið talið óhjákvæmilegt að líta svo á að tilhögun veiðileyfa samkvæmt þágildandi 5. gr. laga nr. 38/1990 hafi falið í sér mismunun milli þeirra, sem leitt hafi rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipi á tilteknum tíma, og þeirra sem ekki hefðu átt rétt á að komast í slíka aðstöðu.

Stefndi mótmælir þessum málsástæðum stefnanda og því að þær geti stutt kröfur stefnanda og fái kenning hans með engu móti staðist.  Auk þess byggi stefndi á því að Hæstiréttur hafi hafnað því að dómur réttarins frá 3. desember 1998 verði skýrður á þann hátt að tilkall útgerðarmanna fyrir gildistöku laga nr. 1/1999, til að mega endurnýja og stækka skipaflota sinn án takmarkana af hálfu löggjafarvaldsins, geti notið eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar sbr. dóm Hæstaréttar frá árinu 2000 bls. 3543.  Sú ákvörðun Fiskistofu sem stefnandi krefjist ógildingar á sé frá 22. maí 2002 og sé ekki deilt um að sú ákvörðun hafi verið byggð á því að stefnandi hefði veiðileyfi vegna skipsins Hoffells SU-80.  Réttarstaða stefnanda, sem hafði veiðileyfi við umrædda úthlutun, hafi því á engan hátt verið sambærileg þeirri sem dæmt var um í dómi Hæstaréttar 3. desember 1998 í málinu nr. 145/1998.  Þannig liggi  fyrir að stefnandi hafi ekki verið í þeim hópi sem ekki hafi fengið veiðileyfi heldur í þeim hópi sem höfðu veiðileyfi og þannig haft aðgang að aflaheimildum.

Stefndi kveður stefnanda hafa úrelt annað skip þannig að Hoffell SU-80 kæmi í staðinn, en það hafi verið keypt árið 1998.  Hefði stefnandi kosið að fara í þessar veiðar í jafnmiklum mæli og fyrr hefði hann hagað skipakaupum og áherslum í veiðum með nákvæmlega sama móti að ætla verði.  Sá kostnaður og fyrirhöfn sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir til að afla Hoffelli SU-80 veiðileyfis standi ekki í rökréttu samhengi við dómkröfur málsins eða þá umdeildu ákvörðun Fiskistofu frá 22. maí 2002.  Í tilviki stefnanda hafi við ákvörðun aflaheimilda í umræddum síldveiðum verið byggt á eldra veiðileyfi og litið til veiða löngu fyrir árið 1998 sem sýni að ástæða þess að úthlutun í tilviki stefnanda sé sú sem raun beri vitni, sé ekki lagabreytingin frá árinu 2002 heldur einfaldlega sú að veiðin sem stefnandi gat lagt til grundvallar úthlutun hafi ekki verið meiri.  Stefnandi hafi þannig ekki sýnt fram á að ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990, eins og það hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 1/1999, hafi á einhverjum stigum tálmað félaginu  því að afla sér heimilda til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum vegna skipsins Hoffells SU-80. Séu það hrein öfugmæli að halda því fram í ljósi þess hvernig aðgangur skipsins að þessum stofni hafi komið til.  Málsástæður stefnanda byggðar á nefndum dómi Hæstaréttar frá 1998 geti því ekki stutt dómkröfur málsins.  Þar sem stefnandi hafi ekki reifað þennan bakgrunn veiðileyfa og heimilda fyrir skipið Hoffell SU-80 telur stefndi að brostinn sé grundvöllur fyrir öllum málsástæðum hans og því beri að sýkna stefnda.

Stefndi kveðst byggja á því að ákvæði laganna nr. 50/2002 hafi verið málefnalegt og í engu andstætt 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Ákvæðið nái jafnt til allra sem eins hafi verið settir og hafi falið í sér að litið yrði til lengri tíma við mat á þeirri veiðireynslu sem leggja eigi til grundvallar aflaheimild.  Rökin hafi meðal annars verið þau að leiðrétta það hversu illa veiðireynsla til ákvörðunar aflahlutdeildar endurspeglaðist í raun vegna framsala aflaheimilda. Almennt sé það ekki verri mælikvarði eða ómálefnalegri að miða veiðireynslu við lengra viðmiðunartímabil.  Ítrekar stefndi einnig í þessu sambandi það meginmarkmið laganna að úthlutanir heimilda samkvæmt lögunum myndi ekki óafturkallanlegt forræði eða eignarrétt yfir þeim.  Breytingin hafi því verið í fullkomlega eðlilegu framhaldi af fyrri úthlutunarreglum þar sem stefnandi hafði allan tímann greiðan aðgang að og nýttist hinu nýja skipi.  Engri mismunun varðandi atvinnu­réttindi hafi því verið til að dreifa.  Taka beri fram að það sé ekki rétt útlistun að horfið hafi verið frá því að byggja á þriggja ára veiðireynslu með lögunum frá 2002, svo sem leiði af reglum fyrri tíma eftir ákvæðum laga nr. 38/1998 að því er varði umræddan síldarstofn.

Eins og fyrr segi hafi það verið á grundvelli veiðileyfisins frá 1996 fyrir Hoffell eldra og síðar að stefnanda hafi verið kleift að hefja síldveiðar á hinu nýja Hoffelli SU-80 áður en dómur Hæstaréttar frá 3. desember kom til og breytingalögin nr. 1/1999.  Fyrir 1996 hafi ekki þurft veiðileyfi.  Þannig hafi stefnandi komist með veiðar Hoffells nýja í hóp þeirra sem veiðar hafi stundað árin 1995, 1996, 1997 og fengið skipt með sér 90% af þeim árlegu veiðiheimildum sem í hlut Íslands komu á grundvelli b-liðar 2. gr. laga nr. 38/1998. Á þessum grundvelli hafi við ákvörðun aflamarks Hoffells SU-80 verið miðað við að það hefði komið í stað skips sem áunnið hefði sér aflareynslu á grundvelli þessa ákvæðis, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 348/2002. Það hafi því hvorki verið ákvæði laganna fyrr eða síðar né ákvarðanir stjórnvalda sem staðið hafi möguleikum stefnanda fyrir þrifum og heldur ekki skortur á veiðileyfum eða aflaheimildum.  Ástæður þess að stefnandi kunni að telja aflahlutdeild sína litla séu því ekki tengdar þeim atriðum heldur litlar veiðar stefnanda og lítil nýting á heimildum, til dæmis á árunum 2000 og 2001, af ástæðum sem varði einnig annan þátt þessa máls.  Auk þessa hefði stefnandi líka getað fengið framselt til sín heimildir.  Stefnandi hafi því hvergi leitt í ljós að úthlutun á grundvelli reglugerðar nr. 348/2002, sbr. lög nr. 50/2002 hafi verið minni en ella.  Þá hafi stefnandi ekki upplýst um nýtingu sína á veiðiheimildum árin 2002 og 2003.

Svo sem fram komi í úrskurði ráðuneytisins byggi stefndi á því að skýra beri ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 í ljósi þess að ákvæðið geymi undantekningu frá meginreglu sömu laga, þess efnis að við útreikning aflahlutdeildar skuli miðað við veiðireynslu viðkomandi skips.  Stefndi kveðst byggja á því að skýra verði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 sem undantekningu frá þessari meginreglu og lögskýringarreglur leiði þá til þess að túlka beri undantekninguna þröngt.  Jafnframt beri þá stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að undantekningarreglan geti átt við.

Eins og fram komi í úrskurði ráðuneytisins verði ekki fram hjá því litið að öll skip þurfi með reglulegu millibili á endurbótum að halda sem kunni að vera mismiklar og tímafrekar.  Engin rök standi til þess að ákvæði 3. mgr. 5. gr. laganna eigi við um það þegar skip séu frá veiðum vegna almennra endurbóta eða lagfæringa. Fyrir liggi að endurbætur og viðgerðir á Hoffelli SU-80 hafi verið þess eðlis að þær stöfuðu af vanbúnaði þess og ófullnægjandi viðhaldi, allt frá kaupum þess, eins og fram komi í bréfi stefnanda til Fiskistofu 3. apríl 2002.  Hafi það smátt og smátt leitt til þess að koma hafi þurft skipinu til gagngerrar viðgerðar og endurbóta á eiginleikum þess. Frátafirnar á árinu 2001 hafi þannig átt sér langan aðdraganda eins og stefnandi hafi upplýst um.

Lögum samkvæmt sé það á ábyrgð útgerðar og skipstjóra að skipi sé haldið við, fært til skoðunar og að það sé haffært, sbr. ákvæði þágildandi laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum. Allt viðhald og endurbætur séu einnig á ábyrgð útgerðaraðila. Þegar atvik komi til sem séu í senn alvarleg, skyndileg og ófyrirséð, og geri það að verkum að skip verði þegar óstarfhæft, án þess að það verði rakið til einnar bilunar, komi til greina að beita undanþáguheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996.  Ekkert af þessu hafi átt við í tilviki stefnanda vegna Hoffells SU-80.  Þvert á móti hafi aðdragandi þess að skipið hafi verið frá veiðum verið langur og útgerðin átt val um hvort og hvenær í endurbætur yrði ráðist og þannig í lófa lagið að bregðast við.  Meiri háttar tjón eða bilanir sem valdi því skyndilega og ófyrirséð að skip verði samfellt frá veiðum í að minnsta kosti sex mánuði séu hins vegar þess eðlis að útgerð eigi ekkert val og verði að hverfa frá veiðum.

Sú almenna regla að miða úthlutanir við veiðireynslu sé á því reist að endurspegla raunveruleg aflabrögð viðkomandi skips við eðlilegar aðstæður.  Á hinn bóginn verði í undantekningartilvikum að taka tillit til aðstæðna þar sem alvarleg, skyndileg og ófyrirséð atvik valdi löngum frátöfum.  Þetta fái stoð í almennum lögskýringar­reglum og orðalagi ákvæðisins, sbr. orðin „meiri háttar tjóns eða bilana“ og að frátafir af þeim sökum vari í að minnsta kosti sex mánuði samfellt.

Ef taka ætti tillit til frátafa vegna almenns viðhalds og endurbóta yrði það á kostnað veiðireynslu annarra skipa þegar heildarafli sé takmarkaður. Veiðireynsla þeirra samkvæmt meginreglu laganna fengi þá ekki notið sín. Slík lögskýring væri ósanngjörn og ekki í anda jafnræðis.  Sýni það hversu veigamikil rök standi til þess að skýra 3. mgr. 5. gr. þannig að aðeins undantekningartilvik eigi þar undir.

Stefndi telur engin efnisatriði 65. gr. stjórnarskrárinnar um mismunun vera fyrir hendi í málinu. Varðandi jafnræðisreglur almennt sé í fyrsta lagi á því byggt að grundvallarmunur sé á þessu máli og máli Hvals hf. vegna skipsins Venusar, sem stefnandi beri sig saman við, en það skip hafi orðið fyrir meiri háttar tjóni í eldsvoða sem hafi verið meginástæða þess að skipið tafðist frá veiðum.  Að mati stefnda sé augljóst að mikilla endurbóta sé þörf í kjölfar meiri háttar tjóns vegna eldsvoða og ógjörningur að greina þar á milli.  Verði ekki annað ráðið af þeim gögnum sem stefnandi hafi aflað um mál Hvals hf. vegna Venusar að frátafir hafi að öllu leyti verið af völdum eldsvoðans með einum eða öðrum hætti, en þar hafi skipið laskast mikið auk þess sem vinnslulína og fiskvinnslubúnaður hafi skemmst.  Frátafir sem tekið hafi verið tillit til hafi verið viðurkenndar að hluta en ekki að öllu leyti.  Til dæmis hafi ekki verið tekið tillit til frátafa á árinu 1996 en þá telji stefnandi að farið hafi fram viðgerð á fiskvinnslubúnaði.  Skemmdir á honum hafi hins vegar orðið í kjölfar eldsvoðans.

Stefndi kveður meginástæður þess að Hoffell SU-80 tafðist frá veiðum hafi á engan hátt verið sambærilegar heldur hafi verið um að ræða uppsafnaða þörf á viðgerðum vegna ónógs viðhalds og að auki þörf á endurbótum.  Meginskilyrði jafnræðis­reglu um að tilvik verði að vera öldungis sambærileg séu því ekki fyrir hendi. Þegar aðstæður séu virtar með tilliti til jafnræðisreglu verði að hafa í huga að fréttaflutningur í Morgunblaðinu, sem stefnandi hafi nýlega aflað, hafi ekki verið meðal gagna í kærumáli Hvals hf.  Í öðru lagi verði ekki fram hjá því litið, þótt um hliðstæðar reglur hafi verið að ræða, að tilvikin séu ekki sambærileg þar sem annars vegar hafi verið um að ræða úthafskarfaveiðar og hins vegar síldveiðar í þessu tilviki. Á þessum vettvangi stjórnsýslu sé mikilvægt að gera strangar kröfur til þess að um algerlega sambærileg tilvik sé að ræða þar sem tillit vegna frátafa varði skiptingu heimilda í tilteknum veiðum á ákveðnu tímabili sem leggja eigi til grundvallar aflamarki. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á nein tilvik þar sem útgerð Hoffells SU-80 hafi verið mismunað samanborið við aðra sem skiptu með sér aflamarki í veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum sem til ákvörðunar kom árið 2002.  Það séu því ekki sambærileg tilvik annars vegar úthafskarfaveiðar og hins vegar síldveiðar og úthlutanir aflamarks þar.  Tilvikin varði þannig ólíkar veiðar á mismunandi tímum. Í þriðja lagi byggi stefndi á því að jafnræðisregla geti ekki helgað niðurstöðu sem lögvarið tilkall standi ekki til. Standi skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 málatilbúnaði stefnanda í vegi telji stefndi að kröfum hans verði ekki fundin stoð í niðurstöðu ráðuneytisins í máli Hvals hf.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

V

Stefndi hefur bent á atriði sem hann telur að geti valdið frávísun málsins ex officio á þeim forsendum að hagsmunir af gildi þeirra ákvarðana sem krafist er niðurfellingar á varði fleiri en stefnanda og sé álitamál til hvers stefnandi ætlist gangi dómur honum í vil.  Í málinu eru gerðar kröfur um ógildingu stjórnvaldsákvarðana, aðallega ákvörðunar Fiskistofu um aflahlutdeild skips stefnanda Hoffells SU-80 og til vara er krafist ógildingar á úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Fiskistofu um að hafna því að taka tillit til tafa skips stefnanda Hoffells SU-80 frá veiðum vegna viðgerða.

Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.  Í málinu er uppi slíkur ágreiningur og hefur stefnandi að mati dómsins lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort ógilda beri framangreindar stjórnvaldsákvarðanir.

Aðalkrafa stefnanda er rökstudd með því að við úthlutun Fiskistofu á varanlegri aflahlutdeild til skipa í norsk-íslensku síldinni samkvæmt lögum nr. 50/2002 um breytingu á lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands hafi ekki verið gætt jafnræðis og úthlutunin brotið gegn ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. 

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Réttur manna til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa er meðal þeirra mannréttinda sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og óumdeilt er að við takmarkanir á frelsi manna til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni verður því einnig að gæta jafnræðis samkvæmt framangreindu ákvæði.  Af því leiðir að beri nauðsyn til að takmarka leyfilegan heildarafla verður að gæta þess að skerðing á hagsmunum sem af þeim takmörkunum leiðir sé reist á efnislegum mælikvarða svo að jafnræðis sé gætt.

Lög nr. 50/2002 breyta lögum nr. 151/1996 og segir í 1. gr. laganna að þrátt fyrir 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 skuli Fiskistofa úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum á grundvelli aflareynslu þeirra á árunum 1994-2001 að báðum árum meðtöldum.  Hafi skip komið í stað skips sem áunnið hafi sér aflareynslu sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 38/1998 skuli það skip sem í staðinn komi njóta þeirrar aflareynslu.

Í athugasemdum við frumvarp laga nr. 50/2002 kemur fram að í frumvarpinu sé lagt til að vikið verði frá úthlutunarreglu 2. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands með tvennum hætti.  Í fyrsta lagi verði aflareynslan alveg frá upphafi síldveiða á árinu 1994 látin ráða aflahlutdeildinni og í öðru lagi verði kveðið með skýrum hætti á um það að hafi skip komið í stað skips flytjist aflareynslan milli skipanna.  Ástæða þess að lagt sé til að miðað verði við veiðar frá upphafi við úthlutun aflahlutdeildar sé sú að hluta tímabilsins hafi stjórn veiðanna verið með þeim hætti að skipum hafi verið úthlutað ákveðnu aflahámarki sem hafi verið framseljanlegt að minnsta kosti að hluta.  Framsal aflaheimilda hafi því haft mikil áhrif á aflareynslu skipanna og því aflahlutdeild þeirra.  Með því að miða við veiðar öll árin í stað þeirra þriggja bestu sé í raun komið í veg fyrir að sama skipið geti notið fullrar aflareynslu en hafi jafnframt haft áhrif á aflareynslu annarra skipa með framsali.   Varðandi það að aflareynsla flytjist milli skipa er tekið fram í frumvarpinu að það sé í raun í samræmi við þá framkvæmd sem hafi tíðkast við sambærilegar úthlutanir veiðiheimilda en ástæða þyki til að kveða með skýrum hætti á um það.

Stefnandi telur ekki að þær aðferðir sem beitt er við stjórn fiskveiða að byggja á veiðireynslu séu rangar heldur þvert á móti séu þær almennt til þess fallnar að tryggja jafnræði við úthlutun, að gættum öðrum atvikum.  Í því sambandi nefnir stefnandi að til að veiðireynsla geti talist almennur hlutlægur grundvöllur fyrir úthlutun aflahlutdeildar sé að á því tímabili sem lagt sé til grundvallar við mat á veiðireynslu hafi möguleikar aðila til að afla sér veiðireynslu verið jafnir eða sambærilegir eða að minnsta kosti hafi aðgangur aðila að viðkomandi veiðum á tímabilinu verið þannig að samræmist sjónarmiðum um jafnræði.  Á tímabilinu 1994-2001 hafi möguleikar aðila til að afla sér veiðireynslu verið ójafnir og það brjóti gegn ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar að byggja úthlutun aflaheimilda með varanlegum hætti á þessu tímabili.  Hafi þeim aðilum sem allt frá árinu 1995 hafi haft sérréttindi til veiða á uppsjávarfiskum hér við land á grundvelli laga nr. 38/1990 verið veitt sérstök réttindi til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og því samræmist það ekki ákvæðum um jafnræði að leggja veiðireynslu á þessu tímabili til grundvallar úthlutun á varanlegri aflahlutdeild úr stofninum. 

Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi og fyrirrennari hans, Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, hafði skip til umráða sem tekið hefur verið mið af við úthlutun heimilda til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum allt frá árinu 1996 vegna eldra Hoffells, en veiðiheimild þess skips færðist yfir á hið nýja Hoffell á árinu 1998, en fyrir árið 1996 þurfti ekki veiðileyfi til þeirra veiða sem í máli þessu er fjallað.   Var stefnandi með hið eldra skip í hópi þeirra sem fengu skipt með sér 90% af hinum árlegu veiðiheimildum úr norsk-íslenska síldarstofninum sem komu í hlut Íslands á grundvelli b-liðar 2. gr. laga nr. 38/1998.  Á þeim grundvelli var við aflamark hins nýja Hoffells miðað við að það hefði komið í stað skips sem áunnið hefði sér aflareynslu á grundvelli þessa ákvæðis sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 348/2002.  Samkvæmt þessu var stefnandi sjálfur í þeim hópi sem hann telur að hafi notið sérréttinda til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.  Var hann því jafnsettur þeim sem veiðileyfi fengu í gildistíð 5. gr. laga nr. 38/1990 á grundvelli skipaeignar sinnar.  Þær reglur sem settar voru með lögum nr. 50/2002 náðu jafnt til allra þeirra sem höfðu veiðileyfi og verður að telja að þær reglur hafi verið málefnalegar og settar eftir hlutlægum reglum og að jafnræðis hafi verið gætt við setningu þeirra.  Verður þannig lagt til grundvallar að úthlutun aflaheimilda til stefnanda sem byggði á lögum nr. 50/2002 og reglugerð nr. 348/2002 hafi fullnægt jafnræðisreglu 1. mgr. 65 gr. stjórnarskrárinnar.

Hvað snertir tilvísun stefnanda til dóms Hæstaréttar frá 3. desember 1998 í máli nr. 145/1998 þá er þess að geta að í því máli var það niðurstaða Hæstaréttar að óhjákvæmilegt væri að líta svo á að sú tilhögun að úthlutun veiðiheimilda væri bundin við skip, fæli í sér mismunun milli þeirra sem leiði rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipum á tilteknum tíma og hinna sem ekki hafi átt og eigi ekki kost á að komast í slíka aðstöðu.  Var því ekki fallist á að til frambúðar væri heimilt að gera slíkan greinarmun á mönnum og því væri ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990 að þessu leyti í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau sjónarmið um jafnræði sem gæta þurfi við takmörkun á atvinnufrelsi samkvæmt 1. mgr. 75. gr. hennar.   Það brot sem Hæstiréttur taldi í málinu hafa í för með sér á jafnræðis- og atvinnufrelsisákvæðum stjórnarinnar bitnaði síst á þeim skipaeigendum sem fengið höfðu veiðileyfi á grundvelli skipaeignar sinnar heldur fyrst og fremst á þeim skipaeigendum sem ekki fengu veiðileyfi af þeim sökum að þeir höfðu ekki átt skip sín á þeim tíma sem í ákvæðinu var kveðið á um.  Réttarstaða stefnanda, sem hafði veiðileyfi var því á engan hátt sambærileg þeirri sem dæmt var um í dóminum.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af aðalkröfu stefnanda.

Eins og rakið hefur verið snýst ágreiningur aðila varðandi varakröfu stefnanda um túlkun á ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 en þar segir að hafi skip, sem reglulega hefur stundað veiðar úr stofni sem varanleg veiðireynsla sé á, tafist frá veiðum í að minnsta kosti sex mánuði samfellt vegna meiri háttar tjóns eða bilana skuli við ákvörðun aflahlutdeildar á grundvelli veiðireynslu samkvæmt 2. mgr. reikna skipinu afla á því tímabili sem frátafirnar verði og skuli aflinn fyrir hvert heilt veiðitímabil talinn nema sama hlutfalli af heildarafla og nam meðaltalshlutfalli skipsins í heildarafla af viðkomandi tegund á þeim tveimur veiðitímabilum sem næst liggi því tímabili eða þeim tímabilum sem frátafirnar verði.  Verði frátafirnar aðeins hluta veiðitímabils skal reikna aflareynsluna hlutfallslega að teknu tilliti til almennra aflabragða þann hluta veiðitímabils sem frátafirnar verða.

Ágreiningslaust er að skip stefnanda, Hoffell SU-80 var frá veiðum vegna viðgerða og endurbóta frá 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001.  Eins og rakið hefur verið kemur fram að ástæður þess að skipið var frá veiðum umrætt tímabil voru að ráðast þurfti í endurbætur á spilkerfi skipsins vegna sífelldra bilana á því.  Þá þurfti að ráðast í breytingar til að koma fyrir sjúkraaðstöðu um borð vegna athugasemda Siglingastofnunar Íslands auk þess sem lagfæra þurfti skemmdir vegna tæringar.  Var það mat Fiskistofu eins og fram kemur í bréfi stofnunarinnar 24. maí 2002 að framangreint hafi verið nauðsynlegar endurbætur sem féllu ekki undir þau skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 um að vera meiri háttar tjón eða bilanir og því hafnaði Fiskistofa að taka tillit til þeirra frátafa við úthlutun á aflaheimild í norsk-íslensku síldina vegna tímabilsins.

Stefnandi kærði þessa ákvörðun Fiskistofu til sjávarútvegsráðuneytisins þann 22. júlí 2002 og í úrskurði ráðuneytisins sem upp var kveðinn 1. október 2002 var því hafnað að fella úr gildi framangreinda ákvörðun Fiskistofu frá 24. maí 2002.  Í rökstuðningi sínum vísar ráðuneytið til þess að við skýringu á því hvað teljist meiri háttar tjón eða bilun í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 beri að líta til þeirrar meginreglu laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, að við útreikning aflahlutdeildar samkvæmt lögunum skuli miðað við veiðireynslu viðkomandi skips.  Ákvæði 3. mgr. 5. gr. sé undantekning frá þeirri meginreglu og verði að túlka hana þröngt.

Þá vísar ráðuneytið til þess að frátafir Hoffells SU-80 hafi átt sér langan aðdraganda eins og fram komi hjá stefnanda sjálfum um að fljótlega eftir kaup skipsins hafi komið í ljós sífelldar bilanir í spilkerfinu og hafi stefnanda því mátt vera ljóst að úrbóta væri þörf.  Hins vegar hafi ekki verið ráðist í viðgerðir á því fyrr en í janúar 2001.

Telur ráðuneytið að það sé á ábyrgð útgerðar skips að halda því við svo komast megi hjá meiri háttar bilunum eða tjóni.  Þegar slíkur aðdragandi bilana sé langur sé útgerðinni í lófa lagið að bregðast við.  Þá telur ráðuneytið að þær aðstæður kunni að koma upp sem séu í senn alvarlegar, skyndilegar og ófyrirséðar og geri það að verkum að skip verði þegar óstarfhæft án þess að það verði rakið til einnar tiltekinnar bilunar og nefnir sem dæmi bruna.  Við slíkar aðstæður komi til greina að beita undantekningarákvæði 3. mgr. 5. gr. laganna  við útreikning aflahlutdeildar.

Eina skilyrði hins umdeilda ákvæðis 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 er að skip sé frá veiðum vegna meiri háttar tjóns eða bilana í að minnsta kosti sex mánuði.  Ekkert er getið um það í ákvæðinu sjálfu og ekki er til að dreifa lögskýringargögnum um að til að beita megi ákvæðinu þurfi atvik að vera í senn alvarleg, skyndileg og ófyrirséð svo sem ráðuneytið virðist byggja niðurstöðu sína á.  Enda þótt fallast megi á það með stefnda að umdeilt ákvæði feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að við úthlutun aflaheimilda skuli byggja á veiðireynslu og að undantekningarreglu sem þessa skuli túlka þröngt gefur orðalag ákvæðisins ekki tilefni til annarrar túlkunar á því en að uppfylltum þeim skilyrðum að verði tafir á veiðum vegna meiri háttar tjóns eða bilana skuli ákvæðinu beitt.

Óumdeilt er að bilanir voru tíðar á spilkerfi skips stefnanda auk þess sem umtalsverðar skemmdir voru á ytra byrði skipsins vegna tæringar og hafði flokkunarfélag skipsins veitt lokafrest til viðgerðar á því fram í janúar 2001.  Þá hafði Siglingastofnun sett þá kvöð á skipið að settur yrði í það sjúkraklefi. Vegna þessa þurfti stefnandi að láta lagfæra skipið og var eðlilegt að hann tæki ákvörðun um að setja það í viðgerð eigi síðar en þegar lokafrestur rann út gagnvart flokkunarfélagi skipsins enda fór sá tími saman við veiðitímabilið, en samkvæmt áætlun skipasmíðastöðvarinnar áttu viðgerðir ekki að taka lengri tíma en þrjá mánuði og það var á þeim tíma sem skipið hafði hvort sem er lítil verkefni.. 

Samkvæmt gögnum málsins voru þær endurbætur sem fóru fram á skipinu samhliða viðgerð þess nauðsynlegar og eins og kemur fram í skýrslu Ráðgarðs, Skiparáðgjafar ehf. dagsettri 5. apríl 2004, leiddi hagkvæmnisathugun í ljós að rétt væri að gera allar breytingar sem hagkvæmt þótti að gera á skipinu um leið og farið væri í viðgerðir á þilförunum vegna tæringar til að samnýta verktímann.  Þá kemur þar einnig fram að þar sem tæringarskemmdir voru á þilförunum undir íbúðum hafi þurft að fjarlægja þær auk þess sem hægt hafi verið að vinna samtímis að tæringarviðgerðum, öðrum viðgerðum og breytingum á skipinu. Er ekkert í málinu sem styður að um ófullnægjandi viðhald hafi verið að ræða á skipinu eða að viðgerð hefði getað tekið skemmri tíma en raun varð á. 

Í ljósi þess sem nú hefur verið rakið er það mat dómsins að tafir þær sem urðu á veiðum Hoffells SU-80 hafi verið vegna meiri háttar tjóns og bilana á skipinu.  Fólst tjónið meðal annars í því að vegna tæringar þurfti að endurnýja þilfarshús, brú og setja upp nýjar íbúðir.  Þá er óumdeilt að spilkerfið var sífellt að bila og reyndist nauðsynlegt að setja upp nýtt.  Bar Fiskistofu því að taka að fullu tillit til frátafa Hoffells SU-80 frá veiðum frá 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001 við úthlutun aflaheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum.  Þegar af þeirri ástæðu þykja ekki efni til að fjalla um þá málsástæðu að stefnanda hafi verið mismunað við úrlausn málsins miðað við niðurstöðu Fiskistofu í máli Hvals hf. vegna togarans Venusar nokkrum árum áður.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða málsins að varakrafa stefnanda er tekin til greina.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Bjarni Björnsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Einar Karl Hallvarðsson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfu stefnanda, Loðnuvinnslunnar hf. um að ógilt verði með dómi ákvörðun Fiskistofu 22. maí 2002 um aflahlutdeild skips stefnanda, Hoffells SU-80, í norsk-íslenskri síld, samkvæmt reglugerð nr. 348/2002, um úthlutun aflaheimilda í norsk-íslenskri síld, sbr. lög nr. 50/2002.

Ógiltur er úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins 1. október 2002 um staðfestingu á ákvörðun Fiskistofu um að hafna að taka tillit til tafa Hoffells SU-80 frá veiðum 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, vegna viðgerða, við úthlutun aflaheimilda í norsk-íslenskri síld samkvæmt reglugerð nr. 348/2002.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.