Print

Mál nr. 87/2002

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skattur
  • Óvígð sambúð
  • Ábyrgð

Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002.

Nr. 87/2002.

Fríða Bragadóttir

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Gunnar Ármannsson hdl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Skattar. Óvígð sambúð. Ábyrgð.

F bar ekki ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda sambúðarmanns síns gjaldárin 1997 og 1998, enda þótt F og sambúðarmaður hennar hefðu verið skattlögð sem hjón umrædd ár. Í dómi Hæstaréttar segir að skattframtali F 1997 hafi fylgt beiðni um að hún yrði skattlögð sem einstaklingur það ár. Hafi skattstjóri því ekki mátt líta fram hjá beiðninni og skattleggja F og sambúðarmann hennar sem hjón umrætt ár. Um síðara árið sé þess að gæta að F og sambúðarmaður hennar hafi þá talið saman fram til skatts, en ekki óskað eftir því að vera skattlögð sem hjón. Á eyðublaði fyrir skattframtal 1998 hafi verið tekið fram að sambúðarfólk, sem uppfylli skilyrði fyrir samsköttun, gæti óskað eftir henni. Hafi jafnframt verið tekið fram að ekki yrði fallist á samsköttun nema fram kæmi ósk þar um frá báðum. Að virtum framtalsmáta F og sambúðarmanns hennar og þeim ummælum, sem fram komi á skattframtalinu, hafi skattstjóra ekki verið heimilt án frekari athugunar að draga ályktanir um afstöðu F til samsköttunar, heldur borið að inna hana og sambúðarmann hennar eftir því hvort þau óskuðu eftir að vera skattlögð sem hjón umrætt ár, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Afstaða F liggi nú fyrir. Vegna þessa annmarka á álagningu opinberra gjalda F 1998 geti hún ekki borið ábyrgð á opinberum gjöldum sambúðarmanns síns það ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2002, þar sem fjárnámi, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila 10. júlí 2001 fyrir kröfu varnaraðila, var breytt á þann veg að það tæki til skuldar að fjárhæð 2.520.359 krónur ásamt dráttarvöxtum og kostnaði. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fjárnámið verði fellt úr gildi, til vara að það verði aðeins látið ná til skuldar að fjárhæð 4.065 krónur, til þrautavara 908.217 krónur, en til ítrustu vara 1.616.294 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en þó þannig að fyrrgreint fjárnám verði aðeins látið ná til skuldar að höfuðstól 908.217 krónur. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

I.

Með beiðni 25. apríl 2000 leitaði varnaraðili eftir því með vísan til 9. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila fyrir skuld að fjárhæð 4.365.694 krónur auk nánar tilgreindra dráttarvaxta og kostnaðar. Í beiðninni kom fram að um væri að ræða ógreidd opinber gjöld nafngreinds maka sóknaraðila gjaldárin 1994 til 1999. Beiðni varnaraðila var árituð 5. mars 2001 í Héraðsdómi Reykjavíkur um heimild til gerðarinnar. Sýslumaðurinn í Reykjavík tók beiðnina fyrir 10. júlí 2001. Sóknaraðili mótmælti því að gerðin næði fram að ganga, þar sem hún væri í sambúð með umræddum manni en ekki gift honum og þau ekki samsköttuð. Sýslumaður féllst á kröfu varnaraðila um að gerðin færi fram án tillits til þessara mótmæla. Var fjárnám síðan gert í nánar tiltekinni fasteign sóknaraðila og gerðinni þar með lokið. Með bréfi 23. ágúst 2001 krafðist sóknaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um gerðina.

Í greinargerð, sem lögð var fram í þinghaldi í héraði 8. október 2001, krafðist varnaraðili þess að fjárnámið yrði staðfest með þeirri breytingu að það tæki aðeins til ógreiddra opinberra gjalda sambúðarmanns sóknaraðila gjaldárin 1997, 1998 og 1999, samtals að fjárhæð 2.520.359 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Nánar tiltekið var þar um að ræða opinber gjöld að fjárhæð 904.152 krónur frá gjaldárinu 1997, 4.065 krónur frá gjaldárinu 1998 og 1.612.142 krónur frá gjaldárinu 1999. Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á þessa kröfu varnaraðila.

Fyrir Hæstarétti hefur varnaraðili lýst því yfir að hann fallist á þrautavarakröfu sóknaraðila um að fjárnáminu verði breytt á þann veg að það taki aðeins til skuldar að höfuðstól 908.217 krónur. Er það samanlögð fjárhæð áðurgreindra opinberra gjalda frá gjaldárunum 1997 og 1998.

II.

Samkvæmt gögnum málsins töldu sóknaraðili og sambúðarmaður hennar sameiginlega fram til skatts árið 1992 og óskuðu þá eftir því að vera skattlögð sem hjón. Þá liggur fyrir að þau töldu fram til skatts og voru skattlögð sem hjón á árunum 1993 til 1996, þótt þau hafi ekki óskað eftir samsköttun á skattframtölum þessara ára. Á árinu 1997 taldi sóknaraðili ekki fram til skatts innan framtalsfrests og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum það ár. Á árinu 1999 afhenti sóknaraðili skattyfirvöldum skattframtal sitt fyrir árið 1997 ásamt beiðni 15. febrúar 1999 um að hún yrði skattlögð sem einstaklingur frá og með „skattári þessa framtals“. Með úrskurði 7. mars 2000 féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda sóknaraðila í stað áætlunar á skattstofnum, en við álagninguna mun þó allt að einu hafa verið staðið að verki eins og hún hefði óskað eftir að vera skattlögð með sambúðarmanni sínum. Sóknaraðili og sambúðarmaður hennar töldu fram til skatts og voru skattlögð sem hjón árið 1998. Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili hafi talið ein fram til skatts árið 1999, en engu að síður verið skattlögð með sambúðarmanni sínum líkt og fyrri ár.

III.

Krafa sóknaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi er reist á því að hún hafi hvorki óskað eftir að hún og sambúðarmaður hennar yrðu skattlögð sem hjón umrædd gjaldár né gert sér grein fyrir því að þau hafi í raun verið skattlögð á þann hátt. Af þessum sökum beri hún ekki ábyrgð á ógreiddum opinberum gjöldum sambúðarmanns síns samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981, eins og henni var breytt með 16. gr. laga nr. 137/1996. Engu skipti að þau hafi óskað eftir að vera skattlögð sem hjón á árinu 1992, þar sem bera verði fram slíka ósk við hver framtalsskil í samræmi við 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Þessu til stuðnings bendir sóknaraðili meðal annars á að texta eyðublaðs fyrir skattframtal hafi verið breytt í framhaldi af því að reglur um sameiginlega ábyrgð hjóna á skattgreiðslum í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981 voru færðar í það horf með fyrrgreindu ákvæði laga nr. 137/1996 að þær tækju til samskattaðs sambúðarfólks. Varakrafa sóknaraðila er miðuð við að hún beri ekki ábyrgð á ógreiddum opinberum gjöldum sambúðarmanns síns gjaldárin 1997 og 1999. Að því er snertir fyrra gjaldárið heldur hún því fram að ákvæði um sameiginlega ábyrgð sambúðarfólks á skattgreiðslum í lögum nr. 137/1996, sem hafi verið birt 30. desember 1996, geti ekki haft afturvirk áhrif á þann hátt að þau nái til opinberra gjalda af tekjum á árinu 1996. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Að því er snertir síðara gjaldárið vísar sóknaraðili til þess að hún hafi í áðurnefndu bréfi til skattstjóra 15. febrúar 1999 óskað eftir að vera skattlögð sem einstaklingur og fái því ekki staðist að hún og sambúðarmaður hennar séu skattlögð sem hjón það ár. Með fyrrgreindri breytingu á kröfugerð sinni fyrir Hæstarétti hefur varnaraðili fallist á þessa málsástæðu sóknaraðila.

Krafa varnaraðila fyrir Hæstarétti er sem áður segir miðuð við að sóknaraðili beri ábyrgð á opinberum gjöldum sambúðarmanns síns frá gjaldárunum 1997 og 1998. Sú krafa er reist á því að sóknaraðili og sambúðarmaður hennar hafi óskað eftir því að vera skattlögð sem hjón á árinu 1992 og æ síðan verið skattlögð þannig. Ákvæði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 um heimild sambúðarfólks til að óska eftir samsköttun verði ekki skilin svo að þau þurfi að krefjast hennar við hverja framtalsgerð. Sú framkvæmd að miða álagningu opinberra gjalda við upphaflega ósk sambúðarfólks sé ekki varhugaverð. Þótt sambúðarfólk fái sent sameiginlegt skattframtal sé hægur vandi fyrir það að telja fram hvort í sínu lagi. Sóknaraðili og sambúðarmaður hennar hafi um margra ára skeið skilað sameiginlegu skattframtali og álagning opinberra gjalda verið reist á því. Mótmælir varnaraðili því sérstaklega að ákvæði 16. gr. laga nr. 137/1996 hafi afturvirk áhrif, en sambúðarfólki hafi verið í lófa lagið að telja fram til skatts hvort í sínu lagi á árinu 1997.

IV.

Í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 segir að karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, eigi rétt á að telja fram til skatts og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í að minnsta kosti eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld. Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. sömu laga bera hjón, sbr. 63. gr. og 81. gr. laganna, óskipta ábyrgð á greiðslu skatta, sem á þau eru lagðir, og getur innheimtumaður gengið að hvoru þeirra um sig til greiðslu á sköttum beggja. Með áðurnefndri 16. gr. laga nr. 137/1996 var gerð sú breyting á 114. gr. laga nr. 75/1981 að þessar reglur gilda orðið á sama hátt um samskattað sambúðarfólk.

Að því er snertir gjaldárið 1997 liggur sem áður segir fyrir að sóknaraðili taldi ekki fram til skatts innan framtalsfrests og sætti því áætlun á skattstofnum það ár. Skattframtali sóknaraðila 1997, sem hún mun hafa skilað til skattyfirvalda á árinu 1999, fylgdi beiðni um að hún yrði skattlögð sem einstaklingur frá og með fyrrnefnda árinu. Skattstjóri ákvað að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda sóknaraðila í stað áætlunar á skattstofnum. Fyrst svo var gert mátti hann ekki líta fram hjá beiðni sóknaraðila, sem fylgdi þessu skattframtali, um að hún yrði skattlögð sem einstaklingur. Samkvæmt því var skattstjóra ekki heimilt að skattleggja sóknaraðila og sambúðarmann hennar sem hjón gjaldárið 1997.

Um gjaldárið 1998 er þess að gæta að sóknaraðili og sambúðarmaður hennar töldu þá saman fram til skatts, en óskuðu ekki eftir því að vera skattlögð sem hjón. Á eyðublaði fyrir skattframtal 1998 var tekið fram að sambúðarfólk, sem uppfylli skilyrði fyrir samsköttun, gæti óskað eftir henni. Var jafnframt tekið fram að ekki yrði fallist á samsköttun nema fram kæmi ósk þar um frá báðum. Að virtum framtalsmáta sóknaraðila og sambúðarmanns hennar og þessum ummælum, sem fram komu á skattframtalinu, var skattstjóra ekki heimilt án frekari athugunar að draga ályktanir um afstöðu sóknaraðila til samsköttunar, heldur bar honum að inna sóknaraðila og sambúðarmann hennar eftir því hvort þau óskuðu eftir að vera skattlögð sem hjón umrætt ár, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Afstaða sóknaraðila liggur nú fyrir. Vegna þessa annmarka á álagningu opinberra gjalda sóknaraðila 1998 getur hún ekki borið ábyrgð á opinberum gjöldum sambúðarmanns síns það ár.

Samkvæmt framansögðu verður að fallast á aðalkröfu sóknaraðila og fella úr gildi fjárnámið, sem varnaraðili fékk gert hjá henni 10. júlí 2001.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 10. júlí 2001 hjá sóknaraðila, Fríðu Bragadóttur, að kröfu varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2002.

Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. september sl. og tekið til úrskurðar 17. janúar sl.

Sóknaraðili er Fríða Bragadóttir, kt. 030963-5719, Bakkastíg 2, Reykjavík.

Varnaraðili er Tollstjórinn í Reykjavík, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að fjárnámsgerð 011-2001-09289, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Reykjavík 10. júlí 2001 verði ógilt og að sóknaraðila verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila. Til vara er þess krafist að gerðinni verði breytt til samræmis við lög og að sóknaraðila verði jafnframt úrskurðaður málskostnaður.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að ákvörðun sýslumanns um að láta hina kærðu aðfarargerð fara fram og gera fjárnám hjá sóknaraðila vegna kröfu varnaraðila að höfuðstólsfjárhæð 2.520.359 kr. ásamt dráttarvöxtum og kostnaði verði staðfest. Jafnframt er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins.

I

Málsatvik

Málavextir eru þeir að 10. júlí 2001 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík, aðfarargerð nr. 011-2001-09289, að kröfu varnaraðila. Krafist var fjárnáms fyrir kröfu að höfuðstólsfjárhæð 4.365.694 kr. vegna opinberra gjalda Kristjáns Sigurðar Kristjánssonar, sambýlismanns sóknaraðila, fyrir álagningarárin (gjaldár) 1994-1999 (tekjuár 1993-1998).  Við fjárnámið mætti talsmaður fyrir hönd sóknaraðila og mótmælti gerðinni þar sem sóknaraðili og nefndur Kristján væru ógift og ekki samsköttuð.  Fulltrúi sýslumanns ákvað að gerðin skyldi fara fram og var gert fjárnám í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Bakkastígur 4, 0102 Reykjavík, til tryggingar kröfunni.  Með beiðni dags. 23. ágúst sl. var krafist úrlausnar héraðsdóms um gerðina. Undir rekstri málsins féll varnaraðili frá kröfu á hendur sóknaraðila vegna álagningaráranna (gjaldáranna) 1994-1996 (tekjuár 1993 – 1995 ) og lækkaði höfuðstólsfjárhæð við það í 2.520.359 kr., sem dómkrafa hans miðast við.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að samkvæmt aðfararbeiðni hafi verið krafist fjárnáms hjá sóknaraðila til tryggingar skuld maka, Kristjáns Sigurðar Kristjánssonar, vegna vangoldinna opinberra gjalda. Í aðfararbeiðni og undanfarandi greiðsluáskorun sé vísað til þess að hjón beri óskipta ábyrgð á greiðslu skatta sem á þau séu lagðir samkvæmt 114. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt.  Áritun dómara um heimild til aðfarar sé og  byggð á þessari samábyrgð hjóna á skattskuldum.  Staðreynd málsins sé hins vegar sú að Kristján sé sambýlismaður sóknaraðila, en ekki eiginmaður.  Hafi aðför verið mótmælt af þessum sökum. Það sé grundvallarafstaða sóknaraðila að aðför megi ekki gera nema réttur sá, sem henni sé ætlað að tryggja, sé ótvíræður.  Sé því nóg til að synja beri um fjárnám að fyrir liggi vafi um réttmæti skuldar.  Varnaraðili hafi leitast við, vísvitandi eða af gáleysi, að vekja þá hugmynd hjá héraðsdómara og sýslumanni að sóknaraðili væri gift Kristjáni Sigurði Kristjánssyni, þrátt fyrir að upplýsingar um að svo væri ekki hafi átt að vera honum aðgengilegar.  Hafi varnaraðili haldið gerðarbeiðni sinni til streitu þó að hið rétta væri tekið fram.  Forsendur fyrir áritun héraðsdómara og gerð sýslumanns séu því brostnar og beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda gerðina.

Þá byggir sóknaraðili á því að hún og Kristján Sigurður Kristjánsson séu ekki samsköttuð sem sambúðarfólk samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga 75/1981, sbr. lög nr. 137/1996.  Þau hafi annað hvort aldrei verið samsköttuð eða hafi aðeins verið samsköttuð á einstaka ári samkvæmt einhliða ákvörðun skattyfirvalda, án beiðni þeirra.  Þess er og  getið að lögleg samsköttun sambýlisfólks byggist á 3. mgr. 64. gr. laga um tekju- og eignarskatt.  Þar komi fram að samsköttun sé skattaleg meðferð sem sambúðarfólki sé í sjálfsvald sett hvort það vilji nýta sér, og sé það skilyrði meðal annars sett fyrir samsköttun að viðkomandi karl og kona óski hennar bæði skriflega við skattyfirvöld. Slíka ósk hafi sóknaraðili og Kristján Sigurður Kristjánsson aldrei borið fram og lög geri ekki ráð fyrir að skattyfirvöld ákveði upp á sitt eindæmi samsköttun eða sérsköttun sambúðarfólks.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að aðfararbeiðni sú, er mál þetta sé sprottið af, hafi verið send til héraðsdóms í samræmi við ákvæði 4. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989 þar sem krafist var aðfarar á grundvelli 2. mgr. 3. gr. sömu laga. Hvergi í lögum né lögskýringargögnum sé gerður áskilnaður um að fram þurfi að koma í aðfararbeiðni sérstök umfjöllun eða tilvísun í 2. mgr. 3. gr. laganna.  Hins vegar sé gerður áskilnaður í 10. gr. laganna um að í aðfararbeiðni skuli koma fram við hvaða heimild aðfararbeiðnin styðjist. Í aðfararbeiðninni sé vitnað til 9. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, sbr. l. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981, og sé þar með fullnægt skilyrðum 10. gr. um tilgreiningu aðfararheimildar.

Í aðfararbeiðninni sé vitnað til 1. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981.  Sú lagagrein fjalli um samábyrgð hjóna, samskattaðs sambúðarfólks og einstaklinga í staðfestri samvist á greiðslum skatta.  Samábyrgð allra þessara aðila sé sú sama hvort sem um sé að ræða hjón, samskattað sambúðarfólk eða einstaklinga í staðfestri samvist.  Ónákvæmni í orðavali, t.d. hvort um sé að ræða maka eða sambúðarmaka, skipti því ekki máli í þessu tilviki.

Um samábyrgð sóknaraðila á sköttum Kristjáns Sigurðar Kristjánssonar sé byggt á ósk sóknaraðila og Kristjáns um að vera samsköttuð, eins og framlögð gögn beri með sér. Í bréfi skattstjórans í Reykjavík til varnaraðila dags. 28. september 2001 sé skattlagning sóknaraðila og Kristjáns rakin. Þar komi fram að þau hafi í upphafi óskað eftir samsköttun og hafi eftir það undirritað, annað eða bæði, síðari skattframtöl þar sem hafi verið forskráðar upplýsingar um þau bæði, eins og gert sé þegar um samskattaða sambúðaraðila sé að ræða. Í samræmi við þetta hafi skattstjóri lagt á þau sem samskattað sambýlisfólk.

Í bréfi ríkiskattstjóra til sóknaraðila dags. 29 febrúar 2000 komi fram að sóknaraðili hafi í byrjun árs 2000 óskað eftir að vera sérsköttuð frá árinu 1996. Þeirri ósk hafnaði ríkisskattstjóri á þeim grundvelli að sóknaraðili og Kristján hafi notið skattalegs hagræðis af samsköttuninni. Með bréfi dags. 10. apríl 2000 ítrekaði sóknaraðili ósk sína. Með bréfi dags. 7. nóvember 2000 vísaði ríkisskattstjóri því erindi frá með vísan til úrskurðar dags. 29. febrúar 2000.

Á því er byggt að skattþegnar, sem notið hafa skattalegs hagræðis af samsköttun, geti ekki breytt beiðni um samsköttun aftur í tímann eftir eigin geðþótta ef þeir telja það þjóna hagsmunum sínum betur. Með því að óska eftir samsköttun séu skattþegnar að undirgangast tiltekna skyldu, þ.e. sjálfskuldarábyrgð samkvæmt l. mgr. 114. gr. laga. nr. 75/1981. Undan þeirri ábyrgð geti skattþegnar ekki vikist með því að óska eftir sérsköttun aftur í tímann. Hin lögbundna sjálfskuldarábyrgð sé orðin virk og geti ekki fallið niður nema krafa sú sem sjálfskuldarábyrgðinni sé ætlað að tryggja falli niður fyrir greiðslu.

IV

Niðurstaða

Mál þetta sætir úrlausn héraðsdómara samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga um aðför nr. 90/1989.  

Ekki verður talið að máli skipti varðandi heimild til aðfarar á hendur sóknaraðila að ranglega var tilgreint í aðfararbeiðni að sóknaraðili og Kristján Sigurður Kristjánsson væru hjón en ekki sambúðarfólk, þar sem ákvæði 1. mgr. 114. gr. laga 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 137/1996 um óskipta ábyrgð á greiðslum skatta tekur bæði til hjóna og sambúðarfólks.  Aðfarargerðin verður ekki ógilt af þeirri ástæðu.

Fyrir liggur að sóknaraðili og Kristján Sigurður Kristjánsson hafa verið í sambúð frá árinu 1989.  Samkvæmt áritun á skattframtal 1992 sóttu þau um samsköttun og fengu álagningu í samræmi við það.  Eftir það hafa þau verið skattlögð sem samskattað sambýlisfólk á grundvelli forskráðrar fjölskyldumerkingar í skattframtölum þar um, eins og rakið er í bréfi skattstjórans í Reykjavík til varnaraðila dags. 28. september sl. Þá liggur fyrir að beiðni sóknaraðila um sérsköttun afturvirkt frá árinu 1996 var hafnað samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra dags. 29. febrúar 2000. 

Sóknaraðili og sambýlismaður hennar voru samkvæmt framansögðu samsköttuð árum saman án þess að óska eftir breytingu á því fyrirkomulagi og hafa þau jafnframt, að því er ætla verður, notið skattalegs hagræðis af því.  Verður því að telja að sóknaraðili beri óskipta ábyrgð á skattskuld sambýlismanns síns samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga 75/1981 frá og með gildistöku 16. laga nr. 137/1996 um breytingu á því ákvæði.  Er það og í samræmi við breytingu á tölulegri kröfugerð varnaraðila.

Ber því með vísan til 1. mgr. 95. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 að staðfesta aðfarargerðina með breyttri höfuðstólsfjárhæð, 2.520.359 kr. ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2001-09289, sem fram fór 10. júlí 2001, þar sem gert var fjárnám í eignarhluta sóknaraðila, Fríðu Bragadóttur, í fasteigninni Bakkastíg  4, Reykjavík, er staðfest með breyttri höfuðstólsfjárhæð 2.520.359 kr. ásamt dráttarvöxtum og kostnaði.

Málskostnaður fellur niður.