Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-157
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótamál
- Miskabætur
- Sönnun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 5. nóvember 2025 leita A og B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. október sama ár í máli nr. 241/2025: A og B gegn C hf. og TM tryggingum hf.
3. Mál þetta varðar skaðabótakröfu leyfisbeiðenda á hendur gagnaðilum vegna andláts sonar þeirra en hann lést á sjó við störf hjá gagnaðila C hf. Með héraðsdómi voru gagnaðilar sýknaðir af kröfu leyfisbeiðenda á þeim grundvelli að ekki hefði verið sýnt nægilega fram á vanrækslu af hálfu gagnaðila C hf. eða starfsmanna hans þannig að uppfylltur væri áskilnaður um stórkostlegt gáleysi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með dómi Landsréttar var hinn áfrýjaði dómur staðfestur en Landsréttur kvað upp dóm í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna og án munnlegs málflutnings, sbr. 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991.
4. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Málið varði skaðabótaskyldu útgerðar og starfsmanna hennar og þá sönnunarstöðu sem aðstandendur sjómanna sem látast á sjó standi frammi fyrir. Málið hafi auk þess verulega almenna þýðingu á sviði einkamálaréttarfars í ljósi annmarka á málsmeðferð Landsréttar. Leyfisbeiðendur hafi hvorki fengið að flytja mál sitt munnlega né leiða nánar tilgreind vitni fyrir réttinn. Af sömu ástæðu sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi til. Dómur Landsréttar sé auk þess rangur að efni til. Í þeim efnum er einkum vísað til þess að ekki hafi verið lagt til grundvallar að sonur leyfisbeiðenda hafi látist í slysatburði þótt það hafi verið óumdeilt í málinu. Þá hafi ekki verið leyst úr öllum málsástæðum þeirra. Loks er á því byggt að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda enda varði það andlát sonar þeirra og miska.
5. Að virtum gögnum málsins verður talið að á málsmeðferð Landsréttar kunni að vera þeir annmarkar að rétt sé að heimila áfrýjun málsins, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.