Print

Mál nr. 409/1998

Lykilorð
  • Vinnuslys
  • Laun
  • Kjarasamningur
  • Skaðabætur

Mánudaginn 29

Mánudaginn 29. mars 1999.

Nr. 409/1998.

BM Vallá ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Bjarna Heiðari Geirssyni

(Baldur Guðlaugsson hrl.)

Vinnuslys. Laun. Kjarasamningur. Skaðabætur.

B krafði BM um laun í slysaforföllum vegna vinnuslyss sem hann hafði fyrir þegar hann var að fara yfir steypumót. Auk þessa krafðist hann þess að viðurkennd yrði skaðabótaábyrgð BM á tjóni hans. Staðfest var niðurstaða héraðdóms um að B bæri laun í slysaforföllum þótt ráðningu hans hjá BM hefði verið lokið á slysdegi. Talið var að með þeirri aðgát, sem ætlast hefði mátt til af B, hefði hann átt að geta komist klakklaust yfir steypumótið. Var það ekki metið BM til sakar að ekki hafði verið komið fyrir tröppu við mótið eins og vinnueftirlitið hafði gert athugasemd við. Var slysið talið óhapp sem BM bæri ekki ábyrgð á og var það því sýknað af viðurkenningarkröfu B.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 1998. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt í málinu og málskostnaður felldur niður fyrir báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem rakið er í héraðsdómi er málsókn stefnda til komin vegna vinnuslyss, sem hann varð fyrir í steypuskála áfrýjanda 6. maí 1995. Krefur hann áfrýjanda í fyrsta lagi um laun í slysaforföllum samkvæmt kjarasamningi, sem hann tók laun eftir.

Áfrýjandi mótmælir kröfunni með vísan til þess að ráðningu og starfi stefnda hjá sér hafi verið lokið á slysdegi. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður ekki fallist á þau andmæli. Ekki hefur verið borið við öðrum ástæðum gegn þessari kröfu stefnda eða færð fram rök fyrir því að hana beri að lækka. Samkvæmt því verður niðurstaða héraðsdóms um þennan kröfulið stefnda staðfest.

II.

Stefndi krefst þess í annan stað að kveðið verði á um það með dómi að áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem stefndi varð fyrir við nefnt slys. Við rekstur málsins í héraði var sakarefninu skipt, þannig að einungis verður nú dæmt um hvort áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnda. Meðal gagna málsins er örorkumat 3. júní 1997, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi hlotið nokkurn varanlegan miska og varanlega örorku af völdum slyssins. Eru málsástæður aðila í þessum þætti raktar í héraðsdómi.

Steypumót það, sem stefndi var að fara yfir þegar hann slasaðist, var 107 cm hátt. Af framlögðum myndum af vettvangi verður ráðið að sú hlið mótsins, sem stefndi kaus að fara yfir þegar slysið bar að höndum, hafi verið nokkru hærri en aðrar hliðar þess. Verður fallist á með áfrýjanda að einfalt hafi verið fyrir stefnda að fara yfir mótið og hann hafi ekki þurft leiðbeininga við. Hafði stefndi auk þess reynslu af þeim störfum, sem hann vann við í umrætt sinn. Með þeirri aðgát, sem ætlast mátti til af stefnda, átti honum að reynast auðvelt að komast klakklaust yfir steypumótið, en hann hefur ekki getað skýrt hvað hafi valdið að hann hrasaði og féll ofan af því.

Fulltrúi Vinnueftirlits ríkisins kom á vettvang þegar eftir slysið og gerði athugasemdir við vinnuaðstæður. Krafðist vinnueftirlitið úrbóta, sem settar voru fram í nokkrum liðum, svo sem fram kemur í héraðsdómi. Laut ein athugasemd þess að því að þörf væri á tröppu við steypumótið til að auðvelda mönnum að fara yfir það. Með vísan til þess, sem áður er getið um hæð mótsins, verður ekki fallist á að virða beri áfrýjanda til sakar að hafa ekki komið upp slíkum búnaði við steypumótið. Að öðru leyti verður fallist á með áfrýjanda að slysið verði ekki rakið til þeirra atriða, sem athugasemdir vinnueftirlitsins beindust að.

Að virtu öllu því, sem að framan greinir, verður lagt til grundvallar dómi að slysið hafi orðið fyrir óhapp, sem áfrýjandi ber ekki bótaábyrgð á. Samkvæmt því verður hann sýknaður af þessum kröfulið stefnda.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, BM Vallá ehf., greiði stefnda, Bjarna Heiðari Geirssyni, 265.411 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1995 til greiðsludags.

Áfrýjandi er sýkn af kröfu stefnda um að viðurkennt verði að áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda vegna slyss, sem hann varð fyrir 6. maí 1995.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. júní sl. er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 24. október 1997 af Bjarna Heiðari Geirssyni, Grenimel 10, Reykjavík gegn BM Vallá ehf., Bíldshöfða 7, Reykjavík og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur.

Upphaflegar dómkröfur stefnanda eru þessar:

1. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda laun í slysaforföllum 265.411 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1995 til greiðsludags.

2. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur 1.908.022 krónur með 2% ársvöxtum frá 6. maí 1995 til 5. apríl 1997, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til greiðsludags.

Þess er krafist að áfallnir vextir verði lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta skipti þann 6. maí 1996.

3. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagð verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati réttarins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar kröfur enda engar dómkröfur gerðar á hendur honum.

Í upphafi aðalmeðferðar 22. júní sl. bar lögmaðu stefnanda fram þá ósk að sakarefni málsins yrði skipt þannig að að svo stöddu yrði dæmt um kröfulið 1 og 3 í stefnu en varðandi kröfulið 2 yrði í dómi einungis kveðið á um bótaskyldu stefnda vegna þess slyss er stefnandi varð fyrir 6. maí 1995, en úrlausn um bótafjárhæð yrði frestað þar til síðar. Ástæður fyrir þessari ósk kvað lögmaður stefnanda vera þær að stefnandi hefði gengist undir skurðaðgerð 16. júní sl. og því óvíst að afleiðingar slyssins væru að fullu komnar fram.

Lögmaður stefnda lýsti því yfir að hann teldi rétt að fresta málinu í heild.

Með vísan til 31. gr. laga nr. 91/1991 féllst dómari á ósk lögmanns stefnanda um framangreinda skiptingu sakarefnis.

Kröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru því eftirfarandi:

1. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda laun í slysaforföllum 265.411 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1995 til greiðsludags.

2. Að kveðið verði á um það með dómi að stefndi skuli bera skaðabótaábyrgða á tjóni stefnanda vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir við vinnu sína hjá stefnda þann 6. maí 1995 í steypuskálanum, Einingum 2, sem staðsettur er á athafnasvæði stefnda að Breiðhöfða 3, Reykjavík.

3. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær sömu og að framan greinir.

Málavextir.

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að þann 6. maí 1995 hafi hann orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda í steypuskálanum Einingum 2, sem staðsettur sé á athafnarsvæði stefnda að Breiðhöfða 3, Reykjavík. Um tildrög slyssins vísar stefnandi til skýrslu lögreglunnar í Reykjavík en þar er tildrögum slyssins lýst svo:

„Umrætt slys varð er ég var að fara upp úr einingu sem sýnd er á mynd er tekin var á staðnum. Ég hafði verið að glatta plötu sem er í botninum á einingunni og hafði lokið því. Ég var að fara úr einingunni og fór upp á vegginn. Þá hrasaði ég og féll á gólfið og lenti á hnjánum á gólfinu. Í fallinu rak ég höfuðið í steyputein sem stóð út úr einingunni.

Fengin var sjúkrabifr. á staðinn og var ég fluttur á slysadeild Borgarspítalans, þar sem ég var tekinn til rannsóknar og settur í myndatöku. Í ljós kom að ég var óbrotinn, hafði hlotið heilahristing, var aumur á hálsi og marinn. Ég fékk að fara heim eftir rannsókn, en var frá vinu í 3 daga á eftir samkvæmt læknisráði. Ég hef ekki fengið neinar eftirstöðvar og er byrjaður að vinna aftur.

Fallhæð mín þarna er um 1,80 metrar. Ég var með hjálm er slysið varð og sést hann á ljósmynd af vettvangi. Fyrirtækið B.M. Vallá þar sem ég var við vinnu er með tryggt hjá V.Í. S.“

Stefnandi kveður Vinnueftirlit ríkisins einnig hafa komið á slysstað og kannað aðstæður og aðbúnað með tilliti til öryggis. Hafi Vinnueftirlitið gert nokkrar athugasemdir varðandi aðbúnað og vinnuöryggi starfamanna stefnda og krafðist þess að úrbætur færu fram hjá stefnda, sbr. eftirlitsskýrslur nr. A 27587 og A 35781. Upplýsingar um tildrög slyssins sem Vinnueftirlitið hafi fengið á staðnum hafi hins vegar ekki verið nákvæmar, enda hafi stefnandi ekki verið að slétta steypu uppi á mótinu í umrætt skipti, svo sem fram komi í skýrslu Vinnueftirlitsins, heldur að klifra upp úr því. Með bréfi dags. 27. júní 1997 hafi Vinnueftirliti ríkisins verið bent á þetta misræmi og óskað eftir afstöðu Vinnueftirlitsins til þess hvaða áhrif þetta hefði á skýrslu eða athugasemdir þess. Með bréfi dags. 11. ágúst 1997 komi fram sú eindregna afstaða Vinnueftirlitsins að það skipti engu varðandi athugasemdir Vinnueftirlitsins hvort stefnandi hafi verið að klifra ofan á mótinu eða yfir það er hann féll niður.

Stefnandi hafi verið ráðinn til vinnu hjá stefnda þann 15. mars 1995, sbr. framlagðan ráðningarsamning, og hafi því unnið hjá stefnanda í tæpa tvo mánuði er slysið átti sér stað. Slysdagurinn, hinn 6. maí 1995, hafi hins vegar átt að vera síðasti dagur stefnanda í vinnu hjá stefnda, samkvæmt samkomulagi aðila um starfslok stefnanda, en stefnandi hugðist hefja sjálfstæðan atvinnurekstur eftir þann dag.

Áður en stefnandi var ráðinn til vinnu hjá stefnda hafi hann ekki verið í fastri vinnu síðan á árinu 1993 er hann hafi starfað hjá Hagvirki-Kletti hf. Eftir að það félag varð gjaldþrota hafi stefnandi verið atvinnulaus og á atvinnuleysisbótum í nokkra mánuði, en hafi tekið að sér einstaka verkefni seinni hluta ársins. Allt árið 1994 hafi stefnandi ekki fengið vinnu en hafi unnið að endurbótum á eigin húsnæði og hafi tekið að sér tvö verkefni fyrir aðra aðila. Tekjur á þessu ári hafi því verið mjög litlar og í formi reiknaðs endurgjalds, sbr. framlagðar skattskýrslur.

Stefnandi hafi verið í námi til öflunar sveinsprófs í húsasmíðum og hafi stundað námið samhliða vinnu í nokkur ár, með einhverjum hléum þó. Stefnandi hafi lokið námssamningi sínum vegna verklega hluta námsins árið 1991 en bóklega hlutanum vorið 1996. Stefnandi hafi þreytt sveinspróf í húsasmíði nú í haust. Stefnandi hafi náð prófinu og eigi von á að fá réttindi sem sveinn í húsasmíði innan tíðar.

Sigurður Thorlacius læknir mat örorku stefnanda af slysinu þann 12. nóvember og aftur þann 3. júní 1997, í samræmi við ákvæði laga nr. 50/1993.

Vegna afleiðinga slyssins hafi stefnandi verið óvinnufær í samtals átta vikur, fyrst eftir slysið hafi stefnandi misst úr þrjá vinnudaga eða 8., 9. og 10. maí 1995, en síðan 27. júlí 1995 til 18. september 1995, að báðum dögum meðtöldum.

Ástæða þess að afleiðingar slyssins komu ekki fram að fullu megi rekja til eðlis þeirra áverka sem stefnandi hlaut, þ.e. að við höggið á höfuð stefnanda hafi það reigst aftur með slíkum krafti að það skaddaði hálsliði, sem komi síðan fram í brjósklosi, sbr. fyrirliggjandi læknaskýrslur og mat.

Eftir að ofangreindar afleiðingar slyssins höfðu komið fram hafi stefnandi leitað til fyrirsvarsmanns stefnda og óskað eftir launagreiðslum í slysaforföllum. Hafi fyrirsvarsmaður stefnda vísað stefnanda á trúnaðarlækni félagsins, Grím Sæmundsson. Stefnandi hafi leitað til trúnaðarlæknis félagsins eftir kröfu fyrirsvarsmanns stefnda og hafi trúnaðarlæknirinn gefið út vottorð vegna málsins þann 2. október 1995 og sent starfsmannastjóra stefnda.

Eftir að afstaða trúnaðarlæknis stefnda lá fyrir hafi stefnanda verið lofuð greiðsla. Er stefnandi hafi gengið eftir að fá greitt hafi stefndi dregið lappirnar þar til að lokum að hann hafi alveg hafnað að greiða stefnanda laun í slysaforföllum. Stefnandi telur sig ekki hafa fengið fullnægjandi skýringar á þeirri afstöðu stefnda, að falla frá fyrri afstöðu þess efnis, að greiða laun í slysaforföllum.

Stefndi sé tryggður hjá réttargæslustefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Hafi stefnandi m.a. beint kröfum að réttargæslustefnda um greiðslur úr slysatryggingu launþega frá félaginu. Hafi félagið fallist á greiðsluskyldu og hafi greitt stefnanda hvoru tveggja, bætur fyrir varanlega örorku 242.780 krónur og dagpeninga vegna tímabundinnar óvinnufærni samtals 55.392 krónur, sbr. tjónskvittun dags. 18. desember 1996.

Með bréfi dags. 3. febrúar 1997 hafi lögmaður stefnanda ítrekað kröfu stefnanda um laun í slysaforföllum og áskilnað um skaðabætur vegna varanlegrar örorku.

Með bréfi dags. 5. mars 1997 hafi verið sett fram krafa um skaðabætur. Hafi bréf þetta verið sent réttargæslustefnda og stefnda.

Með bréfi dags. 7. maí 1997 hafi réttargæslustefndi f.h. stefnda hafnað skaðabótakröfu stefnanda.

Með bréfi dags. 3. júní 1997 hafi stefnandi farið þess á leit við stefnda að félagið tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins um vinnuslysið þannig að stefndi fengið notið slysabóta úr almannatryggingum, en stefndi hafi vanrækt þessa skyldu sína. Í sama bréfi hafi verið ítrekuð krafa um laun í slysaforföllum.

Með ódagsettu bréfi sem sent hafi verið lögmanni stefnanda með símbréfi þann 17. júlí 1997 hafi stefndi tilkynnt stefnanda að Tryggingastofnun ríkisins hefði verið tilkynnt um slysið. Stefndi hafi hins vegar í engu hirt um að upplýsa stefnanda á hvaða forsendum eða sjónarmiðum hann byggi neitun sína eða drátt á því að greiða laun í slysaforföllum.

Þar sem stefndi hafi neitað að greiða stefnanda laun í slysaforföllum og hafnað bótaábyrgð á tjóni stefnanda sé stefnanda nauðsynlegt að höfða mál þetta.

Málsástæður stefnanda og lagarök.

Kröfu sína um laun í slysaforföllum byggir stefnandi á kjarasamningi Trésmíðafélags Reykjavíkur við vinnuveitendur frá 1. maí 1992, en samningur þessi beri yfirskriftina Samningur milli Sambands byggingamanna f.h. aðildarfélaga sinna annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands Samvinnufélaganna og Meistara- og Verktakasambands byggingamanna hins vegar.

Stefnandi hafi verið og sé félagsmaður í Trésmíðafélagi Reykjavíkur og hafi fengið greidd laun frá stefnda á grundvelli ofangreinds kjarasamnings. Um rétt stefnanda til launa vegna vinnuslyss sé fjallaði í greinum 7.1 og 7.2 í nefndum kjarasamningi, sbr. einnig ákvæði 4. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til launa vegna slysaforfalla. Það skuli þó tekið fram að ákvæði kjarasamnings stefnanda til launa vegna vinnuslyss séu rýmri en ákvæði laga nr. 19/1979, sem kveði á um lágmarksréttindi til launa í slysaforföllum.

Grein 7.2. í kjarasamningi Trésmíðafélags Reykjavíkur segi:

„Allir sem unnið hafa í starfsgreininni í eitt ár samfellt, sbr. kafla 11, skulu, er þeir forfallast frá vinnu vegna sjúkdóms eða slysa, eigi missa neins af launum sínum, í í hverju sem þau eru greidd, í einn mánuð, auk dagvinnulauna í næstu 3 vikur þar á eftir.

Hafi starfsmaður unnið í starfsgreininni, sbr. 11. kafla , í 3 ár samfellt, skal hann, auk þess sem segir í 1. mgr. þessarar greinar, halda dagvinnulaunum í eina viku, og í fjórar vikur að auki, eftir 5 ára starf í starfsgreininni.“

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til launa vegna slysaforfalla, sé stefnanda tryggður réttur til dagvinnulauna í allt að 3 mánuði, og séu það lágmarksréttindi stefnanda.

Er slysið átti sér stað hafi stefnandi verið í námi til að öðlast réttindi sem sveinn í húsasmíði og hafi hann lokið námstíma sínum hjá meistara en hafi átt ólokið bóklegu námi. Áunnin réttindi hans hafi samsvarað því að hann hefði unnið þrjú til fjögur ár í starfsgreininni sem veiti honum rétt til launa í slysaforföllum sem svari til eins mánaðar á staðgengilslaunum og þrjá mánuði og fjórar vikur á dagvinnukaupi.

Stefnandi hafi verið óvinnufær vegna afleiðinga vinnuslyss þann 6. maí 1995 samtals í 8 vikur og einn dag eða dagana 8., 9. og 10. maí, eða 3 vinnudaga, og 27. júlí til og með 18. september 1995 sem séu 38 dagar vinnudagar, eða samtals 41 vinnudagur sem stefnandi missti úr vegna óvinnufærni.

Stefnandi hafi fengið greitt vikulega hjá stefnda og samkvæmt síðustu þremur launaseðlum fyrir slysið hafi stefnandi unnið að meðaltali 2,9 yfirvinnutíma hvern virkan dag, eða 34,75 yfirvinnutíma á 12 virkum vinnudögum og samtals 17 yfirvinnutíma á 3 laugardögum eða 5,67 tíma að meðaltali. Meðalyfirvinna á viku hafi því verið 5 x 2,9 + 5,67 = 20,17. Stefnandi hafi fengið 600 kr. á tímann fyrir dagvinnu en 1.080 kr. á tímann í eftirvinnu. Með því megi ætla að vikulaun stefnanda hefðu almennt geta orðið 40 x 600 = 24.000 + 20,17 x 1.080 = 45.783 kr. Við þessa fjárhæð hafi síðan bæst 10,17% vegna orlofsréttar, sbr. IV. kafla kjarasamningsins eða 4.656 kr., þannig að samtals verða þetta 50.439 kr. á viku. Noti stefnandi þennan útreikning við að áætla staðgengilslaun í einn mánuð, enda hafi stefnandi ekki upplýst um það hver hafi verið raunveruleg staðgengilslaun fyrsta mánuðinn sem stefnandi hafi verið óvinnufær.

Samkvæmt ákvæði 1.1.7.1. í kjarasamningi aðila teljist 4,3332 vikur í mánuði og beri að nota þá margföldum við að finna út mánaðarlaun frá vikulaunum. Samkvæmt því byggir stefnandi á því að mánaðarstaðgengilslaun hafi verið 50.439 x 4,3332 = 218.562 kr. Af 8 vikum standa þá eftir 8 - 4,3332 = 3,6668 vika sem stefnandi eigi rétt til dagvinnulauna fyrir. Dagvinnulaun stefnanda á viku hafi verið (600 kr. x 40) x 10,17% orlof eða 26.440 kr. Krafa stefnanda fyrir dagvinnu í 3,6668 vikur sé því 96.953 kr.

Dagvinnulaun stefnanda voru 8 tímar x 600 kr. x 10,17% orlof eða alls 5.288 kr.

Samtals nemi krafa stefnanda til launa vegna óvinnufærni í 8 vikur og 1 dag í kjölfar vinnuslyss því 218.562 kr. + 96.953 kr. + 5.288 kr. eða 320.803 kr. Frá þessari fjárhæð dragast greiddar dagpeningagreiðslur réttargæslustefnda 55.392 kr. Mismunur þessa, 265.411 kr. sé krafa stefnanda samkvæmt kröfulið 1 í stefnu.

Samkvæmt ákvæði í ráðningarsamningi aðila og ákvæði 7.4.1. í kjarasamningi stefnanda hafi stefnda borið að greiða stefnanda laun í slysaforföllum eftir að trúnaðarlæknir félagsins hafi staðreynt óvinnufærni stefnanda og tengsl óvinnufærninnar við vinnuslysið. Trúnaðarlæknir stefnda hafi staðfest þessi atriði með vottorði dags. 2. október 1995 og því hafi stefnda borið að greiða launaskuldina á þeim degi eða strax á eftir og því beri krafan dráttarvexti frá þeim degi, skv. 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, eða í síðasta lagi frá 2. nóvember 1995, sbr. 2. mgr. 9. gr. vaxtalaga.

Kröfu sína um að staðfest verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á umræddu slysi stefnanda byggir stefnandi á því að slysið megi rekja til ófullnægjandi og hættulegrar vinnuaðstöðu hjá stefnda og til skorts á verkstjórn. Telur stefnandi að stefndi hafi brotið gegn skyldum sínum skv. lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað og vísar sérstaklega til 13. gr., svo og V. og VI. kafla laganna.

Af skoðun lögregluskýrslna um slysið og skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, dags. 6. maí 1995, telur stefnandi sannað að honum hafi verið búnar hættulegar og ófullnægjandi aðstæður við vinnu sína og að slysið megi rekja til þessa.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins séu gerðar athugasemdir við vinnuaðstæður og öryggi hjá stefnda og hafi Vinnueftirlitið m.a. gert eftirfarandi kröfur um úrbætur:

„1. Fallvarnir séu til staðar þegar unnið er í þessari hæð. Trappa uppá pallinum skal vera til staðar og fest við hann.

2. Greiður aðgangur skal vera allt í kringum mótið og teinar hafðir hæfilega langir.

3. Ekki skal geyma óþarfa hluti á milli sperranna í þakinu, þar sem bilið á milli palls og sperra er aðeins 1,9 m.“

Í skýrslu lögreglunnar í Reykjavík um slysið segir m.a. „Slæm vinnuaðstaða var á vettvangi óhappsins“ og af myndum lögreglu og Vinnueftirlits megi glöggt sjá hina bágbornu vinnuaðstöðu og standi skrifað undir eina mynd lögreglu „Ljósmyndin sýnir vel hina slæmu vinnuaðstöðu á vettvangi“. Skýrsla lögreglu lýsi vel viðbrögðum þeirra sem komið hafi að vinnustað stefnanda er slysið átti sér stað og virðist umsögn aðila vera á einn veg, að vinnuaðstæður væru áberandi slæmar á slysstað.

Byggir stefnandi á því að slysið megi rekja til þeirrar vanrækslu stefnda varðandi vinnuöryggi og aðbúnað á vinnustað sem kröfur Vinnueftirlitsins um úrbætur varði. Meginástæðu þess að stefnandi féll niður af mótinu telur stefnandi vera þá hve erfitt hafi verið að fóta sig ofan á brúnum þess, enda þær grannar, hálar og mishæðóttar. Eftir að stefnandi hafi klifrað upp úr mótinu og ofan á það, hafi blasað við erfiðara verkefni, sem hafi verið að komast niður hinum megin. Til þess hafi stefnandi þurft að snúa sér á brún mótsins og stíga á þverbitana á mótinu. Við þessa aðferð hafi stefnandi ekkert haft til að styðja sig við nema mótið sjálft. Stefnandi byggir á því að hefði verið trappa til að stíga á hefði niðurgangan orðið til muna hættuminni, enda þá ekki þörf á að snúa sér ofan á mótinu til að stíga á þverbitann.

Einnig byggir stefnandi á því að hefði aðgangur í kringum mótin verið betri og gólfflöturinn hreinn, þannig að hættulaust væri að stíga niður á hann, hefði það einnig aukið öryggi og auðveldað stefnanda að komast niður af mótinu. Eins og aðstæðum hafi verið háttað á vinnustað stefnda hafi alls konar drasl og óþrifnaður verið í kringum mótin, sem hafi gert stefnanda erfiðara að fara niður af mótinu þar sem ekki hafi aðeins þurft að vara sig á teinunum, sem staðið hafi langt út úr mótunum, heldur hafi gólfflöturinn verið þakinn rusli þannig að ekki hafi mátt óhikað stíga niður á hann. Stefnanda hafi borið að hafa vinnuaðstæður þannig að ekki skapaðist hætta af og vinnuumhverfi og athafnarými starfsmanna þannig að ekki hamlaði vinnuöryggi, sbr. 42. gr. laga nr. 46/1980, sbr. 3. og 6. gr. reglugerðar nr. 493/1987 um húsnæði vinnustaða.

Einnig byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið að hafa fallvarnir eða tryggja öryggi starfsmanna með öðrum hætti er þeir vegna starfa sinna þurftu að standa ofan á mótunum. Hugsanlega hefði í þessu sambandi verið nægjanlegt að hafa tiltæka handfestu fyrir starfsmenn til að styðja sig við er þeir voru að klifra ofan á eða yfir mótin.

Stefndi hafi hafnað bótaskyldu sinni með þeim rökum að ekki væri venja hjá félaginu að nota fallvarnir eða tröppu við vinnu við nefndar einingar. Í bréfi réttargæslustefnda dags. 7. maí 1997 komi fram að hæð mótsins hafi verið 107 cm og þykkt 15 cm. Í sama bréfi sé einnig viðurkennt að af steyputeinum er standa út úr mótum stafi ávallt einhver hætta. Telur stefnandi þetta meginástæðu þess að nauðsynlegt hafi verið að hafa fallvarnir, þ.e. að hætta á því að aðili félli ofan af mótunum hafi verið og sé mikil þar sem þau séu bæði grönn og hál og svo hitt að ef aðili falli ofan af mótunum sé hann í mikilli slysahættu vegna þeirra teina sem út úr mótunum standi og þrengsla í kringum pallinn. Telur stefnandi þannig að starfmaður geti auðveldlega fallið út fyrir þann pall sem mótið hafi staðið á. Stefnandi telur þannig að ekki sé aðalatriði við mat á því hvort nota eigi fallvarnir eða ekki, hvort menn séu að vinna í mikilli hæð eða ekki, heldur hvort fallhætta sé mikil og líklegt sé að fall leiði til slyss á starfsmönnum.

Telur stefnandi að með ofangreindri vanrækslu hafi stefndi brotið gegn þeim skyldum sem á honum hvíli skv. IV. kafla laga nr. 46/1980 og þannig bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda. Byggir stefnandi á því að hefði stefndi gætt að þeim öryggisatriðum, sem Vinnueftirlit ríkisins geri kröfur um, hefði slysið ekki átt sér stað.

Málsástæður stefnda og lagarök.

Krafa stefnda um sýknu af launakröfum stefnanda er byggð á því, að ráðningarsamningur aðila og kjarasamningur Trésmíðafélagsins veiti stefnanda engan rétt til slysakaups úr hendi stefnda þar sem ráðningu hans og starfi hjá stefnda hafi verið lokið á slysdegi og stefnandi á leið í sjálfstæðan atvinnurekstur. Hafi öll réttindi og skyldur milli aðila fallið niður við ráðningarslitin. Eigi grein 7.2. í kjarasamningi Trésmíðafélagsins, sem stefnandi byggir á launakröfu sína, ekki við eins og hér standi á. Þá er kröfunni mótmælt sem of hárri.

Krafa stefnda um sýknu af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði að stefndi beri bótaábyrgð á slysi stefnanda er á því reist, að ekki sé sannað að slys hans hafi orsakast af vinnuaðstöðunni hjá stefnda, skorts á verkstjórn eða þeim atriðum sérstaklega, sem Vinnueftirlitið hafi gert kröfur um úrbætur á, eða að stefndi eigi að einhverju leyti sök á slysinu. Hvíli sönnunarbyrðin óskipt á stefnanda um orsakir slyssins og meinta sök stefnda á slysinu, en um bótaábyrgð á því gildi almennar skaðabótareglur.

Liggi fyrir, sbr. umsögn Vinnueftirlitsins á dskj. nr. 10, sbr. dskj. nr. 12, að orsakir slyss stefnanda séu óljósar og sjálfur geri hann sér ekki grein fyrir því hvers vegna hann hafi fallið, sbr. dskj. 24 bls. 3. Hafi sú athöfn, sem stefnandi hafi framkvæmt þá er hann meiddist, þ.e. að fara upp úr steypumótinu og yfir metersháan vegginn, verið eins einföld og hugsast geti og þarfnist ekki verkstjórnar. Leiki börn og unglingar annað eins eftir slysalaust í leikjum sínum.  Ekkert liggi heldur fyrir um að vinnuaðstaðan sem slík hafi valdið slysinu og sé sitt hvað „slæm vinnuaðstaða“ og saknæm eða slysavaldandi vinnuaðstaða. Ekki geti krafa Vinnueftirlitsins um fallvarnir heldur átt við um slysatilfelli stefnanda því ekki hafi hann verið að vinna liggjandi ofan á mótbrúninni, en í öðrum tilvikum hafi Vinnueftirlitið ekki gert kröfu til fallvarna. Ekki verði heldur séð hvernig koma hefði mátt við fallvörnum við svona lágan vegg. Þá bendi ekkert til þess að önnur atriði, sem Vinnueftirlitið hafi krafist úrbóta á, svo sem lengd steyputeina eða þrengsli kringum mótið hafi valdið slysinu. Hefði slysið allt eins getað orðið þótt teinarnir hefðu verið af annarri lengd eða greiðfærari gangvegur kringum mótið. Loks sé ósannað að tilvist tröppu við mótið hefði afstýrt slysinu. Hafi stefnandi allt eins getað fallið í tröppu og hefði þá væntanlega kennt tröppunni um. Hafi verið auðvelt að stíga á þverböndin á steypumótinu til að komast yfir hina lágu mótaveggi og tröppu ekki þörf. Einnig hafi verið næg handfesta í mótauppslættinum, þverböndum og steyputeininum og ómögulegt að sjá hvers konar sérstakrar handfestu stefnandi hafi ætlast til að hefði verið komið fyrir við ferð yfir veggina. Hafi Vinnueftirlitið heldur ekki gert slíkar kröfur. Sé því sérstaklega andmælt að brotin hafi verið einhver lög eða reglugerðir um öryggi á vinnustöðum og að slysið megi rekja til þess. Sé í þeim ákvæðum sem stefnandi vísi til aðeins að finna almennar kröfur um gætni.

Sé ekki sannað að slys stefnanda hafi hlotist af öðru en óhappatilviljun og/eða óaðgæslu stefnanda sjálfs við för hans yfir mótavegginn. Stefnandi hafi verið vanur vinnustaðnum og hafi haft þá starfsreynslu, aldur og þroska til að bera að hann hefði átt að geta farið þar ferða sinna slysalaust, ef eðlileg aðgát hefði verið viðhöfð. Hljóti slysið því að hafa orsakast af óaðgæslu stefnanda eða óhappatilviljun.

Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafan reist á því að slysið megi að stærstum hluta rekja til óhappatilviljunar og óaðgæslu stefnanda og verði hann að bera tjón sitt sjálfur í hlutfalli við þá sök.

Niðurstaða.

Samkvæmt kröfulið 1 í stefnu krefur stefnandi stefnda um laun í slysaforföllum.

Óumdeilt er að stefnandi var félagsmaður í Trésmíðafélagi Reykjavíkur á þeim tíma er hann vann hjá stefnda og fékk greidd laun á grundvelli kjarasamnings Trésmíðafélags Reykjavíkur við vinnuveitendur. Í grein 7.2. í nefndum kjarasamningi er fjallað um greiðslu í almennum veikinda- og slysatilvikum, eins og áður er rakið. Af hálfu stefnda er því haldið fram að grein þessi eigi ekki við þar sem ráðningu stefnanda hafi verið lokið á slysdegi og stefnandi á leið í sjálfstæðan atvinnurekstur.

Fyrir liggur að stefnandi varð óvinnufær um tíma vegna afleiðinga slyssins eftir að hann hætti störfum hjá stefnda. Ráðningarsamningur milli málsaðila var enn í gildi er slysið varð og stefnandi enn að störfum hjá stefnda og réttindi og skyldur aðila samkvæmt samningnum því enn í fullu gildi. Telja verður því að stefndi sé bundinn af fyrrgreindu ákvæði í kjarasamningi um laun í slysatilvikum.

Stefnandi hefur rökstutt kröfu sína samkvæmt kröfulið 1 í stefnu og gert grein fyrir fjárhæð hennar. Stefndi hefur mótmælt þessari kröfu sem of hárri en hefur ekki fært nægileg rök fyrir mótmælum sínum. Ber því að taka þennan kröfulið til greina.

Eins og fram er komið er deilt um bótaskyldu stefnda vegna slyssins 6. maí 1995.

Engin vitni voru að því er stefnandi varð fyrir umræddu slysi. Verkstjóri fylgdist með verkinu en var ekki alltaf á staðnum og var stefnandi að mestu látinn um framkvæmd verksins. Stefnandi lýsti því fyrir dómi að hann hefði verið að vinna í tvo til þrjá tíma við að steypa. Hafi hann þá ætlað að taka hlé og hafi farið upp úr einingunni sem hann var að vinna í. Stefnandi kveðst hafa stigið á kantinn á einingunni, staðið þar á öðrum fæti og ætlað að setja hinn fótinn yfir og einhvern veginn skrikað fótur og fallið en engin haldfesta var þarna. Til þess að komast upp á kantinn steig hann á bita sem voru að innanverðu í einingunni. Eins og kemur fram í lögregluskýrslu féll stefnandi á hnén og rak höfuð sitt í steyputein sem stóð út úr einingunni og slasaðist. Sjúkrabifreið flutti hann síðan á Borgarspítalann þar sem hann var rannsakaður.

Fyrir liggur að starfsmaður Vinnueftirlits ríkisins, Jens Andrésson, skoðaði slysavettvang hinn 6. maí 1995. Undirritaði hann umsögn um slysið og staðfesti hana hér fyrir dómi. Í skýrslu hans segir m.a. að teinar, mislangir, allt að 90 cm, hafi staðið lárétt út frá lóðlínu mótsins. Vegna þess að lítill gangflötur var frír í kringum mótið, og teinarnir stóðu svona langt út, hafi verið erfitt að framkvæma frágangsvinnuna með eðlilegri líkamsbeitingu. Voru eftirfarandi kröfur gerðar af hálfu Vinnueftirlitsins:

„1. Þurfi að framkvæma vinnu með því að liggja ofan á mótabrúninni þá skulu vera fallvarnir til staðar.

2. Greiður aðgangur skal vera allt um kring við mótið og samsetningarteinarnir hafðir hæfilega langir.“

Vegna misskilnings var talið að stefnandi hefði verið að vinna uppi á mótinu er upphafleg umsögn um slysið var gerð. Í bréfi Vinnueftirlitsins dags. 11. ágúst 1997 segir hins vegar að það breyti engu varðandi umsögn Vinnueftirlitsins hvort slasaði var að klifra yfir mótið eða var á hnjánum uppi á því.

Jens Andrésson bar fyrir dómi að það væri regla hjá Vinnueftirlitinu að nota ætti fallvarnir ef verið væri að vinna vel yfir einn meter. Bar hann að umræddur vinnustaður hefði verið þvælinn og mikið drasl þar. Þetta hefði verið óhrjálegt vinnusvæði og menn hefðu þurft að vera vel á verði til þess að verða ekki fyrir utanaðkomandi áverkum. Þá bar hann að uppstig í eininguna hefði verið óeðlilegt.

Í lögregluskýrslu er gerð var vegna atburðarins segir að slæm vinnuaðstaða hafi verið á vettvangi óhappsins.

Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði beðið um að fá að stytta teinana er stóðu út úr einingunni en honum hafi ekki verið heimilað það þar sem teinarnir höfðu verið fengnir að láni.

Fyrir liggur jafnframt, sbr. framburð Hermanns Guðmundssonar framleiðslustjóra stefnda, að eftir slysið var mótið fært og búin til ný aðstaða þar sem var meira rými og jafnframt settur nýr pallur fyrir mótin. Þá kom einnig fram í framburði hans að nú væri trappa til staðar en hún væri sjaldan notuð.

Þegar virt er það sem að framan er rakið þykir sýnt fram á að vinnuaðstaða stefnanda, er slysið varð, hafi verið óforsvaranleg og jafnframt hættuleg og að rekja megi orsakir slyssins til þess. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi með neinum hætti farið ógætilega þegar slysið varð eða að hann hafi borið sig að með öðrum hætti en eðlilegt má teljast miðað við aðstæður á vinnusvæði hans.

Ber að fallast á það með stefnanda að af hálfu stefnda hafi verið brotin þau ákvæði laga nr. 46/1980, sem tryggja eiga öryggi á vinnustað og góðan aðbúnað. Telst stefndi því hafa bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda á slysi því er hann varð fyrir við vinnu sína hinn 6. maí 1995. Ber því að taka til greina kröfu stefnanda samkvæmt kröfulið 2.

Eftir þessum úrslitum ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað í þessum þætti málsins sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, BM Vallá ehf., greiði stefnanda, Bjarna Heiðari Geirssyni, laun í slysaforföllum að fjárhæð 265.411 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1995 til greiðsludags.

Stefndi, BM Vallá ehf., ber skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, Bjarna Heiðars Geirssonar, vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir við vinnu sína hjá stefnda þann 6. maí 1995 í steypuskálanum, Einingum 2, sem staðsettur er á athafnasvæði stefnda að Breiðhöfða 3, Reykjavík.

Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.