Mál nr. 16/2015
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
X var sakfelldur fyrir brot sem heimfært var undir 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við B, en við það notfærði X sér að B var ekki fær um að taka afstöðu til þess hvort hún vildi hafa samræði við hann sökum ölvunar og svefndrunga. Var refsing X ákveðin sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Til refsiþyngingar var litið til alvarleika brotsins og 1. og 3. tölul. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, en til refsimildunar horfði ungur aldur X, sbr. 4. tölul. 1. mgr. sömu greinar, sem var á 19. ári þegar hann framdi brotið. Var refsing X ákveðin fangelsi í tvö ár, en vegna dráttar á meðferð málsins sem X var ekki um kennt var fullnustu 21 mánaðar af refsingunni frestað skilorðsbundið. Þá var X gert að greiða B miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og þess að málinu verði vísað heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu á ný. Til vara krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu refsimildunar. Einnig krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara lækkunar hennar.
B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Þá er heimild í 3. mgr. greinarinnar, um heimvísun máls til sönnunarfærslu á ný, bundin því skilyrði að líkur séu fyrir því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins.
Fram er komið að ákærði hafði samræði við brotaþola umrætt sinn. Í hinum áfrýjaða dómi er nægilega rakinn framburður ákærða og vitna við meðferð málsins. Samkvæmt skýrslu ákærða hjá lögreglu, sem tekin var skömmu eftir atvik, mátti honum, þrátt fyrir eigin ölvun, vera ljóst að brotaþoli var ekki sökum mikillar ölvunar og svefndrunga fær um að taka afstöðu til þess hvort hún vildi hafa samræði við hann. Fyrir dómi var framburður ákærða á annan veg um atriði sem máli skiptu. Aðspurður þar gaf ákærði ekki haldbærar skýringar á þessu misræmi og mat héraðsdómur framburð hans ótrúverðugan. Einnig tók héraðsdómur með rökstuddum hætti afstöðu til trúverðugleika framburðar vitna sem þýðingu hafði um úrslit máls. Þá verður ekki séð að önnur gögn geti leitt til annarrar niðurstöðu en héraðsdómur komst að um sakfellingu ákærða.
Samkvæmt framansögðu eru ekki lagaskilyrði til að vefengja mat héraðsdóms um sakfellingu ákærða og verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.002.660 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Valtýs Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 21. nóvember 2014.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 31. október sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 19. mars 2014 á hendur ákærða; „X, kennitala [...], [...], [...], fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 8. apríl 2012, að [...], [...], haft samræði við B, kennitala [...], gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Af hálfu B, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. apríl 2012 til 29. desember 2013, en dráttarvaxta eftir þann dag samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga til greiðsludags. Einnig er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og refsing verði skilorðsbundin. Ákærði krefst þess aðallega að bótakröfu verið vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af bótakröfu og til þrautavara að bótakrafa verði verulega lækkuð. Þá krefst hann þess að málsvarnarlaun og útlagður kostnaður samkvæmt framlögðu yfirliti verði greidd úr ríkissjóði.
II
Samkvæmt málsgögnum barst lögreglu tilkynning klukkan 05.45 að morgni sunnudagsins 8. apríl 2012 þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar. Skömmu síðar fann lögregla ákærða liggjandi á gangstétt í [...] á [...] og var vitnið C með honum. C sagði ákærða hafa hringt í sig og sagt að vitnið D hefði barið hann og hefði C þá farið og hitt ákærða. Ákærði lýsti atvikum svo að hann hafi verið staddur í heimahúsi að [...], ásamt fleirum. Þar hafi hann hitt brotaþola og farið með henni inn í svefnherbergi og haft við hana samræði með vitund og vilja hennar. Eftir að hann yfirgaf herbergið og fór fram hafi vitnið D veist að honum og veitt honum áverka eftir að hafa sakað hann um að hafa nauðgað brotaþola. Skömmu síðar mættu lögreglumenn framangreindum D, B, brotaþola í máli þessu, og E. D viðurkenndi að hafa ráðist á ákærða og sagði ástæðu þess hafa verið þá að ákærði hefði haft kynmök við brotaþola þar sem hún hafi legið öldauð í rúmi sínu.
E lýsti atvikum svo fyrir lögreglu að hún hafi verið að skemmta sér á [...] á [...], ásamt brotaþola, sem hafi verið mjög ölvuð, og hafi sofnað ölvunarsvefni inni á salerni veitingastaðarins. Brotaþoli hafi verið sótt þangað inn og henni fylgt heim til sín að [...]. Klukkan 04.24 hafi E hringt í brotaþola sem þá hafi verið á baðherberginu að kasta upp. Vitnið hafi svo farið heim til brotaþola en þá hafi allir sem þar voru staddir, þ.e. hún, brotaþoli, D og ákærði, safnast saman í herbergi brotaþola sem hafi fljótlega sofnað í rúminu og virtist ákærði einnig sofna þar og þau þá farið fram. Klukkan 05.57 hafi hún ætlað að athuga með brotaþola og ákærða. Hurðin inn í herbergið hafi þá verið lokuð og þegar hún reyndi að opna var henni skellt aftur og haldið að innanverðu þannig að hún komst ekki inn. Hún hafi heyrt að aðilinn sem hélt hurðinni var að klæða sig. Síðan hafi hurðin verið opnuð og ákærði komið fram og farið fram í stofu. Vitnið kvaðst þá hafa litið inn í herbergið og séð brotaþola liggja sofandi í rúminu, nakin að neðan. Hún hafi þá vakið brotaþola og til þess hafi hún þurft að slá hana utanundir. Brotaþoli hafi farið að gráta þegar hún vaknaði og sagt vitninu frá því sem gerðist en mundi atvik óljóst.
Brotaþoli lýsti atvikum svo að hún hafi verið á veitingastaðnum [...] og hafi verið orðin töluvert ölvuð og hafi vitnið F fylgt henni heim. Þar hafi hún þurft að kasta upp en síðan farið að sofa. Vegna ölvunar muni hún óljóst eftir atvikum en ákærði hafi skyndilega verið með henni í herberginu. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa haft samfarir við ákærða en finna greinilega á kynfærum sínum að hún hafi haft samfarir nýlega. Það næsta sem hún muni er að bankað var á hurðina og hún hafi séð ákærða stökkva á hurðina til að loka henni og halda henni meðan hann klæddi sig í föt.
Eftir að framangreindur framburður brotaþola og E lá fyrir var rætt við ákærða á ný og viðurkenndi hann að hafa haft samfarir við brotaþola umrætt sinn en sagði það hafa verið með vitund og vilja hennar. Hann hafi verið á heimili brotaþola fyrr um daginn að drekka með vinum sínum. Húsið hafi verið opið og hafi hann farið þangað inn aftur um nóttina og lagst í rúmið og farið að sofa. Hann kvaðst hafa vaknað við að brotaþoli fór að kyssa hann og hafi hann þá farið að kyssa hana á móti og síðan hafi þau haft samfarir.
Fyrir liggur skýrsla lögreglu, dagsett 20. júní 2012, með ljósmyndum sem teknar voru á vettvangi. Einnig liggur fyrir skýrsla Neyðarmóttöku um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola 8. apríl 2012.
Þá liggur fyrir vottorð lögreglu um að vínandamagn í útöndunarlofti brotaþola hafi verið mælt klukkan 9.56 og 9.57 sunnudaginn 8. apríl og var niðurstaðan sú að vínandamagn væri 0,38 mg/1. Þá liggur fyrir blóð- og þvagtökuvottorð og vottorð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Af þeim gögnum má ráða að í blóðsýni sem tekið var úr ákærða klukkan 9.56 reyndist áfengismagn vera 1,11, í blóðsýni sem tekið var klukkan 10.59 var það 0,91 og í þvagsýni sem tekið var klukkan 10.25 reyndist það 0,27. Þá liggur fyrir matsgerð rannsóknastofunnar, dagsett 24. október 2013. Þar kemur fram að ekki sé hægt að reikna með nákvæmni etanólstyrk í blóði ákærða fjórar klukkustundir aftur í tímann en ætla megi að það hafi þá verið um 2,00 og að ákærði hafi þá verið ölvaður. Þá kemur þar fram að ekki sé mark takandi á niðurstöðu etanólmælingar vegna þvagsýnis þar sem það hafi verið geymt í plastdós en þær séu ekki nægilega þéttar séu sýnin geymd í einhverja mánuði. Einnig kemur þar fram að í þvagsýni hafi mælst amfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 8. apríl 2012. Hann kvaðst hafa komið til Ísafjarðar ásamt þremur félögum sínum. Fyrr um daginn hafi hann farið á heimili brotaþola ásamt m.a. G og D og hafi hann verið að drekka og þá eitthvað talað við brotaþola. Seinna hafi hann aðeins séð brotaþola á tónleikum. Eftir tónleikana hafi hann ákveðið að fara inn í húsið þar sem brotaþoli býr en viti ekki af hverju. Þar hafi hann sofnað í rúmi og þá verið einn í íbúðinni. Hann og brotaþoli hafi bæði verið þar þegar hann vaknaði við að strákarnir komu þangað inn. Síðan sagði ákærði: „Já. Svo fórum við eitthvað bara að gera og hún líka sko. Eitthvað þannig og hún var orðin mjög full sko. Ég sé rosa eftir þessu. Maður á ekki að sofa hjá stelpu sem er alveg [...] að vera áfengisdauð, hún var alveg það vel í glasi sko.“ Hann sagði brotaþola þó ekki hafa verið áfengisdauða og aðspurður af hverju hann hafi notað orðið áfengisdauð svaraði hann: „Hún var bara svo full að hún, þú veist hún var mjög full. Var samt vakandi sko.“ Síðan sagði hann: „Þetta var bara eitthvað í nokkrar mínútur eða eitthvað. Ég man það ekki. Og svo þarna svo hætti ég bara út af hún var, ég sá bara, fattaði bara hvað hún var full.“ Þá sagði ákærði: „Hætti að sofa, þú veist sofa með henni. Og hún var vinkona hennar eitthvað halla mér að hurðinni, af því að ég var ekki í buxum og fór í buxur og stökk fram eitthvað...“ „Svo bara allt í rugli út af því að þeir héldu að hún hafi verið sofandi. Þá var hún sofnuð og orðin tæp, leið greinilega illa. En ég hélt að það væri í lagi sko.“ Aðspurður hvað þau hafi verið að gera sagðist hann hafa verið að hafa samfarir við hana. Þá sagði ákærði að þetta hafi verið allt í lagi fyrst, hún hafi verið að gera líka, hafi verið eitthvað ofan á og svo hafi hún verið orðin eitthvað full þannig að hann hætti. Hann hafi fattað á meðan þetta var í gangi að hún var allt of full og hafi það lýst sér þannig að hún hafi verið eins og hún væri að byrja að sofna og einnig hafi hún lítið hreyft sig. Í lokin meðan hann hafði við hana samfarir hafi hún verið byrjuð að sofna. Þá hafi samfarirnar kannski verið búnar að standa yfir í tíu mínútur. Strákarnir hafi svo ráðist á hann af því að þeir héldu að hún hafi verið sofandi allan tímann.
Síðar í skýrslunni lýsti ákærði því svo að eftir að strákarnir voru farnir út úr herberginu hafi þau byrjað að gera eitthvað en hún samt miklu minna „en hún var alveg góð þá sko.“ Aðspurður hvað hann hafi gert svaraði hann: „...bara þú veist samfarir og þetta. Ég man voða lítið sko.“ Nánar aðspurður kvaðst ákærði bara hafa farið eitthvað inn á hana og hún hafi líka eitthvað farið að gera í klofinu á honum. Síðan hafi hann haft samfarir við hana. Stuttu seinna hafi hann fattað hvað hún væri full og kannski ekki í réttu ástandi til að hafa samfarir. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær og hvernig þau fóru úr fötunum eða hvernig brotaþoli hafi verið klædd. Aðspurður hvernig samförum milli hans og brotaþola hafi lokið sagði ákærði að vinkona hennar hafi opnað hurðina og þá hafi hann haldið hurðinni af því að hann hafi verið að fara í buxur. Hann hafi síðan sest frammi hjá strákunum og D hafi gefið honum nokkur högg af því að hann hélt að hann hefði verið að sofa hjá henni á meðan hún var sofandi. Aðspurður af hverju hann hafi haldið að hún hafi viljað þessar samfarir sagði ákærði: „...hún bara, þú veist sagði náttúrulega aldrei nei eða eitthvað þannig þá hefði ég náttúrulega stoppað.“ Þá sagði hann brotaþola einnig hafa kysst hann á móti og stunið. Þá sagði hann brotaþola eitthvað hafa verið ofan á honum meðan þau voru í samförum. Þegar ákærða var bent á að brotaþoli hafi sagt að þetta hafi verið gegn vilja hennar svaraði ákærði: „Ég vissi það ekki sko, ég bara pældi ekki í hlutunum nógu vel greinilega.“ Ákærði kvaðst sjálfur hafa drukkið of mikið þetta kvöld, bæði einn og hálfan lítra af óblönduðum landa og bjór og dáið áfengisdauða um kvöldið.
Brotaþoli, B, gaf skýrslu hjá lögreglu 8. apríl 2012. Hún kvaðst hafa verið á [...] að skemmta sér og hafa verið orðin ofurölvi og hafa dáið inni á salerni á veitingastaðnum. Vinkona hennar hafi síðan fylgt henni heim. Þar hafi hún farið inn á baðherbergi og kastað upp og dáið þar í smá stund. Síðan hafi hún farið inn í herbergi og strax dáið þar í rúminu en þar hafi ákærði einnig verið. Næst muni hún eftir sér þegar hún var að ranka við sér og þá hafi ákærði verið byrjaður að ríða henni. Hún hafi verið í miklu sjokki og ekki náð að segja neitt og haldi að hún hafi dáið aftur. Síðan muni hún eftir því að vinkona hennar, E, hafi bankað á hurðina og þá hafi ákærði hoppað upp úr rúminu og stokkið á hurðina til að passa að enginn gæti opnað. Eftir að hafa klætt sig í fötin hafi hann farið fram. Hún sagði E hafa sagt að þegar hún leit inn í herbergið hafi brotaþoli verið enn í úlpunni en ekki í neinu að neðan. E hafi sett sæng yfir hana og slegið hana til að vekja hana.
Brotaþoli kvaðst hafa verið búin að vera vakandi frá því klukkan fjögur föstudaginn 6. apríl og hafa verið að drekka og djamma og ekki náð að sofa. Aðspurð kvaðst hún ekki geta sagt hversu mikils áfengis hún hafi neytt á þessum tíma. Kvöldið áður hafi hún byrjað að drekka um klukkan átta, hálfníu, og þá verið allsgáð þegar hún byrjaði. Hún hafi drukkið vodka, tekílaskot, tópasskot og bjór. Kvað hún sig minna að hún hafi drukkið hálfan lítra af vodka þetta kvöld. Um klukkan tvö um nóttina hafi hún hætt að drekka og þá verið orðin mjög ölvuð. Hún sagði H, frænku sína, hafa farið með hana út af salerninu á [...] og muni hún eftir því þegar verið var að halda á henni upp stigann. F hafi síðan labbað með henni heim en ekki farið inn með henni. Hún kvaðst hafa tekið eftir ákærða í rúminu þegar hún lagðist upp í það en talið að hann væri dauður eða sofandi og hafi hann ekkert bært á sér. Hún hafi hitt ákærða fyrr um kvöldið þegar hann kom heim til hennar og hafi hún einnig heyrt það um kvöldið að hann hafi verið orðinn mjög fullur. Þegar hún fór að sofa hafi hún verið í úlpu sem rennd hafi verið upp, með klút, í joggingbuxum og í svörtum bolakjól undir úlpunni. Þegar hún vaknaði við að bankað var á hurðina og ákærði stökk til og hélt hurðinni, hafi hún heyrt eins og ákærði væri að klæða sig í föt. Hún kvaðst hafa fundið mikið til í leggöngunum þegar hún vaknaði og fundið að hún hafi haft samfarir. Þegar E hafi sett sængina yfir hana hafi hún fundið að hún var ekki í fötum að neðan. Hún kvaðst hafa legið einhvern veginn á hlið þegar hún vaknaði og hafa snúið baki í svefnherbergishurðina. E hafi síðan farið fram og náð í D sem hafi komið inn til hennar en síðan allt í einu farið fram. Hann og E hafi síðan bent henni á að tala við lækni. Hún sagði samræðið ekki hafa verið með vilja hennar.
Skýrsla var tekin á ný af brotaþola 13. apríl 2012. Hún lýsti atvikum á sama hátt og í fyrri skýrslu en taldi að hún hafi byrjað að drekka um klukkan tíu kvöldið áður, föstudagskvöldið. Þá kvaðst hún ekkert hafa sofið aðfaranótt laugardagsins. Einnig kom fram hjá henni að hún hafi skilið húsið eftir ólæst. Þá hafi sími hringt inni á baðherberginu, þegar hún var þar eftir að hún kom heim, og hafi hún svarað og talið þetta vera sinn síma. Það hafi verið D sem hringdi og hafi hann sagt henni að þau hafi talað eitthvað saman en hún muni ekki eftir því. Þá sagði hún ákærða hafa öskrað eitthvað „upptekinn eða þú veist“ þegar hann stökk fram þegar vinkona hennar bankaði á hurðina. Einnig kvaðst hún muna eftir því að ákærði var að basla við „að koma sér upp“ og þá hafi hún rumskað og einnig þegar hann hafi verið ofan á henni. Aðspurð hvort samræði hennar og ákærða hafi verið gegn vilja hennar sagðist brotaþoli ekki muna eftir því að hafa sagt neitt við hann eða gefið honum til kynna að hún vildi þetta enda verið „dauð“.
Loks var tekin skýrsla af brotaþola 19. september 2013. Brotaþola var þá kynntur framburður vitnisins D hjá lögreglu 30. apríl 2012. Hún sagði það ekki vera rétt að hún hefði verið með fulla meðvitund þegar D kom. Hún muni ekki hvað þau hafi verið að tala um þá nema að þau hafi verið að spyrja um einhverja hurð. Þá kvaðst hún ekki muna eftir því að hafa legið með höfuðið ofan á ákærða þegar þau fóru eða að hafa haldið utan um hann. Hún sagði E hafa sagt sér að þau hafi ekki skilið hana þegar hún var að reyna að tala við þau. Þá sagði hún að það markmið hennar á hátíðinni að vera með sjö karlmönnum á sjö dögum, sem D hafi sagt frá, hafi bara verið grín milli hennar og vinkonu hennar en D hafi heyrt í þeim.
G gaf skýrslu hjá lögreglu 9. apríl 2012. Hann sagðist hafa verið með frænda brotaþola, D, og hafa gist heima hjá brotaþola. Þá sé hann vinur ákærða. Hann sagðist hafa farið heim til brotaþola að morgni sunnudagsins ásamt D og E. Ákærði hafi þá verið liggjandi í rúminu ásamt brotaþola og hafi þau bæði verið undir áhrifum áfengis en verið vakandi. Hann hafi síðan farið í tölvuna og verið að hlusta á tónlist. E hafi svo ætlað að fara inn í herbergið en ákærði ýtt á hurðina. E hafi svo talað við D sem hafi farið inn í herbergið. Ákærði hafi komið fram og þá hafi D komið og kýlt hann þar sem hann átti að hafa sofið hjá brotaþola meðan hún var víndauð. Hann sagði brotaþola hafa verið grátandi og hrædda eftir atvikið.
D gaf skýrslu hjá lögreglu 9. apríl 2012. Þar kemur fram að hann þekki ákærða í gegnum frænda sinn, vitnið G. Hann lýsti atvikum svo að þegar hann kom á heimili brotaþola að morgni sunnudagsins ásamt G og E hafi ákærði og brotaþoli legið saman uppi í rúmi. Í byrjun hafi þau bæði verið sofandi og hafi hún verið hálfrænulaus en þau hafi ætlað að tala við hana. Hún hafi legið nær dyrunum og verið í fötunum og einnig í úlpu og með sæng yfir sér og telur sig hafa breitt sængina yfir hana. Ákærði hafi verið klæddur í bol en að öðru leyti verið undir sænginni. Þau hafi síðan farið fram. Seinna hafi E ætlað að fara inn í herbergið til að athuga með brotaþola en þá hafi hún ekki komist inn þar sem hurðinni hafi verið haldið. Einnig hafi hún heyrt ákærða öskra eitthvað. E hafi þá snúið við en ákærði komið fram stuttu seinna. E hafi þá farið inn í herbergið en stuttu seinna kallað á hann og þegar hann kom inn í herbergið hafi brotaþoli verið hágrátandi og í sjokki. Hún hafi þá legið þversum skakkt yfir rúmið og snéru fætur í átt að hurðinni. Hún hafi verið með sæng yfir sér en ennþá í úlpunni. Brotaþoli hafi náð að segja E hvað gerðist og E hafi sagt honum að brotaþola hafi verið nauðgað. Í kjölfar þess fóru þau með brotaþola áleiðis á spítalann.
Að beiðni D var tekin símaskýrsla af honum 30. apríl 2012. Hann sagði ýmislegt hafa rifjast betur upp fyrir sér frá því að hann gaf skýrslu síðast auk þess sem hann vildi segja frá samtölum sem hann hafi átt við brotaþola. Hann sagði að eftir á að hyggja væri málið ekki eins alvarlegt og það hafi litið út í fyrstu. Hann sagði ákærða og brotaþola hafa verið ein heima hjá brotaþola þegar hann kom þangað. Þau hafi legið saman uppi í rúmi og hafi brotaþoli verið með fulla meðvitund. Hún hafi legið með höfuðið á afturenda ákærða og haldið utan um hann. Þá finnist honum frásagnir brotaþola og E um það sem gerðist ekki koma heim og saman. Hann sagði þau bæði hafa verið vakandi þegar hann fór út úr herberginu og hafi hann talað við þau bæði. Honum hafi fundist eins og þau hafi ætlað að sofa saman. Þá sagði hann brotaþola hafa haft það markmið yfir hátíðina að sofa hjá sjö karlmönnum á jafnmörgum dögum og hafi hún verið búin að vera með þremur dagana á undan.
F lýsti því í skýrslu sem hún gaf 25. september 2013 að hún hafi hitt brotaþola á skemmtistaðnum [...] eftir tónleika að kvöldi 8. apríl. Hún hafi þurft að halda á brotaþola heim vegna ölvunar hennar. Brotaþoli hafi verið út úr heiminum en farið að koma til sjálfs sín á leiðinni en hún hafi kastað upp og orðið hressari við það og meðvitaðri.
III
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði lýsti því í framburði sínum fyrir dómi að hann hafi, þegar atvik gerðust, verið á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður. Hann kvaðst hafa verið búinn að koma heim til brotaþola tvisvar á laugardeginum og verið að drekka þar ásamt félögum sínum. Hann hafi allt í einu verið orðinn mjög drukkinn og hafi dáið áfengisdauða á tónleikasvæðinu. Þegar hann vaknaði hafi hann komið sér heim til brotaþola þar sem það var fyrsti staðurinn sem honum datt í hug að hann gæti sofið á. Hann kvaðst ekki hafa verið með leyfi til þess en hafði vonast til þess að einhver væri þar. Húsið hafi reynst vera ólæst og hafi hann farið þar inn og sofnað í rúmi. Hann kvaðst ekki hafa verið að vonast sérstaklega til að hitta brotaþola og ekki haft sérstakan kynferðislegan áhuga á henni og hafi hún ekki sýnt honum slíkan áhuga. Hann hafi vaknað þegar strákarnir komu inn og hafi brotaþoli þá legið hjá honum, á fótunum og lærunum á honum, og hafi strákarnir verið að spyrja brotaþola um eitthvað. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að brotaþoli hafi tekið þátt í samræðum. Þeir hafi síðan farið fram og skömmu síðar hafi hann og brotaþoli farið í sleik. Hann hafi líka farið inn á hana, og eigi þá við inn fyrir nærbuxurnar, og hún inn á hann og runkað honum. Hann hafi líka puttað hana, fróað henni. Síðan hafi þau farið að stunda kynlíf. Hann hafi klætt sig úr buxum og nærbuxum og einnig hana, og minni hann að hún hafi þá lyft rassinum. Hvorugt þeirra hafi farið úr að ofan. Síðan hafi þau haft samfarir en hann hafi ekki haft sáðlát. Á einhverjum tímapunkti hafi hún verið ofan á honum og hann líka ofan á henni. Þegar hún var ofan á hafi hann verið einhvern veginn liggjandi en hún mitt á milli þess að vera liggjandi og sitjandi. Hann kvaðst lítið muna eftir þessu. Þá minni hann að þau hafi verið eitthvað á hlið að stunda kynlíf og þá hafi hann verið fyrir aftan hana. Átta til tíu mínútum seinna hafi E komið inn og þá hafi hann haldið hurðinni fastri á meðan hann klæddi sig í föt. Hann kvaðst halda að hún hafi bankað fyrst. Einnig kvaðst hann halda að E hafi sótt D eftir að hann fór fram og farið með D inn í herbergið. Skömmu seinna hafi D ráðist á hann og hent honum út og hafi hann þá hringt í C og þeir hafi síðan hist og þá ákveðið að kæra D til lögreglu.
Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa notað fíkniefni þetta kvöld en hann hafi verið búinn að drekka mikið og kannski sofið í um 6 klukkustundir aðfaranótt laugardags. Ákærði kvað sig ráma í að konan uppi hafi komið niður og talað við hann. Hann hafi vaknað þegar strákarnir komu og þá hafi hann séð að brotaþoli var þarna. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að brotaþoli hafi verið að kasta upp eða að tala í símann. Hún hafi verið drukkin en einnig hann og hafi hann ekki upplifað hana sem ofurölvi eða að hún hafi ekki vitað hvað hún var að gera. Hún hafi getað talað, hreyft sig og var alveg í lagi. Hann hafi aldrei talið hana vera áfengisdauða og kvaðst halda að þau hafi verið álíka drukkin. Aðspurður sagði ákærði að hann hafi ekkert frekar stýrt en brotaþoli þegar þau höfðu samfarir. Hann kvaðst ekki beint muna eftir því að hafa fært hana til að skipta um stellingar og taldi að brotaþoli hafi verið vakandi allan tímann meðan á þessu stóð. Þau hafi ekkert talað saman en hann hafi þó á einhverjum tímapunkti spurt hana: „eitthvað svona í þá áttina. Og þú veist, ertu ekki alveg, æi, eitthvað vil ekki gera eitthvað sem þú vilt ekki gera og þá hún bara eitthvað, uhum, eða þú veist.“ Aðspurður hvort honum hafi á einhverjum tímapunkti fundist eins og hann væri hugsanlega að gera eitthvað sem hann væri ekki viss um hvort hún vildi svaraði ákærði því neitandi og sagði síðan: „...æi við vorum náttúrulega mjög drukkin og svona þannig að, æi ég veit það ekki. Þannig að ég tók því aldrei þannig að hún vildi þetta ekki.“ Þá sagði ákærði að brotaþoli hafi verið stynjandi og eins og það væri allt í góðu og að hún hafi verið með opin augun, a.m.k. þegar hann var með augun opin, en hann hafi oft verið með augun lokuð líka. Ákærði kvaðst ekki vera viss um það hvort þau hafi verið hætt að stunda kynlíf þegar vinkona brotaþola kom inn en halda það en ekki muna af hverju þau voru hætt. Hann hafi verið orðinn fullur og þreyttur líka, „ég bara hef ekki nennt þessu eða eitthvað“. Ákærði kvaðst vera viss um að brotaþoli var ekki sofandi þegar þau byrjuðu í sleik og kvaðst halda að hún hafi ekkert sofnað. Ákærði kvaðst halda að brotaþoli hafi verið í bol að ofan og ekki muna eftir því að hún hafi verið í úlpu. Ákærði kvaðst ekki muna hvar hann var þegar það var bankað á hurðina. Hann kvaðst eiginlega ekki muna eftir bankinu en muna eftir að hann fór á hurðina. Aðspurður sagðist hann ekki hafa viljað að viðkomandi kæmi inn þar sem hann var „á typpinu“. Þá sagði hann sængina hafa verið á gólfinu og því hefði hann ekki getað breitt yfir sig. Hann kvaðst ekki vita hvernig ástandið á brotaþola var á þessum tíma.
Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu 8. apríl 2012 þar sem hann er spurður hvort brotaþoli hafi sofnað og ákærði svarar: „Já, svo fórum við eitthvað, bara að gera, og hún líka sko, eitthvað þannig og hún var orðin líka, hún var orðin mjög full sko. Ég sé rosa eftir þessu. Maður á ekki að sofa hjá stelpu sem er alveg...að vera áfengisdauð. Hún var alveg vel í glasi sko“. Þessu svaraði ákærði svo að hún hafi aldrei verið sofandi meðan á þessu stóð en þau hafi bæði verið vel drukkin. Þá var borinn undir ákærða eftirfarandi framburður hans í sömu skýrslu: „Hún var bara svo full að hún þú veist, var mjög, hún var mjög full var samt vakandi sko, ég lofa að ég myndi aldrei sofa hjá einhverri sofandi stelpu sko, eða þú veist þannig. Gera eitthvað við hana þannig ef hún væri sofandi sko. Þetta var bara eitthvað í nokkrar mínútur eða eitthvað, ég man það ekki, og svo þarna, svo hætti ég bara út af því hún var, ég sá bara, fattaði bara hvað hún var full“. Var ákærði spurður hvort hann hafi áttað sig á hvað hún var drukkin meðan þau höfðu samfarir og svaraði ákærði: „Ja, ég samt, eins og ég sagði áðan, vorum við bæði mjög drukkin. Ég var ekkert, en, já, ekkert eins og það væri, ekkert of.“ Aðspurður hvort hann kannist ekki nú við þessa lýsingu sína kvaðst ákærði ekki telja þetta hafa verið svona og að þetta hafi rifjast upp fyrir honum dagana á eftir. Þegar hann gaf skýrsluna hafi hann verið ónýtur og ekki hugsað „alveg steit“. Hann kvaðst ekki muna þetta þannig að hann hafi endilega hætt af því að hún hafi verið svo drukkin. Þá var borinn undir ákærða framburður hans í sömu skýrslu: „Svo bara allt í rugli út af því að þeir héldu að hún hafi verið sofandi. Þá var hún sofnuð og eitthvað orðin tæp, leið greinilega eitthvað illa“. Sagðist ákærði þá halda að þetta hafi verið þegar hann var kominn fram.
Þá var borinn undir ákærða framburður hans úr sömu skýrslu: „Samfarir sko og hérna og það var allt í lagi alla vega fyrst sko. Og hérna ég náttúrulega, ég veit að maður á ekki að gera, sofa hjá stelpu sem er svona full sko, en ég hélt að það væri allt í lagi“. Ákærði kvaðst hafa haldið að hún hafi verið „alveg ókey með þetta en síðan ætlaði hún að kæra mig, mér fannst það bara mjög skrýtið. Og eins og ég hef sagt áðan, þá var hún aldrei brennivínsdauð...“ Ákærði var spurður að því hvort hann eigi við brotaþola þegar hann segi að maður eigi ekki að sofa hjá stelpu sem er svona full. Þessu svarar ákærði játandi en sagði hana samt ekkert hafa verið of fulla.
Þá var borinn undir ákærða framburður hans í sömu skýrslu: „Ég hélt að þetta væri allt í lagi, nema bara svo fattaði ég, er á fullu að þetta er allt of full stelpa“. Ákærði var spurður hvenær hann hafi fattað þetta og svaraði hann því til að hann vissi það ekki og muni lítið eftir því. Þá er borinn undir ákærða sá framburður hans að þetta ástand brotaþola hafi á þessum tíma verið þannig að hún hafi hreyft sig lítið og sagði ákærði að kannski hafi honum fundist hún vera of drukkin en hann viti það ekki. Þá kvaðst hann ekki geta útskýrt hvað hann átti við með þeim framburði sínum hjá lögreglu að hún hafi verið orðin eitthvað tæp.
Þá gat ákærði ekki gefið skýringu á þeim framburði sínum hjá lögreglu að það hafi verið allt í lagi í byrjun en svo var hún bara orðin of full. Þá var borinn undir ákærða sá framburður hans hjá lögreglu að segjast greinilega ekki hafa pælt nógu vel í hlutunum þegar borinn var undir hann framburður brotaþola um að þetta hafi verið gegn vilja hennar. Hann sagði hana alla vega hafa verið vakandi á meðan á þessu stóð. Þá kvaðst ákærði hafa verið í sjokki, í kvíðakasti þegar hann gaf skýrsluna og hafi liðið illa og ekkert áttað sig á því hvað var í gangi. Ákærði kvaðst telja að brotaþoli hafi verið í ástandi til að gefa samþykki sitt þegar atvik gerðust og samfarirnar hafi verið með vitund og vilja hennar. Aðspurður kveðst ákærði vera 170 sm á hæð og hafa þegar atvik gerðust verið 67-68 kg á þyngd.
Brotaþoli, B, lýsti atvikum svo að hún hafi umrætt sinn verið búin að drekka frá því á þriðjudeginum og ekkert hafa sofið aðfaranótt laugardags. Á laugardeginum hafi verið ennþá að renna af henni, hún hafi lítið eða ekkert borðað yfir daginn og um kvöldið hafi hún byrjað tiltölulega snemma að drekka aftur og drukkið mikið, m.a. vodka og tekílaskot. Þegar hún fór á tónleikana hafi hún verið orðin mjög full. Samt hafi hún ákveðið að fara á ball á eftir þótt hún hafi eiginlega verið bara „út úr“ og verið farin að gleyma öllu. Hún hafi farið með leigubifreið niður í bæ og allt í einu verið komin inn á [...] og muni hún eftir sér á barnum og með tvö glös í höndunum og að hafa sturtað í sig úr öðru glasinu. Síðan muni hún eftir því að hafa dáið inni á salerni á [...] og síðan rumskað fyrir utan [...] þar sem vinkona hennar, vitnið F, hafi að beiðni brotaþola tekið að sér að fylgja henni heim. Hún kvaðst ekki muna eftir að hafa talað við F á leiðinni eða að hafa kastað upp. Hún muni að F hafi hvatt hana áfram og fylgt henni niður stigann heima en síðan farið. Íbúðin hafi verið ólæst. Þegar hún kom inn hafi hún þurft að æla og þá hlaupið inn á baðherbergi og síðan dáið þar. Hún hafi rumskað þegar sími hringdi og svarað og haldið að þetta væri hennar sími en ekki muna eftir að hafa talað í símann eða hver hafi hringt og síðan hafi hún dáið aftur. Hún kvaðst halda að hún hafi sjálf farið inn í herbergi en henni hafi verið sagt að vitnið E hafi fylgt henni þangað. Inni í herberginu hafi verið einhver manneskja við hliðina á henni en hún hafi þá ekkert hugsað út í það og verið út úr heiminum og ætlað að deyja eða sofna. Hún hafi lagst í rúmið í öllum fötunum og enn verið í úlpunni og einnig í buxum, peysubol, kjól og sokkum. D og E hafi talað eitthvað við hana inni í herbergi og spurt um einhverja hurð á herbergi sem þau hafi ætlað að sofa í og hafi hún eitthvað verið að reyna að svara þeim. Þá telji hún sig hafa dottið út af á meðan þau voru enn inni í herberginu. Síðan muni hún eftir því að hafa verið hreyfð til en ekki hafa skynjað hvað var í gangi. Hún hafi legið í rúminu og fundið að það var verið að reyna að snúa henni og færa hana til. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað var í gangi og ekki fundið að verið var að hafa við hana samfarir. Hún hafi fundið að það var einhver að reyna að „setja mig ofan á sig“. Hún hafi ekki verið „aktív í þessu“ og eiginlega lognast út af. Hún hafi ekki verið með meðvitund þannig að það „er ekki að virka hjá gaurnum sem sagt, ég ligg bara einhvern veginn og er bara svona yfir honum bara þú veist, heng bara yfir honum einhvern veginn“.
Brotaþoli kvaðst annaðhvort muna eftir því að E kom inn í herbergið og sló hana til að reyna að vekja hana eða telja að E hafi sagt henni þetta. Þegar borinn var undir brotaþola framburður hennar frá 8. apríl 2012, þar sem hún lýsti því að hún muni eftir því að hafa heyrt E banka og að ákærði hafi þá hoppað beint á hurðina og öskrað og vitninu hafi heyrst ákærði vera að klæða sig í föt, kvaðst hún ekki muna þetta svona núna en þetta gæti verið í samræmi við það sem hún mundi þegar hún gaf skýrsluna. E hafi hent yfir hana sænginni og þá hafi vitnið fundið að hún var ekki í neinu að neðan og var með rosalega verki í klofinu. E hafi farið að gráta og þá hafi brotaþoli orðið hrædd og einnig farið að gráta. Síðan kom D og reyndi hann líka að tala við hana. Síðan muni hún eftir því að þau voru að ganga af stað niður á sjúkrahús en hún hafi þá verið búin að ákveða að láta tékka á þessu. Þá muni hún eftir því að hafa dáið þegar hún var í skoðun, alla vega muni hún ekki eftir sér um tíma og þegar hún rumskaði hafi hún verið í stofunni hjá lækninum. Brotaþoli sagði ákærða hafa komið heim til hennar fyrr um daginn með D og hafi hún lítil samskipti haft við hann þá. Hún kvaðst hafa leyft D að gista heima hjá sér þessa nótt en ekki félögum hans og ekki ákærða. Hún kvaðst ekki hafa upplifað það að ákærði hefði einhvern áhuga á henni og hún hafi ekki haft áhuga á honum. Hún kvaðst hafa hitt ákærða eitthvað á hátíðinni.
Brotaþoli sagði rúmið hafa verið um 160 sm á breidd og í því hafi verið tvær sængur. Aðspurð kvaðst hún ekki muna eftir kossum milli hennar og ákærða eða að þau hafi fróað hvort öðru. Hún muni ekki eftir að ákærði hafi verið ofan á henni en kveðst hafa skynjað hann bara út um allt og hafi það verið áður en reynt var að færa hana ofan á ákærða. Þá kvaðst hún ekki muna eftir að hafa legið á hlið eða hvernig birtan í herberginu var. Þá kvaðst hún muna eftir að hafa reynt að opna augun og horfa í kringum sig en ennþá verið mjög drukkin. Hún kvaðst ekki muna eftir að hafa talað eitthvað við ákærða. Hún hafi ekki orðið vör við þegar ákærði fór út úr herberginu en muni eftir því að hafa rumskað þegar E var að slá hana utanundir til að reyna að vekja hana. Þá hafi hún legið á hlið og snúið í átt að svefnherbergishurðinni. Hún hafi ennþá verið í úlpunni og kvaðst hún ekki muna eftir að hafa farið úr að neðan eða að einhver hafi klætt hana úr. Hún hafi þá áttað sig á því að eitthvað hafi gerst og talið að einhver hafi haft samfarir við hana. Hún kvaðst lítið muna eftir því sem hún ræddi við E en muna að hún hafi sjálf ákveðið að fara til læknis. D hafi einnig komið inn í herbergið og spurt hana að einhverju sem hún muni ekki og síðan hafi hann farið fram aftur.
Brotaþoli kvaðst hafa verið dofin og hrædd eftir atvikið og ekki þorað að vera ein og hafi vinkona hennar gist hjá henni. Á endanum hafi hún flutt úr íbúðinni þar sem henni hafi þótt óþægilegt að vera þar. Hún hafi ekki treyst sér til að fá son sinn strax heim til sín eða að fara í vinnu. Þá hafi hún verið með ógleði. Hún hafi leitað sér aðstoðar hjá [...]. Hún hafi alltaf verið hrædd, hafi harðlæst öllu og verið mjög stressuð. Þá hafi hún átt erfitt með að sofa. Þá sagði hún atvikið enn í dag hafa áhrif á sig. Hún eigi erfitt með að treysta fólki, finni stundum til líkamlegrar vanlíðunar og hafi dæmt sjálfa sig mikið og fundist þetta vera sér að kenna af því að hún var að drekka. Þá kvaðst hún ekki muna eftir að hafa talað við ákærða þegar atvik gerðust eða að hafa reynt að stoppa hann á einhvern hátt af. Hún hafi verið „út úr heiminum“. Brotaþoli kvaðst ennþá hafa fundið á sér þegar hún vaknaði en sjokkið hafi einnig verið mikið. Aðspurð kvaðst hún hafa verið um 88 kg að þyngd þegar atvik gerðust.
Vitnið I kveðst hafa verið leigusali brotaþola sem hafi, þegar atvik gerðust, búið í kjallara hússins en vitnið á efri hæðinni. Innangengt sé á milli íbúðanna en læstar hurðir úr þeim inn á sameiginlegan stigagang. Umrædda nótt hafi hann og fjölskylda hans verið að koma heim eftir miðnætti, líklega milli eitt og þrjú, og þá orðið vör við að einhver hafi farið inn í íbúð þeirra. Vitnið og eiginkona hans, vitnið J, hafi heyrt einhvern umgang niðri og þá ákveðið að tala við brotaþola en drengur hafi komið þar til dyra. Hann hafi sagt að brotaþoli væri sofandi inni í rúmi og meinað þeim að fara inn. Þá hafi hann sagt að hann væri frændi brotaþola. Hann sagði manninn hafa verið í hettupeysu, meðalmann á hæð, a.m.k. minni en vitnið sem kvaðst vera um 190 sm á hæð, með dökkt hár, ekki sítt.
Vitnið J kvaðst hafa verið leigusali brotaþola að [...] þegar atvik gerðust og hafi hún búið á efri hæð hússins. Þessa nótt, milli klukkan eitt og þrjú, hafi hún og eiginmaður hennar orðið þess vör að einhver hafði komið inn í íbúð þeirra. Þau hafi því farið niður til brotaþola og bankað og hafi drengur komið til dyra sem hún taldi sig hafa séð áður niðri í bæ. Hann hafi verið grannur, dökkhærður, í rauðri hettupeysu, kannski um 180 sm á hæð og hafi verið hrokafullur og með yfirgang og sagt að þeim kæmi ekki við hvort brotaþoli væri heima. Hún hafi reynt að kíkja inn en ekkert séð þar sem maðurinn hafi staðið fyrir. Þegar þau hafi spurt hann af hverju hann væri þarna hafi hann sagt að hann væri frændi brotaþola en hafi samt kallað hana K. Hún hafi svo talað við brotaþola daginn eftir og þá hafi henni ekki liðið vel og hafi vitninu fundist augljóst að hún hafði lent í einhverju. Hún hafi verið hrædd og vildi ekki vera í íbúðinni.
Vitnið L læknir kvaðst hafa skoðað brotaþola við komu á neyðarmóttöku umrætt sinn og hafa m.a. skráð niður frásögn hennar um atvik og ritað um það skýrslu. Hann sagði brotaþola hafa verið drukkna og því hafi verið erfitt að dæma ástand hennar. Hann minnti að hún hafi verið miður sín. Hann sagði áfengisneyslu brotaþola geta verið skýringu á því að hún muni einungis brot af atburðarásinni. Það geti verið skýring á því að hún hafi upplifað ákveðna hluti þrátt fyrir að erfitt hafi verið að ná sambandi við hana. Þá taldi hann skýringuna á því að brotaþoli mundi atvik illa vera augljósa; svefndrungi og ölvun. Þá kvaðst hann einnig hafa sinnt ákærða þessa nótt og sagði hann einnig hafa verið ölvaðan en ekki eins og brotaþoli. Þá kvaðst hann venjulega vera í sambandi við lögreglu og sérfræðing á bakvakt varðandi það hvaða rannsóknir rétt væri að framkvæma hverju sinni. Þá var vitnið spurt, með hliðsjón af því að brotaþoli er 165,5 sm á hæð og var og 88 kg þegar atvik gerðust en ákærði 170 sm á hæð og 67-68 kg, hvort honum finnist geta gengið upp, sérstaklega m.v. þyngdarmun, að ákærði hafi getað snúið brotaþola á alla vegu, byrjað ofan á, snúið henni á hlið og svo næst ofan á, miðað við lýsingar brotaþola. Þessu svaraði vitnið þannig að það megi alveg hugsa sér það að hraustur karlmaður ráði við það svona með ákveðnum herkjum. Aðspurt sagði vitnið að upplýsingar um það hvenær ætlað brot var framið, sem skráðar eru í skýrslu hans, komi frá brotaþola.
Vitnið M hjúkrunarfræðingur kvaðst hafa verið kölluð út til aðstoðar við skoðun á brotaþola um fimm- eða sexleytið um morguninn og þá verið öðrum hjúkrunarfræðingi innan handar. Hún hafi verið áhorfandi en ekki sinnt skoðun brotaþola. Hún kvaðst hafa verið þarna inni í 5 eða 10 mínútur en þá þurft frá að hverfa vegna annars sjúklings. Hún sagði að sér hafi virst brotaþoli hafa verið mjög yfirveguð og róleg. Hún hafi verið drukkin en samt gefið greinargóð svör. Þá sagði hún brotaþola hafa sofnað fljótlega eftir að byrjað var að framkvæma skoðunina.
Vitnið N lögreglumaður sagði lögreglu hafa klukkan rúmlega sex fengið tilkynningu frá fjarskiptamiðstöðinni um blóðugan mann sem hafi legið í götunni. Hann hafi farið á vettvang ásamt O lögreglumanni og P lögregluvarðstjóra. Þar hafi þeir hitt ákærða og vitnið G. Ákærði var nokkuð blóðugur í andliti og á höndum og með einhverja áverka. Hann sagðist hafa orðið fyrir líkamsárás í húsi á [...] og að vitnið D hafi ráðist á hann. Ákveðið hafi verið að fara með hann á sjúkrahús og hafi C komið með til þess að sýna þeim vettvang. Á leiðinni hafi þeir hitt tvær stelpur, brotaþola og vitnin E og D sem hafi strax viðurkennt árásina og sagt ákærða hafa misnotað sér kynferðislega ástand brotaþola þegar hún lá áfengisdauð í rúmi. Hann sagði að frásögn af atvikum hafi komið frá E, þegar þeir voru á leið með þær á sjúkrahúsið. Hann sagði E hafa sagt að brotaþoli hefði drukkið mikið fyrr um kvöldið og verið dauð uppi í rúmi og hafi hún og ákærði verið tvö inni í herbergi þegar atvik gerðust. Vitnið sagði brotaþola hafa verið undir áhrifum áfengis og ekki hafa talað mikið í lögreglubifreiðinni. Ákærði hafi verið samvinnuþýður og sagt þetta hafa gerst með samþykki beggja og sagði ítrekað að hann væri saklaus. Aðspurður sagði vitnið að kannski hafi ákærði verið meira undir áhrifum áfengis en brotaþoli þar sem hann hafi oft talað samhengislaust og stundum við sjálfan sig. Taldi vitnið að ákærði hafi jafnvel verið í annarlegu ástandi, hugsanlega eftir árásina.
Vitnið Q, deildarstjóri hjá Rannsóknastofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti matsgerð sína frá 24. október 2013 vegna rannsóknar á blóðsýni frá ákærða. Aðspurð um fyrirvara í matsgerð um að ekki sé hægt að reikna etanólstyrk í blóði með nákvæmni um fjórar klukkustundir aftur í tímann sagði vitnið að því lengri tími sem liði milli þess tímamarks sem miðað er við og töku blóðsýnis þeim mun meiri sé óvissan. Hún sagði blóðsýni geymast í ísskáp en etanólmagn lækka í blóðsýnum við geymslu. Þá sagði hún sýni almennt vera varðveitt í kæliskáp hjá lögreglu en muni ekki eftir því að eitthvað hafi komið fram um þetta í þeim gögnum sem bárust með sýnunum. Þá sagði vitnið að rannsóknastofan hefði ekki forsendur til að meta niðurstöður byggðar á mælingum etanóls í útöndunarlofti.
Vitnið C kvaðst hafa verið með ákærða á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður. Þeir hafi verið með vitninu D heima hjá brotaþola að drekka áður en þeir fóru á tónleikana á laugardeginum og síðan hafi hann og ákærði farið í sína áttina hvor. Ákærði hafi svo hringt í hann og þeir hist og þá hafi ákærði verið bólginn á auga og blætt hafi úr honum. Ákærði hafi sagt að hann hafi verið heima hjá brotaþola og að D, frændi hennar, hafi kýlt hann eftir að hann hafði haft samræði við brotaþola. Síðar í skýrslunni kvaðst vitnið ekki vera visst um hvort ákærði hafi sagt þetta þá eða seinna en einnig gæti verið að hann hafi sagt að D hafi kennt honum um að hafa nauðgað frænku sinni eða að hún hafi sagt það. Vitnið hafi síðan hringt á lögreglu. Hann sagði ákærða hafa verið frekar ölvaðan þegar þeir hittust og svolítið ringlaðan.
Vitnið E kvaðst vera vinkona brotaþola og sagði þær hafa verið mikið saman á þeim tíma þegar atvik gerðust og hafa gist hjá brotaþola þessa helgi. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við að ákærði hefði sérstakan áhuga á brotaþola eða sýnt henni kynferðislegan áhuga eða hún honum. Vitnið kvaðst hafa verið að vinna þetta kvöld og fyrst hitt brotaþola á tónleikunum. Eftir að þeim lauk hafi þær farið niður í bæ á skemmtistaðinn [...]. Hún kvaðst muna eftir því að þar hafi hún og vitnið H verið að vesenast við að ná brotaþola út af salerni. Þá hafði hún drukkið of mikið og verið áfengisdauð þar inni. Þær hafi náð að opna en brotaþoli hafi setið fyrir hurðinni. Síðan hafi þær borið brotaþola á milli sín út af salerninu og upp stigann þannig að brotaþoli hafi haldið yfir axlirnar á þeim báðum og hafði varla rænu á að ganga með. Þegar vitnið var skömmu síðar að ganga heim til brotaþola ásamt D og G hafi D áttað sig á því að hann var ekki búinn að sjá ákærða í einhvern tíma. Hann hringdi í ákærða og þá hafi brotaþoli svarað í símann. D hafi spurt hvað væri í gangi en í rauninni ekki fengið neitt svar frá henni. Seinna hafi þau fengið þá skýringu á þessu að sími ákærða hafi verið á baðherberginu. Á leiðinni hafi þau einnig hitt H sem þá hafi verið búin að fylgja brotaþola heim. Þegar þau komu heim til brotaþola hafi hún verið að koma út af baðherberginu og hafi hallað sér upp að hurðarkarminum. Hún var ennþá í úlpunni og eitthvað reytingsleg og hálfrugluð. Vitnið hafi spurt brotaþola um símtalið en ekki fengið almennilegt svar. Þá hafi vitnið hjálpað henni inn í herbergi þannig að hún hafi haldið utan um hana og brotaþoli stutt sig við vegginn með hinni hendinni. Brotaþoli hafi sagt henni að hún hafi verið að kasta upp á baðherberginu. Vitnið kvaðst fyrst hafa séð ákærða með strákunum á ganginum þegar hún var að styðja brotaþola. Þá voru strákarnir búnir að mæta X einhversstaðar í íbúðinni og voru eitthvað að spyrja hann út í símtalið og hann hafi ekki gefið betri svör. Nánar aðspurð um staðsetningu ákærða þegar hún kom í íbúðina, með hliðsjón af framburði hennar hjá lögreglu 8. apríl 2012 þar sem hún sagði ákærða þá hafa legið uppi í rúmi brotaþola og kvaðst halda að hann hafi verið sofandi, sagði vitnið líklegra að hún hafi munað þetta rétt á þeim tíma.
Vitnið kvaðst hafa hjálpað brotaþola að leggjast upp í rúm. Hafi brotaþoli þá snúið baki í ákærða og verið nær dyrunum. Brotaþoli hafi breitt yfir sig sængina og þá enn verið „klædd í allt“. Ákærði og brotaþoli hafi ekkert snerst á meðan þau voru inni í herberginu. Hún sagði brotaþola hafa verið þreytta og talið að hún mundi sofna strax. Brotaþoli hafi verið klædd joggingbuxum og í úlpu sem hafi verið upprennd. Vitnið kvaðst hafa reynt að tala við hana eftir að hún lagðist niður og hafa passað upp á að sængin væri alveg yfir henni þar sem brotaþoli hafi verið byrjuð að skjálfa. Ákærði hafi verið vakandi þegar þau fóru út úr herberginu og hafi hann þá enn verið í gallabuxum. Þegar borinn var undir vitnið framburður þess í fyrri skýrslu hjá lögreglu, þar sem vitnið segir að buxur ákærða hafi þá verið á gólfinu, og í seinni skýrslu að þær hafi legið á rúminu til fóta, kvaðst vitnið ekki muna þetta. Vitnið, D og G hafi lokað herberginu og sest fram í stofu og hafi henni ekki fundist eins og eitthvað væri í uppsiglingu milli ákærða og brotaþola. Eftir einhvern tíma hafi vitnið ákveðið að athuga brotaþola og hafi líklega ætlað að spyrja brotaþola um símanúmer. Vitnið kvaðst hafa bankað á herbergishurðina og spurt hvort vitnið mætti koma inn en ekki reynt að opna strax. D hafi þá komið og staðið með henni við hurðina og þau verið eitthvað að grínast með það að þau væru kannski að gera eitthvað. Hún hafi ekki fengið neitt svar frá brotaþola en svo heyrði hún ákærða segja henni að bíða. Hún kvaðst hafa verið kannski um tvær mínútur að banka áður en hún heyrði eitthvað og það fyrsta sem hún heyrði var að ákærði kallaði „já“ og nafn brotaþola og hló síðan og sagði vitninu að bíða. Þá hafi hún heyrt einhvern umgang hinum megin við hurðina. Loks hafi hún ákveðið að opna og hafi náð að opna smárifu áður en ákærði stökk á hurðina til að halda henni lokaðri og sagði vitninu að bíða. Þau hafi beðið en ákærði síðan opnað hurðina og farið fram í stofu. D hafi þá snúið við og farið með ákærða inn í stofu og hafi því ekki séð brotaþola. Vitnið kvaðst hafa litið inn í herbergið og séð að brotaþoli var hálf út úr rúminu. Hún hafi legið á maganum, með hausinn til hliðar til vinstri og hnén hafi staðið út af rúminu þeim megin sem skápurinn var. Minnti vitnið að hún hafi legið með aðra höndina uppi við hliðina á hausnum og hina niður með síðunni. Hún hafi verið í úlpunni, sem hafi verið rennd upp, og ber að neðan. Brotaþoli hafi ekki verið með rænu. Vitninu hafi fundist eins og brotaþoli andaði ekki og hafi lagst fyrir framan hana og reynt að kalla á hana. Brotaþoli hafi ekkert hreyft sig og ekki opnað augun. Vitnið hafi slegið hana í framan og þá hafi hún vaknað smátt og smátt, verið hrædd á svipinn og síðan farið að hágráta. Vitnið kvaðst einnig hafa farið að gráta. Vitnið kvaðst hafa orðið hrætt fyrst þegar það sá brotaþola svona. Það hafi tekið um mínútu að vekja hana. Vitnið kvaðst hafa breitt sæng yfir brotaþola og spurt hana hvað hafi gerst. Brotaþoli hafi ekki sagt annað en „ég er ónýt“, aftur og aftur og svarað því játandi að eitthvað hefði gerst. Þá hafi vitnið spurt hvort hún hafi viljað það og hafi brotaþoli svarað því neitandi. Vitnið hafi þá sagt D hvað hafi gerst og hafi þá fokið í hann og hann farið inn til brotaþola og spurt hana og fengið sömu svör og vitnið. Þá hafi hann rokið fram og hún síðan heyrt einhvern hávaða og læti frammi og eftir það var ákærði farinn úr íbúðinni og blóðslettur voru út um allt. Þau hafi rætt við brotaþola og hafi hún sagt þeim að hún vildi kæra. Þá hafi þau gengið af stað niður á sjúkrahús. Vitnið sagði brotaþola hafa liðið hræðilega eftir að atvik gerðust og hafi vitnið flutt til hennar og þær búið saman í einhvern tíma. Núna líði henni hins vegar mjög vel og sé komin í sambúð. Aðspurð sagði hún brotaþola ekki hafa farið út á sunnudagskvöldið og ekki muna eftir að þær hafi farið út að borða þetta kvöld. Þá sagði vitnið að þær tímasetningar sem hún gaf lögreglu upp og hafðar voru eftir henni í frumskýrslu séu tímasetningar á símtölum. Hvað varðar tímasetninguna þegar hún fór að athuga með brotaþola og hurðin var lokuð, klukkan 05.57, sagðist vitnið hafa miðað við ákveðið símtal. Þá kvaðst hún ekki vera viss um að tímasetningar í símanum væru réttar.
Vitnið R hjúkrunarfræðingur kvaðst hafa aðstoðað lækni við líkamlega skoðun á brotaþola 8. apríl 2012. Hún sagði brotaþola hafa verið rólega en ekki muna lengur hvernig ástand hennar var tilfinningalega að öðru leyti. Hún kvaðst ekki geta sagt til um hvert ölvunarástand hennar var en sagði hana hafa sofnað í skoðunarstólnum þegar smábið varð. Vitnið kvaðst einnig hafa komið að skoðun ákærða. Hann hafi verið í uppnámi, verið æstur og taldi vitnið að þessar aðstæður sem hann var kominn í hafi valdið uppnáminu. Hún kvaðst hafa heyrt hann segja frá því að hann teldi sig ekki hafa gert neitt rangt. Aðspurt sagði vitnið að það væri almennt metið af lækni í hverju tilviki hvort ástæða væri til að taka blóðsýni úr brotaþolum.
Vitnið F sagði í framburði sínum fyrir dómi að umrætt kvöld hafi vitnið verið á djamminu og verið fyrir utan [...] um eitt- eða tvöleytið þegar E kom með brotaþola út þaðan. Brotaþoli hafi verið mjög drukkin og ekki getað gengið sjálf. Vitnið hafi boðist til að ganga með brotaþola heim. Hún kvaðst hafa þurft að hjálpa henni alla leið heim og hafa haldið utan um brotaþola. Þær hafi þurft að stoppa tvisvar á leiðinni þar sem brotaþoli hafi haldið að hún þyrfti að kasta upp en gerði það ekki. Þær hafi verið um 20-30 mínútur á leiðinni og hafi á þeim tíma rætt saman. Þegar þær voru komnar heim til brotaþola hafi henni verið farið að líða aðeins betur og hafi vitnið skilið við hana við útidyrahurðina. Hún hafi næst heyrt frá brotaþola morguninn eftir þegar brotaþoli sendi henni smáskilaboð og sagði henni hvað hefði gerst.
Vitnið H kvaðst hafa verið að skemmta sér á [...] umrædda nótt. Brotaþoli hafi verið þar og hafi hún læst sig inni á salerni og hafi vitnið náð að opna. Ástand brotaþola hafi þá verið mjög slæmt. Hún hafi legið á gólfinu inni á salerninu og virst vera mikið ölvuð. Hún og vitnið E hafi farið með hana upp í anddyri. Þær hafi hjálpast að við að lyfta henni upp og haldið í hana og gengið þannig með hana. Vitnið F hafi svo tekið við brotaþola og ætlað með hana heim. Vitnið sagði brotaþola hafa hringt í hana daginn eftir og sagt henni frá því sem gerðist. Brotaþola hafi þá liðið hörmulega og hafi liðið illa síðan.
O lögreglumaður kvaðst hafa verið á vakt ásamt P, sem ritaði frumskýrslu málsins, þegar tilkynning barst um mann sem lægi í götunni í [...]. Þeir hafi farið á vettvang og hitt manninn sem hafi sagt þeim að hann hefði verið sakaður um nauðgun og barinn og hafi þetta átt sér stað á [...]. Maðurinn hafi verið með áverka og óku þeir honum á sjúkrahúsið til aðhlynningar. Áður en þeir komust á vettvang hafi þeir keyrt fram á brotaþola ásamt strák og stelpu. Þau hafi sagt að ákærði hefði nauðgað brotaþola. Þeim hafi einnig verið ekið á sjúkrahúsið og kallaður út rannsóknarlögreglumaður sem tók við rannsókn málsins. Ákærði hafi verið ölvaður og miður sín yfir þessu og neitaði því að hafa nauðgað brotaþola. Aðspurður sagði hann D hafa sagt að einhver hafi sagt honum að ákærði hefði nauðgað brotaþola og þá hafi hann reiðst og lamið ákærða.
S yfirlögregluþjónn kvaðst hafa komið að málinu þegar lögreglumenn voru búnir að hafa afskipti af sakborningi og brotaþoli var þegar komin til skoðunar á sjúkrahúsi. Hann hafi farið á vettvang og unnið þar vettvangsvinnu, aflað upplýsinga um vitni og aðra. Síðan hafi hann verið í sambandi við lækna og hjúkrunarfólk til þess að afla tilheyrandi lífsýna og annarra gagna frá sakborningi og brotaþola. Þá hafi hann yfirheyrt málsaðila. Vitnið D hafi haft samband að eigin frumkvæði og sagt að hann hefði frekari upplýsingar vegna málsins og var þá tekin skýrsla af honum á ný. Vitnið kvaðst minna að D hafi talað um að hann hafi farið að hugleiða þetta betur hvernig málsatvik voru og honum hafi fundist ýmislegt ekki koma heim og saman. Vitnið kvaðst ekki geta skýrt þær tafir sem urðu á því að senda blóð- og þvagsýni til rannsóknar en nefndi að málið hefði verið fellt niður og rannsókn þess síðan tekin upp á ný. Vitnið sagði að annir hefðu verið hjá embættinu frá sumri 2012 þar til í mars, apríl 2013 og það geti helst skýrt langan rannsóknartíma málsins. Þá sagði hann blóðsýni hafa verið varðveitt í kæli á lögreglustöð áður en þau voru send. Aðspurður sagði vitnið að það væri venjulega sá læknir sem framkvæmir skoðun á brotaþola sem tekur ákvörðun um töku blóðsýna en lögregla fylgi því einnig eftir. Á þessum tíma hafi lögregla notast við Evidenzer öndunarmæli þegar brotaþoli gaf öndunarsýni en nú sé hætt að nota slík tæki.
Vitnið G kvaðst ekkert hafa þekkt brotaþola. Hann hafi farið á Aldrei fór ég suður á bifreið með ákærða, sem sé góður vinur hans, C og fleirum. Þar hafi hann hitt frænda sinn, D, sem sé skyldur brotaþola. Þetta kvöld hafi þau öll farið saman á tónleika og þá hafi brotaþoli og ákærði verið „utan um“ hvort annað, fyrst niðri í bæ og svo hafi þau verið komin heim án þess að vitnið vissi af því. Vitnið hafi hringt í síma ákærða og brotaþoli svarað og sagt að þau væru heima hjá henni og að vitnið mætti koma heim til hennar. Aðspurður hvort ákærði hafi haft áhuga á brotaþola sagði hann brotaþola frekar hafa haft áhuga á ákærða. Þegar vitnið kom heim til brotaþola ásamt D og E hafi ákærði og brotaþoli legið uppi í rúmi og brotaþoli verið ofan á ákærða, eiginlega yfir honum og hafi þau verið að knúsast og kyssast og bæði verið í fötunum. Þau hafi talað við ákærða og brotaþola á venjulegu nótunum í tvær til þrjár mínútur um það hvað þau hafi verið að gera og að vitnið hafi verið að leita að þeim. Þau hafi bæði verið vakandi og svarað venjulega. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við það fyrir þetta kvöld að þau hefðu áhuga hvort á öðru. Hann sagði að ákærði hafi verið mjög ölvaður og einnig brotaþoli en ekki eins mikið og ákærði og sé hann þá að lýsa ástandi þeirra eins og þau voru þegar þau voru í bænum. Vitnið, D og E hafi síðan farið fram. Ákærði hafi svo komið fram eftir smástund og hafi vitnið þá séð þegar ákærði var barinn. Aðspurður kvaðst hann telja að ákærði og brotaþoli hafi verið tvö í herberginu í mesta lagi í 20 mínútur. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við að einhver hafi verið að reyna að fara inn í herbergið til þeirra eða kalla á þau. Hann hafi setið beint á móti hurðinni og hefði séð það. Það fyrsta sem hann hafi orðið var við var þegar ákærði kom fram og D labbaði inn í herbergið eftir að ákærði kom fram. Hann kvaðst halda hann hafi ekki orðið var við að E færi inn í herbergið. Ákærða hafi svo verið hent út og vitnið hafi farið að þrífa blóð sem hafi verið um alla íbúðina eftir að ráðist var á ákærða.
Þegar borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að E hafi ætlað inn í herbergið kvaðst hann muna eftir því og sagði að það eina sem E hafi gert hafi verið að ýta á hurðina og labba svo til baka. Ákærði hafi þá klætt sig í fötin og komið út um mínútu seinna. Síðan bætti vitnið því við að E hefði örugglega farið til baka af því að ákærði hafi sagt eitthvað við hana en vitnið hafi þó ekki heyrt það. Þá kvaðst hann ekki muna eftir því að E hafi verið að tala við þau. Þá var borinn undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að brotaþoli hafi verið grátandi og hrædd og sagði vitnið þá að hann héldi að mesta sjokkið hjá brotaþola hafi verið vegna þess að D barði ákærða. Aðspurður af hverju hann haldi það sagðist hann ekki hafa verið búinn að heyra neinn grát en hún hafi verið hrædd og grátandi þegar hún var að fara niður á sjúkrahús og þá hafi hann verið að þrífa blóðið. Þá sagði vitnið að ákærði og brotaþoli hafi verið búin að vera eitthvað saman niðri á tónleikasvæði og sagði nánar aðspurður að þau hafi verið í sama hópi.
Vitnið P lögregluvarðstjóri kvaðst hafa verið einn þeirra lögreglumanna sem fóru á vettvang þegar tilkynnt var um að maður hafi orðið fyrir líkamsárás. Þar hafi þeir hitt tvo aðila og hafði annar þeirra orðið fyrir líkamsárásinni. Á leið á vettvang á [...], hafi þeir hitt þrjá aðila, tvær stúlkur og árásarmanninn. Sá viðurkenndi að hafa slegið ákærða og sagði að sá sem varð fyrir líkamsárásinni hafi misnotað stúlku kynferðislega. Aðspurður sagði vitnið að ákærði hafi verið ölvaður umrætt sinn og með einhverja áverka í andlitinu og blóðugur. Ákærði hafi einnig sagt að ráðist hafi verið á hann og því haldið fram að hann hafi misnotað brotaþola kynferðislega. Þá kvaðst vitnið telja að þau hafi öll verið eitthvað undir áhrifum áfengis en mismikið. Þolandinn hafi borið sig illa og hafi þeir farið með hana beint niður á sjúkrahús. Vitnið kvaðst hafa ritað frumskýrslu vegna málsins en kvaðst ekki muna við hvaða vitni hann ræddi eða við hverja hinir lögreglumennirnir ræddu. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa tekið niður þær tímasetningar sem hafðar eru eftir E í skýrslunni. Þá staðfesti vitnið að tilkynning vegna málsins hafi upphaflega borist klukkan 05.45, að þeir hafi strax farið með ákærða á sjúkrahúsið og farið af stað upp á [...] en þá hitt brotaþola og farið strax með hana á sjúkrahúsið.
Vitnið T rannsóknarlögreglumaður kvaðst fyrst hafa komið að málinu eftir að rannsókn þess var tekin upp á ný með ákvörðun ríkissaksóknara og þá tekið nokkrar skýrslur. Einnig hafi hann reynt að fá upplýsingar frá símafyrirtækinu Nova vegna samskipta á milli ákærða og meints brotaþola. Það hafi hins vegar ekki verið hægt þar sem þær voru orðnar eldri en sex mánaða.
Vitnið D sagði brotaþola vera frænku sína en ákærða þekkti hann í gegnum vitnið G. Hann kvaðst hafa farið á Aldrei fór ég suður í umrætt sinn og haldið til hjá brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa vitað til þess að ákærði hafi haft kynferðislegan áhuga á brotaþola eða hún á honum en vita að þau áttu samskipti eitt kvöldið. Hann kvaðst hafa komið í íbúðina þessa nótt og þá hafi þau tvö verið þar. Þau hafi verið uppi í rúmi en ekkert hafi verið í gangi. Þau hafi bæði verið í fötunum og kvaðst vitnið minna að þau hafi bæði verið með sæng ofan á sér. Hann sagði brotaþola hafa verið drukkna og þreytta en ekki ofurölvi og með rænu. Ástand ákærða hafi verið svipað. Vitnið, E og G hafi talað aðeins við þau og svo hafi þau farið fram, lokað hurðinni og sest inn í stofu. Hann kvaðst minna að E hafi bankað á hurðina en ekki verið hleypt inn en muni að ákærði kom út og þá fór hún inn í herbergið. Svo hafi E komið skelkuð og sagt honum að koma inn í herbergi og þar hafi brotaþoli legið dauðhrædd og skelkuð og ekki getað talað. Hann kvaðst ekki muna hvernig brotaþoli var klædd þegar hann fór inn í herbergið eða hvort hún hafi verið með sæng ofan á sér. E hafi skilið það svo að nauðgun hafi átt sér stað. Hann kvaðst hafa beðið brotaþola um að kinka kolli ef þetta væri rétt og hún hafi kinkað kolli. Hann sagði brotaþola hafa fyrr um kvöldið verið á sama skemmtistað og hann og hafi honum verið sagt að þá hafi hún verið mjög ölvuð og fundist inni á salerni og hafi hún beðið vinkonur sínar um að hjálpa sér heim. Vitnið sagðist hafa reynt að hringja í ákærða þegar þau voru á leiðinni heim til brotaþola og þá hafi brotaþoli svarað í síma ákærða. Hann sagði að íbúð brotaþola hafi verið ólæst. Þá kvaðst hann ásamt E hafa aðstoðað brotaþola við að fara upp á sjúkrahús en á leiðinni þangað hafi þau hitt lögreglu. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í ástandi til að gefa skýrslu þegar hann gaf fyrst skýrslu á Ísafirði vegna málsins þar sem hann hafi verið ölvaður. Þá kvaðst hann sjálfur hafa haft frumkvæði að því að gefa seinni skýrsluna. Þetta sé fyllirísrugl og ætti ekki að hafa farið þetta langt. Aðspurður kvaðst vitnið ekki muna hvort brotaþoli hafi verið í úlpu þegar hann kom inn í herbergið eins og hann lýsti í skýrslu hjá lögreglu. Þá kvaðst hann heldur ekki muna eftir því að hann og E hafi breytt sæng ofan á brotaþola áður en hann fór út úr herberginu en sagði að verið gæti að þau hafi þá farið fram þar sem þau hafi viljað leyfa henni að fara að sofa. Aðspurður um misræmi í framburði hjá lögreglu annars vegar í fyrri skýrslu þar sem hann lýsti brotaþola hálfrænulausum en í þeirri seinni alveg vakandi kvaðst vitnið ekki geta skýrt þetta misræmi. Þá gaf vitnið þá skýringu á seinni framburði sínum að það hafi hugsað málið aðeins betur. Aðspurt sagði vitnið að verið gæti að það hafi farið út að borða á sunnudagskvöldið ásamt C, G og brotaþola.
IV
Ákærði neitar sök.
Hann byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að hann hafi framið það brot sem hann er ákærður fyrir en viðurkennir að hafa haft samræði við brotaþola í umrætt sinn og hann segir það hafa verið með vitund hennar og vilja.
Samkvæmt frumskýrslu barst lögreglu tilkynning um líkamsárás klukkan 05.45 aðfaranótt sunnudagsins 8. apríl 2012 og kom síðar í ljós grunur um að kynferðisbrot hefði átt sér stað í aðdraganda þeirrar árásar. Vitnið P lögregluvarðstjóri staðfesti þessa tímasetningu í framburði sínum fyrir dómi og sagði hana byggjast á upplýsingum frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu. Í skýrslunni er rakinn framburður vitnisins E en hún sagðist hafa hringt í brotaþola klukkan 04.24 um nóttina og þá hafi brotaþoli verið inni á baðherbergi að kasta upp. Þá segir í skýrslunni að klukkan 05.57, þ.e. eftir að lögreglu barst tilkynning um líkamsárás, hafi hún reynt að komast inn í svefnherbergi brotaþola sem þá var þar með ákærða. E sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að þessar tímasetningar hefði hún fundið með því að miða við upplýsingar um símtöl í farsíma sínum en kvaðst ekki vita hvort klukka í farsíma væri rétt. Í skýrslu Neyðarmóttöku er brotaþoli sagður hafa komið þangað milli klukkan 03.00 og 04.00 og að brotaþoli hafi talið að brotið hafi átt sér stað milli klukkan 02.00 og 03.00. Framangreint misræmi á tímasetningum leiðir til þess að ekki er hægt að tímasetja ætlað brot eins nákvæmlega og ella en skoðun á klukku í síma vitnisins E hefði getað orðið til þess að skýra þetta atriði frekar. Verður við það miðað að lögreglu hafi borist tilkynning um líkamsárásina klukkan 05.45 og að ætlað kynferðisbrot hafi verið framið nokkru áður.
Samkvæmt framburði ákærða bæði hjá lögreglu og fyrir dómi var hann ölvaður þegar atvik gerðust og samrýmist það framburði vitna um ástand hans sem og því áliti Q, deildarstjóra á Rannsóknastofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, að áfengismagn í blóði ákærða gæti hafa verið um 2,00 um sexleytið um morguninn.
Við rannsókn málsins var ekki tekið blóð- og þvagsýni úr brotaþola eins og rétt hefði verið að gera um leið og fyrir lá grunur um að ölvunarástand hennar gæti hafa haft áhrif á atburðarás. Brotaþoli hefur frá upphafi lýst því svo að hún hafi verið mjög ölvuð í umrætt sinn eftir mikla áfengisdrykkju auk þess að hafa ekkert sofið nóttina á undan. Þetta styður framburður vitnana H og E að því leyti að þær báru um að brotaþoli hafi dáið áfengisdauða inni á salerni veitingastaðar og þar hafi hún einnig kastað upp. Þær hafi síðan þurft að aðstoða hana og styðja út af salerninu og veitingastaðnum. Einnig fær þetta stuðning í framburði vitnisins F um að hún hafi þurft að styðja brotaþola þegar vitnið fylgdi henni heim og brotaþoli hafi þá talað um að hún þyrfti að kasta upp. Þá hefur brotaþoli borið um að hún hafi kastað upp eftir að hún kom heim. Sá framburður brotaþola fær stuðning í framburði E sem sagði brotaþola hafa sagt sér að hún hefði verið að kasta upp á baðherberginu þegar vitnið aðstoðaði brotaþola þaðan og inn í svefnherbergi skömmu áður en þau atvik eiga að hafa gerst er greinir í ákæru. Loks báru L læknir og tveir hjúkrunarfræðingar sem önnuðust brotaþola, M og R, um að brotaþoli hafi verið drukkin og að hún hafi sofnað í skoðunarstól á Neyðarmóttöku. Það samrýmist framburði brotaþola. Af framangreindu má ráða að brotaþoli hafi þá enn verið þreytt eða undir miklum áfengisáhrifum. Niðurstaða öndunarsýna sem brotaþoli gaf skömmu fyrir klukkan 10.00 um morguninn, sem er a.m.k. fjórum tímum eftir að brotið átti sér stað, bendir til þess að magn vínanda í lítra útöndunarlofts hafi þá verið 0,43 mg sem samsvarar um 0,76 í blóði.
Vitnin E, G og D lýstu því öll í framburði sínum að þau hafi rætt við ákærða og brotaþola inni í herberginu skömmu áður en ætlað brot átti sér stað. Ákærði og brotaþoli mundu einnig eftir samræðum en framburður allra er nokkuð óljós og misvísandi um það hvað þau töluðu og í hvaða stellingum þau voru. Hvað sem þessu líður er fram komið að brotaþoli var á þessum tíma verulega ölvuð og miður sín eftir ofneyslu áfengis.
Samkvæmt framburði vitnisins G voru ákærði og brotaþoli í mesta lagi 20 mínútur ein saman inni í herberginu. Ákærði sagði að þau hafi byrjað að hafa samræði fljótlega eftir að þau urðu ein í herberginu og það hafi varað í átta til tíu mínútur. Þá bar vitnið E um að hún hafi skömmu eftir að hún fór fram reynt að komast aftur inn í herbergið til að ræða við brotaþola, fyrst með því að banka og síðan reynt að opna hurðina en ákærði hafi þá haldið hurðinni aftur. Þessi framburður fær stuðning í framburði ákærða. E sagði að ekkert hefði þá heyrst í brotaþola. Þá lýsti hún því á greinargóðan hátt hvernig ástand brotaþola var þegar vitnið kom þangað inn eftir að ákærði fór fram. Brotaþoli hafi þá legið á maganum í rúminu, með hnén út fyrir rúmið, nakin að neðan en í upprenndri úlpu að ofan, rænulaus þannig að vitnið óttaðist fyrst í stað að brotaþoli andaði ekki. Vitnið sagði að það hafi tekið sig um mínútu að vekja brotaþola með því að kalla á hana og slá hana. Ákærði sagði í framburði sínum fyrir dómi að hann viti ekki hvernig ástand brotaþola var þegar hann fór út úr herberginu.
Framburður E fyrir dómi er að öllu leyti í samræmi við framburð hennar hjá lögreglu utan tveggja atriða, þ.e. hvar ákærði var staðsettur þegar vitnið kom í íbúðina áður en atvik gerðust og hvar buxur ákærða voru þegar vitnið ræddi við hann og brotaþola, einnig áður en atvik gerðust. Fyrir dómi gaf vitnið þá skýringu á þessu misræmi að hún hafi munað atvik betur þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Telur dómurinn að skýringar vitnisins á þessu misræmi séu trúverðugar, sem og framburður hennar að öllu leyti, en af honum má ráða að brotaþoli var við það að sofna þegar vitnið yfirgaf herbergið og var sofandi í framangreindu ástandi þegar vitnið kom þangað aftur skömmu seinna eftir að ætlað brot átti sér stað.
Í frumskýrslu kemur fram að vitnið D hafi veist að ákærða þar sem hann taldi ákærða hafa brotið kynferðislega gegn brotaþola. Fær þetta stuðning í framburði ákærða. Þá lýsti hann atvikum svo í skýrslu hjá lögreglu að brotaþoli hafi verið að sofna þegar hann fór út úr herberginu. Í skýrslu sem hann gaf síðar að eigin frumkvæði sagði hann brotaþola hafa verið vakandi og hafi hún legið með höfuðið ofan á afturenda ákærða og haldið utan um hann. Sú skýring vitnisins að hann hafi breytt framburði sínum eftir að hafa hugsað málið er ekki trúverðug að mati dómsins. Fyrir dómi sagði vitnið að brotaþoli hafi verið drukkin og þreytt en ekki ofurölvi og með rænu og hafa verið að fara að sofa. Er það mat dómsins að framburður vitnisins sé svo óstöðugur um framangreint atriði að á honum verði ekki byggt.
Framburður brotaþola um atvik hefur verið stöðugur. Brotaþoli lýsti því fyrir dómi að hún hafi rumskað á meðan ákærði hafði við hana samræði. Hún hafi þó ekki á þeim tímapunkti verið meðvituð um hvað var að gerast. Þegar hún vaknaði hafi hún verið nakin að neðan og fundið á líkama sínum að hún hafði haft samræði. Misræmi var þó í framburði hennar fyrir dómi og hjá lögreglu um hvort hún heyrði þegar E bankaði á hurðina og þegar ákærði hélt aftur hurðinni. Fyrir dómi mundi hún ekki eftir þessu atviki. Þetta verður þó ekki talið draga úr trúverðugleika hennar enda um tvö og hálft ár frá því að atvik gerðust og hún lýsti þessu atviki hjá lögreglu. Brotaþoli lýsti því að hún hafi skynjað það sem var að gerast en einungis séð atvik að hluta, og hafi auk þess sofnað á milli.
Ákærði lýsti því bæði í framburði sínum fyrir dómi og hjá lögreglu að hann hefði farið upp í rúmið og sofnað og þegar hann vaknaði hafi brotaþoli verið komin upp í rúmið. Þá lýsti ákærði því á hvern hátt hann hafi haft kynmök við brotaþola og fá þær lýsingar ákveðinn stuðning í framburði brotaþola. Misræmi er í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi hvað varðar ástand brotaþola þegar atvik gerðust. Í framburði sínum hjá lögreglu lýsti ákærði því ítrekað að ölvunarástand brotaþola hafi verið slæmt og kvaðst hann hafa hætt að hafa samræði við hana vegna þess og sagði hana hafa verið of fulla og vísaði til hennar sem sofandi stelpu. Er þessi framburður hans um ástand brotaþola í nokkru samræmi við framburði vitna. Fyrir dómi sagði ákærði að brotaþoli hafi ekki sofið meðan hann hafði við hana samræði og sagði þau hafa talað saman og hefði hann spurt hana hvort þetta væri í lagi og hún hafi samsinnt því og tekið þátt í samræðinu. Þá ber að líta til þess að framburður ákærða um klæðnað brotaþola meðan á atburðarásinni stóð hefur verið óljós. Framburður brotaþola um að hún hafi vaknað nakin að neðan og ennþá í úlpu að ofan er í samræmi við framburð E sem kom að brotaþola á meðan hún var enn sofandi. Af framburði ákærða verður ráðið að hann hafi gengið á brott frá brotaþola þegar vitnið E bankaði á dyr herbergisins en þá hafði hann ekki haft sáðlát. Þá verður framburður hans ekki skilinn á aðra leið en að við þetta hafi hann ákveðið að klæða sig og yfirgefa brotaþola án þess að huga að ástandi hennar. Dregur þetta úr trúverðugleika framburðar ákærða um ástand brotaþola á meðan á samræði þeirra stóð.
Til þess er einnig að líta að brotaþoli sagði frá því án tafar þegar hún vaknaði að hafðar hefðu verið við hana samfarir án hennar samþykkis og ákvað umsvifalaust að leita sér aðstoðar á Neyðarmóttöku. Viðbrögð E við aðstæðum eftir að ákærði hafði yfirgefið herbergið styrkja framburð brotaþola um að hún hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli á meðan ákærði dvaldi í herberginu.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat dómsins að framburður brotaþola sé trúverðugur og fái nægilega stoð í framburðum annarra á vettvangi.
Samkvæmt framangreindu telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að brotaþoli hafi ekki verið í ástandi til að taka þátt í kynmökum með ákærða og jafnframt að ákærða hafi verið þetta vel ljóst. Er þessu ástandi brotaþola nægilega nákvæmlega lýst í ákæru sem ölvun og svefndrunga. Jafnframt telur dómurinn sannað að ákærði hafi notfært sér ástand brotaþola til að hafa við hana samræði gegn vilja hennar. Samkvæmt þessu telst sannað að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er brot hans þar réttilega heimfært til refsiákvæða.
V
Ákærði er fæddur árið 1993. Samkvæmt sakavottorði var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2012 dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en refsingu frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá gekkst ákærði undir greiðslu sektar með sektargerð lögreglustjóra 31. janúar 2013 vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, undir greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar með sektargerð lögreglustjóra 3. júlí 2013 vegna brota gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. og 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, undir greiðslu sektar með sektargerð lögreglustjóra 11. október 2013 vegna brots gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og loks undir greiðslu sektar með sektargerð lögreglustjóra 11. júlí 2014 vegna brota gegn 37. og 48. gr. umferðarlaga. Brot ákærða nú telst vera hegningarauki við framangreindan dóm og sektargerðir, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, og er litið til þess við ákvörðun refsingar. Ákærði hefur lýst því að hann hafi verið mjög ölvaður þegar atvik gerðust og fær það stuðning í framburði vitna. Með vísan til 17. gr. almennra hegningarlaga verður honum engu að síður gerð refsing vegna brotsins. Alvarleiki brotsins horfir til þyngingar og einnig það að ákærði framdi brotið á heimili brotaþola þar sem hún mátti ætla að hún nyti öryggis, sbr. 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar lítur dómurinn einnig, til refsimildunar, til ungs aldurs ákærða, sbr. 4. tl. sama lagaákvæðis, en hann var á nítjánda ári þegar hann framdi brotið. Með vísan til alls framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.
Fyrir liggur að af hálfu lögreglu var rannsókn málsins hætt 14. maí 2013 með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ríkissaksóknari felldi þessa ákvörðun úr gildi 10. júlí 2013 og lagði fyrir lögreglu að halda rannsókn málsins áfram. Af gögnum málsins má ráða að frá því í maí 2012 þar til rannsókn málsins var hætt í maí 2013 hafi ekkert verið unnið að rannsókn málsins. Það liðu þannig tæp tvö ár frá því að málið var kært til lögreglu og þar til ákæra var gefin út 19. mars 2014. Vegna alvarleika málsins getur dómurinn ekki metið fullnægjandi þá skýringu lögreglu að drátt á meðferð málsins megi rekja til mikils álags. Vegna þess dráttar sem orðið hefur á meðferð málsins, og ákærða verður ekki um kennt, þykir rétt að fresta fullnustu 21 mánaðar af refsingunni og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
VI
Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hvað varðar afleiðingar brotsins er einungis við framburð brotaþola og vitnanna E, F og H að styðjast. Af þeim má ráða að vanlíðan brotaþola hafi verið mikil í kjölfar brotsins sem hafi m.a. leitt til þess að brotaþoli flutti úr íbúðinni og að hún gat ekki haft barn sinn hjá sér eða sótt vinnu. Af framburði sömu vitna má ráða að staða brotaþola sé nú mun betri. Með brotum sínum þykir ákærði hafa valdið brotaþola miska sem hún á rétt á að fá bættan á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þykja bætur henni til handa hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Skal fjárhæðin bera vexti og dráttarvexti eins og í dómsorði greinir.
VII
Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins. Til hans teljast málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., er telst hæfilega ákveðin 90.000 krónur, og Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 900.000 krónur, útlagður kostnaður síðarnefnds verjanda, 85.722 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björns Jóhannessonar hrl., 450.000 krónur, og útlagður kostnaður réttargæslumanns, 42.200 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá greiði ákærði einnig sakarkostnað samkvæmt framlögðu yfirliti ákæruvalds, 211.908 krónur.
Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Stefanía G. Sæmundsdóttir, settur saksóknari.
Dóminn kváðu upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri, sem var dómsformaður, og héraðsdómararnir Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Skúli Magnússon.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár en fresta skal fullnustu 21 mánaðar af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði B, 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8., sbr. 4., gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. apríl 2012 til 29. desember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 1.779.830 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 90.000 krónur, og Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 900.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björns Jóhannessonar hdl., 450.000 krónur.