Print

Mál nr. 121/2013

Lykilorð
  • Ríkisstarfsmenn
  • Uppsögn
  • Stjórnsýsla
  • Kjarasamningur
  • Fjártjón
  • Miskabætur

                                     

Fimmtudaginn 13. júní 2013.

Nr. 121/2013.

Árný Sigrún Helgadóttir

(Eiríkur S. Svavarsson hrl.)

gegn

Heilbrigðisstofnun Vesturlands

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

Ríkisstarfsmenn. Uppsögn. Stjórnsýsla. Kjarasamningur. Fjártjón. Miskabætur.

Á, sem var hjúkrunarfræðingur, hafði starfaði fyrir H um tæplega 3 ára skeið, en hún var ráðin til að sinna starfsmannaheilsuvernd á starfssvæði stofnunarinnar. Skömmu fyrir ráðninguna hafði stofnunin gert verksamning við N hf. um þjónustu sem fólst í eftirliti lækna og hjúkrunarfræðings og starfaði Á við framkvæmd samningsins á starfssvæði H. Í júlí 2011 var Á sagt upp störfum. Í rökstuðningi fyrir uppsögn hennar kom fram að N hf. hefði sagt upp verksamningi við H vegna óánægju með tiltekna þætti í samskiptum og í framkvæmd. Væru því brostnar forsendur fyrir verkefni því sem Á hefði verið ráðin til. Á höfðaði mál og krafðist þess að H yrði gert að greiða sér ógreidd laun í uppsagnarfresti, laun vegna frítökuréttar og skaðabætur vegna fjártjóns og miska. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að í auglýsingu um starf Á hefði þess ekki verið getið að það væri fyrirfram ætlað fyrir þjónustu við tiltekinn viðsemjanda og ekki kæmi heldur fram um það í ráðningarsamningi Á. Hefði H þó verið unnt að haga gerð samningsins svo að hann væri til ákveðins tíma og hann tengdur verkefnum hjá N hf. Þvert á móti hefði í samningnum komið fram að ráðningin væri til frambúðar. Uppsögn Á ætti rætur að rekja til ástæðna sem tilgreindar væru í 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Á hefði hvorki verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun hefði verið tekin um uppsögn né hefði henni verið veitt áminning. Hefði uppsögn Á því verið ólögmæt. Fallist var á það með Á að réttur hennar til forfallalauna vegna veikinda yrði ekki skertur með uppsögn, en hins vegar taldi Hæstiréttur að sá tími lengdi ekki rétt hennar til launa í uppsagnarfresti. Þá taldi Hæstiréttur að ósannað væri að Á ætti rétt til frekari greiðslna vegna frítökuréttar, en hvorki hefði verið lagður fram sundurliðaður útreikningur á því hvernig sá réttur hefði myndast með viðveru Á á vinnustað né hefði verið sýnt fram á að uppfyllt væru þau skilyrði sem tilgreind hefðu verið í kjarasamningi fyrir myndun slíks réttar. Hins vegar var fallist á að Á ætti rétt til bóta vegna fjártjóns og miska, samtals að fjárhæð 2.800.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2013. Hún krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 12.490.574 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2012 til greiðsludags, en til vara að stefnda verði gert að greiða aðra lægri fjárhæð með dráttarvöxtum líkt og í aðalkröfu greinir. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi, sem nú ber nafn stefnda, auglýsti 29. maí 2009 á svonefndu Starfatorgi eftir hjúkrunarfræðingi í fullt starf til að sinna starfsmannaheilsuvernd á starfssvæði sínu. Um laun var vísað til kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og stofnanasamnings, en í auglýsingunni var síðan stutt almenn lýsing á starfsemi sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar. Áfrýjandi sótti um starfið og með samningi 10. ágúst 2009 var hún ráðin til starfa hjá stefnda frá sama degi. Annar ódagsettur ráðningarsamningur kom síðan í hans stað, en óumdeilt er að með honum hafi einungis verið gerð leiðrétting á starfsheiti áfrýjanda sem skyldi vera deildarstjóri starfsmannaheilsuverndar. Að öðru leyti kom þar fram að starfshlutfall væri 100%, vikuleg vinnuskylda 40 klukkustundir í dagvinnu og merkt í þar til gerðan reit um ráðningu til frambúðar. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samkvæmt samningnum skyldi vera þrír mánuðir, en að öðru leyti færi um gagnkvæman uppsagnarfrest samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningum ríkisstarfsmanna. Um rétt til launagreiðslna í veikindaforföllum færi samkvæmt gildandi reglugerð um starfsmenn ríkisins.

Skömmu fyrir ráðningu áfrýjanda eða hinn 18. maí 2009 gerðu sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin sem verktaki samning við Norðurál hf. á Grundartanga. Samkvæmt verklýsingu skyldi verktakinn sinna þjónustu sem fólst í eftirliti lækna og hjúkrunarfræðings vegna áætlunar verkkaupans um öryggis- og starfsmannaheilsuvernd, en nánari skilgreining þjónustunnar var talin upp í sjö liðum. Hvor aðili gat sagt upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara að liðnu ári frá gildistöku hans 1. júní 2009. Áfrýjandi var frá byrjun sett til starfa við framkvæmd þessa samnings á starfssvæði verkkaupans. Störfum hennar lauk um miðjan júlí 2011, en þann 13. þess mánaðar var haldinn fundur tveggja stjórnenda stefnda með áfrýjanda. Í minnisblaði  Guðjóns Brjánssonar forstjóra stefnda sama dag segir að áfrýjanda hafi verið skýrt frá að Norðurál hf. hafi tilkynnt að breyting yrði gerð á skipulagi starfsmannaheilsuverndar á verksmiðjusvæðinu og boðað uppsögn verksamningsins í heild eða að hluta. Þar segir einnig að „lágmarkskrafa fyrirtækisins sé að skipt verði um hjúkrunarfræðing sem gegni þessari þjónustu f.h. [stefnda].“ Mat fyrirtækisins væri að reynt hefði til fulls á samstarfið og önnur leið væri ekki fær. Þá segir í minnisblaði forstjórans að áfrýjanda hefi verið tilkynnt að ekki yrði komist hjá að segja henni upp störfum þar eð ráðning hennar hefði byggst eingöngu á þessu tiltekna verkefni. Annað minnisblað forstjórans 20. júlí 2009 er um fund hans með tveimur fulltrúum Norðuráls hf. Þar segir meðal annars að „þrátt fyrir ábendingar, samtöl og ítrekanir gagnvart starfsmanni, þá hafi ekki tekist að færa til betri vegar það sem óskað hefur verið eftir í starfsskipulagi og háttum viðkomandi.“ Norðurál hf. sagði síðan upp samningi sínum við stefnda 20. júlí 2011 með þriggja mánaða fyrirvara. Ástæða uppsagnar var þar sögð vera „framkvæmd hjúkrunarþjónustu samkvæmt samningi“ og þess jafnframt óskað að hjúkrunarfræðingur lyki starfsskyldum sínum á vettvangi fyrirtækisins svo fljótt sem verða mætti. Með bréfi 25. júlí 2011 sagði stefndi síðan áfrýjanda upp starfi með þriggja mánaða fyrirvara þannig að starfslok yrðu 31. október sama ár. Áfrýjandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um uppsögn með bréfi 4. ágúst 2011 sem stefndi svaraði 11. sama mánaðar. Í bréfi hans er gefin sú skýring að Norðurál hf. hafi sagt upp fyrrnefndum verksamningi „vegna óánægju með tiltekna þætti í samskiptum og í framkvæmd.“ Af þeim sökum séu brostnar forsendur fyrir því verkefni sem áfrýjandi hafi verið ráðin til.

Ágreiningslaust er að á fundinum 13. júlí 2011 hafi fulltrúar stefnda sagt áfrýjanda munnlega upp starfi sem var fylgt eftir með bréfi 25. sama mánaðar. Áfrýjandi veiktist 20. þess mánaðar og var óvinnufær af þeim sökum til 15. september sama ár. Málavextir að öðru leyti og málsástæður aðila eru raktar í hinum áfrýjaða dómi.

II

Í IV. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins greinir frá skyldum þeirra. Ef starfsmaður hefur í starfi sínu orðið uppvís að ávirðingum, sem nánar eru tilgreindar í 21. gr., skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu, en áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu sé það unnt. Um starfslok er fjallað í IX. kafla laganna, en samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skal veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Stafi uppsögn af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar, er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi. Ef starfsmaður óskar skal samkvæmt 2. mgr. 44. gr. rökstyðja uppsögn skriflega.

Stefndi ber fyrir sig að ástæða uppsagnar áfrýjanda sé sú að forsenda hafi brostið fyrir ráðningu hennar hjá stefnda með uppsögn Norðuráls hf. á áðurnefndum verksamningi. Grundvelli hafi þar með verið kippt undan starfi hennar og ekkert annað starf hjúkrunarfræðings hjá stefnda hafi þá verið laust. Ástæða uppsagnar sé því ekki sú að hann hafi haft eitthvað út á störf hennar að setja og hann hafi ekki gert afstöðu Norðuráls hf. að sinni um að háttsemi áfrýjanda í starfi hafi verið áfátt. Hér ber að líta til þess að í áðurnefndri auglýsingu um starf hjúkrunarfræðings hjá stefnda var þess í engu getið að starfið væri fyrirfram ætlað fyrir þjónustu við tiltekinn viðsemjanda stefnda samkvæmt þegar gerðum verksamningi. Einungis sagði um starfið í auglýsingunni að það væri til að sinna starfsmannaheilsuvernd á starfssvæði stefnda, en þar var jafnframt almenn lýsing á starfsemi hans. Í ráðningarsamningi málsaðila var ráðningarstaður tilgreindur sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi og þar var hvorki að finna tilvísun til starfa hjá Norðuráli hf. né öðrum þriðja manni á grundvelli verksamnings við stefnda. Hafi stefndi talið að starf áfrýjanda væri háð tilvist verksamnings síns við Norðurál hf. var honum í lófa lagið að búa svo um hnúta í ráðningarsamningi að hann væri tímabundinn og háður þegar gerðum verksamningi, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996. Þvert á móti sagði í samningnum að ráðningin væri til frambúðar.

Stefndi hafði nokkurs konar milligöngu um að koma á framfæri við áfrýjanda staðhæfingum verkkaupans um ætlaðar ávirðingar hennar í starfi sem þó voru hvorki settar fram af nákvæmni né með vísan til einstakra atvika. Svar stefnda sjálfs við ósk áfrýjanda um rökstuðning fyrir uppsögn var sama marki brennt. Uppsögn áfrýjanda á þó ljóslega rætur að rekja til ástæðna sem tilgreindar eru í 21. gr. laga nr. 70/1996. Eins og starfssambandi málsaðila er háttað er haldlaus sú vörn stefnda að þriðji maður en ekki hann sjálfur haldi fram að framgöngu áfrýjanda í starfi hafi verið áfátt og að stefndi hafi af þeim sökum ekki þurft að fylgja þeim reglum um málsmeðferð sem áður var getið og mælt er fyrir um í lögum nr. 70/1996. Áfrýjanda var hvorki gefinn kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun var tekin um uppsögn né var henni veitt áminning. Uppsögnin var samkvæmt því ólögmæt.

III

Krafa áfrýjanda er samsett af þremur liðum. Sá fyrsti er fyrir ógreidd laun í uppsagnarfresti og laun vegna frítökuréttar fyrir maí til júlí 2011, samtals 599.750 krónur. Annar liðurinn er um skaðabætur að fjárhæð 10.390.824 krónur og sá þriðji um miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur.

Áfrýjandi telur sig ekki hafa fengið greidd að fullu laun í uppsagnarfresti, en hún hafi verið óvinnufær vegna veikinda þegar ráðningarsamningi var slitið. Réttur til forfallalauna verði ekki skertur með uppsögn, en veikindaforföllum hennar hafi lokið 15. september 2011 og þá tekið við þriggja mánaða uppsagnarfrestur frá og með 1. október sama ár. Óumdeilt er að eftir uppsögn fékk áfrýjandi greidd laun fyrir tímabilið frá 1. ágúst til 31. október 2011. Í þessum þætti krefst áfrýjandi þó einungis launa fyrir desembermánuð, 481.941 krónu. Þótt fallist verði á með áfrýjanda að réttur hennar til forfallalauna verði ekki skertur með uppsögn lengir sá tími þó ekki rétt hennar til launa í uppsagnarfresti, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 128/2010. Þessum hluta fyrsta kröfuliðar áfrýjanda verður samkvæmt því hafnað.

Áfrýjandi vísar til þess að samkvæmt kjarasamningi, sem hún starfaði eftir, skyldi ótekinn frítökuréttur gerður upp við starfslok með sama hætti og orlof. Eftir höfðun málsins gerði stefndi upp kröfu áfrýjanda um bifreiðarstyrk í samræmi við framvísuð gögn hennar og hluta kröfu vegna frítökuréttar. Skýringar stefnda á þessari greiðslu koma fram í bréfi til lögmanns áfrýjanda 17. janúar 2012 þar sem segir að yfirlit vegna frítöku hafi ekki borist frá henni. Launafulltrúi stefnda hafi hins vegar farið yfir frítökurétt í samræmi við viðveruskrá áfrýjanda og hafi heildartímafjöldi reynst vera 31,7 klukkustund sem borið hafi að bæta henni með 81.626 krónum. Var sú fjárhæð greidd en jafnframt óskað eftir nánari gögnum um þetta. Áfrýjandi telur að enn standi eftir 117.809 krónur af þessum lið. Fyrir héraðsdómi lagði hún fram viðveruskráningu sína í starfi hjá stefnda og fyrir Hæstarétt hefur hún jafnframt lagt bréf Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 4. apríl 2013 með árituðum athugasemdum  á viðveruskrána, einkum um einstök verkefni áfrýjanda allmarga starfsdaga hennar. Með þessu segir í bréfi stéttarfélagsins að sé „leitast við að sýna hvernig frítökuréttur [áfrýjanda] myndaðist og til þess að reikna út með rekjanlegum hætti óuppgerðan frítökurétt hennar.“ Stefndi mótmælir þeim tímafjölda sem talið er í bréfi stéttarfélagsins að áfrýjandi hafi áunnið sér, sem ekki beri „saman við útreikninga stefnda á sama rétti, sem þó er reiknaður út frá sömu forsendum og þeim sem getið er að hafi verið hafðar til hliðsjónar“ af hálfu stéttarfélagsins eins og segir í greinargerð stefnda til Hæstaréttar. Hvað sem líður síðastnefndu bréfi hefur áfrýjandi hvorki lagt fram sundurliðaðan útreikning á því hvernig frítökuréttur hafi myndast með viðveru hennar á vinnustað né sýnt fram á að uppfyllt hafi verið þau skilyrði sem tilgreind eru í kjarasamningi fyrir myndun slíks réttar. Þessi hluti fyrsta kröfuliðar áfrýjanda er því ósannaður og er því hafnað.

Kröfuliður áfrýjanda um skaðabætur er á því reistur að hún hafi orðið fyrir fjártjóni vegna uppsagnarinnar. Kveður hún kröfuna svara til launa í 24 mánuði miðað við föst mánaðarlaun, sem hún kveður vera 432.951 krónu að meðtalinni 14 tíma fastri yfirvinnu. Krafan er meðal annars sérstaklega rökstudd með vísan til þess að hún eigi lögheimili og búi á Vesturlandi þar sem kostir á atvinnu séu fáir fyrir hjúkrunarfræðing á sextugsaldri og takmarkist við fáa vinnuveitendur. Þá séu ávirðingar sem bornar hafi verið á hana til þess fallnar að gera henni erfitt fyrir við leit að nýju starfi. Stefndi mótmælir kröfunni og vísar til þess að áfrýjanda hafi borið að leitast við að takmarka tjón sitt. Ósannað sé að hún hafi ekki getað fundið starf sem hjúkrunarfræðingur, en til hliðsjónar beri að hafa 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996. Þótt áfrýjandi eigi lögheimili í Borgarfirði bendi gögn ótvírætt til þess að hún sé í raun búsett í miðborg Reykjavíkur og þar með á því atvinnusvæði þar sem auðveldast sé að verða sér úti um starf sem hjúkrunarfræðingur. Um það vísar stefndi bæði til „curriculum vitae“, sem fylgt hafi starfsumsókn áfrýjanda hjá stefnda, þar sem segir að lögheimili hennar sé að Hvassafelli II í Norðurárdal en búseta að Lækjargötu 4 í Reykjavík og skýrslu um móttöku muna í hennar eigu, sem hún fékk senda frá Norðuráli hf. og mótteknir voru að Lækjargötu 4 í Reykjavík.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að áfrýjandi hafi hinn 1. mars 2013 ráðið sig til að gegna hlutastarfi hjúkrunarfræðings við stofnun í Búðardal. Hún hefur sjálf gefið upp búsetu í Reykjavík og að auki eru ekki sérstök efni til að miða við að kostir hennar á starfi hafi takmarkast við Vesturland í ljósi þess að í reynd sækja margir vinnu frá Reykjavíkursvæðinu til Borgarfjarðar og öfugt. Þá naut áfrýjandi atvinnuleysisbóta frá desember 2011. Að öllu virtu verða skaðabætur samkvæmt öðrum kröfulið hennar ákveðnar með sem næst fimm mánaðarlaunum hennar með 2.400.000 krónum,

Kröfuliður áfrýjanda um miskabætur er studdur við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hún telur uppsögnina hafa verið sérlega meiðandi, en hún hafi ekki verið studd neinum haldbærum rökum um brot í starfi. Starfsmenn stefnda sinni enn sömu störfum og hún hafi áður unnið í þágu Norðuráls hf. hvað sem líði uppsögn verksamningsins, en sú uppsögn og brottrekstur áfrýjanda hafi miðað að því að koma henni úr starfi án málefnalegra ástæðna og án þess að neinar ástæður væru tilgreindar. Sérstaklega hafi verið óskað eftir að áfrýjandi ynni ekki út uppsagnarfrestinn og út á við beri uppsögnin þess merki að hún hafi gerst sek um alvarlegt athæfi sem réttlæti fyrirvaralausan brottrekstur úr starfi. Stefndi telur á hinn bóginn að uppsögn ráðningarsamningsins hafi á engan hátt beinst að áfrýjanda persónulega, starfsheiðri hennar eða æru. Ákvörðunin um uppsögn hafi byggst á hagræðingu í rekstri stefnda og ekki lotið að störfum áfrýjanda.

Áður er fram komið að með uppsögn áfrýjanda braut stefndi gegn málsmeðferðarreglum laga nr. 70/1996. Framganga hans við að slíta ráðningu hennar var til þess fallin að vera meiðandi fyrir áfrýjanda eins og hún heldur sjálf fram. Verður samkvæmt því fallist á kröfulið hennar um miskabætur sem eru hæfilega ákveðnar 400.000 krónur.

Samkvæmt öllu framanröktu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 2.800.000 krónur með vöxtum eins og nánar segir í dómsorði. Stefndi verður jafnframt dæmdur til að greiða henni málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem verður ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Það athugast að stefna hefði átt íslenska ríkinu til aðildar í málinu en ekki stefnda.

Dómsorð:

Stefndi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, greiði áfrýjanda, Árnýju Sigrúnu Helgadóttur, 2.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2012 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 26. nóvember 2012.

Mál þetta sem dómtekið var hinn 30. október sl. er höfðað með stefnu birtri 11. janúar 2012.

Stefnandi er Árný Sigrún Helgadóttir, Hvassafelli II, Norðurárdal.

Stefndi er Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Merkigerði 9, Akranesi.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda:

1.               Ógreidd laun í uppsagnarfresti, laun vegna frítökuréttar og akstursgjalds fyrir maí til júlí 2011, samtals að fjárhæð kr. 599.750

2.               Skaðabætur að fjárhæð kr. 10.390.824

3.               Miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000

Verði ekki fallist á kröfuliði 1 og 2 krefst stefnandi þess til vara að stefnda verði gert að greiða lægri fjárhæð.  Jafnframt krefst stefnandi þess að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá því málið er þingfest þann 17. janúar 2012 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði fellur niður.

MÁLSATVIK

Stefnandi lýsir málsatvikum svo að með auglýsingu á starfatorgi stjórnarráðsins hinn 29. maí 2009, hafi Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi (SHA), nú Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE), auglýst eftir hjúkrunarfræðingi í 100% starf á sviði starfsmannaheilsuverndar á starfssvæði SHA. Stefnandi hafi verið ráðinn í umrætt starf með ráðningasamningi, dags. 10. ágúst 2009. Frá upphafi hafi stefnandi sinnt störfum á sviði starfsheilsuverndar hjá Norðuráli og séð þannig um framkvæmd á stærstum hluta verksamnings Norðuráls og SHA sem þessir aðilar hefðu gert með sér hinn 18. maí 2009.  Á starfstíma sínum hafi stefnandi ekki orðið vör við annað en að störf hennar væru unninn á allan hátt eins og ætlast væri til allt fram í júlí 2011. Stefnandi hafi enga vitneskju eða grun haft um þá atburðarás sem farið hafi af stað í júlí 2011. Með tölvupósti yfirmanns stefnanda hinn 11. júlí hafi stefnandi skyndilega verið boðaður á fund með forstjóra og yfirmanni hjúkrunar og rekstrar HVE þar sem fundarefnið hafi verið sagt vera samningur stefnda við Norðurál.  Á umræddum fundi sem haldinn hafi verið hinn 13. júlí 2011 hafi stefnanda verið tjáð að Norðurál væri búið að segja upp samningi sínum við stefnda vegna ónægju með störf stefnanda eins og því hafi verið lýst og óhjákvæmilegt yrði að segja stefnanda upp störfum.  Á fundinum hafi engar skýringar verið gefnar í hverju þessi óánægja með störf stefnanda hafi falist.

Hinn 19. júlí 2011 hafi forstjóri stefnda boðað stefnanda á sinn fund ásamt staðgengli yfirmanns stefnanda. Fundarboðið hafi verið í tölvubréfi og hafi stefnandi svarað því samdægurs og tilkynnt mætingu sína á umræddan fund.  Hinn 20. júlí hafi stefnandi veikst og tilkynnt það nokkru fyrir vinnutíma sinn eða kl. 6:45 þann morgun til stofnunarinnar með tölvubréfi. Þau veikindi hafi reyndar staðið allt fram í miðjan september og lýst sér helst í missi á jafnvægisskyni, uppköstum og síðar orkuleysi og minni líkamsgetu. Vegna veikinda stefnanda hafi ekkert orðið af boðuðum fundi.

Mánudaginn 25. júlí 2011 hafi forstjóri stefnda sent stefnanda tölvupóst þar sem lýst sé yfir leiðindum vegna veikinda stefnanda en samhliða sé því lýst yfir að forstjórinn vilji gefa stefnanda kost á samtali til að ræða „þær breytingar sem orðið hafa...“ með það að markmiði að gera „umskiptin“ eins hnökralítil og kostur sé.  Seinni part þessa sama dags hafi stefnanda hins vegar borist tölvupóstur með uppsagnarbréfi. Í uppsagnabréfinu sé sérstaklega vísað til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um leið og stefnanda sé bent á að uppsagnarfrestur séu þrír mánuðir og starfslok verði því 31. október 2011.  Hafi stefnandi skilið þetta uppsagnarbréf svo, að óskað væri vinnuframlags hennar þegar veikindi væru afstaðin.  Hinn 27. júlí 2011 hafi hins vegar brugðið svo við að forstjóri stefnda hafi sent stefnanda tölvupóst þar sem nú sé óskað fundar með stefnanda hið fyrsta til að ræða stöðu verkefna hennar þar sem „...óskað hefur verið eftir að annar starfsmaður sinni þessum verkefnum um sinn“.  Hinn 29. júlí hafi heilsugæsla sent umbeðið læknisvottorð til stefnda, dagsett 26. júlí 2011, sem staðfest hafi veikindi stefnanda um óvísan tíma frá 20. júlí 2011.  Í svarbréfi stefnanda vegna uppsagnar hennar, dagsettu 4. ágúst 2011, sé lýst mikilli óánægju með það fyrirkomulag að stefnanda hafi verið sagt upp í veikindum sínum en jafnframt óskað rökstuðnings fyrir uppsögninni.  Hinn 11. ágúst 2011, hafi stefnanda borist afar stuttort svarbréf frá forstjóra stefnda vegna uppsagnar hennar, þar sem vísað er til fundar hinn 13. júlí og sagt að Norðurál hafi sagt upp gildandi þjónustusamningi sínum við stofnunina „...vegna óánægju með tiltekna þætti í samskiptum og í framkvæmd.“  Af rökstuðningnum og fundi aðila hinn 13. júlí megi því ljóslega ráða að uppsögnina megi rekja til óánægju með störf stefnanda.

Í kjölfarið hafi stefnandi leitað til lögmanns og í kjölfarið hafi farið fram fundur hinn 30. ágúst 2011 með stjórnendum stefnda, stefnanda, lögmanni hans og eiginmanni stefnanda.  Á fundinum hafi það meðal annars komið fram hjá stjórnendum stefnda að þeir hefðu ekkert út á störf stefnanda að setja en þrátt fyrir það hafi því jafnframt verið lýst yfir á sama fundi af yfirmanni hjúkrunar- og rekstrar að hún treysti ekki stefnanda til að vinna á heilsugæslu. Á fundinum hafi stefnandi lagt fram nýtt læknisvottorð Hannesar Þ. Hjartarsonar, læknis, þar sem fram komi það mat að stefnandi sé óvinnufær til 15. september 2011.  Á fundinum hafi stefnandi rökstutt á hvern hátt hann teldi uppsögn stefnda ólögmæta og bent á nýlega dóma máli sínu til stuðnings.  Í kjölfar fundarins hafi stefnandi leitað sáttar um málið, sbr. bréf dags. 16. september 2011. Fundur hafi verið haldinn með aðilum hinn 20. október 2011 en þar hafi tillögum að greiðslu bóta verið alfarið hafnað.

Þess skuli sérstaklega getið að eftir að stefnanda hefði verið sagt upp á þeim meinta grundvelli að Norðurál hafi sagt upp verksamningi við stefnda og þar með hafi forsendur fyrir starfi stefnanda verið brostnar, hafi stefndi látið hjúkrunarfræðingana Guðríði Guðmundsdóttur og Ragnheiði Helgadóttur ganga í þau störf sem verksamningur stefnda við Norðurál hafi falið í sér.

Af hálfu stefnda segir að hann geti ekki fallist á málavaxtalýsingu stefnanda þar sem í henni sé að finna rangar staðhæfingar varðandi samskipti stefnanda við starfsmenn stefnda, auk annarra rangra staðhæfinga og sé henni því mótmælt sem rangri.

Aðdragandi að ráðningu stefnanda hafi verið sá að stefndi hafi gert verksamning í maí 2009 við Norðurál um starfsmannaheilsuvernd. Í beinu framhaldi af þeirri samningsgerð hafi stefndi auglýst eftir hjúkrunarfræðingi í 100% starf til þess að sinna starfsmannaheilsuvernd á starfssvæði stefnda, sem ætlað hafi verið að sinna verkefni samkvæmt þeim þjónustusamningi og hafi sú auglýsing m.a birst á á Starfatorgi hinn 29. maí 2009.

Í samskiptum hjúkrunarforstjóra stefnda við stefnanda í aðdraganda ráðningar hennar hafi komið skýrt fram að um tilraunaverkefni væri að ræða sem endurskoðað yrði í ljósi reynslu, bæði skipulagslega og að umfangi. Stefnandi hafi unnið starfið samhliða meistaranámi við Háskólann á Bifröst. Á starfstímanum hafi stefnandi viðað að sér efni í meistararitgerð sem hún hafi gefið út í desember 2010, um líðan starfsfólks, breytingar og viðfangsefni stjórnenda í Norðuráli á árinu 2010.

Stefnandi hafi verið ráðinn hjúkrunarfræðingur í 100% starf með ráðningarsamningi dagsettum 10. ágúst 2009 með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Með ódagsettum ráðningarsamningi hafi stefnandi síðan verið ráðinn deildarstjóri starfsmannaheilsuverndar. Frá upphafi hafi stefnandi sinnt störfum á sviði starfsmannaheilsuverndar hjá Norðuráli og séð þannig um framkvæmd á stærstum hluta verksamnings Norðuráls og Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi. Rétt sé að geta þess hér að Sjúkrahússið og heilsugæslustöðin á Akranesi hafi breyst í Heilbrigðisstofnun Vesturlands frá 1. janúar 2010, sbr. reglugerð nr. 447/2009 um breytingu á reglugerð nr. 785/2007 um heilbrigðisumdæmi.

Samkvæmt 11. grein verksamnings stefnda við Norðurál hafi samningurinn í upphafi verið gerður til eins árs og skyldi endurskoðaður að þeim tíma loknum og hafi hvor aðila um sig að þeim tíma loknum getað sagt samningnum upp með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara.

Með tölvupósti 11. júlí 2011, hafi stefnandi verið boðaður á fund sem haldinn hafi verið hinn 13. júlí 2011 og fundarefnið hafi verið samningurinn við Norðurál. Á þeim fundi hafi stefnandi verið upplýstur um tilkynningu mannauðsstjóra Norðuráls um að gera yrði breytingu á skipulagi starfsmannaheilsuverndar stefnda á verksmiðjusvæðinu sem fæli það í sér að verksamningi yrði sagt upp í heild eða hluta. Lágmarkskrafa fyrirtækisins væri að skipt yrði um hjúkrunarfræðing sem sinnti þessari þjónustu fyrir hönd stefnda. Stefnandi hafi á þessum fundi verið upplýst um það að þar sem Norðurál hefði í raun sagt upp samningi sínum við stefnda væri ekki hjá því komist að segja stefnanda upp störfum þar sem ráðning hennar hjá stefnda hefði eingöngu byggst á þessu verkefni. Væntanleg uppsögn hafi þannig verið kynnt stefnanda þann dag. Niðurstaða fundarins hafi orðið sú að hjúkrunarforstjóri myndi ræða við mannauðsstjóra Norðuráls og kynna honum það sem fram hefði farið á fundinum auk þess sem stefnandi hafi sagst munu leita eftir skýringum hjá stjórnendum Norðuráls. Forstjóri stefnda hafi síðan átt fund hinn 20. júlí 2011 með fulltrúum Norðuráls. Á fundinum hafi komið fram af hálfu fulltrúa Norðuráls að þrátt fyrir ábendingar, samtöl og ítrekanir gagnvart stefnanda, hefði ekki tekist að færa til betri vegar það sem óskað hefði verið eftir í starfsskipulagi og háttum stefnanda. Væri það ófrávíkjanleg afstaða Norðuráls að segja samningnum upp. Með bréfi, dagsettu 20. júlí 2011, hafi verksamningi stefnda og Norðuráls verið sagt upp í samræmi við ákvæði hans með þriggja mánaða fyrirvara. Ástæða uppsagnar verksamningsins hafi veirð tilgreind framkvæmd hjúkrunarþjónustu samkvæmt verksamningnum og þess óskað að hjúkrunarfræðingur lyki starfsskyldum sínum á vettvangi fyrirtækisins svo fljótt sem verða mætti.

Eftir fund forstjóra og hjúkrunarforstjóra stefnda með stefnanda hinn 13. júlí 2011, þar sem fyrirhuguð uppsögn hafi verið kynnt, og fund forstjóra stefnda með fulltrúum Norðuráls hinn 20. júlí 2011 hafi verið reynt að koma á fundi með forsvarsmönnum stefnda og stefnanda en það ekki tekist sökum veikinda stefnanda. Stefnanda hafi verið sent uppsagnarbréf með tölvupósti hinn 25. júlí 2011. Í tölvupóstinum hafi komið fram að forstjóri stefnda teldi nauðsynlegt að senda stefnanda uppsagnarbréf vegna stöðu hennar sem deildarstjóra starfsmannaheilsuverndar í Norðuráli, vegna uppsagnar Norðuráls á verksamningnum og krafna fyrirtækisins um að stefnandi sinnti ekki þessu verkefni.

Með tölvupósti, dagsettum 26. júlí 2011, hafi forstjóri stefnda óskað eftir því við stefnanda, samkvæmt tilmælum frá forráðamönnum Norðuráls, að eiga sem fyrst fund með stefnanda til að leggja línur um frágang verkefna hjá Norðuráli. Stefnandi hafi svarað beiðninni með tölvupósti, dagsettum 27. júlí 2011, þar sem fram komi að hún væri veik en myndi koma til fundar um leið og henni væri það fært. Að ósk forstjóra stefnda hafi stefnandi síðan sent stefnda tvö læknisvottorð vegna veikinda sinna.

Með bréfi, dagsettu 4. ágúst 2011, hafi stefnandi óskað eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni. Í bréfi forstjóra stefnda, dagsettu 11. ágúst 2011, hafi verið vísað til fundarins 13. júlí 2011, þar sem stefnandi hefði verið upplýst um fyrirhugaða uppsögn og jafnframt gerð grein fyrir afstöðu Norðuráls og að þjónustusamningi hafi verið sagt upp vegna óánægju fyrirtækisins með tiltekna þætti í samskiptum og í framkvæmd. Í bréfinu sé tekið fram að með því að Norðurál hafi sagt upp samningi sínum, væru brostnar forsendur fyrir því verkefni sem stefnandi hefði verið ráðin til.

Stefnandi, hafi ásamt lögmanni sínum, átt fund með forstjóra og framkvæmdastjóra stefnda hinn 30. ágúst 2011 þar sem stefnandi hafi ásamt lögmanni sínum gert grein fyrir málinu eins og það hafi horft við henni. Í framhaldi hafi átt sér stað nokkur bréfasamskipti milli aðila.

Stefndi mótmælir sérstaklega þeim hluta málavaxtalýsingar í stefnu, þar sem því sé haldið fram að stefndi hafi látið tvo nafngreinda hjúkrunarfræðinga ganga í þau störf sem verksamningur stefnda við Norðurál hafi falið í sér og að annar þeirra sinni nú verkefnum sem stefnandi hafi sinnt áður. Þá sé þeirri fullyrðingu stefnanda að verksamningur stefnda og Norðuráls hafi verið endurnýjaður eftir uppsögn stefnanda sérstaklega mótmælt. Allar þessar fullyrðingar stefnanda séu úr lausu lofti gripnar og mótmæli stefndi þeim sem röngum og órökstuddum.

Óumdeilt sé að stefnandi hafi tilkynnt veikindi þegar í kjölfar fundar hinn 13. júlí 2011 og samkvæmt læknisvottorði sem borist hafi stefnda hinn 29. júlí 2011 hafiv erið óvíst hvenær stefnandi kæmi aftur til starfa. Það hafi ekki orðið ljóst fyrr en með læknisvottorði mótteknu 30. ágúst 2011 að stefnandi yrði óvinnufær með öllu til 15. september 2011. Stefndi hafi orðið að bregðast við veikindum stefnanda með því að fá afleysingafólk til að sinna störfum stefnanda hjá Norðuráli vegna uppsagnarákvæða í þjónustusamningi og ákvæðis í grein 2 þar sem segi að stefnda beri að útvega hjúkrunarfræðing sem staðgengil í fjarveru þess sem ráðinn sé til þjónustu við Norðurál. Enginn samningur hafi hins vegar verið gerður um áframhald þjónustunnar við Norðurál en stefndi hafi veitt Norðuráli heilbrigðisþjónustu til bráðabirgða samkvæmt beiðni þar til fyrirtækið hafi markað sér stefnu til lengri tíma varðandi þennan þátt. Staðhæfing stefnanda um að samningur hafi verið endurnýjaður sé því röng.

MÁLSASTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að uppsögn hennar hafi verið ólögmæt og veiti rétt til skaðabóta. Stefnandi byggir á því að um réttarsamband hans og stefnda gildi lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Í ráðningasamningi stefndanda við stefnda sé skýrt tekið fram að um réttindi og skyldur stefnanda fari eftir lögum og reglugerðum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins eins og þau séu á hverjum tíma. Í uppsagnarbréfi stefnanda sé tvívegis vísað til gildandi laga nr. 70/1996 um réttindi stefnanda. Samkvæmt ráðningasamningi stefnanda hafi um launakjör hennar farið eftir kjarasamningi ríkisins við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og hafi stefnandi greitt í lífeyrissjóð LSR á starfstíma sínum hjá stefnda.  Stefnandi hafi verið ráðinn í starf hjúkrunarfræðings sem deildarstjóri starfsmannaheilsuverndar hjá stefnda.  Engin tilvísun sé í ráðningasamningi stefnanda til þjónustusamnings stefnda við Norðurál, hvað þá að þar komi fram að grundvöllur ráðningarinnar og/eða tilvist starfsins tengist þeim þjónustusamningi.  Engin vafi sé um að um réttarstöðu stefnanda gagnvart stefnda gildi málsmeðferðarreglur laga nr. 70/1996 varðandi uppsögn.  Þessar reglur hafi á allan hátt verið brotnar á stefnanda í uppsagnarferlinu. 

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sé skylt að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. laganna og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum sé sagt upp störfum, ef uppsögn eigi rætur að rekja til ástæðna sem þar séu tilgreindar.  Jafnframt megi benda á að samkvæmt tilskipun Evrópuráðsins nr. 91/533/EBE hvíli sú skylda á vinnuveitendum að upplýsa starfsmenn með skýrum hætti um kaup og kjör og réttindi og skyldur þeirra.  Umrædd uppsögn eigi ljóslega rætur að rekja til ástæðna sem tilgreindar séu í 21. gr. laga nr. 70/1996.  Jafnframt beri, samkvæmt meginreglum vinnuréttar, að túlka allan vafa um réttarstöðu starfsmanns honum í hag.

Stefnandi hafi aldrei hlotið áminningu í starfi, hafi átt flekklausan starferil og notið hróss og stuðnings í störfum sínum en ekki hið gangstæða. Stefnandi bendir sérstaklega á að starfsmissir sé afar íþyngjandi ákvörðun sem varði ríka hagsmuni viðkomandi starfsmanns.  Því verði að gera þá kröfu að gætt sé viðeigandi reglna við töku slíkra ákvarðana og eigi það sérstaklega við þegar um sé að ræða opinbert stjórnvald eins og í þessu tilviki.  Stefnandi heldur því fram að stefnda hafi borið að fara að meginreglum stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunar um uppsögnina enda sé það óyggjandi að lausn frá starfi sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þessa hafi ekki verið gætt í neinu tilliti heldur hafi verið tekin órökstudd og haldlaus ákvörðun um að taka starfið af stefnanda með valdi og ráðstafa því annað.

Við þá ákvörðun, að segja upp opinberum starfsmanni, beri að gæta að réttum málsmeðferðar- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins, sem m.a. komi fram í stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Í samræmi við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga og bein fyrirmæli 21. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996 beri að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um fyrirhugaða áminningu og einstaka efnisþætti hennar, sé það unnt.  Að öðrum kosti geti starfsmaður ekki gætt lögmætra hagsmuna sinna.  Þá verði einnig að gæta að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga við ákvörðunina.  Ekkert af þessum ákvæðum hafi verið virt í aðdraganda og við framkvæmd uppsagnarinnar á stefnanda.  Með þessu hafi réttaröryggi stefnanda verið fyrir borð borið í samskiptum hennar við hlutaðeigandi stjórnvald og öll stjórnsýslan verið einkar meiðandi og óvönduð.  Stefnandi hafi á engan hátt notið þeirra lögboðnu réttinda að fá áminningu og tækifæri til að bæta ráð sitt.  Hvað þá að stefnandi hafi fengið yfirleitt einhverjar skýringar á því á hvern hátt störf hennar hafi talist ófullnægjandi.

Þá byggir stefnandi á því að kjarasamningur FÍH og ríkisins, sem eigi við um lögskipti aðila í máli þessu, byggi á sömu grunnreglum og fram komi í lögum 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Stefndi hafi því einnig virt ákvæði kjarasamnings að vettugi.

Stefnandi mótmæli alfarið ásökunum um að hún hafi ekki staðið sig í starfi.  Slíkar fullyrðingar séu bæði rangar og eigi ekki við rök að styðjast.  Jafnvel þó lagt væri til grundvallar að stefndi hefði einhverjar ávirðingar á hendur stefnanda vegna framgöngu í starfi og þær væru að öllu leyti sannar séu þær ekki þess eðlis að segja hefði mátt stefnanda upp störfum á grundvelli 1. mgr. 44. gr. l. 70/1996.  Gögn málsins sýni að uppsögnina megi rekja til ávirðinga í garð stefnanda.  Með vísan til þess og framangreindra lagaákvæða telji stefnandi að stefnda hafi verið skylt að áminna hann áður en til uppsagnar kom, að undangengnum fresti fyrir stefnanda til að koma að andmælum sínum.  Þar sem uppsögn stefnda hafi ekki uppfyllt ofangreind skilyrði hafi hún verið ólögmæt.

Um ógreidd laun í uppsagnarfresti, frítökurétt og ógreitt akstursgjald segir stefnandi að stefnandi hafi ekki fengið að fullu greidd laun í uppsagnarfresti.  Stefnandi hafi verið óvinnufær vegna veikinda þegar ráðningasamningi var slitið. Réttur hennar til forfallalauna sé ótvíræður og verði ekki skertur með uppsögn.  Veikindaforföllum stefnanda hafi lokið lauk þann 15. september 2011. Þá hafi tekið við þriggja mánaða uppsagnarfrestur stefnanda frá og með 1. október 2011 enda miðist uppsagnarfrestur stefnanda við mánaðarmót. Með hliðsjón af almennum meginreglum vinnuréttar hafi stefnda borið að greiða stefnanda full laun fyrir desember 2011. Stefnandi krefst því launa í uppsagnarfresti fyrir desember 2011, þ.e. mánaðarlauna ásamt fastri yfirvinnu samkvæmt ráðningasamningi svo og orlof af yfirvinnu.

Þá hafi stefnandi ekki greitt stefnanda áunninn frítökurétt að öllu leyti og krefst stefnandi greiðslu þess sem hann telur muna. Með hliðsjón af ákvæðum kafla 2.4 í kjarasamningi aðila hafi frítökuréttur stefnanda við uppsögn numið alls 69,375 tímum. Samkvæmt grein 2.4.5.9. skal ógreiddur frítökuréttur gerður upp við starfslok með sama hætti og orlof. Með hliðsjón af launaflokki stefnanda skv. ráðningasamningi, launaflokki 7, 6. þrep. nemur hver klst. frítökuréttar 2.350 kr. Krafan samkvæmt þessum lið nemur því 69,375 x 2.350 =163.031 kr. Af því hafi stefnandi fengið greiddar 81.626 krónur hinn 17. janúar sl. sem dragist frá kröfu hans

Heildarkrafa samkvæmt þessum dómkröfulið nemi 599.750 krónum

Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi beri fébótaábyrgð á hinni ólögmætu uppsögn samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og dómvenju.  Kröfur um skaðabætur vegna slita á vinnusamningi séu reistar á því að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna uppsagnarinnar.  Krafa stefnanda um skaðabætur vegna slita á vinnusamningi svari til launa í 24 mánuði, miðað við föst mánaðarlaun. Samkvæmt kjarasamningi FÍH og stefnda nemi föst mánaðarlaun í launaflokki 7, þrepi 6 kr. 382.128 á mánuði frá og með 1. júní 2011. Með 14 tíma fastri yfirvinnu stefnanda nemi mánaðarlaun stefnanda 432.951 krónum. Samtals nemi þessi kröfuliður því kr. 10.390.824.

Stefnandi telur að við mat á fjártjóni vegna hinnar ólögmætu uppsagnar beri m.a. að hafa í huga aldur stefnanda, kyn, menntun og starfsreynslu.  Atvinnumöguleikar 54 ára gamals hjúkrunarfræðings sem eigi lögheimili og búsetu á Vesturlandi séu fáir.  Stefnandi búi á atvinnusvæði þar sem atvinnumöguleikar fyrir einstaklinga með menntun stefnanda séu takmarkaðir við mjög fáa vinnuveitendur sem nær allir séu á hendi hins opinbera.  Afar litlar líkur séu á því að það breytist á næstu misserum.  Þá beri að líta til þess að uppsögnin og þær ávirðingar sem bornar hafi verið á stefnanda séu til þess fallnar að gera honum erfiðara fyrir við leit að nýju starfi.  Þá beri að hafa það í huga að stefnandi hafi notið réttinda samkvæmt lögum nr. 70/1996 og lögum nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.  Hann hafi þar af leiðandi mátt vænta þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka ríkisstarfsmanna svo lengi sem starfseminni yrði haldið áfram á vegum ríkisins og hann gerðist ekki brotlegur í starfi.  Jafnframt verði að líta til þess að öll meðferð uppsagnar á stefnanda hafi verið sérlega meiðandi þar sem uppsögn hafi ekki verið studd neinum haldbærum rökum um einhver brot stefnanda í starfi.  Í ljósi alls framangreinds er krafa stefnanda síst of há um skaðabætur vegna fjártjóns er svari til 24 mánaða launa.

Krafa stefnanda um miskabætur er studd við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Uppsögnin hafi verið sérlega meiðandi.  Stefnanda hafi verið sagt upp eftir að hann hefði tilkynnt lögmæt veikindaforföll.  Stefnanda hafi verið sagt upp bréfleiðis og án þess að sú skriflega uppsögn tilgreindi neinar ástæður uppsagnarinnar.  Uppsagnarbréfið hafi borið með sér að stefnandi ætti að vinna út uppsagnarfrestinn, síðar hafi þess verið óskað að stefnandi ynni ekki uppsagnarfrestinn.  Sé þetta afar furðuleg framkoma í ljósi þess að stefndi hafi reynt að hylma yfir raunverulegar ástæður uppsagnarinnar.  Út á við beri uppsögnin þess merki að stefnandi hafi gerst sekur um alvarlegt afbrot sem réttlæti fyrirvaralausan brottrekstur af vinnustað.  Þá sé það sérlega meiðandi að til viðbótar við að hafna frekari vinnuframlagi komist stefnandi að því að tveir aðrir hjúkrunarfræðingar HVE hafi unnið störf stefnanda eftir að hún hafi náð sér af veikindum sínum á uppsagnarfresti. Þessi háttsemi stefnda gagnvart stefnanda í kjölfar uppsagnarinnar hafi verið einkar meiðandi.  Ekkí síst í ljósi þess að stefnandi hafi til þessa átt flekklausan starfsferil og hlotið hrós fyrir hin ýmsu störf í gegnum árin.  Telur stefnandi að uppfyllt séu skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1993.  Af ofangreindu og í ljósi atvika telur stefnandi að krafa um miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000 sé hófleg.

Stefnandi vísar einkum til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og reglugerða settum á grundvelli þeirra, einkum reglugerða nr. 785/2007 og 448/2009,  reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, tilskipana ESB á sviði vinnuréttar einkum tilskipunar nr. 91/533/EBE. Jafnframt er vísað til kjarasamninga FÍH við stefnda og afleiddra skjala þeirra svo sem stofnanasamninga sem og meginreglna vinnuréttar.  Þá vísar stefnandi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál.  Krafa um dráttarvexti styðst við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi kveður sýknukröfu sína byggjast á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt og réttilega hafi verið að henni staðið. Stefndi hafi að fullu gert upp laun við stefnanda á grundvelli ráðningarsamningsbundins uppsagnarnarfrests og eigi stefnandi því ekki frekari kröfur á hendur stefnda.

Því sé mótmælt sem röngu að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt og varði bótaskyldu. Því sé einnig mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi ekki fengið að fullu greidd laun í uppsagnarfresti.

Stefnandi hafi verið óvinnufær vegna veikinda þegar ráðningarsamningi hafi verið sagt upp hinn 25. júlí 2011. Stefnandi hafi notið þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt ráðningarsamningi. Samkvæmt meginreglum vinnuréttar hafi upphaf uppsagnarfrests stefnanda miðast við mánaðamótin júlí/ágúst 2011 og lok hans við 31. október 2011 og breyti veikindi stefnanda þar engu um. Samkvæmt dómafordæmum lengist uppsagnarfrestur ekki þó stefnandi sé óvinnufær vegna veikinda á þeim tíma sem honum er sagt upp. Stefnanda hefði að auki verið kynnt ráðgerð uppsögn áður en hún veiktist auk þess sem uppsögn ráðningarsamningsins hafi í engu skert veikindarétt hennar. Við lok veikinda hinn 15. september 2011 hafi stefnandi farið af veikindalaunum og fengið greidd laun út uppsagnarfrest án vinnuskyldu, en starfslok hafi verið 31. október 2011. Kröfu stefnanda um laun í uppsagnarfresti fyrir desember 2011, sé því mótmælt.

Stefndi hafi greitt stefnanda þann hluta frítökuréttar sem fullnægjandi gögn séu fyrir. Það hafi verið gert hinn 16. janúar 2012, þegar sýnt hafi þótt að stefnandi hygðist ekki leggja fram fullnægjandi gögn af sinni hálfu kröfunni til stuðnings. Eftir höfðun málsins hinn 11. janúar 2012 hafi launafulltrúi stefnda farið yfir frítökuréttinn í samræmi við viðveruskráningu og hafi heildarfjöldi tíma reynst vera 31,68 eða frítökuréttur að fjárhæð 81.626 krónur, í samræmi við launaflokk 9-6. Hinn 16. janúar 2012 hafi stefndi greitt þá fjárhæð inn á bankareikning stefnanda og tilkynnt lögmanni stefnanda um greiðsluna með bréfi, dagsettu 17. janúar 2012.  Þeim gögnum sem stefnandi hafi lagt fram til stuðnings kröfu sinni um frítökurétt beri ekki saman við þau gögn er varða frítökurétt stefnanda sem launadeild stefnda hafi undir höndum. Stefndi mótmæli því eftirstöðvum kröfunnar sem ósönnuðum.

Uppgjör á akstursgjaldi til stefnanda hafði ekki farið fram af þeirri einföldu ástæðu að nauðsynleg gögn höfðu ekki borist frá stefnanda. Í framhaldi af bréfi stefnda til lögmanns stefnanda hinn 13. janúar 2012, hafi akstursreikningar verið sendir stefnda. Þeir hafi reynst vera í samræmi við viðveru og vinnutíma stefnanda tímabilið maí 2011 til júlí 2011. Stefndi hafi greitt kröfuna að fullu með 220.480 krónum hinn 16. janúar 2012, án nokkurs undandráttar þegar fullnægjandi gögn hafi legið fyrir af hálfu stefnanda.

Stefndi ítrekar fyrri mótmæli sín við þeirri málsástæðu stefnanda að uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið ólögmæt. Að auki eigi skaðabótakrafa sem sé í engum tengslum við ráðningarsamband aðila engan rétt á sér.

Tilefni starfsloka stefnanda sé að rekja til þeirrar forsendu sem legið hafi til grundvallar ráðningu hennar sem deildarstjóra starfsmannaheilsuverndar, vegna verksamnings stefnda og Norðuráls, og uppbyggingu faglegrar öryggis- og starfsmannaheilsuverndar hjá Norðuráli. Sú forsenda hafi verið stefnanda kunn og verði því ekki séð að nokkur grundvöllur sé fyrir skaðabótakröfu hennar. Við stofnun ráðningarsambands stefnanda við stefnda hafi henni verið gert það ljóst að ein af meginforsendum ráðningar hennar væri sú að hún ætti að sinna starfsmannaheilsuvernd hjá Norðuráli á grundvelli samnings stefnda við Norðurál. Í auglýsingu um starfið komi fram að óskað sé eftir hjúkrunarfræðingi til að sinna starfsmannaheilsuvernd á starfssvæði stefnda. Í viðræðum aðila í aðdraganda ráðningar stefnanda í starfið sumarið 2009 hafi komið skýrt og ótvírætt fram að um væri að ræða starf við starfsmannaheilsuvernd hjá Norðuráli til að uppfylla samningsskyldur stefnda samkvæmt verksamningi. Grundvöllur ráðningar stefnanda hafi verið skýr og ótvíræður og því ekki nauðsynlegt að geta þess sérstaklega í ráðningarsamningi að þjónustusamningur stefnda við Norðurál væri grundvöllur ráðningar stefnanda. Stefnanda hafi verið það fullljóst enda hafi hún sinnt starfinu samhliða meistaranámi og getað samþætt starfið náminu með því að afla rannsóknargagna í meistararitgerð sína.

Upphafleg forsenda ráðningar stefnanda hafi verið ítrekuð á fundi með henni hinn 13. júlí 2011 þegar stefnanda hafi verið tilkynnt að ekki yrði hjá því komist að segja henni upp störfum, þar sem Norðurál ráðgerði uppsögn. Stefnanda hafi ekki verið sagt upp störfum vegna brota í starfi. Á því hafi ekki verið byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi brotið gegn skyldum sínum og því ekkert tilefni verið til að beita stefnanda viðurlögum t.d. samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996. Uppsögn stefnanda hafi byggst á 43. gr. þeirra laga og sé í samræmi við efni ráðningarsamningsins. Að mati stefnda hafi ekkert tilefni verið til að byggja uppsögnina á 44. gr. laganna. Að baki uppsögn stefnanda hafi verið gildar ástæður sem hafi ekki með nokkrum hætti tengst veikindum stefnanda eða ástæðum sem rekja mætti til háttsemi sem tilgreindar séu í 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Uppsögn stefnanda hafi því réttilega verið gerð með vísan til 43. gr. laga nr. 70/19. Ástæða uppsagnar Norðuráls á verksamningi við stefnda hafi hins vegar verið rökstuddar með vísan til framkvæmdar á hjúkrunarþjónustu samkvæmt samningi. Þær röksemdir séu fyrirtækisins fyrir að segja upp þjónustusamningi, ekki stefnda. Stefnanda hafi verið vel kunn ástæða uppsagnarinnar eftir fundarhöld aðila og samskipti. Tilkynning Norðuráls um framkvæmd samningsins af hálfu stefnanda hafi því ekkert haft að gera með ákvörðun stefnda um uppsögn ráðningarsamningsins, heldur hafi sú ákvörðun einvörðungu ráðist af því að fyrir hafi legið að verksamningi milli stefnda og Norðuráls yrði sagt upp á grundvelli uppsagnarákvæðis þess samnings.

Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi kröfu til bóta vegna uppsagnarinnar. Stefnandi hafi fengið greidd þau laun sem henni hafi borið og ekki hafi stofnast réttur til frekari greiðslna, hvorki á grundvelli ráðningarsamningsins, né kjarasamnings stéttarfélags hennar.

Stefnandi hafi fengið greidd laun í uppsagnarfresti í samræmi við uppsagnarbréf stefnda frá 25. júlí 2011. Uppsögn stefnda á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið lögmæt og breyti þar engu um að stefnandi hafi tilkynnt um veikindi sín, enda ákvörðun um uppsögn með öllu ótengd veikindum stefnanda sem hafi verið síðar til komin.

Stefndi hafi ekki bakað stefnanda neitt bótaskylt tjón. Tjón stefnanda sé að auki ósannað og engin bótaskilyrða almennu skaðabótareglunnar uppfyllt. Fjárhæð bótakröfu stefnanda og framsetningu hennar sé mótmælt sérstaklega. Í dómaframkvæmd hafi ekki verið fallist á slíka kröfugerð.

Því er mótmælt að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Málið hafi verið að fullu upplýst, áður en ákvörðun um uppsögn hafi verið ákveðin. Fullupplýst hafi verið að grunnforsenda ráðningar stefnanda hafi verið brostin. Stefndi hefði hinn 13. júlí 2011 upplýst stefnanda um fyrirhugaða uppsögn Norðuráls á verksamningi og að uppsögnin hefði þá afleiðingu í för með sér að ekki yrði hjá því komist að segja stefnanda upp störfum.

Því er einnig mótmælt að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Skylda forstjóra stefnda samkvæmt 2. mgr. 38. gr. starfsmannalaga sé ekki aðeins að sjá til þess að stofnunin sem hann stýri starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf skv. 1. mgr. 38. gr. laganna, heldur beri hann einnig ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt, sbr. og 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og reglugerðar nr. 1061/2004, um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta. 

Í ljósi uppsagnar Norðuráls á verksamningi hafi forstjóri stefnda, ekki átt annarra kosta völ en að segja stefnanda upp störfum. Ekki hafi verið unnt að færa stefnanda til í starfi, þar sem engu lausu starfi hafi verið til að dreifa. Ákvörðun um að segja stefnanda upp störfum hafi m.a. byggst á því að við þessar aðstæður hafi ekki verið leiðir til að taka aðra eða vægari ákvörðun. Stefnda hafi ekki verið unnt að færa stefnanda til í starfi eða fela henni önnur verkefni. Meðalhófs hafi verið gætt.

Því er mótmælt að andmælaregla 13. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin, enda hafi stefnandi fengið tækifæri til að andmæla uppsögninni, bæði áður en hún fór formlega fram og einnig eftir að formleg uppsögn átti sér stað. Þá hafi stefnandi, ásamt lögmanni sínum, átt fund með forstjóra og framkvæmdastjóra stefnda hinn 30. ágúst 2011 þar sem stefnandi hafi gert grein fyrir málinu eins og það horfði við henni. Áréttað skuli að samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996, sé ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi. Svo hátti til hér enda stefnandi þess ekki umkomin með andmælum að breyta því réttarástandi að Norðurál segði upp þjónustusamningi við stefnda.

Uppsögn stefnanda sé á engan hátt að rekja til ávirðinga stefnda í garð stefnanda, eins og stefnandi haldi fram, heldur til þess að forsendur að baki ráðningu hennar hafi brostið þegar Norðurál hafi sagt upp verksamningi við stefnda. Stefndi telji því engar forsendur til að verða við skaðabótakröfu stefnanda. Þeirri málsástæðu stefnanda er mótmælt sem rangri, að ekkert framangreindra ákvæða stjórnsýslulaga hafi verið virt í aðdraganda og við framkvæmd uppsagnar stefnanda.

Miskabótakröfu stefnanda er mótmælt og telur stefndi að það skorti á öll bótaskilyrði 26. gr. skaðabótalaga. Ákvörðun stefnda um uppsögn ráðningarsamningsins hafi á engan hátt beinst gegn stefnanda persónulega, starfsheiðri hennar, æru eða persónu, hvað þá að í henni sé fólgin meingerð í hennar garð. Ákvörðunin byggðist á hagræðingu í rekstri stefnda vegna uppsagnar Norðuráls á samstarfssamningi en var ekki beint gegn persónu stefnanda, né laut að störfum hennar. Í ákvörðun stefnda var því ekki fólgin ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993. Gagnstæðum málsástæðum stefnanda er því er mótmælt sem röngum, órökstuddum og ósönnuðum, enda lágu engar þær hvatir eða ástæður er stefnandi nefnir í stefnu að baki ákvörðunar stefnda.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er kröfum stefnanda mótmælt sem allt of háum og er þess krafist að þær verði lækkaðar.

Jafnvel þó að dómurinn féllist á réttmæti meintrar skaðabótakröfu stefnanda, beri stefnanda, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins, að leitast við að takmarka tjón sitt. Ósannað sé að stefnandi hafi ekki getað fundið starf sem hjúkrunarfræðingur. Stefnandi sé menntaður hjúkrunarfræðingur á besta aldri og því yfirgnæfandi líkur til þess að hún geti aflað sér vinnu hjá öðrum aðila. Vísist hér til hliðsjónar til 2. mgr. 32. gr. starfsmannalaga. Stefnandi sé með lögheimili í Borgarfirði, en fyrirliggjandi séu gögn sem benda ótvírætt til þess að stefnandi sé í raun búsett í miðborg Reykjavíkur, að Lækjargötu 4. Stefnandi búi því í raun á því atvinnusvæði, þar sem bestu atvinnumöguleikana sé að finna.

Þá er því sérstaklega mótmælt sem röngu og án nokkrar lagastoðar að stefnandi geti haft uppi skaðabótakröfu vegna launa fram í tímann. Einungis hafi verið liðnir 3 mánuðir af þeim 24 sem stefnandi krefjist greiðslu fyrir þegar stefna máls þessa var gefin út. Slík framtíðarkrafa sé ekki lögvarin.

Stefnandi geri kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 að fjárhæð 1.500.000 krónur. Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda sem of hárri, órökstuddri og í engu samræmi við dómaframkvæmd um miskabætur. Stefnandi hafi ekki rökstutt þetta ósamræmi, né heldur hvers vegna bætur til hennar ættu að vera miklu hærri en bætur í sambærilegum málum.

Lagarök:

Stefndi vísar til áðurgreindra laga er varða sýknukröfu og lækkunarkröfu. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

NIÐURSTAÐA

Stefnandi sagði um aðdraganda þess að hún réðist til starfa að þáverandi mannauðsstjóri stefnda vitnið Rakel Heiðmarsdóttir hefði hvatt sig til þess að sækja um starf það sem auglýst var á starfatorgi hinn 29. maí 2009. Fram kom í skýrslu vitnisins Rakelar að stefnandi hefði haft samband við vitnið og boðið fram starfskrafta sína við starfsmannaheilsuvernd hjá Norðuráli og hafi þá vitnið bent stefnanda á að sækja um vegna þess að samningur stefnda og Norðuráls um framkvæmd starfsmannaheilsuverndar hjá Norðuráli var þá í burðarliðnum. Hafi Rakel litist afar vel á að fá stefnanda til starfa sökum reynslu hennar á þessu sviði. Þá kom fram hjá vitnunum Steinunni Sigurðardóttur og forstjóra stefnda Guðjóni Brjánssyni að umsækjendum öllum þar á meðal stefnanda hefði verið gert ljóst að til stæði að ráða starfkraft til þess að vinna tiltekið afmarkað verkefni sem hafi falið í sér efndir á samningi stefnda og Norðuráls. Fram kom í skýrslu stefnanda fyrir dómi að henni hefði verið sagt upp á fundi 13, júlí 2011 og að fyrir dyrum stæði að Norðurál segði upp samningi þeim sem stefndi og Norðurál höfðu gert með sér um framkvæmd starfsmannaheilsuverndar. Vitnin Steinunn og Guðjón sögðu að engin ástæða hafi verið til þess að áminna stefnanda vegna atvika er greinir í 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Er og enda ekki sýnt fram á það í máli þessu að þau atvik hafi verið fyrir hendi í tilviki stefnanda. Vegna þessa verður ekki fallist á það með stefnanda að ákvæði 44. gr. sömu laga eigi við um tilvik hennar. Líta verður til þess að samkvæmt samningi forvera stefnda og Norðuráls skyldi stefnandi vera í fullu starfi hjá Norðuráli þ.e. að lágmarki 40 stundir á viku sbr. 2. tölulið samnings Norðuráls og forvera stefnda frá 18. maí 2009. Verður á því að byggja hér að þegar litið er til aðdraganda ráðningar stefnanda og samnings þess sem gerður var við Norðurál að stefnandi hafi verið ráðin til þess að sinna ákveðnu verkefni sem byggst hafi á samningi stefnda við einkaaðila sem með því vildi efna skyldur sínar samkvæmt kjarasamningum starfsmanna sinna. Þegar síðan varð ljóst að Norðurál vildi segja upp samningi við stefnda voru brostnar forsendur fyrir áframhaldandi starfi stefnanda. Hún gat ekki gert sér væntingar um að hún yrði áfram við störf hjá stefnda eins og háttaði til um ráðningu hennar og starfsskyldur. Samkvæmt því verður ekki fallist á það með stefnanda að uppsögn hennar hafi verið ólögmæt. Fram er komið í málinu að stefndi hefur greitt stefnanda vegna aksturs og frítökuréttar eftir að mál þetta var höfðað og að greiðslur vegna frítöku byggjast á gögnum úr launabókhaldi stefnda. Stefnandi hefur lagt fram útreikninga á  kröfu vegna frítökuréttar sem hún telur umfram það sem henni hafi verið greitt en gögnum þeim sem hún ber fyrir sig í því efni er sérstaklega mótmælt af stefnda og með því að ekki er með öllu ljóst hvaðan þau stafa þykja þau ekki veita fullnægjandi stoð fyrir kröfugerð stefnanda og er því hafnað. Loks er þess að gæta að stefnandi fékk greidd laun út þann uppsagnarfrest er hún átti þ. e. þrjá mánuði og hefur ekki sýnt fram á að hún eigi kröfu til frekari launa en hún hefur þegar fengið greidd vegna starfsloka sinna hjá stefnda.

Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, er sýkn af öllum kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.