Hæstiréttur íslands

Mál nr. 325/2017

Þrotabú Karls Emils Wernerssonar (Ólafur Eiríksson lögmaður) og þrotabú Steingríms Wernerssonar (Helgi Birgisson lögmaður)
gegn
þrotabúi Milestone ehf. (Áslaug Árnadóttir lögmaður) og þrotabú Milestone ehf. gegn þrotabúi Karls Emils Wernerssonar þrotabúi Steingríms Wernerssonar og Ingunni Gyðu Wernersdóttur (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Einkahlutafélag
  • Framlagning skjals
  • Stefna
  • Málsástæða
  • Réttaráhrif dóms

Reifun

Þrotabú M ehf. krafði K, S, G og I um greiðslu á 5.195.721.859 krónur vegna greiðslna M ehf. til I á árunum 2006 og 2007. Í héraði var K, S og G gert að greiða þrotabúinu þá fjárhæð óskipt en I var sýknuð af kröfunni. G áfrýjaði ekki málinu af sinni hálfu. Var fjárkrafa þrotabús M ehf. reist á tveimur málsástæðum. Önnur þeirra laut að því að I hefði þegið lán frá M ehf. sem brotið hefði í bága við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og bæri I því að endurgreiða þrotabúi M ehf. lánið með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar. Hin málsástæða þrotabús M ehf. var að K, S, G og I bæru skaðabótaábyrgð gagnvart sér á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og 108. gr. laga nr. 138/1994. Í dómi Hæstaréttar var með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að K og S hefðu borið á grundvelli þeirrar lagagreinar skaðabótaábyrgð á tjóni M ehf. vegna tjóns félagsins þegar því var gert að fjármagna kaup K og S á hlutafé í félaginu og tveimur öðrum félögum af I án þess að gætt væri nægilega að hagsmunum M ehf. Þá var vísað til þess að þrotabú M ehf. væri bundið af málatilbúnaði sínum í stefnu og yrði því við úrlausn málsins ekki horft til þeirrar síðbúnu málsástæðu að K og S skyldu endurgreiða hluta fjárins með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Einnig kom fram að ekki yrði annað ráðið en að fjárhagsstaða félaganna þriggja hefði verið traust meðan I sat í stjórn M ehf. framan af árinu 2006 og söluverð á hlutum hennar í félögunum verið eðlilegt þegar um það hefði verið samið á sínum tíma enda hefði þrotabú M ehf. ekki leitast við að sanna hið gagnstæða. Með vísan til þess og forsendna héraðsdóms var talið að þrotabú M ehf. hefði ekki fært sönnur á að I bæri skaðabótaábyrgð á tjóni M ehf. vegna viðskiptanna og var I því sýknuð af kröfu þrotabúsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Karl Emil Wernersson skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2017, en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 16. apríl 2018. Hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu sem aðaláfrýjandi og krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, þrotabús Milestone ehf., og málskostnaðar úr hendi hans í héraði og fyrir Hæstarétti.

Steingrímur Wernersson skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2017, en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 1. nóvember sama ár. Hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu sem aðaláfrýjandi og krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst aðaláfrýjandinn málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 7. júní og 31. júlí 2017. Hann krefst þess að aðaláfrýjendum og gagnstefndu, Ingunni Gyðu Wernersdóttur, verði gert að greiða sér óskipt 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar greindum fjárhæðum frá 6. janúar 2009 til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar úr hendi gagnstefndu í héraði og að henni og aðaláfrýjendum verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gagnstefnda krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að því er sig varðar og gagnáfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

I

Fyrir Hæstarétti heldur aðaláfrýjandinn þrotabú Karls Emils Wernerssonar því fram að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm sökum þess að héraðsdómari hafi ekki farið að lögum þegar hann ákvað í þinghaldi 8. mars 2017 eftir að málið hafði verið dómtekið að gefa gagnáfrýjanda kost á að leggja fram í því eftirrit af dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015, en í þinghaldi 17. nóvember 2016 hafi Karli verið synjað um að leggja fram gögn í málinu af sinni hálfu þar sem gagnaöflun hafi verið lýst lokið. Það að synja Karli sem málsaðila um að leggja fram gögn, en heimila síðan gagnaðila hans að gera það „að frumkvæði dómara, mörgum mánuðum síðar“ fái ekki samrýmst réttlátri málsmeðferð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Mál þetta var höfðað með birtingu héraðsdómsstefnu 8., 9. og 12. nóvember 2010 og þingfest 13. janúar 2011. Eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi var málinu frestað í þinghaldi 22. september 2014 uns dómur félli í sakamáli sem höfðað hafði verið gegn Karli, Steingrími Wernerssyni, Guðmundi Ólasyni og þremur öðrum. Í málinu voru Karl, Steingrímur og Guðmundur auk annars bornir sökum um umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í störfum sínum hjá Milestone ehf. misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu þegar þeir hefðu látið það fjármagna efndir á samningum sem þeir tveir fyrstnefndu höfðu gert við gagnstefndu 4. desember 2005 um sölu hennar á hlutafé í Milestone ehf. og tveimur öðrum félögum. Endanlegur dómur í málinu var sem fyrr segir kveðinn upp í Hæstarétti 28. apríl 2016 þar sem Karl og Guðmundur voru meðal annars sakfelldir og dæmdir til refsingar fyrir umboðssvik og Steingrímur fyrir hlutdeild í því broti vegna þeirrar háttsemi sem að framan er lýst og mál þetta er sprottið af. Sökum þess að umræddur dómur hefur samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, fullt sönnunargildi um þau málsatvik, sem í honum greinir, þar til það gagnstæða er sannað og þar sem aðila máls þessa greinir á um sum þeirra, þar á meðal hvers eðlis greiðslurnar frá Milestone ehf. til gagnstefndu voru, var héraðsdómara rétt að hlutast til um að eftirrit af dóminum yrði lagt fram í málinu, sbr. 2. mgr. 46. gr. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Úr því að það var ekki gert áður en málið var dómtekið var eðlilegt að dómari neytti heimildar 104. gr. laganna og beindi því til gagnáfrýjanda sem stefnanda í héraði að leggja eftirritið fram áður en dómur yrði lagður á málið.

Í þinghaldi 31. ágúst 2016, þegar meira en fimm og hálft ár var liðið frá þingfestingu málsins, var því lýst yfir af hálfu allra aðila þess að öflun sýnilegra sönnunargagna væri lokið. Í næsta þinghaldi, 17. nóvember sama ár, óskaði Karl eftir því að fá að leggja fram af sinni hendi þrjú ný skjöl, en því mótmælti gagnáfrýjandi, meðal annars með vísan til þess að þau fælu í sér nýjar málsástæður. Í kjölfarið ákvað héraðsdómari að skjölin yrðu ekki lögð fram í málinu þar sem gagnaöflun hefði verið lýst lokið, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Eftir þeirri málsgrein er aðilum að jafnaði óheimilt að leggja fram skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn þegar þeir hafa lýst gagnaöflun lokið, en frá því getur dómari þó vikið, svo sem ef það veldur ekki töfum á máli eða ekki hefur áður verið unnt að afla tiltekinna gagna. Með skírskotun til þessa var dómara rétt að synja um framlagningu umræddra skjala, enda hafði þá þegar gefist nægur tími til að afla þeirra og leggja þau fram auk þess sem hætta var á að með því drægist meðferð málsins enn frekar á langinn. Þótt skjölin hafi samkvæmt þessu ekki verið meðal málsgagna í héraði hafa þau verið lögð fram við meðferð málsins hér fyrir dómi.

Að teknu tilliti til alls þess, sem rakið hefur verið, standa engin rök til að ómerkja héraðsdóm af þeim ástæðum sem að framan greinir.

II

Með hinum áfrýjaða dómi voru Karl Emil Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda óskipt 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 13. febrúar 2011 til greiðsludags, en gagnstefnda sýknuð af kröfu gagnáfrýjanda. Guðmundur hefur ekki áfrýjað málinu af sinni hálfu og unir því dóminum en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 14. september 2017.

1

Fjárkrafa gagnáfrýjanda var reist á þremur meginmálsástæðum í héraðsdómsstefnu, en fallið var frá einni þeirra undir rekstri málsins í héraði. Önnur  málsástæðan, sem eftir stóð, laut að því að gagnstefnda hefði þegið lán frá Milestone ehf., sem brotið hefði í bága við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og bæri henni að endurgreiða gagnáfrýjanda lánið með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. þeirrar lagagreinar. Í umfjöllun um málsástæðuna í stefnu var tekið fram að „hafi greiðslurnar verið hluti af uppgjöri kaupsamninga um hluti í Milestone ehf. og fleiri félögum“ á milli gagnstefndu annars vegar og Karls og Steingríms hins vegar hafi greiðslurnar verið „jafnólögmætar“ þar sem „þá var Milestone ehf. ... látið fjármagna kaup á hlutum í sjálfu sér og móðurfélagi sínu“ sem væri ólögmætt eftir 2. mgr. sömu lagagreinar. Í lok umfjöllunarinnar sagði að endurgreiðslukrafan á hendur gagnstefndu ætti stoð í 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, en samkvæmt 5. mgr. hennar bæru Karl, Steingrímur og Guðmundur einnig ábyrgð á endurgreiðslunni gagnvart gagnáfrýjanda.

Hin málsástæðan, sem gagnáfrýjandi byggði á, var að öll stefndu í héraði bæru skaðabótaábyrgð gagnvart sér á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni, og 108. gr. laga nr. 138/1994. Í umfjöllun um þá málsástæðu í héraðsdómsstefnunni kom meðal annars fram að hafi greiðslur Milestone ehf. til gagnstefndu „í raun verið greiðsla til hennar vegna kaupa“ Karls og Steingríms á hlutum hennar í félaginu og fleiri félögum væri „háttsemin augljóslega skaðabótaskyld og jafnvel refsiverð.“ Hafi þeim tveimur verið „óheimilt að láta Milestone ehf. greiða fyrir hluti í sjálfu sér“. Til stuðnings því að háttsemin væri skaðabótaskyld var auk annars vísað til 2. mgr. 43. gr., 48. gr. og 2. mgr. 51. gr. laga nr. 138/1994. Bæri stefndu í héraði að greiða gagnáfrýjanda skaðabætur, sem svöruðu til endurgreiðslu alls þess er gagnstefndu hefði verið greitt á árunum 2006 og 2007, í samræmi við 4. og 5. mgr. 79. gr. laganna.

Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má málsástæður, sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Í héraðsdómsstefnu í máli þessu var hvorki tekið fram berum orðum að Milestone ehf. hefði lánað Karli og Steingrími kaupverð hlutafjárins í félaginu né kom það nægilega skýrt fram að þeim væri skylt að endurgreiða gagnáfrýjanda hluta þess fjár, sem félagið hafði innt af hendi til gagnstefndu, á grundvelli 4. mgr., sbr. 1. eða 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, heldur sagði einungis að þeim bæri að greiða honum skaðabætur sem svöruðu til endurgreiðslu á öllu því fé. Þar sem gagnáfrýjandi er bundinn af málatilbúnaði sínum í stefnu verður ekki við úrlausn málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, horft til þeirrar síðbúnu málsástæðu hans, gegn mótmælum aðaláfrýjandans þrotabús Karls Emils Wernerssonar, að aðaláfrýjendur, sem komið hafa í stað Karls og Steingríms, skuli endurgreiða hluta fjárins með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að Karl og Steingrímur hafi borið á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 skaðabótaábyrgð á því tjóni Milestone ehf. sem hlaust af því að félaginu var gert að fjármagna kaup þeirra á hlutafé í því og tveimur öðrum félögum, Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd., án þess að gætt væri nægilega að hagsmunum fyrstnefnda félagsins. Sú háttsemi var jafnframt refsiverð eins og slegið er föstu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2015 þar sem Karl og Steingrímur voru meðal annars sakfelldir fyrir þær sakargiftir, sem vísað er til í kafla I hér að framan, þannig að ákvæði 1. mgr. 110. gr. laga nr. 138/1994, sem afnumin voru með 28. gr. laga nr. 68/2010, standa því ekki í vegi að þeir verði dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda skaðabætur.

2

Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi voru 4. desember 2005 gerðir samningar milli Karls og Steingríms annars vegar og gagnstefndu hins vegar um sölu á hlutafé hennar í Milestone ehf., Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. Í einum samninganna, sem laut að sölu gagnstefndu á 10,306% hlut í Milestone ehf., var kveðið á um að hún hyrfi úr stjórn félagsins í byrjun janúar 2006 og bæri viðsemjendum hennar að tilkynna það til hlutafélagaskrár. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2015 er greint frá aðalfundi Milestone ehf. sem haldinn var 31. mars 2006. Þar var lagt til að samþykktum félagsins yrði breytt þannig að stjórnarmenn yrðu tveir í stað þriggja. Ekkert sagði í fundargerð um hvort tillagan hefði verið samþykkt, en í kjölfarið voru þó kjörnir tveir stjórnarmenn, Karl og Steingrímur. Tilkynning þessa efnis var þó fyrst send fyrirtækjaskrá 15. október sama ár.

Svo sem greinir í héraðsdómi, gerðu samningarnir 4. desember 2005 ráð fyrir að Milestone ehf. gæti orðið kaupandi að hlutafénu án atbeina gagnstefndu. Meðal annars af þeirri ástæðu gátu verið eðlilegar skýringar á því, frá sjónarhóli hennar séð, að félagið innti af hendi greiðslur samkvæmt samningunum til hennar. 

Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar er þess getið að samkvæmt ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2005 hafi eigið fé félagsins numið í lok þess árs 25.871.817.000 krónum. Þá var eigið fé Milestone Import Export Ltd. sagt vera 8.730.218.000 krónur í drögum að efnahagsreikningi félagsins 31. desember 2005 og á sama tíma nam eigið fé Leiftra Ltd. 41.190.000 evrum eftir því sem fram kom í óendurskoðuðum ársreikningi þess félags fyrir árið 2005. Af þessu verður ekki annað ráðið en að fjárhagsstaða félaganna þriggja hafi verið traust meðan gagnstefnda sat í stjórn Milestone ehf. og söluverð á hlutum hennar í félögunum eðlilegt þegar um það var samið á sínum tíma, enda hefur gagnáfrýjandi ekki leitast við að sanna hið gagnstæða.

Að þessu virtu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms hefur gagnáfrýjanda ekki tekist að færa sönnur á að gagnstefnda beri skaðabótaábyrgð á tjóni Milestone ehf. vegna þeirra viðskipta sem hér um ræðir.

3

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að aðaláfrýjendur, sem koma í stað Karls og Steingríms, skuli greiða gagnáfrýjanda stefnufjárhæð málsins. Þar sem einvörðungu er um að ræða skaðabætur verður ekki hróflað við þeirri niðurstöðu að greiða beri dráttarvexti af fjárhæðinni frá 13. febrúar 2011.

Samkvæmt öllu framansögðu verður héraðsdómur staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Eftir málsúrslitum verða aðaláfrýjendur dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, en honum gert að greiða gagnstefndu málskostnað hér fyrir dómi, svo sem nánar segir í dómsorði. 

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, þrotabú Karls Emils Wernerssonar og þrotabú Steingríms Wernerssonar, greiði gagnáfrýjanda, þrotabúi Milestone ehf., óskipt ásamt þrotabúi Guðmundar Ólasonar 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms skulu að öðru leyti vera óröskuð.

Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi greiði gagnstefndu, Ingunni Gyðu Wernersdóttur, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2017

I

         Mál þetta, sem var dómtekið 13. janúar sl. og að nýju í dag á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er höfðað af þrotabúi Milestone ehf., Borgartúni 26 í Reykjavík, 8. janúar 2011 á hendur Karli Emil Wernerssyni, Blikanesi 9 í Garðabæ, en áður að Efri-Rauðalæk í Rangárþingi, og sama dag á hendur Guðmundi Ólasyni, Asparhvarfi 20 í Kópavogi, 9. janúar 2011 á hendur Steingrími Wernerssyni, Bretlandi, og 13. janúar 2011 á hendur Ingunni Gyðu Wernersdóttur, Huldubraut 44 í Kópavogi, en áður að Bjarmalandi 7 í Reykjavík.

         Endanleg kröfugerð stefnanda er að stefndu greiði þrotabúinu óskipt 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 155.898.731 krónu frá 6. janúar 2006 til 9. febrúar 2006, af 312.298.543 krónum frá þeim degi til 3. mars 2006, af 468.573.085 krónum frá þeim degi til 5. apríl 2006, af 626.601.409 krónum frá þeim degi til 5. maí 2006, af 786.446.150 krónum frá þeim degi til 6. júní 2006, af 948.608.390 krónum frá þeim degi til 5. júlí 2007, af 1.243.156.095 krónum frá þeim degi til 11. ágúst 2006, af 1.539.053.388 krónum frá þeim degi til 5. september 2006, af 1.685.962.873 krónum frá þeim degi til 3. október 2006, af 1.834.671.809 krónum frá þeim degi til 6. nóvember 2006, af 1.984.055.539 krónum frá þeim degi til 1. desember 2006, af 2.584.055.539 krónum frá þeim degi til frá 6. desember 2006, af 2.733.326.804 krónum frá þeim degi til 8. janúar 2007, af 3.032.710.534 krónum frá þeim degi til 6. febrúar 2007, af 3.332.881.524 krónum frá þeim degi til 6. mars 2007, af 3.634.289.637 krónum frá þeim degi til 10. apríl 2007, af 3.934.685.559 krónum frá þeim degi til 4. maí 2007, af 4.236.880.932 krónum frá þeim degi til 6. júní 2007, af 4.371.921.932 krónum frá þeim degi til 3. júlí 2007, af 4.507.660.560 krónum frá þeim degi til 3. ágúst 2007, af 4.643.698.172 krónum frá þeim degi til 6. september 2007, af 4.779.785.615 krónum frá þeim degi til 3. október 2007, af 4.917.666.960 krónum frá þeim degi til 5. nóvember 2007, af 5.056.245.934 krónum frá þeim degi til 6. desember 2007 en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

         Af hálfu stefndu Ingunnar er aðallega krafist sýknu en til vara að krafa stefnanda verði felld niður eða lækkuð verulega. Þá krefst stefnda Ingunn málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

         Stefndi Karl gerir aðallega þá kröfu að hann verði sýknaður en til vara að dómkröfur stefnanda verið lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

         Af hálfu stefnda Steingríms er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður en til vara að kröfur á hendur honum verði felldar niður eða lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

         Stefndi Guðmundur krefst aðallega sýknu en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, auk málskostnaðar.

         Í öndverðu kröfðust allir stefndu að málinu yrði vísað frá dómi. Í fyrirtöku 20. desember 2011 féllu allir stefndu frá frávísunarkröfum sínum nema stefnda Ingunn. Hinn 7. febrúar 2012 var frávísunarkröfu hennar hafnað. Af hálfu stefndu var á ný krafist frávísunar málsins í kjölfar þess að óskað var dómkvaðningar matsmanna til að meta ógjaldfærni Milestone ehf. Með úrskurði 5. júní 2012 var þessari kröfu hafnað. Í þinghaldi 26. október 2012 voru matsmenn dómkvaddir til þess að framkvæma umbeðið mat. Matsgerð var lögð fram í málinu 23. maí 2014. Í þinghaldi 22. september 2014 var málinu frestað uns dómur félli í máli nr. E-116/2011. Í því máli voru riftunarkröfur stefnanda á hendur stefnda Karli til umfjöllunar þar sem sama matsgerð hafði verið lögð fram. Dómur héraðsdóms í því máli féll 5. júní 2015. Honum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og féll dómur réttarins 28. apríl 2016. Í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands var mál þetta tekið fyrir 26. maí 2016 þar sem málinu var frestað til sáttaumleitana. Í þinghaldi 23. júní sama ár voru lögð fram frekari gögn. Að því loknu vék þáverandi dómari í málinu sæti með úrskurði. Undirritaður dómari tók við málinu í kjölfarið.

II

         Milestone ehf. var stofnað í mars 1988. Félagið hét áður öðru nafni en árið 2004 var heiti þess breytt þegar það sameinaðist Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og einkahlutafélaginu Ísrann. Umsvif Milestone ehf. jukust mikið á árunum 2005 til 2008. Í upphafi þess tíma voru stefndu, systkinin Ingunn, Karl og Steingrímur Wernersbörn, eigendur allra hluta í Milestone ehf., með beinum og óbeinum hætti, og sátu í stjórn þess. Síðar áttu eftir að verða breytingar á eignarhaldi félagsins og setu systkinanna í stjórn þess þegar stefnda Ingunn vék úr henni og hvarf úr eigendahópi félagsins.

         Í desember 2004 var stefndi Guðmundur ráðinn framkvæmdastjóri Milestone ehf. Ráðning hans í það starf var samþykkt á aðalfundi félagsins 20. maí 2005. Nýr ráðningarsamningur var gerður við stefnda Guðmund 1. september 2006 þar sem starfsheiti hans var breytt í forstjóra.

         Eignir Milestone ehf. rýrnuðu verulega í kjölfar hrunsins haustið 2008. Fór svo að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2009. Frestdagur var 22. júní 2009. Af hálfu skiptastjóra þrotabúsins fór fram rannsókn á bókhaldi og rekstri Milestone ehf. síðustu tvö árin fyrir frestdag. Annaðist endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young rannsóknina. Í stefnu greinir svo frá að í henni hafi komið í ljós að verulegar fjárhæðir hefðu verið greiddar út af reikningi Milestone ehf. til stefndu Ingunnar með fjölda greiðslna á árunum 2006 og 2007. Ágreiningslaust er að þessar greiðslur voru inntar af hendi eins og þeim er lýst í svohljóðandi töflu í stefnu:

Dags.

Fskj.

Skýring í bókhaldi

Fjárhæð

Uppsöfnuð staða

6.1.2006

6005

Ingunn Wernersd.

155.898.731

155.898.731

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

9.2.2006

6040

Ingunn Wernersd.

156.399.812

312.298.543

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

3.3.2006

6162

Ingunn Wernersd.

156.274.542

468.573.085

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

5.4.2006

6281

Ingunn Wernersd.

158.028.324

626.601.409

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

5.5.2006

6358

IW

159.844.741

786.446.150

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

6.6.2006

6518

IW

162.162.240

948.608.390

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

5.7.2006

6663

IW

294.547.705

1.243.156.095

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

11.8.2006

6767

IW

295.897.293

1.539.053.388

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

5.9.2006

6890

IW

146.909.485

1.685.962.873

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

3.10.2006

7042

IW

148.708.936

1.834.671.809

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

6.11.2006

7173

IW

149.383.730

1.984.055.539

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

1.12.2006

7488

IW

600.000.000

2.584.055.539

Fært á móti sem skammtímalán Milestone við Sjóvá, Taka lán hjá Sjóvá til að greiða IW

6.12.2006

7280

IW

149.271.265

2.733.326.804

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

31.12.2006

7536

IW

-2.733.326.804

0

Flutt á Milestone Ltd.

8.1.2007

7661

IW

299.383.730

299.383.730

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

6.2.2007

7823

IW

300.170.990

599.554.720

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

6.3.2007

7911

IW

301.408.113

900.962.833

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

10.4.2007

8183

IW

90.395.922

991.358.755

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

10.4.2007

8184

IW

50.000.000

1.041.358.755

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

10.4.2007

8185

IW

160.000.000

1.201.358.755

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

4.5.2007

8168

IW

302.195.373

1.503.554.128

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

6.6.2007

8648

IW

135.041.000

1.638.595.128

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

3.7.2007

8851

IW

135.738.628

1.774.333.756

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

3.8.2007

9193

IW

136.037.612

1.910.371.368

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

6.9.2007

9236

IW

136.087.443

2.046.458.811

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

3.10.2007

9468

IW

137.881.345

2.184.340.156

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

5.11.2007

9677

IW

138.578.974

2.322.919.130

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

6.12.2007

9908

IW

139.475.925

2.462.395.055

Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb

31.12.2007

10194

IW

-2.462.395.055

0

Flutt á Milestone Ltd.

 

         Í stefnu er aðallega út frá því gengið að greiðslurnar hafi verið lán til stefndu Ingunnar. Hafi uppsöfnuð skuld hennar í lok árs 2006 verið aflétt með færslu í bókhaldi félagsins með því að krafa sömu fjárhæðar var mynduð í bókhaldinu á félagið Milestone Import Export Ltd. Nam sú fjárhæð 2.733.326.804 krónum í árslok 2006. Sama hafi verið gert í árslok 2007, en þá kveður stefnandi að skuld stefndu Ingunnar hafi numið 2.462.395.055 krónum. Samtals hafi umræddar greiðslur numið 5.195.721.859 krónum sem aflétt hafi verið af stefndu Ingunni með framangreindum hætti.

         Þó að stefnandi hafi aðallega gengið út frá því í stefnu að fjárgreiðslurnar fælu í sér lán til stefndu Ingunnar er þar jafnframt tekið fram að svo virtist sem greiðslurnar gætu mögulega verið liður í kaupum stefndu Karls og Steingríms á hlutum stefndu Ingunnar í Mileston ehf. og tengdum félögum. Í þessu sambandi lagði stefnandi fram fjóra samninga frá 4. desember 2005 milli stefndu Ingunnar sem sölurétthafa og stefndu Karls og Steingríms, sem sameiginlega voru nefndir kaupréttarhafi. Í þessum samningum lýstu samningsaðilar því yfir að á tilgreindum tímabilum gætu bæði sölurétthafi og kaupréttarhafi krafist þess að kaupréttarhafi keypti og sölurétthafi seldi ákveðið hlutfall af hlutabréfum í Milestone ehf., Milestone Ltd. og Leiftra Ltd. Í samningunum voru nánari fyrirmæli um tilkynningu um einstök viðskipti, kaupverð og greiðslu þess. Sérstaklega var tekið fram að kaupréttarhafi gæti tilgreint aðra aðila sem kaupendur, þ.m.t. Milestone ehf., Leiftra Ltd. eða önnur félög sem kaupréttarhafi kynni að eiga eða stofna.

         Með bréfi 30. september 2010 krafði stefnandi stefndu Ingunni um endurgreiðslu á fjármunum þeim sem stefnandi taldi að hún hefði fengið að láni hjá Milestone ehf., samtals að fjárhæð 5.195.721.859 krónur. Jafnframt lýsti stefnandi yfir riftun á þeirri gjöf sem fólst í eftirgjöf Milestone ehf. á kröfu á hendur stefndu 31. desember 2007. Í bréfinu segir einnig að hafi greiðslurnar verið vegna kaupa stefndu Karls og Steingríms á hlutum í Milestone ehf., og raunverulegur viðsemjandi stefndu Ingunnar hafi þá ekki verið Milestone ehf., hafi henni verið óheimilt að taka við greiðslum frá félaginu. Yrði niðurstaðan sú sama, þ.e. að greiðslur Milestone ehf. án gagngjalds væru lán félagsins til stefndu Ingunnar.

         Með tölvuskeyti lögmanns stefndu Ingunnar 7. október 2010 var því mótmælt að stefnda væri í skuld við stefnanda. Mál þetta var síðan höfðað í byrjun árs 2011 þar sem í fyrsta lagi var gerð krafa um að rift yrði gjöf Milestone ehf. til stefndu Ingunnar 31. desember 2007 að fjárhæð 2.462.395.055 krónur og að stefndu yrði gert að greiða stefnanda óskipt 5.195.721.859 krónur.

         Eins og mál þetta horfir við er rétt að víkja nokkrum orðum að atvikum eftir að málið var höfðað. Málatilbúnaður stefnanda í stefnu var á þá leið að eftirgjöf kröfu Milestone ehf. á hendur stefndu Ingunni 31. desember 2007 hefði verið gjafagerningur sem væri riftanlegur á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig var á því byggt að ráðstöfun þessi væri riftanleg á grundvelli 141. gr. sömu laga. Fjárkrafa stefnanda á hendur stefndu var í fyrsta lagi reist á því að stefnda Ingunn bæri samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 að endurgreiða auðgun sína vegna hinnar riftanlegu ráðstöfunar. Í öðru lagi var á því byggt  að stefnda Ingunn hefði fengið ólöglegt lán frá Milestone ehf. sem henni bæri að endurgreiða samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Telur stefnandi að aðrir stefndu beri einnig ábyrgð á endurgreiðslu þessa láns. Í þriðja lagi hefur stefnandi byggt á því að stefndu beri öll skaðabótaábyrgð á því tjóni sem Milestone ehf. hafi orðið fyrir vegna þessara ráðstafana.

         Eftir dóm Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016  í málinu nr. 578/2015 féll stefnandi frá kröfu um riftun á eftirgjöf skuldar á grundvelli laga nr. 21/1991 og endurgreiðslukröfu á hendur stefndu Ingunni á grunni sömu laga. Áfram var hins vegar á því byggt af hálfu stefnanda að lánveiting til stefndu Ingunnar hafi verið ólögmæt samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994 og að endurgreiðsluskylda hvíli á stefndu af þeim sökum. Jafnframt segir í bókun stefnanda, sem lögð var fram í þinghaldi 17. nóvember sl., að á því sé byggt að greiðslur félagsins til stefndu Ingunnar, sem hluti af uppgjöri kaupsamninga um hluti í Milestone ehf. og fleiri félögum milli stefndu Ingunnar og stefndu Karls og Steingríms, hafi farið í bága við 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Af þeim sökum hvíli endurgreiðsluskylda á stefndu. Að lokum kemur þar fram að á því sé byggt að stefndu beri að greiða stefnanda skaðabætur vegna þeirra gerninga sem málið lýtur að á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

         Sérstakur saksóknari gaf út ákæru 5. júlí 2013 meðal annars á hendur stefndu Karli, Steingrími og Guðmundi. Í I. kafla ákærunnar voru þeim gefin að sök umboðssvik með því að hafa í sameiningu í störfum sínum hjá Milestone ehf. misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu „er þeir létu Milestone ehf. fjármagna efndir á samningum sem voru félaginu óviðkomandi en sem ákærðu Karl og Steingrímur höfðu gert við [Ingunni] í árslok 2005 um sölu hennar á hlutafé í Milestone ehf. og aflandsfélögunum Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd.“. Í ákærunni er háttseminni lýst nánar þannig að Milestone ehf. hafi greitt stefndu Ingunni „samtals 2.133.326.804 krónur á árinu 2006 með 12 mánaðarlegum greiðslum og samtals 2.462.395.055 krónur á árinu 2007 með 12 mánaðarlegum greiðslum og var jafnframt skuldbundið á árinu 2006 til að greiða Sjóvá-Almennum tryggingum hf., dótturfélagi Milestone ehf., 600.000.000 króna vegna þátttöku þess félags í efndum samninganna við [Ingunni]“. Er staðhæft í ákæru að allar þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi „í fullkominni óvissu um hvort, hvernig, hvenær eða hver myndi endurgreiða Milestone ehf. fjármunina og án þess að endurheimt fjárins, samtals 5.195.721.859 krónur, væri tryggð með veðum eða öðrum tryggingarráðstöfunum“.

         Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í ofangreindu sakamáli, er lýtur að sömu greiðslum og þær sem eru til umfjöllunar í fyrirliggjandi máli, féll 17. desember 2014. Þar voru ákærðu, þ. á m. stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins. Málinu var skotið til Hæstaréttar Íslands 13. janúar 2015 og fékk það hæstaréttarnúmerið 74/2015. Dómur réttarins var kveðinn upp 28. apríl 2016. Með honum voru stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur sakfelldir fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga vegna framangreindrar háttsemi sem lýst var í I. kafla ákærunnar. Ítarlega er fjallað um þessar ráðstafanir í dómi réttarins. Verður vikið að þeirri umfjöllun og ályktun réttarins síðar í dómi þessum eftir því sem efni er til.

                                                                                          III

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

         Af hálfu stefnanda er á það bent í stefnu að lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, (hér eftir einnig vísað til sem „ehfl.“) setji ströng skilyrði fyrir því hvernig félag megi úthluta fjármunum til hluthafa og stjórnenda félagsins og tengdra aðila. Megintilgangurinn með þessum ströngu skilyrðum sé að auka vernd kröfuhafa og annarra hluthafa. Úthlutun fjármuna til hluthafa sé þannig eingöngu heimil þegar hún er framkvæmd með arðsúthlutun, við lækkun hlutafjár, með greiðslu úr varasjóði og við félagsslit, sbr. 73. gr. laganna.

         Stefnandi vísar enn fremur til þess að samkvæmt 79. gr. ehfl. sé einkahlutafélagi ekki heimilt að veita hluthöfum eða stjórnar­mönnum lán. Sama gildi um þá sem séu skyldir hluthöfum eða stjórnarmönnum að feðgatali eða niðja. Við túlkun á 79. gr. ehfl. verði að hafa framangreindan tilgang laganna í huga. Allar úthlutanir fjármuna til eigenda, stjórnenda og nátengdra aðila séu þannig ólögmætar og falli undir 79. gr. ehfl. nema úthlutunin sé á grundvelli framangreindra heimilda í lögum um einkahlutafélög.

         Stefnandi tekur fram að sé einhver vafi uppi um grundvöll fjárúthlutunar félags til tengdra aðila verði að skýra úthlutunina sem svo að hún teljist lán í skilningi 79. gr. ehfl. þangað til sýnt sé fram á annað. Viðtakandi lánsins beri sönnunarbyrðina fyrir því að úthlutun fjármuna til hans sé lögmæt.

         Með vísan til megintilgangs laganna byggir stefnandi einnig á því að gera verði mjög strangar kröfur til þess að úthlutun fjármuna til stjórnenda, hluthafa og tengdra aðila sé forsvaranleg og að fullnægjandi gögn liggi fyrir um heimild til fjár­úthlutunarinnar. Ákvörðun um úthlutunina og ástæður hennar þurfi að koma greinilega fram í skjölum og fundargerðum stjórnar, sbr. 8. mgr. 79. gr. ehfl. Allt sem sé óljóst verði að túlka viðtakanda fjármunanna í óhag enda sé reglunni ætlað að vernda félagið sjálft (o.þ.m. aðra hluthafa og kröfuhafa þess) fyrir því að tilteknir aðilar geti nýtt sér félagið í eigin þágu. Bendir stefnandi á að reglan eigi að vernda félagið gagnvart hluthöfum, stjórnendum þess og aðilum nákomnum þeim enda hafi þessir aðilar greiðan aðgang að félaginu og séu í bestu aðstöðunni til að nýta félagið í eigin þágu. Slíkar reglur væru til lítils ef þessir aðilar gætu tekið fé út úr félaginu, án nokkurra útskýringa og án þess að gera um það samninga, en vísað síðan sönnunarbyrðinni á þá sem síðar vilji endur­heimta féð.

         Í stefnu kveður stefnandi greiðslur Milestone ehf. til stefndu Ingunnar nema 5.195.721.859 krónum á árunum 2006 og 2007. Ekkert gagngjald hafi komið frá stefndu Ingunni á móti og hafi þessar greiðslur því verið lán Milestone ehf. til hennar. Enginn samningur hafi verið gerður milli Milestone ehf. og stefndu Ingunnar um lánveitinguna og ekki verði séð að nein önnur gögn séu til um greiðslur félagsins til stefndu Ingunnar.

         Af hálfu stefnanda er á því byggt að undantekning í lokamálslið 1. mgr. 79. gr. ehfl., sem tekur til venjulegra viðskiptalána, eigi ekki við um lán Milestone ehf. til stefndu Ingunnar enda hafi engar viðskiptalegar forsendur verið fyrir þeim lánum. Ekkert eiginlegt viðskipta­samband hafi verið milli hennar og Milestone ehf. Byggir stefnandi á því að stefnda Ingunn beri sönnunarbyrðina fyrir því að lán til hennar hafi verið venjuleg viðskiptalán. Þangað til sýnt sé fram á annað teljist lánin ólögmæt.

         Stefnandi vísar enn fremur til þess í stefnu að lánin hafi ekki verið Milestone ehf. til framdráttar enda virðist félagið ekki hafa haft neinn hag af lánveitingunni og félagið ekki haft neina tryggingu fyrir því að lánin yrðu greidd til baka. Þá séu önnur skilyrði og kjör lánanna ekki sambærileg þeim sem viðgangist á almennum lánamarkaði enda verði t.d. ekki séð að lánið hafi borið vexti eða annan kostnað fyrir stefndu Ingunni. Lán sem þessi séu ekki hluti af starfsemi Milestone ehf. og telur stefnandi að félagið hefði aldrei veitt slíkt lán til venjulegra, ótengdra viðskiptamanna. Forsendur lánsins hafi þannig ekki verið af viðskiptalegum toga og hafi hagsmunir Milestone ehf. ekki ráðið för heldur hagsmunir stefndu Ingunnar.

         Til stuðnings framangreindri málsástæðu vísar stefnandi til þess að á árunum 2006 og 2007 hafi stefnda Ingunn verið hluthafi og stjórnarmaður í Milestone ehf. Þá hafi hún verið systir aðaleigenda félagsins, stefndu Karls og Steingríms. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, hafi félaginu þar með verið óheimilt að veita stefndu Ingunni lán og hafi henni einnig verið óheimilt að taka við greiðslunum. Lán félagsins til stefndu Ingunnar hafi þannig verið ólögmæt og því beri henni að greiða lánin til baka með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laganna.

         Í stefnu kemur fram að hafi greiðslurnar verið hluti af uppgjöri kaupsamninga um hluti í Milestone ehf. og fleiri félögum milli stefndu Ingunnar annars vegar og stefndu Karls og Steingríms hins vegar séu þær jafnólögmætar. Hafi svo verið þá hafi Milestone ehf., auk þess sem áður er getið, látið fjármagna kaup á hlutum í sjálfu sér og móðurfélagi sínu en það sé óheimilt skv. 2. mgr. 79. gr. ehfl.

         Í stefnu kemur fram að skylda til endurgreiðslu ólögmætra lána komi skýrlega fram í lögum um einkahlutafélög. Eftir standi þá hvort stefnda Ingunn hafi verið leyst undan skuldinni með lögmætum og bindandi hætti í árslok 2006 og 2007. Í því sambandi er á það bent að bann við lánveitingum einkahlutafélags til hluthafa og tengdra aðila sé sett til þess að tryggja skil á milli fjármuna félagsins og fjármuna hluthafa þess. Hluthafar og aðrir tengdir aðilar eigi ekki að fara með fjármuni félagsins sem sína eigin. Slíkt skapi hættu á því að lántakinn hagnist með óréttmætum hætti á kostnað félagsins o.þ.m. annarra hluthafa þess og kröfuhafa. Þar sem 79. gr. ehfl. sé ætlað að vernda félagið gagnvart hluthöfum og stjórnendum þess verði að túlka reglurnar með þeim hætti að lántakinn beri ríka skyldu til að greiða ólögmæt lán til baka. Hafa beri í huga að ólöglegt lán til hluthafa sé í raun fjárdráttur hluthafans enda liggi refsing við því að þiggja slíkt lán, sbr. 127. gr. ehfl.

         Til þess að framangreint ákvæði nái tilgangi sínum telur stefnandi að hluthafar megi ekki gera skuld sína við félagið upp með skuldajöfnuði eða öðrum hætti en með greiðslu peninga. Aðilar sem fái ólögmæt lán skv. 79. gr. ehfl. séu í aðstöðu til að misnota félagið og því virki reglurnar ekki ef aðilarnir geti komið sér undan endurgreiðsluskyldu sinni með því einu að nota áhrif sín til að láta félagið fella niður kröfuna á hendur þeim með ýmsum ráðstöfunum. Með því væru félögin misnotuð enn frekar til hagsbóta lántaka en á kostnað kröfuhafa félagsins. Því verði að túlka 79. gr. ehfl. með þeim hætti að ólögleg lán til hluthafa beri að greiða til baka í beinhörðum peningum.

         Stefnandi kveður eftirgjafir krafna Milestone ehf. á hendur stefndu Ingunni og stofnun kröfu á hendur Milestone Import Export Ltd. augljóslega hafa verið mála­mynda­gerninga sem séu óskuldbindandi fyrir félagið, sbr. m.a. 33., 34. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnandi telur þannig að líta beri fram hjá eftirgjöfum krafna á hendur stefndu Ingunni sem fóru fram 31. desember 2006 og 2007.

         Stefnandi bendir á að krafa um endurgreiðslu ólögmæts láns sé ekki riftun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sé ekki verið að hnekkja ráðstöfun sem við venjulegar kringumstæður væri lögleg. Með endurgreiðslukröfu þessari sé stefnandi að hnekkja ráðstöfun sem sé beinlínis ólögleg og ógild. Skipti gjaldþrot Milestone ehf. engu máli hvað það varði.

         Stefnandi vísar einnig til þess að engir tímafrestir séu fyrir endurheimtu félagsins í 79. gr. ehfl. heldur sé þar aðeins kveðið á um að endurgreiða skuli ólögmæt lán með dráttarvöxtum. Milestone ehf. hafi eignast kröfu um endurgreiðslu lánanna um leið og þau hafi verið veitt og þrotabú Milestone ehf. hafi tekið við þeirri kröfu við úrskurð um gjaldþrot, sbr. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991.

         Á því er byggt af hálfu stefnanda að þar sem lánveitingar Milestone ehf. til stefndu Ingunnar hafi verið ólögmætar og valdið félaginu tjóni beri henni skylda til að leiðrétta hinar ólögmætu ráðstafanir með endurgreiðslu peninga. Þannig verði að líta fram hjá öllum löggerningum félagsins sem miði að því að aflétta endurgreiðsluskyldu stefndu Ingunnar vegna ólögmætra lána hennar frá félaginu.

         Í stefnu kemur fram að með vísan til framangreindra atriða eigi stefnandi kröfu um að stefnda Ingunn endurgreiði stefnanda öll lánin, samtals að fjárhæð 5.195.721.859 krónur, með dráttarvöxtum af hverju láni fyrir sig frá og með þeim degi er það hafi verið veitt, eins og tilgreint sé nánar í dómkröfum. Eigi endurgreiðslukrafan stoð í 4. mgr. 79. gr. ehfl. en samkvæmt 5. mgr. 79. gr. ehfl. bera stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur einnig ábyrgð á endurgreiðslunni gagnvart stefnanda.

         Eins og áður segir byggir stefnandi kröfur sínar einnig á almennum reglum skaðabótaréttar og 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin kveðst stefnandi hafa eignast skaðabótakröfur Milestone hf. á hendur stjórnarmönnum félagsins, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

         Stefnandi byggir á því að stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur hafi, sem stjórnarmenn og framkvæmda­stjóri Milestone ehf., vitað eða mátt vita um alla þá gerninga sem mál þetta lúti að. Þar sé bæði átt við ólögmætar greiðslur Milestone ehf. til stefndu Ingunnar og eftirgjöf krafna á hendur henni í lok áranna 2006 og 2007.

         Stefnandi ætlar að stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur hafi tekið ákvörðun um greiðslurnar til stefndu Ingunnar. Þá hafi þeir sömuleiðis tekið ákvörðun um, og borið ábyrgð á því, að aflétta skuldum hennar. Þessar ráðstafanir hafi verið ólögmætar og valdið Milestone ehf. tjóni. Stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur brutu þannig gegn starfsskyldum sínum og trúnaði gagnvart félaginu. Í ljósi stöðu, þekkingar og ábyrgðar stjórnenda í félögum telur stefnandi að það skuli beita ströngu sakarmati við mat á háttsemi fyrrverandi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra Milestone ehf.

         Stefnandi bendir einnig á að stefnda Ingunn hafi verið svo nátengd félaginu og stjórnendum þess að hún hafi vitað eða mátt vita að reglulegar greiðslur félagsins til hennar voru ólögmætar. Þá leiðir það einnig af eðli máls að stefnda Ingunn hafi vitað eða mátt vita að hún hafi ekki átt rétt á reglulegum greiðslum frá félaginu, án nokkurs endurgjalds.

         Í stefnu kemur fram að hafi greiðslur Milestone ehf. til stefndu Ingunnar í raun verið greiðsla til hennar vegna kaupa stefndu Karls og Steingríms á hlutum hennar í Milestone ehf. og fleiri félögum sé háttsemin augljóslega skaðabótaskyld og jafnvel refsiverð. Stefndu Karli og Steingrími hafi verið óheimilt að láta Milestone ehf. greiða fyrir hluti í sjálfu sér og stefndu Ingunni hafi verið óheimilt að taka við greiðslu frá félaginu. Þá hafi stefnda Guðmundi, sem framkvæmdastjóra Milestone ehf., verið óheimilt að ljá atbeina sinn til slíkra greiðslna eða láta þær óátaldar.

         Í stefnu kemur fram að lítið sé til af gögnum um þær ráðstafanir sem málið fjalli um. Stefnandi telji þó ljóst að stefndu hafi brotið gegn skyldum sínum sem stjórnendur og hluthafar Milestone ehf. Hafi stefndu brotið gegn skyldum sínum sem fram komi í lögum um einkahlutafélög, einkum í IX., X og XI. kafla laganna, en einnig hafi stefndu brotið gegn óskráðum reglum félagaréttar og skaðabótaréttar.

         Stefnandi bendir m.a. á að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. ehfl. megi stjórnarmenn og framkvæmda­stjórar ekki misnota aðstöðu sína í viðskiptum með hluti í félaginu. Samkvæmt 48. gr. laganna megi stjórnarmaður ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og hans og heldur ekki um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunni að fara í bága við hagsmuni félagsins. Samkvæmt 2. mgr. 51. gr. megi félagsstjórn og framkvæmdastjóri ekki framfylgja ákvörðunum hluthafafundar eða annarra stjórnaraðila félagsins ef ákvarðanirnar eru ógildar vegna þess að þær brjóta í bága við lög eða félagssamþykktir.

         Í stefnu er byggt á því að skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð stefndu, sem lúti að huglægri afstöðu þeirra, séu uppfyllt, en telja verði háttsemi þeirra í það minnsta fela í sér stórkostlegt gáleysi, ef ekki ásetning. Stefndu hafi þannig sýnt af sér saknæma háttsemi og einnig ólögmæta enda hafi þeir valdið félaginu tjóni með ólöglegri og skaðlegri háttsemi. Þeir beri samkvæmt framangreindu skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem þrotabúinu og kröfuhöfum þess hafi verið bakað með gerningunum. Enn fremur séu orsakatengsl milli tjóns Milestone ehf. og ólögmætra athafna allra stefndu. Tjón félagsins sé einnig sennileg afleiðing háttseminnar.

         Með vísan til þess sem að framan greinir telur stefnandi að stefndu beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem Milestone ehf. hafi orðið fyrir með framangreindum gerningum. Beri stefndu að greiða stefnanda skaðabætur sem svari til endurgreiðslu allra greiðslna til stefndu Ingunnar á árunum 2006 og 2007 í samræmi við 4. og 5. mgr. 79. gr. ehfl. og einnig, eftir atvikum, vegna þeirrar gjafar og ótilhlýðilegu ráðstöfunar sem fólst í eftirgjöf kröfunnar á hendur stefndu Ingunni hinn 31. desember 2007.

         Stefnandi krefst dráttarvaxta á grundvelli 4. mgr. 79. gr. ehfl. af hverju og einu láni, frá þeim degi sem hver greiðsla var innt af hendi til stefndu Ingunnar frá félaginu. Verði ekki fallist á að fjárkrafan skuli bera dráttarvexti sem krafa um endurgreiðslu ólögmætra lána samkvæmt 79. gr. ehfl. er fjárkrafan á hendur stefndu byggð á því að stefndu beri að greiða tjón búsins á grundvelli 142. gr. gþl. Auðgun stefndu Ingunnar samsvari tjóni stefnanda og nemi því sömu fjárhæð. Auk þess er byggt á almennum skaðabótareglum. Í því tilviki er krafist dráttarvaxta af 5.195.721.859 kr. frá og með mánuði eftir þing­festingu stefnu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

         Auk þess að vísa til framangreindra laga til stuðnings málatilbúnaði stefnanda kveður hann kröfusamlag eiga stoð í 27. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og samlagsaðild í 19. gr. sömu laga. Þá eigi málskostnaðarkrafa stefnanda sér stoð í 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr., 1. mgr. 35. gr., 41. gr. og 1. mgr. 42. gr. sömu laga.

         Við aðalmeðferð málsins var á því byggt af hálfu stefnanda að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar Íslands frá 24. apríl 2016 í málinu nr. 74/2015 hefði fullt sönnunargildi um þau atvik sem þar voru lögð til grundvallar sakfellingu stefndu Karls, Steingríms og Guðmundar, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu Ingunnar Wernersdóttur

         Stefnda Ingunn mótmælir þeirri málavaxtalýsingu sem fram kemur í stefnu. Telur hún lýsingu stefnanda á atvikum að stórum hluta vera ranga og ekki í samræmi við þau sönnunargögn sem stefnandi hafi sjálfur lagt fram.

         Stefnda kveður málavexti vera í meginatriðum á þá leið að síðla árs 2005 hafi hún og meðstefndi, Steingrímur Wernersson, ákveðið að selja alla hluti sína í stefnanda ásamt öllum öðrum hlutum, sem þau ættu í öðrum félögum hér á landi og erlendis með meðstefnda, Karli Emil Wernerssyni. Kveðst stefnda hafa á þessum tíma átt 28% í stefnanda og Steingrímur 32%. Þau hafi því ráðið yfir meirihluta alls hlutafjár í félaginu sem hafi verið skráð 2.857.000 krónur hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Hlutafjármál stefnanda hafi þó ekki reynst svona einföld þegar kom að samningum um sölu þeirra.

         Í framhaldi af þessu kveðst stefnda og meðstefndi Steingrímur hafa samið við Sigurð G. Guðjónsson hrl. og Sigurð Jónsson, endurskoðanda hjá KPMG Endurskoðun hf., og veitt þeim fullt og ótakmarkað umboð til viðræðna um sölu hluta í stefnanda og öðrum félögum honum tengdum, sbr. samning þar um frá 14. nóvember 2005.

         Stefnda kveður meðstefnda Karl ekki hafa viljað missa tangarhald sitt á stefnanda og því fengið meðstefnda Steingrím til þess að hætta við sölu sinna hluta og standa með sér að kaupum á hlutum stefndu. Karl Emil hafi heldur ekki viljað ræða sölumál stefndu við Sigurð G. Guðjónsson hrl. Hafi farið svo að Sigurður Jónsson endurskoðandi hafi séð um allar viðræður við Karl Emil og fulltrúa hans, þá Guðmund Ólason og Jóhannes Sigurðsson hrl. Samkomulag hafi náðst um kaupverð hluta stefndu, 5.778.567.000 krónur.

         Stefnda lýsir atvikum á þann veg að þegar samkomulag hafi náðst um söluverð, og fyrir hafi legið hvaða fjármagnstekjuskattur myndi falla á hana vegna sölunnar, hafi meðstefndi Karl og samverkamenn hans hjá stefnanda, þ. á m. meðstefndi, Guðmundur Ólason, viljað að gengið yrði frá samningum með þeim hætti að sölunni yrði, með kaup-/ og söluréttarsamningum, dreift yfir ákveðinn tíma. Ástæðan hafi verið sú að meðstefndi Karl hafi ekki viljað að stefnda kæmi fram á skrám um þá sem greiddu mestu skatta. Meðstefndu Karl og Guðmundur hafi þá leitað til Bernhards Bogasonar á skattasviði KPMG Endurskoðunar hf. Bernhard hafi ritað meðstefndu Karli og Guðmundi bréf 1. desember 2005, þar sem gerð hafi verið grein fyrir mögulegum leiðum til lækkunar eða frestunar skattgreiðslna.

         Stefnda greinir svo frá að 4. desember 2005 hafi verið gengið frá viðskiptunum þannig að greiða skyldi 905.585.556 krónur fyrir áramót 2005/2006. Hafi átt að skipta eftirstöðvum kaupverðsins, 4.872.981.444 krónum, niður á fjóra samninga milli stefndu annars vegar og meðstefndu Karls og Steingríms hins vegar. Hafi þessir samningar verið kallaðir samningar um kaup-/sölurétt að hlutabréfum og liggi þeir frammi í málinu.

         Samkvæmt þessum samningum hafi stefnda getað selt hluti sína til meðstefndu Karls og Steingríms, stefnanda eða annarra félaga sem meðstefndu hafi átt, með því að tilkynna þeim um söluna fyrir kl. 12.00 á hádegi 6. janúar 2006, fyrir kl. 12.00 á hádegi 1. júlí 2006 og fyrir kl. 12.00 á hádegi 6. janúar 2007.

         Stefnda kveðst hafa virkjað sölurétt fyrsta samningsins fyrir kl. 12.00 föstudaginn 6. janúar 2006. Samkvæmt samningnum hafi stefnda átt að fá greiddar að höfuðstól 1.867.026.667 krónur fyrir 10,306% í stefnanda. Í samræmi við greiðsluskilmála 3. gr. kaupsamningsins hafi kaupverðið ásamt verðbótum verið greitt stefndu á tímabilinu janúar til desember 2006.

         Stefnda kveðst hafa virkjaði söluréttinn samkvæmt öðrum samningi fyrir kl. 12.00 á hádegi 1. júlí 2006. Samkvæmt honum hafi stefnda átt að fá greiddar að höfuðstól 742.675.667 krónur fyrir 9,33% hlutafjár í Milestone Ldt., og 9,33% hlutafjár í Leiftra Ldt. Í samræmi við greiðsluskilmála 3. gr. kaupsamningsins hafi kaupverðið ásamt verðbótum verið greitt stefndu á tímabilinu júlí til desember 2006.

         Stefnda kveðst hafa virkjað sölurétt tveggja annarra samninga fyrir kl. 12.00 á hádegi 6. janúar 2007. Samkvæmt þeim hafi stefnda átt að fá greiddar að höfuðstól 2.263.279.111 krónur fyrir 18,67% hlutafjár í Milestone Ldt., og 18,67% hlutafjár í Leiftra Ldt., og 4,294% í stefnanda. Í samræmi við greiðsluskilmála 3. gr. kaupsamningsins hafi kaupverðið ásamt verðbótum verið innt af hendi til stefndu á tímabilinu janúar til desember 2007.

         Stefnda kveðst hafa haft hina seldu hluti að handveði til tryggingar á efndum söluréttarsamninganna þar til helmingur kaupverðsins samkvæmt hverjum og einum samningi hafði verið greiddur. Öll réttindi og skyldur sem fylgt hafi hinum seldu hlutum hafi hins vegar horfið til kaupanda frá þeim tíma er kaupin gerðust. Söluréttarhafa hafi borið að tilkynna fyrirtækjaskrá um úrsögn stefndu úr stjórn stefnanda frá sama tíma. Stefnda kveðst hafa horfið úr stjórn stefnanda 15. október 2006.

         Af hálfu stefndu er því staðhæft að greiðslur til hennar samkvæmt samningum frá 4. desember 2005 á árinu 2006 og 2007 hafi því ekki verið lán, heldur hafi þær falið í sér efndir á samningum um kaup á hlutum í stefnanda, á samningum þar sem kröfuhafi, stefnda Ingunn, hafði m.a. samþykkt fyrir fram skuldskeytingu, sbr. 6. mgr. 1. gr. samninganna. Greiðslurnar hafi því ekki rýrt hag stefnanda, þar sem hann hafi fengið í hendur verðmæti sem hafi svarað til kaupverðsins. Stefnda hafi aldrei fengið í hendur nein gögn um að hún teldist í skuld við stefnanda vegna þessara viðskipta, enda vandséð hvernig það hafi mátt vera. Stefnda hafi heldur aldrei fengið í hendur nein gögn um það að stefnandi hafi gefið eftir einhverja skuld á hendur henni, eins og byggt sé á í stefnu. Stefnandi hafi aðeins lagt fram útskrift svokallaðs biðreiknings, þar sem sjá megi að stjórnendur stefnanda hafi fært ýmsar greiðslur sem ekki hafði verið tekin endanleg ákvörðunum um færslu á í bókhaldi félagsins þegar greiðslan hafi verið innt af hendi. Greiðslur sem færðar hafi verið á biðreikning 2006, og hafi átt rót sína að rekja til kaupsamninga við stefndu, hafi að lokum verið gerðar upp með lánssamningi milli stefnanda og Milestone Import Export Ldt. sem stefnandi hafi lagt fram. Stefnda beri enga ábyrgð á skuldum Milestone Import Export Ldt., hvorki beint né óbeint.

         Stefnda kveður stefnanda ekki hafa sannað eða gert sennilegt með neinum hætti að kaupverðið, sem samið hafi verið um 4. desember 2005, hafi verið of hátt, ósanngjarnt eða óeðlilegt. Kaupsamningum um hlutabréf eða hluti í félögum með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna verði almennt ekki rift, þó að verðmæti hins selda falli í verði eftir kaupin, nema þá að kaupandinn sanni að brögð hafi verið í tafli eða að 36. gr. samningalaga eigi við. Stefnandi byggi ekki á almennum ógildingar- eða riftunarreglum samninga- og kröfuréttar í máli þessu.

         Samkvæmt framansögðu hafnar stefnda því að greiðslur, sem henni bárust frá stefnanda á árunum 2006 til 2007, hafi verið lán, eins og byggt sé á í stefnu. Greiðslur þessar hafi byggst á samningum sem stefnandi hafi sjálfur lagt fram. Samkvæmt þeim hafi hún selt meðstefndu, Karli og Steingrími, alla hluti sína í stefnanda, Milestone Ldt. og Leiftra Ldt. Kaupendurnir hafi átt rétt til skuldskeytingar samkvæmt samningnum. Stefnandi hafi því getað án nokkurrar aðkomu stefndu orðið kaupandi allra þeirra hluta, sem hún samdi um sölu á þann 4. desember 2005 við meðstefndu Karl Emil og Steingrím. Stefnandi hafi samkvæmt 38. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 mátt kaupa hlutina með þeim skilmálum að hann ætti þó aldrei meira en 10% eftir sex mánuði og að kaupin væru fjármögnuð með frjálsum sjóðum.

         Eftir að stefnda hafi horfið úr stjórn félagsins 15. október 2006 kveðst hún ekki hafa verið í neinni aðstöðu umfram hlutahafa almennt til þess að ganga úr skugga um hvort stjórnendur þess og aðrir hluthafar stefnanda færu að lögum. Stefnda geti því ekki borið „solidaríska“ skaðabótaábyrgð á 5.195.721.859 króna greiðslu með meðstefndu. Hafi viðsemjendur hennar, meðstefndu Karl og Steingrímur, tekið fé þetta að láni hjá stefnanda til þess að efna kaupsamninga sína við stefndu, beri þeir einir ábyrgð á þeirri lántöku gagnvart stefnanda. Af gögnum máls þessa megi og ráða að Milestone Import Export Ldt. hafi tekið 2.733.326.804 krónur að láni hjá stefnanda 30. desember 2006 sem greiða hafi átt þann 15. desember 2007. Stefnda beri enga persónulega ábyrgð á lánum Milestone Import Export Ldt.

         Verði stefnda ekki alfarið sýknuð gerir hún þá kröfu að allar fjárkröfur á hendur henni verði felldar niður eða lækkaðar verulega með heimild í 3. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Í því sambandi verði að horfa til þess að stefnda hafi afhent stefnanda og stjórnendum hans verðmæti, sem búið geti ekki skilað og séu nú verðlaus vegna gjaldþrots stefnanda. Stefnda hafi einnig lánað einu af dótturfélögum stefnanda fé sem sé að mestu farið forgörðum. Í ljósi þessara atvika verði að telja ósanngjarnt að krefja stefndu um endurgreiðslu þess fjár sem hún hafi tekið við í góðri trú frá eigendum stefnanda til efnda á samningum sem hún hafi gert við þá um kaup á hlutum hennar í stefnanda og dótturfélögum hans. Einnig hafi stefnda hvergi komið nærri rekstri stefnanda eftir 15. október 2006 og því ekki átt neina aðild að meintum ólögmætum lánveitingum og ekki verið lánþegi í neinni merkingu þess orðs.

         Stefnda Ingunn krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda á grundvelli 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991. Til stuðnings kröfum sínum um málskostnað vísar stefnda til þess að stefnanda hafi ávallt verið fullkunnugt um tilefni þeirra greiðslna sem um er að tefla. Telur stefnda að stefnandi hafi uppi kröfur á hendur sér sem hann viti að séu reistar á þeirri röngu forsendu að félagið hafi lánað stefndu fjármuni. Hafi skiptastjóri stefnanda vitað eða mátt vita að greiðslurnar væru þvert á móti kaupverð fyrir hluti hennar í Milestone ehf. og Leiftra Ldt. Málshöfðunin gegn henni sé því með öllu þarflaus.

         Stefnda mótmælir upphafstíma dráttarvaxtakröfu af bótakröfu að fjárhæð 5.195.721.859 krónur. Fari svo að bótakrafa þessi verði tekin til greina að einhverju eða öllu leyti er farið fram á að dæmdar bætur beri dráttarvexti frá dómsuppsögu, sbr. lokamálslið 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

3. Helstu málsástæður og lagarök stefnda, Karls Emils Wernerssonar 

         Í greinargerð stefnda Karls er ítarlega fjallað um fjármögnun og rekstur Milestone ehf. allt þar til yfir lauk. Þar er einnig vikið að sölu stefndu Ingunnar á eignarhlutum sínum í félögunum Milestone ehf., Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. Tekið er fram að Milestone Import Export Ltd. hafi verið öflugt félag sem hafi haldið utan um nokkurn fjölda eigna. Eigið fé þess þann 30. september 2005 hafi verið rúmir 8 milljarðar króna og í lok árs 2007 rúmur 7½ milljarður króna. Hann kveður Leiftra Ltd. hafa að sama skapi verið öflugt félag, en stærsta eign þess hafi í lok árs 2005 verið 31,6% eignahlutur í Milestone ehf. Hafi eigið fé þess félags verið undir lok árs 2007 yfir 300 milljónir evra.

         Stefndi Karl lýsir enn fremur þeim samningum 4. desember 2005 sem áður er getið og fullyrðir að stefnda Ingunn hafi nýtt sölurétt sinn í umræddum hlutum með tölvuskeytum. Stefndi Karl leggur áherslu á það að í 6. mgr. 1. gr. samninganna hafi tiltekin félög eða önnur félög í eigu kaupréttarhafa getað keypt bréfin á grundvelli samninganna. Hafi farið svo að félagið Leiftri Ltd. hafi keypt bréfin, en kaupin hafi verið fjármögnuð af félaginu Milestone Import Export Ltd. Því hafi Leiftri Ltd. þannig m.a. orðið eigandi bréfanna í Milestone ehf. í kjölfar nýtingar Ingunnar á kaupréttinum.

         Stefndi Karl lýsir atvikum á þann veg að samþykkt hafi verið að Milestone ehf. veitti Milestone Import Export Ltd. lán í tengslum við framangreinda fjármögnun þess. Hafi lánveitingin numið allri fjármögnuninni þrátt fyrir að formlegur lánssamningur hafi aðeins verið gerður fyrir rúmum helmingi hennar. Síðarnefnda félagið hafi sem fyrr segir á þeim tíma verið afar öflugt og eignastaða þess góð. Það hafi ekki átt nein hlutabréf í Milestone ehf. en meðal eigna þess hafi meðal annars verið hlutabréf í Actavis, Íslandsbanka og bresku verslunarkeðjunni Iceland. Því hafi verið talið að lánveiting til félagsins væri góð og örugg fjárfesting. Að ósk lántaka hafi lánið verið greitt út beint til Ingunnar Wenersdóttur með þeim mánaðarlegu greiðslum sem séu grundvöllur máls þessa.

         Á þessum tíma kveðst stefndi Karl hafa verið stjórnarmaður í Milestone ehf. Hafi hann ávallt borið hag félagsins fyrir brjósti og meðal annars átt þátt í því að ráða til þess forstjóra og aðstoðarforstjóra. Sá síðarnefndi hafi raunar verið einn helsti sérfræðingur landsins í skaðabóta- og félagarétti. Þess utan hafi félagið keypt sérfræðiráðgjöf utanaðkomandi ráðgjafa fyrir tugi milljóna króna á ári hverju. Telur stefndi að hann hafi, meðal annars með þessu, gert allt það sem af honum sem stjórnarmanni verði krafist til að sinnum skyldum sínum, tryggja hag félagsins og lögmæti þeirra gerninga sem það hafi ráðist í. Stefndi Karl tekur fram að hvorki á þeim tíma sem ákvörðun var tekin um lánveitingu til Milestone Import Export Ltd. né síðar hafi hann verið upplýstur um það af ráðgjöfum félagsins, stjórnendum þess eða öðrum að lánveitingin kynni að vera ólögmæt.

         Stefndi tekur fram að ákvörðun um lánveitingu Milestone til Milestone Import Export Ltd. hafi ekki verið tekin í stjórn félagsins. Þrátt fyrir það telur stefndi ljóst að hún hafi á þeim tíma verið fyllilega réttlætanleg og þjónað hagsmunum félagsins. Þannig hafi góðir vextir fengist á lánveitingu, sérstaklega ef tekið er mið af því hversu öflug staða lántaka var. Nefnir stefndi Karl sem dæmi að á  lánstímanum hafi eiginfjárhlutfall þess verið 69,0% í lok árs 2005, 48% í lok árs 2006 og 36% í lok árs 2007. Telur stefndi Karl að þess hafi mátt vænta að ef ekki hefði orðið allsherjarbankahrun í október 2008, hefði lánið til Milestone Import Export Ltd. fengist að fullu greitt. Hafi stefndi, ekki frekar en forsvarsmenn Milestone ehf., séð slíkt hrun fyrir í lok árs 2005.

         Stefndi Karl kveður kröfu stefnanda reista á því að hann beri skaðabótaábyrgð á ætluðu tjóni Milestone ehf. vegna greiðslna til Ingunnar Wernersdóttur. Mótmælir hann öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Í öndverðu krafðist hann þess að málinu yrði vísað frá dómi. Var sú krafa m.a. á því reist að málshöfðunarfrestur 110. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, væri liðinn. Að öðru leyti taldi hann að ákvörðun um að hafa uppi skaðabótakröfuna uppfyllti ekki áskilnað 109. gr. sömu laga og að stefnukrafan væri verulega vanreifuð. Eins og rakið hefur verið var fallið frá frávísunarkröfu sem byggðist á þessum röksemdum.

         Stefndi Karl kveður sýknukröfu sína vera reista á margþættum rökum og málsástæðum. Lúti þær meðal annars að því að stefndi Karl telur hvorki að umrætt lán hafi verið í andstöðu við 79. gr. laga um einkahlutafélög né að skilyrði fyrir ætlaðri bótaábyrgð hans séu til staðar.

         Stefndi Karl byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið um að ræða nein lán frá Milestone ehf. til Ingunnar Wernersdóttur líkt og málsókn stefnanda grundvallist á. Eins og rakið hefur verið hafi þvert á móti verið um að ræða lánveitingu til félagsins Milestone Import Export Ltd. sem hafi verið greidd út með þeim hætti sem lántaki óskaði. Allar málsástæður stefnanda byggi því á rangri forsendu, en stefnanda sé í sjálfsvald sett með hvaða hætti hann afmarki grundvöll málshöfðunarinnar. Af þessum sökum telur stefndi Karl að það verði að sýkna hann af kröfum stefnanda.

         Í öðru lagi byggir stefndi á því í greinargerð að lánveiting Milestone ehf. til félagsins Milestone Import Export Ltd. hafi verið fyllilega lögmæt og ekki brotið gegn 79. gr. þágildandi laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Bann greinarinnar hafi ekki tekið til starfsemi Milestone ehf., enda verði því ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir, sbr. 7. mgr. greinarinnar. Hugtakið fjármálastofnun sé ekki sérstaklega skilgreint í lögunum. Milestone ehf. hafi verið eignarhaldsfélag sem hafi að langstærstum hluta átt eignir í fjármálafyrirtækjum. Meðal eigna þess hafi verið Askar Capital, Sjóvá-Almennar, Invik & Co og eignarhlutur í Glitni banka. Fyrir liggi að Invik & Co hafi verið skilgreint sem fjármálasamsteypa í Svíþjóð í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2002/87/EC. Þá hafi staðið til að skilgreina Milestone ehf. sem fjármálasamsteypu um leið og tilskipunin yrði innleidd hér á landi. Því verði að telja að Milestone ehf. hafi verið fjármálastofnun í skilningi 7. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.

         Verði talið að beita megi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um Milestone byggir stefndi á því að félagið Milestone Import Export Ltd. falli ekki undir bannákvæði greinarinnar. Félagið hafi hvorki verið hluthafi í Milestone ehf. né falli það undir önnur þau tilvik sem talin séu upp í greininni. Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi á því að lánveiting til Milestone Import Export Ltd. hafi verið lögmæt á grundvelli greinarinnar. Lánið hafi verið veitt sterku og öflugu félagi á eðlilegum kjörum í eðlilegum tilgangi. Því hafi verið um venjulegt viðskiptalán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 að ræða.

         Stefndi Karl kveður málshöfðun stefnanda ekki reista á 2. mgr. 79 gr. laganna. Allt að einu hafnar hann því alfarið að hún geti átt við. Þannig hafi Milestone ehf. ekki fjármagnað kaup á hlutabréfum í sjálfu sér eða móðurfélagi sínu, enda lántaki ekki keypt bréfin. Þess utan sé byggt á öllum þeim sömu málsástæðum sem raktar voru hér að framan.

         Stefndi Karl hafnar því enn fremur alfarið að byggt verði á 5. mgr. 79. gr. laga um einkahlutafélög gagnvart honum. Lánveitingin hafi ekki verið í andstöðu við 1. eða 2. mgr. greinarinnar. Þá hafi hann ekki framkvæmt þær ráðstafanir sem hér um ræðir, en greiðsluskylda 5. mgr. greinarinnar taki aðeins til þeirra sem það hafi gert. Að lokum verði greiðsluskylda samkvæmt greininni ekki virk fyrr en ljóst sé að ekki sé unnt að endurgreiða féð. Ekkert liggi fyrir um það í málinu og verði krafa ekki byggð á 5. mgr. greinarinnar fyrr en útséð sé um að greiðsla fáist. Því beri að sýkna stefnda af kröfunni á þeim grunni eða í öllu falli að sýkna hann að svo stöddu.

         Stefndi Karl hafnar því enn fremur alfarið að hann hafi á nokkurn hátt brotið gegn 48. gr. eða 51. gr. laga nr. 138/1994 eða öðrum skyldum sínum sem stjórnarmaður í félaginu. Telur stefndi raunar að það sé með öllu vanreifað í stefnu hvernig stefnandi telur umrædd lagaákvæði hafi verið brotin og hvernig lánveiting til Milestone Import Export Ltd. hafi valdið stefnanda tjóni.

         Af hálfu stefnda Karls er lögð áhersla á að ákvörðun stjórnarmanns, sem reist sé á mati hans í góðri trú um réttmæti ákvörðunar og með hagsmuni hluthafa og félags að leiðarljósi, hafi ekki í för með sér skaðabótaskyldu, þrátt fyrir að síðar komi í ljós að matið hafi verið rangt. Í þessu tilviki hafi hvorki stjórn né stefndi Karl tekið ákvörðun sem hafi skuldbundið félagið til umræddrar lánveitingar til Milestone Import Export Ltd. Þótt hann hefði gert það telur hann að ákvörðunin, og mat það sem legið hafi henni til grundvallar, hafi verið rétt á þeim tíma. Hafi ákvörðunin verið tekin með hagsmuni hluthafa í huga. Fjárhagsleg staða lántaka hafi verið mjög góð og hafi hún eingöngu átt eftir að batna. Því sé ómögulegt að gera sér grein fyrir því tjóni sem stefnandi kveður sig hafa orðið fyrir.

         Stefndi Karl kveður öll störf sín fyrir Milestone hafa verið unnin með hagsmuni félagsins og hluthafa þess í huga. Allar ákvarðanir hans hafi verið reistar á viðskiptalegum forsendum en ekki með annarlega hagsmuni í huga. Þá bendir stefndi Karl á að hann hafi starfað sem formaður í þriggja manna stjórn þar sem samþykki a.m.k. tveggja stjórnarmanna hafi þurft. Stefndi hafi því ekki upp á sitt eindæmi getað tekið ákvörðun innan stjórnarinnar.

         Hvað þá lánveitingu varðar sem stefna máls þessa lúti að þá bendir stefndi Karl á að hann hafi hvorki haft heimild til firmaritunar fyrir hönd félagsins né prókúruumboð. Honum hafi því verið ómögulegt að taka ákvarðanir upp á sitt einsdæmi um ráðstöfun fjármuna félagsins og það hafi hann ekki gert. Mál er tengdist lánveitingunni hafi aldrei verið tekið fyrir í stjórn félagsins með formlegum hætti.

         Stefndi telur það ósannað að ákvörðun um lánveitingu hafi valdið Milestone ehf. tjóni. Hafi Milestone ehf. orðið fyrir tjóni vegna umrædds láns þá geti slíkt tjón eingöngu tengst því að ekki hafi verið gengið nægilega fast eftir því að innheimta lánið. Innheimta á skuldum sé ekki hluti af starfsskyldum stjórnar og því ekki á ábyrgð stjórnarmanna hafi slíkt ekki verið gert. Þó beri að hafa í huga að mál þetta byggist ekki á því að skuldin hafi ekki verið innheimt, heldur því að lán hafi verið veitt. Því geti ekki komið til skoðunar í máli þessu hvort það kunni að hafa verið saknæmt að fara ekki í innheimtuaðgerðir á hendur Milestone Import Export Ltd. Það sé þó deginum ljósara að lánveitingin hafi ekki verið saknæm og að það hafi ekki verið sennileg afleiðing af henni að Milestone ehf. yrði fyrir tjóni.

         Þá byggir stefndi á því að ekki verði séð að stefnandi hafi gert neina tilraun til þess að innheimta það lán sem hafi verið veitt Milestone Import Export Ltd. Því liggi ekkert fyrir um það hvort greiðslufall verði af félagsins hálfu. Meðan innheimta sé ekki reynd sé ekki hægt að láta stefnda bera ábyrgð á ætluðu tjóni stefnanda sem óvissa ríki um og stefnandi hafi ekki gert neina tilraun til að takmarka. Stefndi bendir sérstaklega á að þar sem ekki verði séð að greiðslukröfu hafi enn verið beint að skuldara lánsins sé mögulegt að krafa stefnanda á grundvelli samningsins hafi fyrnst eða sé að fyrnast í meðförum stefnanda. Ætlað tjón sem af því kunni að leiða sé þá alfarið sökum eigin sakar stefnanda og verði stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir því. Sú staðreynd að stefnandi virðist hafa brunnið inni á riftunarfresti hvað varði ætlaða kröfu á hendur Ingunni Wernersdóttur, sbr. þágildandi 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga, leiði til sömu niðurstöðu. Í öllu falli verði að sýkna stefnda Karl að svo stöddu þar til eitthvað liggi fyrir um stöðu og greiðslugetu skuldara lánsins, Milestone Import Export Ltd.

         Af hálfu stefnda Karls er lögð áhersla á að rekstrar- og efnahagslegt umhverfi fyrirtækja hafi breyst gríðarlega síðastliðin ár. Aðstæður í þjóðfélaginu, og raunar í heiminum öllum, séu allt aðrar en þær voru þegar ákvörðun um lánveitingu var tekin. Mat á því hvort ákvörðun sé skaðabótaskyld eða ekki verði að miðast við aðstæður á þeim tíma sem ákvörðun var tekin en ekki á þeim tíma þegar mál er höfðað eða síðar.

         Verði ekki fallist á að sýkna stefnda að öllu leyti er á því byggt til vara að lækka beri kröfur stefnanda verulega. Sú krafa sé annars vegar á því byggð að aðeins hluti þeirra fjármuna sem Ingunn Wernersdóttir hafi tekið við sem gagngjaldi fyrir eignarhluti sína, hafi verið vegna eignarhluta í Milestone ehf., eða 2.644.954.445 krónur. Verði talið að um hafi verið að ræða lánveitingar í andstöðu við 79. gr. laga um einkahlutafélög takmarkist ólögmætið við þann hluta. Hins vegar sé krafan á því reist að rekja megi að minnsta kosti stærstan hluta ætlaðs tjóns til eigin sakar stefnanda. Þannig hafi stefnandi látið hjá líða að innheimta það lán sem um ræðir auk þess sem hann hafi ekki höfðað riftunarmál á hendur Ingunni Wernersdóttur innan málshöfðunarfrests þágildandi 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

         Stefndi Karl mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega. Þannig sé upphafsdögum dráttarvaxtakröfu hafnað sem röngum auk þess sem á því er byggt að hluti umkrafinna vaxta sé fyrndur. 

4. Helstu málsástæður stefnda, Steingríms Wernerssonar

         Af hálfu stefnda Steingríms er í fyrstu á það bent að fyrir gjaldþrot Milestone ehf. hafi hann verið skráður fyrir um 40% hlut í félaginu á móti bróður sínum Karli Wernerssyni, sem hafi átt um 60% hlut í því á því tímabili sem hér um ræðir, persónulega og í gegnum félög á þeirra vegum. Steingrímur hafi verið skráður í stjórn félagsins sem varamaður. Hann hafi hvorki haft á hendi framkvæmdastjórn Milestone ehf. né hafi haft prókúru fyrir félagið eða komið að bókhaldi þess. Hann kveðst hins hafa verið starfsmaður félagsins og hafa haft með höndum afmarkaða þætti í starfsemi þess er lutu m.a. að rekstri Lyfjum og heilsu, s.s. innflutning lyfja, en hann sé menntaður lyfjafræðingur.

         Stefndi Steingrímur kveðst þannig hafa verið svonefndur „silent partner“ í Milestone ehf., þar sem bróðir hans, stefndi Karl og starfsmenn félagsins, einkum þeir Guðmundur Ólason og Jóhannes Sigurðsson, hafi alfarið séð um rekstur félagsins og borið ábyrgð á rekstri þess gagnvart stjórn og eigendum. Hafi stefndi Steingrímur því hvergi komið að raunverulegri stjórn Milestone ehf. Kveðst hann hafa undirritað öll skjöl sem bróðir hans hafi beðið hann um að undirrita og nauðsynlegt hafi verið að hann undirritaði sem stjórnarmaður í Milestone ehf., án þess að hann hafi gert sér fullkomna grein fyrir því hvaða skjöl var um að ræða hverju sinni.

         Stefndi Steingrímur tekur undir það með öðrum stefndu að umræddar greiðslur Milestone ehf. hafi ekki verið lán til stefndu Ingunnar og vísar þar til málatilbúnaðar stefndu Ingunnar og Karls. Í greinargerð sinni tekur stefndi Steingrímur enn fremur undir röksemdir stefnda Karls fyrir því að málshöfðunarfrestur 110. gr. laga nr. 138/1994 hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað. Enn fremur tók hann undir önnur sjónarmið stefnda Karls um að vísa bæri málinu frá dómi.

         Í greinargerð stefnda Steingríms er því einnig haldið fram að ekki sé unnt að hafa uppi kröfu á grundvelli 79. gr. laga nr. 138/1994 á sama tíma og gerð sé krafa á grundvelli 108. gr. sömu laga. Ekki sé því unnt að hafa uppi kröfu á hendur stefndu Ingunni á þeim grunni að um ólögmætt lán sé að tefla á sama tíma og skaðabótakröfu sé beint að öðrum stefndu. Í því sambandi bendir stefndi á að í 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 sé gert ráð fyrir því að sá sem hafi fengið ólögmætt lán verði krafinn um endurgreiðslu þess. Sé ekki unnt að endurgreiða lánið séu þeir „sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir skv. 1. mgr. ábyrgir fyrir tapi félagsins“ sbr. 5. mgr. sömu laga.

         Í þessu sambandi telur stefndi Steingrímur rétt að hafa í huga að skiptastjóri stefnanda hafi ekki gert tilraun til þess að innheimta lánin hjá stefndu Ingunni (fyrr en nú) jafnframt því sem stefndi Steingrímur hafi hvergi komið nærri „lánveitingum“ þessum f.h. Milestone ehf. Hann hafi hvorki vitað né mátt vita af „lánveitingum“ til stefndu Ingunnar, enda ekkert í gögnum málsins sem renni stoðum undir það að stefndi Steingrímur hafi komið að ákvörðun um lánveitingar til hennar eða haft milligöngu um lánveitingarnar („gerðu eða framkvæmdu“). Þegar af þessari ástæðu verði hann ekki gerður ábyrgur fyrir meintu tjóni stefnanda vegna þess.

         Sýknukröfu sína reisir stefndi Steingrímur á sömu forsendum og komi fram hjá öðrum stefndu þess efnis að ekki hafi verið um nein lán að ræða til stefndu Ingunnar. Þvert á móti telur hann að Milestone ehf. hafi lánað Milestone Import Export Ltd. fjármuni. Þær ráðstafanir hafi verið eðlilegar og fullkomlega löglegar vegna viðskipta með hluti í Milestone ehf. Þá áréttar stefndi að hann hafi hvergi komið að töku ákvarðana um þessa fjármálagjörninga, útfærslu þeirra eða framkvæmd. Útilokað sé að stefndi Steingrímur geti með einum eða öðrum hætti orðið ábyrgur fyrir meintu tjóni stefnanda vegna þessara gjörninga.

         Stefndi mótmælir því enn fremur að hann geti orðið ábyrgur á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og 108. gr. laga nr. 138/1994. Áréttar stefndi Steingrímur í því sambandi að hann hvorki vitað né hafi mátt vita um hina umdeildu fjármálagjörninga sem mál þetta lúti að. Hafi hann ekki vitað um þá fyrr en við lestur á stefnu þessa máls. Útilokað sé að stefndi geti með einum eða öðrum hætti orðið ábyrgur fyrir meintu tjóni stefnanda vegna fjármálagjörninga þessara.

         Svo sem áður er rakið kveður stefndi Steingrímur að stefnanda hafi borið að reyna innheimtu hjá stefndu Ingunni, sbr. 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, þ.e. að endurkrefja Ingunni um hið meinta ólögmæta lán. Það virðist skiptastjóri ekki hafa gert fyrr en með máli þessu. Komi í ljós að stefnda Ingunn geti ekki endurgreitt lánin sé skiptastjóra fyrst kleift að ganga að þeim aðilum persónulega sem hafi haft milligöngu um lán Milestone ehf. til stefndu Ingunnar, þ.e. ganga að þeim „sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir skv. 1. og 2. mgr.“ og báru persónulega ábyrgð á tapi félagsins, sbr. 5. mgr. 79. gr. laganna. Svo sem áður er lýst hafi stefndi Steingrímur hvergi komið þar nærri og verði þar af leiðandi aldrei gerður ábyrgur fyrir lánum þessum.

         Á því er byggt af hálfu stefnda Steingríms að skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð hans séu ekki fyrir hendi eins og málið liggi fyrir. Eigi það jafnt við um huglæga afstöðu hans, jafnframt sem stefnanda hafi hvorki tekist að sýna fram á né færa lögfulla sönnun fyrir staðhæfingum sínum um að orsakatengsl séu milli ætlaðrar háttsemi stefnda Steingríms og/eða athafnaleysis hans eða að meint tjón félagsins verði talið sennileg afleiðing háttseminnar.

         Stefndi Steingrímur kveður stefnanda verða tíðrætt um að hann hafi brotið gegn starfsskyldum sínum sem stjórnarmaður í Milestone ehf., og trúnaðarskyldum sínum gagnvart félaginu. Af hans hálfu er lögð áhersla á að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir öllum staðhæfingum sínum í þessu efni. Hafi stefnanda ekki tekist slík sönnun.

         Stefndi mótmælir enn fremur upphafstíma vaxta af bótakröfu stefnanda og gerir þá kröfu, fari svo að bótakrafa þessi verði tekin til greina að öllu leyti eða einhverju, að dæmdar bætur beri dráttarvexti frá dómsuppsögu, sbr. lokamálslið 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

         Stefndi Steingrímur krefst málskostnaðar með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá sé krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

5. Helstu málsástæður og lagarök stefnda, Guðmundar Ólasonar

         Stefndi Guðmundur tekur undir lýsingu í greinargerð stefnda Karls á tilefni og ástæðum þeirra greiðslna sem málið lýtur að. Hann gerir þó athugasemd við að ákvörðun um lánveitingu Milestone ehf. hafi ekki verið tekin í stjórn félagsins. Bendir stefndi Guðmundur á að viðskiptin snúi að uppgjöri á samningum milli stefndu Karls, Steingríms og Ingunnar. Ákvörðun um að greiða Ingunni fjármuni, og síðar lána þá fjármuni eða samþykkja yfirtöku Milestone Import Export Ltd. á þeirri skuld, hafi verið tekin af eigendum Milestone ehf. og stjórnarmönnum Milestone Import Export Ltd. Stjórn félagsins og hluthafafundur hafi samþykkt ársreikninga Milestone ehf. fyrir árin 2006 og 2007 en í þeim reikningum hafi skuldbindingar vegna lánsins til Milestone Import Export Ltd. verið færðar. Ákvarðanir um lánveitinguna hafi því verið teknar af stjórn og staðfestar af stjórn og hluthöfum Milestone ehf. í tengslum við ársuppgjör félagsins og í nánu samráði við endurskoðanda þess. Kveður stefndi Guðmundur að áritun endurskoðanda Milestone ehf. á ársreikninga félagsins fyrir árin 2006 og 2007 hafi verið án athugasemda.

         Í öndverðu krafðist stefndi Guðmundur, líkt og aðrir stefndu, frávísunar málsins á þeim grundvelli að málshöfðunarfrestur 110. gr. laga nr. 138/1994 hefði verið liðinn þegar málið var höfðað óháð síðari lagabreytingu. Eins og rakið hefur verið var fallið frá kröfu um frávísun málsins á þessum grunni.

         Sýknukrafa stefnda Guðmundar byggist einkum á því að ekki hafi verið um nein lán að ræða frá Milestone ehf. til Ingunnar Wernersdóttur eins og málssókn stefnanda grundvallist á. Þvert á móti hafi félagið lánað Milestone Import Export Ltd. fjármuni sem hafi verið greiddir út með þeim hætti sem lántaki hafi óskað eftir. Málshöfðunin sé því byggð á efnislega rangri forsendu og því beri að sýkna stefnda af kröfunni, enda ekki um nein slík lán að ræða.

         Stefndi Guðmundur byggir og á því að lánveiting Milestone ehf. til félagsins Milestone Import Export Ltd. hafi verið fyllilega lögmæt og ekki brotið gegn 79. gr. þágildandi laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Byggir stefndi á því að ákvæðið taki ekki til starfsemi Milestone ehf. þar sem því verði ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir. Milestone ehf. hafi verið eignarhaldsfélag sem hafi að langstærstum hluta átt eignir í fjármálafyrirtækjum og hafi stærsta eignin, Invik, verið skilgreind sem fjármálasamsteypa (e. financial conglomerate) í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2002/87/EC. Hafi staðið til að skilgreina Milestone ehf. með sama hætti um leið og tilskipunin yrði innleidd hér á landi.

         Verði talið að beita skuli ákvæðum 1. mgr. 79 gr. laganna byggir stefndi á því að félagið Milestone Import Export Ltd. falli ekki undir bannákvæði greinarinnar. Félagið hafi hvorki verið hluthafi í Milestone ehf. né falli það undir önnur tilvik sem talin séu upp í greininni. Þá vísar stefndi til þess að lánið hafi verið veitt á sterku og öflugu félagi á eðlilegum kjörum í eðlilegum tilgangi. Því hafi verið um venjulegt viðskiptalán að ræða í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.

         Stefndi Guðmundur hafnar því að ákvæði 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 geti átt við enda sé ekki byggt á því ákvæði í málatilbúnaði stefnanda. Milestone ehf. hafi auk þess ekki fjármagnað kaup á hlutabréfum í sjálfu sér eða móðurfélagi sínu, enda hafi lántaki ekki keypt bréfin.

         Stefndi Guðmundur mótmælir því að endurgreiðslukrafa geti byggst á 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 því að lánveitingin hafi ekki verið í andstöðu við 1. og 2. mgr. greinarinnar. Þá hafi það verið ákvörðun eigenda Milestone ehf., sem jafnframt hafi verið stjórnarmenn í félaginu, að veita umrætt lán. Stefndi hafi ekki setið í stjórn félagsins og ekki haft heimild til firmaritunar. Honum hafi því verið ómögulegt að taka ákvörðun um að ráðstafa fjármunum félagsins með þessum hætti. Ákvarðanir um innheimtu lánsins og greiðslufresti hafi verið í höndum stjórnarmanna og hluthafa félagsins. Engin fyrirmæli hafi komið frá stjórn eða hluthöfum um að innheimta lánið þannig að stefndi Guðmundur hafi ekki haft neinar heimildir til þess. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu endurskoðenda varðandi umrædda útborgun. Stjórn félagsins og hluthafar hafi staðfest lánveitinguna í tengslum við og með samþykki ársreikninga félagsins.

         Stefndi Guðmundur hafnar því enn fremur að hann hafi á nokkurn hátt brotið gegn 48. gr. eða 51. gr. laga nr. 138/1994 eða öðrum skyldum sínum sem framkvæmdastjóri félagsins. Áréttar stefndi að hann hafi ekki tekið þá ákvörðun sem hafi skuldbundið félagið til þeirrar lánveitingar sem málatilbúnaðar stefnanda byggi á. Þá vísar stefndi til þess að umrædd lánveiting hafi verið eðlileg á þeim tíma sem hún hafi farið fram, enda fjárhagsleg staða lántaka góð og ómögulegt á þeim tíma að sjá fyrir það tjón sem stefnandi telur sig síðar hafa orðið fyrir. Stefndi Guðmundur vísar til þess að aðstæður í þjóðfélaginu, og raunar í heiminum öllum, hafi gerbreyst og ekki sé hægt að meta skaðabótaskyldu út frá þeim forsendum sem nú liggi fyrir, en hafi ekki verið fyrirsjáanlegar á þeim tíma sem ákvörðun hafi verið tekin.

         Stefndi Guðmundur kveðst hafa unnið af heilindum fyrir félagið og byggt ákvarðanir sínar á viðskiptalegum forsendum. Stefndi hafi ekki setið í stjórn félagsins og ekki haft heimild til firmaritunar. Hann hafi því hvorki haft möguleika á því að taka ákvörðun um slíkar lánveitingar, né yfirhöfuð nokkurn áhuga á því. Þá vísar stefndi til þess að endurskoðendur félagsins hafi ekki gert athugasemdir um að færa þyrfti kröfu á hendur Milestone Import Export Ltd. niður vegna óvissu um innheimtu hennar í ársreikningum félagsins fyrir árin 2006 og 2007 eða í endurskoðuðu sex mánaða uppgjöri 2008. Krafan hafi því alltaf verið færð í bækur félagsins á uppreiknuðu virði.

         Þá byggir stefndi á því að það sé algerlega ósannað að ákvörðun um lánveitingu hafa valdið Milestone ehf. tjóni. Ekkert liggi fyrir um hvort reynt hafi verið að innheimta lánið hjá félaginu af hálfu stefnanda. Þá bendir stefndi á að riftunarfrestir á hendur Ingunni Wernersdóttur, sbr. þágildandi 148. gr. gjaldþrotaskipta, virðast hafa liðið án þess að reynt hafi verið að höfða mál á hendur henni á þeim grundvelli.

         Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er á því byggt að lækka beri fjárkröfur stefnanda verulega. Er sú krafa byggð á því að einungis hluti þeirra fjármuna sem Ingunn Wernersdóttir hafi móttekið sem gagngjald fyrir eignarhluti sína, hafi verið vegna eignarhluta í Milestone ehf. eða 2.644.954.445 krónur. Verði talið að um hafi verið að ræða lánveitingar í andstöðu við 79. gr. laga nr. 138/1994 takmarkist ólögmætið við þann hluta. Hins vegar er krafan byggð á því að stærsta hluta tjónsins megi rekja til vanrækslu stefnanda sjálfs við að innheimta kröfuna bæði gagnvart lántaka og stefndu Ingunni Wernersdóttur.

         Stefndi Guðmundur mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega. Þannig sé upphafsdögum dráttarvaxtakröfu hafnað sem röngum auk þess sem á því er byggt að hluti umkrafinna vaxta sé fyrndur.

         Um málskostnað vísar stefndi Guðmundur til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

IV

         Mál þetta var í öndverðu aðallega höfðað af stefnanda á þeim grunni að greiðslur þær, sem ágreiningslaust er að Milestone ehf. greiddi stefndu Ingunni á tímabilinu frá janúar 2006 til desember 2007, hafi verið ólögmætt lán samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem henni bæri að endurgreiða á grundvelli 4. mgr. sömu greinar. Fjárkröfunni var beint að öðrum stefndu á grundvelli 5. mgr. 79. gr. sömu laga. Enn fremur reisti stefnandi fjárkröfu sína á hendur öllum stefndu á þeirri forsendu að þeir hefðu, með því að ráðstafa fjármunum Milestone ehf. á þennan hátt, valdið félaginu tjóni sem þeim sé skylt að bæta stefnanda. Var þá annars vegar vísað til hinnar almennu skaðabótareglu og hins vegar til 108. gr. laga nr. 138/1994.               

         Þrátt fyrir þessa afmörkun í stefnu kemur þar þó fram að yrðu greiðslurnar raktar til uppgjörs á kaupsamningum um hlutabréf í Milestone ehf. og fleiri félögum milli stefndu Ingunnar annars vegar og stefndu Karls og Steingríms hins vegar þá væru þær einnig ólögmætar. Þar segir að hafi svo verið verði að líta svo á að Milestone ehf. hafi verið „látið fjármagna kaup á hlutum í sjálfu sér og móðurfélagi sínu en það er óheimilt skv. 2. mgr. 79. gr.“ laga nr. 138/1994. Þessi þráður er síðan tekinn upp síðar í stefnunni, þar sem færð eru rök fyrir skaðabótaábyrgð allra stefndu. Þar segir að hafi greiðslur Milestone ehf. til Ingunnar „í raun verið greiðsla“ vegna framangreindra kaupa stefndu Karls og Steingríms á hlutum í Milestone ehf. og fleiri félögum sé „háttsemin augljóslega skaðabótaskyld og jafnvel refsiverð“. Hafi stefndu Karli og Steingrími verið „óheimilt að láta Milestone ehf. greiða fyrir hluti í sjálfu sér og stefndu Ingunni óheimilt að taka við greiðslu frá félaginu“. Jafnframt hafi stefnda Guðmundi sem framkvæmdastjóra Milestone ehf. verið óheimilt „að ljá atbeina sinn til slíkra greiðslna eða láta þær óátaldar“.

         Samkvæmt framansögðu er í stefnu ekki talið útilokað að Milestone ehf. hafi látið fjármunina af hendi í því skyni að efna kaupsamninga við stefndu Ingunni í þágu stefndu Karls og Steingríms en ekki til að veita henni peningalán. Að mati stefnanda breytir það hins vegar ekki því að greiðslurnar hafi verið ólögmætar og skaðabótaskyldar á grundvelli 108. gr. laga nr. 138/1994 með þeim rökum sem að framan greinir og fjallað er um í stefnu. Að þessu leyti er af hálfu stefnanda teflt fram málsgrundvelli til vara fyrir fjárkröfu þrotabúsins. Fyrirmæli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, hindra ekki að stefnandi hagi málatilbúnaði sínum með þessum hætti. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ber einnig að hafna þeirri málsvörn stefndu að málatilbúnaður stefnanda sé alfarið reistur á þeirri röngu forsendu að um ólögmæta lánveitingu til stefndu Ingunnar sé að ræða. Kemur því ekki til álita, líkt og stefndu byggja á, að sýkna stefndu á þeim grunni að fyrir liggi að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi samkvæmt kaupsamningi en að ekki hafi verið um lán til stefndu Ingunnar að ræða, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 28. apríl 2016 í málinu nr. 74/2015.

         Með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, verður að líta svo á að úrlausn Hæstaréttar Íslands frá 28. apríl 2016 í framangreindum dómi um þau atvik sem reynir á í þessu máli hafi fullt sönnunargildi og að leggja beri hana til grundvallar nema að annað sannist. Í framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands er ítarlega fjallað um samninga þá sem stefnda Ingunn gerði við bræður sína, stefndu Karl og Steingrím, 4. desember 2005. Þar kemur fram að hver þeirra fjögurra samninga sem þar eru til umfjöllunar hafi átt að skoðast sem kaupsamningur frá þeim tíma sem tilkynnt yrði um að neytt væri kaupréttar eða söluréttar samkvæmt þeim. Ágreiningslaust er í máli þessu að stefnda tilkynnti ávallt í tæka tíð um að hún neytti söluréttar síns, enda fóru greiðslur fram eftir því sem ákveðið var í samningunum frá 6. janúar 2006. Í dóminum er því slegið föstu að allir þessir samningar hafi þannig orðið sjálfkrafa kaupsamningar um hlutabréfin sem um ræddi. Samkvæmt hljóðan sinni hafi þeir ekki lagt neinar skuldbindingar á Milestone ehf., heldur eingöngu á stefndu Karl og Steingrím. Á það er bent að bræðurnir hafi þó eftir ákvæðum samninganna getað tilgreint „aðra aðila sem kaupendur, þ.m.t. Milestone ehf., Leiftra Ltd., eða önnur félög“ sem þeir kynnu að eiga eða myndu stofna.

         Í dóminum er því næst vikið að því hvort stefndu Karl og Steingrímur hafi neytt framangreindrar heimildar til að tilgreina annan aðila sem kaupanda hlutabréfanna. Er á það bent að ekkert skjalfest liggi fyrir um að slík aðilaskipti hafi verið gerð. Enn fremur er vísað til þess að samkvæmt almennum reglum fjármunaréttar sé ekki unnt að líta svo á að þessi heimild hafi staðið lengur en til þess tíma er kaupsamningur taldist kominn á. Hafi stefndu Karli og Steingrími síðan verið frjálst hvenær sem var eftir þann tíma að framselja hlutabréfin sem keypt voru.

         Í dómi Hæstaréttar Íslands er vikið að ýmsum gögnum er tengjast áætlunum um skiptingu hlutabréfanna og kaupverðsins eftir að kaupsamningar komust á. Þar virðist í fyrstu hafa verið við það miðað að kaupverðið skiptist milli „félaganna“ annars vegar og stefndu Karls og Steingríms hins vegar með nánar tilgreindum hætti. Með félögunum var þá vísað til Milestone ehf., Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. Jafnframt er þar vikið að fleiri gögnum, þar á meðal hlutaskrá félaganna og öðrum upplýsingum um eignarhald á þeim eftir viðskiptin. Rétturinn dregur síðan eftirfarandi ályktun:

Að virtu því, sem hér var greint frá, var á öllum stigum eftir gerð samninganna 4. desember 2005 mjög á reiki hver ætti að teljast hafa keypt hlutabréf [Ingunnar] í Milestone ehf., Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., hvenær það hafi gerst og fyrir hvaða verð. Ýmist virðist hafa verið lagt til grundvallar að ákærðu Karl og Steingrímur hafi einir keypt bréfin, þeir tveir ásamt félögunum einhverjum eða öllum eða eingöngu Leiftri Ltd. Síðastnefndi kosturinn virðist þó ekki hafa komið upp að ráði fyrr en í tölvubréfum 23. og 24. október 2007 eftir að skylda til greiðslu kaupverðs hafði þegar verið efnd að nær öllu leyti. Útilokað er að líta svo á að ákærðu Karl og Steingrímur hafi á einhverju stigi í orði eða verki neytt heimildar samkvæmt samningnum frá 4. desember 2005 til að flytja réttindi sín og skyldur vegna kaupanna yfir á eitthvert tiltekið félag á sínum vegum. Verður þannig að leggja til grundvallar að ákærðu Karl og Steingrímur hafi að lögum í raun verið kaupendur hlutabréfanna, svo sem leiddi einnig af meginefni þessara samninga eftir orða þeirra hljóðan. Skuldbinding ákærðu Karls og Steingríms til að greiða kaupverðið, sem mælt var fyrir um í samningnum, hvíldi aldrei á Milestone ehf.

         Í máli þessu hafa ekki verið færðar sönnur á að atvik hafi verið með öðrum hætti en hér er lýst. Samkvæmt framansögðu ber að leggja til grundvallar að með tilkynningum stefndu Ingunnar í samræmi við þá fjóra samninga sem gerðir voru 4. desember 2005, og lýst er í dómi Hæstaréttar, hafi stefndu Karl og Steingrímur keypt af stefndu Ingunni í fyrsta lagi 10,306% hlut í Milestone ehf. 6. janúar 2006 fyrir 1.867.026.667 krónur, í öðru lagi 9,33% hlut í Leiftra Ltd. og 9,33% hlut í Milestone Import Export Ltd. 1. júlí 2006 fyrir 742.675.667 krónur, í þriðja lagi 18,67% hlut í Leiftra Ltd. og 18,67% hlut í Milestone Import Export Ltd. fyrir 1.485.351.333 krónur 6. janúar 2007 og í fjórða lagi 4,294% hlut í Milestone ehf. fyrir 777.927.778 krónur 6. janúar 2007. Kaupverðið var bundið vísitölu neysluverðs miðað við nóvember 2005. Aldrei á nokkru stigi málsins hvíldi á Milestone ehf. að inna af hendi umsamið kaupverð. Félagið var eftir sem áður látið greiða kaupverðið með þeim hætti sem lýst hefur verið í kafla II. Fullyrðing sumra stefndu um að félagið Leiftri Ltd. hafi í raun keypt umrædd hlutabréf, en að félagið Milestone Import Export Ltd. hafi fjármagnað kaupin, fær samkvæmt framansögðu ekki staðist.

         Þar sem ekki var um peningalán til stefndu Ingunnar, heldur endurgjald fyrir hlutabréf í framangreindum félögum sem hún afhenti í samræmi við samningsskyldur sínar, kemur ekki til álita að henni verði með dómi gert að endurgreiða stefnanda fjármunina á grundvelli 1. og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

         Í stefnu er jafnframt á því byggt, eins og áður segir, að Milestone ehf. hafi verið látið fjármagna kaup stefndu Karls og Steingríms á hlutabréfum í félaginu í andstöðu við 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Í fyrsta málslið þess ákvæðis er lagt bann við því að einkahlutafélag veiti lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess. Með framangreindri tilvísun í stefnu má vera ljóst að á því er byggt af hálfu stefnanda að með greiðslunum hafi Milestone ehf. lánað stefndu Karli og Steingrími kaupverð bréfanna í Milestone ehf., andstætt framangreindu ákvæði, með því að efna skyldu þeirra við kaupin. Hins vegar er í stefnu ekki á því byggt að Milestone ehf. hafi með þessu lánað stefndu Karli og Steingrími fjármuni sem hluthöfum í félaginu í andstöðu við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Kemur sú málsástæða því ekki til álita við úrlausn málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, enda var ekkert því til fyrirstöðu að byggja á henni þegar í öndverðu.

         Að því marki sem greiðslurnar áttu rætur að rekja til kaupa bræðranna á hlutabréfum í Milestone ehf. ber að fallast á að með þeim hafi félagið veitt þeim lán til að fjármagna kaup þeirra á hlutum í félaginu. Fór það í bága við framangreinda 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi var Milestone ehf. eignarhaldsfélag, en hvorki innlánsstofnun né fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Undantekning 7. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 verður ekki túlkuð svo rúmt að hún hafi getað tekið til Milestone ehf. Áform um breytingar í þá veru að félagið fengi stöðu svonefndrar fjármálasamsteypu breytir engu í þessu efni.

         Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið hvílir sú skylda á stefndu Karli og Steingrími að endurgreiða þetta lán samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Endurgreiðslukrafa þessi var ófyrnd þegar mál þetta var höfðað, sbr. 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér á við. Krafa á hendur bræðrunum, sem á rætur að rekja til greiðslna vegna kaupa þeirra á hlutabréfum í Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., fær hins vegar ekki stoð í framangreindri málsástæðu. Því verður að taka sérstaklega afstöðu til þess hvort þeir kunni að hafa bakað sér skaðabótaábyrgð með þeim ráðstöfunum sem um er deilt auk þess sem úrlausn þeirrar málsástæðu ræður því hvort fallast megi á kröfugerð á hendur öðrum stefndu. 

         Ágreiningslaust er í máli þessu hvernig greiðsla kaupverðsins var færð til bókar í reikningsskilum Milestone ehf. Eins og því er lýst í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016 var fjárhæð greiðslnanna, sem Milestone ehf. innti af hendi á árinu 2006, sem og skuldbindingar sem félagið gekkst undir við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vegna láns stefndu Ingunnar til þess félags, færð jafnharðan á biðreikning í bókhaldi Milestone ehf. Heildarfjárhæð þessara greiðslna mun hafa staðið þannig óhreyfð fram á árið 2007. Með árslokafærslu, sem er dagsett 31. desember 2006, var heildarfjárhæð þessara greiðslna á árinu, samtals 2.733.326.804 krónur, færð í einu lagi af biðreikningnum og inn á viðskiptareikning Milestone Import Export Ltd. Það félag var þá alfarið í eigu stefndu Karls og Steingríms og skráð á Bresku Jómfrúaeyjum. Farið var eins með greiðslurnar sem inntar voru af hendi til Ingunnar á árinu 2007. Þær voru í fyrstu færðar á biðreikning í bókhaldinu, en með lokafærslu 31. desember 2007 var heildarfjárhæð þessara greiðslna, 2.462.395.055 krónur, færð sem krafa á viðskiptareikning Milestone Import Export Ltd.

         Í dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016 er jafnframt gerð grein fyrir samskiptum starfsmanns endurskoðunarfyrirtækis og starfsmanna Milestone ehf. á árinu 2007, þar sem rætt var um hvernig færa mætti kröfu félagsins yfir á Milestone Import Export Ltd. Þeirri umræðu lauk með því að gerður var lánssamningur 23. maí 2007 milli framangreindra félaga, sem dagsettur var 30. desember 2006, þar sem fram kom að Milestone Import Export Ltd. tæki 2.733.326.804 krónur, þ.e. heildarfjárhæð greiðslnanna á árinu 2006, að láni hjá Milestone ehf. Skyldi lánið endurgreitt 15. desember 2007. Í dóminum er rakið að stefndi Guðmundur hafi undirritað samninginn fyrir hönd Milestone ehf. en nafngreindur starfsmaður Milestone ehf. hafi undirritað fyrir hönd Milestone Import Export Ltd. Ekkert liggi hins vegar fyrir um að viðkomandi starfsmaður félagsins hafi haft umboð til þess að skuldbinda Milestone Import Export Ltd. á þennan hátt. Þá liggi einungis fyrir drög að samningi 31. desember 2007, sem ekki sé undirritaður af hálfu lántakans Milestone Import Export Ltd., um þær greiðslur sem inntar hafi verið af hendi til stefndu Ingunnar á árinu 2007, samtals 2.4462.395.055 krónur. Af þessum sökum hafi ríkt mikil óvissa um það hvort Milestone ehf. eða lánardrottnum þess félags væri yfirhöfuð unnt að innheimta ætlaða kröfu á hendur Milestone Import Export Ltd.

         Eftir sem áður er í dómi Hæstaréttar hugað nánar að því hvers virði krafa Milestone ehf. á hendur Milestone Import Export Ltd. gæti hafa verið eftir að skilríki fyrir 2.733.326.804 krónum af henni lágu fyrir 23. maí 2007. Þar er fjallað nánar um það sem fyrir liggur úr fábreyttu bókhaldi þessa félags og um fjárhag þess. Er meðal annars á það bent að eina eign félagsins á þessum tíma hafi verið krafa á hendur Leiftra Ltd. á grundvelli láns að fjárhæð rúmlega sjö og hálfur milljarður króna samkvæmt samningum 22. júní og 3. nóvember 2005. Leiftri ehf. mun 23. maí 2007 hafa alfarið verið í eigu stefndu Karls og Steingríms. Því er lýst í dóminum að lán þetta hafi í fyrstu komið fram í reikningsskilum Leiftra Ltd., en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2006 hafi þess ekki verið lengur getið. Þar hafi aftur á móti verið færð tiltekin fjárhæð í evrum til tekna vegna afskriftar á ótilgreindum kröfum á hendur Leiftra Ltd. Enn fremur eru í dómi Hæstaréttar raktar upplýsingar frá árinu 2007 um áform þess efnis að flytja kröfu Milestone Import Export Ltd. á óútskýrðan hátt yfir í nýtt félag og sameina það Leiftra Ltd. til að losna við kröfuna án þess að greiða hana. Þó að þessar ráðagerðir hafi ekki náð fram að ganga er í dómi réttarins talið að ráða megi eitthvað af þessu um með hvaða hug krafa Milestone Import Export Ltd. á hendur Leiftra Ltd. hafi verið bókfærð. Þessu næst segir í dómi Hæstaréttar Íslands:

Þegar framangreind atriði eru virt í heild er óhjákvæmilegt að líta svo á að í raun hafi kröfuréttindi Milestone ehf. á hendur Milestone Import Export Ltd. samkvæmt ætluðum lánssamningum dagsettum 30. desember 2006 og 31. desember 2007 verið orðin tóm og því einskis virði. Með því að búið var á þennan hátt um réttindi Milestone ehf. vegna greiðslna félagsins til [Ingunnar] og skuldbindinga þess í hennar þágu á tímabilinu frá 6. janúar 2006 til 6. desember 2007 var ekki aðeins sköpuð augljós og stórfelld hætta á fjártjóni félagsins, heldur varð sú hætta að auki að veruleika með því að Milestone Import Export Ltd. var tekið til gjaldþrotaskipta 11. apríl 2011, en ekkert í málinu bendir til að þrotabú félagsins hafi getað eða muni nokkuð geta greitt upp í kröfu þrotabús Milestone ehf. af þessu tilefni.

         Aðilar máls þessa hafa ekki fært sönnur á að atvik hafi verið önnur en hér er lýst. Í þessu ljósi verður að leggja til grundvallar að Milestone ehf. hafi með framangreindum ráðstöfunum verið látið greiða kaupverð hlutabréfanna samkvæmt samningunum 4. desember 2005, sem hafi við kaupin orðið eign stefndu Karls og Steingríms, án þess að leitast væri við að tryggja þá augljósu hagsmuni félagsins að það fengi fjármunina greidda til baka eða að öðrum kosti eitthvert endurgjald er svaraði kaupverðinu. Breytir engu í því sambandi þó að reynt hafi verið að láta Milestone Import Export Ltd., er laut yfirráðum stefndu Karls og Steingríms, taka á sig skyldu til að greiða Milestone ehf. þessa fjármuni til baka, enda gat krafa Milestone ehf. á hendur því félagi í raun ekki verið neins virði. Þessar ráðstafanir voru bersýnilega til þess fallnar að afla hluthöfum Milestone ehf., stefndu Karli og Steingrími, ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins, auk þess að fela í sér misnotkun á aðstöðu innan félagsins í viðskiptum með hluti í því og öðrum félögum innan sömu samstæðu.

         Samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 er stofnendum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum skylt að bæta einkahlutafélagi það tjón sem þeir hafa valdið því í störfum sínum hvort sem það er af ásetningi eða gáleysi. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar gildir hliðstæð bótaregla um hluthafa gagnvart félaginu nema að þar er gerð krafa um að viðkomandi hafi sýnt að minnsta kosti af sér stórfellt gáleysi og að tjóninu sé valdið með broti á lögum nr. 138/1994 eða samþykktum félagsins.

         Eins og rakið hefur verið voru greiðslurnar til stefndu Ingunnar ekki lán heldur var með þeim verið að efna kaupsamninga um hlutabréf í Milestone ehf., Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd. Stefnanda var því ófært að takmarka tjón sitt af framangreindum ráðstöfunum með því að innheimta kröfu á hendur stefndu Ingunni á grunni 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, eins og stefndu hafa vísað til. Eins og rakið hefur verið var ætluð krafa Milestone ehf. á hendur Milestone Import Export Ltd. reist á óljósum grunni. Samkvæmt framlagðri skýrslu skiptastjóra Milestone Import Export Ltd. krafðist stefnandi þess, 3. desember 2009, að Milestone Import Export Ltd. greiddi lán samkvæmt lánssamningi 30. desember 2006. Þar sem ekki bárust viðbrögð við þeirri kröfu var 11. apríl 2011 farið fram á að skipaður yrði skiptastjóri á grundvelli gjaldþrotalaga Bresku Jómfrúaeyja. Skiptastjóri var skipaður og skipun hans auglýst í samræmi við lögin 28. apríl og 15. maí 2011. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 74/2015 kemur fram að ekkert í málinu bendi til þess að nokkuð fáist greitt upp í kröfu stefnanda. Stefndu hafa ekki hnekkt þessari ályktun við meðferð málsins. Þá áréttar dómurinn að Milestone ehf. fékk ekkert endurgjald fyrir þá fjármuni sem félagið var látið inna af hendi, auk þess sem ekkert er fram komið um að Milestone ehf. hafi fengið arð eða aðrar greiðslur er tengjast þessum fjárútlátum. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn nægjanlega fram komið að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna fjármögnunar Milestone ehf. á kaupum stefndu Karls og Steingríms á umræddum hlutabréfum og að tjónið nemi heildarfjárhæð greiðslnanna, 5.195.721.859 krónum.

         Eins og rakið hefur verið voru stefndu Karl og Steingrímur hluthafar í Milestone ehf. og sátu í stjórn félagsins auk þess sem þeir nutu góðs af framangreindum ráðstöfunum. Eftir því sem fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016 var stefndi Karl að auki með prókúru fyrir Milestone ehf. Stefndi Guðmundur var framkvæmdastjóri Milestone ehf. á þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi og færðar í bókhald félagsins á þann veg sem raun ber vitni auk þess að vera með prókúru fyrir félagið. Allir þessir stefndu gátu samkvæmt stöðum sínum hjá félaginu bakað sér bótaábyrgð á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Þá hafa þeir verið sakfelldir með dómi Hæstaréttar Íslands 26. apríl 2016 fyrir þá háttsemi sem þeim var gefin að sök með ákæru 5. júlí 2013. Þar kemur fram að þeim hafi ekki á nokkurn hátt getað dulist að með framangreindum ráðstöfunum hafi félaginu verið sköpuð augljós og stórfelld hætta á fjártjóni sem jafnframt hafi orðið að veruleika. Þess ber þó að geta að stefndi Steingrímur var ekki í aðstöðu til að gera ráðstafanir sem Milestone ehf. yrði bundið af, þótt hann hafi sem stjórnarmaður getað tekið ákvarðanir um þær. Því var hann sakfelldur sem hlutdeildarmaður í brotum annarra gegn 249. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna.

         Gögn málsins gefa ekki skýra mynd af því með hvaða hætti ákveðið var að Milestone ehf. legði til fjármagn til að kaupa hlutabréfin af stefndu Ingunni. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi virðist ákvörðun þess efnis ekki hafa verið tekin á stjórnarfundi. Stefndu Karl og Steingrímur báru sem stjórnarmenn hins vegar ábyrgð á því að starfsemi félagsins væri í réttu og góðu horfi og að nægjanlegt eftirlit væri haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þá skyldu báru þeir þótt vanhöld hafi verið á því að mál væru tekin fyrir á stjórnarfundum. Í ljósi fyrrgreindrar stöðu stefndu Karls og Steingríms hjá Milestone ehf., þeirra hagsmuna sem þeir áttu af kaupum hlutabréfanna og vitneskju þeirra um efni samninganna 4. desember 2005 og þau viðskipti sem fylgdu í kjölfarið, verður að fallast á með stefnanda að þeir beri, á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994, skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hlaust af því að félaginu var gert að fjármagna kaup þeirra á hlutabréfunum án þess að gæta nægjanlega að hagsmunum félagsins. Telur dómurinn að röksemdir stefnda Steingríms, er lúta að því að hann geti ekki borið ábyrgð á tjóninu, þar sem hann hafi ekki verið virkur hluthafi í félaginu, hann hafi gegnt þar takmörkuðu hlutverki og einungis skrifað undir þá gerninga sem fyrir hann voru lagðir án þess að kynna sér efni þeirra, séu haldlausar.       

         Sem framkvæmdastjóri Milestone ehf. bar stefndi Guðmundur ábyrgð á daglegum rekstri og reikningsskilum félagsins. Á honum hvíldi trúnaðarskylda gagnvart félaginu sem gekk framar skyldum gagnvart eigendum hlutafjár í félaginu. Bar honum því að gæta þess að fjármunum félagsins væri ekki stefnt í voða í þágu hagsmuna eigenda eftir því sem honum var frekast unnt. Ganga verður út frá því að stefnda Guðmundi hafi verið kunnugt um greiðslurnar til stefndu Ingunnar og að þær ættu rætur að rekja til samninganna frá 4. desember 2005. Hann sendi m.a. áætlun um greiðslur kaupverðsins til fjármálastjóra félagsins 30. desember 2005, eins og lýst er í dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016. Þar er einnig lýst samskiptum hans við starfsmenn félagsins sem og við stefnda Karl í lok árs 2006 og í byrjun árs 2007 vegna óvissu um hvað gera ætti vegna hagsmuna félagsins af þeim fjárútlátum sem það hafði verið látið bera frá janúar 2006 til janúar 2007. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi mælt gegn því að fjármunir Milestone ehf. væru notaðir á þann hátt sem fyrir liggur án þess að hagsmunir félagsins væru tryggðir.

         Með þessu brást stefndi Guðmundur framangreindum skyldum sínum gagnvart Milestone ehf. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður stefndi Guðmundur, ásamt stefndu Karli og Steingrími, talinn hafa valdið félaginu tjóni sem hlaust af framangreindum greiðslum á árinu 2006 og 2007, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994, þannig að leiði til skaðabótaábyrgðar. Með vísan til undanþágu 1. mgr. 110. gr. laga nr. 138/1994, sem í gildi var uns ákvæðið var afnumið með lögum nr. 68/2010, kemur málshöfðunarfrestur ákvæðisins ekki í veg fyrir að þessir stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur, enda byggist skaðabótakrafan á refsiverðum verknaði.

         Kemur þá til skoðunar hvort stefnda Ingunn verði talin hafa valdið stefnanda tjóni með framangreindum ráðstöfunum þannig að hún hafi fellt á sig bótaskyldu. Í því efni verður að hafa í huga að ekki liggur annað fyrir en að hún hafi afhent hlutabréfin sem voru andlag þeirra kaupa sem greiðslurnar áttu rætur að rekja til og því efnt fyrir sitt leyti skyldur sínar samkvæmt samningunum 5. desember 2005.

         Samkvæmt því sem segir í greinargerð stefndu Ingunnar sat hún í stjórn Milestone ehf. allt til 15. október 2006. Þess ber þó að geta að í samningi um sölu- og kauprétt á 10,306% hlutafjár í Milestone ehf. var við það miðað að öll réttindi yfir hlutabréfunum skyldu færast til kaupanda þegar kaupin gerðust í janúar 2006. Átti seljandi einungis veðrétt í hlutabréfunum til tryggingar greiðslu kaupverðsins uns tiltekið hlutfall þess hafði verið greitt. Eins og rakið hefur verið áttu kaupin á þessum hlutabréfum sér stað 6. janúar 2006. Eftir það virðist stefnda Ingunn einungis hafa átt 4,294% hlut í Milestone ehf., en kaup- og söluréttur á þeim hluta varð virkur 2. janúar 2007. Í fyrrgreindum samningi um sölu- og kauprétt á 10,306% hlut í Milestone ehf. var eftir sem áður kveðið á um að frá og með kaupunum í janúar 2006 myndi stefnda Ingunn hverfa úr stjórn Milestone ehf. Hvíldi á stefndu Karli og Steingrími að tilkynna það til hlutafélagaskrár Ríkisskattstjóra. Af ókunnum ástæðum virðist það hafa dregist. Óhjákvæmilegt er að meta skyldur stefndu Ingunnar og ábyrgð gagnvart félaginu í þessu ljósi.

         Eins og áður segir virðist ákvörðun þess efnis að Milestone ehf. skyldi fjármagna kaupin ekki hafa verið tekin í stjórn félagsins. Ekkert bendir heldur til þess að málefni tengd efndum kaupsamninga um hlutabréfin hafi borið þar á góma. Gögn málsins gefa þó til kynna að stefndu Ingunni hafi verið kunnugt um að greiðslurnar bærust frá Milestone ehf. Í því efni verður þó að taka tillit til þess að samningarnir frá 5. desember 2005 gerðu beinlínis ráð fyrir því að félagið gæti orðið kaupandi hlutabréfanna án atbeina stefndu Ingunnar þó að sú hafi ekki orðið raunin, eins og rakið hefur verið. Frá sjónarhóli stefndu Ingunnar gátu því verið eðlilegar skýringar á því að greiðslurnar bærust frá Milestone ehf. Í ljósi stöðu hennar sem seljanda bréfanna, og að teknu tilliti til þess að ætlunin var að hún hyrfi úr stjórn félagsins samkvæmt fyrrgreindum samningum þegar við söluna á 10,306% hlut í félaginu, var einnig skiljanlegt að hún kynnti sér ekki í þaula, með tilliti til hagsmuna Milestone ehf., hvernig samkomulagi milli kaupenda hlutabréfanna og félagsins um fjármögnun viðskiptanna væri háttað. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið þykja ekki standa rök til þess að stefnda Ingunn verði látin bera skaðabótaábyrgð í málinu á grundvelli 1. eða 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 eða á grundvelli almenns skaðabótaréttar með því að hafast ekkert að til að koma í veg fyrir tjón Milestone ehf. af viðskiptunum. Af þessum sökum verður stefnda Ingunn sýknuð af kröfum stefnanda.

         Samkvæmt framansögðu er á það fallist að stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem Milestone ehf. varð fyrir þegar félagið var látið efna samninga við stefndu Ingunni um kaup stefndu Karls og Steingríms á hlutabréfum í því og öðrum félögum, án þess að tryggja hagsmuni félagsins eins og rakið hefur verið. Eins og áður hefur verið komist að niðurstöðu um nemur tjón félagsins stefnufjárhæðinni. Ekki verður ráðið af því sem fram hefur komið fyrir dómi að stefnandi hafi vanrækt að takmarka tjón sitt með því að innheimta ekki kröfur á hendur Milestone Import Export Ltd., en um það er vísað til þess sem að framan er rakið um árangurslausar innheimtutilraunir stefnanda gagnvart því félagi. Við munnlegan málflutning vísaði stefndi Karl einnig til þess að stefnandi hafi vanrækt að fá tjónið bætt úr ábyrgðartryggingu stjórnar og framkvæmdastjóra. Þessari málsástæðu var ekki hreyft í greinargerð og kemur hún ekki til álita við úrlausn málsins gegn andmælum stefnanda, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Hafa stefndu að öðru leyti ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að færa beri niður bótafjárhæðina. Verður því á það fallist að stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur beri óskipta skyldu til þess að greiða stefnanda 5.195.721.859 krónur í skaðabætur.

         Kröfugerð stefnanda tekur mið af því að stefnandi eigi tilkall til dráttarvaxta af hverri og einni greiðslu sem innt var af hendi til stefndu Ingunnar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma sem þær fóru fram. Í stefnu var um þetta vísað til fyrrgreinds ákvæðis 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Eins og áður segir hvílir sú skylda á stefndu Karli og Steingrími að endurgreiða þann hluta ofangreindrar fjárhæðar, sem á rætur að rekja til fjármögnunar Milestone ehf. á hlutafé í sjálfu sér, með vísan til 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Samkvæmt ákvæðinu ber að endurgreiða lán sem stangast á við 2. mgr. 79. gr. laganna með dráttarvöxtum. Af þessu leiðir að dráttarvextir verða gjaldkræfir, ásamt höfuðstól hins ólögmæta láns, þegar það var innt af hendi.

         Allar kaupverðsgreiðslurnar sem Milestone ehf. var gert að inna af hendi til stefndu Ingunnar áttu sér stað fyrir gildistöku laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Því fer um fyrningu vaxta á endurgreiðslu þeirra eftir lögum nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. þeirra laga fyrnast gjaldkræfir vextir á fjórum árum. Mál þetta var höfðað 8. janúar 2011, en ekkert liggur fyrir um að fyrningu vaxta hafi verið slitið fyrr en þá. Af þessu leiðir að allar kröfur stefnanda um dráttarvexti fyrir 8. janúar 2007 eru fyrndar og verður þeim því þegar af þeirri ástæðu hafnað.

         Stefnandi byggir á því í stefnu að dæma eigi dráttarvexti af skaðabótum í málinu frá og með mánuði eftir þingfestingu málsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, og er hann við þá afstöðu bundinn. Málatilbúnaður stefnanda er því marki brenndur að óljóst er að hvaða leyti greiðslur, sem Milestone ehf. innti af hendi 8. janúar 2007 og síðar, eigi rætur að rekja til efnda á kaupum á hlutabréfum í félaginu sjálfu, og beri því að endurgreiða samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Ætla verður að umtalsverðan hluta þeirra megi rekja til efnda á kaupum í hlutabréfum í Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., sem falla utan greiðsluskyldu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, en hafa valdið stefnanda tjóni sem stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur bera sameiginlega bótaábyrgð á. Verður stefnandi að bera hallann af því að ekki er unnt að greina hér á milli. Af þessum sökum verða dráttarvextir ekki dæmdir fyrr en mánuður var liðinn frá þingfestingu málsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, í samræmi við málatilbúnað stefnanda til stuðnings dráttarvöxtum af skaðabótakröfum í málinu. Aftur á móti er ekki efni til þess að fallast á með stefndu að dráttarvexti skuli ekki dæma í málinu fyrr en frá dómsuppsögu á grundvelli 7. eða 9. gr. laga nr. 38/2001.

         Eins og rakið hefur verið er fallist á kröfu stefndu Ingunnar um sýknu í málinu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu Ingunni málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur. Er þá m.a. tekið tillit til þess að kröfum stefndu Ingunnar um að vísa málinu frá dómi var hrundið tvívegis undir rekstri málsins, en stefnandi hafði kostnað af því að verjast þeim kröfum.

         Aftur á móti er fallist á kröfu stefnanda um að stefndu, Karl, Steingrímur og Guðmundur, greiði stefnanda stefnufjárhæðina með þeim dráttarvöxtum sem í dómsorði greinir. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber þeim því að greiða stefnanda óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

         Stefndu, Karl Emil Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason, greiði stefnanda, þrotabúi Milestone ehf., óskipt 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af sömu fjárhæð frá 13. febrúar 2011 til greiðsludags.

         Stefnda, Ingunn Wernersdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda.

         Stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur greiði stefnanda óskipt 2.000.000 króna í málskostnað.

         Stefnandi greiði stefndu Ingunni 1.500.000 krónur í málskostnað.