Print

Mál nr. 59/2013

Lykilorð
  • Kærumál
  • Framlagning skjals
  • Aðfinnslur

Miðvikudaginn 6. febrúar 2013.

Nr. 59/2013.

Ákæruvaldið

(Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari)

gegn

X

(Óttar Pálsson hrl.)

Y

(Helgi Birgisson hrl.)

Z og

(Gestur Jónsson hrl.)

Þ

(Bjarni Eiríksson hdl.)

Kærumál. Framlagning skjals. Aðfinnsla.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X, Y, Z og Þ um að ákæruvaldinu yrði við þingfestingu sakamáls meinað að leggja fram skýrslu lögreglu í samræmi við 1. mgr. 56. og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skýrsla lögreglu í málinu væri því marki brennd að í henni væru rakin atriði sem samkvæmt dómi réttarins í máli nr. 703/2012 ættu ekki heima í slíkri skýrslu. Í skýrslunni væri þó fyrst og fremst að finna yfirlit um rannsóknaraðgerðir og samantekt á því sem komið hefði fram við rannsókn málsins. Var því talið að skýrslan í þeim búningi væri hluti sönnunargagna og því væri ákæruvaldinu heimilt að leggja hana fram við meðferð málsins, sbr. 1. og 2. mgr. 110. gr., sbr. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008. Þá var jafnframt talið að sakborningar ættu þess kost að koma að andmælum og vörnum í greinargerðum sínum samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laganna og myndu fá til þess frekara tækifæri við aðalmeðferð málsins, þar á meðal við munnlegan flutning þess fyrir dómi. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er sá hluti úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2013, sem lýtur að höfnun kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði synjað um „framlagningu dómskjals nr. 20“ eða að honum yrði gert „að afturkalla skjalið og fella úr gögnum málsins“. Um kæruheimild er vísað til p. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að framangreind krafa þeirra verði tekin til greina og niðurstaða hins kærða úrskurðar er lýtur að höfnun þeirrar kröfu verði felld úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um þann hluta hins kærða úrskurðar sem kæra lýtur að, verði staðfest.

I

          Við þingfestingu máls sóknaraðila á hendur varnaraðilum 7. janúar 2013 var bókað að lögð væru fram auk ákæru skjöl undir töluliðum 2-20. Dómskjal 20 er tilgreint sem ,,Skýrsla lögreglu um rannsókn málsins.“ Jafnframt voru lögð fram af hálfu varnaraðila skjöl undir töluliðum 21-22. Skjal 21 er tilgreint sem ,,Sameiginleg bókun.“ Með bókun þessari kröfðust varnaraðilar þess að ,,sérstökum saksóknara verði meinað við þingfestingu málsins að leggja fram skjal sem ber yfirskriftina ,,[...]. Mál númer: [...]-[...]-[...]. Skýrsla lögreglu um rannsóknina skv. 1. mgr. 57. gr. og 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008.“

          Einn varnaraðila lagði auk framangreindrar bókunar fram bókun þar sem krafist var frestunar á meðferð málsins. Í hinum kærða úrskurði var leyst úr kröfum þessum. Fyrir dóminum er einungis til endurskoðunar niðurstaða hins kærða úrskurðar um heimild til framlagningar ofangreinds skjals.

          Í forsendum hins kærða úrskurðar segir að andmæli varnaraðila við framlagningu skjalsins hafi komið fram við þingfestingu málsins, en þó ekki fyrr en skjölin sem fylgt hafi ákæru hafi verið lögð fram. Þá fyrst hafi dómara verið kunn krafan. Þetta skýri hvers vegna skjalið hafi þegar verið lagt fram, en að réttu lagi hafi átt að bíða með að leggja skjalið fram þar til leyst hefði verið úr ágreiningi vegna framlagningar þess. Því hafi dómari ákveðið að taka einnig afstöðu til þess hvort gera ætti ákæruvaldinu að draga skjalið til baka og fella úr gögnum málsins.

          Í dómi Hæstaréttar 16. maí 2012 í máli nr. 325/2012 var fjallað um kröfu varnaraðila um að tilgreint skjal sem ákæruvaldið hafði lagt fram við þingfestingu málsins yrði fellt úr skjölum þess. Krafa varnaraðila kom þar fyrst fram um þremur vikum eftir þingfestingu. Úrlausn héraðsdóms um að hafna þeirri kröfu sætti ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 og var þeirri kröfu því vísað frá Hæstarétti. Í máli þessu hagar á hinn bóginn svo til að krafa varnaraðila um að synjað yrði framlagningu dómskjals 20 var lögð fram við þingfestingu málsins. Varnaraðilar höfðu því uppi andmæli við framlagningu þess við fyrsta tilefni, jafnskjótt og það hafði verið lagt fram. Eins og greinir í forsendum hins kærða úrskurðar hefði að réttu lagi átt að bíða með framlagningu skjalsins þar til leyst hefði verið úr ágreiningi vegna framlagningar þess. Enda þótt skjalið hafi verið lagt fram, verður með hliðsjón af ofangreindu að líta svo á að ágreiningur málsins lúti að heimild til að leggja fram sönnunargagn, en úrskurðir héraðsdóms um slíka heimild sæta kæru til Hæstaréttar samkvæmt p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.

II

          Eins og að framan greinir er skjal það sem krafa varnaraðila lýtur að, skýrsla lögreglu um rannsókn samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi Hæstaréttar 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012, er fjallað um framlagningu slíkrar skýrslu. Eins og þar er rakið er í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 kveðið svo á um að lögregla taki saman skýrslu sína í hverju máli um sig, þar sem getið skuli einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra. Eftir því sem við eigi skuli þar meðal annars koma fram það sem sakborningur og vitni bera við skýrslutöku, sbr. 64. og 65. gr. laganna, athugun lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra manna. Þar eigi ekki að koma fram hugleiðingar þess sem rannsakað hafi málið, á borð við það hver hin ætlaða háttsemi sé, hvaða refsiákvæði kunni að hafa verið brotin í ljósi framburðar sakbornings og vitna og hverja séu rök til að ákæra í málinu. Því síður eigi í slíkri skýrslu að vísa til fræðirita og dómsúrlausna.

          Skýrsla lögreglu um rannsókn í máli þessu, sem tekin var saman á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 er því marki brennd að þar eru rakin atriði sem samkvæmt ofangreindu eiga ekki heima í slíkri skýrslu og er það aðfinnsluvert. Í skýrslunni er þó fyrst og fremst að finna yfirlit um rannsóknaraðgerðir og samantekt á því sem komið hefur fram við rannsókn málsins. Verður því að líta svo á að skýrslan í þeim búningi sé hluti sönnunargagna og því sé ákæruvaldinu heimilt að leggja hana fram við meðferð málsins fyrir dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 110. gr., sbr. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðilar eiga þess kost að koma að andmælum og vörnum í greinargerðum sínum samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laganna og fá til þess frekara tækifæri við aðalmeðferð málsins, þar á meðal við munnlegan flutning þess fyrir dómi. Samkvæmt framangreindu verður sá hluti hins kærða úrskurðar er krafa varnaraðila lýtur að, staðfestur.

Dómsorð:

Kröfu varnaraðila X, Y, Z og Þ, um að synjað verði um framlagningu dómskjals nr. 20 er hafnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2013.

Málið er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 12. desember 2012, á hendur X, Y, Z og Þ og aðallega er ákært fyrir umboðssvik. Málið var þingfest 7. þ.m. þar sem ákærðu neituðu allir sök.

Við þingfestingu málsins 7. þ.m. voru lagðar fram tvær bókanir, en í úrskurði þessum verður tekin afstaða til krafna sem þar koma fram.

I

Verjendur lögðu fyrir dóminn sameiginlega bókun sem er svohljóðandi:  ,,Verjendum var tilkynnt 17. desember 2012 að gögn þessa máls væru tilbúin til afhendingar. Gögnin reyndust tæplega 6.000 blaðsíður auk skýrslu lögreglu um rannsóknina samkvæmt 56. og 57. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Fyrir þingfestingu málsins hefur enginn verjenda náð að kynna sér öll gögn málsins og geta því ekki tekið endanlega afstöðu til réttmætis framlagningar einstakra skjala. Af réttarfarsástæðum mótmæla ákærðu því skjalaframlagningu ákærandans í heild sinni að svo stöddu svo ráðrúm gefist til að meta hvort efni séu til að mótmæla framlagningu einstakra skjala síðar.

Þrátt fyrir framangreint eru þó efni til að krefjast þess að sérstökum saksóknara verði meinað við þingfestingu málsins að leggja fram skjal sem ber yfirskriftina „[...]. Mál númer: [...]-[...]-[...]. Skýrsla lögreglu um rannsóknina skv. 1. mgr. 57. gr. og 1 mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008“. Skýrslan var afhent verjendum með gögnum málsins eftir að fyrirkall hafði verið birt ákærðu með formlegum hætti. Skýrslan hefur að geyma fjölmörg atriði sem samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 eiga ekki heima í slíkri skýrslu, sbr. forsendur Hæstaréttardóms frá 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012.

Rísi ágreiningur um kröfur ákærðu samkvæmt framangreindu er þess krafist að hann verði leiddur til lykta með úrskurði dómara. Þess er þá óskað að ákærðu verði gefinn kostur á að skýra mál sitt nánar í sérstöku þinghaldi“.

Við fyrirtöku málsins 16. þ.m. var fallið frá kröfugerðinni að hluta og nú er þess einungis krafist að ákæruvaldinu verði meinað að leggja fram dómskjal nr. 20. Svo sem fram kemur í kröfugerð verjenda telja þeir skjalið sem um ræðir innihalda fjölmörg atriði sem ekki eiga heima í slíkri skýrslu og er í því sambandi vísað til 1. mgr. 56. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Telja verjendur að framlagning skjalsins í því formi sem það er fari í bága við meginreglur sakamálalaga um munnlega málsmeðferð og að skjalið innihaldi í raun skriflegan málflutning. Því beri að hafna framlagningu þess og eftir atvikum að gefa ákæruvaldinu kost á því að leggja fram nýtt skjal byggt á 1. mgr. 56. gr. sakamálalaga. Þá telja verjendur að ráða megi af hæstaréttardómi í málinu nr. 703/2012 að hafna eigi framlagningu skjalsins.

Ákærandinn mótmælir því að krafa verjenda nái fram að ganga og krefst þess að framlagningin standi. Rakti ákærandinn ýmis lagaákvæði til stuðnings kröfugerð sinni og réttarframkvæmd.

Niðurstaða

Andmæli verjenda við framlagningu skjalsins sem hér um ræðir kom fram við þingfestingu málsins, en þó ekki fyrr en skjölin sem fylgdu ákæru málsins höfðu verið lögð fram. Þá fyrst varð dómara kunn krafan. Þetta skýrir hvers vegna skjalið hefur þegar verið lagt fram en að réttu lagi hefði átt að bíða með framlagninguna þar til leyst hefði verið úr ágreiningi vegna hennar. Dómurinn lítur hins vegar svo á að eftir atvikum sé rétt að líta þannig á að andmæli verjanda séu ekki of seint fram komin þar sem þau komi fram í sama réttarhaldi og í beinu framhaldi af framlagningu annarra dómskjala. Af þessum sökum verður einnig tekin afstaða til þess hvort gera eigi ákæruvaldinu að draga skjalið til baka og fella úr gögnum málsins en vikið var að þessu við munnlegan málflutning þótt þessa sé ekki getið í bókuninni.

Er lögregla telur að rannsókn sé lokið og að gögn séu fram komin sem geti leitt til saksóknar, sendir hún ákæranda rannsóknargögn, sbr. 1. mgr. 57. gr. sakamálalaga. Þá segir í sömu lagagrein að með rannsóknargögnum skuli senda skýrslu um rannsóknina, sbr. 1. mgr. 56. gr. laganna. Taki ákærandinn ákvörðun um saksókn, er ákæra máls send héraðsdómi ásamt sýnilegum sönnunargögnum sem ákæruvaldið ætlar að leggja fram í málinu, sbr. 154. gr. sakamálalaga. Þá segir í 158. gr. laganna að mál sé þingfest þegar ákæra og önnur málsgögn af hálfu ákæruvaldsins eru lögð fram á dómþingi. Það er því á forræði ákæruvaldsins að ákveða hvaða gögn eru lögð fram til að fullnægja sönnunarbyrði ákæruvaldsins skv. 108. gr. sakamálalaga. Sakamálalög nr. 88/2008, hafi ekki að geyma ákvæði sem geri ráð fyrir því að ákærðir einstaklingar eða verjendur þeirra geti andmælt framlagningu gagna sem ákæruvaldið sendir með ákæru eins og lýst var. Slíkt hefði í för með sér að ákæruvaldið þyrfti að fá heimild verjenda og/eða eftir atvikum dómara fyrir fram til framlagningar skjala sem málatilbúnaður ákæruvaldsins er reistur á. Slík niðurstaða fær ekki stoð í lögum. Dómstólar geta ekki, eins og verjendur krefjast, skert forræði ákæruvaldsins til að ákveða hvaða gögn það leggur fram með ákæru til að fullnægja lagaskyldu sinni. Skýrsla rannsakenda sem um ræðir er mjög ítarleg og hefur að geyma yfirlit um rannsóknina sem ákæran er reist á. Efni skýrslunnar, framsetning, umfang og fleira er á valdi þess sem hana ritar. Ágreiningur um efni skýrslunnar og framsetningu leiðir ekki til þess að hafna eigi framlagningu hennar eða að gera ákæruvaldinu að draga hana til baka, en ekki er í lögum að finna heimild til þess. Hins vegar geta ákærðu brugðist við eins og þeir telja sig þurfa undir dómsmeðferð málsins svo sem með öflun sönnunargagna, sbr. 1. mgr. 110. gr. sakamálalaga. Með vísan til þessa lítur dómurinn svo á að skýrslan sé hluti þeirra gagna sem ákæruvaldinu var rétt að leggja fram við meðferð málsins fyrir dómi.

Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið, er kröfu verjenda um að ákæruvaldinu verði meinað að leggja fram dómskjal nr. 20, eða gert að afturkalla eða fella skjalið úr gögnum málsins hafnað.

II

Verjandi ákærða X lagði fram svofellda bókun:

,,Þann 14. desember 2011 gaf ákæruvaldið út ákæru á hendur ákærða X og öðrum fyrrum starfsmanni [...] í máli nr. S-[...]/[...]. Mál það var dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 10. desember 2012. Tveimur dögum síðar, þann 12. desember 2012, gaf ákæruvaldið út ákæru í máli þessu nr. S-[...]/[...]. Gögn málsins bera þó með sér að rannsókn þess hafi í raun lokið löngu fyrr. Þá hefur embætti sérstaks saksóknara til meðferðar fjölmörg önnur mál þar sem ákærði hefur réttarstöðu sakbornings en öll tengjast þau ákvörðunum ákærða í starfi [...] á tímabilinu maí 2007 til október 2008. Ekki liggur fyrir hvort ákært verður í þessum málum.

Samkvæmt 1. mgr. 143. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 á maður sem saksóttur er fyrir fleiri en eitt brot rétt á því að það sé gert í einu máli eftir því sem við verður komið. Hagsmunir ákærða af því að þurfa ekki að halda uppi vörnum í mörgum aðskildum málum og sæta ítrekuðum atlögum ákæruvaldsins vegna starfa sinna hjá [...] eru augljósir. Sá háttur ákæruvaldsins að saksækja ákærða í fleiri en einu máli vegna starfa hans sem [...] á framangreindu tímabili, sérstaklega á meðan enn eru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara mál af sama meiði þar sem ákærði hefur réttarstöðu sakbornings, felur í sér brot gegn tilvitnaðri lagareglu sakamálalaga og grundvallarrétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög. nr. 62/1994.

Með vísan til framanritaðs er þess aðallega krafist að meðferð máls þessa verði frestað þar til fyrir liggur afstaða embættis sérstaks saksóknara um að ekki verði frekari ákærur gefnar út á hendur ákærða vegna starfa hans sem [...]. Komi til þess að fleiri ákærur verði gefnar út á hendur ákærða megi þá sameina þau mál og reka og dæma sem eitt mál, sbr. 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008. Verði ekki fallist á kröfu um frestun málsins í heild sinni er þess til vara krafist, að mál þetta verði skilið í sundur, sbr. 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þannig að þáttur ákærða X verði skilinn frá þætti annarra og málsmeðferð gagnvart honum frestað í samræmi við kröfugerð í aðalkröfu.

Rísi ágreiningur um kröfur ákærða samkvæmt framangreindu er þess krafist að hann verði leiddur til lykta með úrskurði dómara. Þess er þá jafnframt óskað að ákærða verði gefinn kostur á að skýra og rökstyðja mál sitt nánar í sérstöku þinghaldi.“

Verjandi ákærða X lýsti því að ákærði hefði réttarstöðu sakbornings í tólf málum sem til rannsóknar væru hjá embætti sérstaks saksóknara. Rakti verjandinn að það væri réttur ákærða að málum á hendur honum yrði safnað saman og þau rekin í einu lagi og vísaði í því sambandi til lagaákvæðis sem fram kom í bókuninni sem rakin var að framan.

Verjendur ákærða Y og Z lýstu sig samþykka aðalkröfu verjanda ákærða X um frestun máls, en verjandi ákærða Þ lét kröfugerðina ekki til sín taka.

Ákærandinn andmælti báðum liðum kröfunnar sem hér um ræðir. Ákærandinn greindi frá stöðu rannsóknar mála hjá embætti sérstaks saksóknara þar sem ákærði X hefur réttarstöðu sakbornings. Lagður var fram listi yfir þessi mál þar sem meðal annars kemur fram hvenær áætlað sé að rannsókn ljúki en engum rannsóknum væri lokið og því engar ákvarðanir verið teknar um saksókn. Því væru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að verða við kröfu verjanda um frestun málsins.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 143. gr. sakamálalaga segir að ef maður er saksóttur fyrir fleiri en eitt brot skuli gera það í einu máli eftir því sem við verður komið. Eins og rakið var eru mál til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara þar sem ákærði X hefur réttarstöðu sakbornings. Samkvæmt upplýsingum ákæruvaldsins liggur ekki fyrir hvort ákærði verði saksóttur vegna þeirra mála. Hann hefur því ekki verið saksóttur fyrir málin og ekkert liggur fyrir um það hvort svo verði. Lög gera ekki ráð fyrir því er svona stendur á að fresta eigi máli þessu í heild í því skyni að sameina öðrum málum, enda er öðrum sakamálum ekki til að dreifa á hendur ákærða X fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en samkvæmt 1. mgr. 169. gr. sakamálalaga, er við það miðað að fleiri mál hafi verið höfðuð á hendur sama sakborningi til að unnt sé að sameina þau.

Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. sakamálalaga má skilja mál í sundur og dæma sérstaklega mál eins eða fleiri ákærðu ,,ef það þykir hentugra að horfa til flýtis og sparnaðar“. Þó taka megi undir með verjanda ákærða X að hann hafi hagsmuni af því að fá botn í sín mál í heild þá er ekki ljóst að frestun máls hans myndi horfa til flýtis eða sparnaðar. Hins vegar eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að fresta máli ákærða, hvorki í heild eða hans þætti sérstaklega, með því að skilja hann frá málinu og dæma sér. Samkvæmt þessu er kröfunni um frestun málsins hafnað.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfu verjenda ákærðu í málinu nr. S-[...]/[...] um að hafna framlagningu dómskjals nr. 20 eða að gera ákæruvaldinu að afturkalla skjalið og fella úr gögnum málsins er hafnað.

Kröfu ákærða X um frestun málsins í heild eða að hluta hann varðandi er hafnað.