Print

Mál nr. 438/2001

Lykilorð
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón

Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. maí 2002.

Nr. 438/2001.

Oliver Oliversson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Meleyri ehf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón.

O, sem einn var til frásagnar um atvik, krafðist bóta fyrir líkamstjón, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir þegar hann starfaði við fiskvinnslu M ehf. Mjög óljóst var með hvaða hætti hinn umdeildi atburður varð. Þar á meðal þótti með öllu óvíst hvaða áraun bak O varð fyrir við slysið. Læknir skoðaði O ekki eftir slysið og ekkert samtímamat lá því fyrir á meiðslum hans. Með hliðsjón af þessu og atvikum málsins að öðru leyti var talið ósannað, þrátt fyrir framlagt örorkumat, að líkamstjón O yrði rakið til umrædds atviks. Þar sem einnig var ósannað að M ehf. bæri sök á líkamstjóni O vegna þess vinnulags, sem M ehf. viðhafði eða að verkstjórn hefði verið ábótavant, var félagið sýknað af kröfum O.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. september 2001. Ekki varð af þingfestingu málsins 31. október sama árs og áfrýjaði hann á ný 27. nóvember 2001 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 925.661 krónu með 2% ársvöxtum frá 28. maí 1997 til 10. október 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Tryggingamiðstöðinni hf. er stefnt til réttargæslu fyrir Hæstarétti, en engar kröfur eru gerðar á hendur félaginu.

 

 

I.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur ný gögn. Meðal þeirra er ljósrit af svofelldri bókun frá Heilbrigðisstofnuninni Hvammstanga 29. maí 1997, sem sögð er varða áfrýjanda: „Bakmeiðsli. Vinnuslys: Féll kassi á hann í Meleyri. Mjög illt í baki. ... Vinnuv.vottorð 28/5 (16) - 30/5.“ Þá hefur verið lagt fram ljósrit af læknisvottorði útgefnu 29. maí 1997 af Stefáni Steinssyni til atvinnurekanda vegna fjarvista áfrýjanda úr vinnu. Er þar merkt við í viðeigandi reiti um að áfrýjandi hafi verið óvinnufær með öllu vegna vinnuslyss á tímabilinu frá klukkan 16.00 þann 28. maí 1997 til 30. sama mánaðar. Á vottorðinu kemur fram að það sé gefið út á grundvelli símtals. Þá hefur verið lagt fram bréf stefnda 7. maí 2002 ásamt launaseðli áfrýjanda vegna útborgunar 6. júní 1997 fyrir vinnu hjá stefnda tímabilið 25. maí 1997 til 31. sama mánaðar og ljósriti úr launabókhaldi stefnda um greiðslur til áfrýjanda fyrir þá viku. Kemur fram í þessum gögnum að áfrýjanda var greitt vegna veikindafjarveru fyrir 16 dagvinnustundir og 14 yfirvinnustundir á þessu tímabili auk þess sem honum voru greiddar 1000 krónur vegna læknisvottorðs.

II.

Í máli þessu krefst áfrýjandi bóta úr hendi stefnda fyrir líkamstjón, sem hann telur sig hafa orðið fyrir þegar hann starfaði við fiskvinnslu stefnda á árunum 1997 og 1998. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi annaðist áfrýjandi vorið 1997 almenn störf í fiskvinnslu, sem stefndi rak í gamla sláturhúsinu á Hvammstanga en aðalstarfsemi stefnda var rækjuvinnsla, sem hann rak í húsnæði þar nærri. Unnið var við handflökun og frystingu grálúðu umrætt sinn og var hlutverk áfrýjanda að flytja fisk til flökunarmannanna og flök og beinaúrgang frá þeim.

 Áfrýjandi reisir bótakröfu sína fyrst og fremst á því að hann hafi orðið fyrir vinnuslysi 28. maí 1997 þegar hann var að sækja tómt fiskkar, sem nota átti undir beinaúrgang. Hafi fiskkörum þessum verið staflað þrem saman í stæður utan við fiskverkunarhúsið og hafi slysið orðið þegar hann hafi ætlað með handafli að steypa efsta karinu niður úr einni stæðunni en ekki verið nógu fljótur að forða sér er það féll niður og fengið slink á bakið er hann tók á karinu til að fá það ekki ofan á sig. Telur hann stefnda bera fébótaábyrgð á slysinu vegna þess að verkstjórn hafi verið ábótavant og stefndi hafi í umrætt sinn verið látinn handleika þyngri byrðar en ætla megi einum manni.

 Einnig virðist áfrýjandi byggja á því að almennt verkskipulag hjá stefnda hafi verið með þeim hætti að áfrýjanda hafi verið ætlað að bera og flytja til með handafli meiri byrðar en einum manni væri ætlandi andstætt grunnreglum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, sem settar hafi verið með stoð í fyrrgreindum lögum. Hafi þetta átt við flutning á fiski úr kæli til flökunarmanna, flutning flaka og úrgangs frá þeim, meðhöndlun á tómum beinakörum og raunar einnig þau störf, sem hann hafi haft með höndum í rækjuvinnslu stefnda en þar hafi hann starfað á árinu 1998. Hafi þessi aðstaða öll valdið áfrýjanda bakmeiðslum.

III.

Heimvísunarkröfu sína reisir áfrýjandi í fyrsta lagi á því að sérkunnáttu hafi verið þörf til að meta hvaða áhrif sú vinnuaðstaða, sem áfrýjanda var búin, hafi haft á bakheilsu hans og því hefði héraðsdómari átt að kveðja til sérfróða meðdómendur. Í máli þessu nýtur afar lítilla gagna um aðstæður á vinnustað áfrýjanda, sem og hvernig slys það, sem hann telur sig hafa orðið fyrir 28. maí 1997, bar að höndum. Var fiskverkun sú á vegum stefnda, sem áfrýjandi starfaði við á vormánuðum 1997, aflögð þegar mál þetta var höfðað. Reynir í máli þessu fyrst og fremst á lagaatriði um sönnun. Eins og hér stendur á verður því ekki talið að héraðsdómara hafi verið rétt að kveðja til sérfróða meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Í annan stað reisir áfrýjandi heimvísunarkröfu sína á því að héraðsdómari hafi ekki tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu áfrýjanda að hann hafi hlotið bakmeiðsl, sem stefndi sé bótaskyldur fyrir, vegna þess að hann hafi almennt við störf sín hjá stefnda verið látinn handleika of þungar byrðar. Í lok héraðsdóms er sérstaklega fjallað um þessa málsástæðu áfrýjanda og henni hafnað þar sem staðhæfingar áfrýjanda í þessum efnum teljist ósannaðar. Verður heimvísunarkrafa áfrýjanda því ekki tekin til greina.

IV.

Í málinu greinir aðila á um hvort áfrýjandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda 28. maí 1997. Áfrýjandi er einn til frásagnar um atvik. Guðfinna Ingimarsdóttir, verkstjóri í fiskvinnslu stefnda, bar fyrir héraðsdómi að henni hefði ekki orðið kunnugt um slys áfrýjanda fyrr en löngu síðar. Með þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram í Hæstarétti og að framan eru rakin, er í ljós leitt að á grundvelli símtals við áfrýjanda gaf læknir daginn eftir hið umdeilda atvik út vottorð um að áfrýjandi væri óvinnufær með öllu vegna vinnuslyss frá því klukkan 16.00 þann 28. maí 1997 til 30. sama mánaðar. Þá verður að telja í ljós leitt að þetta læknisvottorð hafi borist til forsvarsmanna stefnda á allra  næstu dögum eftir að það var gefið út.

 Þegar til þess er litið að ekkert er fram komið um að áfrýjandi hafi látið í ljós við forsvarsmenn stefnda fyrr en löngu seinna að hann kenndi sér meins eftir atvikið og stefndi hafði því enga ástæðu til að ætla að af því hafi hlotist annað heilsutjón en það, er olli fjarvistum í tvo daga, verður það ekki metið honum í óhag að umræddur atburður var ekki tilkynntur vinnueftirliti ríkisins eða lögreglu.

Eins og að framan er rakið byggðist læknisvottorð Stefáns Steinssonar 29. maí 1997 á símtali við áfrýjanda. Verður ekki af gögnum málsins ráðið að hann hafi verið skoðaður af lækni í framhaldi af atburðinum. Það virðist fyrst gert í lok ágúst 1998 eða réttum fimmtán mánuðum eftir atburðinn, en þá greindist hann samkvæmt vottorði Jóhanns Johnsen læknis með festumein í baki og mjóbaki. Mánuði seinna var brjósklos greint hjá áfrýjanda.  Í örorkumati Atla Þórs Ólasonar bæklunarskurðlæknis 4. september 2000 var áfrýjandi talinn haldinn tvenns konar bakmeinum, annars vegar mjóbakstognun og hins vegar brjósklosi í mjóhrygg. Taldi læknirinn að fyrrgreinda meinið verði rakið til þess slyss, sem stefndi telur sig hafa orðið fyrir 28. maí 1997, en veruleg óvissa sé um hvort brjósklos það sem greindist á árinu 1998 tengist slysinu.

 Mjög óljóst er með hvað hætti hinn umdeildi atburður varð 28. maí 1997. Þar á meðal er með öllu óvíst hvaða áraun bak áfrýjanda varð fyrir við slysið. Læknir skoðaði áfrýjanda ekki eftir atburðinn og ekkert samtímamat liggur því fyrir á meiðslum hans. Áfrýjandi hélt að loknu tveggja daga veikindaleyfi áfram störfum hjá stefnda. Þau störf fólust sem fyrr í að flytja til byrðar með handafli og reyndu því verulega á bak hans. Þessi störf stundaði hann næstu fimmtán mánuði án þess að kvarta við stefnda svo sannað verði eða leita læknis vegna bakmeiðsla. Þegar allt þetta er virt verður að telja ósannað þrátt fyrir framangreint örorkumat að líkamstjón áfrýjanda verði rakið til umrædds atviks. Þar sem einnig er ósannað að líkamstjón áfrýjanda verði rakið til þess vinnulags, sem stefndi viðhafði eða að verkstjórn hans hafi almennt verið ábótavant eða að áfrýjandi hafi verið látinn bera þyngri byrðar en heimilt hafi verið að ætla honum, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af máli þessu fyrir Hæstarétti.

                                                        Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 6. október 2000 af Oliver Oliverssyni, kt. 280458-2289, Laugabóli, Hvammstanga, á hendur Meleyri ehf., kt. 471272-0279, Hafnarbraut 5, Hvammstanga, og Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, til réttargæslu en málið var þingfest 10. október sama ár.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða honum 925.661 krónu ásamt 2% ársvöxtum frá 28. maí 1997 til þingfestingar­dags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið mið af útlögðum kostnaði og því að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur en hann þurfi að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins að viðbættum 24,5% virðisauka­skatti. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn falla niður. Verði bætur dæmdar er þess krafist að bótafjárhæðir verði ákvarðaðar miðað við verðlag á dómsuppsögudegi samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og að þær beri 2% ársvexti frá 28. maí 1997 til uppkvaðningardags endanlegs dóms en dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxta­laga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og af hans hálfu eru engar kröfur gerðar í málinu.

 

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að stefnandi vann hjá stefnda sem rekur fiskverkun á Hvammstanga. Stefnandi færði flökunarmönnum fisk og hann flutti kassa með flökuðum fiski á vigt og í kæli. Einnig dró hann beinakassa frá flökunarborðum út úr húsi og hvolfdi úr þeim í beinakör. Beinakörin voru geymd tóm í stæðum fyrir utan fiskvinnsluhúsið en stefnandi þurfti að sækja þau í stæðurnar og koma þeim fyrir þar sem hvolft var í þau. Stefnandi hefur lýst aðstæðum þannig að efsta karinu í stæðunni hafi hann ekki getað náð nema með því að stíga upp í gaffalgatið á miðkarinu en þá hafi hann getað teygt sig í brúnina á því efsta og þannig náð að velta því fram af. Hann heldur því fram að hinn 28. maí 1997 hafi hann ekki verið nægilega snöggur að stökkva undan karinu þegar hann togaði það fram af stæðunni. Hann hafi borið hendurnar fyrir sig til að fá karið ekki ofan á sig og þannig hafi hann tekið á móti því. Við það hafi hann fengið töluvert högg á mjóhrygginn og um leið mikla verki í bakið. Hann hafi farið til læknis næsta dag og verið óvinnufær í tvo daga.

Eftir slysið vann stefnandi í móttöku og pökkun á rækju hjá stefnda. Hann heldur því fram að hann hafi kvartað undan því að hann hefði ekki undan einn en áður hafi tveir unnið störfin sem stefnanda voru ætluð í rækjuvinnslunni. Vinnan hafi reynt mikið á bak hans sem hafi aldrei náð að jafna sig eftir slysið í maí 1997. Hann hafi notað verkjalyf og harkað af sér þar til haustið 1998 er hann varð óvinnufær vegna bakverkja og brjósklos og lét hann þá af störfum hjá stefnda.

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 2. maí 2000, var óskað eftir upplýsingum og gögnum vegna slyssins. Í svarbréfi stefnda, dagsettu 15. maí sama ár, kemur meðal annars fram að verkstjórar hjá stefnda könnuðust ekki við að stefnandi hafi orðið fyrir slysi hjá stefnda. Lögmaður stefnanda beindi einnig fyrirspurnum til Vinnueftirlits ríkisins með bréfi dagsettu 8. maí sama ár, m.a. um það hvort til væru reglur um vinnu með fiskiker, um slysatíðni vegna vinnu við fiskiker, um gerðir fiskikera og hvort umrætt slys hafi verið kært til Vinnueftirlitsins. Svar Vinnu­eftirlitsins er dagsett 31. maí sama ár en í því kemur meðal annars fram að umrætt slys hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirlitinu.      

Í málinu er deilt um bótaábyrgð stefnda en af hans hálfu er því haldið fram að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir slysi með þeim hætti sem hann lýsi. Einnig er deilt um bótafjárhæðir. Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi beri sjálfur verulega sök á tjóninu og að kröfur hans í málinu séu ekki að öllu leyti réttmætar.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi orðið fyrir vinnuslysi hinn 28. maí 1997 í fiskverkunarfyrirtæki stefnda á Hvamms­­­tanga. Vinna stefnanda hafi verið í því fólgin að bera fisk í flökunarmenn, flytja úrgangsbein í beinakör og koma unnum fiski inn í frystiklefa. Hafi flökunar­mennirnir verið þrír til fimm og hafi stefnandi orðið að hafa undan þeim. Fiskurinn, sem stefnandi hafi borið í flökunar­mennina, hafi ýmist verið í kössum eða körum. Stefnandi hafi handtínt fiskinn úr þeim yfir í kassa á vigt þar sem hann hafi verið vigtaður. Stefnandi hafi síðan borið þessa kassa til hvers flökunarmanns. Venjulega hafi hver kassi verið um 30 til 40 kg að þyngd. Fiskikassarnir, sem stefnandi hafi tekið frá flökurunum og borið á vigt og síðan í frysti, hafi verið 30 til 35 kg. Stefnandi hafi einnig fært flökurunum kassa undir bein. Úr fullum beinakössum hafi stefnandi sturtað í beinakör en þau hafi hann náð í úr stæðum fyrir utan fiskvinnsluhúsið. Stefnandi hafi orðið að vinna hratt til að hafa undan og hafi hann orðið mjög þreyttur og aumur í baki þar sem vinnan hafi verið mikil bogrunarvinna.

Þann 28. maí 1997 hafi stefnandi farið út á planið fyrir framan fiskvinnslu­húsið til að ná í tómt beinakar. Körunum hafi verið staflað í stæður þannig að þrjú kör hafi verið í stæðu. Til að ná í efsta karið hafi stefnandi verið vanur að stíga upp á miðkarið og hafi hann teygt aðra höndina í efri brún á efsta karinu og velt því fram af. Um leið hafi hann stokkið undan. Þetta hefði stefnandi oft gert áður og verið orðinn nokkuð leikinn í þessu. Hann hefði þó kvartað undan því við yfirmenn, svo sem verkstjóra, að þetta væru ekki rétt vinnubrögð en til verksins þyrfti að nota lyftara. Þennan dag hafi stefnandi ekki náð að vera nægilega snöggur að stökkva undan karinu. Til að fá það ekki ofan á sig hafi hann borið fyrir sig hendurnar og tekið á móti því. Við það hafi hann fengið mikið högg á mjóhrygginn og um leið mikla verki í bakið. Stefnandi heldur því fram að hann hafi látið Guðfinnu verkstjóra vita um slysið og hafi hann farið heim vegna þess að hann hafi verið óvinnufær. Stefnandi hafi ekki komist til læknis fyrr en daginn eftir, hinn 29. maí 1997. Hafi hann verið frá vinnu þann dag og næsta, hinn 30. maí. Hann hafi ekki í annan tíma verið frá vinnu hjá stefnda.

Eftir slysið hafi stefnandi farið að vinna við rækjuvinnslu stefnda, fyrst í móttöku og síðan í pökkun. Áður en hann byrjaði í pökkuninni hafi ávallt verið tveir við þá vinnu. Í fyrstu hafi stefnandi unnið þar við annan mann en sá hafi hætt fljótlega og stúlka verið ráðin í staðinn. Hún hafi síðan hætt eftir skamman tíma og hafi stefnandi þá verið einn við pökkunina. Stefnandi heldur því fram að hann hafi kvartað yfir að hann hefði ekki undan einn, auk þess sem hann væri aumur í bakinu eftir slysið. Hafi honum þá verið sagt að hann gæti fengið aðstoð með því að kalla á stúlku af pillunarborði þegar mikið væri að gera. Það hafi hann gert en stúlkan hafi nær samstundis verið kölluð til baka. Þessi vinna stefnanda hafi verið fólgin í því að vigta rækjuna í pökkunarumbúðir, pakka henni inn, merkja umbúðirnar og líma saman og raða þeim á bretti inn á frysti. Þá hafi hann þurft að ná í pakkningar upp á efri hæð hússins. Hann hafi verið á hlaupum á hörðu steingólfinu um það bil 20 km á dag með all þunga byrði. Hafi þessi vinna reynt mjög á bak stefnanda sem í raun hefði aldrei jafnað sig eftir slysið. Starfsfólk stefnda, svo sem Guðfinna verkstjóri, hafi verið sammála um að vinnuálag væri of mikið. Eftir slysið hafi stefnandi ætíð verið með verkjaseyðing í baki við vinnu sína og oft kvalinn að kvöldi dags. Hafi hann á þessum tíma notað verkjalyf ótæpilega.

Stefnandi kveðst hafa harkað af sér við vinnu hjá stefnda þar til haustið 1998 er hann varð óvinnufær en þá hafi komið í ljós brjósklos í baki. Seinni hluta sumars 1999 hafi stefnandi síðan farið í rannsókn og lækninga til Arons Björnssonar. Um haustið sama ár og fram að áramótum hafi stefnandi reynt að vinna öðru hverju en hann hafi jafnharðan orðið frá að hverfa. Eftir áramótin 1999 og 2000 hafi hann síðan orðið alveg óvinnufær. Dagana 21. febrúar til 10. mars 2000 hafi hann verið til lækninga hjá Jósep Blöndal í Stykkishólmi og aftur 21. maí til 2. júní sama ár. Í vottorði læknisins frá 18. júlí 2000 segi meðal annars að stefnandi hafi fengið yfir sig 70 kg beinakar. Hann hafi tekið á móti því með höndunum og hafi hann um leið fengið snarpa verki í mjóbak. Hann hafi eftir það reynt að vinna en um síðustu áramót hafi honum verið ráðlagt að hætta að vinna vegna mikilla verkja. Engin merki um brot hafi sést á myndum en hins vegar sjáist miðlægt brjósklos í neðsta bili sem hugsan­lega hafi farið að gefa einkenni eftir óhappið og mögulega orðið til þá.

Hinn 31. ágúst 2000 hafi Atli Þór Ólason bæklunarlæknir skoðað stefnanda og metið örorku hans. Í matinu segi meðal annars að fyrir slysið hinn 28. maí 1997 hafi stefnandi verið heilsuhraustur en hann hafi fundið til bakóþæginda við álagsvinnu án þess að það leiddi til að hann væri frá vinnu. Við slysið hafi hann gripið með hendi fallandi plastkar en fengið við það slink á bak og hafi hann strax fundið til verkja í mjóbaki. Hann hafi haft samband við heimilislækni sem hafi ritað hann óvinnufæran frá 28. til 30. maí. Samkvæmt þessu megi telja að fyrrnefndur atburður marki skýrt lang­varandi bakverkjasögu stefnanda eftir það fram til dagsins í dag. Honum virtist hafa farið hægt versnandi og hafi hann verið frá vinnu haustið 1998 og síðan meira og minna frá hausti 1999. Greinst hafi miðlægt brjósklos sem ekki hafi verið talin ástæða til að fjarlægja með skurðaðgerð. Reynd hafi verið meðferð með lyfjum, ýmsum ráðleggingum og á endurhæfingardeild fyrir baksjúka og hafi af því fengist nokkur bati. Við mat á varanlegum miska af völdum slyssins sé litið svo á að stefnandi hafi orðið fyrir hnykkáverka og hlotið mjóbakstognun við það. Varanlegur miski sé metinn 12% og varanleg hefðbundin læknisfræðileg örorka einnig 12%. Við mat á varanlegri örorku sé litið til þess að stefnandi hafi verið vinnusamur um ævina. Hann sé ómenntaður en hafi einkum fengist við ýmiss konar líkamlega erfiða vinnu. Hann hafi haft bakóþægindi við álagsvinnu, en ekki misst úr vinnu af þeim sökum. Það hafi fyrst verið eftir slysið að bakóþægindin hafi verið þannig að þau hafi gert hann óvinnufæran. Auk þess hafi orðið breyting á eðli þeirra með útleiðslu út í mjaðmir og ganglimi. Veruleg óvissa sé um það hvort brjósklos, sem greinst hafi á árinu 1998, tengdist slysinu. Af þeim sökum verði einungis hluti af óvinnufærni stefnanda rakinn til slyssins. Varanleg örorka sé metin 12%. Við mat á tímabundnu atvinnutjóni sé eingöngu hægt að miða við upplýsingar úr læknisvottorði Jóhanns Johnsen, dagsettu 12. maí 2000. Við mat á þjáningabótum sé miðað við fyrsta skeið eftir slysaatburðinn svo og tímaskeið í kringum óvinnufærnitíma og meðferð á endurhæfingardeild. Stefnandi teljist hafa verið rúmliggjandi þann tíma sem hann hafi verið inni á endurhæfingardeild. Niðurstaða matsins sé að við vinnuslysið hinn 28. maí 1997 hafi stefnandi orðið fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

1.        Tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr.;

        frá 28. maí 1997 til 30. sama mánaðar 100%.

 

2.        Þjáningabætur samkvæmt 3. gr.;

        rúmliggjandi frá 21. febrúar 2000 til 10. mars sama ár og

       frá 21. maí s.á. til 2. júní s.á.

       Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, sex mánuðir.

 

3.   Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. 12%.

 

4.   Varanleg örorka samkvæmt 5. gr. 12%.

 

5.    Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka 12%.

 

 

 

Stefnandi sætti sig ekki við mat læknisins á að brjósklosið sé ekki að rekja til slyssins. Hann geri því að svo stöddu aðeins kröfu um greiðslu þjáningabóta, miskabóta og fyrir annað fjártjón, en áskilji sér rétt til að gera síðar kröfu um bætur fyrir varanlega örorku að fengnum frekari læknisfræðilegum rannsóknum og ef til vill mati dómkvaddra matsmanna.

Kröfur stefnanda í málinu eru byggðar á þeim málsástæðum að starfsmenn stefnda eigi sök á því líkamstjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir hinn 28. maí 1997. Verkstjórn hafi verið ábótavant og hafi stefnandi verið látinn handleika þyngri byrði en ætla hafi mátt einum manni. Þetta hafi valdið brjósklosi og tognun í baki. Jafnframt hafi verið þrýst á stefnanda að hraða sér við vinnuna. Stefnandi hafi því verið látinn vinna verk við skilyrði sem ekki samrýmdust grunnreglum laga nr. 46/1980, svo sem 13., 37., 42. og 48. gr. sem og 23. gr., sbr. 14. gr. Þá hafi greinilega verið brotið gegn reglum nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar.

Plastkarið, sem féll á stefnanda, hafi verið yfir 70 kg að þyngd. Það hafi því verið fullkomið gáleysi að láta hann ná í karið við þær aðstæður, sem þarna voru án þess að nota lyftara, aðstoðarmann eða viðhlítandi áhöld. Alltaf hafi verið bundið erfiðleikum að ná efstu körunum en þeim hafi verið staflað í þriggja hæða stæður. Stefnandi og annað starfsfólk hafi kvartað undan því við verkstjóra og framkvæmda­stjóra án árangurs. Fiskvinnsla stefnda hafi verið rekin í gamla kaupfélags­­sláturhúsinu á Hvammstanga, sem hafi verið illa búið til fiskvinnslu enda ekki reist í þeim tilgangi. Engin færibönd eða lyftari hafi verið á staðnum og lyftari ekki fenginn nema þegar fiskikör með beinaúrgangi voru sett upp á flutningabíla til brottflutnings og frekari vinnslu.

Þegar stefnandi slasaðist hafi hann verið nokkurs konar handlangari flakara. Til að hafa undan þeim hafi hann mátt hafa sig allan við. Hann hafi einmitt verið að ná í fiskikar út á plan þegar hann slasaðist. Verkið hafi hann ekki getað unnið á annan hátt enda hafi aðferðin verið fyrirskipuð af verkstjóra. Verkstjórinn hafi þó gert sér grein fyrir að þessi vinnuaðferð gat verið hættuleg og varasöm og hafi hann beðið framkvæmdastjóra stefnda um lyftara til að ná efstu körunum niður en því hafi verið neitað. Stefnandi heldur því fram að hann hafi fengið talsvert högg niður í gegnum bakið og um leið hafi hann fundið mikinn sársauka í mjó­bakinu. Fiskikörin hafi verið misþung, sum hafi verið orðin slitin og tekið í sig vatn, sem hafi gert þau níðþung, og þannig hafi karið verið sem hann meðhöndlaði er hann varð fyrir slysinu.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi strax orðið óvinnufær og hafi hann kvartað vegna þessa við verkstjóra. Hann hafi þegar leitað til læknis, en hann hafi ekki verið við fyrr en daginn eftir. Hafi læknirinn þá gefið honum verkjalyf og sagt honum að hvílast. Stefnandi, sem hefði alla tíð verið hraustur, hafi síðan farið aftur til vinnu. Þá hafi hann strax fundið til í bakinu en hann hafi búist við að sér skánaði. Það hafi þó eigi orðið og á endanum hafi hann beðið um að vera settur í léttara starf. Hafi hann þá verið settur í að pakka rækju en bæði vinnan í fiskvinnslunni eftir slysið og vinnan við rækjupökkunina hafi verið honum of erfið miðað við þá áverka sem hann fékk í slysinu.

Stefnandi byggir á því að orsök líkamsáverkanna, er hann hlaut 28. maí 1997, hafi verið að hann hafi verið látinn handleika of þungar byrðar. Eigi það í raun bæði við þau verk, sem stefnandi vann utanhúss, er hann var látinn sækja beinakörin í stæðurnar og einnig innanhúss, er hann var látinn vera hálfboginn við að handlanga fisk úr kössum á gólfi yfir í kassa sem stóðu á vigt. Honum hafi verið fyrirskipað að bera 40 kg kassa af vigtinni til flakaranna, en þessi verk hafi reynt verulega á bak stefnanda og ef til vill gert það að verkum að hann hafi verið veikari fyrir er hann fékk á sig höggið. Stefnandi byggir einnig á að þrátt fyrir að hann hafi kvartað yfir verkjum í baki eftir slysið, hafi hann verið settur í erfiða vinnu, sem hafi gert það að verkum að hann hafi aldrei náð sér af áverkunum.

Slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins en það sé andstætt reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa. Vegna þessa liggi ekki fyrir í málinu eiginleg rannsókn af hálfu Vinnueftirlitsins, þar á meðal um aðstæður á slysa­vettvangi, en umsögn Vinnueftirlitsins frá 31. maí 2000 sé á þá leið að nota beri hjálpartæki við flutning á þeim körum sem algengust séu í fiskvinnslu. Af þessum sökum beri hið stefnda félag hallann af því sem ekki verði upplýst í málinu, en frásögn stefnanda af slysavettvangi sé í alla staði trúverðug og sönn.

Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt sýnt af sér eigin sök er hann varð fyrir slysinu. Vinnutilhögun stefnanda hafi viðgengist í langan tíma. Hann hafi fundið að því hvernig verkum var hagað við verkstjóra og aðra yfirmenn og við það aflað sér tímabundinna óvinsælda. Fyrir stefnanda hafi því ekki verið um annað að ræða en vinna verkin eins og fyrir hann hafi verið lagt. Á þessum tíma hafi ekki verið mikið um atvinnu á vinnusvæðinu. Stefnandi hafi því átt á hættu að honum yrði sagt upp störfum, fyndi hann að verktilhöguninni sem honum hafi verið gert að vinna eftir. Stefnandi eigi bótarétt á hið stefnda félag á grundvelli vinnuveitenda­ábyrgðar.

Krafa stefnanda í málinu vegna þjáninga, miska og fyrir annað fjártjón er tölulega rökstudd á grundvelli mats Atla Þórs Ólasonar læknis þannig:

 

1.        Þjáningabætur

1.300    x 3931/3282 = 1.557 x 32 d

700 x 3931/3282 = 838 x 180    

 

49.826 krónur

150.917    "

2.        Varanlegur miski

        4.000.000 x 3931/3282 = 4.790.981 x 12%

 

             574.918   "

3.    Annað fjártjón

150.000   "

                                                                      Samtals

925.661 krónur.

 

Krafa um þjáningabætur er byggð á 3. gr. skaðabótalaga og mati læknisins og krafa vegna varanlegs miska á 4. gr. sömu laga og mati læknisins. Krafa stefnanda fyrir annað fjártjón er vegna kostnaðar sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir, svo sem vegna aksturs til lækna, síma, sjúkranudds o.fl.

Stefnandi styður dómkröfur sínar fyrst og fremst við almennu skaðabóta­regluna og reglur skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda vegna sakar starfs­manna hans. Vísað er til reglna um uppsafnaða sök ótilgreindra starfsmanna. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, svo sem til 13., 20., 21., 23. og 86. gr. Þá er vísað til reglugerðar nr. 499/1994. Stefnandi vísar einnig til reglna vinnuréttar um verkstjórnarvald og húsbóndavald atvinnu­rekanda og eftirlitsskyldu þessara aðila með starfsmönnum sínum. Hvað varðar bótafjárhæðir er byggt á 3. og 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Einnig er vísað til grunnreglu 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er því haldið fram að engin gögn væru um atburðinn sem sé tilefni máls þessa. Atvikum sé einungis lýst í stefnu og byggi sú lýsing alfarið á frásögn stefnanda sjálfs. Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda frá 15. maí 2000 komi fram að Örn Gíslason, sem hafi verið verkstjóri hjá stefnda þegar stefnandi vann hjá fyrirtækinu, kannaðist ekki við slysið sem stefnandi segist hafa orðið fyrir í maí 1997. Einnig komi fram í sama bréfi að Guðfinna Ingimarsdóttir, verkstjóri í fiskvinnslu stefnda um það leyti sem stefnandi segist hafa slasast, kannaðist heldur ekki við slysið.

Aðalkrafa stefnda um sýknu er byggð á því að fyrirsvarsmenn stefnda, verkstjórar eða aðrir yfirmenn, hafi ekki verið látnir vita um atvikið þann 28. maí 1997 sem stefnandi hefur lýst. Af þessum sökum hafi verið ógerlegt af hálfu stefnda að láta rannsaka hvort yfir höfuð hafi gerst einhver tjónsatburður og enn fremur með hvaða hætti hann hafi þá gerst. Ekki sé vitað til að vitni hafi verið að atburðinum en stefnandi sé einn til frásagnar um málsatvik.

Í vottorði Jóhanns Johnsen læknis á Heilbrigðis­stofnuninni Hvammstanga segi að stefnandi hafi haft samband við lækni daginn eftir atvikið og tilkynnt “vinnuslys”. Af þessu verði ekki annað ráðið en stefnandi hafi ekki komið til læknisins daginn eftir og hann hafi því ekki verið skoðaður af lækni í umrætt sinn. Svo virtist sem stefnandi hafi einungis haft samband við lækninn með öðrum hætti en að hafa farið til hans og jafnvel að þeir hafi einungis haft samband í gegnum síma. Áverkar eða einkenni virtust því ekki hafa verið staðreynd með læknisskoðun strax eftir hið meinta slys.

Stefnandi hafi einungis verið frá vinnu í tvo daga og sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til að það hafi verið af völdum slyss eða að yfirmenn hans hafi vitað eða mátt vita að það hafi verið af slíkum völdum. Næstu fimmtán mánuði hafi stefnandi ekkert verið frá vinnu vegna veikinda og á þeim tíma hafi hann heldur ekki leitað til læknis vegna þeirra einkenna sem hann telji sig hafa orðið fyrir hinn 28. maí 1997. Sé með hreinum ólíkindum að hann hafi þá á einhvern hátt slasast. Því sé með öllu ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir einhverju slysi við störf hjá stefnda umræddan dag. Auk þess sé algerlega ósannað að stefnandi hafi slasast með þeim hætti að stefndi beri fébótaábyrgð á líkamstjóni hans.

Verði talið að einhver slysaatburður hafi orðið í umrætt sinn þá liggi engu að síður ekkert fyrir sem bendi til að það hafi gerst vegna skorts á leiðbeiningum eða ófullnægjandi verkstjórnar af hálfu yfirmanna stefnda eða annarra sem hann beri ábyrgð á. Stefnandi hafi verið 39 ára gamall og hefði starfað um alllangt skeið hjá stefnda og að auki verið vanur margvíslegum verkastörfum. Verkið sem hann vann við í umrætt sinn hafi verið einfalt og hafi ekki krafist neinnar sérþekkingar eða þjálfunar. Fyrirvarsmenn stefnda hafi átt að geta treyst því að stefnandi myndi standa þannig að verki að ekki skapaðist slysahætta og hann myndi þess vegna nota lyftara eða önnur hjálpartæki, ef hann teldi nauðsyn að nota slík tæki við að ná körum niður úr stæðunni. Öllum staðhæfingum stefnanda um að hann hafi ekki átt þess kost að nota slík tæki við verkið er mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefnandi hafi sjálfur valið þá starfsaðferð sem hann viðhafði og talið hana hættulausa, enda hafi hann sagst hafa verið orðinn vanur að ná til efsta karsins eins og hann hafi gert og verið orðinn nokkuð leikinn í því. Hafi svo illa tekist til að slys hafi hlotist af því er stefnandi náði í kar úr stæðu geti hann engum kennt um nema sjálfum sér hvernig það hafi farið.

Í gögnum málsins komi ekkert fram sem bendi til að stefnandi hafi verið látinn vinna undir of miklu álagi eða beita vinnuaðferðum, sem hafi getað verið hættulegar heilsu hans, hvorki fyrir ætlaðan tjónsatburð né eftir en fullyrðingum stefnanda um það er mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þá verði meint slys í maí 1997 heldur ekki rakið til of mikils vinnuálags á stefnanda eða að hann hafi þurft að beita vinnuaðferðum sem hafi verið hættu­legar heilsu hans. Þau störf sem stefnandi vann hjá stefnda hafi verið venjuleg verkamannastörf í fiskvinnslufyrirtæki. Ekkert benti til að hann hafi orðið að vinna störf sín með öðrum hætti eða á hættulegri máta en almennt gerðist í fiskvinnslufyrirtækjum á Íslandi.

Ef líkamleg heilsa stefnanda eða líkamlegir burðir leyfðu honum ekki að vinna þau störf, sem honum hafi verið ætlað að inna af hendi, hafi hann einfaldlega orðið að láta af störfum áður en það varð um seinan. Stefnandi hafi einn vitað og getað gert sér grein fyrir hvað hann mátti bjóða líkama sínum, svo og hvaða störf hann treysti sér til að vinna við og hver ekki. Stefnandi hafi að einhverju leyti verið veill í baki og hafi honum borið að taka tillit til þess í starfsvali. Hann geti hvorki ætlast til að aðrir hefðu vit fyrir honum í þeim efnum né varpað ábyrgðinni á stefnda, leyfði líkamleg heilsa hans honum ekki að sinna þeim störfum sem honum hafi verið falin. Hafi hann að einhverju leyti þráast við í vinnunni án þess að hafa líkamlega getu til, verði hann sjálfur að bera ábyrgð á að það leiddi til verri sjúkdómseinkenna en ella hefðu orðið. Stefnandi hafi að öllum líkindum aldrei farið til læknis eða verið skoðaður af lækni fyrr en í lok ágúst eða byrjun september 1998 eða um það leyti sem brjósklos hafi greinst hjá honum.

Því er mótmælt að stefnandi hafi kvartað við yfirmenn sína um að hann hafi talið störfin, sem honum voru falin, að einhverju leyti hættuleg eða vinnubrögð hættuleg heilsu manna. Það hafi hann aldrei gert, hvorki í tengslum við meint slys né í annan tíma. Staðhæfingum stefnanda um að hann hafi fundið að því við verkstjóra og aðra yfirmenn stefnda hvernig verkum var hagað er jafnframt mótmælt svo og því að við það hafi hann aflað sér tímabundinna óvinsælda og að hann hafi því mátt búast við uppsögn, ef hann kæmi frekari aðfinnslum á framfæri.

Óvíst sé hvað stefnandi eigi við þegar hann telji stefnda bera ábyrgð á líkamstjóni hans með vísan til reglna um svo kallaða “uppsafnaða sök ótilgreindra starfsmanna”. Engu að síður sé alveg ljóst að ósannað sé með öllu að líkamstjón stefnanda verði rakið til ófullnægjandi verkstjórnar eða rangra leiðbeininga af hálfu yfirmanna stefnanda eða að öðru leyti til saknæmrar háttsemi verkstjóra eða annarra yfirmanna.

Fyrirsvarsmenn stefnda hafi enga vitneskju haft um hið meinta slys. Af þeim sökum hafi þeir ekki átt þess kost að tilkynna atvikið til Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt fyrirmælum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustu á vinnustöðum eða reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa eða hlutast til um rannsókn atviksins með öðrum hætti. Sé því fráleitt að sönnunarbyrði verði snúið við eða stefndi verði látinn bera hallann af því sem ekki verði upplýst í málinu. Þá er því mótmælt að af stefnda hálfu hafi verið brotið gegn ákvæðum 13., 14., 20., 21., 23., 37., 42., 48. eða 86. gr. laga nr. 46/1980 eða fyrirmælum reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á saknæma háttsemi af hálfu fyrirsvarsmanna stefnda né fébótaábyrgð stefnda að öðru leyti og er sýknukrafa stefnda byggð á því.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda er þess krafist til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Varakrafan er rökstudd þannig að stefnandi beri sjálfur verulega eigin sök á því tjóni sem hann hafi hlotið í slysinu en það verði fyrst og fremst rakið til gáleysis stefnanda sjálfs. Einnig er krafist lækkunar á stefnukröfum þar sem þær séu tölulega of háar. Stefnandi hafi einungis verið veikur og óvinnufær í tvo daga eftir hið meinta slysaatvik hinn 28. maí 1997. Eftir það hafi hann ekki verið frá vinnu fyrr en síðla árs 1998. Að því leyti sem hann kunni að hafa slasast í maí 1997 sé ekkert sem bendi til annars en að 15 mánuðum síðar hafi hann náð þeim bata af meiðslunum sem hann hafi getað vænst. Óvinnufærni stefnanda haustið 1998 og síðar, sem hlotist hafi af brjósklosi, verði ekki rakið til atviksins 28. maí 1997. Með læknisfræðilegum gögnum málsins, einkum örorkumati Atla Þórs Ólasonar, verði ekki sannað að brjósklosið, sem greinst hafi hjá stefnanda í september 1998, verði rakið til fyrrgreinds atviks. Þvert á móti væru verulegar líkur á hinu gagnstæða. Samkvæmt þessu væru ekki lagaskilyrði til að krefja stefnda um þjáningabætur fyrir þann tíma sem stefnandi hafi verið veikur og óvinnufær af völdum brjósklosins. Séu því einungis skilyrði til að dæma bætur fyrir þjáningar í tvo daga, sbr. 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa stefnanda um bætur fyrir annað fjártjón sé að öllu leyti órökstudd og ekki studd neinum gögnum og beri því að hafna henni.

Vaxtakröfum stefnanda er mótmælt og er í því sambandi vísað til þess að bótaréttur stefnanda sé mjög umdeilanlegur í málinu að því marki sem hann yfir höfuð kunni að vera fyrir hendi. Allur málatilbúnaður stefnanda sé með þeim hætti að ógerlegt sé að taka afstöðu til bótaábyrgðar stefnda fyrr en við dómtöku málsins. Bótakrafa stefnanda beri því ekki dráttarvexti fyrr en frá endanlegum dómsuppsögu­degi en réttilega beri krafan 2% ársvexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 28. maí 1997 til dómsuppsögudags. Frá þeim tíma beri krafan hins vegar dráttarvexti, sbr. síðari málsliður 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Að því leyti sem bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska kunni að koma til álita verði að telja rétt í samræmi við vaxtakröfu stefnda að bæturnar verði ákveðnar á dómsuppsögudegi miðað við þær bótafjárhæðir sem þá gildi að teknu tilliti til verðlagsbreytinga samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga.

Málskostnaðarkröfur stefnda eru reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Réttargæslustefndi, sem muni greiða allan kostnað stefnda vegna málsins, hafi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi með höndum og því sé nauðsyn að taka tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.

 

Niðurstöður

Kröfur stefnanda eru byggðar á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna vinnuslyss, sem hann hafi orðið fyrir hjá stefnda hinn 28. maí 1997, og að hann hafi tilkynnt verkstjóra um slysið. Þessum staðhæfingum stefnanda er mótmælt af hálfu stefnda og þær eru ekki studdar öðrum gögnum en þeim, sem byggð eru á frásögnum stefnanda sjálfs af málsatvikum, þar á meðal það sem fram kemur um slysið í læknisfræðilegum gögnum málsins. Vitnin Guðfinna Ingimarsdóttir og Örn Gíslason, sem voru verkstjórar hjá stefnda á þessum tíma, hafa bæði staðfest að þeim hafi ekki verið kunnugt um framangreint slys fyrr en síðar eða á árinu 1999. Guðfinna bar jafnframt að stefnandi hafi í nokkur skipti, að hana minnti á árinu 1999 eða hugsanlega 1998, sagt að hann ætlaði í mál við stefnda vegna vinnuslyss, sem hann hafi orðið fyrir, en sú hafi ekki verið raunin og hafi hún ekki trúað orðum hans um að hann hefði orðið fyrir slysi í vinnunni hjá stefnda. Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda frá 2. maí 2000 segir að stefnandi hafi orðið fyrir vinnuslysi hjá stefnda en engin gögn hafa verið lögð fram um að stefnda hafi fyrir þann tíma verið tilkynnt um þann atburð og hvorki hefur komið fram að fyrirsvarsmönnum stefnda hafi verið kunnugt um atburðinn með öðrum hætti né fyrr en hér að framan er lýst. Verður að fallast á þau rök stefnda að hann hafi þess vegna ekki haft tækifæri til að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um hið meinta slys í samræmi við fyrirmæli í 1. og 2. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu­hætti og öryggi á vinnustöðum og reglur um tilkynningu vinnuslysa nr. 612/1989. Ekki hefur komið fram að læknir á Hvammstanga, sem stefnandi tilkynnti um slysið hinn 29. maí 1997 samkvæmt læknisvottorði frá 12. maí 2000, hafi tilkynnt Vinnueftirlitinu um slysið, sbr. 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Af þessu leiddi að engin rannsókn fór fram af hálfu Vinnu­eftirlitsins og upplýsingar skortir um slysið. Stefndi verður af framangreindum ástæðum eigi látinn bera hallann af þeim sönnunarskorti. Með vísan til alls þessa verður að telja framangreindar stað­hæfingar stefnanda ósannaðar gegn andmælum stefnda.

Stefnandi hefur lagt fram í málinu útskrift úr sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunar Hvammstanga, dagsetta 16. ágúst 1999, læknisvottorð Jóhanns Johnsen, dagsett 12. maí 2000, vottorð Jóseps Ó. Blöndals sjúkrahússlæknis á St. Franciskuspítalanum í Stykkishólmi, dagsett 18. júlí sama ár, og örorkumat Atla Þórs Ólasonar læknis, dagsett 4. september s.á. Í örorkumatinu kemur meðal annars fram að stefnandi hafi verið vinnusamur um ævina og "einkum fengist við ýmiss konar líkamlega erfiða vinnu". Hins vegar kemur hvorki fram í þessum gögnum né í öðrum gögnum málsins að líkamstjón stefnanda verði rakið til þess að vinnuaðstæðum eða verkstjórn hjá stefnda hafi verið áfátt eða að stefnandi hafi verið látinn bera þyngri byrðar en heimilt hafi verið að ætla honum að bera. Verður að telja staðhæfingar stefnanda í þessum efnum ósannaðar gegn andmælum stefnda.

Samkvæmt framangreindu er ósannað í málinu að líkamstjón stefnanda verði rakið til sakar stefnda eða starfsmanna hans. Ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Meleyri ehf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Olivers Olivers­sonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.