Print

Mál nr. 33/2018

Ársæll Valfells, Nanna Helga Valfells, Sveinn Valfells og Damocles Services Ltd. (Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður)
gegn
Sveini Valfells (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
Lykilorð
  • Einkahlutafélag
  • Hluthafasamkomulag
  • Vanefnd
  • Riftun
Reifun

Áfrýjendurnir ÁV, NV og SV eldri og stefndi SV yngri, sem til samans áttu helming hluta í V ehf., gerðu hluthafasamkomulag 1. mars 2010. Í maí 2014 framseldi SV eldri alla hluti sína í V ehf. til N Ltd. og í desember sama ár voru sömu hlutir framseldir til D Ltd. Fyrrnefnda félagið var að mestu í eigu hans en það síðarnefnda að öllu leyti. Í ágúst 2016 lýsti SV yngri yfir riftun á hluthafasamkomulaginu á þeim grundvelli að það hefði verið vanefnt í svo verulegum atriðum að riftun væri heimil, auk þess sem forsendur fyrir því væru brostnar og einstök ákvæði þess ógildanleg. Í málinu kröfðust ÁV, NV, SV eldri og D Ltd. þess að riftunin yrði ógilt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að framangreindar ráðstafanir SV eldri á hlutum hans í V ehf. hafi verið heimilar á grundvelli hlutahafasamkomulags allra hluthafa í félaginu frá árinu 2008, eins og því var síðar breytt, og samþykktum þess frá maí 2014. Á hinn bóginn yrði að gæta að því að í hluthafasamkomulaginu frá 1. mars 2010 hefðu verið settar skorður við frelsi aðila þess til að framselja hluti sína í V ehf. Þannig hafi ekkert þeirra mátt ráðstafa hlutum sínum í félaginu án samþykkis allra hinna auk þess sem nýr hluthafi þyrfti að gangast undir samkomulagið. Hvorki N Ltd. né D Ltd. hefðu gengist undir umrætt hluthafasamkomulag auk þess sem engin efni voru til að telja að SV yngri hefði í verki samþykkt framsal hlutanna til D Ltd. Þegar af þessum ástæðum var lagt til grundvallar að gagnvart SV yngri hefði SV eldri vanefnt skyldur sínar samkvæmt hluthafasamkomulaginu. Við mat á vægi þessara vanefnda var litið til þess að umræddir hlutir hefðu svarað til 34,5% allra hluta í V ehf. og hefði því eigandi þeirra farið með 69% atkvæða um ákvarðanir sem samkomulagið hefði náð til. Á grundvelli þessara hluta hefði þannig eigandi þeirra upp á sitt eindæmi getað ráðið á vettvangi V ehf. gerðum allra aðila hluthafasamkomulagsins. Hafi SV yngri haft verulega hagsmuni af því hver færi með þetta forræði yfir hlutum hans í V ehf., en enga tryggingu hafi hann haft fyrir því að D Ltd. kæmist ekki í eigu annars en SV eldri. Þegar af þessum ástæðum var talið að vanefndir SV eldri hefðu verið verulegar og riftun SV yngri þar af leiðandi heimil. Var hann því sýknaður af kröfu ÁV, NV, SV eldri og D Ltd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. desember 2018 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þau krefjast þess að ógilt verði riftun stefnda 23. ágúst 2016 á hluthafasamkomulagi, sem hann gerði 1. mars 2010 við áfrýjendurna Ársæl Valfells, Nönnu Helgu Valfells og Svein Valfells. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar á öllum dómstigum.

Stefndi krefst þess að dómur Landsréttar verði staðfestur og áfrýjendum gert óskipt að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

I

1

Samkvæmt gögnum málsins var hlutafélagið Vesturgarður stofnað á árinu 1970, en eftir að lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög tóku gildi mun því hafa verið breytt í slíkt félag. Meðal stofnenda félagsins var Sveinn B. Valfells, en eftir andlát hans árið 1981 munu börn hans, Ágúst, Sigríður og áfrýjandinn Sveinn, hafa fengið öll hlutabréf í félaginu að arfi. Sigríður mun hafa látist 1998 og bræðurnir þá erft þessi hlutabréf hennar, en þannig urðu þeir eigendur félagsins að helmingi hvor. Á árinu 2006 munu tvö önnur félög, annað í eigu áfrýjandans Sveins og hitt í eigu Ágústs, hafa verið sameinuð Vesturgarði ehf. og hlutafé í síðastnefnda félaginu verið aukið. Í framhaldi af þessu mun hluthöfum í Vesturgarði ehf. hafa fjölgað með því að eigendur félagsins hafi látið af hendi hluti í því til barna sinna. Mynduðust við það tveir hópar hluthafa, annars vegar áfrýjandinn Sveinn, sem áfram átti 34,5% hlut, og börn hans, stefndi og áfrýjendurnir Ársæll og Nanna, sem hvert um sig eignuðust um 5,17%, og hins vegar Ágúst með 22,93% hlut og börn hans, Ágúst yngri, Helga og Jón, hvert með um 9,02%.

Fyrirliggjandi samþykktir Vesturgarðs ehf. eru að stofni til frá 28. ágúst 2002 og segir þar að tilgangur félagsins sé „hvers konar verslunar- og iðnrekstur, efnisnám og annar skyldur rekstur, umsýsla fasteigna og lánastarfsemi.“ Eftir fyrrnefnda aukningu hlutafjár í félaginu á árinu 2006 varð það alls 284.166.205 krónur og hefur eftir samþykktunum verið óbreytt síðan. Í þeim eru jafnframt svofelld ákvæði um forkaupsrétt að hlutum í félaginu: „Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafa hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Verði ágreiningur um verð hluta skal það ákveðið með mati tveggja óvilhallra manna sem dómkvaddir skulu til þess starfa. Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup eru ákveðin þar til kaupverð er greitt. Eigendaskipti vegna erfða eða búskipta lúta ekki framangreindum forkaupsréttarreglum.“ Þá er þess að geta að samkvæmt samþykktunum skal á árlegum aðalfundi kjósa fjóra menn í stjórn félagsins og jafn marga til vara. Af gögnum málsins verður ráðið að um árabil hafi hvor áðurnefndra hópa hluthafa ráðið vali á tveimur stjórnarmönnum í félaginu og tveimur varamönnum þeirra.

Eftir að hlutafé í Vesturgarði ehf. færðist í núverandi horf munu helstu eignir félagsins hafa verið fasteignir að Laugavegi 59, Skeifunni 13-15 og Faxafeni 8 í Reykjavík. Tekna virðist félagið í meginatriðum hafa aflað með útleigu þeirra eigna.

2

Í málatilbúnaði stefnda er þess getið að áfrýjandinn Sveinn muni á árinu 2000 hafa stofnað félagið Neutrino Ltd. á bresku eyjunni Mön, en gefið síðan 2007 stefnda og áfrýjendunum Ársæli og Nönnu hverju fyrir sig 4,9% hlut í félaginu að nafnverði 25.204,24 sterlingspund.

Hluthafar í Vesturgarði ehf. gerðu samkomulag 4. júlí 2008, þar sem sagði meðal annars: „Við undirritaðir aðilar, Ágúst Valfells og börn hans, og börn Sveins Valfells, hluthafar í einkahlutafélaginu Vesturgarði ehf., samþykkjum hér með að falla frá forkaupsrétti okkar við sölu Sveins Valfells á eignarhlutum sínum í Vesturgarði ehf. til fyrirtækisins Neutrino Ltd. … Eigendur Neutrino Ltd., sem eru Sveinn Valfells og börn hans, samþykkja á móti að framselja ekki eignarhlutina í Vesturgarði ehf. öðrum eftir að Neutrino Ltd. hefur eignast eignarhlutina nema tilkynna það stjórn Vesturgarðs ehf. áður … Sveini Valfells og börnum hans er þó heimilt að leysa til sín eignarhluti Neutrinos Ltd. í Vesturgarði ehf. í eigin nafni án þess að til forkaupsréttar annarra hluthafa komi ... Jafnframt heitir Sveinn Valfells og börn hans því að selja ekki fyrirtækið Neutrino Ltd. að hluta eða að öllu leyti með eignarhlutum þess í Vesturgarði nema hluthafarnir eða Neutrino Ltd. bjóði áður Vesturgarði ehf. eða hluthöfum Vesturgarðs ehf. að kaupa eignarhluti Neutrino Ltd. í Vesturgarði ehf.“ Áfrýjandinn Sveinn undirritaði jafnframt þessa yfirlýsingu í nafni Neutrino Ltd.

Eins og fram kemur hér síðar var ráðagerð um þetta framsal hluta áfrýjandans Sveins í Vesturgarði ehf. ekki hrundið í framkvæmd fyrr en á árinu 2014.

3

Stefndi, sem þá var búsettur erlendis, veitti áfrýjandanum Sveini umboð 1. júní 2009 til að koma fram fyrir sína hönd „í öllum málum er varða Vesturgarð hf. hvort sem er á aðalfundi félagsins eða á öðrum vettvangi.“ Skyldi þetta umboð vera „fullt og ótakmarkað og ótímabundið“ og yrði það ekki „dregið til baka nema með bréfi til stjórnar félagsins.“

Samkvæmt aðilaskýrslu stefnda fyrir héraðsdómi veitti hann föður sínum þetta umboð að frumkvæði þess síðarnefnda í tengslum við aðalfund í Vesturgarði ehf. á árinu 2009. Skilja verður frásögn stefnda um þetta svo að hann hafi sjálfur samið texta skjalsins.

4

 Áfrýjandinn Sveinn sendi stefnda og áfrýjendunum Ársæli og Nönnu tölvubréf 21. febrúar 2010, þar sem sagði meðal annars: „Hér um árið lögðum við til við meðeigendur okkar í Vesturgarði að gert yrði hluthafasamkomulag um eignir í félaginu. Því var eindregið hafnað af meðeigendum okkar. Ég hef verið að velta fyrir mér að við sem eigum saman helming í félaginu geri með okkur formlegt hluthafasamkomulag þannig að við komum fram sem ein heild í félaginu í framtíðinni sem hingað til. Þetta er ósk mín þar sem enginn veit hvað hans bíður og til að tryggja það að afkomendur mínir og mömmu vinni saman sem ein heild. Sjá hjálagt skjal.“ Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst áfrýjandinn Sveinn hafa fengið nafngreindan lögmann til að semja eftir sínum óskum hluthafasamkomulag, sem fylgdi þessu tölvubréfi. Skjal þetta, sem var dagsett 1. mars 2010, undirrituðu allir aðilarnir sem hér um ræðir, en að þessu samkomulagi laut yfirlýsing stefnda um riftun 23. ágúst 2016, sem áfrýjendur krefjast í málinu að ógilt verði.

Í upphafi samkomulagsins kom fram að áfrýjendurnir Sveinn, Ársæll og Nanna stæðu að því ásamt stefnda og væru þau nefnd þar í einu lagi „fjölskyldan“. Sagði í 1. grein samkomulagsins að markmið þess væri að tryggja að fjölskyldan ynni saman sem ein heild í málefnum Vesturgarðs ehf. og gætti þar í hvívetna sameiginlegra hagsmuna sinna. Í 2. grein var tiltekið hvað hvert þeirra fjögurra ætti marga hluti í félaginu, svo og að hverjum hlut skyldi fylgja „eitt atkvæði við ákvarðanatöku innan fjárfestahópsins“. Um slíka ákvarðanatöku voru svofelld fyrirmæli í 3. grein: „Ákvarðanir í málefnum fjölskyldunnar skulu teknar á fundi, sem boða skal til með tveggja vikna fyrirvara. Fundur er lögmætur ef mættir eru meðlimir fjölskyldunnar, sem samtals ráða yfir meira en ½ atkvæða af heildaratkvæðum fjölskyldunnar í félaginu. Við ákvarðanatöku á fundi ræður afl atkvæða. Dugir einfaldur meirihluti atkvæða, sem mætt er fyrir á fundinum … Fund skal halda minnst einu sinni á ári, minnst þremur dögum fyrir boðaðan aðalfund eða hluthafafund Vesturgarðs ehf. Fundir samkvæmt þessari grein geta farið fram í gegnum síma.“ Í 4. grein samkomulagsins sagði síðan: „Aðilar fjölskyldunnar skuldbinda sig til að taka sameiginlegar ákvarðanir, sbr. 3. gr., um málefni félagsins og beitingu atkvæðisréttar í félaginu. Ennfremur skuldbinda meðlimir fjölskyldunnar sig til að koma sameiginlega fram, sem ein heild, á grundvelli þeirra ákvarðana sem hafa verið teknar í samræmi við samkomulag þetta og að öðru leyti þar sem varðar hagsmuni fjölskyldunnar í félaginu. Samkomulag þetta nær m.a. til ákvarðana um stjórnarkjör sbr. 5. gr., um meðferð og ráðstöfun hluta, sbr. 6. gr., um beitingu forkaupsréttar vegna sölu á hlutum í félaginu, sbr. samþykktir félagsins, um þátttöku í hækkun eða lækkun hlutafjár, um arðgreiðslur til hluthafa, ráðningu framkvæmdastjóra í félaginu, um breytingar á samþykktum félagsins o.fl.“ Samkvæmt 5. grein átti fjölskyldan að ákveða í sameiningu eftir ákvæðum 3. greinar hvaða „fulltrúa þeir kjósa í stjórn félagsins“ og skyldu þessir fulltrúar „fara í einu og öllu eftir ákvörðunum sem teknar hafa verið innan fjölskyldunnar“, en einu myndi gilda hvort „um er að ræða framgöngu á stjórnarfundi, á öðrum vettvangi félagsins eða hvar sem reynir á sameiginlega hagsmuni fjölskyldunnar í félaginu.“ Undir fyrirsögninni: „Kvaðir á meðferð og ráðstöfun hluta“ sagði eftirfarandi í 6. grein: „Meðlimir fjölskyldunnar skuldbinda sig til að selja ekki, skipta, flytja, gefa, veðsetja eða ráðstafa með öðrum hætti hlutum sínum í félaginu án samþykkis annarra aðila í fjölskyldunni. Gildir hér einu hvort um er að ræða ráðstöfun samkvæmt framangreindu til skyldra eða óskyldra aðila. Samþykki annarra aðila fjölskyldunnar á ráðstöfun samkvæmt ofangreindu, þar sem nýr aðili eignast hlut í félaginu eða réttindi yfir hlutum í félaginu, skal m.a. háð því skilyrði að hinn nýi hluthafi eða rétthafi gangist undir þetta samkomulag. Ef meðlimur fjölskyldunnar ráðstafar hlut í félaginu í andstöðu við 1. mgr. þessarar greinar skal hann gera öðrum aðilum hópsins bindandi kauptilboð í þeirra hluti. Skal tilboðsverð hlutanna fara eftir mati dómkvaddra matsmanna á verðmæti hluta í félaginu að viðbættu 25% álagi.“ Í 7. grein var tekið fram að samkomulagið væri ótímabundið, en ákvörðun um að breyta því eða fella það niður skyldi tekin eftir fyrirmælum 4. greinar eða að látnum áfrýjandanum Sveini og eiginkonu hans eða „vegna vanhæfni þeirra að mati allra þriggja barna þeirra.“ Loks er þess að geta að í 8. grein samkomulagsins var kveðið á um að það ætti að gilda „að því marki sem samrýmist samþykktum félagsins og lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994.“

Óumdeilt virðist vera að samkomulagi þessu var ekki fylgt á þann hátt að haldnir hafi verið sameiginlegir fundir áfrýjendanna Ársæls, Nönnu og Sveins og stefnda til að taka ákvarðanir um málefni Vesturgarðs ehf. Í aðilaskýrslu í héraði kvað áfrýjandinn Sveinn samskipti um þetta milli þeirra hafa verið „bara munnleg og óformleg, í viðtölum og í símtölum og alla vega“, en ekki hafi verið „neinar gerðabækur haldnar yfir þá fundi, enda var þetta manni ekki í huga að þetta gæti orðið deiluefni.“

Af gögnum málsins verður ráðið að í júní 2012 hafi risið ágreiningur um persónuleg málefni, Vesturgarði ehf. óviðkomandi, fyrst milli stefnda og áfrýjandans Ársæls og síðan einnig milli stefnda og áfrýjandans Sveins, svo og að sá ágreiningur hafi færst í aukana í áranna rás. Fyrir liggur að stefndi aflaði sér í september 2012 álitsgerðar lögmanns um hvort hann væri bundinn af framangreindu hluthafasamkomulagi. Var það niðurstaða lögmannsins að stefndi gæti sent öðrum aðilum þess tilkynningu um að hann teldi sig „ekki lengur bundinn af samkomulaginu, enda færi efni þess gegn lögum og góðum siðum“, sem nánar var rökstutt í einstökum atriðum. Sendi lögmaðurinn jafnframt tillögu um texta slíkrar tilkynningar til stefnda, sem að sinni hafðist þó ekkert frekar að í þessu efni.

5

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing áfrýjandans Sveins, dagsett 27. desember 2013, þar sem sagði eftirfarandi: „Yfirlýsing þessi er undirrituð í tengslum við sölu undirritaðs á öllu hlutafé sínu í einkahlutafélaginu Vesturgarður ehf. til félags í sinni eigu, Neutrino Ltd. Undirritaður lýsir því hér með yfir, að verði aðrir en hann sjálfur, kona hans, börn eða barnabörn (fjölskyldan) með beinum eða óbeinum hætti hluthafar í félaginu Neutrino Ltd. eða öðru eignarhaldsfélagi í eigu fjölskyldunnar er kunni að eignast hlut undirritaðs í Vesturgarði ehf. þá verði öðrum núverandi hluthöfum Vesturgarðs ehf. boðið til kaups allur sá hlutur í Vesturgarði ehf. sem um ræðir. Um framangreind kaup skulu gilda ákvæði samþykkta um forkaupsrétt.“

Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvert áfrýjandinn kunni að hafa beint þessari yfirlýsingu, en tölvubréf ritaði hann á hinn bóginn 7. apríl 2014 til bróður síns Ágústs og áðurnefndra barna hans, þar sem áfrýjandinn vísaði til þess að oft hafi verið rætt á aðalfundum Vesturgarðs ehf. og milli þeirra bræðra að áfrýjandinn hefði hug á að „flytja eignarhlut“ sinn í félaginu til eignarhaldsfélags í eigu fjölskyldu sinnar. Hafi orðið að samkomulagi að áfrýjandinn gæfi út yfirlýsingu „um að forkaupsrétturinn héldi“ og hlutirnir í Vesturgarði ehf. yrðu boðnir hluthöfum í félaginu ef einhver utan fjölskyldu hans myndi beint eða óbeint eignast hlut í slíku eignarhaldsfélagi. Vegna búsetu áfrýjandans erlendis væri „það núna hagkvæmt að framkvæma þetta“. Tók áfrýjandinn fram að hann hefði „allan atkvæðisrétt í Neutrino Ltd.“, sem ekki hafði þó verið nafngreint fyrr í bréfinu, og gæti hann því skuldbundið félagið þótt hann sæti ekki í stjórn þess. Færi hann þess á leit að viðtakendur bréfsins staðfestu samþykki sitt á þessari ráðstöfun.

Eftir fyrirliggjandi gögnum virðast viðtakendur tölvubréfsins lítt hafa brugðist við þessu erindi áfrýjandans Sveins, sem beindi því skömmu síðar bréflega til bróður síns að sá kostur væri einnig fyrir hendi að hann myndi selja hluti sína öðru eignarhaldsfélagi og byðist þá hluthöfum í Vesturgarði ehf. forkaupsréttur, sem neyta yrði innan tveggja mánaða. Hafi hann notið aðstoðar endurskoðanda félagsins til að meta andvirði eignarhlutar síns, sem hann teldi nema 4.400.000 sterlingspundum, en þá fjárhæð yrði að staðgreiða ef forkaupsréttur yrði nýttur. Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um frekari atvik í þessu sambandi fram að því að 20. maí 2014 undirrituðu hluthafar í Vesturgarði ehf. viðauka við fyrrnefnt samkomulag sitt frá 4. júlí 2008 og sagði þar eftirfarandi: „Með hluthafasamkomulagi milli hluthafa í einkahlutafélaginu Vesturgarður ehf., dags. 4. júlí 2008, samþykktu hluthafar í félaginu að falla frá forkaupsrétti við sölu Sveins Valfells á eignarhlutum sínum í Vesturgarði ehf. til fyrirtækisins Neutrino Ltd., að ákveðnum nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Með undirritun sinni staðfestir stjórn Neutrino Ltd. að framselja ekki eignarhlutina í Vesturgarði ehf. öðrum eftir að Neutrino Ltd. hefur eignast eignarhlutina nema tilkynna það stjórn Vesturgarðs ehf. áður, sbr. 6. gr. samþykkta félagsins. Með vísan til hluthafasamkomulags, dags. 4. júlí 2008, þá fallast hluthafar Vesturgarðs ehf. á að Ágústi Valfells og börnum hans verði heimilt að framselja eignarhluti sína í Vesturgarði ehf. til félags í þeirra eigu, ef til þess kemur síðar, og skulu þá sömu réttindi og kvaðir vera á framsalinu og gilda um framsal Sveins Valfells til Neutrino Ltd. Nýtt hluthafasamkomulag skal undirritað í tengslum við slíkt framsal og skal stjórn þess félags er tekur við eignarhlutum í Vesturgarði ehf. staðfesta að eignarhlutir í Vesturgarði ehf. verði ekki framseldir nema tilkynna það stjórn Vesturgarðs ehf. áður, sbr. 6. gr. samþykkta félagsins.“ Áfrýjandinn Sveinn undirritaði þennan viðauka jafnframt „samkvæmt umboði stjórnar Neutrino Ltd.“

 Sama dag og þessi viðauki var gerður var haldinn hluthafafundur í Vesturgarði ehf. Þar var samþykkt einróma að bæta svofelldu ákvæði við fyrrgreind fyrirmæli í samþykktum félagsins um forkaupsrétt: „Forkaupsréttur samkvæmt þessari grein verður ekki virkur ef um er að ræða framsal milli maka, foreldra og barna eða systkina. Sama gildir ef hluthafar sem eru einstaklingar framselja hlut sinn í félaginu til lögaðila sem er alfarið í eigu sömu aðila. Lögaðili sem verður hluthafi á þennan hátt hefur ennfremur rétt til að áframselja hlut sinn í félaginu til annars félags sem einnig er eingöngu í eigu sömu einstaklinga án þess að forkaupsréttur verði virkur.“

Í skýrslu stjórnar Vesturgarðs ehf. frá 4. júlí 2014, sem var hluti af ársreikningi félagsins 2013, kom meðal annars fram að í lok síðastnefnds árs hafi hluthafar í félaginu verið átta talsins. Meðal þeirra var talinn hluthafinn Neutrino Ltd., sem ætti 98.043.908 hluti í félaginu eða 34,5%, en áfrýjandans Sveins var þar ekki getið. Einnig kom fram í þessari talningu hluthafa að Matthildur Ólafsdóttir Valfells ætti 65.151.580 hluti í félaginu eða 22,9%, en fyrir liggur í málinu að hún er eiginkona Ágústs Valfells eldri, sem átti þetta hlutfall af heildarhlutafé í félaginu eftir áðurnefndar breytingar sem urðu á árinu 2006. Af gögnum málsins verður ekkert frekar ráðið um hvernig þessi eigendaskipti að hlutunum komu til.

6

Áfrýjandinn Damocles Services Ltd. virðist eftir fyrirliggjandi gögnum hafa verið skráður í fyrirtækjaskrá á nánar tilgreindum stað í Kanada 13. janúar 2015. Samkvæmt gögnum úr þeirri skrá er eini stjórnarmaðurinn í félaginu Michelle Hildur Valfells, en allir hlutir eru sagðir í eigu áfrýjandans Sveins.

Stjórnarmaður í Neutrino Ltd. undirritaði 15. desember 2014 yfirlýsingu um að það félag hafi keypt hluti í Vesturgarði ehf. með hluthafaláni frá áfrýjandanum Sveini í desember 2013, en þeir hlutir hafi framangreindan dag allir verið framseldir til áfrýjandans Damocles Services Ltd. gegn því að það félag tæki yfir skuld Neutrino Ltd. við áfrýjandann Svein að fjárhæð 96.258.161 króna.

Í skýrslu stjórnar Vesturgarðs ehf. frá 30. júní 2015, sem var hluti af ársreikningi félagsins 2014, var greint frá hluthöfum í því. Voru það þeir sömu og taldir voru í áðurnefndum ársreikningi 2013 og var skipting hlutafjár milli þeirra jafnframt á sama veg, að því frátöldu að áfrýjandinn Damocles Services Ltd. var nú sagður eiga 98.043.908 hluti í félaginu eða 34,5%, en Neutrino Ltd. var ekki getið. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um að öðrum hluthöfum í Vesturgarði ehf. eða stjórn félagsins hafi verið tilkynnt sérstaklega um þessa breytingu á eignarhaldi að hlutum í því, en eignarhlutinn, sem hér um ræðir, mun enn vera í eigu áfrýjandans Damocles Services Ltd.

Samkvæmt gögnum málsins mun Neutrino Ltd. hafa verið slitið síðla árs 2015 og hluthafar þá hver fyrir sig fengið greiðslu, sem svarað hafi til nafnverðs hluta þeirra í félaginu.

7

Aðalfundur var haldinn í Vesturgarði ehf. 17. júlí 2015. Þar kom meðal annars fram að stjórn félagsins hafi ekki náð samkomulagi um tillögu um úthlutun arðs og var samþykkt að fresta fundinum til 6. ágúst sama ár til að freista þess að fá niðurstöðu um það efni. Þegar aðalfundi var fram haldið þann dag var fært í fundargerð að samkomulag hafi tekist um arðsúthlutun og hafi nánar tilgreind tillaga stjórnarinnar um hana verið borin upp á fundinum. Samkvæmt fundargerðinni, sem var undirrituð af þeim sem sóttu fundinn, samþykktu „allir viðstaddir hluthafar“ tillöguna, en við undirskrift sína ritaði þó stefndi orðin „sat hjá“. Aftan við þau færði lögmaður, sem ritaði fundargerðina, eftirfarandi athugasemd: „Fyrirvari ógildur sbr. hluthafasamkomulag dags. 1. mars 2010.“

Eftir síðastnefndan fund sendi áfrýjandinn Sveinn tölvubréf til stefnda 13. ágúst 2015, þar sem sagði meðal annars: „Á framhaldsaðalfundi í Vesturgarði ehf. … átti sér stað kosning hluthafa um arðsúthlutun. Sú kosning fór fram með þeim hætti að stjórn Vesturgarðs gerði tillögu um greiðslu arðs. Greiddu allir hluthafar með tillögunni, nema þú og tjáðir fundinum að þú myndir sitja hjá. Ég hafði áður gert þér grein fyrir stöðunni í Vesturgarði, er við hittumst í Cafe Retro, og hvað lægi fyrir á aðalfundi Vesturgarðs. Atkvæðagreiðsla þín á aðalfundinum var ekki samkvæmt þeirri skuldbindingu sem þú undirgekkst er þú gerðist aðili að hluthafasamkomulagi við aðra fjölskyldumeðlimi þína og hluthafa í Vesturgarði ... Samkvæmt hluthafasamkomulaginu hefðir þú átt að lúta vilja meirihluta aðila samkomulagsins og greiða atkvæði með. Ráðstöfun atkvæðis þíns, þvert gegn fyrri skuldbindingu, breytti ekki niðurstöðu kosningar á aðalfundinum, og hindraði því ekki að vilji annarra aðila að hluthafasamkomulaginu næði fram að ganga og olli því ekki tjóni. Ég vil hinsvegar benda þér á að komi til þess að þú ráðstafir atkvæði þínu eða hlut með einhverjum hætti í trássi við fyrra samkomulag sem veldur skaða, kostnaði eða tjóni fyrir hina aðila hluthafasamkomulagsins, þá munum við (aðrir aðilar samkomulagsins) krefja þig fullra skaðabóta í samræmi við þá skuldbindingu sem þú undirgekkst við okkur. Ég sendi þér þetta erindi hryggur í huga að svona sé komið á með samband þitt við foreldra og systkini.“

8

Með vísan til hluthafasamkomulagsins frá 1. mars 2010 boðaði áfrýjandinn Sveinn með tölvubréfi 10. ágúst 2016 til stefnda og áfrýjendanna Ársæls og Nönnu til fundar á nánar tilteknum stað og tíma 24. sama mánaðar til að fjalla um fyrirhugaðan aðalfund Vesturgarðs ehf. Ekkert virðist hafa orðið af þeim fundi, enda ritaði lögmaður stefnda bréf 23. ágúst 2016 til áfrýjendanna Ársæls, Nönnu og Sveins, þar sem tilkynnt var að stefndi rifti hluthafasamkomulaginu fyrir sitt leyti. Í bréfinu kom fram að stefndi teldi af nánar tilgreindum ástæðum að samkomulagið hafi verið vanefnt í svo verulegum atriðum að riftun væri heimil, auk þess sem forsendur fyrir því væru brostnar og einstök ákvæði þess ógildanleg. Þessu mótmæltu áfrýjendurnir í bréfi 12. september 2016.

Í framhaldi af aðalfundi í Vesturgarði ehf. 31. ágúst 2016 ritaði stefndi jafnframt bréf 5. september sama ár til stjórnar félagsins, þar sem vísað var til þess að á fundinum hafi komið fram að áfrýjandinn Sveinn hafi fyrir hönd stefnda sótt hluthafafund í félaginu á árinu 2015, sem stefndi hafi ekki verið boðaður til, og stuðst í því sambandi við áðurnefnt umboð frá 1. júní 2009. Kvaðst stefndi telja þetta umboð vera fallið niður vegna ákvæða laga nr. 138/1994 um hámarks gildistíma slíkrar ráðstöfunar, en til „að forðast allan vafa“ tilkynnti hann einnig stjórninni að umboðið væri afturkallað.

9

 Í bréfi stefnda til stjórnar Vesturgarðs ehf. 6. desember 2016, sem einnig var sent öðrum hluthöfum í félaginu, var tilkynnt að hann hafi með kaupsamningi þann dag selt Árhólma ehf. 7.587.238 af 14.679.731 hlut sínum í fyrrnefnda félaginu fyrir 110.849.547 krónur, en fyrir liggur eftir öðrum gögnum málsins að síðarnefnda félagið var þá í eigu Ágústs Valfells yngri, Helgu Valfells og Jóns Valfells. Vísaði stefndi í bréfinu til samþykkta Vesturgarðs ehf. um forkaupsrétt að hlutum, sem félagið nyti og að því frágengnu aðrir hluthafar. Frestur til að beita þeim rétti væri tveir mánuðir og myndu kaupin samkvæmt því „ganga í gegn“ 6. febrúar 2017 yrði forkaupsréttar ekki neytt. Í bréfi til stefnda 9. desember 2016 kváðu áfrýjendur þessa ráðstöfun hans ólögmæta og óheimila, þar sem hún væri andstæð ákvæðum hluthafasamkomulagsins frá 1. mars 2010. Var jafnframt ítrekað að áfrýjendur teldu samkomulagið enn vera í gildi og að stefndi hafi ekki losnað undan því með yfirlýsingu um riftun 23. ágúst 2016.

Með beiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 28. desember 2016 kröfðust áfrýjendurnir Ársæll, Nanna og Damocles Services Ltd. þess að lagt yrði lögbann við því að stefndi seldi Árhólma ehf. fyrrgreinda hluti í Vesturgarði ehf. samkvæmt kaupsamningnum frá 6. sama mánaðar. Kröfu þessari hafnaði sýslumaður 13. janúar 2017 og leituðu áfrýjendurnir úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun hans. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti hafnaði héraðsdómur kröfu áfrýjendanna um að ákvörðunin yrði felld úr gildi og undu þau þeirri niðurstöðu.

Matthildur Ólafsdóttir Valfells, Ágúst Valfells yngri, Helga Valfells og Jón Valfells tilkynntu stefnda og stjórn Vesturgarðs ehf. með bréfi 1. febrúar 2017 að þau myndu að fullu nýta sér forkaupsrétt að hlutum stefnda í félaginu á grundvelli kaupsamnings hans við Árhólma ehf., þar á meðal með því að ganga að fullu inn í þau kaup ef hvorki Vesturgarður ehf. né aðrir hluthafar neyttu forkaupsréttar fyrir sitt leyti. Þá sendu áfrýjendurnir Ársæll, Nanna og Damocles Services Ltd. bréf til stefnda 5. febrúar 2017, þar sem ítrekað var að þau teldu honum vera óheimilt vegna hluthafasamkomulagsins frá 1. mars 2010 að selja hluti í sinni eigu. Þau tilkynntu þó samhliða þessu að þau hygðust nýta sér forkaupsrétt að hlutum stefnda ef honum yrði þrátt fyrir framangreint talin þessi ráðstöfun heimil. Með bréfi 7. febrúar 2017 tilkynnti stefndi stjórn Vesturgarðs ehf. og öðrum hluthöfum í félaginu að þau síðastnefndu hafi öll lýst yfir að þau vildu nýta sér forkaupsrétt að hlutunum, sem hann hafi ráðstafað með kaupsamningnum 6. desember 2016, en áfrýjendurnir þrír þó með fyrirvara. Setti stefndi hluthöfunum frest til 14. febrúar 2017 til að leggja greiðslu fyrir hlutina inn á tiltekinn bankareikning sinn. Fyrir liggur að 8. þess mánaðar greiddu Matthildur, Ágúst yngri, Helga og Jón á þann hátt kaupverð þeirra hluta, sem þau áttu tilkall til að gættum forkaupsrétti áfrýjendanna Ársæls, Nönnu og Damocles Services Ltd. Frá þessu greindi stefndi í bréfi til áfrýjendanna þriggja 14. febrúar 2017, þar sem jafnframt var ítrekuð krafa hans um greiðslu úr hendi þeirra fyrir þá hluti, sem þau hafi lýst yfir vilja til að kaupa, en til þess framlengdi stefndi fyrri frest til 16. sama mánaðar og kvaðst þá mundu rifta kaupum þeirra ef greiðsla bærist ekki innan þess tíma. Ekki varð af þeirri greiðslu og lýsti stefndi yfir riftun kaupa við áfrýjendurna með bréfi 17. febrúar 2017. Sama dag greiddu Matthildur, Ágúst yngri, Helga og Jón til stefnda verð þeirra hluta, sem áfrýjendurnir létu ekki verða af að kaupa.

10

Áfrýjendur höfðuðu þetta mál 1. febrúar 2017. Í héraðsdómi í málinu er greint frá því að áfrýjendurnir Ársæll og Nanna hafi jafnframt höfðað mál á hendur stefnda og Matthildi Ólafsdóttur Valfells, Ágústi Valfells yngri, Helgu Valfells og Jóni Valfells til að fá hnekkt framangreindum kaupum þeirra fjögurra síðastnefndu á hlutum í Vesturgarði ehf. af stefnda. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti er það mál enn til meðferðar fyrir héraðsdómi.

Loks er þess að geta að Matthildur, Ágúst yngri, Helga, Jón og stefndi höfðuðu mál 2. október 2018 gegn Vesturgarði ehf. og áfrýjendunum Ársæli, Nönnu og Damocles Services Ltd. með kröfu um að „kveðinn verði upp dómur fyrir því að stefnda félaginu, Vesturgarði ehf., skuli slitið samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.“ Eftir því, sem fram kom við flutning þessa máls fyrir Hæstarétti, hefur dómur ekki verið lagður á það mál í héraði.

II

Þegar áfrýjendurnir Ársæll, Nanna og Sveinn og stefndi gerðu hluthafasamkomulagið 1. mars 2010 áttu þau sjálf til samans þann helming hluta í Vesturgarði ehf., sem samkomulagið sneri að. Þar af munu 98.043.908 hlutir hafa tilheyrt áfrýjandanum Sveini eða 34,5% af heildarfjölda hluta í félaginu. Sá áfrýjandi framseldi síðan þessa hluti til Neutrino Ltd. og verður í ljósi gagna, sem áður var lýst, að leggja til grundvallar að það hafi í raun ekki gerst fyrr en eftir að viðauki var gerður 20. maí 2014 við samkomulag milli allra hluthafa í Vesturgarði ehf. frá 4. júlí 2008. Sömu hlutir í Vesturgarði ehf. komust svo í eigu áfrýjandans Damocles Services Ltd., að ætla verður 15. desember 2014, og virðist það hafa gerst með framsali hlutanna frá Neutrino Ltd. Á grundvelli hluthafasamkomulagsins frá 4. júlí 2008 og fyrrgreindra breytinga, sem gerðar voru á því og samþykktum Vesturgarðs ehf. 20. maí 2014, verður að líta svo á að þessar ráðstafanir á hlutum í félaginu hafi verið heimilar án þess að gæta þyrfti forkaupsréttar félagsins og annarra hluthafa, sem mælt var fyrir um í samþykktunum. Í þeim voru að öðru leyti ekki settar takmarkanir á rétti hluthafa til að ráðstafa hlutum sínum.

Samkvæmt framansögðu verður við það að miða að samþykktir Vesturgarðs ehf. hafi hvorki staðið því í vegi að áfrýjandinn Sveinn framseldi hluti sína í félaginu til Neutrino Ltd. né að það félag framseldi þá síðan til áfrýjandans Damocles Services Ltd. Að því verður á hinn bóginn að gæta að í hluthafasamkomulagi áfrýjendanna Ársæls, Nönnu og Sveins og stefnda frá 1. mars 2010 voru settar skorður við frelsi þeirra fjögurra til að framselja hluti sína í Vesturgarði ehf. Þannig var sem áður segir mælt svo fyrir í 6. grein samkomulagsins að ekkert þeirra mætti ráðstafa hlutum sínum í félaginu án samþykkis allra hinna og var sérstaklega tekið fram að einu gilti hvort hlutunum væri ráðstafað „til skyldra eða óskyldra aðila.“ Að auki var þar sett það skilyrði að nýr hluthafi yrði að gangast undir samkomulagið, en eðli máls samkvæmt verður að byggja á því að skylda hafi hvílt jöfnum höndum á framseljanda hluta og viðtakandi hluthafa til að tryggja að þessu skilyrði yrði fullnægt, þótt það hafi ekki verið tekið fram í 6. grein samkomulagsins. Án tillits til þess hvort líta mætti svo á að stefndi hafi í ljósi allra atvika samþykkt fyrir sitt leyti í verki að áfrýjandinn Sveinn framseldi hluti sína í Vesturgarði ehf. til Neutrino Ltd. verður ekki horft fram hjá því að síðarnefnda félagið gekkst eftir gögnum málsins aldrei undir hluthafasamkomulagið frá 1. mars 2010. Það gerði áfrýjandinn Damocles Services Ltd. heldur ekki þegar hann fékk hlutina framselda og eru auk þess engin efni til að telja stefnda hafa nokkru sinni samþykkt það framsal í verki. Þessi brot á ákvæðum 6. greinar samkomulagsins hófust með framsali áfrýjandans Sveins á hlutum sínum í Vesturgarði ehf. Þá verður að gæta að því að í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi lýsti hann því að hann hafi farið með öll ráð yfir bæði Neutrino Ltd. og áfrýjandann Damocles Services Ltd. og hafði hann samkvæmt því í hendi sér að sjá til þess að þau félög gengjust undir samkomulagið. Það lét áfrýjandinn Sveinn ógert. Þegar af þessum ástæðum verður að leggja til grundvallar að gagnvart stefnda hafi hann vanefnt skyldur sínar samkvæmt hluthafasamkomulaginu frá 1. mars 2010.

Þegar mat er lagt á vægi framangreindra vanefnda verður að líta til þess að samkvæmt 2. og 3. grein hluthafasamkomulagsins átti við töku ákvarðana um málefni Vesturgarðs ehf. að hlíta þeim reglum að eitt atkvæði fylgdi þar hverjum hlut í félaginu og að einfaldur meiri hluti atkvæðanna réði niðurstöðu. Eftir 4. grein samkomulagsins bar öllum aðilum þess að lúta vilja meiri hlutans og tók þetta til ákvarðana um nánast öll málefni félagsins, sem einhverju gátu skipt. Hlutirnir í Vesturgarði ehf., sem tilheyrðu áfrýjandanum Sveini við gerð samkomulagsins og komust síðar í eigu Neutrino Ltd. og svo áfrýjandans Damocles Services Ltd., svöruðu sem áður segir til 34,5% allra hluta í fyrstnefnda félaginu og fór því eigandi þeirra með 69% atkvæða um ákvarðanir, sem samkomulagið náði til. Á grundvelli þessara hluta gat þannig eigandi þeirra upp á sitt eindæmi ráðið á vettvangi Vesturgarðs ehf. gerðum allra, sem til samans áttu helming hluta í félaginu. Ljóst er að gagnvart stefnda og öðrum aðilum samkomulagsins, sem eins var ástatt um, skipti verulegu máli hver hefði þetta forræði á réttindum þeirra í hendi sér. Þótt mælt hafi verið svo fyrir í samkomulagi allra hluthafa í Vesturgarði ehf. frá 4. júlí 2008 að eigendur Neutrino Ltd. hétu því að selja ekki að nokkru eða öllu leyti hluti sína í félaginu á meðan það ætti hluti í Vesturgarði ehf. nema síðastnefndu félagi eða hluthöfum í því væri áður boðið að kaupa þá hvílir ekki slík skuldbinding á eiganda hluta í áfrýjandanum Damocles Services Ltd., hvorki samkvæmt samkomulaginu frá 4. júlí 2008 með áorðnum breytingum frá 20. maí 2014 né samþykktum Vesturgarðs ehf. Getur áðurnefnd yfirlýsing áfrýjandans Sveins frá 27. desember 2013 engu breytt í því sambandi. Stefndi gæti því ekki spornað við að forræði á réttindum hans sem hluthafa í Vesturgarði ehf. flyttist í raun til annars en áfrýjandans Sveins með framsali á hlutum hans í áfrýjandanum Damocles Services Ltd. Þegar af þessum ástæðum voru vanefndir áfrýjandans Sveins á hluthafasamkomulaginu frá 1. mars 2010 slíkar að þær verða að teljast verulegar. Naut stefndi samkvæmt því heimildar til að rifta samkomulaginu fyrir sitt leyti af þessum sökum og eru réttaráhrif þeirrar riftunar jafnframt þau að það hafi fallið niður gagnvart áfrýjendunum Ársæli og Nönnu þótt þau hafi ekki vanefnt það. Að öllu þessu virtu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Ársæll Valfells, Nanna Helga Valfells, Sveinn Valfells og Damocles Services Ltd., greiði óskipt stefnda, Sveini Valfells, 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Landsréttar 2. nóvember 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ragnheiður Bragadóttir, Sigurður Tómas Magnússon og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 13. febrúar 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2018 í málinu nr. E-385/2017.

2        Áfrýjendur krefjast þess að ógilt verði með dómi riftun stefnda 23. ágúst 2016 á hluthafasamkomulagi hans, Nönnu Helgu Valfells, Ársæls Valfells og Sveins Valfells frá 1. mars 2010. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Landsrétti.

3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Málsatvik

4        Málsatvik eru rakin að nokkru leyti í hinum áfrýjaða dómi. Þar kemur fram að áfrýjandinn Sveinn ráðstafaði hlutum í Vesturgarði ehf. til barna sinna, áfrýjendanna Ársæls og Nönnu Helgu og stefnda Sveins án endurgjalds og verður ráðið af skýrslum aðila í héraði að sú ráðstöfun hafi átt sér stað á fyrsta áratug þessarar aldar. Eftir þann gerning átti áfrýjandinn Sveinn 34,5% í félaginu og börn hans 5,166% hvert eða samtals 50% hlutafjár. Bróðir áfrýjandans Sveins, Ágúst og börn hans Ágúst yngri, Helga og Jón, áttu hinn helming hlutafjárins.

5        Hinn 4. júlí 2008 rituðu allir hluthafar í Vesturgarði ehf. undir samkomulag um að falla frá forkaupsrétti við framsal áfrýjandans Sveins á eignarhlutum sínum í félaginu til félagsins Neutrino Ltd. en það félag hafði hann stofnað á eyjunni Mön nokkrum árum fyrr. Þá hefur komið fram í málinu að um þær mundir gerði áfrýjandinn Sveinn börn sín að hluthöfum í Neutrino Ltd. og nam eignarhlutur hvers þeirra 4,9%.

6        Hinn 1. júní 2009 veitti stefndi Sveinn föður sínum umboð, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi, til að koma fram fyrir sína hönd í öllum málum er vörðuðu Vesturgarð ehf. Hinn 1. mars 2010 rituðu áfrýjendurnir Sveinn, Ársæll og Nanna Helga og stefndi Sveinn undir hlutahafasamkomulag það sem um er deilt í málinu og lýst er í hinum áfrýjaða dómi.

7        Hinn 27. desember 2013 tilkynnti áfrýjandinn Sveinn um framsal á 34,5% hlut sínum í Vesturgarði ehf. til félags síns Neutrino Ltd. Það félag var tilgreint sem hluthafi í Vesturgarði ehf. í ársreikningi þess 2014.

8        Samþykktum Vesturgarðs ehf. var 20. maí 2014 breytt með þeim hætti að kveðið var á um að við framsal hluthafa á eignarhlutum sínum til maka, barna eða systkina yrði forkaupsréttur annarra hluthafa ekki virkur. Hið sama ætti við um framsal hluthafa á eignarhlutum til lögaðila sem væri alfarið í eigu sömu aðila og um framsal þess lögaðila til annars lögaðila sem einnig væri alfarið í eigu sömu aðila.

9        Hinn 15. desember 2014 framseldi Neutrino Ltd. 34,5% eignarhlut sinn í Vesturgarði ehf. til kanadíska félagsins Damocles Services Ltd. en síðarnefnda félagið var að öllu leyti í eigu áfrýjandans Sveins. Damocles Services Ltd. var tilgreint sem hluthafi í Vesturgarði ehf. í ársreikningum félagsins 2015 og 2016. Í lok árs 2015 var félaginu Neutrino Ltd. slitið og eignarhlutur stefnda Sveins og áfrýjendanna, Ársæls og Nönnu Helgu, greiddur út.

10       Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi sat stefndi Sveinn hjá við atkvæðagreiðslu á aðalfundi félagsins 17. júlí 2015 og greiddi því ekki atkvæði á sama hátt og aðrir aðilar hluthafasamkomulagsins frá 1. mars 2010. Þegar leið að aðalfundi árið eftir, eða 10. ágúst 2016, boðaði áfrýjandinn Sveinn börn sín til fundar 24. sama mánaðar í samræmi við ákvæði fyrrgreinds hluthafasamkomulags. Daginn fyrir fundinn, eða 23. ágúst 2016, lýsti stefndi Sveinn yfir riftun á hluthafasamkomulaginu.

Niðurstaða

11       Riftun stefnda Sveins byggðist á því að hluthafasamkomulagið hefði verið vanefnt í verulegum atriðum og forsendur þess væru brostnar. Þá væru einstök ákvæði þess ógildanleg og óskuldbindandi fyrir stefnda.

12       Í fyrsta lagi byggði stefndi á því að faðir hans hefði brotið gegn samkomulaginu þegar hann framseldi hlut sinn í Vesturgarði ehf. til félagsins Damocles Services Ltd. án samþykkis annarra aðila hluthafasamkomulagsins, sbr. 1. mgr. 6. gr. þess. Þá hefði hinn nýi hluthafi ekki undirgengist hluthafasamkomulagið eins og áskilið væri í 2. mgr. 6. gr. Faðir hans væri því ekki lengur aðili að samkomulaginu, hvorki persónulega né í gegnum félagið Damocles Services Ltd., og leiddi það til þess að forsendur hluthafasamkomulagsins væru brostnar.

13       Eins og að framan greinir framseldi áfrýjandinn Sveinn 34,5% eignarhlut sinn í Vesturgarði ehf. til félagsins Neutrino Ltd. í lok árs 2013. Rúmum fimm árum fyrr eða 4. júlí 2008 höfðu hluthafar í Vesturgarði ehf. samþykkt að falla frá forkaupsrétti við framsal á eignarhlut hans til Neutrino Ltd. Sambærileg heimild var veitt bróður áfrýjandans Sveins, Ágústi Valfells og börnum hans 20. maí 2014 auk þess sem samþykktum Vesturgarðs ehf. var breytt í þessu skyni á hluthafafundi sama dag. Má af þessu ráða að í nokkurn tíma hafi átt sér stað umræða innan hluthafahóps Vesturgarðs ehf. um að heimila hluthöfum að færa eignarhluti sína úr persónulegri eign sinni í félög í þeirra eigu. Var Neutrino Ltd. tilgreint sem eigandi 34,5% hlutafjár í Vesturgarði ehf. með skýrum hætti í ársreikningi félagsins 2014. Samkvæmt þessu hlaut stefnda Sveini að hafa verið ljóst eigi síðar en frá árinu 2014 að faðir hans hefði framselt 34,5% eignarhlut sinn í Vesturgarði ehf. til félags síns Neutrino Ltd., sem stefndi sjálfur og áfrýjendurnir Ársæll og Nanna Helga áttu jafnframt hlut í. Ekki er að sjá af gögnum málsins að stefndi Sveinn hafi hreyft andmælum við áðurgreindu framsali föður síns til Neutrino Ltd. eða haldið því fram að með framsalinu hefði hann brotið gegn hluthafasamkomulagi fjölskyldunnar frá 1. mars 2009. Lýsti stefndi þannig hvorki yfir riftun hluthafasamkomulagsins né krafðist þess að faðir hans gerði honum bindandi kauptilboð í hans hlut á grundvelli 3. mgr. 6. gr. samkomulagsins. Verður því að leggja til grundvallar að stefndi hafi samþykkt framsalið til Neutrino Ltd. með bæði beinum og óbeinum hætti.

14       Stefndi hefur ekki haldið því fram í málinu að í kjölfar framsalsins til Neutrino Ltd. hafi orðið breyting á framkvæmd hluthafasamkomulags fjölskyldunnar. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að aðilar þess hafi áfram tekið ákvarðanir í samræmi við ákvæði og markmið þess. Verður því ekki annað séð en að stefndi og aðrir aðilar hluthafasamkomulagsins hafi litið svo á að lögaðilinn Neutrino Ltd. væri bundinn af samkomulaginu á sama hátt og áfrýjandinn Sveinn, sbr. 2. mgr. 6. gr. samkomulagsins.

15       Eins og áður greinir var félagið Neutrino Ltd. að nokkru leyti í eigu stefnda sjálfs og var eignarhlutur hans í félaginu greiddur út til hans við slit þess í lok árs 2015. Ári áður, eða í desember 2014, hafði eignarhlutur Neutrino Ltd. í Vesturgarði ehf. verið framseldur til Damocles Services Ltd. og verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að slit Neutrino Ltd. hafi verið í beinum tengslum við það framsal.

16       Óumdeilt er að Damocles Services Ltd. er að öllu leyti í eigu áfrýjandans Sveins og lýtur ákvörðunarvaldi hans sem eina hluthafans í félaginu. Ljóst er að framsal Neutrino Ltd. á eignarhlutnum í Vesturgarði ehf. til Damocles Services Ltd. átti sér stað með heimild í samþykktum Vesturgarðs ehf. eftir breytingar sem á þeim voru gerðar í maí 2014. Enginn eðlismunur var því á eignarhaldi þessara tveggja félaga á eignarhlutnum í Vesturgarði ehf. Samkvæmt gögnum málsins mætti stefndi á aðalfund Vesturgarðs ehf. 17. júlí 2015 þar sem ársreikningur félagsins var samþykktur án athugasemda. Í honum var félagið Damocles Services Ltd. tilgreint með skýrum hætti sem eigandi 34,5% hlutafjár. Frá aðalfundinum í júlí 2015 og þar til stefndi lýsti yfir riftun hluthafasamkomulagsins í lok ágúst 2016 leið rúmt ár án þess að stefndi hreyfði nokkrum andmælum við framsalinu á milli félaganna tveggja eða beitti þeim úrræðum sem ætla má að honum hafi verið tæk á grundvelli hluthafasamkomulagsins eða almennra réttarreglna teldi hann framsalið brjóta gegn ákvæðum hluthafasamkomulagsins. Með hliðsjón af þessu og því sem áður greinir um framsalið til Neutrino Ltd. verður að leggja til grundvallar í málinu að stefndi hafi í orði og verki samþykkt framsal á eignarhlutnum í Vesturgarði ehf. til félagsins Damocles Services Ltd. í skilningi hluthafasamkomulagsins. Með sömu rökum verður að telja að stefndi og aðrir aðilar hluthafasamkomulagsins hafi litið svo á að eftir framsalið til Damocles Services Ltd. væri það félag, líkt og forveri þess, bundið af ákvæðum samkomulagsins ásamt áfrýjandanum Sveini, sbr. 2. mgr. 6. gr. þess. Varð riftun hluthafasamkomulagsins því ekki byggð á þeim grundvelli að áfrýjandinn Sveinn hefði vanrækt skyldur sínar til að afla samþykkis stefnda áður en framsalið á milli félaganna tveggja átti sér stað.

17       Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að áfrýjandinn Sveinn og félag hans Damocles Services Ltd. hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og verða því báðir réttilega taldir eiga aðild að málinu.

18       Í annan stað byggði stefndi riftun sína á því að ákvæðum hluthafasamkomulagsins hafi aldrei verið fylgt eftir í framkvæmd þar sem aðilar þess hafi aldrei verið kallaðir saman á fund til að ræða málefni fjölskyldunnar, sbr. 3. gr. samkomulagsins. Fram kom í skýrslu áfrýjenda fyrir héraðsdómi að áfrýjandinn Sveinn hefði í gegnum tíðina verið í reglulegum samskiptum við börn sín og upplýst þau um atriði sem hluthafasamkomulagið tók til. Samskipti þessi hafi verið óformleg enda á milli fjölskyldumeðlima og oft átt sér stað í gegnum síma. Í þessu sambandi ber og að líta til þess að stefndi Sveinn var um tíma búsettur erlendis og veitti föður sínum á árinu 2009 víðtækt umboð til að koma fram fyrir sína hönd í öllum málum er vörðuðu Vesturgarð ehf. Verður að líta svo á það hafi einnig tekið til málefna félagsins á grundvelli hluthafasamkomulagsins. Samkvæmt umboðinu var það ótímabundið og varð aðeins afturkallað með bréfi til stjórnar félagsins. Stefndi afturkallaði ekki umboðið fyrr en 6. september 2016. Þá er ljóst að umboðið var mun víðtækara en þau umboð sem um er fjallað í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Með hliðsjón af framangreindu og 5. mgr. 3. gr. hluthafasamkomulagsins, sem kveður á um að fundir samkvæmt 3. gr. geti farið fram í gegnum síma, er gegn mótmælum áfrýjenda ósannað að ákvæðum hluthafasamkomulagsins hafi ekki verið fylgt eftir í framkvæmd. Verður því ekki fallist á riftun hluthafasamkomulagsins á þeim grundvelli.

19       Þá byggði stefndi riftun sína á því að einstök ákvæði hluthafasamkomulagsins væru í andstöðu við ófrávíkjanlegar reglur laga nr. 138/1994. Af ákvæðum hluthafasamkomulagsins leiddi að áfrýjandinn Sveinn, sem ætti 34,5% hlutafjárins, færi í raun með atkvæðisrétt 50% hlutafjár í Vesturgarði ehf. Stefndi og systkini hans væru því með öllu áhrifalaus við ákvarðanatöku í málefnum félagsins. Í málinu hefur stefndi auk þess haldið því fram að um algjöran trúnaðarbrest sé að ræða milli hans og áfrýjenda vegna starfa áfrýjendanna Sveins og Ársæls fyrir Vesturgarð ehf. Meginforsendur hluthafa-samkomulagsins um samvinnu, samráð og sameiginlega hagsmunagæslu hafi því brostið.

20       Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi staðfesti áfrýjandinn Sveinn að samkvæmt ákvæðum hluthafasamkomulagsins færi hann með atkvæðisrétt tæplega 70% þess hlutafjár sem hann og börn hans réðu yfir í Vesturgarði ehf. Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins skuldbundu aðilar þess sig til að taka sameiginlegar ákvarðanir um málefni félagsins og beitingu atkvæðisréttar í félaginu. Einnig skyldu aðilar þess ákveða í sameiningu hvaða fulltrúa þeir kysu í stjórn félagsins og skyldu þeir stjórnarmenn fara í einu og öllu eftir ákvörðunum sem teknar hefðu verið innan fjölskyldunnar á grundvelli hluthafasamkomulagsins. Gilti þá einu hvort um væri að ræða framgöngu á stjórnarfundum, á öðrum vettvangi félagsins eða hvar sem reyndi á sameiginlega hagsmuni fjölskyldunnar í félaginu. Loks kom fram í 7. gr. þess að samkomulagið væri ótímabundið og yrði því aðeins breytt eða það fellt úr gildi með sameiginlegri ákvörðun aðila þess í samræmi við 4. gr. samkomulagsins. Samkvæmt þessu er ljóst að áfrýjandinn Sveinn var í raun einráður þegar kom að ákvörðunum um málefni fjölskyldunnar á grundvelli hluthafasamkomulagsins og ætlunin var að það fyrirkomulag skyldi gilda meðan hann og eiginkona hans lifðu og væru fær um að taka ákvarðanir um málefni félagsins.

21       Af gögnum málsins má ráða að djúpstæður og langvarandi ágreiningur hefur verið á milli hluthafa í Vesturgarði ehf. um rekstur félagsins og stjórnarhætti. Þá má ráða af gögnum málsins að stefndi hefur haft efasemdir um tiltekin atriði í rekstri félagsins og stjórnarhætti. Í þessum deilum hefur stefndi tekið afstöðu með Ágústi föðurbróður sínum og börnum hans. Þá liggur fyrir að mikill samskiptavandi hefur verið á milli stefnda annars vegar og föður hans og systkina hins vegar og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og skýrslum aðila og vitna fyrir héraðsdómi en að í nokkur ár hafi lítil sem engin samskipti verið á milli þeirra.

22       Samkvæmt 1. gr. hluthafasamkomulagsins var markmið þess að tryggja að fjölskyldan, áfrýjendurnir Sveinn, Ársæll og Nanna Helga og stefndi Sveinn, ynnu saman sem ein heild að málefnum félagsins og gættu í hvívetna sameiginlegra hagsmuna sinna í félaginu. Þá voru aðilar þess skuldbundnir til að taka allar ákvarðanir sameiginlega og beita atkvæðisrétti sínum í samræmi við slíkar ákvarðanir svo sem um stjórnarkjör, meðferð og ráðstöfun hluta, beitingu forkaupsréttar, þátttöku í hækkun eða lækkun hlutafjár, arðgreiðslur til hluthafa, ráðningu framkvæmdastjóra og breytingar á samþykktum félagsins.

23       Ljóst er að framangreint fyrirkomulag gengur í berhögg við ýmis ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 138/1994 og samþykktir Vesturgarðs ehf. svo sem um kosningu í stjórn og aðra atkvæðagreiðslu á hluthafafundi, um jafnan rétt hluta miðað við fjárhæð þeirra og um að stjórnarmenn megi ekki gera ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Er ljóst að hluthafasamkomulagið leggur víðtækar og ótímabundnar hömlur á ákvörðunarvald og ráðstöfunarrétt stefnda yfir hlutafjáreign sinni í félaginu. Í því sambandi ber einnig að horfa til 8. gr. hluthafasamkomulagsins þar sem kveðið er á um að samkomulagið gildi „að því marki sem samrýmist samþykktum félagsins og lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994“. Með hliðsjón af framangreindu, efni hluthafasamkomulagsins og eðli þess, þeim mikla vanda sem ríkt hefur í samskiptum málsaðila og þeim djúpstæða og langvarandi ágreiningi sem uppi hefur verið um rekstur og stjórn félagsins, meðal annars á milli stefnda og fjölskyldu hans, verður að telja að þær forsendur sem lágu til grundvallar hluthafasamkomulaginu hafi brostið í svo verulegum atriðum að stefnda hafi verið rétt að líta svo á að hann væri óbundinn af ákvæðum þess. Ber því að fallast á með stefnda að honum hafi á þeim grundvelli verið rétt að lýsa yfir riftun hluthafasamkomulagsins.

24       Með hliðsjón af öllu framangreindu ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu stefnda. Þá er ákvæði héraðsdóms um málskostnað í héraði staðfest.

25       Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Landsrétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Sveinn Valfells, Damocles Services Ltd., Ársæll Valfells og Nanna Helga Valfells, greiði stefnda, Sveini Valfells, óskipt 2.500.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2018.

Mál þetta var höfðað 1. febrúar 2017 en dómtekið 6. desember sama ár. Stefnendur eru, Sveinn Valfells, Mónakó, Damocles Services Ltd., Kanada, Ársæll Valfells, Gunnarsbraut 30, Reykjavík og Nanna Helga Valfells, Bandaríkjunum en stefndi er Sveinn Valfells, Seljavegi 2, Reykjavík.

Stefnendur krefjast þess að ógilt verði með dómi riftun stefnda 23. ágúst 2016 á hluthafasamkomulagi hans, Nönnu Helgu Valfells, Ársæls Valfells og Sveins Valfells frá 1. mars 2010. Þá krefjast þau málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

Stefndi krafðist frávísunar málsins en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 24. mars 2017.

Stefnandi Sveinn og stefndi eru feðgar og alnafnar. Verða þeir í dómi þessum aðgreindir á grundvelli aldurs sem Sveinn eldri og Sveinn yngri.

I

Það mál sem hér er lagt fyrir dóminn á rætur að rekja til ágreinings aðila þess um meðferð réttinda hvers um sig sem hluthafa í Vesturgarði ehf. en hluthafasamkomulag var gert með stefnda og stefnendunum Sveini eldri, Ársæli og Nönnu Helgu 1. mars 2010. Félag þetta, sem stofnað var árið 1970 var lengi í eigu bræðranna Sveins Valfells eldri og Ágústs Valfells eldri til helminga. Sá fyrrnefndi raðastafaði til barna sinna stefnendanna Ársæls og Nönnu Helgu og stefnda Sveins yngri, hlutum í félaginu sem fyrirfarmgreiddum arfi. Eftir þann gerning átti Sveinn eldri 34,502% en börn hans, Ársæll, Nanna Helga og Sveinn 5,166% hvert eða samtals 50%. Auk þeirra er Damocles Services Ltd. meðal stefnenda, en það er kanadískt félag að fullu í eigu stefnandans Sveins eldri og á félagið nú þann 34,502% hlut í Vesturgarði ehf. sem Sveinn áður átti. Fékk félagið þessu hluti framselda til sín í desember 2014.

Stefndi Sveinn  yngri veitti stefnandanum Sveini „fullt og óskorað umboð til að koma fram í fyrir [hans] hönd í öllum málum er [vörðuðu] Vesturgarð hf. hvort sem [væri] á aðalfundi félagsins eða á öðrum vettvangi. Umboð þetta [var] ótakmarkað og ótímabundið og [varð] ekki dregið til baka nema með bréfi til stjórnar félagsins.“

Þann 1. mars 2010 gerðu Sveinn eldri og framangreind þrjú börn hans með sér hluthafasamkomulag um meðferð hluta sinna í Vesturgarði ehf. Ekki er ágreiningur um það að samkomulag þetta var gert að frumkvæði Sveins eldri.

Kemur fram í 1. gr. samkomulagsins að markmið þess sé að tryggja að fjölskyldan, hluthafar í félaginu, vinni saman sem ein heild í málefnum félagsins og gæti í hvívetna sameiginlegra hagsmuna sinna í félaginu.

Þriðja grein samkomulagsins fjallar um ákvarðanatöku og er svohljóðandi:

            „Ákvarðanir í málefnum fjölskyldunnar skulu teknar á fundi sem boða skal til með tveggja vikna fyrirvara.

            Fundur er lögmætur ef mættir eru meðlimir fjölskyldunnar, sem samtals ráða yfir meira en ½ atkvæða af heildaratkvæðum fjölskyldunnar í félaginu.

            Við ákvarðanatöku á fundi ræður afl atkvæða. Dugir einfaldur meirihluti atkvæða sem mætt er fyrir á fundinum, sbr. 2. mgr.

            Fund skal halda minnst einu sinni á ári, minnst þremur dögum fyrir boðaðan aðalfund eða hluthafafund Vesturgarðs ehf.

            Fundir samkvæmt þessari grein geta farið fram í gegnum síma.“

Í fjórðu og fimmtu grein eru ákvæði um samstöðu við ákvarðanatöku innan félagsins og eins fyrirmæli um að stjórnarmenn hlíti þeim ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli samkomulagsins.

Sjötta grein ber fyrirsögnina „Kvaðir á meðferð og ráðstöfun hluta.“ og er svohljóðandi:

            „Meðlimir fjölskyldunnar skuldbinda sig til að selja ekki, skipta, flytja, gefa, veðsetja eða ráðstafa með öðrum hætti hlutum sínum í félaginu án samþykkis annarra aðila í fjölskyldunni. Gildir hér einu hvort um er að ræða ráðstöfun samkvæmt framangreindu til skyldra eða óskyldra aðila.

            Samþykki annarra aðila fjölskyldunnar á ráðstöfun samkvæmt ofangreindu, þar sem nýr aðili eignast hlut í félaginu eða réttindi yfir hlutum í félaginu skal m.a. háð því skilyrði að hinn nýi hluthafi eða rétthafi gangist undir þetta samkomulag.

            Ef meðlimur fjölskyldunnar ráðstafar hlut í félaginu í andstöðu við 1. mgr. þessarar greinar skal hann gera öðrum aðilum hópsins bindandi kauptilboð í þeirra hluti. Skal tilboðsverð hlutanna fara eftir mati dómkvaddra manna á verðmæti hluta í félaginu að viðbættu 25% álagi.“

Í sjöundu grein kemur fram að samkomulagið sé ótímabundið og í áttundu grein er gerður sá fyrirvari að samkomulagið gildi að því marki sem samrýmist samþykktum félagsins og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Í greinargerð stefnda er því lýst að á árinu 2009 hafi komið upp ágreiningur stefnendanna Sveins eldri og Ársæls við eigendur hins helmings hlutafjár í félaginu. Hafi sá ágreiningur í fyrstu snúist um aðkomu Vesturgarðs ehf. að félaginu Premium Outlet Center ehf. Þá kom síðar upp ágreiningur milli þessara fylkinga um hvernig staðið skyldi að endurbótum og nýtingu hússins að Laugavegi 59, Reykjavík, auk fleiri ágreiningsefna. Hefur stefndi í seinni tíð tekið stöðu með hinum helmingi hluthafa gegn föður sínum og systkinum.

Á aðalfundi félagsins sem hófst 17. júlí 2015 og var fram haldið 6. ágúst sama ár sat stefndi hjá við atkvæðagreiðslu. Stefnandinn Sveinn sendi honum í kjölfar fundarins tölvupóst þar sem hann var minntur á ákvæði hluthafasamkomulagsins. Í aðdraganda aðalfundar 2016 eða 10. ágúst 2016 boðaði Sveinn eldri aðila hluthafasamkomulagsins til fundar 24. sama mánaðar.

Stefndi lýsti yfir riftun hluthafasamkomulagsins með bréfi 23. ágúst 2016. Byggðist riftunin á því sem stefndi taldi verulegar vanefndir Sveins eldri sem hafi í fyrsta lagi lýst sér í því að hann hafi framselt eignarhluti sína til Damocles Services Ltd. án samþykkis annarra aðila samkomulagsins. Þá yrði ekki séð að umrætt félag hefði gengist undir ákvæði samkomulagsins. Þá var á því byggt að eftir framsalið gæti Sveinn eldri ekki lengur talist aðili samkomulagsins. Einnig var til þess vísað að umrædd aðilaskipti leiddu til þess að forsendur samkomulagsins væru brostnar. Þá var og vísað til þess að stefndi teldi einstök ákvæði samkomulagsins í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 138/1994. Loks vísaði stefndi til þess að ákvæðum samkomulagsins hefði aldrei verið fylgt eftir í raun.

Af hálfu stefnenda var riftuninni mótmælt með bréfi 12. september 2016 þar sem því var lýst að stefnendurnir Sveinn eldri, Ársæll og Nanna Helga teldu samkomulagið í fullu gildi.

Þann 6. desember 2016 undirrituðu stefndi og Árhólmi ehf. samning um kaup þess síðarnefnda á 2,67% hluta í Vesturgarði ehf. í eigu þess fyrrnefnda. Var hluthöfum boðinn forkaupsréttur í samræmi við samþykktir félagsins. Nýttu hluthafar forkakaupsrétt sinn utan stefnendurnir Nanna Helga, Ársæll og Damocles Services Ltd. en þessir hluthafar lýstu þeirri afstöðu sinni að stefndi mætti ekki vegna hluthafasamkomulagsins selja umrædda hluti. Var þess freistað, án árangurs, á fá lagt lögbann við viðskiptunum. Þá hafa stefnendurnir Ársæll og Nanna Helga stefnt kaupendum og stefnda til að fá þessum viðskiptum hnekkt og er það mál til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

II

Stefnendur gera grein fyrir aðild málsins með þeim hætti í stefnu að stefnendurnir Sveinn, Ársæll og Nanna Helga séu ásamt stefnda aðilar að því hluthafasamkomulagi sem stefndi hafi rift. Félagið Damocles Services Ltd., sem sé að öllu leyti í eigu stefnandans Sveins, sé einnig meðal stefnenda þar sem stefnandinn Sveinn hafi framselt félaginu eignarhluti sína í Vesturgarði ehf. í desember 2014. Hafi sú breyting á eignarhaldi hluta stefnandans Sveins í engu haggað þeim skyldum sem á honum eða félagi hans hvíli samkvæmt hluthafasamkomulaginu.

Stefnendur kveðast byggja kröfu sína á því að hluthafasamkomulag aðila sé í fullu gildi. Stefndi Sveinn yngri hafi undirgengist samkomulagið af fúsum og frjálsum vilja. Hann hafi aldrei gert athugasemd við gildi þess eða um skyldur sínar og annarra aðila samkvæmt samkomulaginu fyrr en með riftunaryfirlýsingu sinni 23. ágúst 2016.

Stefnendur kveðast ennfremur byggja dómkröfu sína á því að meginskilyrði riftunar um verulega vanefnd sé ekki uppfyllt. Raunar hafi stefnendur ekki vanefnt hluthafasamkomulagið með nokkrum hætti. Sönnunarbyrði um tilvist slíkra vanefnda hvíli alfarið á stefnda. Þá hafi stefndi aldrei óskað eftir því að stefnendur bættu úr hinum ætluðu vanefndum áður en stefndi hafi lýst yfir riftun. Hafi stefnendur því aldrei fengið tækifæri til þess. Af því leiði að almenn skilyrði riftunar séu ekki uppfyllt og beri því að ógilda hana með dómi.

Stefndi byggi riftun sína meðal annars á því að aldrei  hafi verið haldnir fundir í aðdraganda hluthafafunda eins og samkomulagið kveði á um. Í því sé fólgin veruleg vanefnd á hluthafasamkomulaginu. Stefnendur kveðast hafna því alfarið að stefndi geti byggt riftun á þessu atriði.

Þannig hafi stefndi aldrei hreyft andmælum við því, frekar en aðrir aðilar samkomulagsins, að samskipti þeirra á milli um málefni Vesturgarðs ehf. væru að mestu óformlegri en samkomulagið geri ráð fyrir. Full samstaða hafi enda verið meðal þeirra um málefni félagsins fram til 23. ágúst 2016, með þeirri undantekningu einni að stefndi hafi setið hjá á framhaldsaðalfundi 6. ágúst 2015.

Að gefnu tilefni, ekki síst í ljósi afstöðu stefnda á aðalfundi í Vesturgarði ehf. árið 2015 hafi Sveinn eldri boðað sérstaklega til fundar, sem fara hafi átt fram 24. ágúst 2016, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 3. gr. hluthafasamkomulagsins svo aðilar gætu rætt saman um efni aðalfundar. Í stað þess að mæta til fundarins hafi stefndi brugðist við með því að að senda yfirlýsingu um riftun samkomulagsins, meðal annars á þeim grundvelli að fundir hafi ekki verið haldnir. Byggi stefnendur á því að slíkt formsatriði geti ekki, í ljósi atvika, talist veruleg vanefnd annarra aðila samkomulagsins.

Rétt sé að nefna að stefndi hafi eignast hluti sína í Vesturgarði ehf., með fyrirframgreiddum arfi frá föður sínum, stefnandanum Sveini eldri. Stefndi veitti stefnanda Sveini eldri svohljóðandi umboð 1. júní 2009:

„Ég veiti föður mínum Sveini Valfells [kt.], fullt og óskorað umboð að koma fram fyrir mína hönd í öllum málum er varða Vesturgarð hf. hvort sem er á aðalfundi félagsins eða á öðrum vettvangi. Umboð þetta er fullt og ótakmarkað og ótímabundið og verður ekki dregið til  baka nema með bréfi til stjórnar félagsins.“

Umboðið hafi ekki verið afturkallað þegar riftunaryfirlýsing stefnda var send í ágúst 2016. Sveinn eldri hafi alla tíð verið í góðri trú, meðal annars á grundvelli  umboðsins, að hann hefði fullan stuðning stefnda í málefnum Vesturgarðs ehf., hvort heldur sem væri á fundum hjá félaginu eða í samskiptum við aðra aðila hluthafasamkomulagsins. Telji stefnendur að í þessu ljósi geti stefndi ekki byggt á því að hluthafasamkomulagið hafi verið vanefnt.

Stefnendur byggi jafnframt á því að staðhæfingar stefnda um að hann hafi ekki verið upplýstur um breytingar stefnandans Sveins eldri á skipan sinna fjármála með því að setja eignarhluti sína í eignarhaldsfélög, séu rangar. Þvert á móti hafi stefndi verið upplýstur um þær breytingar og engar athugasemdir gert. Þá hafi þetta í engu breytt aðild Sveins eldri að samkomulaginu og skuldbindingum hans samkvæmt því. Sjónarmið lögmanns stefnda í tilkynningu um riftun 23. ágúst 2016 séu því haldlaus.

Sama gildi um sjónarmið stefnda í tilkynningu um riftun um að einstök ákvæði samkomulagsins rekist á meginreglur félagaréttar. Stefnendur telji að hluthafar geti á grundvelli samningsfrelsis gert samninga sín í milli sem takmarki ráðstöfunarheimild þeirra á réttindum á vettvangi einkahlutafélags, eins og meginreglur ákvæða 15. og 16. gr. laga nr. 138/1994 séu til merkis um. Enda þótt slíkir samningar séu víðtækir og feli í sér umtalsverða takmörkun teljist þeir ekki sjálfkrafa í andstöðu við meginreglur félagaréttar. Játa verði mönnum nokkuð svigrúm til að semja um hagsmuni sína, eignir og réttindi. Stefnendur byggi á því að mönnum beri að meginstefnu að standa við loforð sín og skuldbindingar, svo sem samkvæmt meginreglum samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og efndir þeirra.

Þá gangi hluthafasamkomulag aðila eðli máls samkvæmt út frá þeirri forsendu að farið sé að lögum, s.s. lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög, í starfsemi félagsins. Sameiginlegar ákvarðanir á grundvelli samkomulagsins verði því að rúmast innan marka laga til að vera bindandi fyrir aðila þess. Þó vera kynni að stefndi væri óbundinn af ákvörðunum „fjölskyldunnar“ í einstökum tilvikum, vegna þess að tilteknar ákvarðanir teldust andstæðar hagsmunum félagsins og jafnvel lögum, yrði samkomulaginu í heild sinni ekki vikið til hliðar af þeim sökum, eða því rift. Í riftunartilkynningu stefnda sé að vísu ekki bent á neitt dæmi þess að aðilar hluthafasamkomulagsins hafi tekið ákvörðun á vettvangi félagsins í andstöðu við hagsmuni félagsins, lög um einkahlutafélög nr. 138/1994, eða meginreglur félagaréttar.

Þá telji stefnendur ennfremur að enda þótt örðugt kynni að reynast í einstökum tilvikum að knýja fram fullnustu þeirra skuldbindinga sem felist í samkomulaginu á vettvangi Vesturgarðs ehf., geti þær allt að einu verið í fullu gildi milli samningsaðila. Sá sem bryti gegn þeim gæti þannig orðið ábyrgur gagnvart öðrum aðilum samkomulagsins þótt þeir næðu ekki fram vilja sínum á vettvangi félagsins. Af þessum sökum sé mikilvægt að krafa stefnenda nái fram að ganga.

Stefnendur telji að stefndi hafi brotið í bága við ákvæði hluthafasamkomulagsins sem mæli fyrir um að fjölskyldan taki sameiginlegar ákvarðanir um málefni félagsins og beitingu atkvæðisréttar, sbr. m.a. 1. og 4. gr. samkomulagsins. Þá hafi hann brotið gegn 6. gr. samkomulagsins með sölu á hlutum sínum án samráðs við stefnendur eins og samkomulagið kveði á um. Hafi þeir áskilið sér allan rétt gagnvart honum vegna þessara brota.

Að lokum kveðast stefnendur byggja á því að í ljósi fyrirliggjandi mótmæla þeirra gegn riftun stefnda á hluthafasamkomulagi þeirra hafi stefnda borið að leita staðfestingar dómstóla á réttmæti riftunar sinnar. Það hafi stefndi ekki gert sem styðji þá kröfu stefnenda að ógilda beri riftun stefnda á hluthafasamkomulaginu með dómi.

Stefnendur kveðast byggja kröfur sínar einkum á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir þeirra, en einnig á meginreglum félagaréttar og laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Stefnendur standi saman að málsókninni á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda eigi kröfur þeirra rætur að rekja til ágreinings um sama löggerning.

Um málskostnað vísa stefnendur til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr. laganna.

 

III

Stefndi kveðst byggja á því að við riftun hans á hluthafasamkomulaginu hafi vanefndir verið orðnar verulegar og allar forsendur fyrir samkomulaginu löngu brostnar. Stefnda hafi því, eðli máls samkvæmt verið heimilt að rifta samkomulaginu vegna þeirra aðstæðna sem upp hafi verið komnar sem gerð verði ítarlegri grein fyrir hér síðar. Þá krefst hann og byggja sýknukröfu sína á aðildarskorti, að því er varði stefendurnar Svein Valfells eldri og Damocles Services Ltd.

Stefndi kveðst byggja á því að öll skilyrði riftunar hluthafasamkomulagsins hafi verið uppfyllt þegar hann hafi sent stefnendum málsins riftunaryfirlýsingu sína. Þannig hafi hluthafasamkomulagið verið virt að vettugi frá því undir það hafi verið skrifað og stefnendurnir Sveinn eldri og Ársæll þverbrotið forsendur þess, ekki aðeins með heimildarlausu framsali á hlutafé til kanadísks hlutafélags heldur jafnframt með ákvarðanatöku sinni sem stjórnarmenn og prókúruhafar Vesturgarðs ehf. Umræddar ákvarðanir hafi ekki aðeins sætt gagnrýni stefnda heldur einnig eigenda hins helmings hlutafjárins í Vesturgarði ehf. Hafi meðal annars þurft að leita atbeina atvinnuvegaráðuneytisins og fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra til þess að knýja á um að stefnendurnir Sveinn eldri og Ársæll ræktu störf sín fyrir Vesturgarð ehf. í samræmi við lög og samþykktir félagsins.

Stefndi telji engum vafa undirorpið að ákvæði hluthafasamkomulagsins hafi ýmist verið virt að vettugi eða þverbrotin frá því skrifað var undir samkomulagið að undirlagi stefnandans Sveins eldri árið 2010. Í markmiðsákvæði 1. gr. samkomulagsins segi að því sé ætlað að tryggja að fjölskyldan, hluthafar í félaginu, vinni saman sem ein  heild og gæti í hvívetna sameiginlegra hagsmuna sinna í félaginu. Kveðst stefndi telja að stefnendurnir Sveinn eldri og Ársæll hafi gerst sekir um umfangsmikil trúnaðarbrot gagnvart Vesturgarði ehf. og ekkert traust ríki um störf þeirra í þágu félagsins hjá eigendum meirihluta hlutafjár þess. Það sé því auðsætt að mati stefnda að stefnendurnir hafi ekki gætt sameiginlegra hagsmuna aðila hluthafasamkomulagsins, heldur fórnað þeim fyrir sína eigin persónulegu og fjárhagslegu hagsmuni. Við þetta bætist sú augljósa staðreynd að Damocles Services Ltd. geti ekki með nokkru móti talist fjölskyldumeðlimur Valfellsfjölskyldunnar. Þrátt fyrir að Sveinn eldri kunni að vera eini hluthafi umrædds félags verði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að hér sé um sjálfstæða lögpersónu að ræða, kanadískt félag sem lúti kanadískum lögum í starfsemi sinni og hafi sérstaka stjórn. Framsal stefnandans Sveins eldri á hlut sínum, fyrst til Neutrino Ltd. og síðar til Damocles Services Ltd. hafi haft víðtækari afleiðingar en kveðið sé á um í 6. gr. samkomulagsins. Framsalið hafi leitt til þess að öll ákvæði sem bundin séu við fjölskylduna, aðila fjölskyldunnar eða meðlimi hennar, eigi ekki lengur við af þeirri einföldu ástæðu að stefnandinn Sveinn eldri sé ekki lengur hluthafi í Vesturgarði ehf., heldur Damocles Services Ltd.

Það hljóti að vera frumforsenda hvers sem takist á hendur samningsskuldbindingar að ekki verði aðilaskipti hjá viðsemjanda hans án þess að hann fái einhverju um það ráðið. Gera verði greinarmun á einstaklingnum Sveini Valfells eldri og kanadísku hlutafélagi. Stefndi byggi á því að það hafi verið grundvallarforsenda fyrir undirritun hluthafasamkomulagsins að aðilar þess væru aðeins stefnandinn Sveinn eldri og afkomendur hans, sem jafnframt væru persónulega hluthafar í Vesturgarði ehf. Við framsal stefnandans Sveins eldri til stefnandans Damocles Services Ltd. hafi sú forsenda brugðist, enda verði hvorugur framangreindra aðila krafðir með réttu um efndir samkvæmt samkomulaginu eftir það. Með framsalinu hafi hluthafasamkomulagið því verið vanefnt að verulegu leyti.

Formlegir fundir sem fjallað sé um í 3. gr. samkomulagsins hafi aldrei verið haldnir eftir því sem stefndi komist næst, en í það minnsta hafi hann ekki verið boðaður á slíkar samkomur. Þá hafi stefndi frá upphafi litið svo á að samþykktir Vesturgarðs ehf. og landslög vægju þyngra en einstök ákvæði samkomulagsins og því hafi hann aldrei litið svo á að honum bæri að hlíta ákvæðum 4. og 5. gr. samkomulagsins, sem í  raun feli það í sér að aðilar samkomulagsins komi sér saman um efni ákvarðana sem samkvæmt landslögum séu faldar tilteknum stjórnareiningum hlutafélaga, s.s. hluthafafundum eða stjórn. Þetta sé staðfest með lögfræðiáliti frá 2012 sem stefndi hafi aflað og liggi fyrir í málinu. Stefndi telji skuldbindingargildi umræddra ákvæða takmarkað eða jafnvel ekkert, sérstaklega í ljósi þess að eftir ákvæði 8. gr. samkomulagsins gildi það að því marki sem samrýmist samþykktum félagsins og lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994. Stefndi telji jafnframt að fyrrgreind ákvæði séu ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju eins nánar grein hér síðar.

Líkt og áður hafi verið rakið hafi stefnandinn Sveinn eldri framselt alla hluti sína í Vesturgarði ehf. í tveimur skrefum. Fyrst til félagsins Neutrino Ltd. sem hafði heimilisfesti á Isle of Man og síðar til stefnanda Damocles Services Ltd. sem sé kanadískt félag. Byggir stefndi á því að ekkert formlegt samþykki hafi legið fyrir framsalinu frá aðilum hluthafasamkomulagsins og að síðarnefnda félagið hafi ekki undirgengist samkomulagið með einhverskonar yfirlýsingu í samræmi við 6. gr. samkomulagsins. Þá séu engin gögn því til stuðnings að stefnandinn Sveinn eldri hafi gert öðrum fjölskyldumeðlimum bindandi kauptilboð í þeirra hlut með 25% álagi, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 6. gr. samkomulagsins. Að mati stefnda sé engum vafa undirorpið að 6. gr. hluthafasamkomulagsins sé ein mikilvægasta grein þess og að ákvæðið endurspegli forsendur samkomulagsins og samstarf aðila. Þar séu settar fram strangar reglur um samþykki annarra hluthafa fyrir aðilaskiptum og skilyrði um að nýir aðilar gangist undir ákvæði hluthafasamkomulagsins sem gangi lengra en samþykktir Vesturgarðs ehf. og reglur laga um einkahlutafélög. Mikilvægi 6. gr. endurspeglist í þeirri staðreynd að kveðið sé á um sérstakar afleiðingar brota á ákvæðinu. Ljóst megi vera að 25% álag ofan á kaupverð þess sem ráðstafi hlut í andstöðu við 1. mgr. sem kveðið sé á um í 3. mgr., sé ætlaður sá eini tilgangur að sporna við því að aðilar hluthafasamkomulagsins ráðstafi hlut sínum í andstöðu við ákvæðið og þannig tryggja að aðilaskipti, hvort sem þau varði skylda eða óskylda aðila, fari fram með samþykki annarra aðila samkomulagsins og að fenginni yfirlýsingu hins nýja aðila um að hann muni hlíta ákvæðum samkomulagsins í einu og öllu.

Stefndi byggi af þessum sökum á því að brot stefnandans Sveins eldri á umræddri 6. gr. hafi falið í sér verulega vanefnd eins og íslenskir dómstólar hafi mótað hugtakið. Matið á skilyrðinu um verulega vanefnd sé heildarmat þar sem litið sé m.a. til eftirtalinna atriða:

1.       Samnings aðila og atvika við samningsgerð, sbr. til hliðsjónar 25. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

2.       Hvaða áhrif vanefndin hafi á hagsmuni þess sem rifti og hvað sá sem riftun beinist að hafi hlotið að álíta í þeim efnum.

3.       Hvort sá sem rifti hafi lagt sérstaka áherslu á efndir með tilteknum hætti.

4.       Atvika sem síðar hafi komið til.

5.       Ámælisverðrar framkomu þess sem riftunin beinist að.

Stefndi kveðst byggja á því að allir framangreindir þættir heildarmatsins leiði til þeirrar niðurstöðu að um verulega vanefnd hafi verið að ræða. Þannig hafi 6. gr. hluthafasamkomulagsins verið frumforsenda þess og brot stefnandans Sveins eldri á greininni hafi því falið í sér verulega vanefnd. Við matið verði að líta til þess að stefndi hafi skrifað undir samkomulagið að áeggjan stefnandans Sveins eldri sem jafnframt hafi samið eða hafi látið semja allt samkomulagið, án þess að stefndi hafi haft nokkra aðkomu að því.

Að því er varði áhrif vanefndar stefnenda á hagsmuni stefnda byggi stefndi á því að matið einskorðist ekki við einstök brot stefnenda á samkomulaginu heldur nái jafnframt til háttsemi þeirra sem stjórnarmanna og prókúruhafa í Vesturgarði ehf. Stefndi telji að ákvarðanataka stefnendanna Sveins eldri og Ársæls á vettvangi félagsins hafi falið í sér verulega vanefnd á þeim skuldbindingum sem þeir hafi undirgengist með hluthafasamkomulaginu, sbr. meðal annars markmiðsákvæði þess um að fjölskyldan vinni sem ein heild í málefnum félagsins og gæti í hvívetna sameiginlegra hagsmuna sinna í því. Stefndi telji að að ýmis háttsemi stefnendanna m.a. að því er varði Preminum Outlet Center ehf., afturköllun prókúru Ágústs eldri, takmarkaðar upplýsingar vegna framkvæmda við Laugaveg 59 og tregða til að boða til stjórnar- og hluthafafunda feli í sér verulega vanefnd á markmiðsákvæði hluthafasamkomulagsins og hafi þannig grafið undan markmiðum aðila þess með því að gera slíkt samkomulag og forsendum þeirra við samningsgerðina.

Stefndi telji rétt að ítreka að því fari fjarri, líkt og haldið sé fram í stefnu, að allt hafi leikið í lyndi meðal aðila hluthafasamkomulagsins fram til riftunarinnar 2016. Komi það fram í gögnum málsins og hafi stefndi leitað til lögmanns strax árið 2012 sem talið hafi augljóst að stefndi hefði óbundnar hendur á hluthafafundum félagsins og hafi bent honum á að rifta hluthafasamkomulaginu þar sem það væri óskuldbindandi, ósanngjarnt og færi gegn lögum.

Stefndi kveðst og vekja athygli á því að hann hafi í fyrsta sinn setið hjá og ekki gefið kost á sér í stjórn á hluthafafundi 17. júlí 2015. Stefnandinn Sveinn eldri hafi í tilefni af því sent stefnda tölvupóst, sem liggi fyrir í málinu, þar sem hann hafi sagt stefnda að hann hefði brotið gegn samkomulaginu, hann gæti gleymt því að hann ætti foreldra og ætti að fara aftur í sitt Engeyjarhyski. Stefnandinn Sveinn eldri hafi hins vegar ekki aðhafst frekar vegna þessa, frekar en aðrir stefnendur málsins. Þá hafi liðið fimm mánuðir frá því að stefndi hafi rift hluthafasamkomulaginu og þar til mál þetta hafi verið höfðað. Tómlæti stefnenda að því er þetta varði sé að mati stefnda til marks um huglæga afstöðu stefnenda til hluthafasamkomulagsins.

Stefndi kveðst einnig telja að eining innan fjölskyldunnar og þar með hluthafa hafi verið bæði frumhvötin og frumástæðan fyrir gerð hluthafasamkomulagsins, enda komi það fram berum orðum í markmiðsákvæði 1. gr. að því sé ætlað að tryggja að fjölskyldan,  hluthafar í félaginu, vinni saman sem ein heild í málefnum þess og gæti í hvívetna sameiginlegra hagsmuna sinna í félaginu. Kveðst stefndi telja að í umræddri grein felist meðal annars að aðilar samkomulagsins væru einungis Sveinn Valfells eldri og afkomendur hans. Í huga stefnda hafi meginforsenda þessi verið meðvituð ákvörðunarástæða fyrir gerð samkomulagsins þar sem hún hafi haft úrslitaáhrif á ákvörðun stefnda um að gangast undir það. Stefnendum hafi tvímælalaust verið kunn þessi meginforsenda allt frá gerð og undirritun samkomulagins, sbr. fyrrnefnda 1. gr. þess. Umrædd meginforsenda stefnda hafi því verið veruleg.

Stefndi byggir á því að þessi meginforsenda sem legið hafi til grundvallar samkomulaginu, þ.e. eining innan fjölskyldunnar, hafi brostið í að minnsta kosti tvíþættum skilningi. Annars vegar með trúnaðarbrotum stefnendanna, Sveins eldri og Ársæls gagnvart Vesturgarði ehf. þar sem ekki traust ríki um störf þeirra í þágu félagsins hjá eigendum meirihluta hlutafjár þess. Að mati stefnda hafi stefnendur ekki gætt nægilega að sameiginlegum hagsmunum aðila hluthafasamkomulagsins, heldur hafi þeir fórnað þeim fyrir sína eigin persónulegu og fjárhagslegu hagsmuni. Hins vegar geti Damocles Services Ltd. ekki með nokkru móti talist fjölskyldumeðlimur Valfells fjölskyldunnar. Um sjálfstæða lögpersónu sé að ræða, kanadískt hlutafélag sem lúti kanadískum lögum í starfsemi sinni og stjórnað sé af sérstakri stjórn. Framsal stefnandans Sveins eldri á hlut sínum, fyrst til Neutrino Ltd. og síðar til Damocles Services Ltd. hafi átt sér stað án vitundar eða vitneskju stefnda. Framsalið hafi leitt til þess að öll ákvæði sem bundin séu við fjölskylduna eigi ekki lengur við af þeirri einföldu ástæðu að stefnandinn Sveinn eldri sé ekki lengur hluthafi í Vesturgarði ehf., heldur hlutafélagið Damocles Services Ltd. Aðilaskipti án samráðs eða vitneskju stefnda brjóti gegn 1. gr. samkomulagsins og þar með bresti meginforsendan um einingu fjölskyldunnar.

Að framangreindu virtu telji stefnandi að ljóst sé að allt frá upphafi samkomulagsins hafi eining innan fjölskyldunnar verið bæði frumhvötin og frumástæðan fyrir gerð samkomulagsins eins og fyrr segi, sbr. 1. gr. þess. Meðal annars af þessum ástæðum telji stefndi að sér hafi verið heimilt að rifta hluthafasamkomulaginu með tilkynningu 23. ágúst 2016 í ljósi þess að samkomulagið hafi verið ógilt á grundvelli brostinna forsendna.

Þá kveðst stefndi byggja á því að ósanngjarnt sé af hálfu stefnenda að bera fyrir sig hluthafasamkomulagið vegna að minnsta kosti tveggja atriða, sbr. lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Annars vegar sökum þeirra atvika og framsals til Damocles Services Ltd. sem fyrr er lýst og leitt hafi til þess að öll ákvæði samkomulagsins sem vísi til fjölskyldunnar eigi ekki lengur við af þeirri ástæðu að stefnandinn Sveinn eldri sé ekki lengur hluthafi í Vesturgarði ehf. Umrædd atvik hafi átt sér stað án vitundar og þar með samráðs við stefnda, þrátt fyrir þá staðreynd að þau færu gegn markmiðsákvæði 1. gr. samkomulagsins. Hins vegar telji stefndi að 4. og 5. gr. samkomulagsins sé andstæð ófrávíkjanlegum reglum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög þar sem mælt sé fyrir um að tilteknar stjórnareiningar innan félags fari með ákvörðunarvald, svo sem hluthafafundir og stjórn. Að framangreindum atriðum virtum telji stefndi að í raun beri að víkja hluthafasamkomulaginu til hliðar með stoð í lögum nr. 138/1994 og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Meðal annars af þessum ástæðum telji stefnandi að hann sé óbundinn af ákvæðum hluthafasamkomulagsins og hafi verið heimilt að rifta því 23. ágúst 2016.

Hvað sem líði niðurstöðu dómsins um aðrar sýknukröfur stefnda, telji hann deginum ljósara að í málinu sé fyrir að fara aðildarskorti hjá stefnendunum Sveini Valfells eldri og Damocles Services Ltd. Að því er varði aðild félagsins byggi stefndi á því að engu réttarsambandi hafi nokkurn tíma verið til að dreifa á milli sín og þess, enda hafi félagið aldrei átt aðild að hinum umdeilda hluthafasamkomulagi. Félagið hafi ekki sýnt fram á hvaða lögvörðu hagsmunum þess riftun stefnda raskaði, í skilningi 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eða útskýrt aðild sína með fullnægjandi hætti. Sökum þessa telji stefndi að sýkna beri hann af kröfum félagsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Að því er varði aðild stefnandans Sveins eldri, byggi stefndi á að hann geti ekki byggt kröfur sínar á ákvæðum hluthafasamkomulagsins, enda hafi hann þegar framselt hluti sína í Vesturgarði ehf. til fyrrgreinds félags. Forsenda aðildar Sveins eldri að hluthafasamkomulaginu hafi verið eignarhald á hlutum í Vesturgarði ehf., enda sé það samkvæmt efni sínu milli einstaklinga sem séu hluthafar í því félagi. Af gögnum málsins megi sjá að stefnandinn Sveinn sé ekki hluthafi í Vesturgarði ehf. Megi því ljóst vera að hann geti ekki með nokkru móti byggt á ákvæðum hluthafasamkomulagsins. Við framsal hluta til Damocles Services Ltd. hafi hann því ekki aðeins vikið einhliða frá ákvæðum hluthafasamkomulagsins heldur hafi hann fyrirgert öllum rétti sínum til að byggja á ákvæðum þess. Fái stefndi ekki séð hvaða hagsmuni Sveinn eldri geti haft af ógildingu á riftun samkomulags á milli hluthafa í félagi sem hann hafi enga persónulega aðkomu að sem hluthafi og leiði aðildarskortur hans til sýknu stefnda að öllum kröfum hans, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi krefst málskostnaðar og að við ákvörðun  hans verði tekið tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatt af þóknun lögmanns, en stefndi stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.

Um lagarök kveðst stefndi vísa til meginreglna samninga-, kröfu- og félagaréttar, laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla síðastnefndra laga, sérstaklega 129. og 130. gr. en vegna virðisaukaskatts til laga nr. 50/1988.

IV

Eins og kemur fram hér fyrr lýsti stefndi yfir riftun hins umdeilda hluthafasamkomulags með yfirlýsingu 23. ágúst 2016. Vísaði hann m.a. til þess að framsal stefnandans Sveins eldri á hlutafjáreign sinni í Vesturgarði ehf. hafi farið fram án samþykkis stefnda og hafi það verið skýrt brot á 6. gr. hluthafasamkomulagsins. Þá kom fram að hann teldi að umrædd aðgerð hafi einnig haft þær afleiðingar að veruleg forsenda hans teldist brostin sem leiddi og til þess að samkomulagið væri ekki lengur bindandi fyrir hann.

Af hálfu stefnandans Sveins hefur því verið lýst yfir hér fyrir dómi að hann sé einn eigandi fyrrnefnds félags og að hann telji bæði sig og félagið bundið af hluthafasamkomulaginu. Það er mat dómsins að síðastnefnd yfirlýsing geti ekki komið í stað þess samþykkis sem samkomulagið kveður á um að skylt sé að afla áður en sala hlutafjár fer fram. Er það og tekið fram í samkomulaginu að ekki skipti máli hvort sala eigi sér stað til skyldra eða óskyldra aðila.

Þá er ekki að mati dómsins unnt að telja að fyrra framsal sömu hluta stefnandans Sveins eldri til félags á Isle of Man, sem stefnda mun hafa verið kunnugt um geti talist veita vísbendingu um heimild hans til síðara framsalsins.

Fól því framsal stefnandans Sveins eldri til Damocles Services Ltd. í sér vanefnd á hluthafasamkomulagi hans og stefnda, Ársæls og Nönnu Helgu. Við mat á því hvort líta beri á umrædda vanefnd sem verulega verður að mati dómsins að líta til hluthafasamkomulagsins í heild og hvernig aðilar þess ráðstöfuðu þar réttindum sínum. Verður þá fyrst fyrir að ákvæði 3. gr. samkomulagsins gerir það að verkum að stefnandinn Sveinn eldri fór í raun með meirihlutavald og þar af leiðandi með allar heimildir sem felast í 50% eignarhaldi í Vesturgarði ehf. og voru aðrir aðilar samkomulagsins skuldbundnir til að beita atkvæði sínu á vettvangi félagsins í samræmi við ákvarðanir sem teknar voru á grundvelli þess. Var því í raun um framsal umfangsmikilla réttinda að ræða frá stefnda, Ársæli og Nönnu Helgu til Sveins eldri. Á hinn bóginn var einnig kveðið á um það í samkomulaginu að hafa skyldi samráð um ákvarðanatöku og að haldnir skyldu fundir. Þá var kveðið á um að leita skyldi samþykkis annarra aðila samkomulagsins áður en einhver aðila þess seldi hlut sinn. Einnig var kveðið á um skyldu þess sem bryti gegn samkomulaginu til að kaupa hluti annarra aðila samkvæmt mati að viðbættu 25% álagi.

Það er mat dómsins að í máli þessu hafi ekki verið sýnt fram á, gegn mótmælum stefnda Sveins yngri, að samráð hafi verið haft við hann í samræmi við ákvæði hluthafasamkomulagsins, áður en ákvarðanir voru teknar innan hluthafahópsins. Þá liggur ekki fyrir að stefnandinn Sveinn eldri hafi aflað samþykkis stefnda Sveins yngri áður en hann seldi hluti sína til Damocles Services Ltd. Að mati dómsins felst í þessari vanrækslu vanefnd stefnandans Sveins eldri á helstu skyldum sínum gagnvart stefnda Sveini yngri á grundvelli hluthafasamkomulagsins. Er það mat dómsins að í þessu felist veruleg vanefnd og er einnig fallist á með stefnda að veruleg forsenda hafi brostið fyrir þátttöku hans í samkomulaginu. Einnig liggur fyrir sú staðreynd að stefnandinn Sveinn eldri er ekki lengur hluthafi í Vesturgarði ehf. og því vart forsendur til að hann geti haldið umræddu hluthafasamkomulagi upp á stefnda.

Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar er fallist á með stefnda að honum hafi verið rétt 23. ágúst 2016 að rifta hluthafasamkomulagi hans við Svein Valfells eldri, Nönnu Helgu Valfells og Ársæl Valfells sem dagsett er 1. mars 2010. Er eins og hér stendur á ekki unnt að telja að stefnda hafi verið nauðsynlegt að krefjast fyrst réttra efnda eða gefa gagnaðilum færi á að bæta úr áður en riftun var lýst yfir. Riftun þessi hafði réttaráhrif þegar hún var komin til riftunarþola og bar stefnendum, vildu þeir ekki við hana una, að bera ágreininginn undir dómstóla, eins og þeir loks gerðu í máli þessu.

Að þessari niðurstöðu fenginni er ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvaða áhrif það hafi í þessu sambandi að ágreiningur hefur verið uppi í félaginu um stjórnunarhætti eins og nánar má sjá hér fyrr þegar raktar eru málsástæður stefnda.

Stefnandinn Damocles Services Ltd. er ekki aðili að umræddu hluthafasamkomulagi og liggur ekkert fyrir í málinu sem styður að félagið hafi með formlegum hætti tekið á sig skyldur gagnvart því. Getur félagið því ekki að réttu átt aðild að máli þessu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er stefndi Sveinn sýknaður af kröfum félagsins þegar af þeirri ástæðu.

Stefnendum verður gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði og hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til umfangs málsins, áhrif þess að frávísunarkröfu stefnda var hafnað, sem og skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Dómsorð

Stefndi, Sveinn Valfells, er sýknaður af kröfum stefnenda, Sveins Valfells, Damocles Services Ltd., Ársæls Valfells og Nönnu Helgu Valfells.

Stefnendur greiði stefnda sameiginlega 2.000.000 króna í málskostnað.