Print

Mál nr. 177/1998

Lykilorð
  • Jafnrétti
  • Fötlun
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Miskabætur
  • Aðfinnslur

Fimmtudaginn 4. febrúar 1999

Nr. 177/1998.

Ragna Kristín Guðmundsdóttir

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Háskóla Íslands

(Gestur Jónsson hrl.)

Jafnrétti til náms. Fötlun. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli. Miskabætur. Aðfinnslur.

R hóf nám í Háskóla Íslands 1990 en hvarf frá því 1994. Hélt hún því fram að hún hefði ekki fengið þá aðstoð og aðstöðu sem fötlun hennar krafðist, en hún var blind. Talið að Háskólanum hafi borið skylda til að taka við R og gera almennar ráðstafanir sem fylgdu námi svo fatlaðs nemanda við skólann, til þess að hún fengi notið þeirrar þjónustu er almennir stúdentar nutu, við þá deild skólans sem hún kaus sér. Var þetta talið byggjast á lögum 41/1983 og 59/1992 um málefni fatlaðra, mannréttinda-sáttmála Evrópu og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Talið að þrátt fyrir að komið hefði verið til móts við ýmsar óskir R um undanþágur og aðstoð vegna fötlunar hennar, hefði skort á að gerðar væru almennar ráðstafanir eða heildarstefna mótuð um námsaðstoð við R, námsframvindu, aðstoð í prófum og próftíma, sem hún gat gengið að. Þessi skortur á almennum fyrirmælum hefði bæði leitt til þess að ýmislegt hefði farið úrskeiðis í viðleitni skólans til að mæta þörfum R og að hún hefði sjálf þurft að ganga eftir eðlilegum tilhliðrunum. Talið var að í þessu fælist meingerð gegn persónu R og frelsi hennar til menntunar og henni dæmdar bætur á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Kröfu R um bætur vegna fjártjóns hafnað, þar sem R þótti ekki hafa sýnt nægilega fram á fjárhagslegt tjón.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 29. apríl 1998. Hún krefst þess að stefndi greiði sér skaðabætur að fjárhæð 7.600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. mars 1997 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en áfrýjandi hefur gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar á meðal er prófskírteini áfrýjanda frá Tækniskóla Íslands. Kemur þar fram að hún hefur lokið B.Sc. prófi frá skólanum í vörustjórnun 23. janúar s.l.

I.

Málavextir og málsástæður eru raktar í héraðsdómi. Áfrýjandi, sem er blind, innritaðist í Háskóla Íslands haustið 1990 í viðskipta- og hagfræðideild.  Uppfyllti hún reglur 1. mgr. 21. gr. þágildandi laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands, sbr. síðar sömu grein laga nr. 131/1990, um að vera skrásettur háskólaborgari. Hún gekkst undir augnaðgerð í desember 1990 og gat ekki haldið hæfilegum námshraða á fyrsta námsári. Að ráðleggingum deildarinnar lét hún endurinnritast haustið 1991. Hún stundaði síðan nám við deildina þar til hún hvarf frá námi haustið 1994. Heldur hún því fram að það hafi verið vegna þess að hún hafi ekki fengið þá aðstöðu og aðstoð við deildina, sem fötlun hennar krafðist og hún átti rétt á. Er skaðabótakrafa hennar á þessu reist.

Þegar áfrýjandi innritaðist í háskólann giltu lög nr. 41/1983 um málefni fatlaðra. Í 1. gr. þeirra laga var kveðið á um það að markmið þeirra væri að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi og hasla sér völl í samfélaginu þar sem þeim vegnaði best. Í 3. mgr. 6. gr. laganna voru fyrirmæli um að fötluðum skyldi veitt þjónusta á almennum stofnunum eftir því sem unnt væri. Í lögum nr. 59/1992, sem leystu þessi lög af hólmi, var markmið laganna endurtekið, en einnig kveðið nánar á um réttindi fatlaðra. Segir þar í 7. gr. að fatlaðir skuli eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf hins fatlaða meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skuli hinn fatlaði fá þjónustu samkvæmt lögunum. Samkvæmt 8. gr. laganna skal veita fötluðum þjónustu sem miðar að því að gera þeim kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra.

Í 2. gr. viðauka nr. 1 við Evrópuráðssamning um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 er kveðið á um að engum manni skuli synjað um rétt til menntunar. Í 14. gr. samningsins sjálfs er sagt að réttindi þau um frelsi, sem lýst sé í samningnum, skuli tryggð án nokkurs manngreinarálits. Verður að skilja það svo að ákvæðið taki einnig til frelsis til mennta og eigi þannig að tryggja jafnrétti til náms. Samningur þessi öðlaðist lagagildi á Íslandi með lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Fyrir þann tíma var talið rétt að skýra íslensk lög til samræmis við ákvæði samningsins, enda er það viðurkennd regla að norrænum rétti að skýra lög til samræmis við alþjóðasamninga, sem ríki hefur staðfest, eftir því sem kostur er. Framangreind ákvæði mannréttindasáttmálans eru einnig í samræmi við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, en hún var áður meðal ólögfestra grundvallarreglna í íslenskri stjórnskipun.

Af framangreindum lagaákvæðum þykir leiða að Háskóla Íslands hafi borið að taka við áfrýjanda, svo sem hann gerði, og gera þær almennu ráðstafanir, sem fylgdu námi svo fatlaðs nemanda við skólann, til þess að hann fengi notið þeirrar þjónustu er almennir stúdentar nutu við þá deild skólans sem hann kaus sér. Því verður ekki borið við að nám í viðskipta- og hagfræðideild henti ekki blindum nemendum. Má af gögnum málsins ráða að ekki er óalgengt að blindir nemendur ljúki slíku námi við erlenda háskóla.

II.

Ljóst er að innan Háskóla Íslands gerðu menn sér grein fyrir skyldum sínum við fatlaða stúdenta því að á fundi háskólaráðs 27. september 1990 var samþykkt að skipa nefnd til að marka stefnu í málefnum þeirra. Skilaði nefnd þessi áliti 18. janúar 1991 og voru tillögur hennar samþykktar í háskólaráði 21. febrúar sama ár og sendar deildum og öðrum stofnunum háskólans til framkvæmdar.

Í stefnumörkun þessari segir meðal annars að við skráningu skuli fötluðum stúdent boðið að merkja í sérstakan reit á skráningareyðublaði. Afrit þess átti að afhenda námsráðgjöf, sem hafa átti samband við stúdentinn, ræða við hann, meta aðstæður hans og þörf á aðstoð og þjónustu. Námsráðgjöf skyldi síðan hafa samband við kennslusvið og skrifstofustjóra viðeigandi deildar og gera grein fyrir aðstæðum og þörf aðstoðar og þjónustu. Umsjón með viðbrögðum átti að vera í höndum skrifstofustjóra deildarinnar í samráði við forsvarsmenn kennslugreina, kennara, kennslusvið og námsráðgjöf. Vegna fötlunar, sem hindrað gæti eðlilegan námshraða, skyldi almennt hliðra til um námsframvindu og tímamörk náms eftir því sem kostur væri. Gefa átti kost á aðstoð við nám, svo sem stuðningskennslu, námsgagnagerð og þess háttar, sem greiða skyldi af sameiginlegum rekstri háskólans. Í greinargerð með álitinu var blindra og sjónskertra sérstaklega getið. Sagði þar að einkum væri um að ræða aðstoð og þjónustu við lestur kennsluefnis inn á snældur og stuðningskennslu. Er ekki í málinu ágreiningur um að áfrýjandi naut þeirrar aðstoðar.

Framangreind stefnumörkun varð til fljótlega eftir að áfrýjandi hóf háskólanám og var í gildi meðan hún var í skólanum. Önnur samþykkt um málefni fatlaðra leysti hana hins vegar af hólmi 15. júní 1995 eftir að háskólinn hafði notið aðstoðar sérfræðinga erlendis frá. Er sú stefnumörkun mun ítarlegri auk þess sem þar er bryddað upp á ýmsum nýmælum. Kemur þar meðal annars fram að móta eigi úrræði vegna aðstöðu til náms og prófa við skólann og hvernig eigi að koma þeim á framfæri.  Eiga úrræði þessi meðal annars að fela í sér hljóðritun námsefnis og val á hentugu kennslurými. Kynna á námsefni tímanlega. Þá á að mæla fyrir um lengri próftíma, próftöku í einrúmi, upplestur prófs, prófritara og annað fyrirkomulag prófa.

III.

Skrifstofustjóri viðskipta- og hagfræðideildar skyldi sjá um viðbrögð við erindi námsráðgjafar vegna áfrýjanda samkvæmt þeirri stefnumörkun, sem í gildi var og áður er rakin. Í greinargerð skrifstofustjórans, sem tekin var saman vegna máls þessa, kemur fram að hún hafi fyrst kynnst áfrýjanda 5. september 1991 er deildinni barst bréf frá henni með ósk um undanþágu frá prófatilhögun á fyrsta ári. Síðan eru í greinargerðinni raktar beiðnir áfrýjanda um ýmis konar undanþágur og aðstoð. Virðist að verulegu leyti hafa verið komið til móts við þessar óskir. Skrifstofustjórinn kom fyrir dóm og sagði að formleg stefna hefði ekki verið mótuð innan deildarinnar um viðbrögð við þörfum áfrýjanda. Óformlega hafi verið um það rætt á skrifstofunni að reyna að koma til móts við hana á allan hugsanlegan hátt án þess að tilslakanir væru gerðar á námskröfum. Þetta hafi verið margítrekað. Deildarforseti frá byrjun september 1990 til sama mánaðar 1992 staðfesti að engin almenn samþykkt hefði verið gerð og staðfesti jafnframt framburð skrifstofustjórans um óformlega stefnu deildarinnar.

Af því sem hér hefur verið rakið þykir nægjanlega fram komið að innan viðskipta- og hagfræðideildar hafi ekki verið gerðar almennar ráðstafanir eða heildarstefna mótuð um námsaðstoð við áfrýjanda, námsframvindu hennar, aðstoð í prófum og próftíma, sem styðjast mátti við og hún gat gengið að á eðlilegan hátt sem ófatlaðir nemendur. Þess í stað bera gögn málsins það með sér að hún þurfti að biðja um sérstakar undanþágur þegar hún gat ekki fylgt almennri tilhögun námsins, ekki aðeins vegna veikinda heldur einnig vegna fötlunar sinnar. Þessi skortur á almennri stefnumörkun innan deildarinnar virðist vera helsta orsök þess að við próf í upplýsingatækni I vorið 1994 voru prófgögn tekin af henni við lok venjulegs próftíma, enda þótt hún hefði talið að hún ætti að hafa lengri tíma. Þetta leiddi til þess að hún gat ekki lokið prófinu. Kennslubók í tölfræði B var samkvæmt framburði kennarans í faginu ekki til reiðu fyrr en liðið var á vormisseri 1994. Þá átti áfrýjandi eftir að fá bókina lesna fyrir sig. Kennaranum hafði ekki verið gert ljóst að blindur nemandi myndi verða á námskeiðinu. Hann taldi áfrýjanda notfæra sér fötlun sína við próf í faginu vorið 1994, en henni virðist ekki hafa verið gefinn fastur próftími fyrirfram í þessu prófi. Ósannað er að aðstoðarmanni hennar í prófum vor og haust 1994 hafi verið gefin ákveðin fyrirmæli um hvernig hann ætti að haga aðstoð sinni, en ómótmælt er að hann var síðar vændur um að ganga of langt við að aðstoða hana og leiddi það til lækkunar við einkunnagjöf.

Á móti þessu kemur og er viðurkennt að viðleitni var til þess hjá kennurum að mæta þörfum áfrýjanda og draga úr þeim hömlum sem hún bjó við. Lögðu sumir kennarar sig í framkróka við að búa kennsluefni í hendur henni. Þrátt fyrir þetta verður ekki hjá því komist að viðurkenna, þegar aðstæður þær er áfrýjanda voru búnar í viðskipta- og hagfræðideild eru metnar heildstætt, að ýmislegt hafi farið úrskeiðis og hafi skólinn og deildin brotið gegn rétti áfrýjanda sem fatlaðs nemanda við skólann. Er þá aðallega litið til þess að á vantaði að samþykkt væru almenn fyrirmæli sem fylgja ætti við nám hennar og próftöku sem fatlaðs nemanda, svo sem að framan er greint og hún átti rétt á að lögum, svo að hún gæti sem mest staðið jafnfætis ófötluðum nemendum. Þess í stað varð hún að ganga eftir eðlilegum tilhliðrunum og sannað þykir að þessi skortur á almennum fyrirmælum hafi leitt til mistaka af hálfu deildarinnar og árekstra við áfrýjanda. Verður að telja að í þessu hafi falist ólögmæt meingerð gegn persónu áfrýjanda og frelsi hennar til menntunar og eigi hún því rétt á bótum vegna ófjárhagslegs tjóns samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. áður 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykja þær hæfilega ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.

IV.

Áfrýjandi gerir auk kröfu vegna miska kröfu um bætur fyrir fjártjón vegna missis þriggja ára á vinnumarkaði, samtals 6.600.000 krónur.

Áfrýjandi hvarf frá námi í viðskipta- og hagfræðideild og hóf nám við Tækniskóla Íslands og hefur hlotið B.Sc. gráðu í vörustjórnunarfræði við skólann. Ekki er annað fram komið en að þetta nám hennar við skólann hafi gengið vel og án árekstra. Fékk hún þar metnar þær einingar sem hún hafði lokið við viðskipta- og hagfræðideild. Dvöl hennar við deildina hlýtur einnig að hafa nýst henni óbeint. Hún getur því ekki litið á tímann í deildinni sem glataðan tíma. Þá kemur fram í gögnum málsins að veikindi böguðu hana þegar hún var við nám í deildinni og áttu hlut að erfiðleikum hennar. Loks er fram komið að hún náði ekki prófi í rekstrarhagfræði þótt hún hafi reynt við það tvisvar, en nauðsynlegt er að ljúka því prófi til þess að útskrifast frá deildinni. Viðurkennt er að hún naut sérstakrar aðstoðar kennarans í faginu. Þótt henni hafi gengið vel í Tækniskóla Íslands þykir ekki þar með ljóst að hún hefði lokið tilskildum prófum í viðskipta- og hagfræðideild við kjöraðstæður. Hún þykir því ekki hafa sýnt nægilega fram á að hún eigi rétt á bótum vegna fjártjóns, þar sem hún hafi orðið að hverfa frá námi. Verður stefndi því sýknaður af kröfu um bætur fyrir fjárhagslegt tjón.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð, svo sem nánar er kveðið á um í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin laun lögmanns hennar.

Stefna máls þessa til héraðsdóms fylgir ekki fyrirmælum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu áfrýjanda var skömmu fyrir málflutning í Hæstarétti afhent yfirlit um atvik máls í tímaröð, málsástæður o.fl., sbr. 4. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991. Afhending slíks málflutningsskjals er til fyrirmyndar, en við gerð skjalsins hafa þau mistök á orðið að málsástæður eru þar raktar í löngu máli og ekki saman dregnar. Er þetta í andstöðu við reglur um munnlegan málflutning. Verður ekki af þessum sökum hjá því komist að gera athugasemd við málflutning lögmanns áfrýjanda á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Stefndi, Háskóli Íslands, greiði áfrýjanda, Rögnu Kristínu Guðmundsdóttur, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. mars 1997 til greiðsludags.

Stefndi greiði 800.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti og renna þær í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 700.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 1998

Mál þetta, sem dómtekið var 7. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, þingfestri 18. mars 1997.

Stefnandi er Ragna Kristín Guðmundsdóttir, kt. [...], Hlíðarvegi 28, Kópa­vogi.

Stefndi er Háskóli Íslands, kt. [...], við Suðurgötu, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá 18. mars 1997 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist, að dæmt verði, að stefndi skuli greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Þess er ennfremur krafist, að dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól fjárkröfu á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 18. mars 1998, og svo árlega þann dag. Að lokum er þess krafist að dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól málskostnaðar á 12 mánaða fresti.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda og að stefnandi verði dæmdur til að greiðslu málskostnaðar samkvæmt máls­kostn­aðarreikningi. Til vara krefst stefndi þess, að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð og máls­kostnaður felldur niður.

Málsatvik

Stefnandi býr við þá fötlun að vera algerlega blind. Hún lauk prófi frá Mennta­skól­anum í Hamrahlíð árið 1988, og um haustið 1990 innritaðist stefnandi í viðskiptafræði í við­skipta- og hagfræðideild stefnda. Hafði hún þá örlitla sjón á öðru auga, án þess þó að það nýttist henni við námið. Stefnandi gekkst undir aðgerðir á augum þann tíma, sem hún var við nám, en varð algerlega blind í febrúar árið 1993. Stefnandi hætti há­skóla­námi um haustið 1994 og hafði þá lokið 36 einingum af 120. Hún hóf nám í iðn­rekstr­arfræði á framleiðslusviði í Tækniskóla Íslands eftir áramótin 1994-1995 og lauk námi þaðan um áramótin 1996 -1997 með góðum árangri.

Málsástæður og lagrök stefnanda

Stefnandi kveður, að fram að vorinu 1994 hafi gengið á ýmsu í sambandi við nám hennar í viðskipta- og hagfræðideildinni. Að mati stefnanda hafi ekki verið tekið nægi­legt tillit til fötlunar hennar fram að þeim tíma, og hafi það tafið framgang náms hennar. Við­skipta- og hagfræðideildin hafi ekki mótað neina heildstæða stefnu eða áætlun vegna stefnanda eða nemenda með sams konar fötlun, þrátt fyrir að fjögur ár væru liðin síðan stefnandi innritaði sig fyrst í deildina. Stefnanda hafi ekki verið kynntar neinar al­menn­ar eða sérstakar reglur, sem gilt hafi um þetta hjá stefnda. Hafi stefnandi þurft að ganga eftir því, að undanþága væri veitt frá reglum deildarinnar í hvert sinn, sem að­stæð­ur kröfðust þess, og þá sífellt þurft að eiga við nýja kennara. Hafi þessi stöðuga bar­átta gert stefnanda námið mun erfiðara, en þurft hefði að vera. Að mati stefnanda hafi kennarar deildarinnar ekki veitt henni nægilegan faglegan stuðning í samræmi við fötl­un hennar. Ekki hafi verið komið til móts við þarfir stefnanda með því að senda henni sérstakar tilkynningar fyrirfram um það, hvaða námsefni væri á þeim nám­skeið­um, sem stefnandi innritaði sig í, þannig að hún næði að kanna, hvort námsefni, lesið inn á segulband, væri fyrirliggjandi á Íslandi eða á erlendum bókasöfnum og sækja um inn­lestur efnis í tæka tíð, sem ekki hafði áður verið lesið inn. Stefnandi hafi sjálf þurft að ganga eftir því, að námsefnið væri útbúið á viðeigandi formi, í samræmi við þarfir hennar. Þá hafi stefnanda verið meinað að nota ritvinnslu- og töflureiknisforrit, sem hún hafi getað notað á blindraskjánum á tölvu sinni og henni verið fyrirskipað að nota hefð­bundin forrit viðskipta- og hagfræðideildar, sem ekki hafi verið hægt að nota á blindra­skjánum. Ekki hafi verið hugað nægilega að hagkvæmnisatriðum, eins og þeim að tryggja stefnanda aðgang að glærum, sem notaðar hafi verið í kennslustundum og að taka frá sæti handa stefnanda vegna aðgengiserfiðleika og til þess að stefnandi hefði ákjósanlega staðsetningu til upptöku fyrirlestra. Við sýnikennslu á tölvu hafi ekki verið leitað leiða til að gera stefnanda kleift að fylgjast með. Stefnandi telji, að stefndi og við­skipta- og hagfræðideild hans hafi staðið á handahófskenndan og ófullnægjandi hátt að end­urskoðun prófskilyrða í þágu hennar, með hliðsjón af fötlun hennar, til að hún gæti best látið þekkingu sína í ljós, þannig að unnt væri að meta hana á sem áreiðanlegastan hátt. Telur stefnandi, að ekki hafi verið nægilega tekið tillit til þess, að hún tileinkaði sér þekkingu eftir öðrum leiðum, en ófatlaður nemandi, og að það væri því réttlátt, að henni væri mætt með öðrum úrræðum í mati á þekkingu.

Þannig hafi ekki verið sérsamin próf handa stefnanda, þegar þörf krafði. Stefn­anda hafi iðulega ekki verið veittur nægur aukatími til að taka próf, miðað við fötlun hennar, og ekki hafi verið skipulögð nauðsynleg skipting á hinum óvenju langa próf­tíma, til að stefnandi gæti hvílt sig. Lengi vel, eða fram á vor 1993, hafi stefnanda verið veittur sami próftími og ófatlaðir nemendur fengu og styttri próftími, en lesblindir hlutu. Hafi þetta háð stefnanda verulega við próftöku. Aðstæður við próftöku hafi ein­att verið ófullnægjandi, miðað við fötlun stefnanda, og ekki hafi nægilega verið leitað leiða, til að gera þær sem bestar úr garði. Sérstök prófstofa hafi sjaldnast verið höfð til fyrir stefnanda og sérstakt innlit kennara og sérstök aðstoð ekki verið skipulögð. Reglur eða viðmið um aðstoðarmann og framkvæmd aðstoðar við stefnanda vegna fötl­unar hennar hafi ekki verið sett. Öll óvissa kringum ofangreind atriði og skortur á heild­stæðum reglum hafi virkað mjög neikvætt á nám og frammistöðu stefnanda, þar sem það hafi boðið upp á óþarfa ágreining, grunsemdir og tillitsleysi, með meðfylgjandi tíma­sóun og áreynslu fyrir stefnanda. Stefnandi hafi ekki látið ofangreind atriði buga sig fyrstu árin í náminu og verið staðráðin í því, alveg fram að hausti 1994, að klára nám í viðskiptafræði við deildina. Hafi stefnandi vonast til að smám saman kæmist lag á ofangreinda annmarka, enda hafi hún þá unnið ötullega að sínum málum, meðal ann­ars með upplýsingaöflun gegnum bréfaskriftir við háskóla erlendis, þar sem blindir nem­endur stunduðu nám. Á vorönn 1994 og um sumarið og haustið 1994 hafi hins vegar átt sér stað atburðir, sem leitt hafi til þess, að stefnandi hafi ekki lengur treyst sér til að halda áfram námi sínu við deildina. Í prófi um vorið 1994 í námskeiðinu Upp­lýs­inga­tækni I, sem hafi verið verklegt próf, unnið á tölvur í Excel-forriti, hafi skrifstofa deild­arinnar gleymt að láta kennarann, Guðmund Ólafsson, vita, að stefnandi mætti vera lengur í prófinu, en aðrir. Um leið og kennarinn hafi tekið prófið af stefnanda, eftir að almennur tími var liðinn, hafi stefnandi farið í nemendaskrá stefnda, til þess að segja sig úr námskeiðinu, þrátt fyrir að hún hafi verið búin með stærsta hluta prófsins með því að skila verkefnum til kennarans. Stefnandi hafi skrifað kennaranum, Guðmundi Ólafs­syni, bréf og útskýrt ástæður úrsagnarinnar. Næst, þegar stefnandi hafi komið á skrif­stofu deildarinnar og hitt skrifstofustjórann, Kristínu Klöru Einarsdóttur, hafi sú síð­arnefnda verið mjög reið og sagt stefnanda, að hún hefði ekki haft neitt leyfi til þess að skrifa Guðmundi Ólafssyni þetta bréf. Hafi stefnandi spurt skrifstofustjórann að bragði, hvort skrifstofustjórinn hefði ekki átt að láta kennarann vita um lengri próftíma hjá sér. Hafi skrifstofustjórinn svarað á þá leið, að ekki ætti að vera með neinar und­an­þágur fyrir nemendur. Úrsögnin úr prófinu hafi ekki verið ekki tekin til greina og hafi nið­urstaðan verið samkvæmt því, að stefnandi hefði tvífallið í sama námskeiðinu og hafi því átt að missa niður þær einkunnir, sem voru undir 6,5, en þær hafi verið fjórar. Stefn­andi hafi brugðist við þessu með því að skrá sig í öll þau próf, sem hún hafi átt að missa niður. Hafi stefnanda þá borist bréf frá viðskipta- og hagfræðideild, þar sem henni hafi verið tilkynnt, að gera ætti undanþágu fyrir hana, þannig að hún myndi ekki missa niður þessar einkunnir. En svo hafi stefnanda borist annað bréf frá deildinni, þar sem henni hafi verið tilkynnt, að hún myndi missa niður allar einkunnir undir 6,5.

Í byrjun vorannar 1994 hafi stefnandi verið skráð í námskeiðið Tölfræði B hjá Ingjaldi Hannibalssyni dósent. Kennarinn hafi gefið út kennslubókina Tölfræði eftir byrjun annar. Langan tíma taki að vinna kennslubók í viðunandi form fyrir blinda. Hafi stefn­anda fundist, að kennarinn hefði getað tekið tillit til sín, með því að láta hana vita af bókinni fyrr og aðstoða hana um leið við að koma henni í viðunandi form. Stefnandi hafi því sagt kennaranum, að henni þætti bókin koma alltof seint. Hafi kennarinn svarað því til, að nemendur segðu honum ekki fyrir verkum. Hafi stefnandi neyðst til að kaupa þjón­ustu kennara, Sigurðar V. Hallssonar, til að komast yfir bókina.

Í skyndiprófi í Tölfræði B hafi stefnandi verið mun lengri tíma, en aðrir nemendur. Hafi kennaranum, umræddum Ingjaldi, fallið það mjög illa. Hafi hann neitað að að­stoða stefnanda á prófinu á sama hátt og hann hafi aðstoðað samnemendur hennar. Eftir prófið hafi kennarinn tjáð stefnanda, að hún yrði að skilja, að svona nám væri ekki gert fyrir blinda, enda ættu þeir ekkert að fara í háskólanám. Hafi hann talið, að stefn­andi misnotaði það frelsi, sem hún hafði notið við próftöku. Með þessu hafi slæmt sam­band myndast milli Ingjalds og stefnanda. Hafi stefnandi farið fram á það, að annar kenn­ari prófaði hana í námskeiðinu um vorið, þar sem henni fannst Ingjaldur hafa for­dóma um sig. Annars vegar teldi hann, að árangur stefnanda á prófum hefði ráðist af að­stoðarmönnum á prófum og hins vegar væri það mat kennarans, að atvinnulífið hefði lítið að gera við blinda viðskiptafræðinga. Í kjölfar þessa hafi Ásta Kristrún Ragnars­dóttir, forstöðumaður námsráðgjafar stefnda, leitað eftir því við Ingjald, að hann sam­þykkti annan prófanda, en hann hafnað því. Hafi stefnandi farið fram á það við Ingjald að fá lengri tíma í prófinu í Tölfræði B, og hafi námsráðgjöf stefnda tekið undir þá kröfu. Hafi helmingur af prófinu verið verklegur á tölvu og unnin í CBS hugbúnaði, sem fylgt hafi námsbókinni. Hafi áðurnefndur kennari tjáð stefnanda, að það ætti ekki að gera neinar undanþágur fyrir blinda. Hafi hún því fengið sama tíma og lesblindir, þ.e. sex tíma í stað fjögurra, sem hinir sjáandi nemendur hafi fengið.

Ingjaldur hafi óskað eftir því, að stefnandi yrði látin undirgangast munnlegt próf, en stefnandi hafnað því að fara í slíkt próf hjá honum, þar sem hún hafi ekki borið traust til hlutlauss mats hans á frammistöðu sinni og jafnframt, þar sem Ingjaldur hafi ekki fallist á að koma á móts við hana, með því að fá hlutlausan aðila til að prófa hana í sinn stað. Þar sem Ingjaldur hafi ekki sætt sig við val stefnanda á aðstoðarmanni, hafi hann látið taka samtöl stefnanda og aðstoðarmannsins upp á segulband. Stefnandi hafi ekki staðist prófið og það komið henni nokkuð á óvart, þrátt fyrir að hún hafi ekki náð að ljúka því. Hafi Ingjaldur sagt námsráðgjafa í lok prófsins, að þar sem stefnandi hefði kom­ist yfir svo lítinn hluta prófsins, væru engar líkur á því, að hún stæðist það. Í fram­haldi af því hafi kennarinn farið fram á það, að prófdómari væri skipaður sérstaklega til að fara yfir úrlausn stefnanda fyrir birtingu einkunnar og það verið gert. Hafi Benedikt Jóhannesson tölfræðingur verið skipaður prófdómari. Þegar einkunnin hafði verið birt stefn­anda, hafi hún ekki getað kært hana samkvæmt reglum stefnda, þar sem próf­dóm­ari hafði þegar farið yfir prófið. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara, hafi stefnandi fyrst og fremst fallið vegna tímahraks. Að áliti stefnanda og aðstoðarmanns hennar, stafaði það aðallega af því, að Ingjaldur hafi mælt svo fyrir, að stefnandi mætti ekki nýta sér tölvu, sem hafi verið til taks, fyrr en helmingur af próftímanum væri liðinn, en slík til­hög­un væri í samræmi við prófaðstöðu sjáandi nemenda. Við nánari athugun hafi komið í ljós, að ástæðan fyrir því, að hinum sjáandi nemendum hafi ekki verið ætlað að nýta tölvuna fyrri hluta próftímans, hafi verið sú, að þeir hafi ekki haft aðstöðu í tölvu­veri, nema síðari tvær prófstundirnar, og því ekki haft aðgang að tölvu, fyrr en þá.

Stefnandi hafi endurtekið prófið í Tölfræði B í ágúst 1994. Hafi Ingjaldur aftur farið fram á, að stefnandi undirgengist munnlegt próf hjá sér. Hafi stefnandi ekki fallist á það, frekar en áður. Sigurður V. Hallsson hafi verið aðstoðarmaður stefnanda á próf­inu, eins og í fyrra skiptið. Hafi Ingjaldur einnig látið hljóðrita þetta próf. Eftir mikið mál­þóf og með aðstoð Námsráðgjafar, hafi stefnandi fengið prófstundum sínum fjölgað úr sex í sjö. Hafi þetta fengist samþykkt, m.a. vegna þess, að stefnanda hafi tekist að afla upplýsinga frá erlendum háskólum um, að blindir nemendur fengju að jafnaði tvö­fald­an tíma á við hina sjáandi, en ófatlaðir nemendur hafi fengið fjóra tíma til að ljúka prófi í Tölfræði B. Nokkru áður en Ingjaldur lagði fram einkunnir í prófinu, hafi stefn­andi frétt, að hún hefði fallið á prófinu. Hafi hún undrast að fregna þetta fyrst hjá sam­nem­endum sínum. Þá undraðist hún einnig að hafa fallið á prófinu, þar sem hún hafi verið marg búin að fara yfir það og talið sig vita, að hún hefði náð því. Hafi stefnandi pantað viðtal hjá Ingjaldi, til að ræða málin og reyna að ná sáttum. Áður en til viðtalsins kom, hafi stefnandi hitt Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur, sem tjáð hafi henni, að því væri haldið fram, að stefnandi hefði svindlað á prófinu. Hafi komið ljós, að stefnandi hafði sam­kvæmt prófbók hlotið 4,5 í einkunn á prófinu, sem dugað hafi til að ná því. Ingjaldur hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa hlustað á þær segul­bands­upptökur, sem hann hafi látið framkvæma, að þekking stefnanda á námsefninu rétt­lætti ekki þá einkunn. Hafi hann talið Sigurð V. Hallsson hafa farið út fyrir svið að­stoð­armanns í prófi og miklu frekar tekið sér hlutverk spyrjanda í munnlegu prófi. Sigurði hafi hins vegar ekki verið sett neins konar viðmið eða reglur um það, hvernig að­stoð hann mætti eða mætti ekki veita stefnanda á prófinu, en Sigurður hafi verið að­stoð­armaður stefnanda í öðrum prófum, meðal annars í fyrra prófi í Tölfræði B. Engin gagn­rýni hafi borist námsráðgjafa eða nemenda og aðstoðarmanni vegna hljóðritaðrar sam­vinnu nemandans og aðstoðarmannsins í prófinu í Tölfræði B um vorið, þrátt fyrir að bæði Ingjaldur og prófdómarinn hefðu hlýtt á hana. Hafi Ingjaldur ásakað stefnanda harð­lega um að hafa sjálf tekið upp prófið á segulband, en stefnandi neitað því. Eftir af­skipti Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur námsráðgjafa, hafi það orðið að ráði, að fram­kvæmda­stjóri Blindrafélags Íslands, Helgi Hjörvar, myndi hlusta með Ingjaldi á upp­tök­urnar, ásamt Snjólfi Ólafssyni dósent. Hafi Ingjaldur ritað framkvæmdastjóra kennslu­sviðs stefnda, Þórði Kristinssyni, bréf vegna málsins, dags. 9. september 1994, þar sem fram komi, að það sé sameiginleg niðurstaða hans, Helga Hjörvars og Snjólfs Ólafs­sonar, að Sigurður V. Hallsson hafi farið út fyrir svið aðstoðarmanns í prófi og miklu frekar tekið sér hlutverk spyrjanda í munnlegu prófi. Treysti hann sér því ekki að taka við prófbók stefnanda og upptökum sem lausn á skriflegu prófi og legði til, að prófið yrði dæmt ógilt og stefnandi yrði prófuð munnlega í Tölfræði B.

Eftir þetta hafi Þórður Kristinsson, að beiðni Ingjalds, skipað sama prófdómara og um vorið til að fara yfir próf stefnanda í Tölfræði B um haustið, og það verið gert án sam­ráðs við stefnanda og þrátt fyrir að Þórði væri fullkunnugt um, að greinargerð sér­fróðs aðila í málefnum blindra, Helga Hjörvars, væri í smíðum. Hafi prófdómarinn kom­ist að þeirri niðurstöðu, að stefnandi hefði fallið á prófinu. Hafi þar þyngst vegið mat prófdómarans á samvinnu stefnanda og aðstoðarmanns hennar, sem prófdómarinn hafi talið ríkulega frá í einkunnagjöf, þrátt fyrir að hann hafi ekki sérþekkingu á mál­efn­um blindra. Helgi Hjörvar hafi sent Þórði Kristinssyni bréf vegna málsins, dags. 20. september 1994. Hafi hann þar gagnrýnt harðlega framgöngu Ingjalds í málinu og náms­aðstöðu stefnanda í heild. Taki Helgi fram í bréfinu, varðandi fullyrðingu Ingjalds um sameiginlega niðurstöðu Ingjalds, Helga og Snjólfs, að Ingjaldur hefði misnotað vel­vild hans, til að gera Blindrafélag Íslands meðábyrgt að ályktun, sem væri Ingjalds eigin og einskis annars manns. Ennfremur taki Helgi fram, að rétt væri að hann, Ingjaldur og Snjólfur hefðu verið sammála um, að hér væri ekki um skriflegt próf að ræða. Alrangt væri hins vegar, að þeir hefðu sammælst um, að aðstoðarmaður hefði farið út fyrir verksvið sitt.

Ásta Kristrún Ragnarsdóttir námsráðgjafi hafi gert minnisatriði vegna málsins fyrir rektor stefnda vegna óskar Réttindaskrifstofu stúdenta, sem hafi verið sett fram vegna máls­ins, um túlkun lögskýringarnefndar stefnda á 47. gr. reglugerðar um Háskóla Íslands nr. 98/1993 um skipan prófdómara að ósk kennara. Í minnisatriðunum gagnrýni náms­ráðgjafinn harðlega skipun sérstaks prófdómara fyrir stefnanda í prófunum í Töl­fræði B og jafnframt þau sjónarmið, sem prófdómarinn byggi á við mat á úrlausninni. Þá gagnrýni námsráðgjafinn það, að misjafnlega hefði verið brugðist við þeirri tor­tryggni, sem upp hafði komið milli Ingjalds og stefnanda.

Í ágúst 1994 hafi stefnandi tekið próf í Rekstrarhagfræði I hjá Ágústi Einarssyni, prófess­or og þáverandi deildarforseta. Hafi Ágúst tjáð stefnanda í bréfi, dags. 13. septem­ber 1994, að hún hefði ekki staðist prófið. Hinn 28. september 1994 hafi stefn­andi farið á fund Ágústs Einarssonar, til þess að forvitnast um niðurstöðu prófsins, þar sem hún hafi ekki verið sátt við einkunnina, sem hún fékk, og hafi hann hvatt stefnanda til að hefja nám við lagadeild. Hafi Ágúst talið, að mun auðveldara væri fyrir hana að læra námsefnið í lagadeild stefnda, þar sem um mælt mál væri að ræða. 

Eftir þetta viðtal og önnur atvik haustið 1994, hafi stefnanda verið ljóst, að hún ætti sér ekki uppreisnar von í viðskipta- og hagfræðideild stefnda og yrði að hverfa frá námi þar og leita á aðrar slóðir. Hafi stefnandi talið það blasa við, að deildin myndi ekki beita sér í því að koma til móts við þarfir hennar vegna fötlunarinnar og bæta úr þeim ann­mörkum, sem verið hefðu, heldur þvert á móti vinna á móti áframhaldandi veru hennar í deildinni. Eftir áramótin 1994-1995, hafi stefnandi innritast í iðnrekstrarfræði í Tækni­skóla Íslands með framleiðslu sem aðalgrein. Hafi þá sannast, að þegar tillit hafi verið tekið til fötlunar hennar, hafi hún átt auðvelt með að tileinka sér sambærilegt náms­efni og í viðskiptafræðinni og kunnátta hennar og skilningur reynst í besta lagi. Stefn­andi hafi um áramótin 1996-1997 lokið námi á framleiðslusviði við skólann á til­skild­um tíma, þ.e. á tveimur árum, og verið með yfir 8 í meðaleinkunn í þeim áföngum, sem hún hafi lokið í skólanum, sem teljist mjög góð meðaleinkunn. Hafi stefnandi reyndar gert gott betur, en að ljúka námi á framleiðslusviði á tilskildum tíma, en hún hafi einnig lokið námi á markaðssviði og eingöngu átt eitt námskeið eftir, til að ljúka námi á útvegssviði. Hafi þannig litlu munað, að stefnandi næði að klára nám á öllum þremur sviðum skólans á sama tíma og gert er ráð fyrir að ófatlaður nemandi ljúki námi á einu sviði.

Stefnandi byggir bótakröfur sínar á því, að stefndi, sem opinber stofnun, fyrir­svars­menn hans og starfsmenn, hafi með framangreindum athöfnum og athafnaleysi á sak­næman hátt brotið gegn réttindum stefnanda sem fatlaðs einstaklings, sem tryggð séu að íslenskum rétti og í þjóðarrétti, m.a. í alþjóðlegum samningum og samþykktum, sem Ísland sé aðili að, eða hafi staðið að, eða hafi almennt þjóðréttarlegt gildi. Þannig hafi stofnast bótaskylda á hendur stefnda á grundvelli sakarreglunnar og reglunnar um vinnu­veitendaábyrgð á því tjóni, sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þessara brota á rétt­indum hennar. Stefnandi byggir á því, að með framangreindum athöfnum og at­hafna­leysi, hafi stefndi m.a. brotið gegn jafnræðisreglu stjórnskipunarréttar og stjórn­sýslu­réttar, um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda og annarra rétt­inda, án tillits til stöðu sinnar, sem gilt hafi áður ólögfestar, en sé nú að finna í 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjskl. nr. 97/1995, 3. gr., 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 14. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis í fylgiskjali með lögum um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Stefnandi veki athygli á því, að eftir breyt­ingu á stjórnarskránni með stjskl. nr. 97/1995, sé lögð meiri áhersla í henni, en áður, á efnahagsleg og félagsleg réttindi, og beri að taka tillit til þess við skýringu á íslensk­um rétti. Stefnandi byggir einnig á því, að stefndi hafi með framangreindum at­höfn­um og athafnaleysi brotið gegn réttindum hennar samkvæmt 2. gr. samn­ings­við­auka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis í fylgiskjali með lög­um um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, en samkvæmt greininni, gildi sú sér­staka jafnræðisregla, að engum manni skuli synjað um rétt til menntunar, og beri að sjálf­sögðu að túlka þetta ákvæði á þann veg, að um sé að ræða menntun að eigin vali, að teknu tilliti til almennra efnislegra og lögmætra takmarkana. Fyrir utan þá almennu vernd, sem fatlaðir njóti samkvæmt ofangreindum jafnræðisreglum, séu réttindi fatlaðra tryggð sérstaklega víða í íslenskri löggjöf. Miði lagareglurnar almennt að sama marki og fyrrgreindar jafnræðisreglur, þ.e. að því að tryggja jafnan rétt fatlaðra í þjóðfélaginu, m.a. með því að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir fullri þátttöku þeirra í því. Í lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992, sbr. áður lög nr. 41/1983, komi fram í 1. gr., að mark­mið laganna sé að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóð­fél­ags­þegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Í 2. gr. komi fram, að sá eigi rétt á þjónustu samkvæmt lögunum, sem sé andlega eða líkamlega fatlaður og þarfnist sér­stakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum, m.a. vegna sjónskerðingar. Í 7. gr. komi fram, að fatlaðir skuli eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum, m.a. á sviði menntunar. Í 8. gr. komi fram, að veita skuli fötluðum þjónustu, sem miði að því að gera þeim kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra. Skuli taka mið af þörfum fatlaðra til hæfingar, endurhæfingar og atvinnu, sem m.a. felist í því, að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu. Í 29. gr. komi fram, að veita skuli fötluðum aðstoð til að sinna störfum á almennum vinnumarkaði, þegar þess gerist þörf. Í 32. gr. komi fram, að fatlaðir skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveit­ar­fél­agi, ef hæfni þeirra til starfsins sé meiri eða jöfn hæfni annarra, sem um starfið sækja.

Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40 frá 1991 komi fram í 1. gr., að mark­mið laganna sé m.a. að veita aðstoð, til þess að íbúar geti búið sem lengst í heima­hús­um, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi. Í XI. kafla laganna, sem fjalli um þjón­ustu fatlaðra, komi fram í 43. gr., að félagsmálanefnd skuli vinna að því að fötl­uð­um séu tryggð sambærileg lífskjör og jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna. Jafnframt skuli fötluðum sköpuð skilyrði til að lifa sem eðlilegustu lífi, miðað við getu hvers og eins. Í 45. gr. komi fram, að fatlaðir eigi rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lög­unum, og skuli þeim veitt þjónusta á almennum stofnunum, eftir því sem unnt sé og við eigi. Byggir stefnandi á því, að stefndi hafi með ofangreindum athöfnum og at­hafna­leysi einnig brotið gegn þeim sérstöku réttindum hennar sem fatlaðs einstaklings, er fram komi í íslenskri löggjöf. Réttindi fatlaðra séu að auki vernduð í reglum fjöl­margra alþjóðasamninga og alþjóðasamþykkta. Inntak þessara reglna sé í fyrsta lagi í sam­ræmi við hina almennu jafnræðisreglu, sem gildi í íslenskum stjórnskipunar- og stjórn­sýslurétti um, að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda og ann­arra réttinda, án tillits til stöðu sinnar, sbr. 2. og 7. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóð­anna (SÞ), 2. og 26. gr. alþjóðasamnings SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg rétt­indi, 2. gr. alþjóðasamnings SÞ um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, 2. gr. alþjóðasamnings SÞ um réttindi barnsins (fötlun sérstaklega tilgreind), 14. gr. mann­réttindasáttmála Evrópu og inngangsorð félagsmálasáttmála Evrópu. Með skír­skot­un til inngangsorða alþjóðasamnings SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi megi ætla, að hugsunin bakvið slíka alþjóðasamninga sé sú, að viðurkenning á með­fæddri göfgi mannsins og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum. Í alþjóðlegum mannréttindasamningum sé í öðru lagi lögð áhersla á jafnan rétt til menntunar og að menntun skuli með öllum til­hlýði­leg­um ráðstöfunum gerð öllum mönnum aðgengileg, til að unnt sé að rækta sem best hæfi­leika viðkomandi og gera þeim kleift að taka þátt í frjálsu þjóðfélagi á virkan hátt, sbr. 26. gr. mannréttindayfirlýsingar SÞ, 13. gr. alþjóðasamnings SÞ um efnahagsleg, fél­agsleg og menningarleg réttindi, 27. og 28. gr. alþjóðasamnings SÞ um réttindi barns­ins, 1. gr., 2. gr. og 3. gr. b-lið alþjóðasamþykktar Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 111 frá 1958 um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs (Convention concerning Discrimination (Employment and Occupation)), 1., 4. og 5. gr. al­þjóða­samn­ings UNESCO gegn mismunun í menntun, 2. gr. samningsviðauka nr. 1 við mann­rétt­indasáttmála Evrópu, 1., 9. og 10. gr. félagsmálasáttmála Evrópu og 1., 9. og 10. gr. endurskoðaðs félagsmálasáttmála Evrópu.

Í alþjóðasamningum og alþjóðasamþykktum sé í þriðja lagi sérstaklega reynt að tryggja, að allra leiða sé leitað, til að stuðla að því, að fatlaðir geti notið, eins mikið og unnt er, fulls lífs og sjálfstæðis, félagslegrar aðlögunar og fullrar og virkrar sam­fél­ags­þátt­töku. Áhersla sé lögð á, að gripið sé til allra tilhlýðilegra ráðstafana, til að fötluðum sé veitt jafnræði á við aðra, svo að þeir geti náð fullum andlegum þroska til þátttöku og fram­lags í þjóðfélagi. Markmiðið sé að þróa möguleika fatlaðra og hæfileika til hins ýtrasta og hraða þannig framgangi aðlögunar þeirra að þjóðfélaginu. Áhersla sé lögð á, að þetta gerist innan almenna skólakerfisins í hinu almenna skólaumhverfi meðal ófatl­aðra nemenda, ef nokkur möguleiki sé til þess, eftir atvikum með sérstakri stefnu­mótun, sérstakri aðlögun og sérstökum áætlunum fyrir hina fötluðu. Lögð sé sú skylda á ríki og stofnanir þeirra að móta, framkvæma og endurskoða reglulega stefnu og áætl­anir um menntun og störf fatlaðra, til þess að bæta menntunarmöguleika þeirra og at­vinnu­möguleika á opna vinnumarkaðinum. Stefna þessi eigi að vera byggð á meg­in­regl­un­um um sömu möguleika fatlaðra og annarra til starfa að eigin vali og um sömu mögu­leika starfandi fatlaðra og annarra starfandi. Þó sé gerður sá fyrirvari, að jákvæð mis­munun gagnvart starfandi fötluðum teljist ekki brot á réttindum annarra starfandi. Lögð sé sú skylda á ríki og stofnanir þeirra, að sjá fyrir, innan almenna skólakerfisins, góðri upplýsingagjöf, ráðgjöf, aðstoð, þjálfun og annarri þjónustu, til að stuðla að sjálfs­björg fatlaðra og gera þeim jafn kleift og öðrum að fá starf að eigin vali, halda því og ná frama í því. Um þetta vísist til 23. gr. alþjóðasamnings SÞ um réttindi barnsins, 5. - 8. gr. yfirlýsingar SÞ um réttindi fatlaðra frá 1975, 8. gr. yfirlýsingar SÞ um rétt til þroska frá 1986, 3., 7., 10., 23., 25., 27. og 33. gr. viðmiðunarreglna Tallinn á sviði fötl­unar fyrir aðgerðir til að stuðla að þroska mannlegra hæfileika (Tallinn Guidelines for Action on Human Resources Development in the field of Disability), samþykktra á alls­herjarþingi SÞ 15. mars 1990 með ályktun nr. 44/70, 2. - 4. og 7. gr. al­þjóða­sam­þykkt­ar ILO nr. 159 frá 1983 um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra (Convention concerning Vocational Rehabilitation and Employment (Disabled Persons)), 2. og 3. gr. alþjóðasamþykktar ILO nr. 142 frá 1975 um starfsfræðslu og starfs­þjálfun sem þætti í þróun vinnuafls (Convention concerning Vocational Guidance and Vocational Training in the Development of Human Resources), 3., 5., 7. og 8. gr. til­lögu ILO nr. 99 frá 1955 um atvinnuþjálfun fatlaðra manna til viðreisnar þeim (Recommendation concerning Vocational Rehabilitation of the Disabled Persons), 2., 5., 7., 9., 12. og 13. gr. tillögu ILO nr. 168 frá 1983 um starfsendurhæfingu og at­vinnu­mál fatlaðra (Recommendation concerning Vocational Rehabilitation and Employment (Disabled Persons)), 4.1., 4.4., 4.6.a., 4.6.f., 5.1., 5.2.a., 5.2.j., 6.c., 53., 69.1., 70. og 73. gr. tillögu ILO nr. 150 frá 1975 um starfsfræðslu og starfsþjálfun sem þætti í þróun vinnuafls (Recommendation concerning Vocational Guidance and Vocational Training in the Development of Human Resources), 9., 10. og 15. gr. fél­ags­málasáttmála Evrópu og 9., 10. og 15. gr. endurskoðaðs félagsmálasáttmála Evrópu.

Hnykkt sé á ofangreindum réttindum í stöðluðum reglum SÞ um að skapa jafna mögu­leika fyrir fatlaða, sem hafi verið samþykktar á Allsherjarþingi SÞ 20. desember 1993 með ályktun nr. 48/96 í framhaldi af lokum áratugar fatlaðra hjá SÞ. Um sé að ræða 22 reglur. Reglurnar hafi verið þýddar og gefnar út af félagsmálaráðuneytinu 1995. Í formála þeirra komi fram, að þær hafi í för með sér sterka siðferðilega og stjórn­málalega skyldu aðildarríkja til að grípa til aðgerða til að skapa jafna möguleika fyrir fatlaða. Ennfremur komi þar fram, að meginreglan um jafnan rétt hafi í för með sér, að þarfir hvers og eins einstaklings séu jafn mikilvægar, að þessar þarfir verði að gera að grundvelli skipulagningar þjóðfélaga og að grípa þurfi til allra tiltækra ráða á þann hátt, að tryggt verði, að sérhver einstaklingur hafi jafnan möguleika til þátttöku. Í regl­unum kemur m.a. fram í 1. reglu, að aðildarríki skuli grípa til ráðstafana, til að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir fullri þátttöku fatlaðra, sbr. gr. 1.2. Aðildarríkin eigi að tryggja, að í almennum kennsluáætlunum sé gert ráð fyrir fullri þátttöku og jafnrétti fatl­aðra, sbr. gr. 1.4. Aðildarríkin eigi ennfremur að hafa frumkvæði að og stuðla að áætl­unum, sem hafa að markmiði að vekja athygli fatlaðra á réttindum sínum og skyldum. Aukið sjálfstraust og möguleikar fatlaðra stuðli að því, að þeir geti nýtt sér þau tækifæri, sem þeim standa til boða. Í 6. reglu í II. kafla reglnanna, sem fjalli um mark­hópa, hvað snertir jafna þátttöku, sé fjallað um menntun. Í henni komi m.a. fram, að aðildarríkin skyldu hafa í heiðri þá meginreglu, að fötluð börn njóti jafnréttis, hvað snertir nám í grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og almennum skólum. Þau skyldu tryggja, að menntun fatlaðra sé óaðskiljanlegur hluti menntakerfisins. Beri yfirvöld mennta­mála ábyrgð á því, að fatlaðir hljóti menntun í almennum skólum. Menntun fatl­aðra skyldi vera óaðskiljanlegur hluti af áætlanagerðum, mótun námsskráa og skipulagi skóla í menntakerfi landsins. Menntun í almennum skólum innifeli þjónustu túlka og annarrar stoðþjónustu. Viðeigandi aðgengi og stoðþjónusta, sem ætlað sé að fullnægja þörf­um einstaklinga með hvers konar fötlun, skyldi einnig vera til reiðu. Í því skyni að sjá fötluðum fyrir menntun í almennum skólum, skyldu aðildaríkin hafa skýrt mótaða stefnu, sem njóti skilnings og samþykkis í skólunum og samfélaginu almennt, sjá til þess að námskrár séu sveigjanlegar og að unnt sé að bæta við þær og aðlaga þær að­stæð­um og útvega heppilegt námsefni, áframhaldandi þjálfun kennara og stuðn­ings­kenn­ara. Í þeim alþjóðasamningum og alþjóðasamþykktum, sem greint hafi verið frá, sé ekki eingöngu mælt fyrir um efnisleg réttindi, heldur einnig lögð mikil áhersla á, að fram­kvæmd verði háttað svo, að þau verði raunveruleg og virk. Stjórnvöld uppfylli ekki skyldu sína með því einu að setja lög um slík réttindi, þannig að þau séu formlega tryggð, heldur verði þau að grípa til jákvæðra ráðstafana í því skyni, að réttindi þessi komist í framkvæmd með löggjöf, sbr. t.d. 2. gr. alþjóðasamnings SÞ um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Byggir stefnandi á því, að stefndi hafi með ofan­greind­um athöfnum og athafnaleysi einnig brotið gegn þeim sérstöku réttindum hennar sem fatlaðs einstaklings, sem fram komi í alþjóðasamningum og alþjóðasamþykktum. Byggir stefnandi á því, að alþjóðasamningarnir og alþjóðasamþykktirnar hafi réttar­heim­ildagildi á Íslandi, annað hvort sem þjóðarréttur, venjuréttur eða sem almenn rétt­ar­vitund, óháð því, hvort þau hafi verið lögfest á Íslandi eða ekki og því, hvort Ísland sé aðili að þeim eða ekki. Verði ekki fallist á þetta að öllu leyti, byggir stefnandi á því, að því leyti sem alþjóðasamningarnir og alþjóðasamþykktirnar gildi ekki sem beinar rétt­arheimildir, að þau hafi, a.m.k. í samræmi við almennar lögskýringarreglur, lög­skýr­ing­argildi sem gildandi þjóðarréttur og gildandi réttarviðhorf á þau réttindi stefnanda, sem styðjist við beinar réttarheimildir.Samkvæmt ofangreindum réttarheimildum og eftir atvikum lögskýringargögnum, hafi stefnda borið sem opinberri stofnun að tryggja stefn­anda, með öllum tiltækum ráðum, jafnræði til náms að eigin vali, á við þá, sem eru ófatl­aðir, með því að taka fyllsta tillit til fötlunar hennar við allt skipulag og alla fram­kvæmd náms hennar. Með skírskotun til framangreindra málsatvika, byggir stefnandi á því, að þetta hafi ekki verið gert. Það gefi auga leið, að margfalt erfiðara sé fyrir blind­an nemanda að stunda nám í viðskiptafræði hjá stefnda, en fyrir ófatlaðan nemanda. Stefnda og viðskipta- og hagfræðideildinni hafi borið, strax í upphafi náms stefnanda, að móta heildstæða stefnu eða áætlun, þar sem tillit væri tekið til þessa með því að veita stefnanda nauðsynlegt og afmarkað svigrúm í námi og skipuleggja til hins ítrasta sér­staka aðstoð frá upphafi til enda náms. Eftir fjögurra ára nám stefnanda í viðskipta- og hagfræðideild stefnda hafi stefndi enn ekki verið búinn að gera þetta og gert þetta stefn­anda mjög erfitt fyrir í náminu, þar sem hún hafi sífellt þurft að berjast við fast­mótað kerfi deildarinnar með misjöfnum árangri. Hafi þetta ekki getað dulist fyr­ir­svars­mönn­um og starfsmönnum stefnda. Margs konar annmörkum hafi verið lýst á skipulagi og framkvæmd námsins almennt gagnvart stefnanda. Hefði stefndi, án mikillar fyrir­hafn­ar og kostnaðar, getað ráðið bót á þessu, hefði hann sinnt máli stefnanda á þann hátt, sem krefjast hafi mátt af honum samkvæmt ofangreindum réttarheimildum og eftir at­vikum lögskýringargögnum. Megi ætla, að með skýrri stefnumótun og markvissum áætl­unum, hefði fyrirhöfn og kostnaður vegna náms stefnanda við viðskipta- og hag­fræði­deild jafnvel minnkað, ef borið sé saman við það ástand sem ríkt hafi, þ.e. að stefnandi hafi stöðugt þurft að ganga á eftir rétti sínum og sækja um undanþágur, þegar það átti við, og að stefndi hafi á handahófskenndan hátt komið til móts við stefnanda í ein­stökum málum. Að lokum hafi háttsemi og viðbrögð stefnda, fyrirsvarsmanna hans og starfsmanna, í þeim málum, sem hafi komið um vorið og haustið 1994, í heild verið ómál­efnaleg og óviðunandi, miðað við aðstæður allar. Hafi stefnanda verið gefið að skilja, beint og óbeint, að þess væri æskt, að hún hætti námi í viðskiptafræði hjá stefnda, enda hefði hún enga þekkingu eða hæfileika á því sviði, og jafnframt, héldi hún héldi áfram, yrði hún að kljást við umhverfi, sem hafi verið neikvætt gagnvart henni og þannig enn erfiðari aðstæður, en áður. Háttsemi og viðbrögð stefnda og viðskipta- og hag­fræðideildar í þessum málum endurspegli það ástand, sem stefnandi hafi þurft að búa við í námi sínu hjá stefnda innan viðskipta- og hagfræðideildar, þ.e. að mörgu leyti áber­andi metnaðar-, skilnings- og tillitsleysi gagnvart fötlun hennar. Stefndi hafi ekki verið í nokkurri stöðu til að þrýsta á stefnanda eða ráðleggja henni að hætta námi við við­skipta- og hagfræðideild stefnda, fyrr en hann hafi verið búinn að ráða bót á þessu ástandi og gefa stefnanda sanngjarnt tækifæri til að stunda nám sitt í umhverfi, sem tæki fullt tillit til fötlunar hennar, miðað við sérstaka fyrirfram þekkta stefnu og áætlun. Hafi stefnanda verið nauðugur einn kostur að hverfa frá námi í viðskiptafræði haustið 1994 eftir það viðmót, sem henni hafi verið sýnt hjá stefnda. Hafi stefnandi hlotið skýrar og afdráttarlausar áskoranir frá kennurum í viðskipta- og hagfræðideild, m.a. frá þá­verandi forseta deildarinnar, um að hún hætti þar námi og henni hafði verið gert ljóst, héldi hún áfram, þá yrði það andstreymis. Stefnandi hafi frá upphafi lýst yfir ein­dregn­um vilja sínum til að ljúka náminu, en orðið að hverfa frá þeim ásetningi sínum, og hafi stefnda, fyrirsvarsmönnum hans og starfsmönnum, að sjálfsögðu verið ljóst, að þessi af­leiðing gæti hlotist af framkomu þeirra.

Til að draga úr tjóni sínu, hafi stefnandi innritað sig í annað nám, sem hafi verið henni síður að skapi, og sýnt þar og sannað, að hún sé þess megnug að stunda sam­bæri­legt nám á háskólastigi með góðum árangri, sé eðlilegt tillit tekið til fötlunar hennar. Hafi það því verið bersýnilega ónauðsynlegt og óheimilt að skora á eða ráð­leggja stefnanda að hætta námi í viðskiptafræði hjá stefnda. Eftir standi, að fyrir stefn­anda, sem hafi allt sitt líf stefnt að því að verða gjaldgeng á vinnumarkaði, þrátt fyrir fötlun sína, hafi nokkur ár í námi farið til spillis, og að sjálfsögðu hafi sú meðferð, sem hún hafi sætt hjá stefnda, verið þjáningarfull og niðurlægjandi. Miði stefnandi bótakröfu sína í máli þessu við það fjárhagslega og ófjárhagslega tjón, sem hún hafi orðið fyrir sökum þessa. Stefnandi hafi stundað nám við viðskipta- og hagfræðideild stefnanda í sam­tals fjögur ár. Með hliðsjón af því, að nám þetta muni nýtast stefnanda að einhverju leyti í framtíðinni, og því, að hún hafi orðið að stunda nám sitt hægar af per­sónu­bundn­um ástæðum, óháðum almennri fötlun hennar, geri stefnandi kröfu um, að bætur hennar mið­ist við það, að hún hafi glatað á vinnumarkaði 3/4 þess tíma, sem hún hafi stundað nám hjá stefnda, fyrst henni hafi á saknæman og ólögmætan hátt ekki verið gert kleift að ljúka náminu. Með hliðsjón af þeim árangri, sem stefnandi hafi náð í námi sínu við Tækni­skóla Íslands, og þeim forgangsrétti til atvinnu, sem fatlaðir njóti hjá ríki og sveit­arfélagi samkvæmt 32. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, sbr. áður lög nr. 41/1983, byggir stefnandi á því, að tjónsviðmiðunin fyrir þau þrjú ár, sem hún glatað á vinnu­markaði, eigi að vera meðalárstekjur háskólamenntaðra opinberra starfsmanna. Sam­kvæmt niðurstöðu Kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna hafi þær numið árið 1996 um 2.200.000 krónum. Hafi hugur stefnanda lengi staðið til að nema við­skipta­fræði. Í áhugasviðskönnun, sem hún hafi undirgengist hjá námsráðgjöf stefnda í júlí 1993, hafi komið í ljós, að þetta nám hentaði henni einkar vel. Hafi stefndi með sak­næmri og ólögmætri hegðun sinni, komið í veg fyrir, að stefnandi gæti numið og starfað við viðskiptafræði eftirleiðis, en stefnandi treysti sér ekki vegna fötlunar sinnar að leita erlendis, til að stunda þetta nám, og hafi stefnda, fyrirsvarsmönnum hans og starfs­mönnum, mátt vera það ljóst. Hafi stefnandi mátt standa í áralangri baráttu hjá stefnda, til að ná fram réttindum sínum í námi sínu hjá honum, og ekki átt erindi sem erfiði. Hafi þeirri baráttu lokið með röð mála, sem greint hafi verið frá þar, sem stefn­anda hafi verið sýnd vanvirðing og tillitsleysi og hún neydd til að hætta því námi, sem hún hafi lagt svo mikla vinnu í. Allt þetta hafi að sjálfsögðu valdið stefnanda miklum þján­ingum og vonbrigðum. Krefst hún vegna þessa miskabóta á grundvelli 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993. Miðað við þetta, sundurliðist fjárkrafa stefnanda á eftir­farandi hátt:

1. Bætur vegna missis þriggja ára á vinnumarkaði, kr. 2.200.000 x 3kr.6.600.000:

kr. 2.200.000 x 3kr.6.600.000

2. Miskabætur, kr. 1.000.000:

Samtals:

kr. 1.000.000

kr.  7.600.000

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt, að allt frá upphafi hafi það verið viðtekin stefna innan viðskipta- og hagfræðideildar stefnda að veita stefnanda alla mögulega aðstoð vegna fötlunar hennar. Hafi stefnanda ítrekað verið veittar undanþágur frá reglum deild­arinnar. Megi hér fyrst nefna erindi frá stefnanda, sem tekið hafi verið fyrir á deild­arfundi 25. janúar 1991. Stefnandi hafi óskað eftir heimild til próftöku utan reglu­legs próftímabils sökum veikinda. Samþykkt hafi verið, í ljósi fötlunar stefnanda, að veita deildarforseta umboð til að afgreiða mál stefnanda í samráði við viðkomandi kenn­ara. Þá megi nefna beiðni stefnanda frá 5. september 1991, þar sem hún hafi óskað eftir að fá að taka eina námsgrein af öðru ári, samhliða prófum á fyrsta ári. Þetta erindi hafi verið samþykkt og stefnanda tilkynnt um það með bréfi, dags. 12. september 1991. Á fundi svokallaðrar þriggja manna nefndar viðskipta- og hag­fræði­deildar 6. mars 1992, hafi ósk stefnanda um að fá að taka nokkur próf munnleg verið sam­þykkt vegna fötlunar hennar. Með bréfi stefnanda til Brynjólfs Sigurðssonar, dags. 6. september 1992, hafi stefnandi farið fram á að taka 2 greinar af öðru ári með námi á 1. ári. Þessi beiðni hafi verið samþykkt og stefnanda tilkynnt um það með bréfi, dags. 12. október 1992. Á fundi þriggja manna nefndar 19. október 1992, hafi verið sam­þykkt að heimila stefnanda að halda einkunnum undir 6,5, þrátt fyrir að stefnandi hefði fallið tvívegis í Upplýsingatækni I. Í fundargerðinni segi m.a.:

"Þetta var samþykkt þar sem fyrir liggur samþykkt deildarinnar að veita Rögnu þá aðstoð sem hægt er sökum fötlunar hennar.”

Í mars 1993 hafi verið samþykkt, að stefnandi hefði með sér aðstoðarkennara sinn í próf í Skattskilum I þá um vorið. Um sumarið 1993 hafi verið samþykkt í viðskiptaskor, að próf í Rekstrarhagfræði I skyldi gilda 80% af lokaeinkunn og stefnandi fengi heimild til að taka bæði dæmaprófin næsta skólaár.

Stefnandi hafi fengið að hafa með sér aðstoðarmann í próf, þegar á hafi þurft að halda, próf hafi verið samin á blindraletri eða munnleg próf haldin fyrir stefnanda. Stefn­andi hafi á árunum 1992-1994 notið aðstoðar tveggja eldri nemenda í viðskipta- og hag­fræðideild við nám í einstökum fögum, og þá hafi nemendurnir einnig verið sérstakir að­stoðarmenn stefnanda í prófum. Hafi stefndi staðið straum af kostnaði vegna þessarar að­stoðar. Stefnandi hafi margsinnis fengið undanþágur frá reglum deildar, svo sem um náms­framvindu, röð námsgreina, endurtekningu prófa, tímalengd prófa og framkvæmd prófa. Þá hafi stefnandi notið aðstoðar Námsráðgjafar Háskóla Íslands.

Af framangreindu megi ljóst vera, að því fari fjarri, að stefndi eða starfsmenn hans hafi orðið þess valdandi, að stefnandi náði ekki tilskildum árangri á prófum. Það hafi verið yfirlýst stefna innan viðskipta- og hagfræðideildar að koma til móts við þarfir stefnanda, eins og frekast væri unnt, án þess þó að slakað væri á þeim faglegu kröfum, sem gerðar séu til nemenda við Háskóla Íslands. 

Stefnandi hafi þreytt próf í Upplýsingatækni I um vorið 1994, en kennari í faginu hafi verið Guðmundur Ólafsson. Guðmundur hafi, líkt og aðrir kennarar við deildina, fengið um það fyrirmæli, að taka bæri tillit til fötlunar stefnanda, eins og kostur væri. Náms­efni í upplýsingatækni hafi á þessum tíma verið afhent nemendum á skriflegu formi, en fram hafi farið vinna við uppsetningu þess á internetinu. Guðmundur hafi af­hent stefnanda öll námsgögn á tölvutæku formi, til þess að auðvelda henni námið. Loka­einkunn í upplýsingatækni sé samsett úr nokkrum þáttum. Æfingapróf sé haldið um veturinn, sem gildi 10% af lokaeinkunn, og nemendur skili verkefnum, sem unnin séu í tölvuveri og heima og gildi 20% af lokaeinkunn. Lokapróf samanstandi annars vegar af verklegum hluta og hins vegar skriflegum hluta. Stefnandi hafi ekki mætt í æfinga­prófið um veturinn, en Guðmundur ákveðið að líta framhjá því, af tilliti til fötl­unar stefnanda, og látið verkefnaskil gilda 30% í stað 20%. Hafi verkefnaeinkunn stefnanda þannig verið metin 6. Þegar komið hafi að verklega hluta lokaprófsins, sem fram hafi farið 19.-21. apríl, eða nokkru á undan reglulegum prófum, hafi Guðmundi ekki verið gerð grein fyrir, að stefnandi ætti rétt á lengri próftíma, en aðrir nemendur. Stefnandi hafi haft með sér aðstoðarmann í prófinu, og hvorki stefnandi né að­stoð­ar­mað­urinn gert athugasemdir við það, þegar Guðmundur tók af þeim prófið, að próftíma loknum. Að prófi loknu hafi stefnandi skráð sig úr prófi, en úrsögn stefnanda komið of seint fram samkvæmt reglum, sem gildi um úrsagnir úr prófum við Háskóla Íslands, enda hafi stefnandi þá þegar verið búin að ljúka fyrri hluta prófsins og átt skriflega hlut­ann eftir. Hafi Guðmundur og prófdómarinn, Freyr Þórarinsson, ákveðið að taka tillit til þess, við mat á verklega hluta prófsins, að stefnandi hefði, að því er virtist, ekki náð að svara öllum spurningum prófsins. Hafi sá hluti prófsins, sem stefnandi hafi orðið að sleppa, verið felldur niður og einungis metinn sá hluti prófsins, sem stefnandi hafði svarað. Þrátt fyrir það, hafi niðurstaðan orðið sú, að stefnandi hafi hlotið 4 á prófinu. Munnlegt próf hafi síðan verið haldið fyrir stefnanda úr skriflega hluta námskeiðsins, en þrátt fyrir að fyllstu sanngirni hefði verið gætt við mat á þekkingu stefnanda, hafi nið­ur­staðan orðið sú, að stefnandi hafi heldur ekki náð lágmarkseinkunn í þeim hluta. Heildareinkunn fyrir lokapróf hafi því verið 4, og verkefnaeinkunn því ekki komið til álita, þar sem verkefnaeinkunnir komi einungis til lokameðaltals, ef nemandi stenst lokapróf. Jafnvel þótt verkefnaeinkunn hefði verið metin til lokameðaltals, hefði það ekki nægt til að ná lágmarkseinkunn.

Það sé mikill misskilningur í stefnu, að stefnanda hafi, í kjölfar falls í Upp­lýs­inga­tækni I, verið send tvö misvísandi bréf. Svo sem fram komi á námsferilsyfirliti stefn­anda, hafi stefnandi fyrst tekið próf í Upplýsingatækni I um sumarið 1991 og síðan aftur um sumarið 1992, en í hvorugt skiptið náð lágmarkseinkunn. Af þessum sökum hafi stefnanda verið tilkynnt um það í bréfi, dags. 12. október 1992, að hún þyrfti að end­urinnrita sig í deildina, en við það myndi hún missa allar einkunnir undir 6,5, enda sé skýrt kveðið á um það í þeim reglum, sem um námið gildi. Stefnandi hafi sótt um undan­þágu frá þessum reglum, og sú beiðni verið samþykkt á fundi þriggja manna nefndar 19. október 1992 og stefnanda kynnt sú niðurstaða með bréfi, dags. 20. október 1992. Þá verði ekki séð, að fullyrðingar í stefnu um, að stefnanda hafi verið meinað að nota ritvinnslu- og töflureiknisforrit, sem hún hafi getað notað á blindra­skján­um á tölvu sinni, eigi við nokkur rök að styðjast.

Frásögn í stefnu af samskiptum stefnanda við skrifstofustjóra viðskipta- og hag­fræði­deildar, Kristínu Klöru Einarsdóttur, í tengslum við framangreinda úrsögn stefn­anda úr prófi, sé mótmælt sem rangri. Því fari fjarri, að Kristín Klara hafi undir nokkrum kringumstæðum reiðst stefnanda, enda hafi hún alla tíð lagt sig fram við að lið­sinna stefnanda í öllum málum, sem að deildinni sneru.

Í stefnu sé lýst samskiptum stefnanda og Ágústs Einarssonar, prófessors og þá­ver­andi skorarformanns viðskiptaskorar, eftir að stefnandi hafði tekið próf í Rekstr­ar­hag­fræði I í ágúst 1994. Hér sé alvarlega hallað réttu máli. Sé þess í fyrsta lagi getið, að Ágúst hafi um sumarið 1994 skorað á stefnanda að hætta námi við viðskipta- og hag­fræði­deild og ítrekað áskorunina á fundi með stefnanda 28. september 1994. Þetta sé al­rangt. Ágúst Einarsson hafi aldrei skorað á stefnanda að hætta námi í viðskipta- og hag­fræðideild eða lýst því yfir, að hann tæki ekki í mál, að hún héldi þar námi áfram, enda ekki í hans valdi að taka ákvörðun um slíkt. Hafi Ágúst ávallt reynt að ráðleggja nem­endum sínum heilt, og það ekki síður gilt um stefnanda, en aðra nemendur við deild­ina. Hann hafi verið skorarformaður viðskiptaskorar frá hausti 1992 til hausts 1994 og deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar frá hausti 1994 til hausts 1995. Hafi hann lagt á það áherslu, jafnt í starfi sínu sem kennari sem í embætti skorar­for­manns, að liðsinna stefnanda, enda hafi athygli hans verið vakin á því, strax í upphafi náms stefnanda, að blindur nemandi hefði hafið nám við deildina og taka bæri tillit til þess, eins og kostur væri. Hafi Ágúst veitt stefnanda allan þann stuðning í námi hennar í rekstrarhagfræðinni sem mögulegur hafi verið. Hafi hann teiknaði allar skýr­ing­ar­myndir sérstaklega á blindraletri fyrir stefnanda, en slíkar skýringarmyndir hafi skipt tug­um á námskeiðinu. Þá hafi Ágúst sýnt stefnanda sérstakan áhuga og innt hana reglu­lega eftir, hvernig henni sæktist námið. Stefnandi hafi þrívegis þreytt próf í Rekstrar­hag­fræði I hjá Ágústi Einarssyni. Hafi stefnandi bæði tekið próf, sem Ágúst hafi sett upp á blindraletri, og munnleg próf. Þrátt fyrir að Ágúst mæti prófúrlausnir stefnanda af ítrustu velvild í hennar garð, hafi hún aldrei náð lágmarkseinkunn í faginu. Stefnandi hafi tekið fyrsta prófið um sumarið 1992, það næsta um sumarið 1993 og loks í ágúst 1994. Rétt sé að taka fram, að Rekstrarhagfræði sé grundvallarnámskeið í viðskipta- og hagfræðideild og þyki nokkuð erfitt.

Stefnandi hafi verið skráð í Tölfræði B á vorönn 1994. Kennari í greininni hafi verið Ingjaldur Hannibalsson dósent. Vegna óánægju, sem gætt hafi með námskeiðið á fyrri önnum, hafi Ingjaldur talið þörf á að gera breytingar á námsefni. Hafi hann viljað nota kennslubók, sem sameinaði fræðilegan texta, raunveruleg dæmi, útreikninga með að­stoð tölvu og dæmisögur. Nokkurn tíma hafi tekið að finna hentuga kennslubók og fá sent eintak til skoðunar. Að endingu hafi bókin verið pöntuð í janúar 1994, og hún verið komin í Bóksölu stúdenta nokkru síðar. Kennsla í Tölfræði B hafi því verið hafin, þegar bókin varð fáanleg nemendum.

Skyndipróf hafi verið haldið í Tölfræði B á vorönninni. Hafi prófið staðið yfir í 90 mín­útur, en stefnandi verið rúmar 4 klukkustundir með það. Hafi stefnandi notið sömu að­stoðar á því prófi og aðrir nemendur. Hafi nemendur getað, líkt og í öðrum prófum, beðið um skýringar á einstökum spurningum. Spurningum hafi eingöngu verið svarað, ef þær hafi átt rétt á sér og svör við þeim fælu ekki í sér vísbendingar um rétt svar við próf­spurningum.

Það sé rangt, sem greini í stefnu, að Ingjaldur hafi tjáð stefnanda, að blindir ættu ekki að fara í háskólanám og að atvinnulífið hefði ekki þörf fyrir blinda við­skipta­fræð­inga. Hins vegar hafi Ingjaldur, líkt og fleiri kennarar, veitt stefnanda ráðgjöf um nám, þar sem ljóst hafi mátt vera, að stefnandi hafi átt erfitt með að ná tökum á tæknilegum grein­um, svo sem tölfræði, reikningshaldi, rekstrarhagfræði og upplýsingatækni. Hafi Ingjaldur boðið stefnanda að gangast undir munnlegt próf í Tölfræði B. Stefnandi hafi hafnað þessu boði Ingjalds og farið fram á, að annar kennari prófaði hana í nám­skeið­inu. Þessari beiðni hafi Ingjaldur hafnað, enda prófi kennarar nemendur í munnlegu prófi, en til að gæta fulls samræmis í einkunnagjöf, séu prófdómendur ávallt viðstaddir.

Að ósk stefnanda, hafi próftími í Tölfræði B verið lengdur úr 4 klukkustundum í 6 klukku­stundir í prófinu um vorið 1994. Hafi stefnanda verið heimilt að hafa með sér að­stoðarmann í prófið, en Ingjaldur lagt til, að viðskipta- og hagfræðideild legði henni til aðstoðarmanninn, til að fyllsta hlutleysis væri gætt. Stefnandi hafi alfarið hafnað þessu og Ingjaldur þá farið fram á, að samtöl stefnanda og aðstoðarmannsins yrðu tekin upp á segulband. Hafi Ingjaldur talið sig hafa orðið þess áskynja á umræddu skyndi­prófi, að aðstoðarmaðurinn, Sigurður Hallsson, hefði aðstoðað stefnanda óeðlilega mikið á prófinu. Hafi allir nemendur átt að leysa fyrri hluta prófsins, án þess að nota tölvu, og það hlotið að eiga við um stefnanda, eins og aðra nemendur. Hafi Ingjaldur óskað eftir því, að prófdómari yrði skipaður til að fara yfir próf stefnanda og Benedikt Jóhannesson tölfræðingur verið skipaður til þess starfa. Í bréfi Benedikts til Ingjalds, dags. 12. maí 1994, sé þess getið, að Benedikt hafi farið yfir báða hluta prófsins, kynnt sér einkunnagjöf hjá öðrum nemendum og hlustað á segulbandsupptökur af hluta prófs­ins. Sé tekið fram, að stefnandi hafi lent í tímahraki og það komið niður á þeim hluta prófs­ins, sem leysa hafi átt á tölvu. Hafi það því verið mat Benedikts, að stefnandi ætti að fá einkunnina 3,0. Þar sem úrlausnin náði ekki lágmarkseinkunn, hafi Benedikt ekki ástæðu til að meta sérstaklega þátt aðstoðarmannsins, Sigurðar Hallssonar, og í raun ein­ungis hlustað á lítinn hluta af upptökum úr prófinu.

Stefnandi hafi þreytt próf að nýju í Tölfræði B um haustið 1994. Hafi Sigurður Halls­son verið aðstoðarmaður stefnanda í prófinu, rétt eins og um vorið. Stefnandi hafi fengið 7 klukkustundir til að leysa prófið, og hafi samtöl hennar og Sigurðar Hallssonar verið tekin upp á segulband. Benedikt Jóhannesson hafi verið skipaður prófdómari, eins og um vorið. Samkvæmt prófbók, hafi stefnandi hlotið einkunnina 4,5 á prófinu, sem sé falleinkunn, þar sem lágmarkseinkunn í Tölfræði B sé 5,0. Það hafi hins vegar verið samdóma álit Ingjalds og Benedikts, að aðstoð Sigurðar Halls á prófinu hefði verið slík, að taka yrði tillit til hennar við einkunnagjöf. Segi m.a. svo í niðurstöðu Benedikts:

“Eftir að hafa hlustað á segulbandsupptökur af prófinu virðist sem þáttur aðstoðarmannsins sé meiri en svo að hægt sé að líta á lausnina sem verk nem­andans eins líkt og gildir um aðrar úrlausnir á þessu prófi. Á munnlegu prófi eru nemendum oft gefnar ábendingar, en um leið er tekið tillit til þess við mat á frammistöðu nemandans þannig að einkunn lækkar. Með þetta í huga tel ég að ekki sé hægt að meta frammistöðu Rögnu í prófinu til hærri eink­unnar en 3,0.”

Fyrir tilstilli Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur, forstöðumanns Námsráðgjafar Háskóla Íslands, hafi Ingjaldur átt fund með Helga Hjörvar, framkvæmdastjóra Blindra­fél­agsins, og Snjólfi Ólafssyni dósent, þar sem farið hafi verið yfir upptökur úr prófinu. Hafi það verið samdóma álit þeirra Ingjalds, Helga og Snjólfs, að ekki væri unnt að líta á umrætt próf sem skriflegt próf, heldur hefði aðstoðarmaðurinn miklu frekar gegnt hlut­verki spyrjanda á munnlegu prófi. Hafi Ingjaldur og Snjólfur talið, að að­stoð­ar­maður í skriflegu prófi ætti að aðstoða nemanda við að skilja prófspurningar, koma svörum í prófbók og aðstoða nemanda við að skoða leyfileg hjálpargögn. Að­stoð­ar­maður á skriflegu prófi mætti hins vegar ekki leiða nemanda áfram að lausn. Af þessum sökum hafi Ingjaldur lýst því yfir í bréfi til Þórðar Kristinssonar, framkvæmdastjóra kennslusviðs, að niðurstaðan væri sú, að Sigurður V. Hallsson hefði farið út fyrir svið að­stoðarmanns á skriflegu prófi, og því væri ekki unnt að taka við prófbók stefnanda sem lausn á skriflegu prófi. Hafi Ingjaldur því lagt til, að prófið yrði dæmt ógilt og stefn­andi prófuð í munnlegu prófi.

Með bréfi, dags. 20. september 1994, til Þórðar Kristinssonar, framkvæmdastjóra kennslu­sviðs, hafi Helgi Hjörvar m.a. farið fram á, að skipaður yrði prófdómari að nýju, til að fara yfir úrlausn Rögnu Kristínar. Þótt ekki væri efast um, að Benedikt Jóhannes­son hefði gætt fyllstu hlutlægni í mati á úrlausnum stefnanda, hafi af hálfu viðskipta- og hag­fræðideildar verið samþykkt að óska eftir því, að skipaður yrði prófdómari að nýju. Þessari beiðni hafi áðurnefndur Þórður Kristinsson hafnað, enda ljóst, að engin heimild hafi verið fyrir hendi til slíkrar skipunar, þar sem hæfur prófdómari hafði þegar farið yfir lausn stefnanda og staðið hafi verið að þeirri skipun með fullkomlega lögmætum hætti.

Rétt sé að taka fram vegna þess, sem haft sé eftir Helga Hjörvari í stefnu um það, að Ingjaldur hafi tjáð samkennara sínum, að hann hygðist fella stefnanda á prófi í Töl­fræði B um haustið 1994, að slíkar fullyrðingar hafi Ingjaldur ekki látið frá sér fara né hafi hann nokkru sinni haft í hyggju að fella nemanda fyrirfram. Þá beri að hafa í huga, að auk Ingjalds, hafi prófdómarinn Benedikt Jóhannesson farið yfir lausn stefnanda í marg­nefndu prófi.

Kröfu um sýknu byggir stefndi á því, að starfsmenn hans hafi í engu brotið gegn þeim réttindum, sem stefnanda séu tryggð í stjórnarskrá, almennum lögum og al­þjóð­leg­um samningum. Í lögum nr. 131/1990 um Háskóla Íslands, ásamt síðari breytingum, reglu­gerðum, sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum og reglum og samþykktum ein­stakra deilda innan háskólans, sé að finna þær reglur, sem gildi um stjórn háskólans, kennslu og próf. Þessar reglur gildi jafnt um alla nemendur, sem skrá sig til náms við Háskóla Íslands, ef undan séu skyldar sérreglur einstakra deilda, er gildi þá eingöngu innan þeirra. Jafnt fötluðum sem ófötluðum einstaklingum sé tryggður réttur til náms við Háskóla Íslands, að tilteknum almennum efnislegum skilyrðum uppfylltum. Þær reglur, sem gildi um aðgang að námi, kennslu og framkvæmd prófa, séu á engan hátt ómál­efnalegar og feli ekki í sér brot gegn þeim jafnræðisreglum, sem nú sé að finna í ákvæðum 65.gr. stjórnarskrárinnar, 11.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 14. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Starfsmenn stefnda hafi í öllum atriðum farið eftir framangreindum reglum, enda verði ekki séð, að á því sé byggt af hálfu stefnanda, að gegn þessum reglum hafi verið brotið við meðferð þeirra mála sem lutu að stefnanda. Við framkvæmd reglnanna hafi verið gætt jafnræðis gagnvart einstökum nemendum, og gildi það jafnt um stefnanda sem aðra nemendur.

Framangreindar jafnræðisreglur, sem raunar séu efnislega nánast samhljóða, eigi það sammerkt að vera öðrum þræði stefnuyfirlýsingar. Reglurnar séu almennar leið­bein­ingarreglur um bann við mismunun, án þess þó að í þeim séu fólgin ákveðin efnis­rétt­indi. Í stefnu sé tilgreindur fjöldinn allur af alþjóðasamningum og al­þjóða­sam­þykkt­um, sem án efa sé ætlað að varpa skýrara ljósi á innihald áðurnefndra jafnræðisreglna, auk þess að standa sem sjálfstæðar réttarheimildir. Þeir alþjóðasamningar, sem nefndir eru í stefnu og fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu, án þess þó að hafa verið lögfestir, hafi bindandi gildi að þjóðarétti, en verði ekki beitt í lögskiptum einstaklinga eða lög­að­ila hér á landi. Þá hafi þeir ekki að geyma reglur, sem varpað geti skýrara ljósi á inni­hald margnefndra jafnræðisreglna, sem lögfestar hafi verið hér á landi. Því sé mótmælt, að tilvitnaðir alþjóðasamningar og alþjóðasamþykktir hafi réttarheimildagildi hér á landi sem venjuréttur eða sem almenn réttarvitund. Þá verði að telja, að alþjóðasamþykktir og alþjóðasamningar, sem ekki hafa verið fullgiltir hér á landi, geti ekki mótað innihald íslenskra vísireglna.

Stefnandi vísi einnig, kröfum sínum til stuðnings, til ákvæða laga nr. 59/1992 um mál­efni fatlaðra. Með lögunum sé tryggður réttur fatlaðra til allrar almennrar þjónustu og í 7.gr. laganna sé tekið fram, að ávallt skuli leitast við að veita fötluðum þjónustu sam­kvæmt almennum lögum á sviði menntunar. Stefnanda hafi verið veittur aðgangur að viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, enda hafi hún uppfyllt þau skilyrði, sem sett séu fyrir inngöngu í deildina. Stefnandi hafi þurft, líkt og aðrir nemendur við deild­ina, að uppfylla þær faglegu kröfur, sem gerðar séu til nemenda í hverri námsgrein fyrir sig, til að hún gæti staðist þau próf, sem haldin hafi verið. Jafnræðis hafi ávallt verið gætt við mat á þekkingu stefnanda og fullyrða megi, að ekki hafi hallað á stefn­anda í mati kennara og prófdómara á próflausnum. Áður sé getið þeirrar aðstoðar, sem stefn­andi hafi notið við nám í deildinni og þeirra undanþága, sem hún hafi notið frá regl­um deildarinnar. Það sé því vandséð, að nokkrar þær athafnir eða athafnaleysi stefnda eða starfsmanna hans hafi falið í sér brot gegn lögum nr. 59/1992.

Í stefnu sé ennfremur vísað til ákvæða laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveit­ar­fél­aga. Ekki verði séð, að þau ákvæði laga nr. 40/1991, sem til sé vitnað í stefnu, eða önnur ákvæði laganna, leggi stefnda skyldur á herðar, eða að stefndi hafi brotið gegn slíkum skyldum, teljist þær vera fyrir hendi og eigi við um stefnda.

Stefndi og starfsmenn hans hafi gert það, sem í þeirra valdi hafi staðið, til að tryggja, að stefnandi fengi raunverulega notið þess réttar til náms, sem henni sé tryggð­ur með lögum. Þegar stefnandi hóf nám við viðskipta- og hagfræðideild stefnda hafi sú stefna verið mótuð, að reynt yrði að koma til móts við allar óskir og þarfir stefnanda, svo framarlega sem það væri á valdi deildarinnar að verða við þeim óskum og að ekki væri um að ræða frávik frá þeim faglegu kröfum, sem gerðar séu til nemenda við deild­ina. Í málsatvikalýsingu hafi þegar verið getið fjölda tilvika, þar sem fallist hafi verið á að veita undanþágur frá reglum deildar vegna þeirrar sérstöðu, sem stefnandi hafi verið talin njóta. Verði reyndar að telja, að gengið hafi verið nokkuð langt í veitingu slíkra und­anþága. Hafi eldri nemendur við deildina verið ráðnir til að aðstoða stefnanda í námi og þá hafi stefnandi notið aðstoðar námsráðgjafa, sem hafi verið boðnir og búnir að liðsinna henni. Þá sé ljóst, að skrifstofustjóri viðskipta- og hagfræðideildar, kennarar deild­arinnar og forsetar og skorarformenn deildarinnar á hverjum tíma, hafi veitt stefnanda alla þá aðstoð, sem hafi verið á þeirra færi að veita. Fullyrðingum í stefnu á þá leið, að kennarar deildarinnar hafi lagt að stefnanda að hætta námi við viðskipta- og hag­fræðideild og sýnt henni aðra óvirðingu og óvild, sé alfarið mótmælt.

Það sé ljóst, að nám við viðskipta- og hagfræðideild sé þungt og margir ófatlaðir ein­staklingar hafi þar orðið frá að snúa. Í stefnu sé því lýst, að stefnandi hafi á árunum 1992 og 1993 margsinnis átt í mjög erfiðum veikindum, auk persónulegra áfalla, sem hafi án efa haft áhrif á einbeitingu stefnanda í námi og þann tíma, sem hún hafði til náms­ins. Þá verði að hafa í huga, að margar af þeim greinum, sem kenndar eru við við­skipta- og hagfræðideild, séu þess eðlis, að blindum nemendum geti reynst erfitt að ná á þeim tökum, sama hversu góð aðstaða þeim sé búin til námsins. Því sé áður lýst, að kennari stefnanda í Rekstrarhagfræði I, Ágúst Einarsson, hafi unnið allar teikningar og glærur, sem notaðar hafi verið á námskeiðinu, á blindraletur, til að auðvelda stefnanda námið. Þá Ágúst prófa stefnanda bæði skriflega og munnlega. Þrátt fyrir þetta, hafi stefnandi ekki náð tökum á námsefninu og fengið lágar einkunnir í þeim prófum, sem hún hafi tekið. Verði ástæður þess ekki raktar til óaðgengilegs námsefnis, aðstöðuleysis eða óvildar kennara. Stefnandi hafi einnig þreytt þrívegis próf í Upplýsingatækni I, en aldrei náð lágmarkseinkunn. Veturinn 1993-1994 hafi stefnandi fengið öll námsgögn í faginu á tölvutæku formi. Litið hafi verið framhjá þeirri staðreynd, að stefnandi hafi ekki mætt í próf um veturinn, sem öllum nemendum hafi verið skylt að taka. Hafi verk­efna­skil stefnanda verið látin koma í stað prófsins. Þá hafi verið litið framhjá því, við mat á skriflega hluta lokaprófs, að stefnandi hafði ekki náð að ljúka við prófið og ein­göngu verið metinn sá hluti, sem stefnandi hafði haft tíma til að leysa. Í munnlega prófinu hafi komið í ljós, að stefnandi hafi ekki náð fullnægjandi tökum á skriflega hluta námsins, og það þrátt fyrir að hún hefði í tvígang áður þreytt próf í sama fagi og haft öll námsgögn á tölvutæku formi. Það sé vandséð, hvernig starfsmenn stefnda hefðu getað komið frekar til móts við þarfir stefnda, en einmitt með framangreindum hætti.

Stefnandi hafi byrjað nám í Tækniskóla Íslands eftir áramótin 1994 til 1995 og sóst það nám mjög vel. Það sé hins vegar ekki sönnun þess, að illa hafi verið búið að stefnanda við Háskóla Íslands. Hafa verði í huga, að nemendur á hverju námskeiði séu tölu­vert færri í Tækniskóla Íslands, en við Háskóla Íslands, og tengsl kennara við nem­end­ur miklu meiri. Þá sé fyrirkomulag námskeiða annað. Mikið sé unnið í hópum og al­gengt, að slík hópvinna sé metin sem hluti einkunnar. Þetta fyrirkomulag sé ólíkt kennslu­fyrirkomulagi við Háskóla Íslands og kunni að henta einstökum nemendum betur. Muni stefnanda ekki hafa verið veitt sérstök aðstoð við námið í Tækniskóla Íslands, ef frá sé talið, að leigður hafi verið sérstakur blindraskanni og að stefnandi hafi tekið öll próf munnlega. Það sé því ljóst, að aðstoð sú, sem stefnandi hafi fengið í námi við Háskóla Íslands, hafi verið töluvert umfangsmeiri, en sú aðstoð, sem stefnandi hafi fengið í námi við Tækniskóla Íslands. Þess megi ennfremur geta, að blindum nem­end­um við Háskóla Íslands hafi staðið til boða að fá lánaðan sams konar blindraskanna og stefn­andi hafi notað við nám sitt í Tækniskólanum.

Áður en stefnandi hóf nám við Háskóla Íslands, hafi hún verið við nám í Tölvu­há­skóla Verslunarskóla Íslands. Hafi stefnandi setið fyrstu önnina í náminu a.m.k. tví­veg­is. Meðan á náminu stóð, hafi kennarar skólans gengið með sérstaka hljóðnema í kennslu­stundum, til að gera stefnanda kleift að taka fyrirlestra upp á segulband. Hafi kennslu­stjóri skólans, Nikulás Hall, aðstoðað stefnanda sérstaklega í svokölluðu véla­máli og veitt henni einkakennslu í hverri viku. Þrátt fyrir þessa aðstoð, hafi stefnandi ekki reynst ná tökum á faginu og að lokum hætt námi.

Af framansögðu megi ráða, að tafir stefnanda í námi verði ekki raktar til þess, að starfs­menn stefnda hafi brotið rétt á stefnanda. Jafnvel þótt talið yrði, að starfsmenn stefnda hafi á einhvern hátt ekki sinnt stefnanda sem skyldi, eða búið henni þá aðstöðu, sem hún hafi átt rétt til lögum samkvæmt, þá verði að telja, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að tafir hennar í námi verði raktar til þeirra þátta. Séu því skilyrði bótaskyldu ekki fyrir hendi.

Þá sé af hálfu stefnda á því byggt, að skilyrði miskabóta skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt. Því fari fjarri, að stefndi, eða starfsmenn hans, hafi gerst sekir um ólögmæta meingerð gegn stefnanda. Stefndi og starfsmenn hans hafi ekki sýnt af sér sök gagnvart stefnanda, hvað þá að þeir hafi sýnt af sér verulegt gáleysi, svo sem 26. gr. skaðabótalaga áskilji.

Varakrafa stefnda sé á því byggð, að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á, að hún hafi orðið fyrir fjártjóni, en fyrir því beri hún sönnunarbyrði.

Þá sé krafist verulegrar lækkunar bóta til handa stefnanda á þeim grundvelli, að tafir stefnanda í námi verði að verulegum hluta raktar til veikinda stefnanda, meðan á námi stóð, og persónulegra áfalla. Hafi fullnægjandi tillit ekki verið tekið til þessara þátta við ákvörðun stefnufjárhæðar. Þá verði að taka mið af því, að 13 af þeim 83 ein­ing­um, sem stefnandi hafi lokið við Tækniskóla Íslands, hafi verið fengnar með mati á þeim fögum, sem stefnandi hafði lokið við Háskóla Íslands.

Að lokum sé miskabótakröfu mótmælt sem allt of hárri og í engu samræmi við dóma­framkvæmd.

Niðurstaða

Svo sem áður greinir, hóf stefnandi nám í viðskipta- og hagfræðideild stefnda haustið 1990. Hafði hún þá örlitla sjón á öðru auga, sem þó nýttist henni ekki við nám. Stefn­andi veiktist á haustönn á því auga, sem aðgerð hafði verið gerð á í desember 1990. Gekkst stefnandi undir glákuaðgerð í Svíþjóð um miðjan október 1992 og aðra að­gerð í byrjun janúar 1993. Gekk síðari aðgerðin vel og leiddi til þess, að stefnandi sá út­línur á fólki og greindi glugga, hurðir, liti og þess háttar. Stefnandi missti svo skyndi­lega alla sjón á auganu í febrúar sama ár og hefur upp frá því verið algerlega blind. Af gögn­um málsins verður ráðið, að stefnanda hafi sóst námið hjá stefnda fremur illa, og hafði hún einungis lokið 36 einingum af 120, er hún ákvað að hætta því um haustið 1994, eftir um fjögurra ára námstíma.

 Í málinu liggur fyrir "Álit millifundanefndar háskólaráðs um málefni fatlaðra stúdenta við H.Í. [Háskóla Íslands]" frá 18. janúar 1991. Er þar greint frá því, að á fundi háskólaráðs 27. september 1990 hafi verið samþykkt tillaga frá fulltrúum stúdenta um að skipa millifundanefnd til að marka stefnu í málefnum fatlaðra stúdenta við Háskóla Íslands. Í nefndina voru skipuð námsráðgjafi, framkvæmdastjóri kennslu­sviðs stefnda og fatlaður stúdent. Varð nefndin sammála um, að vegna fatlaðra stúdenta við háskólann, þyrfti að bæta öflun og miðlun upplýsinga, viðbrögð og að­stæð­ur innanhúss og utan. Tillögur nefndarinnar voru sem hér segir:

1. Við skrásetningu yrði fötluðum stúdent boðið að merkja í viðeigandi reit á skrá­setn­ingareyðublaði og afrit merktra eyðublaða afhent Námsráðgjöf, sem hefði samband við stúdent, ræddi við hann, mæti aðstæður hans og þörf á aðstoð og þjónustu. Þá hefði Námsráðgjöf samband við kennslusvið og skrifstofustjóra viðkomandi deildar og gerði grein fyrir aðstæðum og þörf aðstoðar og þjónustu.

2. Umsjón með ofangreindu skyldi vera í höndum skrifstofustjóra viðkomandi deild­ar, í samráði við forsvarsmenn kennslugreina, kennara, kennslusvið og Náms­ráð­gjöf. Er sérstaklega tekið fram, að vegna fötlunar, sem hindrað gæti eðlilegan náms­hraða, yrði almennt hliðrað til um námsframvindu og tímamörk náms, eftir því sem kostur væri. Þá yrði gefinn kostur á aðstoð við nám, svo sem stuðningskennslu, náms­gagnag­erð og þess háttar, sem greiddist af sameiginlegum rekstri háskólans.

3. Gert yrði kort af háskólasvæðinu fyrir fatlaða, merkt yrðu bílastæði fyrir þá við allar byggingar háskólans. Þá yrðu aðstæður innanhúss og utan bættar, eftir því, sem kostur væri; aðkoma um útidyr, hús, kennslustofur og salerni.

4. Námsráðgjöf skyldi fylgjast með framvindu í málefnum fatlaðra og afla stöðugt upp­lýsinga um aðstoð og þjónustu, sem í boði er innan og utan háskólans. Ennfremur ann­aðist Námsráðgjöf, í samráði við kynningarnefnd, kynningu og upplýsingamiðlun um þau málefni, innan háskólans og utan.

Í greinargerð með tillögunum segir meðal annars, að nefndin sé sammála um, að fyrst og fremst sé brýnt, að hinn fatlaði stúdent þurfi ekki sjálfur að leita aðstoðar eða standa í eftirrekstri, og að honum sé, strax við nýskráningu, gert ljóst, hvert hann geti leitað, óski hann aðstoðar, og hvað honum standi til boða. Fram til þessa hafi vissulega verið brugðist við eftir bestu getu, en án skýrra leiða og aðferða. Þannig sé brýn þörf á að skýra boðleiðir og vinnubrögð. Hafi fyrsta skrefið reyndar verið stigið síðastliðið vor, er sérstakur reitur hafi verið settur á skrásetningareyðublöð, þar sem umsækjanda sé gefinn kostur á að merkja við, eigi hann við einhverja fötlun að stríða, eða hafi sér­þarfir, sem á einhvern hátt séu hindrun í námi. Varðandi blindu/sjónskerðingu er sér­stak­lega tekið fram, að hér sé einkum um að ræða aðstoð og þjónustu við lestur kennslu­efnis inn á snældur og stuðningskennslu. Umsjón með innlestri og varðveislu náms­efnis yrði á vegum Blindrabókasafns Íslands, og yrði í hvert skipti gerður sér­stak­ur samningur við safnið um innlesturinn og greiðslu vegna aðkeyptrar vinnu safnsins við hann. Haft yrði samráð við viðkomandi háskóladeild og kennara í því sambandi. Enn­fremur þyrfti deildum háskólans að vera tiltæk sérstök greiðsla fyrir stuðn­ings­kennslu, ef því væri að skipta.

Tillögur þessar voru samþyktar í háskólaráði 21. febrúar 1991.

Önnur samþykkt um málefni fatlaðra var gerð í háskólaráði 15. júní 1995. Er þar um ítarlegri útfærslu að ræða á fyrri samþykkt, auk nokkurra nýmæla. Kemur meðal annars fram í henni, að Námsráðgjöf og fatlaðir stúdentar skuli móta sameiginlega úr­ræði vegna aðstöðu til náms og prófa við háskólann, hvernig beiðnum um aðstoð, úr­ræði og tilhliðranir sé komið á framfæri og hvernig þeim sé sinnt. Verði upplýsingum þar að lútandi komið til kennara, starfsfólks og stúdenta háskólans og nemenda mennta- og framhaldsskóla. Feli úrræði vegna námsráðgjafar meðal annars í sér hljóð­ritun námsefnis, val á hentugu kennsluhúsnæði, námsefni sé kynnt tímanlega, meðal annars vegna hljóðritunar efnis og bókalána erlendis frá, hliðrun námsskipunar og hæg­ari námsframvindu. Þá feli úrræði vegna prófaðstöðu meðal annars í sér lengri próftíma, próf­töku í einrúmi, upplestur prófs, prófritara og annað próffyrirkomulag (munnleg próf, skrifleg, krossapróf, stutt svör).

Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður ekki fallist á það með stefn­anda, að ekki hafi verið mótuð nein heildarstefna af hálfu stefnda í málefnum fatlaðra nem­enda, er stefnandi hóf háskólanám sitt.

Samkvæmt jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem hún var lögfest með 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 971995, skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mann­rétt­inda, án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, lit­ar­háttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Sams konar regla, kemur fram í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni er óheimilt að mismuna aðilum við úr­lausn máls á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþættti, litarhætti, þjóð­erni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sam­bærilegum ástæðum. Þá kemur reglan fram í 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögtekinn var hérlendis með lögum nr. 62/1994, en í þeirri grein segir, að réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningnum, skuli tryggð, án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða eða ann­arra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, upp­runa eða annarrar stöðu. Einnig er regluna að finna í 26. gr. alþjóðasamnings um borg­araleg og stjórnmálaleg réttindi. og 13. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og og menningarleg réttindi, sem fullgiltir hafa verið hér­lendis.

 Í athugasemdum með 3. gr. áðurgreindra stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 kemur fram, að jafnræðisregla sú, er þar sé nú orðuð, hafi verið álitin ein helsta undirstaðan í íslenskri stjórnskipun og almennt í íslenskum rétti. Megi segja, að í reglunni séu ekki bein­línis fólgin ákveðin efnisréttindi, og felist mikilvægi hennar ofar öllu í því að vera al­menn leiðbeiningarregla um bann við mismunun, sem ávallt beri að hafa að leiðarljósi. Eigi það ekki einvörðungu við í tengslum við lagasetningu, heldur einnig við skýringu laga, þar á meðal annarra stjórnarskrárbundinna mannréttindaákvæða. Þó geti reglan að sjálfsögðu haft bein og ótvíræð áhrif, feli t.d. ákvæði í almennum lögum í sér mis­mun­un, sem brjóti í bága við regluna, og kunni þá hinu almenna ákvæði að vera vikið til hliðar.

Að áliti dómsins er jafnræðisregla íslensks réttar í fullu samræmi við þær al­þjóð­legu skuldbindingar, sem íslenska ríkið hefur undirgengist samkvæmt framansögðu. Jafn­framt eru ákvæði 1., 2., 7. og 8. gr. gr. laga nr. 59/1992 um fatlaða, sbr. áður lög nr. 41/1983, sem hér eiga við, í samræmi við ofangreinda grundvallarreglu stjórn­ar­skrár­innar. Hins vegar þykja þau ákvæði laga nr. 40/1991 um um félagsþjónustu sveit­ar­félaga, er stefnandi vitnar til, ekki eiga hér beinlínis við.

 Í vætti Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur, forstöðumanns Námsráðgjafar stefnda, kemur fram, að stefnandi hafi, strax er hún hóf nám hjá stefnda, leitað til Náms­ráð­gjaf­ar, en hlutverk hennar sé að vera málsvari stúdenta og milliliður milli þeirra og kennara. Hafi stefnandi upp frá því einkum haft samband við tiltekinn námsráðgjafa, Guðnýju Gunnars­dóttur að nafni, allt þar til um haustið 1993, að vitnið tók við af henni. Stefn­andi hafi þannig notið aðstoðar Námsráðgjafarinnar, en oft kosið að sjá sjálf um erindi sín, stundum þó í samráði við námsráðgjafa sinn. Vitnið kveður reglurnar frá 1991 [um mál­efni fatlaðra stúdenta] ekki hafa verið birtar opinberlega, en þær hafi verið stað­fest­ing á stefnu stefnda í sumum atriðum, en nýjungar í öðrum.

Að áliti dómsins eru sakir þær, er stefnandi ber á kennara sína, Ágúst Einarsson og Guðmund Ólafsson, svo og Kristínu Klöru Einarsdóttur, skrifstofustjóra viðskipta- og hagfræðideildar, ósannaðar með öllu. Er þvert á móti nægjanlega fram komið í mál­inu, að þau hafi öll lagt sig sérstaklega fram um að koma til móts við þarfir stefnanda. Þá verður heldur ekki talið, að bréf það, er stefnandi ritaði Brynjólfi Sigurðssyni, þá­ver­andi deildarforseta viðskipta- og hagfræðideildar, í nóvember 1990, hafi gefið tilefndi til sérstakra andsvara af hans hálfu.

Óumdeilt er, að eftir að stefnandi skráði sig í Tölfræði B á vorönn 1994, komu upp örðugleikar í samskiptum hennar og Ingjalds Hannibalssonar dósents, sem kenndi þá námsgrein. Virðist upphaf þess vera að rekja til skyndiprófs, er haldið var á þeirri önn, svo sem áður greinir. Verður að telja í ljós leitt, að stefnandi hafi ekki notið sama skiln­ings hjá Ingjaldi og áðurgreindum kennurum deildarinnar, sem leiddi til ákveðinnar tog­streitu milli hans og stefnanda, án þess þó, að sýnt hafi verið fram á það hálfu stefn­anda, að kennarinn hafi ekki gætt jafnræðis með henni og öðrum nemendum sínum. Þá er ósönnuð sú fullyrðing stefnanda, að Ingjaldur hafi sagt, að blindir ættu ekki að fara í há­skólanám. Varðandi próftöku stefnanda í framangreindri námsgrein um vor og haust árið 1994, er þess að geta, að samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 29. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands, er kennara heimilt, telji hann til þess sérstaka ástæðu, að óska skip­unar prófdómara í einstöku prófi. Er það skoðun dómsins, að vegna þeirrar tor­tryggni, sem skapast hafði milli stefnanda og kennarans, hafi verið réttmætt af hálfu hins síðarnefnda að óska skipunar óvilhalls manns, prófdómara, til að fara yfir próf stefn­anda í nefndri námsgrein, sem kennarinn hafði gefið stefnanda falleinkunn fyrir. Er ekk­ert komið fram í málinu, sem gefur tilefni til að ætla, að ekki hafi verið staðið mál­efna­lega að þeirri skipun. Þá er ekki annað komið fram í málinu, en að prófdómarinn hafi gætt fyllsta hlutleysis við mat sitt á úrlausn stefnanda. Ennfremur verður því eigi á móti mælt, að aðstoðarmaður stefnanda í umræddum prófum gekk lengra, en honum var heimilt í aðstoð sinni við stefnanda, miðað við, að um skriflegt próf var að ræða. Fær sú niðurstaða sérstaka stoð í framburði prófdómarans, Benedikts Jóhannessonar töl­fræðings, hér fyrir dómi, en fram kom meðal annars hjá honum, að að­stoð­ar­mað­ur­inn hefði spurt stefnanda leiðandi spurninga um lausnir. Þá er framburður Snjólfs Ólafs­sonar prófessors, sem hlustaði á segulbandsupptöku af samtölum stefnanda og að­stoð­ar­mannsins á síðara prófinu, á sama veg, hvað þetta atriði varðar. Ennfremur var rétt­mæt sú ákvörðun kennslustjóra stefnda, Þórðar Kristinssonar, að neita að skipa annan próf­dómara til að yfirfara próf stefnanda í námsgreininni, þar sem sú framkvæmd á sér ekki lagastoð.

 Enda þótt fallast megi á það með stefnanda, að stefndi hafi ekki að öllu leyti verið fyrir­fram undir það búinn að taka við svo fötluðum nemanda sem stefnanda, í það nám, er hún valdi sér, verður eigi annað ráðið af gögnum málsins, en að stefndi hafi, eftir því sem frekast var unnt, lagt sig fram um að koma til móts við þarfir hennar, til samræmis við þær reglur, sem samþykktar voru í há­skóla­ráði 21. febrúar 1991, og áður er getið. Má þar meðal annars nefna, að stefnandi naut að­stoðar Námsráðgjafar stefnda allt frá upphafi náms síns, hún fékk, að eigin ósk, að taka nokkur próf munnlega og að hún naut á árunum 1992-1994 aðstoðar tveggja sam­nem­enda sinna við nám í einstökum fögum, auk þess sem nemendurnir aðstoðuðu hana á prófum. Þá fékk stefnandi að hafa með sér aðstoðarmann í próf, þegar á þurfti að halda, en þann mann valdi stefnandi sjálf. Að lokum er fram komið í málinu, að stefn­andi fékk margsinnis undanþágur frá reglum viðskipta- og hagfræðideildar í sambandi við námsframvindu, röð námsgreina, endurtekningu prófa, svo og tímalengd þeirra og fram­kvæmd. Að lokum ber síðast, en ekki síst, að nefna í þessu sambandi, að stefnandi fékk að halda einkunnum sínum undir 6,5, þrátt fyrir tvífall í einni námsgrein, en með þeirri ákvörðun var í raun gengið lengra, en lög stóðu til, og stefnanda þar með gert hærra undir höfði, en öðrum nemendum stefnda, sem eins er ástatt um. Þá verður heldur ekki talið, að góð frammistaða stefnanda í Tækniskóla Íslands sé til sönnunar um, að stefndi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart henni. Ber í því sambandi eink­um að geta þess, að engar sérstakar ráðstafanir voru gerðar af hálfu þess skóla til að koma til móts við þarfir stefnanda, að öðru leyti en því, að blindraskanni var tekinn á leigu fyrir hana, en stefnandi hefur ekki mótmælt þeirri fullyrðingu stefnda, að slíkt tæki hafi staðið stefnanda til boða, meðan hún var við nám hjá stefnda.

Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, verður ekki talið, að stefnandi hafi sýnt fram á, að stefndi, eða starfsmenn hans, hafi, með athöfnum sínum eða athafnaleysi, brotið gegn jafnræðisreglu íslensks réttar og þannig, af ásetningi eða gáleysi, valdið stefn­anda fjártjóni eða miska með ólögmætum hætti. Ber því að sýkna stefnda af kröf­um stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli þeirra falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar, Ragnars Aðalsteins­sonar hæstaréttarlögmanns, er þykja hæfilega ákveðin 400.000 krónur, greið­ist úr ríkissjóði.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Háskóli Íslands, er sýknaður af kröfum stefnanda, Rögnu Kristínar Guðmunds­dóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar, Ragnars Aðalsteins­sonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.