Print

Mál nr. 636/2017

Guðmundur Þór Pétursson og Harpa Guðmundsdóttir (Tómas Jónsson lögmaður)
gegn
Arion banka hf. (Sigurður Guðmundsson lögmaður)
Lykilorð
  • Samningur
  • Neytendalán
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Fjármálafyrirtæki
Reifun

Aðilar deildu um hvernig haga skyldi vaxtaútreikningi á lánssamningi sem var bundinn ólögmætri gengistryggingu. G og H kröfðust viðurkenningar á því að árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95% í greiðsluáætlun sem gerð var samhliða veðskuldabréfinu skyldi halda gildi sínu fram að endurútreikningi lánsins hjá A hf. Var sýknukrafa A hf. reist á því að um útreikning vaxta skyldi fara samkvæmt bráðabirgðaákvæði X við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þannig að um uppgjör skuldbindingarinnar færi eftir því sem greindi í 18. gr. laganna. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 327/2013 taldi Hæstiréttur að bein og órjúfanleg tengsl hefðu verið milli gengisbreytingarinnar og þeirra vaxta sem vísað var til í lánssamningnum. Samkvæmt því hefði ákvæði hans um vexti verið ógilt í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Þá var ekki fallist á að greiðsluáætlunin hefði falið í sér bindandi loforð um að árleg hlutfallstala kostnaðar yrði óbreytt óháð þeim forsendum sem bjuggu að baki lánskjörum og skilmálabreytingum sem átt höfðu sér stað. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu A hf. því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Ása Ólafsdóttir dósent.  

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. október 2017. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að upphafleg árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95% í greiðsluáætlun, sem gerð var samhliða veðskuldabréfi útgefnu 13. október 2006, númer 3999, að fjárhæð 13.000.000 krónur og „gengistryggt miðað við erlendar myntir CHF 50% og JPY 50%, skuli halda gildi sínu fram að endurútreikningi lánsins hjá stefnda sem gerður var 3. febrúar 2011 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða X laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010.“ Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gáfu áfrýjendur 13. október 2006 út skuldabréf til stefnda að fjárhæð 13.000.000 krónur og settu fasteign sína til tryggingar skuldinni. Lánið var bundið ólögmætri gengistryggingu, að hálfu tengt við gengi svissnesks franka og að hinum helmingnum við japanskt jen og bar skuldin breytilega vexti með grunnkjörvöxtum 2,22% og vaxtaálagi sem var við lántöku 1,35%. Samhliða lántökunni var gerð greiðsluáætlun fyrir neytendalán þar sem fram kom að nafnvextir á ári yrðu 3,6% og árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95%. Skilmálum lánsins var breytt fimm sinnum á tímabilinu 8. desember 2008 til 16. júlí 2010.

Vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar endurreiknaði stefndi lánið 3. febrúar 2011 með vísan til bráðabirgðaákvæðis X við lög nr. 38/2001, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010, þannig að uppreiknaður höfuðstóll lánsins sem sagður var hafa verið orðinn 29.431.154 krónur fyrir endurútreikning var færður í 17.335.399 krónur og vísað um útreikning vaxta til fyrri málsliðar 4. gr. laga nr. 38/2001. Vegna dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október 2012 í máli nr. 464/2102 endurútreiknaði stefndi lánið á ný 18. mars 2013 og færði uppgreiðsluvirði þess úr 19.556.804 krónum í höfuðstól 14.775.512 krónur.

Í héraðsdómi er því lýst að áfrýjendur gerðu á öllum stigum máls ýmsar athugasemdir við útreikninga stefnda. Krafa áfrýjenda lýtur að því að ákvæði í framangreindri greiðsluáætlun um hlutfallstölu kostnaðar 3,95% hafi átt að halda gildi sínu sem vaxtafótur fram að fyrri endurútreikningi lánsins 3. febrúar 2011. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi bera þau einkum fram þær röksemdir að stefndi hafi við endurútreikninginn brotið gegn þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán, sbr. nú lög nr. 33/2013 með sama heiti, og að ákvæði laganna gangi framar þeim ákvæðum vaxtalaga sem vísað hafi verið til við endurútreikninginn.

II

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 121/1994 tóku þau til lánssamninga sem lánveitandi gerði í atvinnuskyni við neytendur. Er í máli þessu um að ræða samning sem féll undir ákvæði laganna. Samkvæmt 6. gr. laganna hvíldi á lánveitanda meðal annars sú skylda að gefa neytandanum upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Í e. lið 4. gr. laganna kom fram að árleg hlutfallstala kostnaðar væri heildarlántökukostnaður sem hlytist af gerð lánssamnings, lýst sem árlegri prósentu af upphæð láns þess er veitt væri og reiknuð út í samræmi við 10. gr. til 12. gr. laganna. Í 10. gr. laganna sagði að árleg hlutfallstala kostnaðar væri það vaxtaígildi sem jafnaði núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skyldi lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstóls lánsins og hún reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar væri mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra setti. Í samræmi við það var sett reglugerð nr. 377/1993 um neytendalán, sem breytt var með reglugerðum nr. 491/1993 og nr. 236/2000. Eins og áður greinir var árlegri hlutfallstölu kostnaðar lýst í áðurnefndri greiðsluáætlun líkt og lög buðu og var í áætluninni tekið fram að hún væri hluti lánssamningsins, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. apríl 2013 í máli nr. 672/2012. Á hinn bóginn er til þess að líta að árleg hlutfallstala kostnaðar tekur ekki einungis til vaxta, sem áfrýjendur krefjast að skuli vera 3,95% árlegir, heldur einnig annars kostnaðar vegna láns, en bæði í lánssamningnum og greiðsluáætluninni var kveðið á um breytilega vexti, eins og þeir væru ákveðnir af lánveitanda á hverjum tíma og tæki „það jafnt til kjörvaxta hverrar myntar og vaxtaálags.“ Bráðabirgðaákvæði X við lög nr. 38/2001 var beinlínis ætlað að taka til lánssamninga eins og þeim sem um ræðir í þessu máli og kvað skýrt á um að hefði húsnæðislán til neytanda verið greitt út í íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum væri hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðaðist að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, færi um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greindi í 18. gr. laganna. Í 1. mgr. 18. gr. var svo kveðið á um eftirfarandi: „Ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild skal peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr., enda eigi önnur ákvæði þessarar greinar ekki við ...“

Samkvæmt öllu framansögðu er aðstaðan hér sambærileg, um atriði þau er máli skipta, þeirri sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar 31. maí 2013 í máli nr. 327/2013 þannig að telja verður að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli gengisbreytingar og þeirra vaxta sem vísað var til í lánssamningnum. Samkvæmt þessu var ákvæði lánssamningsins um vexti ógilt í skilningi fyrrnefndrar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Þá verður ekki fallist á að greiðsluáætlun sem fylgdi lánssamningnum hafi falið í sér bindandi loforð um að árleg hlutfallstala kostnaðar yrði óbreytt óháð þeim forsendum um lánskjör og skilmálabreytingum sem að framan eru nefnd.

Að þessu sérstaklega gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna.

Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins hér fyrir dómi.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2017

I

Mál þetta, sem dómtekið var 27. júní 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 22. september 2016. Stefnendur eru Guðmundur Þór Pétursson og Harpa Guðmundsdóttir, bæði til heimilis að Leirutanga 9 í Mosfellsbæ. Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík. 

Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að upphafleg árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95% í greiðsluáætlun, sem gerð var samhliða veðskuldabréfi, útgefnu 13. október 2006, nr. 3999, að fjárhæð 13.000.000 króna, sem var gengistryggt miðað við erlendar myntir CHF 50% og JPY 50%, skuli halda gildi sínu fram að endurútreikningi lánsins hjá stefnda, sem gerður var 3. febrúar 2011, á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða X laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010.

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

II

Atvik málsins eru í meginatriðum ágreiningslaus. Stefnendur tóku fasteignalán hjá stefnda að fjárhæð 13.000.000 króna til 30 ára. Um var að ræða veðskuldarbréf nr. 3999 sem stefnendur gáfu út til Kaup­þings banka hf., nú stefnda, þann 13. október 2006 sem tengt var við gengi sviss­nesks franka (50%) og ja­pansks jens (50%). Í skuldabréfinu kemur jafn­framt fram að „[g]runnkjörvextir“ séu 2,22%, „[v]axta­álag nú“ 1,35% og því séu „[v]egn­ir vextir samtals nú“ 3,60%. Við lán­tökuna var gerð áætlun fyrir neyt­enda­­lán og þar kemur fram að nafnvextir á ári verði 3,60% og árleg hlutfallstala kostn­aðar verði 3,95%. Þar segir jafnframt að andvirði skulda­bréfs verði 12.669.750 krónur, heildar­lán­töku­kostn­aður 7.441.650 krónur og heildar­endurgreiðsla láns­ins verði 20.111.400 krónur.

Skilmálum skuldabréfsins var breytt fimm sinnum. Þann 8. desember 2008 var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins þannig að vanskilum var bætt við höfuðstól og afborgunum af láninu frestað í sex mánuði með fyrsta gjalddaga 4. maí 2009. Þann 5. maí 2009 var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins og greiðslu lánsins frestað til 4. ágúst 2009 og áfallnir vextir frá 8. desember 2008 til og með 4. júlí 2009 lagðir við höfuðstól lánsins. Jafnframt lengdist greiðslutími lánsins sem þessu nam.

Í stefnu er rakin ákvörðun Neytendastofu í máli nr. 6/2009 „Kvörtun [...] yfir skilmálum myntkörfuláns Kaupþings banka hf.“ frá 9. febrúar 2009, en þar var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum 6. gr. og 9. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994, „með því að tilgreina ekki í skilmálum myntkörfulánasamnings með hvaða hætti vextir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytist“.  Með vísan til 26. gr. laganna bannaði Neytendastofa stefnda að notast við umþrætt ákvæði og skyldi bannið taka gildi við birtingu ákvörðunar Neytendastofu, þann 12. mars 2009. Með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála 25. september þess árs var ákvörðun Neytendastofu staðfest. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda brást hann þannig við ákvörðun Neytendastofu að hinn 25. mars 2010 var þeim sem tekið höfðu erlend myntkörfulán með kjörvöxtum send tilkynning um breytingu á 1. gr. skilmála skuldabréfa á borð við það sem deilt er um í þessu máli og skyldi breytingin taka gildi frá og með 1. apríl 2010. Í skilmálabreytingunni koma fram upplýsingar um útreikning kjörvaxta án þess að um sé að ræða breytingu á efnislegum réttindum og skyldum. Stefnendur kannast ekki við að hafa móttekið umrætt bréf stefnda.

Þann 25. ágúst 2009 var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins á þann veg að gjalddaga þess með afborgunum var breytt úr 4. ágúst 2009 í 4. nóvember sama ár.  Stefnendur greiddu vexti að öðru leyti á gjalddögum lánsins. 

Þann 2. nóvember 2009 gerðu stefnendur samkomulag við stefnda um greiðslujöfnun á skuldabréfinu og loks gerðu aðilar þann 16. júlí 2010 samkomulag um tímabundna breytingu á greiðslutilhögun þannig að mánaðarleg greiðsla yrði 65.000 krónur frá 1. júlí 2010 til 31. mars 2011. Stefnendur greiddu umsamda fjárhæð, 65.000 krónur, fram til 4. mars 2011.

Skuldabréfið var endurreiknað 3. febrúar 2011 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis X í lög­um nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 151/2010, í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Í bréfi stefnda til stefnenda, dagsettu 7. febrúar 2011, var stefnendum kynnt­ur endur­reikningur lánsins og jafn­framt gefinn kostur á að velja milli þeirra endurgreiðsluskilmála, sem skulda­bréfið skyldi hafa til frambúðar. Lántakendum var gefinn frestur til 28. mars sama ár til að staðfesta endurútreikning og val um boðna endurgreiðsluskilmála. Í bréfinu segir m.a. að endur­reikningurinn fari þannig fram að upp­haflegur höfuðstóll lánsins í íslenskum krón­um sé vaxtareiknaður miðað við þá vexti sem tilgreindir eru í 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnendur mótmæltu endur­reikn­ingi lánsins með bréfi til stefnda, dagsettu 28. mars 2011, með vísan til þess að hann byggði á brotum gegn grundvallarréttindum þeirra samkvæmt neytendarétti og íslensku stjórnarskránni. Jafnframt höfnuðu stefnendur þeim kostum að því er varðaði endurgreiðsluskilmála sem stefndi hafði boðið upp á.

Stefndi svaraði bréfi stefnenda 1. apríl 2011 og skýrði lagagrundvöll endurútreikningsins. Með bréfi, dagsettu 30. ágúst sama ár var tilkynnt um endurútreikninginn og að þar sem ekki hefði verið valin ein af þeim leiðum, sem í boði hefðu verið og ekki undirrituð viðeigandi skjöl, hefði láninu verið breytt í óverðtryggt lán með jöfnum afborgunum í íslenskum krónum. Þetta væri í samræmi við fyrirmæli bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001. Með bréfi stefnenda til stefnda, dagsettu 14. nóvember 2011, voru mótbárur við innheimtu láns nr. 3999 ítrekaðar og jafnframt ítrekuð höfnun á tilboðum bankans. Jafnframt kröfðust stefnendur þess að bankinn léti þegar af innheimtu ólögmætra krafna og leiðrétti eftirstöðvar lánsins til samræmis við eðlilega og viðurkennda viðskiptahætti. 

Lánið var endurreiknað öðru sinni 18. mars 2013 og var stefnendum tilkynnt um það 20. sama mánaðar. Endurreikningurinn var gerður vegna tveggja dóma Hæstaréttar Íslands sem féllu á árinu 2012, þ.e. dóma í málum réttarins nr. 600/2011 og 464/2012. Samkvæmt yfirliti yfir endurreikninginn voru eftirstöðvar höfuðstóls  14.775.512 krónur og hafði lækkað um 4.781.292 krónur. Óumdeilt virðist að stefnendur hafi greitt af láninu allt frá seinni endurútreikningi lánsins. 

Í málinu hafa verið lögð fram ýmis gögn um þróun kjörvaxta samanborið við LIBOR-vexti svo og skuldatryggingaálag Kaupþings banka hf. og vaxtatöflur íslensku bankanna. Ekki þykir ástæða til að rekja efni þessara gagna sérstaklega.

Stefnendur fengu Hagsmunasamtök heimilanna til þess að gera nýjan endurútreikning á láninu miðað við að árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95% hefði haldið gildi sínu frá fyrsta gjalddaga fram að síðustu greiðslu þeirra þann 4. mars 2011. Samkvæmt þeim endurútreikningi var staða lánsins þann dag 10.571.340 krónur í stað 17.335.399 króna samkvæmt endurútreikningi stefnda. Vegna þessa ákváðu stefnendur að stefna máli þessu fyrir dóm. Eins og áður er getið, var mál þetta höfðað 22. september 2016.

III

Stefnendur byggja stefnukröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefndi hafi brotið gegn 2. málslið 2. mgr. 14. gr., sbr. 1. málslið 2. mgr. 14. gr., þágildandi laga nr. 121/1994, um neytendalán, sem hafi gilt um lán það sem stefnendur tóku hjá stefnda. Fasteignalán hafi einnig fallið undir lögin, sbr. breytingu á lögunum með lögum nr. 179/2000. Lán stefnenda sé og hafi verið neytendalán sem falli undir ákvæði c- liðar 4. gr. neytendalánalaga. Telja stefnendur að hugtakið „lánssamningur“ nái ekki aðeins yfir þann samning, sem samningsaðilar undirriti, heldur jafnframt til fylgiskjala með honum, eins og t.d. greiðsluáætlun, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 672/2012.

Samkvæmt e-lið 4. gr. framangreindra laga sé árleg hlutfallstala kostnaðar, „...heildarlántökukostnaður sem hlýst af gerð lánssamnings, lýst sem árlegri prósentu af upphæð láns þess sem veitt er og reiknuð út í samræmi við 10.-12. gr.“. Um útreikning prósentufjárhæðar vísist til 5. gr. reglugerðar nr. 377/1993, um neytendalán, og fylgiskjals með reglugerðinni.

Stefnendur vísa til þess, að við setningu neytandalánalaga í Evrópu og hér á landi, sem innleidd hafi verið af neytendalánatilskipun 87/102/EBE og breytingu á henni með tilskipun nr. 90/88/EBE, hafi það verið meginmarkmið laganna að tryggja að neytandi fengi fullnægjandi upplýsingar í tengslum við lántöku í því skyni að hann yrði betur í stakk búinn að bera saman mismunandi lánskjör og þann kostnað sem fylgdi lántökunni og þá um leið ábyrgð sína á lántökunni. Telja verði að upplýsingaskylda samkvæmt lögunum gegni afar mikilvægu hlutverki við að tryggja aukna samkeppni á lánamarkaði. Í því skyni að tryggja fullnægjandi upplýsingargjöf sé lánveitanda skylt að upplýsa neytandann um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar.

Stefnendur benda á að fyrirmæli neytendalánatilskipana hafi verið talin fela í sér lágmark neytendaverndar og hafi verið stefnt að upplýsingaskyldu af hálfu lánveitanda, sem gæti tryggt að neytandinn væri í aðstöðu til að taka upplýsta ákvörðun um lántöku sína. M.a. hafi verið mælt fyrir um lögfestingu þess að lánveitanda bæri skylda til að veita lántakandanum upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar og skyldi tilgreina hana í lánssamningi aðila. Ákvæði um þessa skyldu gagnvart neytandanum sé meðal grundvallaratriða í tilskipuninni og síðari tilskipunum og fyrirmælum innan Evrópusambandsins.

Árleg hlutfallstala kostnaðar sé skilgreind í 10. gr. laga nr. 121/1994 og hún sé helsta upplýsingaform laganna fyrir neytendur og til að tryggja þeim lágmarksvernd.  Í 11. gr. laga nr. 121/1994 komi fram að árleg hlutfallstala kostnaðar skuli reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður. Þá segi að við útreikning árlegrar hlutfallstölu skuli gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins. Hið sama komi fram í frumvarpi með lögum nr. 121/1994, þ.e. að útreikningur lánsins eigi að fara fram þegar lánssamningur sé gerður og að ekki skuli tekið tillit til breytinga, sem verða kunni á samningnum, né hugsanlegra vanefnda á samningi. Markmið upplýsingagjafarinnar sé að koma í veg fyrir dulinn kostnað við lántöku og gera stefnendum kleift að átta sig á heildarkostnaði við lántökuna.   

Stefnendur vísa til 24. gr. laga nr. 121/1994 þar sem segi: „Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara né reglugerða, sem settar kunna að verða samkvæmt lögunum, neytanda í óhag.“ Samkvæmt áskilnaði ákvæðisins hafi stefndi ekki mátt víkja frá ákvæðum laganna með lánssamningi, þ.e. fasteignaveðbréfinu og fylgiskjölum þess, stefnendum í óhag. Hins vegar hafi stefndi, með því að fara ekki eftir eigin greiðsluáætlun sinni um árlega hlutfallstölu kostnaðar, brotið gegn 5. gr. og 3.-7. tölul. 1. mgr. 6. gr., sbr. 11. gr. laganna, stefnendum í óhag. Því sé ljóst að af hálfu stefnda hafi ekki verið farið eftir lögum nr. 121/1994 og þau hafi vísvitandi verið brotin. Stefndi hafi því hvorki lagaheimild né samningsgrundvöll til þess að krefja stefnendur um frekari heildarlántökukostnað en árleg hlutfallstala kostnaðar segi til um. 

Dómkröfur stefnenda byggjast á því að upphafleg greiðsluáætlun, sem gerð hafi verið við töku lánssamningsins, eigi að standa óbreytt ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar yfir það tímabil sem krafist sé. Þar sem um ólögmætt gengisbundið lán hafi verið að ræða, telji stefnendur að stefndi eigi að bera hallann af því en ekki stefnendur þegar eftir standi lán sem sé miklu hærra en upphaflega hafi verið samið um. 

Stefnendur vísa til þess að engin ákvæði hafi verið í lánssamningi aðila sem samsvari þágildandi ákvæðum 2. mgr. 6. gr. og/eða 9. gr. laga nr. 121/1994 en þau ákvæði vísi til heimilda um breytingar á lánskostnaði eða öðrum atriðum lánskjara í lánssamningi. Ákvæði lánssamnings aðila hafi hvorki veitt leiðbeiningar um það, hvaða ástæður eða aðstæður gætu leitt til breytinga á afborgunum, vöxtum eða öðrum lánskostnaði né með hvaða hætti breytingarnar yrðu gerðar. Stefndi hafi því brotið gegn nefndum ákvæðum laga nr. 121/1994. Stefnendur vísa að þessu leyti til úrskurðar áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nr. 6/2009 þar sem fjallað hafi verið um sams konar vaxtaákvæði í lánssamningi og jafnframt til dóms Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 672/2012. Hvorki hafi verið vísað til ákvæða 2. mgr. 6. gr. eða 9. gr. framangreinda laga í lánssamningi aðila né fylgt þeim skilyrðum, sem þar komi fram, með því að tilgreina ekki í skilmálum myntkörfulánssamningsins með hvaða hætti vextir samningsins væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breyttust. Stefnda sé því óheimilt að krefja stefnendur um annan lántökukostnað (vexti) en þann, sem tilgreindur hafi verið í samningi aðila, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994, með svo skýrum hætti að samrýmst geti eindregnum áskilnaði 1. málsliðar 2. mgr. 14. gr. laganna um að lánveitanda sé ekki heimilt að krefjast frekari lántökukostnaðar en tilgreindur sé í samningi aðila. Slíku hafi ekki verið til að dreifa um fjárhæðir hækkandi afborgana og vaxta.

Stefnandi telur að af framangreindu leiði að stefnda hafi því síður verið heimilt samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði, ef árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994, væri of lágt reiknuð, að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar. Stefnda hafi eingöngu verið heimilt að krefja stefnendur um þann heildarlántökukostnað sem fullnægði þeim áskilnaði 2. málsliðar 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 að vera innan marka þeirrar árlegu hlutfallstölu kostnaðar, sem reiknuð hafi verið við gerð lánssamnings aðila samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna.   

Stefnendur hafa lagt fram endurútreikning á láni sínu sem upplýst er að unninn var af Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir stefnendur. Stefnendur vísa til þess að í endurútreikningnum sé reiknuð 3,95% árleg hlutfallstala kostnaðar á hvern gjalddaga. Fjárhæð árlegrar hlutfallstölu kostnaðar á hverjum gjalddaga dragist síðan frá því sem greitt sé á hverjum gjalddaga og mismunurinn sé síðan dreginn frá höfuðstól lánsins. Sem dæmi sé tekinn gjalddagi 4. janúar 2007 en þá hafi árleg hlutfallstala kostnaðar numið 41.159 krónum en á gjalddaganum hafi verið greiddar 80.202 krónur. Mismunurinn nemi 39.043 krónum (80.202 – 41.159) sem dragist því frá höfuðstól lánsins og síðan koll af kolli. Eftir þá afborgun verði eftirstöðvar lánsins því 12.728.707 - 39.043 = 12.689.664 krónur. Til frekari útskýringar vísa stefnendur til þess að vaxtatímabilið á gjalddaganum hafi verið einn mánuður, þ.e. frá síðasta gjalddaga 1. desember 2006. Á því vaxtatímabili nemi endurreiknaðar eftirstöðvar höfuðstólsins 12.728.707 krónum. Þá séu reiknaðir 3,95% dagvextir af þeirri fjárhæð með formúlunni: 12.728.707*((1+0,0395)^(1/12)-1) = 41.159 krónur.

Stefnendur byggja jafnframt á ófrávíkjanlegu ákvæði 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og því að í lánssamningi þeirra við stefnda hafi verið samið um vexti sem árleg hlutfallstala kostnaðar hafi verið byggð á sem nái yfir umrætt greiðslutímabil frá 4. nóvember 2006 til 4. mars 2011. Hins vegar séu ákvæði 3. gr. og 4. gr. í II. kafla laganna frávíkjanleg en stefndi hafi stuðst við þau í endurútreikningi sínum. Verulegar takmarkanir séu settar við beitingu á þeim ákvæðum og gildi þau því aðeins að annað leiði ekki af samningum, venjum eða lögum. Skilyrði 2. gr. laganna sé þröngt en þó megi ávallt víkja frá lögunum skuldurum til hagsbóta. Það hafi þó ekki verið gert með endurútreikningi stefnda. Af framangreindu leiði að á greiðslutímabili afborgana máls þessa hafi átt að gilda þeir vextir sem um hafi verið samið í lánssamningi aðila og árleg hlutfallstala kostnaðar hafi verið reiknuð af í upphafi lántöku, sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnendur byggja kröfur sínar einnig á því að þágildandi lög nr. 121/1994, um neytendalán, hafi gengið framar lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnendur telja að lög nr. 121/1994 séu sérlög gagnvart lögum nr. 38/2001 og eigi því að ganga framar ákvæðum þeirra. Ljóst sé að neytendalánalög snúi fyrst og fremst að neytendum og hagsmunum þeirra sem gangi framar þeim almennu hagsmunum lánveitenda og annarra sem um sé fjallað í lögum nr. 38/2001. Þá séu neytendalánalög leidd af Evrópulöggjöf sem ætlað sé að tryggja samræmi og einsleitni í lagareglum meðal allra þeirra Evrópulanda sem beri skylda til að innleiða hinar sameiginlegu réttarreglur sem þannig hafi verið mótaðar í þágu neytenda. 

Auk þess vísa stefnendur til frumvarps með lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem fram komi að hefð sé fyrir þeirri reglu í íslenskum rétti að sérlög gangi framar almennum lögum. Oftar en ekki myndi EES-regla vera talin sérregla um tiltekið efni. Enn fremur mæli frumvarpið að lögum nr. 2/1993 fyrir um að innlend lög, sem eiga sér stoð í EES-samningnum, eigi að túlka sem sérreglur laga gagnvart ósamrýmanlegum yngri lögum að því leyti að yngri lög víki þeim ekki til hliðar ef árekstrar milli þeirra eiga sér stað. Í ljósi dómaframkvæmdar hér á landi sé ljóst að dómstólar teygi sig langt í að túlka lög í samræmi við ákvæði EES-réttar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 477/2002.

Þá byggja stefnendur á því að stefndi sé sérfrótt fjármálafyrirtæki sem hafi samið öll lánsgögn vegna lántöku stefnenda, m.a. lánssamning og greiðsluáætlun, og verði hann því að bera hallann af því að hafa ekki farið eftir skýrum ákvæðum 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 við gerð lánssamningsins. Þetta hafi stefndi m.a. undirgengist þegar lög nr. 179/2000 hafi tekið gildi þann 11. janúar 2001 þegar fasteignalán hafi verið felld undir lögin.

Um lagarök vísa stefnendur til 1. gr., 2. gr., 4. gr., 2. mgr. 6. gr., 9. gr., 10. gr., 11. gr., 2. mgr.14. gr. og 24. gr. laga nr. 121/1994. Jafnframt er vísað til laga nr. 2/1993, um evrópska efnahagssvæðið. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um samlagsaðild stefnenda er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi kröfu um málskostnað vísa stefnendur til 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málskostnaðarfjárhæð vísast til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að lög­gjaf­inn hafi, með setningu 4. gr. og 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010, þegar tekið afstöðu til þess hvaða vexti gengis­tryggð lán eigi að bera. Þá hafi Hæstiréttur Íslands komist að niðurstöðu um það, hvaða vexti gengistryggt lán eigi að bera, sbr. niðurstöðu réttarins í dómi í máli réttarins nr. 471/2010. Hæstiréttur hafi tekið fram að „bein og órjúfanleg tengsl“ séu milli umræddra vaxta og ákvæða í lánasamningi aðila um gengistryggingu lánsfjárhæðar og þar sem síðarnefnda ákvæðið hefði verið ógilt, væri óhjákvæmilegt að líta með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Vegna þessa, og þar sem í samningi aðila sé ákvæði um vaxtahæð, sem ekki varð beitt, hafi atvik málsins svarað til þess þegar samið hafi verið um vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru. Því hafi niðurstaðan verið sú að vextir af láninu skyldu vera samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands hafi verið sett lög nr. 151/2010 sem hafi falið í sér viðbótarákvæði við lög nr. 38/2001 um hvernig haga skyldi útreikningi og uppgjöri vegna gengistryggðra lána. Í bráða­birgða­ákvæði X í lögunum komi m.a. fram að um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskil­mála þeirra skuldbindinga, sem falli undir þá grein, fari eftir 18. gr. laganna. Í þeirri grein segi enn fremur að „[e]f samn­ingsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild skal peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr. ...“. Þá komi jafnframt fram í 18. gr. nánari ákvæði um endurreikning gengis­tryggðra lána og uppgjör þeirra. Af 18. gr. og bráðabirgðaákvæði X laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. og a-lið 2. gr. laga nr. 151/2010, leiði að þar sem gengistrygging umþrætts skuldabréfs hafi verið ólögmæt og óskuldbindandi, beri skuldabréfið vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá útgáfudegi og fram til þess dags þegar fyrri endurreikningur skuldabréfsins hafi verið gerður, eða nánar tiltekið allan þann tíma sem viðurkenningarkrafa stefnenda taki til. Fyrir­mæli 1. mgr. 18. gr., sbr. bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001, séu fortaks­laus og leiði af þeim að ákvæði umþrætts skuldabréfs um vexti verði ekki beitt eftir efni sínu. Síðar hafi Hæstiréttur kveðið upp úr um það, að kröfuhafa væri ekki heimilt að beina viðbótarkröfu um greiðslu vaxta fyrir það tímabil sem skuldari hafði kvittanir fyrir fullnaðargreiðslu vaxta. Stefndi hafi þegar endurreiknað umrætt skuldabréf í samræmi við 18. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001, og niðurstöður Hæstaréttar Íslands og sé sá útreikningur því í samræmi við ákvæði laganna. Umrætt skuldabréf sé, að því leyti sem skipti máli, keim­líkt þeirri skuld­­bindingu sem fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar Íslands í máli  réttarins nr. 471/2010 og því eigi um­ræddur dómur við um úrlausn þessa máls. Auk þess falli skuldabréfið undir 18. gr. og bráða­birgða­ákvæði X í lögum nr. 38/2001 og því eigi að fara eftir fyrir­mælum þeirra laga um endurreiknig skuldabréfsins, þ.m.t. hvaða vexti skulda­bréfið eigi að bera.

Stefndi leggur sérstaka áherslu á að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli ákvæða skuldabréfsins um vexti annars vegar, þ.e. kjörvexti af japönsku jeni og svissneskum franka, og hins vegar gengis­trygg­ing­u skuldabréfsins. Því hefði ekki verið unnt að styðjast við vaxtaákvæði skulda­bréfs­ins óbreytt eða gefa þessum orðum með skýringu það inntak, að um geti verið að ræða kjörvexti af láni í íslenskri krónu, enda vísi skuldabréfið til tveggja er­lendra mynta. Auk þess liggi fyrir í framlögðum vaxtatöflum Kaupþings banka hf. og stefnda, að vaxtakjör lána í tilteknum erlendum myntum annars vegar og svo hins vegar lána í íslenskum krónum, þ.m.t. lána á kjörvöxtum, hafi verið allt önnur. Það sama eigi við um sambærileg lán annarra lánveitenda. Þótt einungis yrði litið til þess, væri ljóst að það hafi verið bein og órjúfanleg tengsl milli gengistryggingar skuldabréfsins og fyrirmæla þess um kjörvexti af japönsku jeni og svissneskum franka. Í tengslum við ofangreint áréttar stefndi að kjörvextir Kaupþings banka hf. og stefnda hafi m.a. samanstaðið af LIBOR-vöxtum (e. London Inter Bank Offered Rate) af þeim erlendum myntum sem Kaup­þing og stefndi hafi boðið til láns með kjörvöxtum. Því eigi við þau sjónarmið, sem hafi komið komið fram í dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 471/2010, enda hafi þar verið fjallað um lán sem hafi borið LIBOR-vexti. Hafi kjör­vextir skuldabréfalána Kaupþings og stefnda í erlendum myntum, og þ. á m. umrædds skulda­bréfs, samanstaðið af i) LIBOR-vöxtum viðkomandi myntar (3 mánaða), ii) fjármögn­unar­kostn­aði bankans og iii) smásöluálagningu. Auk þessa hafi kjör­vaxtalán borið vaxtaálag sem í tilviki umrædds skuldabréfs hafi verið 1,35% við útgáfu þess og út lánstímann.

Stefndi hefur lagt fram skjöl um þann mun sem var á milli LIBOR-vaxta og kjör­vaxta á þeim tíma sem deilt er um í málinu, þ.e. frá því lánið var tekið 13. október 2006 til þess tíma er það var endurreiknað í fyrra sinn 3. febrúar 2011. Stefndi telur þau sýna að ákveðin fylgni sé milli LIBOR-vaxta og kjörvaxta hverrar myntar. Ástæða þess að dregið hafi í sundur með LIBOR-vöxtum og kjörvöxtum eftir því sem leið á tímabilið, sé sú að fjármögnunar­kostnaður Kaup­þings, og raunar allra íslensku bankanna, hafi aukist hratt í aðdraganda hrunsins í október 2008. Af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingi megi sjá hvernig skulda­tryggingar­­álag Kaupþings hafi þróast á tímabilinu 2006–2008. Skulda­tryggingarálag sé vís­bending um markaðskjör sem bönkum bjóðist á alþjóðlegum skulda­bréfa­mörkuð­um. Við samanburð á upplýsingum í gögnum málsins, sem sýni þróun skulda­trygg­ingar­álags Kaupþings og þróun LIBOR-vaxta og kjör­vaxta Kaup­þings af japönsku jeni og svissneskum franka, megi sjá samsvörun milli hækkunar á skulda­­tryggingarálagi Kaup­þings og hækkunar á kjörvöxtum á þessu tímabili. Þróun vaxta­kjara í skuldabréfaútgáfum Kaup­þings til 2008 og þeirra mikilvægustu á því ári styðji þetta einnig. Af framlögðum gögnum sé því ljóst að þegar lánskjör Kaupþings eða stefnda hafi versnað, hafi kjörvextir af umþrættu skuldabréfi hækkað, enda hafi skuldabréfið, eins og önnur lán Kaup­þings og stefnda í erlendum myntum til viðskiptavina sinna, m.a. verið fjármögnuð af lántökum Kaupþings og stefnda á markaði í erlendum myntum. Því sé ljóst að þegar litið sé til allra þessara atriða styrkist enn frekar sú niðurstaða að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli gengis­tryggingar láns stefnenda og þeirra kjörvaxta í japönsku jeni og sviss­neskum franka sem vísað sé til í umþrættu skuldabéfi.

Þá bendir stefndi á að ljóst sé af framlögðum vaxtatöflum Kaupþings banka hf. og stefnda að kjörvextir hafi verið ákveðnir fyrir hverja og eina mynt sérstaklega sem Kaup­þing og stefndi hafi stundað lánsviðskipti með. Þá sé einnig ljóst af þeim gögnum að kjörvextir af lánum í íslenskum krónum hafi verið mun hærri en kjörvextir af lánum í tilgreindum erlendum myntum (sem síðar hafi komið í ljós að voru gengistryggð lán í íslensk­um krónum), eins og eigi við um skuldabréf það sem mál þetta lýtur að. Sömu sögu sé að segja um kjörvexti annarra lánveitanda. Því liggi fyrir að stefnendur hafi aldrei getað notið þeirra kjörvaxta sem skuldabréf þeirra bar nema í tengslum við gengis­tryggt lán. Fyrir þá sök eina hafi verið fyrir hendi bein og órjúfanleg tengsl milli gengis­trygg­ingar og fyrirmæla í skuldabréfinu um kjörvexti í japönskum jenum og sviss­neskum franka.

Stefndi telur að í samræmi við allt framangreint verði að líta svo á að þar sem gengis­trygging umþrætts skuldabréfs hafi verið talin ógild, hafi forsendur brostið eða reynst rangar fyrir umsömdum vöxtum skuldabréfsins. Vaxtakjör þess hafi verið algjörlega háð gengistryggingarkröfunni. Um sé að ræða sömu stöðu og verið hafi í máli því sem lokið hafi með dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 471/2010. Því eigi lán stefnenda að bera þá vexti sem tilgreindir séu í 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, þ.e. vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Í samræmi við framangreint byggir stefndi á því að þar sem ákvæði laga nr. 38/2001, sérstaklega 4. gr., og einnig 18. gr. og bráðabirgðaákvæði X, sem voru hvort tveggja sett með lögum nr. 151/2010, séu allt yngri lagaákvæði en ákvæði laga nr. 121/1994, um neytendalán, beri að leggja ákvæði laga nr. 38/2001 til grundvallar. Auk þess verði ákvæði laga nr. 38/2001, þar sem sér­stak­lega sé tiltek­ið hvaða vexti gengistryggð lán eigi að bera, að teljast sérlög gagn­vart ákvæð­um laga nr. 121/1994. Þannig geti ætlaðir annmarkar samkvæmt lögum nr. 121/1994 á umþrættu skuldabréfi ekki leitt til þess að fallist verði á viðurkenn­ingar­kröfu stefnenda. Þá mótmælir stefndi öllum lögskýringar­sjónar­miðum sem ganga gegn framangreindum sjónarmiðum og eru reifuð í stefnu.

Framangreindu til viðbótar vísar stefndi til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 202/2014 og gerir sjónarmið réttarins fyrir niðurstöðu í því máli að sínum.  Stefndi byggir jafnframt á því að engir þeir annmarkar séu á umþrættu skuldabréfi eða greiðsluáætlun sem brjóti gegn ákvæðum laga nr. 121/1994, um neytendalán. Í skuldabréfinu komi fram allar þær upplýsingar sem þurfi til að uppfylla ákvæði 6., 9. og annarra greina laganna. Þar komi fram í fyrirsögn að lánið beri breytilega vexti og þá segi í texta þess að grunnkjörvextir séu 2,22%, „vaxta­álag nú“ sé 1,35% og „vegnir vextir samtals nú“ 3,60%. Þá komi fram við hvaða myntir lánið sé tengt, þ.e. svissneska franka (CHF) að jöfnu við japönsk jen (JPY). Jafnframt sé tiltekið að grunn­vextir svissnesks franka séu 2,91% og 1,53% fyrir japönsk jen. Í 1. tölulið skuldabréfsins segi um vexti skuldabréfsins:

„Í vexti af höfuðstól skuldar þessarar eins og hann er á hverjum tíma, ber skuld­ara að greiða breytilega vexti eins og þeir eru ákveðnar af Kaupþingi banka hf. á hverjum tíma og tekur það jafnt til kjörvaxta hverrar myntar og vaxta­álags. Kaup­þingi banka hf. er heimilt að breyta vöxtunum á 3ja mánaða fresti til samræmis við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum. Ákveði Kaup­þing banki hf. að breyta vaxtaálagi skuldabréfs þessa verður skuldara til­kynnt um það bréflega, en vilji skuldari ekki una breytingunni er honum heimilt að greiða skuld­ina upp með óbreyttu vaxta­álagi innan mánaðar frá dagssetningu til­kynn­ingar. Vexti ber að greiða eftir á, á sama tíma og afborganir. Skuldara er heim­ilt að greiða skuldina upp á gjalddögum.“

Stefndi telur að með þessu ákvæði hafi hann fullnægt þeim skyldum sem hvíli á honum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 121/1994, enda sé tekið fram í tilvís­uðum skilmálum „með hvaða hætti“ kjörvextirnir séu breytilegir og „við hvaða aðstæður þeir breytist“, sbr. 9. gr. laganna. Þá hafnar stefndi því að orðalag 9. gr. laganna gefi tilefni til þess að líta svo á að frekari kröfur séu gerðar og alls ekki þær að tilgreina þurfi þær „breytur“ sem horft sé til við vaxtaákvörðun, eins og áfrýjunarnefnd neytenda­mála hafi gert í úrskurði sínum í máli nr. 6/2009 og sem stefnendur vísi til í stefnu. Orðalag laganna eigi að skýra samkvæmt orðanna hljóðan. Þá gefi ekkert í lög­skýr­ingar­gögnum eða reglugerð nr. 377/1993 vís­bend­ingu um að veita eigi aðrar og ítarlegri upplýsingar, þ.e. þær „breytur“ sem horft sé til við vaxta­ákvörðun, en sem komi fram í tilvísuðum skilmálum. Úrskurður áfrýjunar­­­­nefndar neytenda­mála í fyrrgreindu máli hvorki hafi né eigi að hafa bein áhrif í þessu máli. Þá vísar stefndi til umfjöllunar hér að framan um kjörvexti Kaupþings og stefnda og framlagðra vaxta­taflna Kaup­þings og stefnda þar sem skýrlega komi fram hæð kjörvaxta af er­lendum myntum á hverjum tíma. Á grundvelli alls þessa eigi að hafna viðurkenningarkröfu stefnenda.

Stefndi áréttar að lög nr. 121/1994 virðist ekki sjálf gera ráð fyrir að brot gegn ákvæðum laganna leiði til ógildingar samnings­ákvæða eða að samningsákvæðum verði breytt, eins og viðurkenningarkrafa stefnenda felur í raun í sér. Lögin kveði á um að brot gegn lögunum geti leitt til skaðabóta­skyldu, sbr. 15. gr. og 27. gr. laganna, sem eitt og sér mæli gegn því að lögin geti leitt til ógildingar eða breytingar á samningsákvæðum. Fyrst ekki sé kveðið á um það með beinum hætti í lögum nr. 121/1994 að ekki sé hægt að víkja samningsskilmála til hliðar eða breyta honum á grundvelli laganna, verði það ekki gert. Þá beri að líta til þess að taka breytilegra vaxta sé heimil samkvæmt lögum og þótt eitthvað bregði út af við gerð eða kynningu þeirra, breyti það engu um að taka þeirra sé allt að einu heimil. Stefndi telur þetta eindregið mæla gegn því að hægt sé að ógilda eða breyta vaxta­ákvæðum umþrætts skuldabréfs. Það sé vandséð að lög nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, geti staðið til þess að víkja til hliðar skilmálum skuldabréfsins um vexti, eins og stefnendur geri kröfu um, en á þeim lögum sé ekki byggt í málinu. Í öllu falli virðist af lög­un­um, t.d. 14. gr. þeirra, sem stefnendur vísi einkum til í málatilbúnaði sín­um, ekki ekki gert ráð fyrir að vöxtum og lán­töku­­kostnaði sé breytt aftur í tímann, þ.e.a.s. fyrir liðið tímabil, eins og viðurkenningarkrafa stefn­enda miði við. Á grund­velli alls framangreinds eigi því að hafna viðurkenningarkröfu stefnenda.

Þá er jafnframt á því byggt að þar sem stefnendur hafi ekki að öllu leyti staðið við upphaflega skilmála skuldabréfsins og sjálfir samþykkt að breyta skilmálum þess, sé ekki hægt að verða við viður­kenningarkröfu þeirra í málinu, sbr. ákvæði 11. gr. laga nr. 121/1994. Af yfirliti um greiðslur sé ljóst að greiðslur af umþrættu skuldabréfi féllu niður á tilteknum tímabilum, þ.e. frá og með 6. október 2008 til og með 6. júlí 2009, eða a.m.k. á hluta þess tímabils. Einnig hafi upphaflegum skilmálum skuldabréfsins verið breytt með viðaukum þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstól skuldabréfsins eða afborgunum annað hvort frestað (sbr. viðaukar dagsettir 8. desember 2008, 5. maí 2009 og 25. ágúst 2009), lánið greiðslujafnað (sbr. viðauka dagsettan 2. nóvember 2009) eða samið um að stefnendur greiddu fasta fjárhæð í afborgun af láninu í tiltekinn tíma (sbr. viðauka dagsettan 16. júlí 2010). Allt hafi þetta gerst á því tímabili sem viður­kenningarkrafa stefnenda taki til, þ.e. frá 13. október 2006 til 3. febrúar 2011, og hafi óum­flýjanlega haft áhrif á afborganir og kostnað vegna lánsins og því á árlega hlut­fallstölu kostnaðar. Umrædd greiðsluáætlun hafi því lítið sem ekkert gildi. Á grundvelli framangreinds eigi að sýkna stefnda af kröfu stefnenda.

Stefndi hafnar því að unnt sé að skýra eða túlka ákvæði laga nr. 121/1994 á þann hátt að í þeim felist önnur merking en komi fram í skýru orðalagi laga­ákvæð­anna, svo sem sjá megi m.a. af niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 79/2010.

Af framangreindu sé ljóst að umrætt skuldabréf hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 121/1994. Jafnvel þótt komist yrði að því að ákvæði skulda­bréfs­ins uppfylltu ekki skilyrði 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994, standi engin rök til þess að það leiði til þess að 3,95% kostnaðarhlutfall (vextir), sem til­greind­ir séu í greiðsluáætlun skuldabréfsins, eigi að gilda á tilgreindu tímabili í viður­kenningarkröfu stefnenda.

Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir stefnda, byggist sýknukrafa hans á því að sýkna eigi hann af öllum kröfum stefnenda á grundvelli eftirfarandi samþykkis þeirra á eftirstöðvum skuldabréfs nr. 3999/18682. Stefnendur hafi enda greitt af skuldabréfinu frá síðari endur­reikningi þess, sem gerður hafi verið 18. mars 2013, til dagsins í dag. Stefndi hafi því allt eins getað gert ráð fyrir að stefnendur hefðu fallið frá fyrri mót­mæl­um sínum vegna skuldabréfsins og því samþykkt eftirstöðvar kröfunnar, eins og hún komi fram í síðari endur­reikn­ingi hennar. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglu samninga- og kröfuréttar um að samninga skuli efna, um eftirfarandi samþykki og tómlætisáhrif. Einnig er vísað til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 4. og 18. gr. laganna. Þá er vísað til laga nr. 121/1994, um neytendalán, og reglugerðar nr. 377/1993. Um máls­kostn­að vísar stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.  

V

Ágreiningslaust er að útgáfa skuldabréfs hinn 13. október 2006, sem upphaflega bar númerið 3999 en síðar 18682, hafi verið þáttur í lánssamningi stefnenda og stefnda sem fól í sér ólögmæta gengistryggingu. Þá er óumdeilt að við lántökuna var gerð greiðsluáætlun fyrir neytendalán. Gögn málsins bera með sér að greiðsluskilmálum lánsins var breytt fimm sinnum með samningum málsaðila áður en fyrri endurútreikningur lánsins fór fram 3. febrúar 2011, þ.e. 8. desember 2008, 5. maí 2009, 25. ágúst 2009, 2. nóvember 2009 og 16. júlí 2010. Jafnframt liggur fyrir og er óumdeilt að stefndi lét endurreikna lán stefnenda 3. febrúar 2011 í samræmi við ákvæði 18. gr. og bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Við endurútreikninginn var upphaflegur höfuðstóll lánsins í íslenskum krónum reiknaður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum, almennum og óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Lánið var síðan endurreiknað að nýju 18. mars 2013 til samræmis við niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 600/2011 og 464/2012.

Óumdeilt er að stefnendur hafa greitt af láninu allt frá því það var endurútreiknað í seinna skiptið hinn 18. mars 2013. Stefnendur vísa til þess að samkvæmt framlögðum endurútreikningi þeirra, sem unninn var af Hagsmunasamtökum heimilanna, hafi staða lánsins hinn 4. mars 2011 numið 10.571.340 krónum en hafi hins vegar numið 17.335.399 krónum samkvæmt endurútreikningi stefnda. Mismunurinn nemi 6.764.059 krónum stefnendum í vil og því sé mál þetta höfðað. Stefndi hefur mótmælt framlögðum útreikningum stefnenda.

Ágreiningur málsaðila lýtur þannig í meginatriðum að því, hvort umrætt skuldabréf hafi fram til 3. febrúar 2011 átt að bera 3,95% vexti, sem var árleg hlutfallstala kostnaðar við lántökuna, svo sem stefnendur byggja á, eða hvort vextir skuldabréfsins hafi á þeim tíma átt að ráðast af ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, að teknu tilliti til þess hvort stefnendur hafi fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta á tímabilinu, eins og stefndi byggir sýknukröfu sína á. Stefndi vísar þar til þess að í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands beri að horfa til ákvæða 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 við úrlausn um það, hvaða vexti eigi að reikna af skuldabréfum með ólögmætri gengistryggingu. Fyrir liggur í málinu að stefndi lítur svo á að stefnendur hafi fullnaðarkvittanir fyrir greiðslum á tímabilinu frá 19. október 2006 til 6. október 2008.

Með ákvæðum 2. gr. laga nr. 151/2010, sem lúta m.a. að breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2010, var gerð breyting á þágildandi 18. gr. laga nr. 38/2001 þannig að tekið var mið af þeim fordæmum Hæstaréttar Íslands, sem fram komu í dómum réttarins frá 16. júní 2010 og 16. september 2010, um skilning á lagagreininni. Af athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 151/2010 var lagabreytingin gerð í því augnamiði að setja skýrari reglu um tengsl verðtryggingar og vaxtaákvæða þannig að sú staðreynd verði endurspegluð í lögunum að órjúfanleg tengsl séu á milli ákvæða um verðtryggingu og samninga um vexti af fjárskuldbindingum. Þar segir jafnframt að af því leiði að ef annað hvort ákvæði samninga um vexti eða verðtryggingu (eða hvort tveggja) eru ógildanleg á grundvelli laga, verði að koma til heildarendurskoðunar í samræmi við ákvæðin í 4. gr. laganna, þ.e. að litið sé á þá aðstöðu eins og ekki hafi verið samið um tiltekna vexti eða verðtryggingu. Eftir þessa lagabreytingu segir í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild, skuli peningakrafan bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna, enda eigi önnur ákvæði greinarinnar ekki við.   

Svo sem áður er rakið var fjárhæð umrædds skuldabréfs í íslenskum krónum tengd við gengi svissnesks franka að 50% og gengi japansks jens að 50%. Óumdeilt er að skuldabréfið fól í sér gengistryggingu sem var í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001 og var því um að ræða ólögmætt samningsákvæði um endurgjald fyrir lánveitingu í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Jafnframt liggur fyrir og er óumdeilt að stefndi lét endurreikna lán stefnenda 3. febrúar 2011 í samræmi við ákvæði 18. gr. og bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Við endurútreikninginn var upphaflegur höfuðstóll lánsins í íslenskum krónum reiknaður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum, almennum og óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Lánið var síðan endurreiknað að nýju 18. mars 2013 til samræmis við niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 600/2011 og 464/2012. Við útreikninginn var tekið tillit til þess að stefnendur hefðu haft fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta lánsins fyrir tímabilið 19. október 2006 til 6. október 2008. Af hálfu stefnenda hafa ekki verið gerðar tölulegar athugasemdir við endurútreikning stefnda.

Stefndi hefur upplýst og lagt fram gögn því til stuðnings að kjörvextir Kaupþings banka hf. og stefnda hafi m.a. verið byggðir á LIBOR-vöxtum af þeim erlendu myntum sem Kaupþing banki hf. og stefndi buðu til láns með kjörvöxtum. Af framlögðum gögnum er ljóst að ákvörðun kjörvaxta í hinum erlendu myntum hafi, a.m.k. að einhverju marki, miðast við vaxtakjör lánveitandans á millibankamarkaði í hlutaðeigandi mynt og virðist það ágreiningslaust í málinu. Þá virðist jafnframt ágreiningslaust að ekki var um að ræða kjörvexti í íslenskum krónum fyrir lán af þeirri tegund sem mál þetta snýst um. Að þessu virtu er það mat dómsins að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli gengistryggingar umrædds láns og þeirra kjörvaxta í hinum erlendu myntum sem vísað var til í skuldabréfinu. Í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands er það því niðurstaða dómsins að líta beri svo á að ákvæði skuldabréfsins frá 13. október 2006, sem upphaflega bar númerið 3999 en síðar 18682, um vexti hafi verið ógilt í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001.

Það er mat dómsins að fortakslaus fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, um að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild, skuli peningakrafan bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna, sem og bráðabirgðaákvæði X sömu laga, feli í sér sérreglu sem tekur til þeirrar aðstöðu þegar ákvæði um vexti telst ógilt, svo sem á við í þessu máli. Samkvæmt almennum lögskýringarreglum geta því hvorki ákvæði þágildandi laga nr. 121/1994, um neytendalán, né ógildingarreglur laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, m.a. um sanngirnissjónarmið, ekki gengið framar þessu ákvæði. Í þessu ljósi er það mat dómsins að sjónarmið stefnenda um að lög nr. 121/1994 hafi falið í sér lágmarksvernd fyrir neytendur geti ekki haggað þeirri niðurstöðu. Þá er til þess að líta að ekki verður ráðið af lögum nr. 121/1994 að brot gegn þeim leiði sjálfkrafa til ógildingar samningsákvæða eða breytinga á þeim. Ákvæði 15. gr. og 27. gr. laganna bera hins vegar með sér að slík brot geti skapað lánveitanda skaðabótaskyldu.

Með sömu rökum verður hvorki fallist á það með stefnendum að niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nefndarinnar nr. 6/2009 né neytendalánatilskipun nr. 87/102/EBE, svo sem henni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE, sem lýtur m.a. að reglum um upplýsingaskyldu lánveitanda gagnvart neytendum að því er varðar heildarlántökukostnað, geti haft úrslitaáhrif við úrlausn ágreinings aðila í máli þessu. Loks er það niðurstaða dómsins að í ljósi framangreindrar sérreglu laga nr. 38/2001, um að reikna beri vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna þegar ákvæði skuldabréfs um vexti telst ógilt, verði heldur ekki fallist á það með stefnendum að með vísan til 2. gr. laga nr. 38/2001 beri að miða endurútreikning á láni þeirra við þá vexti sem samið hafi verið um í öndverðu að árleg hlutfallstala kostnaðar á umræddu tímabili yrði byggð á.

Þegar af framangreindum ástæðum er öllum málsástæðum stefnenda hafnað. Ágreiningslaust er í málinu að umrætt lán stefnenda var endurreiknað tvisvar sinnum í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001 sem og í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands um hvernig taka skal tillit til fullnaðarkvittana vegna greiðslu vaxta af láninu. Stefnendur hafa ekki haft uppi töluleg mótmæli við útreikning stefnda við endurreikning láns síns. Þá virðist óumdeilt að stefnendur hafi greitt af láninu frá því það var endurreiknað öðru sinni 18. mars 2013. Samkvæmt þessu og með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af kröfum stefnenda í málinu.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.   

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af öllum kröfum stefnenda, Guðmundar Þórs Péturssonar og Hörpu Guðmundsdóttur, í máli þessu.

Stefnendur greiði stefnda í sameiningu 600.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.