Hæstiréttur íslands
Mál nr. 524/2005
Lykilorð
- Manndráp
- Líkamsárás
- Skaðabætur
|
Fimmtudaginn 6.apríl 2006. |
Nr. 524/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Phu Tién Nguyén (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Manndráp. Líkamsárás. Skaðabætur.
P var ákærður fyrir manndráp með því að hafa veist að A inni á baðherbergi íbúðar í Kópavogi með hnífi og veitt honum ýmsa áverka, þ.á m. stungið hann tvívegis í brjóstkassa, með þeim afleiðingum að hann lést skömmu síðar af innvortis blæðingum í brjóstholi. Þá var hann einnig ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa stungið B ofarlega í vinstra læri er hann reyndi að stöðva atlögu P að A. P játaði að hafa veist að A með ofangreindum hætti en bar við að A hefði ráðist að honum með höggum í andlitið inni á baðherberginu í kjölfar deilna þeirra um hvort A hefði ávarpað hann með réttum hætti í samræmi við víetnamskan sið. Við það hafi hann orðið hræddur og gripið til hnífsins til að verja sig. Frásögn P af atburðarrásinni þótti ótrúverðug einkum í ljósi framburðar vitna og réttarmeinafræðings. Var hann sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga og ekki talið að neinar refsilækkunarástæður væru fyrir hendi eða að ástæða væri til að draga sakhæfi hans í efa. Þótt ásetningur P hafi ekki staðið til þess að veita B hnífsstungu, heldur hafi hún verið ætluð A, var litið svo á að um ásetningsbrot væri að ræða. P var dæmdur til að sæta fangelsi í 16 ár og til að greiða C, eiginkonu A, D, dóttur hans, og B skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. nóvember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á ákvörðun refsingar og skaðabóta til C og D en greiðslu skaðabóta, 2.500.000 krónur, til B auk vaxta og dráttarvaxta eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur í vægustu refsingu, sem lög heimila, og gæsluvarðhaldsvist hans frá 16. maí 2005 komi til frádráttar dæmdri refsingu. Þá krefst hann þess, að skaðabótakröfur verði lækkaðar.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður ákvörðun hans um refsingu og greiðslu skaðabóta staðfest.
Samkvæmt forsendum héraðsdóms eru bætur til handa C og D ákveðnar 1.000.000 krónur lægri til hvorrar um sig en í dómsorði hins áfrýjaða dóms greinir. Þá hefur einnig orðið villa að því er varðar miskabætur til handa B, sem samkvæmt forsendum héraðsdóm eru ákveðnar 500.000 krónur að meðtalinni þóknun vegna lögmannsaðstoðar, 100.000 krónur. Í dómsorði héraðsdóms segir, að ákærði skuli greiða B 500.000 krónur auk sakarkostnaðar, þar sem meðtalin var þóknun réttargæslumanns hans 125.000 krónur. Verða framangreindar villur leiðréttar í dómsorði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Phu Tién Nguyén, sæti fangelsi í 16 ár, en frá refsingunni dregst gæsluvarðhald hans frá 16. maí 2005.
Ákærði greiði C 6.214.680 krónur auk 4,5% ársvaxta af 5.061.296 krónum frá 15. maí 2005 til 5. október sama ár og vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.000.000 krónum frá 15. maí 2005 til 5. október sama ár, og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 6.214.680 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði D 3.951.651 krónu auk 4,5% ársvaxta af 2.842.091 krónu frá 15. maí 2005 til 5. október sama ár og vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 1.000.000 krónum frá 15. maí 2005 til 5. október sama ár, og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 3.951.651 krónu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B 400.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. maí 2005 til 5. október sama ár, og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 2.311.993 krónur, þar með talda málflutningsþóknun skipaðs verjanda hans á báðum dómstigum, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, samtals 1.245.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns B í héraði, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2005.
Mál þetta var þingfest 5. október 2005 og tekið til dóms 24. október sl. Það er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 13. september 2005 gegn Phu Tién Nguyén, kt, [...], Sólvallagötu 38, Keflavík, fyrir eftirgreind brot framin að kvöldi hvítasunnudags 15. maí 2004 inni á baðherbergi íbúðar á 3. hæð til hægri að X, Kópavogi:
1. Fyrir manndráp með því að hafa banað A með hnífsstungum. Réðst ákærði að A með hníf að vopni og veitti honum rispur og skrámur á kinn, brjóstkassa og hálsi, skar hann á hægri vísifingri og hægri hendi á milli vísifingurs og löngutangar, og var hendin að hluta til skorin í sundur, og stakk hann í gegnum hægri framhandlegg og tvívegis í brjóstkassa. Við síðastgreindu stungurnar gekk hnífurinn inn í bæði lungu og lungnaslagæð og í gegnum þind með þeim afleiðingum að A lést skömmu síðar af völdum innvortis blæðinga í brjóstholi.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, þá er B reyndi að stöðva atlögu ákærða að A, stungið B ofarlega í vinstra læri svo hann hlaut stungusár nálægt mjöðm.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur á hendur ákærða.
Af hálfu C, kennitala [...], hefur bótakröfu verið breytt til lækkunar frá því sem segir í ákæruskjali og krefst hún þess nú að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 7.214.680 auk 4,5% vaxta, skv. 16. gr .skaðabótalaga nr. 50/1993, af kr. 5.061.296 frá 15. maí 2005 til 5. október 2005 sem og vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 2.000.000 frá 15. maí 2005 til 5. október 2005 en dráttarvaxta skv. vaxtalögum frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu D, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 4.951.651 auk 4,5% vaxta, skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af kr. 2.842.091 frá 15. maí 2005 og vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 2.000.000 frá 15. maí 2005 til þingfestingardags máls þessa en dráttarvaxta skv. vaxtalögum frá þeim degi til greiðsludags.
B, kennitala [...], krefst bóta að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 frá 16. maí 2005 til greiðsludags og greiðslu vegna þóknunar réttargæslumanns.
Ákærði krefst vægustu refsingar er lög heimila og að gæsluvarðhald hans frá 16. maí 2005 komi til frádráttar refsingunni. Þess er krafist að skaðabótakrafa verði lækkuð að mati dómsins. Þess er krafist að hluti sakarkostnaðar verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda ákærða.
I.
Sunnudaginn 15. maí 2005 kl. 22:31 barst lögreglu tilkynning um að maður hefði verið stunginn með hnífi að X í Kópavogi. Þegar lögreglan kom á vettvang stóð maður af erlendu bergi brotinn við innkeyrsluna að X. Fylgdu lögreglumenn honum að X. Var þar í anddyrinu hópur manna, bæði börn og fullorðnir, sem hrópuðu að maður væri dáinn uppi á þriðju hæð. Er lögreglumenn komu upp á stigapall þriðju hæðar hittu þeir fyrir konu og mann sem héldu á A sem þau þá lögðu frá sér. Við athugun reyndist ekkert lífsmark vera með honum. Vísað var á árásarmanninn og hann sagður vera í íbúð á þriðju hæð til hægri. Í íbúðinni handtóku lögreglumenn síðan ákærða Phu Tién Nguyén og segir í skýrslu þeirra að hann hafi verið áberandi ölvaður og að áfengislykt hafi lagt frá vitum hans.
Lögreglan tók skýrslur af fjölda vitna og í málinu hafa verið lagðar fram myndir af vettvangi svo og hnífur sá sem staðfest er að ákærði hafi beitt. Er blað hnífsins 19 sm langt, 2 sm breitt og heildarlengd hnífs 31.4 sm. Ákærða var tekið blóð til rannsóknar og mældist alkóhól í blóði 0,26 o/oo.
Réttarkrufning fór fram og í niðurstöðu hennar segir meðal annars: „Dánarorsök [A] er stungusár á brjóstkassa. Hlaut hann stungusár á brjóstkassa bæði hægra og vinstra megin. Stungusárið hægra megin gekk inn í hægra lunga, hægri aðalberkju og hægri lungnaslagæð. Stungusárið vinstra megin gekk í gegnum vinstra lunga og þind. Þau sár blæddu aðallega innvortis, sérstaklega sárin í hægri brjóstkassa og blæddi manninum út á fáeinum mínútum. Bæði sárin á brjóstkassa voru lífshættuleg en sárið hægra megin dró manninn hraðast til dauða þar sem sárið gekk inn í lungnaslagæð. Stungusár á hægri framhandlegg svo og skurðsár á hægri vísifingri og hægri hendi hafa útlit varnarsára (varnaráverkar) og því ljóst að maðurinn var meðvitaður um hvað var að gerast meðan árásin átti sér stað. Skurðasár á hægri kinn neðanverðri svo og nýlegir marblettir á andliti, skráma á hálsi, skráma á brjóstkassa vinstra megin og blæðing á vinstra gagnaugasvæði eru líklega einnig tengd árásinni. Ekki sjást nein ummerki á höndum mannsins sem benda til þess að hann hafi kýlt annan aðila. Stungusárin voru veitt með eineggja eggvopni (hníf) og var það dýpsta 14 sm. Engir sjúkdómar fundust í líkinu sem hefðu getað haft áhrif á andlát mannsins. Réttarefnafræðilegar mælingar sýndu að maðurinn var undir áhrifum áfengis er hann lést en ölvunin hafði ekki áhrif á andlátið.”
II.
Ákærði hefur skýrt frá því að hann hafi komið á X í Kópavogi milli kl. 7 og 8 um kvöldið þann 15. maí 2005 ásamt konu sinni og barni. Þar hafi verið fólk fyrir og hafi hann sest að drykkju með því. Hafi hann kannst við eða þekkt alla sem þar voru og verið í stofunni ásamt fleiri karlmönnum. Kom til umræðu aldur manna og meðal annars að sá sem ákærði síðar banaði hafi átt að sýna honum, sem var eldri, virðingu en ákærði er fæddur 29. apríl 1972 en hinn látni 19. september 1975. Er það samdóma álit vitna að komið hafi til deilna milli ákærða og hins látna, A, og hafi þeir rifist um það hvort hinum yngri bæri að sýna hinum eldri virðingu er þeir ávörpuðu þá. Virðist sem deilt hafi einnig verið um það hvort siðareglur sem um þetta giltu í fyrrum heimalandi þeirra í Víetnam ættu að gilda í samskiptum víetnama sem búsettir væru á Íslandi. Sagði ákærði að það hefðu einungis verið karlar í stofunni og nefndi þar til vitnin E, B, Fog G. Hafi rifrildinu lokið með því að hann og A hafi tekist í hendur og sæst. A hafi verið reiður við ákærða og þess vegna hafi hann viljað hætta. Sagði ákærði að víetnamar sem hér byggju færu ekki eftir þessum reglum sem giltu um aldur í gamla heimalandinu. Sagði ákærði að A hafi verið dónalegur við hann og ekki ávarpað hann með réttum orðum. Hafi hann reynt að útskýra þetta fyrir A sem hafi þá reiðst. Hafi A vitað að ákærði var eldri en engu að síður ekki ávarpað hann með þeim hætti sem venja er samkvæmt víetnömskum sið. Ákærði hafi síðan farið á klósettið en A verið í stofunni og þegar hann hafi verið að ljúka við að pissa þá hafi A komið inn í baðherbergið og sagt við ákærða: ,,viltu slást” og í framhaldinu hafi A farið að berja ákærða í andlitið. Kvaðst ákærði ekki muna hve mörg höggin voru en hann hafi dottið á hliðina og þegar hann stóð upp hafi hann tekið hnífinn, sem hann hafði vafið með dagblaði, upp úr vasanum á leðurjakka sem hann var í. Hann hafi orðið hræddur og ætlað að verja sig með hnífnum. Ákærði kvaðst ekki muna hvar höggin frá A lentu á honum þegar hann stóð upp. Hann muni bara eftir því að hafa fengið högg í andlitið. Hann sagði að hann hafi verið í leðurjakkanum allan tímann sem hann var í íbúðinni og ekki farið úr honum meðan hann var þar þetta umrædda kvöld. Áður en hann datt á baðherberginu hafi hann reynt að verja sig með hnefunum en honum hafi ekki hugkvæmst að forða sér undan A. Kannaðist ákærði ekki við að hafa misst meðvitund, vankast eða orðið óglatt af höggunum. Hnífinn kvaðst hann hafa haft með sér til þess að verja son sinn, en samkvæmt víetnamskri hefð er notaður hnífur eða skæri til þess að setja undir dýnu eða kodda hjá barni til þess að verja það fyrir illum öndum. Hann hafi notað hnífinn, sem hann tók með sér að heiman í Keflavík, í þessum tilgangi nóttina áður, er fjölskyldan gisti hjá mágkonu hans. Hafi kona hans ekki vitað af því þegar hann tók hann með sér en hún hafi vitað að hann hafði sett hann undir koddann hjá barninu kvöldið áður. Þegar hann kom inn á X hafi hann verið með hnífinn í vasanum allan tímann og ekki sett hann undir dýnu hjá barninu. Þau hafi ætlað að fara heim seinna á sunnudagskvöldið eftir boðið og þess vegna hafi hann verið með hnífinn. Hafi ákærði lagt í vana sinn að taka með sér hníf að heiman til þess að vernda barnið. Hann kveðst ekki muna hversu oft hann stakk A en þeir hafi staðið uppréttir andspænis hvor öðrum en A hafi verið álútur þegar ákærði stakk hann. Hafi ákærði ekki hugsað út í það hversu hættulegt væri að stinga A með hnífi af því að hann hafi verið svo hræddur við hann. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna hversu mikið áfengi hann hafi drukkið um kvöldið en hann þoli lítið. Hann kvaðst muna eftir því að einhverjir hafi komið inn á baðherbergið og reynt að stoppa átökin. Hann geti ekki útskýrt það nákvæmlega en þrír eða fjórir menn hafi komið inn á baðherbergið og tekið af honum hnífinn. Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við að hafa haldið með annarri hendi í hendina á A og stungið hann með hnífnum með hinni, eins og kemur fram í framburði vitnisins B og síðar verður rakið. Aðspurður um meiðsli, sem hann hafi hlotið af höggum frá A eða í átökum við þá sem komu inn á baðherbergið, kveðst hann ekki muna neitt um það eða hvernig hann fékk kúlu á ennið. Eftir að hnífurinn hafi verið tekinn af honum hafi ákærði farið fram í eldhús til þess að leita að hnífi af því hann hafi verið hræddur og talið sig í lífshættu. Hann man ekki eftir því að hafa sagt: ,,ég ætla að drepa hann” eins og vitnið E hefur borið. Aðspurður sagði ákærði að hann hafi orðið hræddur og reiður á baðherberginu og af þeim sökum hafi hann misst stjórn á skapi sínu og ráðist á A og haldið því áfram eftir að hann var kominn úr allri hættu sjálfur. Sagði ákærði að hann hafi ekki þekkt hinn látna persónulega en vitað hver hann var og nokkrum sinnum talað við hann en aldrei átt í illdeilum við hann. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að A væri látinn fyrr en morguninn eftir er túlkur sagði honum það þar sem hann var í gæslu lögreglu.
III.
Framburður vitna við aðalmeðferð.
Vitnið H sagði að hún hefði heyrt A og ákærða vera að rífast um aldur frammi í stofunni. Sjálf var hún inni í barnaherbergi við hliðina ásamt konu A, konu ákærða, kærustu B og fjórum börnum. Hún fór svo ásamt fleirum fram að laga til í stofunni og eldhúsinu. Þegar hún fór aftur út úr eldhúsinu sá hún B opna dyrnar á baðherberginu en F og G hafi einnig farið inn í baðherbergið. Kvaðst hún hafa séð A og ákærða þar inn haldandi hvor í annan en slökkt var á baðherberginu. Áður en atburðurinn gerðist á baðherberginu sá hún ákærða síðast í stofunni klæddan í leðurjakka. Hafi kona A þá sagt henni að A hafi farið á klósettið að pissa.
Vitnið C sagði að þegar veislan var búin hafi hún farið fram í eldhús. Karlarnir voru enn í stofunni að tala saman en konurnar í barnaherberginu að tala saman og passa börnin. Sagði hún að A, maður hennar, og ákærði hafi verið að rífast og hafi hún sagt manni sínum að hætta þessu. Fannst henni hvorugur vera dónalegur við hinn. Hún sagðist ekki hafa tekið eftir því hvar ákærði var á þessari stundu. Hún sagðist hafa séð mann sinn fara inn á baðherbergið og loka á eftir sér. Kvaðst hún hafa heyrt B segja: ,,hvert fóru þeir?” og átti hann þá við ákærða og A. Hún hafi ekki tekið eftir því að neinn annar hafi farið inn á klósettið. Hún hafi séð ákærða klæða sig í leðurjakka í stofunni og í framhaldinu hafi orðið átök. Hafi allir verið í stofunni nema B og hafi hún séð ákærða og A takast í hendur inni í stofunni og þá hafi maður hennar sagt henni að bíða aðeins vegna þess að hann þyrfti að fara á salernið áður en þau héldu á braut. Hún sagðist hafa séð skömmu síðar að eitthvað var að gerast inni á baðherberginu en ekki séð hvað það var vegna þess að þar var dimmt. Aðspurð kvaðst hún aldrei hafa heyrt um þann sið að hafa hníf í rúmi barna þeim til verndar.
Vitnið B kvaðst hafa verið inni í barnaherberginu en hafa farið fram í símann og þá hafi hann séð karlana inni í stofunni. Hafi A og ákærði verið að rífast um aldur og ávörp sem honum tengjast. Þeir hafi verið reiðir og hafi hann heyrt annan hvorn þeirra segja: ,,hvað viltu” og síðan hafi þeir tekist í hendur í stofunni. Á leiðinni frá eldhúsinu inn í stofuna heyrði hann dynk á baðherberginu eins og eitthvað hafi dottið. Hann hafi opnað hurðina og sá hann þá Aog ákærða vera að slást og hafi ákærði snúið baki að hurðinni og hafi vitnið farið á milli þeirra til þess að skilja þá og kallað á hjálp. Hann hafi ekki séð strax að ákærði var með hníf en sá að hann var með eitthvað í hendinni. Hafi hann séð ákærða stinga A með þessu en A hafi reynt að slá til baka en vitnið hafi ekki séð hann lemja ákærða. Hann hafi séð ákærða nota aðra höndina til þess að lyfta eða styðja A, sem var orðinn máttfarinn og farinn að hallast fram, og stungið hann með hnífi með hinni. Sjálfur hafi vitnið staðið með bakið í vaskinn á milli þeirra og reynt að stía þeim sundur. Hann hafi þá fundið að hann fékk eitthvað í lærið en ekki tekið sérstaklega eftir því að hafa verið stunginn með hnífi. Þegar hann áttaði sig á því að hann hafði verið stunginn hafi hann farið fram og sagt fólkinu frammi að hringja í lögreglu en farið svo aftur inn á baðherbergið. Hann kannast við að hafa séð F beygja ákærða yfir baðkarið og halda honum þar föstum en F hafi náð að taka hnífinn af ákærða. Í átökunum hafi ákærði verið æstur og reynt hvað eftir annað að ráðast á A. Þegar hann kom fyrst inn á baðherbergi hafi honum virst ákærði og A vera ,,sterkir” en svo hafi dregið af A. Sagði vitnið að þegar ákærði var kominn út af baðherberginu hafi hann farið inn í eldhús og farið þar í nokkrar skúffur. Sagði B að hann hafi verið órólegur og hræddur eftir atburðinn og átt erfitt með svefn og þurft að nota svefnlyf. Hann eigi erfitt með að lyfta þungu og orðið að breyta verkefnum sínum í vinnunni eftir að hafa verið frá vinnu í þrjá mánuði.
Vitnið D sagði að þegar hún hafi verið að taka til í stofunni eftir veisluna þá hafi hún heyrt hávaða frá baðherberginu. Hún hafi ekkert séð hvað þar var að gerast en heyrt A hrópa þaðan. Hún sagðist hafa séð ákærða eiga við skúffurnar í eldhúsinu og staðfestir það sem haft var eftir henni í lögregluskýrslu þar sem hún kvaðst hafa heyrt ákærða segja: ,,ég ætla að drepa hann”. Sagði hún að ákærði hafi verið reiður.
Vitnið G segist hafa orðið vitni að því að ákærði og A hafi verið að ræða um aldur og víetnamskar hefðir um hvernig ávarpa skyldi menn í því sambandi. Hafi A ekki vitað að ákærði væri eldri en hann. Þegar A áttaði sig á því að ákærði væri eldri hafi hann sagt fyrirgefðu eða: ,,sorry”. Hann hafi séð ákærða, F og B inni á baðherberginu en A hafi hnigið niður á ganginum fyrir framan baðherbergið. Sjálfur hafi hann hlaupið út og hringt í lögregluna að ósk konu A. Sagði vitnið að ákærði hafi klætt sig í leðurjakka og sest við borðstofuborðið í aðdraganda atburðanna á baðherberginu. Sagði A, sem sat við hliðina á vitninu í stofunni, við vitnið að hann ætlaði á klósettið. Hafi A staðið upp og farið út úr stofunni en ákærði setið við borðstofuborðið. Hann sagðist hafa séð F hindra ákærða í horninu við baðkerið. Hann hafi séð margar hendur taka hníf af ákærða.
Vitnið F kvaðst hafa komið í samkvæmið um kl. 10 um kvöldið og þá hafi hann séð þá G, B og Tién sitja í stofunni að tala saman og hafi Tién og A verið að rífast. Hafi Tién verið að segja að þegar hann hafi komið í heimsókn til A þá hafi A ekki látið dóttur sína ávarpa hann rétt. Sagði vitnið að Tién hafi verið ósáttur við þetta en A hafi ekki svarað neinu en þeir hafi báðir verið reiðir. Þegar búið hafi verið að laga til í stofunni hafi Tién farið út úr stofunni en A verið þar eftir. Tién hafi síðan komið aftur inn í stofuna og sagt: ,,ég er góður en hvað viltu” og þá hafi A svarað:,,ég skal gera eins og þú vilt.” Síðan hafi þeir báðir farið út saman í áttina að baðherberginu en hann hafi ekki séð þá fara þar inn. Eftir smá stund heyrði hann B segja:,, þeir eru að slást” og hafi þeir staðið upp og gengið að baðherberginu og þegar hann kom þar inn sá hann Tién, G og B en ekki A. Hafi B staðið andspænis Tién til þess að stoppa hann en Tién hafi haldið á einhverju sem hann hélt að væri hnífur. Hann hafi tekið í Tién til þess að ná af honum hnífnum og hafi Tién þá fallið í gólfið en gólfið hafi verið blautt. Kvaðst hann hafa sagt við Tién nokkrum sinnum að sleppa hnífnum sem hann hafi neitað og sagt að hann ætlaði ekkert að gera af sér núna. Vitnið hafi síðan náð af Tién hnífnum og þá hafi Tién farið út af baðherbeginu. Kvaðst vitnið hafa séð A liggja á gólfinu fyrir framan baðherbergið.
Vitnið I kvaðst hafa hitt Tién daginn fyrir umrædda veislu og hafi hann ekki orðið var við neitt sérstakt í fari hans. Hann kannast við þann sið að setja hníf hjá barni og í Víetnam geri flest fólk þetta. Er þá notuð hvaða stærð af hnífi sem er. Vitnið kannast við þann sið að yngri menn sýni sér eldri mönnum virðingu sem felst í því t.d. að kalla þá frænda en nota ekki nafn þeirra. Sumir þeirra Víietnama sem búa hér á landi fari eftir þessari siðvenju en ekki allir og síst ungt fólk. Segir vitnið að sé brotið gegn þessari siðvenju sé það ekki ástæða til slagsmála.
Vitnið Þóra Steffensen, læknir og réttarmeinafræðingur, sagði að sú staðreynd að buxnaklauf hins látna var opin geti að hennar mati ekki staðið í neinu sambandi við lífgunartilraunir eða að nokkur þörf geti hafa verið á því að renna niður buxnaklaufinni til þess að athuga með púlsa í nárum. Bæði úlnliður og hálsslagæð liggi miklu betur við. Sagði Þóra að þrír áverkar sem voru á handlegg og hönd hins látna hafi verið dæmigerðir varnaráverkar eða dæmigerð varnarsár sem koma þegar varist er árás. Áverki sem var á höfði látna gæti bæði verið af höggi frá öðrum eða af því að hann hafi rekið höfuðið í. Sagði vitnið að mar á kinnbeini ákærða væri þeirrar gerðar að sá sem slái slíkt högg ætti að öllum líkindum að bera mar á hendi eftir að hafa greitt slíkt högg með henni. Kúla á enni ákærða bendi til þess að sé slíku valdið með hnefa þá hljóti líklega að vera mar á hendinni eftir höggið. Sama gildi sé slíkt högg svo þungt að það geti valdið heilahristingi. Líkamleg einkenni slíks höggs komi að jafnaði strax fram í skertri meðvitund eða í því að viðkomandi vankist eða rotist ásamt því að ógleði og höfuðverkur fylgi í kjölfarið. Sagði Þóra að sá sem hafi fengið áður heilahristing væri ekki líklegri til þess að þurfa minna högg en aðrir sem ekki hefðu áður fengið heilahristing, til þess að fá það sem hún kallar eiginlegan heilahristing hafi blæðing ekki fylgt hinum fyrri. Sú staðreynd að magn þvags í blöðru hins láta var einungis 5 ml og buxur þurrar telur vitnið tilefni til þess að álykta að hinn látni hafi verið nýbúinn að pissa þegar hann lést.
Vitnið Björgvin Sigurðsson sérfræðingur við rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík sem skoðaði föt hins látna sagði að ekkert hafi bent til þess að rennilás á buxum hans hafi verið í ólagi.
IV.
Ákærði hefur játað að hann hafi banað A með hnífstungum. Hann hafi unnið þann verknað í sjálfsvörn í átökum sem hann hafi ekki átt frumkvæði að. Um ákærulið 2 sagði ákærði að hann muni ekki skýrt eftir því atviki. Játar hann þó eða kannast við að hafa stungið B í átökum, en að um óviljaverk hafi verið að ræða. Hann hafi dottið á gólfið og gripið til hnífsins er hann var að standa á fætur.
Með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins telst hann sannur að sök um brot þau sem hann er sakaður um í ákæru. Með krufningsskýrslu og framburði réttarlæknis hér fyrir dómi er sannað að andlát A var bein afleiðing af hnífstungu sem ákærði veitti honum. Brot ákærða eru rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.
Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi orðið fyrir árás af hálfu A inni á baðherberginu og mátt þola högg í höfuðið frá honum. Hafi Akomið á eftir honum inn á baðherbergið þar sem hann var að ljúka við að kasta af sér vatni. Hafi þessi árás A orðið til þess að hann var gripinn mikilli hræðslu sem leiddi til þess að hann missti stjórn á skapi sínu. Hann hafi gripið til hnífsins sem hann var með í jakkavasa sínum er hann var að standa á fætur eftir að hafa dottið á gólfið í baðherberginu og stungið A með honum.
Útlistun ákærða á hugarástandi sínu þegar hann framdi brotið þykir bæði mótsagnakennd og ósannfærandi þegar framburðir vitna eru bornir saman við framburð hans. Ákærði hefur bæði haldið því fram að hann hafi misst stjórn á skapi sínu vegna hræðslu af því að hann taldi sig í hættu og einnig sagt að hann hafi haldið áfram árásum á A eftir að hann sjálfur var kominn úr allri hættu. Framburður vitnisins B fyrir dóminum bendir til þess að ákærði hafi haft harðan og einbeittan ásetning til þess að bana A. Kvaðst vitnið hafa komið inn á baðherbergið, í þann mund sem ákærði er að stinga A með hnífnum, og reynt að ganga á milli en þrátt fyrir það lét ákærði ekki af árás sinni heldur hélt hann áfram að beita hnífnum sem hann veitti einnig vitninu alvarlegan áverka á læri með. Kvaðst vitnið B hafa séð ákærða nota aðra höndina til þess að lyfta eða styðja B, sem var orðinn máttfarinn og farinn að hallast fram, og stinga hann með hnífi með hinni. Sjálfur hafi vitnið staðið með bakið í vaskinn á milli þeirra og reynt að stía þeim sundur. Í framburði B kemur fram að ástæðan fyrir því að hann fór inn á baðherbergið hafi verið að hann heyrði dynk berast þaðan. Frásögn ákærða um að A hafi komið á eftir honum inn á baðherbergið og ráðist á hann þykir ósennileg þegar litið er til framburða vitna. Þannig hafa vitnin B, F og eiginkona A, C, borið að A hafi sagst ætla að fara fram á baðherbergið og kasta af sér vatni. Leitt hefur verið í ljós að buxnaklauf A var opin og tala á buxnastreng fráhneppt þegar hann hné niður af sárum sínum auk þess sem magn þvags í blöðru reyndist svo lítið að það benti eindregið til þess að hann hafi verið nýbúinn að kasta af sér vatni þegar hann lést. Nýtur þessi ályktun stuðnings af framburði Þóru Steffensen réttarmeinafræðings fyrir dóminum. Þá hafa vitnin G og C borið að ákærði hafi klætt sig í leðurjakka sinn í stofunni rétt áður en til átakanna kom á salerninu en í vasa leðurjakkans var hnífurinn sem A var banað með. Ákærði hefur á hinn bóginn haldið því fram að hann hafi aldrei farið úr jakkanum meðan hann var í veislunni. Af þessum sökum þykir frásögn ákærða um að A hafi komið að honum þegar hann hafi verið að ljúka við að kasta af sér vatni á baðherberginu svo ótrúverðug að ekki verður á því byggt að atburðarásin geti hafa verið með þeim hætti.
Páll Sigurður Pálsson geðlæknir var fenginn til þess að rannsaka geðheilbrigði ákærða með tilliti til sakhæfis hans. Skýrsla læknisins liggur fyrir í dóminum og hefur skýrsluhöfundur staðfest hana. Er meginniðurstaða læknisins að ákærði hafi verið sakhæfur er hann framdi verknaðinn en í skýrslunni segir einnig að læknirinn treysti sér ekki til þess að útiloka að ákærði hafi haft skert sakhæfi við sjálfa árásina með hnífnum. Byggir hann á því að ákærði kunni að hafa vankast við högg frá A og fengið heilahristing og í kjölfarið skerta sjálfstjórn og dómgreind. Var þessi möguleiki kannaður fyrir dóminum einkum með tilliti til framburðar ákærða sem kannaðist ekki við nein þau einkenni sem bent gætu til heilahristings. Hann hafi ekki vankast við högg frá A eins og gert er ráð fyrir í skýrslu læknisins að kunni að hafa gerst og geta leitt til þess sem hann kallar skert sakhæfi. Þá hafi hann ekki fengið höfuðverk eða fundið til ógleði að eigin sögn en fyrir dóminum upplýsti vitnið Þóra Steffensen um þessi helstu einkenni heilahristings. Er því stuðst við meginniðurstöðu Páls um að ákærði væri sakhæfur og er hann því ekki talinn hafa haft skert sakhæfi á gernaðarstund.
Hvað þann áverka áhrærir sem B varð fyrir er það mat dómenda að ásetningur ákærða með þeirri hnífstungu hafi ekki staðið til þess að skaða hann heldur hafi hún verið ætluð A. Kemur fram í framburði ákærða að hann hafi ekki orðið þess var að hafa stungið B með hnífnum og B hefur borið að hann hafi ekki orðið þess var á þeirri stundu sem það gerðist. Þykir af þessum sökum mega álykta sem svo þessi hnífstunga hafi verið ætluð A fremur en B. Hér er því um ásetningsbrot að ræða þó að sá sem fyrir hnífslaginu varð væri ekki sá sem það var ætlað.
Að mati dómenda þykja engar forsendur fyrir því að líta á verknað ákærða sem neyðarvörn enda er það skilyrði neyðarvarnar samkvæmt 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að hún sé ekki augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það sem af henni mátti vænta. Þannig hefðu hugsanleg átök A og ákærða með berum höndum, þó svo að A hefði átt upptökin, aldrei getað réttlætt hina lífshættulegu og banvænu árás þar sem ákærði beitti stórum og hættulegum hnífi. Fær þessi ályktun einnig stuðning af því að áverkar á ákærða við læknisskoðun bentu ekki til þess að hann hefði fengið þung högg á sig, auk þess sem enga áverka eða mar var að sjá á höndum A við krufningu sem gæfu vísbendingu um að hann hefði í þessum átökum greitt ákærða þung högg á kjálka eða enni en að mati vitnisins Þóru Steffensen hefðu slík högg átt að skilja eftir sig mar á þeirri hendi sem slegið var með. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að ákærði lenti í átökum er hann var afvopnaður á baðherberginu.
Er litið svo á að í átökum sem urðu milli ákærða og A inni á baðherberginu hafi hjá ákærða vaknað ásetningur til svo alvarlegrar árásar að lífi og líkama A að honum hlaut að vera ljóst að hin ofsafengna atlaga leiddi til dauða hans. Ákærði rak 19 sm langan hníf tvívegis í brjóst A og var dýpra sárið 14 sm djúpt og bæði sárin banvæn að mati vitnisins Þóru Steffensen. Einnig veitti ákærði A fleiri alvarlega áverka með hnífnum á hægri hendi og framhandlegg sem að mati Þóru eru dæmigerðir varnaráverkar. Var hönd A að hluta skorin sundur og einnig gekk hnífurinn í gegnum framhandlegginn.
Er af framansögðu ekki talið að neinar refsilækkunarástæður séu til staðar og engin ástæða til þess að draga sakhæfi ákærða í efa. Við mat á refsingu ákærða verður litið til þess að ákærði hafði ásetning til þess að vinna slíkt tjón sem raun varð á og að hann á sér engar málsbætur.
Ákærði á engan sakaferil að baki. Persónulegir hagir ákærða eru þeir að hann á tvö börn með konu sinn 10 ára og 6-7 mánaða gamla syni. Þau hafa verið í sambúð í fjögur ár.
Þegar allt er virt verður refsing ákærða fyrir brot þau sem hann er sakfelldur fyrir hæfilega ákveðin 16 ára fangelsi.
Um bótakröfur og sakarkostnað:
Af hálfu C hefur verið sett fram bótakrafa sem samanstendur í fyrsta lagi samkvæmt gögnum af bótum fyrir missi framfæranda 4.456.124 krónum. Krafa þessi styðst við lágmarksviðmið 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er krafan reiknuð út af Steinunni Guðjónsdóttur, tryggingastærðfræðingi, og studd viðeigandi og óvefengdum gögnum. Verður ákærði því dæmdur til greiðslu hennar ásamt vöxtum eins og segir í dómsorði.
Í öðru lagi er krafa um útfararkostnað sem byggir annars vegar á útlögðum kostnaði vegna útfarar samkvæmt reikningi að fjárhæð 448.621 króna auk reiknings vegna andlátstilkynningar að fjárhæð 6.551 króna, en hins vegar áætluðum kostnaði vegna kaupa á legstein að fjárhæð 150.000 krónur. Með vísan til 12. gr. skaðabótalaga þykir rétt að dæma ákærða til þess að greiða C þennan kostnað með vöxtum eins og geinir í dómsorði.
Í þriðja lagi er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Það er álit dómsins að yfir allan vafa sé hafið að C hefur orðið fyrir ólýsanlega þungu andlegu áfalli er hún verður vitni að dauða eiginmanns síns á jafn hörmulegan hátt og reyndin varð. Miskabótkrafan er reist á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Ákærði er sakfelldur fyrir brot á 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eru því uppfyllt skilyrði til þess að dæma C miskabætur úr hendi hans samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 26. gr. og 12. gr. skaðabótalaga sem þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna og skal fjárhæðin bera vexti eins og segir í dómsorði.
Í fjórða lagi er krafist þóknunar að fjárhæð 153.384 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, vegna lögmannsaðstoðar. Að mati dómsins þykir þessari kröfu í hóf stillt og er fallist á að ákærði skuli dæmdur til greiðslu hennar sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og með vöxtum eins og segir í dómsorði.
C hefur einnig haft uppi bótakröfu f.h. ófjárráða dóttur sinnar D.
Í fyrsta lagi er gerð krafa um bætur að fjárhæð 2.842.091 króna fyrir missi framfæranda samkvæmt 14. gr. skaðabótalaga. Er krafa þessi studd útreikningi Steinunnar Guðjónsdóttur, tryggingastærðfræðings, sem ekki hefur verið vefengdur og er á hana fallist eins og hún er fram sett. Verður ákærði dæmdur til greiðslu hennar ásamt vöxtum eins og segir í dómsorði.
Í öðru lagi er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Það er álit dómsins að þrátt fyrir ungan aldur D, en hún var þriggja ára er faðir hennar beið bana af völdum árásar ákærða, og hún ekki náð þeim þroska að skilja það sem gerðist sé það vafalaust að sú staðreynd að missa föður sinn á svo voveiflegan hátt komi til með að valda henni miska síðar á lífsleiðinni. Með hliðsjón af broti ákærða eru uppfyllt skilyrði til þess að dæma C f.h. D miskabætur úr hendi hans samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 26. gr. og 12. gr. skaðabótalaga sem þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna og skal fjárhæðin bera vexti eins og segir í dómsorði.
Í þriðja lagi lagi er krafist þóknunar talsmanns bótakrefjanda að fjárhæð 109.560 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, vegna lögmannsaðstoðar. Að mati dómsins þykir þessari kröfu í hóf stillt og er fallist á að ákærði skuli dæmdur til greiðslu hennar sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og með vöxtum eins og segir í dómsorði.
Af hálfu B er höfð uppi bótakrafa sem nær að svo stöddu einungis til miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga auk kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar við að halda fram kröfunni.. Að mati dómsins er hafið yfir allan vafa að ákærði hafi með háttsemi sinni valdið B líkamstjóni sem heimilt er að dæma honum miskabætur fyrir samkvæmt greininni. Þykja þessar bætur hæfilega ákveðnar 500.000 krónur, að meðtalinni þóknun vegna lögmannsaðstoðar 100.000 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti, auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 16. maí 2005 til 5. október 2005 og dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum frá þeim degi til greiðsludags.
Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til að greiða allan áfallinn sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti saksóknara er 905.430 krónur. Þá ber að dæma ákærða til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., sem þykja með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðin 450.000 krónur og þóknum skipaðs réttargæslumanns B, Hilmars Baldurssonar hdl., 125.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveða upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari og dómsformaður, Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari og Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari, sem skilar sératkvæði.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Phu Tien Nguyén, sæti fangelsi í 16 ár en frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans með fullri dagatölu frá 16. maí 2005.
Ákærði greiði C skaðabætur að fjárhæð 7.214.680 krónur auk 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 5.061.296 krónum frá 15. maí 2005 til 5. október 2005 sem og vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.000.000 króna frá 15. maí 2005 til 5. október 2005 og dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði D 4.951.651 krónur auk 4,5% vaxta samkvæmt. 16. gr.skaðabótalaga nr. 50/1993, af 2.842.091 krónu frá 15. maí 2005 og vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.000.000 króna frá 15. maí 2005 til 5. október 2005 og dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B, 500.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá 16. maí 2005 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfallinn sakarkostnað sem er 905.430 krónur, svo og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 450.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns B, Hilmars Baldurssonar hdl. 125.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Sératkvæði Guðmundar L. Jóhannessonar.
Ég er í meginatriðum sammála meirihluta réttarins, en tel samt að við útmælingu refsingar beri að taka tillit til þess, að til átaka hafi komið milli A og ákærða áður en ákærður greip til hnífsins og það sé í samræmi við frásögn ákærða, áverkana sem hann var með og að dynkur heyrist úr baðherberginu fram í stofu, að ákærður hafi fallið á gólfið og verið undir í átökunum. Hann virðist við þessar aðstæður telja sig vera í hættu og verður hræddur og grípur til hnífsins í reiði. Mat ákærða virðist þó vera mjög brenglað og er ekki fallist á að neyðarvarnarsjónarmið geti réttlætt svo alvarlega atlögu að A, enda hefði ákærði auðveldlega átt að geta komist undan, eða kallað á hjálp. Ákærður hefur ekki sögu um ofbeldishneigð og ekki liggur fyrir að hann hafi borið haturs- eða heiftarhug til A. Rifrildi þeirra og reiði áður vegna ágreinings um hvernig borið hafi að ávarpa ákærða skýrir ekki það bræðis og æðiskast, sem ákærður kemst í en það er svo magnað, að eftir að hann var afvopnaður fer hann fram í eldhús til að ná sér í annan hníf til að verjast A eða jafnvel að ganga frá honum.
Þessi mikla bræði verður vart skýrð með því, sem undan á var gengið áður en ákærður og A fóru inn á baðherbergið, heldur verður frekar að leita skýringa í áliti Sigurðar Páls Pálssonar, geðlæknis, en í því kemur fram að eftir alvarlegan heilahristing, sem ákærður hlaut eftir bílslys, sé hann eftir áfengisneyslu viðkvæmari fyrir hömluleysi og hvatvísi við mikið álag og hafi hann fengið að nýju heilahristing eftir högg frá A, gæti hann hafa fengið skerta sjálfstjórn og dómgreind. Ákærður var með töluverða áverka við læknisskoðun eftir verknaðinn, sem hann er sakfelldur fyrir, og er ekki útilokað að þau högg sem hann kveðst hafa fengið og fallið á gólfið hafi getað valdið heilahristingi en geðlæknirinn rekur minnisleysi ákærða fyrst eftir verknaðinn til þess, að hann hafi fengið heilahristing. Ákærður fór í læknisskoðun og kemur ekki fram í skýrslu Helga Guðbergssonar læknis, að hann hafi verið rannsakaður sérstaklega með tilliti til þess, að hann væri með heilahristing, en hann kvað þó ákærða hafa dottað meðan á rannsókninni stóð, en það gætu verið eftirköst heilahristings. Ekki kom fram að taugaviðbrögð hans hafi verið könnuð.
Að þessu athuguðu tel ég ekki rétt að útiloka að hin óeðlilegu viðbrögð ákærða m/v aðstæður verði að einhverju leyti rakin til þess að hann hafði áður hlotið alvarlegan heilahristing, sem valdið hafi því, að hann hafi misst stjórn á sér og orðið hömlulausari, við að fá á sig högg og falla í gólfið í átökum við A, og hann þá ofmetið hættustigið í átökunum. Hann hafi ekki getað séð fyrir þessar afleiðinga fyrri veikinda
Ég tel samt ákærða sakhæfan, en rétt sé með vísan í 75. gr. almennra hegningarlaga að taka tillit til þessa við refsimatið og þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 13 ár og komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 16. maí s.l. til frádráttar refsingunni.