Print

Mál nr. 96/2001

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Fyrning

Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2001.

Nr. 96/2001.

Örn Þór Úlfsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Angantý Vilhjálmssyni

(Ásgeir Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Fyrning.

Beiðni A um aðför hjá Ö barst sýslumanni 5. júní 2000 og var því komin fram fyrir lok 10 ára fyrningartíma kröfu A. Var í framhaldi af þessu tvívegis leitast við að gera fjárnám fyrir kröfunni fyrir lok fyrningartíma hennar. Það tókst ekki vegna athafnaleysis Ö, en af gögnum málsins þótti þó sýnt að honum átti að minnsta kosti að vera kunnugt um fyrstu kvaðningu sýslumanns. Ö mætti á hinn bóginn fyrir sýslumanni 14. september 2000 í tilefni af þriðju kvaðningunni og var þá loks unnt að taka fyrir beiðni A um fjárnám. Voru þá í mesta lagi liðnir 17 dagar frá lokum fyrningartíma. Ekki þótti unnt að meta atvik á annan veg en svo að kröfu A hefði verið haldið fram án ástæðulauss dráttar eftir að beiðni um aðför til að fullnægja henni hafði borist sýslumanni, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Var samkvæmt þessu staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna bæri kröfu Ö þess efnis að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaður gerði hjá honum 6. október 2000 að kröfu A.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá honum 6. október 2000 að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

I.

Með dómi bæjarþings Reykjavíkur 15. júní 1990 var sóknaraðila gert ásamt öðrum manni að greiða varnaraðila 491.016,50 krónur með nánar tilgreindum vöxtum frá 3. október 1989 til greiðsludags og 61.800 krónur í málskostnað. Bú sóknaraðila mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta um þær mundir. Um skiptin liggja ekki fyrir frekari gögn í málinu en skrá um lýstar almennar kröfur í þrotabúið. Af henni verður ráðið að varnaraðili lýsti 20. ágúst 1990 kröfu að fjárhæð alls 1.401.062 krónur, en ekki hafi verið tekin afstaða til hennar við gjaldþrotaskiptin fremur en annarra almennra krafna, þar sem þrotabúið hafi verið eignalaust. Ekki hefur komið fram hvenær gjaldþrotaskiptunum lauk.

Varnaraðili fékk greiðsluáskorun vegna fyrrgreindrar kröfu sinnar birta fyrir sóknaraðila 5. maí 2000. Fór hann þess á leit við sýslumann með beiðni 1. júní sama árs að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila til fullnustu kröfunni. Barst beiðnin sýslumanninum í Hafnarfirði 5. sama mánaðar. Ráðið verður af framkomnum gögnum að fulltrúi sýslumanns hafi 6. júlí 2000 gert tilkynningu um að beiðni varnaraðila yrði tekin fyrir 26. sama mánaðar á nánar tilgreindum tíma, svo og að tilkynningin hafi verið birt af stefnuvotti á heimili sóknaraðila 11. júlí 2000 fyrir nafngreindri konu, sem í birtingarvottorði var sögð vera eiginkona hans. Í kvaðningu, sem sýslumaður gaf út til sóknaraðila 14. ágúst 2000, var vísað til þess að hann hefði ekki mætt þegar taka átti beiðni varnaraðila fyrir og væri sóknaraðili því aftur kvaddur til að mæta á skrifstofu sýslumanns af því tilefni 24. sama mánaðar. Síðastgreindan dag sendi sýslumaður beiðni til lögreglunnar í umdæmi sínu um að handtaka sóknaraðila og færa hann til fjárnámsgerðar 13. september 2000, enda hefði hann ekki sinnt ítrekuðum boðunum til hennar. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns var beiðni varnaraðila um fjárnám tekin fyrir 14. september 2000 og mætti sóknaraðili ásamt lögmanni, svo og lögmaður af hálfu varnaraðila. Gerðinni var þá frestað og hún tekin fyrir á ný 6. október sama árs. Við það tækifæri voru færð fram mótmæli sóknaraðila gegn framgangi gerðarinnar á þeim grunni að krafa varnaraðila væri fyrnd. Fulltrúi sýslumanns hafnaði þessum mótmælum, en gerðinni var síðan lokið án árangurs að fram kominni yfirlýsingu um eignaleysi sóknaraðila.

Sóknaraðili leitaði dómsúrlausnar um gildi fjárnámsins með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 24. október 2000.

II.

Í málinu liggur sem áður segir fyrir að varnaraðili lýsti 20. ágúst 1990 kröfu í þrotabú sóknaraðila. Hefur ekki verið vefengt að þar hafi verið lýst kröfu varnaraðila á grundvelli fyrrgreinds dóms frá 15. júní 1990, svo og að ekkert hafi fengist greitt upp í hana við gjaldþrotaskiptin. Samkvæmt 133. gr. gjaldþrotalaga nr. 6/1978, sem þá voru í gildi, bar sóknaraðili þannig ábyrgð á kröfu varnaraðila í tíu ár frá þeim degi, sem gjaldþrotaskiptunum lauk. Ekki hefur komið fram í málinu hver sá dagur var. Með því að framlögð skrá um lýstar kröfur í þrotabúið var dagsett 27. ágúst 1990 er þó ljóst að skiptunum var ekki lokið fyrir þann tíma.

Beiðni varnaraðila um aðför hjá sóknaraðila barst sýslumanninum í Hafnarfirði 5. júní 2000. Hún var því komin fram fyrir lok fyrningartíma kröfu varnaraðila. Boðun sýslumanns til fjárnáms var birt 11. júlí 2000 fyrir heimilismanni sóknaraðila, en með henni var hann kvaddur til að mæta þegar beiðni varnaraðila yrði tekin fyrir 26. sama mánaðar. Ljóst er af áðurnefndum gögnum málsins að sóknaraðili lét það hjá líða, svo og að mæta samkvæmt annarri kvaðningu sýslumanns 14. ágúst 2000. Með þessu var tvívegis leitast við að gera fjárnám fyrir kröfu varnaraðila fyrir lok fyrningartíma hennar. Það tókst ekki vegna athafnaleysis sóknaraðila, en af gögnum málsins er þó sýnt að honum átti að minnsta kosti að vera kunnugt um fyrstu kvaðninguna. Sóknaraðili mætti á hinn bóginn fyrir sýslumanni 14. september 2000 í tilefni af þriðju kvaðningunni og var þá loks unnt að taka fyrir beiðni varnaraðila um fjárnám. Voru þá í mesta lagi liðnir 17 dagar frá lokum fyrningartíma. Þegar alls þessa er gætt er ekki unnt að meta atvik á annan veg en svo að kröfu varnaraðila hafi verið haldið fram án ástæðulauss dráttar eftir að beiðni um aðför til að fullnægja henni hafði borist sýslumanni, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Örn Þór Úlfsson, greiði varnaraðila, Angantý Vilhjálmssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2001.

I.

          Mál þetta var þingfest 3. janúar 2001 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi þess þann 14. febrúar sl.

          Sóknaraðili er Örn Þór Úlfsson, kt. 020160-3229, Smáraflöt 17, Garðabæ.

          Varnaraðili er Angantýr Vilhjálmsson, kt. 150938-4229, Kastalagerði 3, Kópavogi.

          Dómkröfur sóknaraðila eru þær að ógilt verði aðfarargerð í aðfararmálinu nr. 036-2000-02075, sem fram fór hjá sýslumanninum í Hafnarfirði þann 6. október 2000 á hendur sóknaraðila að kröfu varnaraðila.  Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að skaðlausu.

          Dómkröfur varnaraðila eru þær að krafa sóknaraðila um ógildingu ofannefndrar aðfarargerðar í framangreindu aðfararmáli nái ekki fram að ganga.  Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

II.

          Þann 6. október 2000 tók sýslumaðurinn í Hafnarfirði fyrir í skrifstofu embættisins að Bæjarhrauni 18, Hafnarfirði, aðfarargerð nr. 036-2000-02075.  Gerðarbeiðandi var varnaraðili, Angantýr Vilhjálmsson, en gerðarþoli sóknaraðili, Örn Þór Úlfsson.  Endanleg krafa gerðarbeiðanda (varnaraðila) var að gert yrði fjárnám hjá gerðarþola (sóknaraðila) fyrir kröfu að fjárhæð 1.157.350 krónur sem sundurliðaðist þannig:  Höfuðstóll 491.017 krónur, dráttarvextir frá 1. júlí 1996 til 6. október 2000  567.881 króna, málskostnaður 76.941 króna, greiðsluáskorun 4.358 krónur, birting greiðsluáskorunar 1.200 krónur, fjárnámsbeiðni 4.358 krónur, vextir af kostnaði 95 krónur og fjárnámsgjald í ríkissjóð 11.500 krónur, auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 til greiðsludags, kostnaðar við gerðina og kostnaðar af frekari fullnustugerðum ef til þeirra kæmi.  Lögmaður sá sem mætti f.h. gerðarþola (sóknaraðila) mótmælti því að gerðin næði fram að ganga þar sem krafa gerðarbeiðanda (varnaraðila) væri fyrnd.  Henni hefði ekki verið haldið fram með hæfilegum hraða.  Á það var ekki fallist af hálfu fulltrúa sýslumanns og var gerðinni lokið án árangurs þar sem fyrir lá umboð frá gerðarþola (sóknaraðila) um eignaleysi hans.

          Aðfararheimildin byggðist á dómi bæjarþings Reykjavíkur upp kveðnum 15. júní 1990 í máli nr. 3417/1990:  Angantýr Vilhjálmsson gegn Erni Úlfssyni og Atla Edgarssyni.

          Með tilkynningu til dómsins um kröfu um úrlausn aðfarargerðar skv. 15. kafla aðfararlaga nr. 90/1989, dagsettri 19. október sl., krafðist sóknaraðili þess að framangreind fjárnámsgerð yrði ógilt.

III.

          Sóknaraðili kveður ógildingarkröfu sína byggjast á því að fjárkrafa þessi hafi verið fyrnd þegar gerðin var tekin fyrir.  Skuld sóknaraðila við varnaraðila hafi byggst á dómi upp kveðnum 15. júní 1990.  Fyrningarfrestur hafi runnið út þann 20. ágúst 2000 þegar skiptastjóri í þrotabúi sóknaraðila móttók kröfulýsingu varnaraðila í bú sóknaraðila.  Í 52. gr. aðfararlaga sé mælt fyrir um að fyrningu sé slitið þegar aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartíma gegn því að gerðinni sé fram haldið án ástæðulauss dráttar.  Samkvæmt gögnum málsins sé aðfararbeiðnin móttekin 5. júní 2000 og hafi þá verið kappnógur tími til að ljúka málinu áður en fyrningarfrestur rann út.  Þess í stað hafi varnaraðili tekið sér góðan tíma og látið birta kvaðningu um að mæta hjá sýslumanni meira en mánuði eftir móttöku aðfararbeiðni og síðan látið líða einn og hálfan mánuð þar til aðfararbeiðni skyldi tekin fyrir, fjórum dögum eftir að fyrningarfrestur rann út.  Þessi dráttur frá 5. júní til 24. ágúst sl. hafi verið ónauðsynlegur.  Varnaraðili hafi ekki haldið kröfu sinni til haga með þeim hætti að aðfarargerðin gæti rofið fyrningu.  Kvaðning þessi hafi verið birt fyrir kærustu sóknaraðila og hafi sóknaraðili ekki mætt við fyrirtöku þann 24. ágúst 2000.  Það hafi svo ekki verið fyrr en þann 13. september sl., um þremur vikum síðar, sem sóknaraðili var kvaddur til fjárnáms með handtökuskipun.

          Fyrningarreglum sé ætlað að þrýsta á kröfuhafa að neyta réttar síns í tíma, ætli þeir sér á annað borð að gera það að viðlögðum réttindamissi ella.  Það að kröfuhafi geti haldið kröfu sinni fram eftir að fyrningarfresti lýkur sé undantekning sem skýra beri þröngt.  Varnaraðili hafi dregið í tíu ár að sinna málefnum þessum og þegar hann hafði sig af stað hafi honum ekkert legið á og því hafi hann fyrirgert rétti til að koma kröfu sinni fram.  Af athugasemdum með 52. gr. aðfararlaga megi ráða að málefni þurfi að afgreiða í beinu framhaldi eftir að beiðni er komin fram og undantekningarreglu þessa verði að skýra þröngt.  Það hafi verið óþarfi með öllu að draga málið svo lengi sem gert var.  Í athugasemdum með frumvarpinu með tilvitnaðri grein segi einnig:  „Þetta skilyrði fyrirbyggir þó að fyrningu verði slitið, ef gerðarbeiðandi sinnir ekki málefnunum með þeim hætti, sem almennt tíðkast, eftir að hún hefur borist héraðsdómara eða sýslumanni.”  Orðalag þetta eigi rætur að rekja til þeirrar vinnureglu sem áður gilti, þ.e. að gerðarbeiðendur hafi fylgt málum sínum eftir og átt pantaðan tíma hjá sýslumanni fyrir eitt mál eða fleiri og jafnvel fasta reglulega tíma.  Þótt vinnulag hafi breyst á undanförnum árum beri gerðarbeiðanda að hlutast til um það og fara fram á við sýslumannsembætti að mál fái hraða meðferð við aðstæður sem þessar. 

IV.

          Af hálfu varnaraðila er á því byggt að með framangreindum dómi bæjarþings Reykjavíkur hafi sóknaraðili verið dæmdur til að greiða varnaraðila krónur 491.016,50 auk dráttarvaxta og málskostnaðar.  Bú sóknaraðila hafi verið til gjaldþrotameðferðar á árinu 1990.  Varnaraðili hafi lýst kröfu sinni í búið án þess að fá hana greidda, enda hafi búið verið talið eignalaust.  Þar sem sóknaraðili hafi enn ekki fengist til að greiða varnaraðila skuld þessa hafi beiðni verið send til sýslumannsins í Hafnarfirði, dagsett 1. júní 2000, þar sem þess hafi verið óskað að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar skuldinni.  Beiðnin hafi verið móttekin af sýslumannsembættinu 5. sama mánaðar.  Í framhaldi af því hafi sóknaraðili verið boðaður til sýslumanns.  Verði ekki annað séð af gögnum málsins en hann hafi haft boðunina að engu allt þar til honum var tilkynnt að óskað yrði aðstoðar lögreglu við boðunina.

          Varnaraðili telji að fyrningu kröfunnar hafi verið slitið þegar sýslumaður móttók aðfararbeiðnina þann 5. júní 2000, sbr. 52. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.  Eftir það hafi málinu verið fram haldið með þeim hætti sem tíðkanlegt sé hjá embættum sýslumanna.  Þær tafir sem orðið hafi á málinu verði á engan hátt raktar til varnaraðila, en á hinn bóginn eigi sóknaraðili þar sök á.  Það fái því ekki staðist að þær tafir valdi því að krafan teljist fyrnd.

          Kröfu um málskostnað styður varnaraðili við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V.

          Eins og áður er að vikið sendi lögmaður varnaraðila sýslumanninum í Hafnarfirði aðfararbeiðni sem er dagsett 1. júní sl. og móttekin 5. sama mánaðar.  Af gögnum málsins verður ráðið að það fyrsta sem gerðist í málinu var að sýslumaður ritaði boðun vegna fjárnáms þann 6. júlí sl. þar sem sóknaraðili var boðaður að mæta til fjárnáms í skrifstofu sýslumanns miðvikudaginn 26. júlí sl., kl. 11.20.  Gögnunum fylgir vottorð stefnuvotts þar sem fram kemur að boðunin hafi verið birt 11. sama mánaðar á heimili sóknaraðila fyrir þar til bærum aðila.  Ekki er þó að sjá á gögnum málsins að beiðnin hafi verið tekið fyrir þann dag sem til stóð.  Samkvæmt gögnum málsins gerðist það næst í málinu að sýslumaður gaf út kvaðningu á hendur sóknaraðila og er hún dagsett 14. ágúst sl.  Í kvaðningunni kemur fram að þar sem sóknaraðili hafi ekki mætt til síðustu fyrirtöku fjárnámsgerðarinnar hafi verið leitað aðstoðar lögreglu til að kveðja hann til fundar við fulltrúa sýslumanns og lögmann gerðarbeiðanda (varnaraðila) fimmtudaginn 24. ágúst 2000 kl. 10.54.  Í gögnum málsins liggur hins vegar ekkert fyrir um það hvort gerðin hafi verið tekin fyrir þann dag og heldur ekki hvort lögregla hafi verið fengin til að kveðja sóknaraðila til gerðarinnar framangreindan dag.  Samkvæmt gögnum málsins er hið næsta sem gerðist í málinu að með handtökubeiðni fulltrúa sýslumanns, dagsettri 24. ágúst sl., til lögreglunnar í Hafnarfirði, Garðabæ og Bessastaðahreppi var þess óskað að lögregla sæi um að handtaka sóknaraðila og færa hann á fund sýslumannsfulltrúans þann 13. september sl. kl. 11.00.  Aðfarargerðin var síðan tekin fyrir þann 14. september sl. og mætti þá sóknaraðili ásamt lögmanni sínum.  Fram kemur í endurriti úr gerðabók sýslumannsins í Hafnarfirði að þá hafi verið lögð fram fjögur skjöl, þ.e. aðfararbeiðni, dómur, greiðsluáskorun og birtingarvottorð.  Verður að miða við að þá fyrst hafi málið verið tekið fyrir með formlegum hætti.  Samþykkt var að fresta gerðinni til 2. október sl., en samkvæmt síðara endurritinu úr gerðabók sýslumannsins í Hafnarfirði, sem er meðal gagna málsins, var hún tekin tekin fyrir 6. sama mánaðar.  Lauk gerðinni sem fyrr segir án árangurs.

          Aðilar eru sammála um að kröfulýsing í bú sóknaraðila, 20. ágúst 1990, sé sá dagur sem miða beri við þegar meta skal hvort krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila sé fyrnd.  Fram kemur í skrá yfir lýstar kröfur, sem er meðal gagna málsins, að skiptaráðandi tók ekki afstöðu til krafnanna þar sem bú þetta var eignalaust.  Samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrnast dómkröfur á tíu árum.

          Sem fyrr segir er fyrningu aðfararhæfrar kröfu slitið, ef aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningarfrests og gerðinni er síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar, sbr. 52. gr. aðfararlaga.  Af því sem að framan er rakið telur dómurinn ljóst að ástæða þess að ekki tókst að taka aðfararbeiðnina fyrir í fyrsta skipti fyrr en eftir lok fyrningarfrests kröfunnar, þ.e. 14. september sl., verði fyrst og fremst rakið til þess að sóknaraðili þverskallaðist við að mæta til gerðarinnar, en af hálfu sýslumanns var lögð á það áhersla að sóknaraðili yrði viðstaddur gerðina.  Var það ekki fyrr en sýslumaður hafði gefið út handtökubeiðni sem sóknaraðili mætti til gerðarinnar.  Þegar framanritað er haft í huga verður að fallast á það með varnaraðila að fram séu komin næg gögn er sýni að gerðinni hafi verið fram haldið án ástæðulauss dráttar í skilningi 52. gr. aðafararlaga og því sé hún ófyrnd.  Verður niðurstaða málsins samkvæmt því sú að hafna ber kröfu sóknaraðila um ógildingu gerðarinnar.

          Eftir þessum úrslitum máls þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila  50.000 krónur í málskostnað.

          Júlíus B. Georgsson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

          Kröfu sóknaraðila, Arnar Þórs Úlfssonar, um að ógilt verði aðfarargerð nr. 36-2000-02075 sem fram fór hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 6. október 2000, að kröfu varnaraðila,  Angantýs Vilhjálmssonar, á hendur sóknaraðila, er synjað.

          Sóknaraðili greiði varnaraðila 50.000 krónur í málskostnað.