Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Forgangskrafa
  • Réttindaröð
  • Verksamningur


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002.

Nr. 58/2002.

Kristín Gissurardóttir

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

þrotabúi Genealogia Islandorum hf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Forgangskrafa. Réttindaröð. Verksamningur.

K krafðist þess að krafa, sem hún lýsti við gjaldþrotaskipti á þrotabúi G hf., yrði viður­kennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti o.fl. Í málinu var upplýst að K hafði ráðið sig til starfa hjá G hf. sem verktaki og að henni hafði frá upphafi verið ljóst að hún nyti hvorki orlofsréttinda né launa í veik­inda­forföllum. Þá var upplýst að K hafði staðið skattyfirvöldum skil á staðgreiðslu skatta og virðisaukaskatti sem verktaki og í einhverjum mæli dregið starfstengdan kostnað frá tekjum. Var því talið að K hefði ávallt verið ljóst, að G hf. hefði ráðið hana til starfa sem verktaka og litið á hana sem slíka, og að hún hefði sætt sig við það fyrir­komu­lag. Með vísan til þessa þótti ekki unnt að viðurkenna kröfu hennar sem forgangskröfu í þrotabú G hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að krafa að fjárhæð 1.269.220 krónur, sem hún lýsti 29. júní 2001 við gjaldþrotaskipti varnaraðila, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að krafa hennar á hendur varnaraðila verði viðurkennd á þann hátt, sem að framan greinir. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2002.

Sóknaraðili er Kristín Gissurardóttir, kt. 080942-3549, Helgubraut 17, Kópavogi, en varnaraðili er þrotabú Genealogia Islandorum hf., kt. 570599-2759, en félagið var síðast til húsa að Lynghálsi 10, Reykjavík.

Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 15. október sl. með bréfi Helga Jóhannessonar hrl., skiptastjóra þrotabús Genealogia Islandorum hf. Í bréfi skiptastjóra er þess óskað, að Héraðsdómur Reykjavíkur leysi úr ágreiningi sem veit að því, hvort sóknaraðili hafi unnið sem launþegi í þágu Genealogia Islandorum hf. eða sem verktaki í félagsins þágu.

Málið var tekið til úrskurðar 10. desember sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Dómkröfur sóknaraðila  eru þær, að krafa hennar að fjárhæð 1.269.220 kr., sem lýst var í þrotabú varnaraðila með kröfulýsingu dagsettri 29. júní 2001 verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 (eftirleiðis gjaldþrotalög) í þrotabú varnaraðila.

Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti á tildæmda málflutningsþóknun.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur, að staðfest verði sú ákvörðun skiptastjóra í þb. Genealogia Islandorum hf., sem fram komi í kröfuskrá, dags. 7. september 2001, að krafa sóknaraðila í búið að fjárhæð 1.269.220 kr. verði hafnað sem forgangskröfu, skv. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins.

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Mál þetta lýtur að því, eins og að framan er lýst, hvort líta beri svo á að sóknaraðili hafi starfað sem launþegi hjá Genealogia Islandorum hf., eins og byggt er á af hennar hálfu, eða hvort hún hafi starfað í þágu félagsins sem verktaki, eins og varnaraðili heldur fram.

Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins. Einnig gáfu skýrslu fyrir dóminum, Birna Barkardóttir, samstarfsmaður sóknaraðila hjá Genealogia Islandorum hf., Hilmar Bergmann, fjármálastjóri Sögusteins ehf. og Genealogia Islandorum hf., sem var móðurfélag Sögusteins ehf. og Egill Örn Jóhannsson, sölu- og markaðsstjóri Genealogia Islandorum hf. frá febrúar 2000 til janúar 2001. Hann var yfirmaður sóknaraðila og Birnu Barkardóttur.

Málavöxtum verður best lýst með því að reifa í stórum dráttum vætti þessara fjögurra einstaklinga hér fyrir dómi.

Sóknaraðili kvaðst hafa hafið störf hjá söludeild Genealogia Islandorum í marsmánuði árið 2000. Hún hafi unnið að öflun gagna í ættfræðirit, leiðréttingu þeirra og sölu ættfræðibóka. Komið hafi til tals að gera við hana ráðningarsamning, en það hafi ekki komist í framkvæmd. Í fyrstu hafi laun hennar alfarið miðast við söluárangur hennar, en frá 1. september árið 2000 hafi hún fengið stöðu sem launþegi. Þessu hafi verið breytt aftur til fyrra horfs um áramótin 2000/2001. Starfsfólkið hafi enga skýringu fengið á þessari breytingu. Hún hafi verið andvíg þessari breytingu eins og flestir starfsmenn, sem í hlut áttu, og fremur kosið að njóta fastra tekna sem launþegi, svo og veikinda-, orlofsréttinda og annarra starfsréttinda launþega. Verktakalaunin hafi verið mjög breytileg frá einum mánuði til annars. Mánaðarlaun hennar sem launþegi hafi numið 150 þúsund krónum, að viðbættum bónusgreiðslum, sem voru árangurstengdar.  Litið hafi verið á starf hennar sem fullt starf og ætlast til að hún skilaði a.m.k. 5 vinnustundum á dag. Vinnutími hennar hafi yfirleitt verið frá milli þrjú og hálf fjögur og til kl. tíu að kvöldi og vinnustaðurinn hjá vinnuveitanda hennar, sem lagt hafi til allt, sem þurfti til starfans. Hún hafi lotið verkstjórn vinnuveitanda og taldi sér óheimilt að fá aðra til að vinna verkið fyrir sig, enda um persónulegt ráðningarsamband að ræða. Greiðslufyrirkomulag hafi verið með þeim hætti meðan hún var talin verktaki, að hún skilaði mánaðarlega skýrslu, sem vinnuveitandi byggði laun hennar á.  Ekkert orlof hafi verið greitt eða veikindalaun, en veikindi hafi borið að tilkynna. Ekki hafi verið talað um uppsagnarfrest, en hún myndi hafa sagt upp með fyrirvara, ef til þess hefði komið, líklega með mánaðarfyrirvara. Hún kvaðst sjálf hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta og greiðslu virðisaukaskatts. Hún hafi skilað rekstrarreikningi með skattframtali sínu og fært þar einhvern smávegis rekstrarkostnað á móti tekjum.

Hún hafi áður unnið sem verktaki hjá Máli og menningu og fengið virðisaukaskattsnúmer, þegar hún hóf þar störf á árinu 1995. Hún lýsti starfslokum sínum með þeim hætti, að henni og starfsfélögum hennar hafi verið tilkynnt að breyting yrði á launum þeirra og þeim jafnframt gert ljóst að óvíst væri hvort laun yrðu greidd. Vinnuveitandi hafi þá átt ógreidd laun fyrir marsmánuð. Starfsfólkið hafi hætt störfum í framhaldi af þessu í aprílmánuði sl. og tilkynnt forráðamönnum félagsins þá ákvörðun.

Vitnið Birna Barkardóttir staðfesti frásögn sóknaraðila um vinnufyrirkomulag og vinnutíma, skil á staðgreiðslu skatta og virðisaukaskatti. Hún kvað það hafa verið einhliða ákvörðun vinnuveitandans að breyta verktakafyrirkomulagi starfsmanna í launþegasamband frá 1. september 2000 og með sama hætti hafi starfsmönnum verið tilkynnt 1. desember að þeir ættu aftur að verða verktakar frá og með 1. janúar 2001. Hún kvaðst frekar hafa kosið að vera launþegi. Hún lýsti starfslokum sínum með sama hætti og sóknaraðili.

Vitnið Egill Örn Jóhannsson staðfesti frásögn sóknaraðila um starfskjör sölumanna, skattskil o.fl. Hann kvað skattyfirvöld ekki hafa gert athugasemdir við verktakafyrirkomulag félagsins, eftir því sem hann vissi best. Starf sölumanna hafi verið þess eðlis, að ekki hafi verið gerðar fastar kröfur um viðveru eða mætingu og allur gangur á því, hvort sölumenn tilkynntu veikindi, en þess hafi verið óskað af skipulagsástæðum. Að hans mati hafi sölumenn á verktakakjörum ekki notið upp­sagnarfrests og því getað látið fyrirvaralaust af störfum. Hann kvaðst hafa gengist fyrir því, að sölumenn yrðu gerðir að föstum starfsmönnum haustið 2000, þar sem hann hafi talið það vera bæði fyrirtækinu og starfsfólki í hag.  Þetta hafi gerst með samþykki meirihluta sölumanna. Hann hafi ekkert komið að þeirri breytingu sem varð á starfskjörum sölumanna í upphafi ársins 2001.

Vitnið Hilmar Bergmann staðfesti frásögn sóknaraðila Kristínar um starfskjör, vinnufyrirkomulag og starfslok sölumanna, og einnig um fyrirkomulag staðgreiðslu skatta og greiðslu virðisaukaskatts. Hann kvaðst ekki hafa litið á starf sóknaraðila sem fullt starf.  Hann greindi frá því að öllu starfsfólki félagsins hafi verið sagt upp í lok nóvember 2000, þar sem þá hafi verið óljóst um áframhaldandi starfsemi þess. Hann kvað sölumenn hafa gert reikninga sína eftir hans leiðsögn, en byggt hafi verið á gögnum frá viðkomandi sölumanni.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili byggir á því, að hún hafi ávallt unnið á starfstöð Genealogia Islandorum hf. (eftirleiðis félagið) og hafi félagið séð henni fyrir nauðsynlegri vinnuaðstöðu s.s. tölvu og síma og greitt allan kostnað, sem starf hennar hafði í för með sér. Starf hennar hafi verið eðlilegur hluti af starfsemi félagsins og falist m.a. í að fylgja eftir gagnaöflun til skráningar í gagnagrunn félagsins og selja bækur, sem það gaf út. Vinnutími hennar hafi verið reglulegur. Samningssamband hennar við félagið hafi verið persónulegt og henni því verið óheimilt að fela það öðrum. Félagið hafi frá upphafi stýrt vinnu sóknaraðila, s.s. um viðveruskyldu, verkefnaskil og tilkynningar um fjarvistir vegna veikinda.

Synjun skiptastjóra um að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu hafi eingöngu byggst á þeirri tilhögun, sem var á greiðslu launa. Launin hafi verið árangurstengd og miðast við ákveðið hlutfall af símasölu. Það hafi verið einhliða ákvörðun forsvarsmanna félagsins, að laun hennar skyldu vera með þessum hætti, þegar hún réði sig til starfa hjá félaginu og að henni bæri að skila reikningum til félagsins og greiða virðisaukaskatt af launum sínum. Engar breytingar hafi orðið á starfskyldum sóknaraðila, þegar hún var einhliða gerð að launþega hjá félaginu í september árið 2000. Laun hennar hafi þá einnig verið árangurstengd.

Ljóst sé af dómum Hæstaréttar að meta verði samningssamband vinnuveitanda og starfsmanns heilstætt við ákvörðun þess, hvort viðkomandi starfsmaður skuli teljast launþegi eða verktaki. Ekki nægi að líta eingöngu til tilhögunar launagreiðslna. Það væri óeðlilegt, ef vinnuveitandi gæti einhliða komið sér undan skyldum sínum gagnvart starfsmanni með fyrirkomulagi launagreiðslna. Það hafi verið ákvörðun félagsins að sóknaraðili skyldi standa skil á virðisaukaskatti og því sé fráleitt að sóknaraðili eigi að gjalda fyrir þá ákvörðun.

Sóknaraðili vísar til þess, að lög um lágmarksréttindi launafólks og önnur lög, sem tryggja eigi rétt launþega séu sett til varnar launþegum.. Löggjafinn hafi þannig talið nauðsynlegt með setningu 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga og með lögum um ábyrgðarsjóð launa að tryggja framfærslulaun launþega.

Sóknaraðili styður kröfu sína um málskostnað með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (eml.).

Málsástæður og lagrök varnaraðila:

Varnaraðili byggir á því, að samband sóknaraðila og hins gjaldþrota félags hafi verið dæmigert verktaka/verkkaupa samband. Sóknaraðili hafi einkum starfað sem sölumaður hjá hinu gjaldþrota félagi og hafi starf hennar einkum falist í bóksölu. Laun hennar hafi algjörlega ráðist af árangri ólíkt því sem eigi sér stað sé um hefðbundið vinnusamband að ræða. Félagið hafi að vísu lagt henni til vinnuaðstöðu og ætlast til þess, að hún innti sjálf umsamda vinnu af hendi, en það hafi enga þýðingu fyrir úrslit málsins. Það sama megi segja í fjölmörgum tilvikum, þar sem verktaki sé ráðinn til ákveðinna verka. Megi í því sambandi vísa til þess, þegar lögmaður sé ráðinn til starfa.

Ljóst sé, að sóknaraðili hafi engan rétt átt til orlofs eða launa í uppsagnarfresti eða veikindaforföllum. Hún hafi sjálf skrifað reikninga til félagsins með virðisaukaskatti, eins og venja sé til, þegar um verktakasamband sé að ræða.

Sóknaraðili hafi um skeið verið launþegi hjá félaginu, en það hafi breyst um áramótin 2000/2001 til fyrra horfs. Sóknaraðili hefði þá getað látið af störfum,  en það hafi hún ekki gert.

Varnaraðili vísar til 112. og 113. gr. gjaldþrotalaga, en styður málskostnaðarkröfu sína við 130. gr. eml.

Niðurstaða:

Sóknaraðili greindi dóminum frá því, að hún hefði ráðið sig til starfa hjá Genealogia Islandorum hf. sem verktaki og að hún hefði áður starfað þannig hjá Máli og Menningu. Sóknaraðila var frá upphafi ljóst, að hún myndi hvorki njóta orlofs­réttinda né launa í veikindaforföllum. Sóknaraðili stóð skattyfirvöldum skil á staðgreiðslu skatta og virðisaukaskatti sem verktaki og nýtti sér í einhverjum mæli heimild til að draga starfstengdan kostnað frá tekjum. Sóknaraðili varð launþegi um nokkurra mánaða skeið á haustdögum ársins 2000 til loka þess árs. Henni var sagt upp starfi sem launþegi með mánaðarfyrirvara að sögn vitnanna Birnu Barkardóttur og Hilmars Bergmanns en hóf störf sem verktaki hjá Genealogia Islandorum hf. í ársbyrjun síðastliðins árs, án þess að fyrir liggi að hún hafi gert nokkrar athugasemdir við þá breytingu á starfskjörum. Hún lýsti kröfu í bú varnaraðila að hluta til sem verktaki. Krafa hennar í þrotabúið til launa í marsmánuði árið 2001 nam 571.842 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómurinn lítur svo á, að sóknaraðila hafi ávallt verið ljóst, að vinnuveitandi hennar réði hana til starfa sem verktaka og leit á hana sem slíka, og að hún hafi sætt sig við það fyrirkomulag.

Þegar á allt það er litið, sem að framan er lýst, þykir verða að hafna kröfu sóknaraðila um að krafa hennar að fjárhæð 1.269.220 kr., sem lýst var í þrotabú varnaraðila með kröfulýsingu dagsettri 29. júní 2001, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 í þrotabú varnaraðila.

Rétt þykir að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Kristínar Gissurardóttur, um að krafa hennar að fjárhæð 1.269.220 kr., sem lýst var í þrotabú varnaraðila með kröfulýsingu dagsettri 29. júní 2001 verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 í þrotabú varnaraðila.

Málskostnaður fellur niður.