Hæstiréttur íslands

Mál nr. 173/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Aðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. júní 2001

Nr. 173/2001.

Sigfús Illugason

Hinrik Sigfússon

Jón Árni Sigfússon

Böðvar Jónsson

Þráinn Þórisson

Þórhildur Benediktsdóttir

Árni Halldórsson

Jón Aðalsteinsson

Haukur Aðalgeirsson

Finnbogi Stefánsson

Ásmundur J. Kristjánsson

Árni Gíslason

Eysteinn Sigurðsson

Stefán Axelsson

Stefán Þórarinsson

Guðmundur Jónsson

Ívar H. Stefánsson

Jón Þórisson

Snjólaug Pétursdóttir

Gylfi H. Yngvason

Hjörleifur Sigurðarson

Kári Þorgrímsson

Auður Ísfeldsdóttir

Ásmundur Geirsson

Freysteinn Jónsson

Álfdís Sigurgeirsdóttir

Ragnar Sigfinnsson

Kristín Sigurgeirsdóttir

Jóna Jónsdóttir

Héðinn Sverrisson

Ármann Pétursson

Elva Ásgeirsdóttir

María Þorsteinsdóttir

Jón Illugason

Sigurður Kristjánsson

Sólveig Illugadóttir

Sigurgeir Jónasson

Kristín Sigfúsdóttir

Birgitta Bóasdóttir

Þuríður Sigurðardóttir

Ásgerður Jónsdóttir

Kristín Þorláksdóttir

Þorgeir Pálsson

Droplaug Pálsdóttir

Helgi V. Helgason

Birgir Steingríms­son

Pétur V. Yngvason

Gunnar Bóasson

Ólafur Þröstur Stefánsson

Gísli Sverrisson

Jón Sigurðsson

Jón Þórarinsson

Unnur Pétursdóttir

Erlingur Sigurðarson og

Arnar A. Hauksson

(Sigurður Georgsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Aðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Sóknaraðilar voru ekki taldir hafa sýnt fram á að þau hefðu neina lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort tiltekinn gígur væri nefndur Hverfell eða Hverfjall á landabréfum Landmælinga Íslands og þótti ákvæði 3. mgr 2. gr laga nr. 35/1953 með áorðnum breytingum ekki verða skýrt svo að samkvæmt því gæti hver átt sök sem vildi í málum vegna slíkra nafnsetninga, enda væru í 2. mgr sömu greinar sérstaklega taldir upp þeir, sem málsaðild gætu átt varðandi úrskurði örnefnanefndar, en um málsaðild væri þar að öðru leyti vísað til stjórnsýslulaga. Var því ekki talið að í umræddum ákvæðum fælist frávik frá almennum reglum um nauðsyn lögvarinna hagsmuna stefnanda til að honum væri unnt að fá dóm um kröfu. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar úrlausnar. Þá krefjast þau þess að málskostnaðar í héraði verði felldur niður, en varnaraðili verði dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

Af gögnum málsins er ljóst að skiptar skoðanir um hvort hlíðbrattur gjóskugígur í landi jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi beri heitið Hverfell eða Hverfjall hafa lengi verið tilefni ágreinings um hvað gígurinn skuli nefndur á landabréfum, sem út eru gefin af Landmælingum Íslands. Leiddi þessi ágreiningur til þess að Landmælingar Íslands óskuðu 25. nóvember 1998 eftir úrskurði örnefnanefndar um hvort nafnanna bæri að nota á landabréfum stofnunarinnar. Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði ákvað örnefnanefnd með úrskurði 12. maí 1999 að setja skyldi örnefnið Hverfjall á ný á landakort, sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra. Þessum úrskurði skutu 43 menn með stjórnsýslukæru til menntamálaráðherra, sem kvað upp úrskurð 20. desember 1999. Var framangreindur úrskurður örnefnanefndar staðfestur með þeirri breytingu að jafnframt skyldi setja á landabréfin innan sviga örnefnið Hverfell ásamt örnefninu Hverfjall. Mál það, sem vísað var frá dómi með hinum kærða úrskurði, höfðuðu sóknaraðilar 6. nóvember 2000 og kröfðust þess að framangreindur úrskurður menntamálaráðuneytisins yrði felldur úr gildi. Þá var þess og krafist „að úrskurðarorðinu verði breytt á þann veg að einungis skuli setja örnefnið Hverfell á öll landakort sem gefin eru út af Landmælingum Íslands eða með leyfi þeirra.“

 

II.

Samkvæmt 2. mgr 2. gr laga nr. 35/1953 um bæjanöfn o.fl., eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 40/1998, úrskurðar örnefnanefnd um hvaða örnefni skuli sett á landabréf, sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirrar stofnunar, sé ágreiningur eða álitamál um það efni. Geta þar átt málsaðild Landmælingar Íslands, aðrir kortagerðarmenn, Örnefnastofnun Íslands, landeigendur, sveitarstjórnir og hlutaðeigandi ráðuneyti, en um hana fer að öðru leyti að hætti stjórnsýslulaga. Úrskurðum nefndarinnar er unnt að skjóta til ráðherra. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal í reglugerð, sem menntamálaráðherra setur, kveðið nánar á um starfsemi örnefnanefndar. Skulu þar meðal annars vera ákvæði um undirbúningsferli ákvarðana nefndarinnar um nafnsetningar á landabréf, þar á meðal um að örnefni, sem ágreiningur er um, skuli auglýst fyrir almenningi með hæfilegum fyrirvara þannig að hverjum, sem telur sig búa yfir vitneskju eða ábendingum, er að haldi geta komið, gefist færi á að kynna nefndinni álit sitt. Menntamálaráðherra hefur á grundvelli þessa ákvæðis sett reglugerð nr. 136/1999 um störf örnefnanefndar. Eru í 7. gr. hennar nánari fyrirmæli um úrskurði nefndarinnar um nafnsetningar á landakort og undirbúning þeirra.

Í kæru til Hæstaréttar skýra sóknaraðilar tilgang sinn með málsókninni og hagsmuni sína af niðurstöðu málsins svo að þau eigi öll ættir að rekja til Mývatnssveitar. Beri þau mikla umhyggju fyrir örlögum sveitarinnar, jafnt örnefnum sem öðrum menningarverðmætum. Sé sá einn tilgangur með málsókninni „að tryggja, að eitt merkasta náttúruvætti sveitarinnar fái að halda því nafni, sem öll rök benda til, að sé upprunalegast, varðveitt er í elstu rituðum heimildum og lifað hefur góðu lífi í sveitinni til þessa dags.“ Það er skilyrði þess að dómstólar leysi úr sakarefni að máli skipti fyrir stöðu stefnanda að lögum að fá dóm um það. Sóknaraðilar hafa ekki sýnt fram á að þau hafi neina lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort umræddur gígur er nefndur Hverfell eða Hverfjall á landabréfum Landmælinga Íslands. Með 3. mgr 2. gr laga nr. 35/1953 með áorðnum breytingum og reglugerð settri á grundvelli hennar er almenningi tryggður réttur til að koma á framfæri við stjórnvald, sem leysir úr málum sem þessum, vitneskju sinni og ábendingum um þau örnefni, sem um er að ræða. Tilvitnað ákvæði verður hins vegar ekki skýrt svo að samkvæmt því geti hver átt sök sem vill í málum vegna slíkra nafnsetninga, enda eru í 2. mgr sömu greinar sérstaklega taldir upp þeir, sem málsaðild geta átt varðandi úrskurði örnefnanefndar, en um málsaðild er þar að öðru leyti vísað til stjórnsýslulaga. Felst því ekki í umræddum ákvæðum frávik frá almennum reglum um nauðsyn lögvarinna hagsmuna stefnanda til að honum sé unnt að fá dóm um kröfu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2001.

I

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 6. nóvember 2000 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi um frávísunarkröfu stefnda 6. þ.m.

Stefnendur eru Sigfús Illugason, kt. 261148-7819, Háaleitisbraut 34, Reykjavík, Hinrik Sigfússon, kt. 261122-4649, Vogum 3, Skútustaðahreppi, Jón Árni Sigfússon, kt. 231029-2499, Víkurnesi, Skútustaðahreppi, Böðvar Jónsson, kt. 010725-4109, Gautlöndum, Skútustaða­hreppi, Þráinn Þórisson, kt. 020322-2099, Skútustöðum, Skútustaðahreppi, Þórhildur Benediktsdóttir, kt. 010522-4049, Grænavatni, Skútustaðahreppi, Árni Halldórsson, kt. 250234­-3769, Garði I, Skútustaðahreppi, Jón Aðalsteinsson, kt. 270326­-3969, Vindbelg, Skútustaðahreppi, Haukur Aðalgeirsson, kt. 130926­-4879, Grímsstöðum, Skútustaðahreppi, Finnbogi Stefánsson, kt. 201129-2819, Geirastöðum, Skútustaðahreppi, Ásmundur J. Kristjánsson, kt. 131238-2829, Heiðmörk, Skútustaðahreppi, Árni Gíslason, kt. 110524-3159, Laxárbakka, Skútustaðahreppi, Eysteinn Sigurðsson, kt. 061031-2199, Arnarvatni, Skútustaða­hreppi, Stefán Axelsson, kt. 280229-5069, Ytri-Neslöndum, Skútustaðahreppi, Stefán Þórarinsson, kt. 120127-4469, Borg, Skútustaðahreppi, Guðmundur Jónsson, kt. 311037-5829, Hofsstöðum, Skútustaðahreppi, Ívar H. Stefánsson, kt. 081027-­2939, Haganesi, Skútustaðahreppi, Jón Þórisson, kt. 180333­4019, Norðurgötu 46, Akureyri, Snjólaug Pétursdóttir, kt. 010358-7449, Hellulandi, Aðaldælahreppi, Gylfi H. Yngvason, kt. 180956-4339, Skútustöðum II, Skútustaðahreppi, Hjörleifur Sigurðarson, kt. 251057-2579, Grænavatni IV, Skútu­staða­hreppi, Kári Þorgrímsson, kt. 170659­-5979, Garði II, Skútustaðahreppi, Auður Ísfeldsdóttir, kt. 200315-­4059, Kálfaströnd II, Skútustaðahreppi, Ásmundur Geirsson, kt. 010332-2309, Miðholti 1, Hafnarfirði, Freysteinn Jónsson, kt. 170503-2019, Vagnbrekku, Skútustaðahreppi, Álfdís Sigurgeirsdóttir, kt. 151125-4179, Helluhrauni 6, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, Ragnar Sigfinnsson, kt. 251112-2319, Grímsstöðum, Skútustaðahreppi, Kristín Sigurgeirsdóttir, kt. 180130-2769, Ytri-Neslöndum, Skútustaða­hreppi, Jóna Jónsdóttir, kt. 311223-4969, Vogum III, Skútustaða­hreppi, Héðinn Sverrisson, kt. 200949-3319, Geiteyjarströnd, Skútustaða­hreppi, Ármann Pétursson, kt. 240524-2799, Reynihlíð, Skútustaðahreppi, Elva Ásgeirsdóttir, kt. 200278-3219, Helluhrauni 13, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, María Þorsteinsdóttir, kt. 291020-­2679, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, Jón Illugason, kt. 050638­-4729, Helluhrauni 15, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, Sigurður Kristjánsson, kt. 020741-3919, Stöng, Skútustaðahreppi, Sólveig Illugadóttir, kt. 210739-2389, Skútahrauni 14, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, Sigurgeir Jónasson, kt. 221046-4639, Helluvaði, Skútustaðahreppi, Kristín Sigfúsdóttir, kt. 061233-7769, Stuðlum, Mývatnssveit, Skútustaðahreppi, Birgitta Bóasdóttir, kt. 030373-­5299, Grenigrund 6, Kópavogi, Þuríður Sigurðardóttir, kt. 191219-2629, Kaplaskjólsvegi 53, Reykjavík, Ásgerður Jónsdóttir, kt. 290519-7569, Drápuhlíð 32, Reykjavík, Kristín Þorláksdóttir, kt. 080520-6389, Hávallagötu 33, Reykjavík, Þorgeir Pálsson, kt. 070918-3159, Espigerði 10, Reykjavík, Droplaug Pálsdóttir, kt. 201121-2569, Espigerði 10, Reykja­vík, Helgi V. Helgason, kt. 091224-5699, Grímsstöðum, Skútustaða­hreppi, Birgir Steingríms­son, kt. 230559-2799, Litlu-Strönd, Skútustaðahreppi, Pétur V. Yngvason, kt. 080452-2259, Skútahrauni 9, Reykjahlíð, Gunnar Bóasson, kt. 080256-4269, Túngötu 5, Húsavík, Ólafur Þröstur Stefánsson, kt. 010661-4989, Dalatanga 27, Mosfellsbæ, Gísli Sverrisson, kt. 180561-7069, Huldugili 5, Akureyri, Jón Sigurðsson, kt. 260923-4129, Höfðavegi 32, Húsavík, Jón Þórarinsson, kt. 280116­-3789, Fagraneskoti, Aðaldælahreppi, Unnur Pétursdóttir, kt. 031159-5399, Hrafnsstöðum, Ljósavatnshreppi, Erlingur Sigurðarson, kt. 260648-2179, Suðurbyggð 4, Akureyri, Arnar A. Hauksson, 170446-3489, Stiklum, Grímsstöðum, Skútustaða­hreppi.

Stefndi er íslenska ríkið og var Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra, kt. 141144-3409, Háuhlíð 14, Reykjavík stefnt fyrir  hönd þess.

Stefnendur krefjast þess að felldur verði úr gildi úrskurður stefnda dags. 20. desember 1999 en úrskurðarorðið er svohljóðandi:  “Úrskurður örnefnanefndar, dags. 12. maí 1999, um að setja skuli örnefnið Hverfjall á ný á landakort sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra er staðfestur, en við úrskurðarorðið bætist að jafnframt skuli setja innan sviga örnefnið Hverfell ásamt með örnefninu Hverfjall.”  Þess er krafist að úrskurðarorðinu verði breytt á þann veg að einungis skuli setja örnefnið Hverfell á öll landakort sem gefin eru út af Landmælingum Íslands eða með leyfi þeirra.  Stefnendur gera jafnframt kröfu um að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi þeirra.

Í þessum þætti málsins krefjast stefnendur þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og að þeim verði úrskurðaður málskostnaður en til vara að ákvörðun um málskostnað bíði dóms.

II

Í stefnu, undir fyrirsögninni “Málsástæður og önnur atvik”, segir að stefnendur telji að á síðustu árum sé farið að bera á því að verið sé að breyta ýmsum örnefnum í Skútustaðahreppi í Mývatnssveit frá upphaflegri mynd þeirra.  Stefnandinn Sigfús Illugason frá Bjargi, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, sem verið hafi í forsvari fyrir stefnendum í því skyni “að fá íslenska ríkið og þær stofnanir ríkisins sem fjalla um örnefni svo sem Örnefnanefnd sem starfar skv. lögum nr. 36/1999 og reglugerð nr. 136/1999 og Landmælingar Íslands sem starfa skv. lögum nr. 31/1985” segi svo í formála greinargerðar sinnar, sem lögð hafi verið fram í málinu á stjórnsýslustigi, um örnefnið Hverfell:  “Á níunda áratugnum, en þó sérstaklega á síðustu árum, hafa einkum rosknir Mývetningar haft orð á því við mig að nú í seinni tíð sé verið að breyta sumum örnefnum í Skútustaðahreppi.  Þetta eru nokkuð mörg örnefni, sem ýmist er verið að færa úr stað eða breyta hvað varðar orðmyndir.  Þá eru þess jafnvel dæmi að tekin séu upp ný örnefni í stað þeirra eldri.  Er þetta að mestu tilkomið vegna ókunnugleika og ónákvæmni utanaðkomandi manna, sem jafnvel hafa komið þessu á prent, þótt ekki sé hægt að kenna þeim um alltaf, því til eru bæði ungir og aldnir Mývetningar sem virðast vera hirðulausir um þann menningararf sem fólginn er í örnefnum.”

Undir fyrirsögninni “Lagarök” í stefnu segir að stefnendur bendi á að undirstöðurök leiði til þess að nota skuli þau örnefni í Íslandi sem elst séu og þess vegna upprunalegust.  Þessi regla sé lögfest í reglugerð um störf örnefnanefndar en þar segi í 4. mgr. 3. gr.:  “Örnefnanefnd skal í störfum sínum miða að varðveislu íslensks menningararfs og örnefnavernd og að því að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju.”

III

Af gögnum  málsins kemur fram að Hverfjall/Hverfell sé í landi jarðarinnar Voga, sem hefur síðan verið skipt upp í fleiri jarðir, í Skútustaðahreppi, Suður – Þingeyjarsýslu.

Með bréfi, dags. 25. nóvember 1998, óskuðu Landmælingar Íslands, með vísun í 2. gr. laga um bæjanöfn o. fl. nr. 35/1953, úrskurðar örnefnanefndar um það  hvort nafnanna, Hverfjall eða Hverfell, bæri að nota á kortum Landmælinga Íslands.  Í bréfinu segir að lengi hafi verið skiptar skoðanir, m.a. milli heimamanna í Mývatnssveit, um heitin Hverfjall og Hverfell, hvort þeirra væri réttara.  Í stuttu máli sé saga nafnanna á kortum Landmælinga Íslands eftirfarandi:  1.  Frá upphafi kortagerðar á þessari öld, fyrst á vegum Geodætisk Institut og síðar Landmælinga Íslands, fram til ársins 1987 hafi nafnið Hverfjall verið notað.  2.  Á árunum 1987 til 1992 hafi bæði nöfnin verið notuð á kortum Landmælinga Íslands þannig að Hverfjall komi á undan en Hverfell í sviga á eftir sem aukanafn.  3. Frá 1992 hafi Hverfell birst eitt og stakt á kortum Landmælinga Íslands.  Þá er skýrt frá tilmælum umhverfis­ráðuneytisins til Landmælinga Íslands í bréfum 12. ágúst 1996 og 14. janúar 1997 um að tekið verði aftur upp örnefnið “Hverfjall”.  Í bréfi  umhverfisráðuneytisins til Landmælinga Íslands frá 8. desember 1998 segir að ráðuneytið hafi ekki myndað sér skoðun á því hvort örnefnið sé rétthærra enda ekki verkefni þess.  Umfjöllun ráðuneytisins um málið á sínum tíma hafi eingöngu byggst á þeirri forsendu að innan stjórnkerfisins væru ekki fyrir hendi leiðir til þess að leiða málið til lykta og því að eigendur hafi viljað nota orðið “Hverfjall”.  Með breyttum lögum eigi þessar forsendur ekki lengur við og sé það hlutverk örnefnanefndar að kveða upp úrskurð í málinu. 

Í úrskurði örnefnanefndar 12. maí 1999 segir að um sé að ræða víðan og hlíðabrattan gjóskugíg, heimsþekktan.  Í jarðfræði nefnist gígtegundin hverfjall og sé kennd við örnefnið Hverfjall.  Í flestum ritum náttúrufræðinga um Mývatnssveit og jarðfræði hennar virðist jafnan notað örnefnið Hverfjall.  Augljóst sé að til séu tvær gamalgrónar málvenjur í Mývatsnssveit og nágrannabyggðum, þ.e. Hverfell og Hverfjall.  Á kortum Landmælinga Íslands hafi staðið Hverfjall frá upphafi og til ársins 1987 og einnig á eldri kortum allt frá korti Björns Gunnlaugssonar, Uppdráttr Íslands 1844.  Hafnað hafi verið ósk, sem fram hafi komið 1967, um að rita Hverfell á kortunum.  Á árunum 1987 – 1992 hafi bæði nöfnin verið notuð á kortum Landmælinga Íslands á þennan hátt:  Hverfjall (Hverfell).  Árið 1992 hafi verið farið að rita Hverfell eingöngu á kortum Landmælinga.  Eftirgrennslan hafi ekki leitt í ljós með óyggjandi hætti hvað hafi ráðið þessum breytingum (1987 og 1992) á rithætti á kortum Landmælinga Íslands né rökstuðning stofnunarinnar fyrir breytingunum á þeim tíma þegar þær hafi verið gerðar.  Hins vegar séu breytingarnar varðar í bréfum Landmælinga Íslands frá 5. febrúar og 3. júní 1996 með tilvísun í greinargerð frá 1995 þar sem fram komi að afleidda örnefnið Hverfellsnibba komi fyrir í lögfestu frá 1755 og ritað sé Hverfell í sóknarlýsingu sem samin sé sem svar við fyrirspurn frá 1839.  (Fyrra dæmið sé óbein heimild um Hverfell og hið síðara sé frá nánast sama tíma og kort Björns Gunnlaugssonar).  Segir í úrskurðinum að örnefnanefnd telji þetta vart réttlæta þær breytingar sem gerðar hafi verið.  Segir að lokum að við úrskurðinn vegi löng rithefð á kortum hlutfallslega þyngra en annað og úrskurðaði örnefnanefnd að setja skyldi örnefnið Hverfjall á ný á landakort sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra.  Í bréfi örnefnanefndar til menntamála­ráðuneytisins 21. október 1999 segir að þegar framangreind úrskurðarbeiðni hafi borist hafi ekki verið búið að setja reglugerð um starfsemi örnefnanefndar svo sem gert sé ráð fyrir í lögum um breyting á bæjanöfnum o.fl., nr. 35/1953 með síðari breytingum, sem samþykkt hafi verið á Alþingi 28. apríl 1998.  Nefndin hafi ekki talið rétt að fjalla um erindið fyrr en reglugerð lægi fyrir enda ráð fyrir því gert að reglugerðin kvæði á um slíka meðferð.  Reglugerð um störf örnefnanefndar hafi síðan verið staðfest 22. febrúar 1999 af menntamálaráðherra.

Í  upphafi úrskurðar, sem kveðinn var upp í menntamálaráðuneytinu 20. desember 1999 og hefur að geyma umstefnt úrskurðarorð, segir að ráðuneytinu hafi, þ. 6. ágúst s.á., borist stjórnsýslukæra undirrituð af 43 aðilum þar sem kærður sé úrskurður örnefnanefndar frá 12. maí s.á. um að setja skyldi  örnefnið Hverfjall á ný á landakort sem gefin væru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra.  Í upphafi stjórnsýslukærunnar segi að kærð sé sú ákvörðun örnefnanefndar að setja skuli á landakort örnefnið Hverfjall en ekki Hverfell á þekktum gíg í Skútu­staðahreppi.  Þótt það komi ekki skýrt fram í fyrirliggjandi kæru verði hún ekki skilin á annan veg en þann, sbr. niðurlag í athugasemdum og greinargerð Sigfúsar Illuga­sonar f.h. kærenda, dags. 24. nóvember 1999, að kærendur geri þá kröfu að úrskurði örnefnanefndar verði breytt á þann veg að setja skuli örnefnið Hverfell á landakort sem gefin séu út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra.  Í úrskurðinum kemur fram að Þorlákur Jónasson og Kristján Þórhallsson, landeigendur í Vogum, hafi í bréfum til ráðuneytisins vegna stjórnsýslukærunnar lagt áherslu á að það staðfesti úrskurð örnefnanefndar.

IV

Málsástæður og lagarök stefnda til stuðnings frávísunarkröfu eru sem hér verður greint.

Aðild málsins sé vanreifuð og eigi stefnendur almennt ekki lögvarða hagsmuni, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991, af úrlausn um kröfur sínar í dómsmáli.  Um sé að ræða hagsmuni allsherjarréttar eðlis um hvaða örnefni séu sett á kort sem ekki sé á valdi stefnenda að hnekkja og breyta með viðurkenningardómi.

Kröfugerð stefnenda sé ódómhæf með vísan til 24., 25. og 80. gr. laga nr. 91/1991.  Dómkrafan sé valkvæð þar sem hún ráði ekki til fullnaðarlykta ákveðnu sakarefni á einn veg eða annan og sé ekki svo ákveðin eða ljós að unnt væri að taka hana upp í dómsorð þar sem hún geri ráð fyrir að úrskurður verði felldur úr gildi en honum verði jafnframt breytt á tiltekinn veg.  Þá sé það ekki á valdi dómstóla að breyta úrskurði ráðherra svo sem krafist sé.

Af þeim 43 einstaklingum, sem kærðu úrskurð örnefnanefndar til ráðherra, séu 8 ekki á meðal stefnenda og 20 af 55 stefnendum málsins hafi ekki átt aðild að kærumálinu.  Verði einhverjir af stefnendum taldir eiga lögvarða hagsmuni og/eða aðild að málinu séu ekki uppfyllt skilyrði 18. eða 19. gr. laga nr. 91/1991.

Kröfur og málsástæður séu vanreifaðar og tæplega unnt að greina eiginlegar málsástæður í stefnu sem því sé andstæð d og e liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Stefndi telur að engar málsástæður eða rök hafi verið færð fyrir því hvað orðið gæti dómkröfum til stuðnings.  Stefnendur geri ekki ágreining  um málsmeðferð eða að úrskurður ráðherra sé byggður á ómálefnalegum eða ólögmætum  sjónarmiðum.  Þá sé það andstætt nefndum ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991 að hluti af álitsgerð eða skoðun eins stefnenda sé tekinn orðrétt upp í stefnu og sagt að hana sé að finna í heild meðal málsskjala enda teljist ekki til málsástæðna annað en það sem fram komi í stefnu á gagnorðan og skýran hátt.

V

Meðal verkefna Landmælinga Íslands segir í lögum nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð m.a. að séu útgáfa og endurnýjun korta af landinu í prentuðu og stafrænu formi.  Hliðstæð ákvæði voru í 5. gr. laga nr. 31/1985 um Landmælingar Íslands.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 35/1953  um bæjanöfn o. fl., sbr. 1. gr. laga nr. 40/1998, skipar menntamálaráðherra þriggja manna nefnd er nefnist örnefnanefnd.  Nefndin úrskurðar m.a. um hvaða örnefni verða sett á landabréf, sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirrar stofnunar, sé ágreiningur eða álitamál um það efni.  Málsaðild eiga Landmælingar Íslands, aðrir kortagerðarmenn, Örnefnastofnun Íslands, landeigendur, sveitarstjórnir og hlutaðeigandi ráðuneyti en um málsaðild fer að öðru leyti að hætti stjórnsýslulaga.  Úrskurðum nefndarinnar er hægt að skjóta til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.  Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 35/1953, sbr. 1. gr. laga nr. 40/1998, setti menntamálaráðherra þ. 22. febrúar 1999 reglugerð nr. 136/1999 um störf örnefnanefndar.

Með úrskurði menntamálaráðuneytisins 20. desember 1999 var sem fyrr greinir komið til móts við óskir þeirra (43 einstaklinga og þar af 35 af 55 stefnendum málsins) sem kært höfðu úrskurð örnefnanefndar frá 12. maí 1999 að því leyti að við úrskurðarorð nefndarinnar um að setja skyldi örnefnið Hverfjall á ný á landakort, sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra, skyldi bætast að jafnframt skyldi setja innan sviga  örnefnið Hverfell.

Kröfugerð stefnenda er ekki reist á málsástæðum sem varða ætlað ólögmæti framangreinds úrskurðar eða að málsmeðferð hafi verið áfátt. 

Krafa stefnenda um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi en honum jafnframt breytt er of óljós og mótsagnakenndur til að um hana verði dæmt, sbr. 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 80. gr., d-lið, laga nr. 91/1991

Í málinu ræðir um ákvörðun þess hvaða örnefni sé sett á landakort.  Sú ákvörðun er allsherjarréttar eðlis og hafa stefnendur ekki lögvarða hagsmuni, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, af úrlausn kröfu þeirra í dómsmáli.

Þegar af þessum ástæðum ber að vísa málinu frá dómi.  Stefnendum verður gert að greiða óskipt stefnda 100.000 krónur í málskostnað.

Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnendur, Sigfús Illugason, Hinrik Sigfússon, Jón Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Þráinn Þórisson, Þórhildur Benediktsdóttir, Árni Halldórsson, Jón Aðal­steins­son, Haukur Aðalgeirsson, Finnbogi Stefánsson, Ásmundur J. Kristjánsson, Árni Gíslason, Eysteinn Sigurðsson, Stefán Axelsson, Stefán Þórarinsson, Guðmundur Jónsson, Ívar H. Stefánsson, Jón Þórisson, Snjólaug Pétursdóttir, Gylfi H. Yngvason, Hjörleifur Sigurðarson, Kári Þorgrímsson, Auður Ísfeldsdóttir, Ásmundur Geirsson, Freysteinn Jónsson, Álfdís Sigurgeirsdóttir, Ragnar Sigfinnsson, Kristín Sigur­geirsdóttir, Jóna Jónsdóttir, Héðinn Sverrisson, Ármann Pétursson, Elva Ásgeirsdóttir, María Þorsteinsdóttir, Jón Illugason, Sigurður Kristjánsson, Sólveig Illugadóttir, Sigurgeir Jónasson, Kristín Sigfúsdóttir, Birgitta Bóasdóttir, Þuríður Sigurðardóttir, Ásgerður Jónsdóttir, Kristín Þorláksdóttir, Þorgeir Pálsson, Droplaug Pálsdóttir, Helgi V. Helgason, Birgir Steingrímsson, Pétur V. Yngvason, Gunnar Bóasson, Ólafur Þröstur Stefánsson, Gísli Sverrisson, Jón Sigurðsson, Jón Þórarinsson, Unnur Pétursdóttir, Erlingur Sigurðarson og Arnar A. Hauksson, greiði óskipt stefnda, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í málskostnað.