- Friðhelgi einkalífs
- Miskabætur
- Gjafsókn
|
Fimmtudaginn 22. september 2005. |
Nr. 49/2005. |
B C og D (Guðmundur B. Ólafsson hrl. Anton B. Markússon hdl.) gegn A (Atli Gíslason hrl.) og gagnsök |
Friðhelgi einkalífs. Miskabætur. Gjafsókn.
A krafði þá B, C og D um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir að hafa brotið gegn kynfrelsi sínu með því að hafa haft við hana samfarir gegn vilja hennar. Eins og málið lá fyrir var talið nægilega sannað að þeir hefðu með athöfnum sínum brotið gegn frelsi og persónu A á þann hátt að það varðaði þá bótaábyrgð samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Voru athafnir þeirra í garð A það samtengdar að þeir voru álitnir sameiginlega ábyrgir gagnvart henni. Voru henni því dæmdar miskabætur að fjárhæð 1.100.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 9. febrúar 2005. Krefjast þeir aðallega sýknu og greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 11. apríl 2005. Hún krefst aðallega að aðaláfrýjendum verði in solidum gert að greiða 2.500.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. mars 2004 til greiðsludags, en til vara aðra og lægri fjárhæð með sömu vöxtum. Til þrautavara krefst hún þess að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi hafði gjafsókn í héraði og hefur gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Í héraði hafði gagnáfrýjandi einnig uppi kröfu á hendur íslenska ríkinu, en héraðsdómur sýknaði af þeirri kröfu vegna aðildarskorts. Gagnáfrýjandi unir þeirri niðurstöðu.
Gagnáfrýjandi sækir aðaláfrýjendur um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, fyrir að hafa brotið gegn kynfrelsi hennar með því að hafa haft við hana samfarir gegn vilja hennar. Málsvörn aðaláfrýjenda er á því reist að samfarirnar hafi farið fram að vilja gagnáfrýjanda og þeir ekki haft ástæðu til að ætla annað. Málsatvikum er lýst nánar í héraðsdómi.
Eins og málið liggur fyrir verður ráðið að aðaláfrýjandinn B hafi átt allt frumkvæði að samförum sínum við gagnáfrýjanda. Í framburði hans fyrir dómi kom ítrekað fram að hann hafi þurft að beita hana aga í umrætt sinn. Samkvæmt framburði allra aðaláfrýjenda kallaði B þá D og C til, svo að þeir gætu hvor á eftir öðrum einnig haft kynmök við gagnáfrýjanda á meðan samfarir þess fyrstnefnda við hana stóðu yfir, án þess að hún veitti nokkurt tilefni til þess eða léti í ljós að hún væri þessu samþykk. Aðaláfrýjendurnir D og C gátu ekki ætlað að þeir væru kallaðir til þeirra athafna, sem þar fóru fram, að vilja gagnáfrýjanda. Er því nægilega sannað að aðaláfrýjendur brutu gegn frelsi og persónu gagnáfrýjanda á þann hátt að varðar þá bótaábyrgð samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Athafnir aðaláfrýjenda í garð gagnáfrýjanda voru það samtengdar að telja verður þá sameiginlega ábyrga gagnvart henni. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um bætur til handa henni.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Aðaláfrýjendur greiði málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjendur, B, C og D, greiði sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2004.
I
Mál þetta sem dómtekið var 19. október sl. höfðaði A [...] gegn B [...], C [...], D [...] og íslenska ríkinu.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu, B, C og D, verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð kr. 2.500.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi málsins, þ.e. 2. mars 2004, til greiðsludags.
Stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð kr. 500.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi málsins til greiðsludags.
Til vara gerir stefnandi kröfu um að stefndu verði gert að greiða henni aðra lægri fjárhæð að álitum samkvæmt mati dómsins.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Allir stefndu gera kröfu um að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins.
Stefndi, íslenska ríkið, gerir þá kröfu til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn falla niður.
II
Kröfur stefnanda á hendur stefndu, B, C og D, eru á því byggðar að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af þeirra hendi 2. ágúst 2002 og þar af leiðandi miska sem þeim beri að bæta.
Kröfur stefnanda á hendur íslenska ríkinu eru byggðar á því að rannsókn lögreglu á ofbeldinu hafi verið ábótavant sem leitt hafi til þess að ekki var ákært í málinu. Stefnandi hafi orðið fyrir bótaskyldum miska af þeim sökum.
Í þinghaldi 1. september sl. ákvað dómarinn, að kröfu lögmanns stefnanda og með samþykki lögmanna stefndu, að þinghöld í málinu skyldu vera lokuð og byggði þá ákvörðun sína á b og d-liðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 91/1991.
III
Stefnandi var í matarboði hjá vinkonu sinni, E, að kvöldi 1. ágúst 2002. Um ellefuleytið kvaðst hún hafa farið þaðan ein síns liðs á veitingastaðinn Nellýs cafe, sest þar við barinn og fengið sér bjór. Stefndi B hafi komið þar sem hún sat og boðið sér sæti við borð þar sem hinir stefndu, D og C, og fleira fólk hafi setið. Stefnandi kvaðst ekki hafa þekkt þetta fólk. Þegar veitingastaðnum var lokað hafi sér verið boðið í partý en áður hafi átt að fara á annan stað til þess að kaupa bjór. Sá staður hafi verið lokaður og hafi þeir stefndu sagt að hitt fólkið ætlaði að útvega bjór og koma svo upp í Breiðholt í partýið. Þau fjögur hafi farið saman í leigubíl upp í [...] þar sem partýið átti að vera. Stefnandi kvaðst hafa gert ráð fyrir því að hitt fólkið kæmi á eftir en svo hafi ekki orðið. Stefnandi kannaðist við að þau B hefðu látið vel hvort að öðru á leiðinni upp í Breiðholt en svo hefði það verið búið. Hún hefði ekkert óttast þremenningana á leiðinni.
Stefndi B kvaðst ekki muna mikið eftir því sem gerst hefði inni á Nellýs cafe en hann hefði drukkið allan daginn. Þegar út af staðnum kom hafi ætlunin verið að leita að partýi. Stefnandi hafi verið með þeim fyrir utan og leitast við að koma með í partýið. Stefndi kvaðst ekki hafa verið á móti því. Ekkert partý hafi fundist og þá hafi verið ákveðið að fara upp í [...] þar sem stefndi C átti heima. Þau stefnandi hefðu látið vel hvort að öðru á leiðinni í leigubílnum.
Stefndi D kvaðst hafa farið á Nellýs cafe með frænda sínum, B, og C sem þeir tveir þekki. Þeir hefðu rölt þar um og B hitt stefnanda. Sig minnti að þegar út af staðnum kom hafi þau fjögur farið beint að leita að leigubíl og farið upp í [...]. Ekki vissi hann hvernig það hefði atvikast að stefnandi fór með þeim. Sér hefði fundist að stefnandi og B létu vel hvort að öðru á leiðinni.
Stefndi C sagði þá B og D hafa farið saman á Nellýs cafe þar sem B hefði hitt stefnanda. Hann hefði ekkert rætt við stefnanda þar inni, en þau stefnandi og B hefðu setið saman. Ætlunin hefði verið að fara í eitthvert partý sem ekki hefði fundist og þá verið farið heim til sín. Vel hefði farið á með þeim stefnanda og B, bæði í leigubílnum og þegar heim var komið.
Stefnandi sagði þegar komið var í [...] hafi þau fjögur setið inni í stofu og talað saman. Ekkert áfengi hafi verið drukkið. Í skýrslu sem stefnandi gaf fyrir lögreglu sagðist hún hafa drukkið fjóra bjóra í matarboðinu hjá vinkonu sinni. Stefndi B hafi farið inn í herbergi því að aðeins þar hafi mátt reykja. Stefnandi kveðst einnig hafa farið þangað til þess að reykja. Í herberginu hafi verið einbreitt rúm þar sem hún settist. Stefndi B hafi setið á stól og þau verið að tala saman, en ekkert að kyssast eða þess háttar. B hafi reiðst, tekið um hálsinn á sér og sett hina höndina fyrir munninn. Ekkert vissi hún hvers vegna B hefði reiðst. Stefnandi kveðst hafa sagt að hún væri hætt að sæta ofbeldi. Hún hafi eitt sinn verið í sambúð og sambýlismaðurinn einu sinni barið hana. B hafi aftur tekið sig hálstaki, en sleppt síðan takinu og beðist fyrirgefningar. Við þetta hafi hún orðið hrædd. Næst hafi B skipað sér að fara úr buxunum sem hún hafi gert. Hún hafi áfram verið í jakka, bol og sokkum. Síðan hafi B farið upp á sig og haft við sig samfarir. Stefnandi kvaðst ekki hafa þorað að kalla á þá C og D. Þá hafi þeir tveir komið inn í herbergið þar sem B hafi legið ofan á sér. Stefnandi kvaðst ekki viss um hvort þeir hafi komið inn á sama tíma eða í sitt hvoru lagi. Annar hafi staðið fyrir framan sig á nærbrókunum og hafi hún átt að totta hann. Það hafi líklega verið stefndi D þótt hún væri ekki viss um það. Hinn hafi verið nakinn. Þegar stefnandi var beðin um að lýsa hvað hefði gerst næst kvað hún eins og þetta hefði átt að ganga hringinn, totta einn og annar upp á sig og svo koll af kolli. Stefnandi taldi að tveir stefndu hefðu haft við sig samfarir. Stefnandi taldi að eitthvert hvísl hefði verið í herberginu en hún hefði bara lokað augunum. Hugsunin hjá sér hefði verið sú að streitast ekki á móti en hún hefði verið nýbúin að sjá þátt þar sem það hefði komið fram. Hún hafi verið dofin og hrædd og hugsað um það að halda lífi. Hún hefði reynt að leyna því að hún væri hrædd. Stefnandi kvaðst kannast við það að nei ætti að þýða nei þegar um hættu á nauðgun væri að ræða en verið lömuð af ótta. Hún hafi haft áhyggjur af dóttur sinni og fermingu hennar. Stefnandi kvaðst ekki muna hvort stefndu, C og D, hefðu eitthvað talað við sig inni í herberginu og sagði að þeir hefðu ekki ógnað sér. Stefnandi kvaðst heldur ekki muna hvort B hefði viljað hafa mök við sig á nýjan leik og æst sig vegna þess. Stefnandi kvaðst síðan hafa spurt að því hvort hún mætti fara á klósettið og hafi það verið leyft. Hún hafi verið með símann í vasanum og ætlað að hringja í neyðarlínuna. B hafi þá komið inn á klósettið og spurt hvort hún væri með síma og hún ekki þorað annað en að láta hann fá símann. Stefnandi kvaðst hafa spurt stefndu hvort hún mætti klæða sig og hafi hún mátt það. Hún hafi þá klætt sig en látið nærbuxurnar í vasann. Stefnandi kvað B hafa beðið sig um símanúmerið hjá sér, látið það í eigin síma og eigið símanúmer í síma stefnanda. Stefnandi kvaðst hafa grátið stanslaust á þessum tíma allt frá því að hún fór á klósettið þar sem hún hafi fengið niðurgang. C hafi síðan komið og beðið hina tvo um að fara út sem þeir hafi gert. C hafi beðið sig að vera um nóttina. Það væri betra fyrir hana. Stefnandi kvaðst ekki hafa óttast C eins mikið og B sem hafi verið ógnvekjandi. Eftir það hafi hún ætlað að fara en C sagt að þeir myndu bíða eftir henni fyrir utan. Eina hugsunin hjá sér hafi verið að komast út og burt. C hefði fylgt sér út á götu. Hún hefði þá hlaupið að [...] þar sem kunningjafólk móður sinnar búi. Þar hafi hún hringt dyrabjöllunni, en ekki hafi verið opnað. Hún hafi hringt á neyðarlínuna. Þegar opnað var hafi komið maður til dyra en það hafi verið nýr maður kunningjakonu móður sinnar. Stefnandi kvaðst hafa látið manninn fá símann sinn en þá hafi lögreglan verið í símanum. Lögreglan hafi síðan komið, hún hafi farið inn í lögreglubílinn og talað við lögregluna. Í því hafi síminn sinn hringt og hafi hún séð að B var í símanum. Stefnandi kvaðst hafa látið lögregluna fá símann og sagt henni að þetta væri einn af þeim. Lögreglan hafi farið með sig á neyðarmóttökuna. Stefnandi kvaðst hafa verið alveg frávita á þessum tíma af hræðslu og verið í sjokki. Að skoðun þar lokinni hafi hún farið beint til E vinkonu sinnar en hún kvaðst ekki hafa þorað heim af ótta við að stefndu myndu koma þangað. Sálfræðingur á neyðarmóttökunni hafi ekki viljað að hún væri ein. Stefnandi kvaðst hafa verið nokkra daga hjá E vinkonu sinni. Dóttir sín hafi verið hjá ömmu sinni og afa á þeim tíma er hún dvaldi hjá E. Þegar hún hafi komið heim hefði hún dregið fyrir alla glugga, haft hnífa út um alla íbúð og sjónvarpið lágt stillt og lítil ljós. Stefnandi kvaðst ekki hafa þorað að fara út úr húsi. Ekki væri langt síðan að hún þyrði að fara í bæinn á kvöldin. Stefnandi kvaðst ekki hafa þorað að heimsækja móður sína sem byggi uppi í Breiðholti af ótta við að hitta stefndu. Stefnandi kvaðst ennþá vera í meðferð hjá Þórunni Finnsdóttur sálfræðingi. Stefndu hefðu ekki reynt að hafa samband við sig eftir þennan atburð.
Stefnandi kvaðst ekki hafa átt við þunglyndi, veikindi eða svefntruflanir að stríða fyrir þennan atburð. Hún hefði verið í veikindaleyfi frá vinnu sinni frá því 6. ágúst 2000 en byrjað að vinna veturinn 2003-2004. Stefnandi kvaðst aðeins vinna klukkutíma á dag og vera ennþá í veikindaleyfi.
Stefndi B sagði að þau hefðu fengið sér bjór þegar í [...] kom. Síðan hafi hann farið inn í herbergið þar sem mátti reykja og stefnandi á eftir. Þau hefðu setið þar og reykt og sötrað bjór. Hann hefði tekið utan um stefnanda og kysst hana. Vel hefði farið á með þeim og hann hefði fikrað sig áfram og káfað á stefnanda og ekki fundið fyrir mótþróa hjá henni heldur hefði hún tekið þessu vel. B kannaðist ekki við að hafa tekið stefnanda kverkataki þarna eða öðrum ámóta tökum. Stefnandi hefði sjálf klætt sig úr án þess að hann hefði sagt henni það. Hann hefði byrjað að hneppa frá fötunum og stefnandi klárað að klæða sig úr. Í skýrslu lögreglu sem tekin var af stefnda B 8. ágúst 2002 og hann staðfesti fyrir dómi segir m.a. eftirfarandi: „Hún [stefnandi] var eitthvað feimin í fyrstu og sagði við mig að vera ekki að þessu, ég hélt áfram að kyssa hana og síðan byrja ég að taka hana úr buxunum og þá gefur hún eftir og þegar ég er búinn að taka buxurnar hennar niður hné þá klárar hún sjálf að fara úr buxunum og nærbuxum.“ Síðan hefðu kynmök byrjað, stefnandi lagst á bakið og hann ofan á. Stefnandi hefði engan mótþróa sýnt og samfarirnar hefðu ekki verið með neinum erfiðismunum. Síðan hefði stefnandi snúið sér við og samfarirnar haldið áfram. Stefndi kvaðst þá hafa kallað í D í því skyni að athuga jarðveginn fyrir því að fleiri fengju að vera með í samförunum. Stefndi D hafi komið inn og verið klæddur. Stefndi B kveðst þá hafa sagt við stefnanda hvort hún væri tilbúin til þess að sjúga D sem hún hafi ekki svarað öðru vísi en með því að taka við liminum. Stefndi kvaðst hafa litið á það sem samþykki. Stefnandi hefði ekki svarað þessu með jái eða neii. Stefndi sagði að sér þætti það eðlilegt samneyti að fleiri en einn hefðu mök við konu á sama tíma. Hann hefði áður tekið þátt í slíku og einnig síðar. Þetta væri eðlilegur hluti af kynlífi. Stefndi kvaðst hafa hætt samförunum skömmu eftir að stefnandi byrjaði að sjúga D og ekki hefði hann fengið sáðfall. Hann hafi farið inn á klósett í framhaldi af því til að þrífa sig. D hafi orðið eftir inni. Stefndi kvaðst ekki muna hvort C hafi verið kominn inn í herbergið þegar hann fór á klósettið, en þegar hann kom þaðan hafi C verið kominn inn í herbergið. Stefndi kvaðst ekki hafa séð C hafa mök við stefnanda en séð aftan á hann eins og hann ætlaði að fara að gera eitthvað með henni en stefnandi hefði reist sig við og byrjað að reyna að sjúga C eða eitthvað. Hann kvaðst ekki hafa heyrt orðaskipti á milli þeirra. Stefndi kvaðst ekki viss um það hvort D hafi verið farinn út úr herberginu á þessum tíma. Stefndi kvaðst á þessum tíma hafa viljað halda kynmökum áfram við stefnanda og hafi ætlað að gera sig kláran til þess en það hafi hann ekki mátt. Stefnandi hafi þá hafnað sér. Stefndi kvaðst hafa brugðist fúll við. C hafi þá verið farinn út úr herberginu. Stefnandi hafi síðan farið á klósettið og kvaðst stefndi ekki muna hvort hún hefði komið grátandi þaðan út. Stefndi kvaðst hafa hreytt einhverju í stefnanda og hún farið að gráta eftir það. Stefndi kvað þá C og D hafa beðið sig að vera rólegan. Stefndi kannaðist ekki við að hafa bannað að hringt yrði í lögreglu. Þeir D hefðu skömmu seinna farið út úr íbúðinni en stefnandi orðið eftir.
Stefndi D sagði að stefnandi og stefndi B hefðu farið saman beint inn í herbergið í [...] þegar þangað var komið. Enginn hávaði hefði heyrst úr herberginu í byrjun. B hefði kallað á sig inn í herbergið og sagt sér að taka út á sér. Stefndi viðurkenndi þó að rétt væri það sem stendur í lögregluskýrslu að hann hefði komið inn í herbergið með liminn beran og stinnan. Ekkert hefði verið undirbúið af hálfu þeirra stefndu. Stefnandi hefði tekið liminn upp í sig að eigin frumkvæði að því er sér hefði fundist, en hann hefði engin orðaskipti átt við hana. Stefndi B hefði haft samfarir við konuna aftan frá á meðan. Þetta hefði staðið í 3-4 sekúndur en þá hefði hann hætt og ekki fundist þetta eðlilegt. Sér hefði fundist að stefnandi vildi þetta. Stefnandi hefði ekki sýnt neina hræðslu eða mótþróa. Annars hefði hann ekki gert þetta. Í lögregluskýrslu sem tekin var af stefnda D 9. ágúst 2002 segist hann ekki hafa fengið sáðlát í munn stefnanda. C hefði komið inn í herbergið á nærbuxunum og hann þá farið út. Stefndu, C og B, og stefnandi hafi verið áfram inni í herberginu. Stuttu síðar hefði C komið fram í stofu. Síðan hafi stefnandi og B eitthvað byrjað að rífast og B farið að æsa sig en ekki vissi hann hvað þeim hefði farið á milli. B hefði komið fram og verið æstur og kvaðst stefndi hafa sagt honum að hætta þessum fíflaskap. Stefnandi hafi komið grátandi út úr herberginu eftir að þau B hefðu rifist þar. Hann hefði setið inni í stofu, náð í stól handa stefnanda og spurt hana hvað hefði skeð. Hún hefði verið í panik. B hefði staðið við útidyrnar og þá hafi hann ákveðið að koma honum út. Þeir hefðu farið saman út og gengið upp á Select. Stefnandi hafi verið eftir inni. Stefndi kvaðst hafa verið nokkuð ölvaður.
Stefndi C sagði að bjór hefði verið hafður um hönd þegar heim til hans kom.
Vel hefði farið á með stefnanda og B áður en þau fóru inn í herbergið. Enginn hávaði hefði heyrst þaðan. Stefndi kvaðst hafa farið inn í herbergið til að sjá hvað væri að gerast þar og þá hafi B verið að hafa samfarir við stefnanda. D hafi verið inni í herberginu en farið út um leið og hann kom inn. C kvaðst hafa farið klæddur inn í herbergið. C hélt að stefnandi hafi verið að hafa munnmök við D þegar hann kom inn í herbergið. Hann kvaðst þá hafa losað um buxur sínar og eitthvað hafa tekið þátt í leiknum. Engin orðaskipti hafi verið og engin þvingun viðhöfð eða hótun. Eitthvað hafi hann reynt samfarir og kvaðst muna eftir því að stefnandi hafi haft munnmök við sig. Stefnandi hafi haft fullan áhuga á því og tekið um liminn með höndunum og hafi hann gert ráð fyrir að hún væri samþykk þessu. Ekki hafi verið fullt ris hjá sér. Stefndi kvaðst aldrei hafa fundið að stefnandi væri mótfallin þessum mökum og ekki hafi hann fundið að hún væri hrædd. Ekki hafi annað verið sagt eða sýnt en stefnandi væri samþykk munnmökunum. Þetta hafi staðið mjög stutt. Hann hafi hætt að eigin vilja og ekki verið spenntur fyrir þessu Í lögregluskýrslu, sem tekin var af stefnda 2. ágúst 2002, segist hann ekki hafa fengið sáðlát við munnmökin. C kvaðst halda að B hafi verið inni í herberginu. C kvaðst síðan hafa farið inn í stofu. Síðan hafi hann heyrt B æsa sig og hafi hann þá sagt honum að vera ekki með neitt rugl og beðið hann að fara út ef hann væri eitthvað að æsa sig. Sér hefði fundist frekar að stefnandi væri orðin óttaslegin. Hann hefði aldrei séð hana gráta. Stefnandi hafi farið á klósettið. Þeir B og D hafi farið út. Þá hafi stefnandi ætlað út en hann spurt hana hvort hún vildi ekki bíða aðeins eftir því að þeir færu lengra. Hún hafi bara viljað fara og hann þá fylgt henni út á tröppur.
IV
Í skýrslu lögreglu sem er tímasett kl. 4.37 föstudaginn 2. ágúst 2002 segir að tilkynning hafi borist frá fjarskiptamiðstöð kl. 4.37 um að kona væri komin í [...] og hafi tilkynnt heimafólki að hún hefði orðið fyrir árás. Lögreglan hafi komið á vettvang 2-3 mínútum seinna og hitt þar utan dyra stefnanda og F. Stefnandi hafi verið í miklu uppnámi og sagt að sér hefði verið nauðgað af þremur mönnum í kjallaraíbúð í [...]. Hefðu þeir hótað að drepa sig færi hún til lögreglu. Segir m.a. eftirfarandi í lögregluskýrslunni: „Var frásögn hennar sannfærandi eins og hennar fas en hún var í miklu uppnámi og virtist ekki vita hvað hún ætti að gera. Þá var hún mjög hrædd. Hún virtist ekki vera mjög ölvuð. Tókum við hana strax trúanlega og ákváðum að aka henni á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og koma henni í hendur þeirra sem sjá um fórnarlömb kynferðisbrota.“
Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á stefnanda, sem tímasett er kl. 6.00 2. ágúst 2002, segir að saga hennar hafi verið slitrótt, hún hafi verið reið og óttaslegin og hrædd um að mennirnir eltu sig og gerðu sér eitthvað.
Í skýrslu Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings, sem dagsett er 19. maí 2003, segist sálfræðingurinn hafa tekið á móti stefnanda á bráðamóttökunni ásamt hjúkrunarfræðingi og lækni. Eftir þrjú ráðgjafaviðtöl hafi verið ákveðið að stefnandi fengi áframhaldandi sálfræðimeðferð hjá sér. Stefnandi hafi mætt í 23 viðtöl þegar skýrslan var skrifuð.
Í vottorði sama sálfræðings dagsettu 16. júlí 2004 segir að stefnandi hafi fengið 13 sálfræðiviðtöl til viðbótar síðan 19. maí 2003.
Í skýrslu sálfræðingsins frá 19. maí 2003 segir svo um bráðaviðbrögð stefnanda:
„Við fyrstu komu á Neyðarmóttöku var A í miklu tilfinningalegu uppnámi. Hún átti erfitt með að segja sögu sína, skalf og grét. Hún virtist óttaslegin og í viðbragðsstöðu sem birtist m.a. í óeðlilega sterkum viðbrögðum við lítilsháttar áreitum í umhverfinu. Í frásögn hennar kom fram að hún hafði upplifað mikinn ótta og hjálparleysi sem birtist m.a. í líkamsviðbrögðum sem þekkjast við ofsahræðslu, eins og niðurgangi eftir nauðgunina og þurrki á slímhúð í munni og kynfærum, sem hún hafði orð á að hefði valdið líkamlegum sársauka við nauðgunina.“
Þá er áhrifum á líðan og hegðan, sálfræðiprófum og meðferð lýst í skýrslunni. Niðurstaða sálfræðingsins er eftirfarandi:
„Mat mitt er að A hafi orðið fyrir miklu andlegu áfalli þann 2. ágúst 2002. Líðan hennar og hegðun samsvarar líðan og hegðun sem þekkist hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og t.d. nauðgun, stórslys eða hamfarir. Þegar máli A var vísað frá endurupplifði hún að miklu leyti sömu tilfinningar og hún hafði upplifað í kjölfar nauðgunarinnar. Það er því mat mitt að meðferð málsins innan réttarkerfisins hafi haft veruleg neikvæð áhrif á líðan hennar. Ef málið fer í áframhaldandi vinnslu innan kerfisins mun það væntanlega endurvekja slæmar minningar og tilfinningar hjá A og mun hún því fá áframhaldandi sálfræðistuðning.“
Sálfræðingurinn lýsir og hvernig málin standa hjá stefnanda með eftirfarandi orðum:
„A hefur tekist vel að vinna úr sínum málum. Áfallastreitueinkennin hafa horfíð að miklu leyti. Í byrjun apríl tókst henni í fyrsta skipti að fara niður í bæ án þess að finna fyrir kvíða og óþægindum. Ennþá hefur hún þó ekki þorað í sund vegna fyrri upplifunar þar og ákveðnar aðstæður sem minna á atburðinn, td í kvikmyndum og fréttum geta vakið upp óþægilegar tilfinningar. A tókst að verulegu leyti að vinna á erfiðum tilfinningum í kjölfar frávísunar máls síns með því að finna nýjar leiðir til að leita réttar síns innan dómskerfisins.“
Sálfræðingurinn Þórunn Finnsdóttir staðfesti skýrslu sína og vottorð fyrir dóminum. Sálfræðingurinn kvað stefnanda hafa lengi átt í erfiðleikum eftir atburðinn og vanlíðan hennar hafi verið mikil alveg fram yfir áramót 2002-2003. Það hafi liðið dálítill tími þar til stefnandi hafi treyst sér til þess að tala um atburðinn. Þær prófanir sem hún hafi gert hafi sýnt sömu úrvinnslu stefnanda og almennt gerist þegar svona atburðir eigi sér stað. Erfitt hafi verið fyrir stefnanda að mynda tengsl og sagðist sálfræðingurinn því hafa haldið áfram meðferð stefnanda eftir að hún tók á móti henni á bráðamóttökunni sem annar sálfræðingur hefði annast að öðrum kosti.
Sálfræðingurinn kvaðst kannast við að stefnandi hefði verið þunglynd áður en atburðurinn varð og haft einhver streitueinkenni. Sálfræðingurinn kvaðst ekki muna hvort stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði verið þunglynd eða hún gert ráð fyrir því að svo væri. Þunglyndi og streita geti haft áhrif á það hvernig gangi að vinna úr áfalli eins og stefnandi hafi orðið fyrir. Þetta sé hins vegar millibreyta en geti ekki orðið orsakabreyta í áfallabreytunni. Sama máli gegni hafi maður orðið fyrir ofbeldi áður.
Vinkona stefnanda, E, kom fyrir dóminn og sagðist hafa unnið með stefnanda frá árinu 1995 við gangavörslu í X-skóla. Stefnandi hafi komið heim til sín frá bráðamóttökunni, erfitt hafi verið að skilja hvað hún sagði og hún hafi verið eins og í losti. Vitnið sagði að sig minnti að stefnandi hefði verið hjá sér í vikutíma.
Móðir stefnanda, G, kom fyrir dóminn. Ekki kom neitt það fram í vitnisburði hennar sem ástæða þykir til að gera grein fyrir í dóminum.
V
Eins og fyrr greinir skrifaði lögreglan skýrslu 2. ágúst 2002 þegar hún kom að [...]. Skýrsluna gerði lögreglumaðurinn Gísli Jökull Gíslason. Í skýrslunni kemur m.a. fram að lögreglumennirnir reyndu að finna íbúðina sem stefnandi hafði lýst. Börðu þeir að dyrum kjallara að [...]. Enginn svaraði þar og var vakt sett við staðinn. Rannsóknarlögreglumaðurinn Runólfur Þórhallsson kom á staðinn þar sem lögreglumennirnir voru fyrir. Í skýrslu Runólfs kemur fram að hann hafi hringt á tvær leigubílastöðvar, væntanlega til að afla upplýsinga. Af lögregluskýrslu og vistunarskýrslu lögreglu má sjá að stefndi C var handtekinn kl. 11.40 2. ágúst, vistaður í fangaklefa kl. 12.09, skýrsla tekin af honum kl. 13.50 og hann látinn laus kl. 16.51. Í lögregluskýrslunni kemur fram að stefndi C hafi leyft að heimili hans yrði skoðað.
Stefnandi kom á lögreglustöðina við Hverfisgötu kl. 11.17 2. ágúst, lagði fram kæru vegna nauðgunar og gaf skýrslu. Stefnandi gaf viðbótarskýrslu 28. október 2002.
Skýrslur voru teknar af stefnda B 8. ágúst og 7. nóvember 2002. og af stefnda D 9. ágúst og 11. nóvember 2002. Skýrsla var aftur tekin af stefnda C 1. nóvember 2002.
Lögð hefur verið fram álitsgerð Rannsóknarstofu háskólans í meinafræði, dagsett 7. október 2002, um niðurstöður sýnarannsókna er varða kærða og kæranda eins og í skýrslunni segir. Enn fremur ljósrit mynda tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík af gallabuxum dagsett 19. ágúst 2002 og myndir teknar í íbúðinni að [...] ásamt skýrslu um rannsókn á íbúðinni sem lauk kl. 12.36 2. ágúst.
E gaf skýrslu fyrir lögreglu 31. október og F 1. nóvember 2002.
Ríkissaksóknari ákvað 24. janúar 2003 að fella niður saksókn vegna meints kynferðisbrots stefndu, B, D og C. Í bréfi, dagsettu 20. febrúar 2003 til Helgu Leifsdóttur hdl., réttargæslumanns stefnanda, rökstyður Ríkissaksóknari þá ákvörðun sína.
Með bréfi lögmanns stefnanda til Ríkissaksóknara, dagsettu 19. maí 2003, var þess óskað að embætti ríkissaksóknara endurskoði þá afstöðu sína að fella saksókn niður. Því hafnaði Ríkissaksóknari með bréfi dagsettu 28. s.m. Lögmaður stefnanda fór fram á endurupptöku málsins með bréfi til Ríkissaksóknara, dagsettu 10. júlí 2003, og var því hafnað með bréfi dagsettu 21. s.m.
Hinn 17. september 2003 ritaði lögmaður stefnanda dómsmálaráðherra bréf og óskaði þess að ákvörðun Ríkissaksóknara um niðurfellingu saksóknar yrði felld úr gildi sbr. ákvæði 26. gr. laga nr. 19/1991. Því hafnaði dómsmálaráðherra með bréfi dagsettu 11. nóvember 2003.
Hinn 24. janúar 2003 ritaði Ríkissaksóknari Lögreglustjóranum í Reykjavík bréf og óskaði skýringa á því hvers vegna ekki hafi verið teknar skýrslur af stefndu, B og D, fyrr en sex til sjö dögum eftir að upplýst var „hverjir ættu hlut að máli.“
Lögreglustjóri gaf skýringar á því í bréfi dagsettu 30. janúar 2003.
VI
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að löglíkur séu fyrir því að stefnandi hafi orðið fyrir nauðgun sem stefndu, B, D og C, hafi sammælst um að framkvæma. Stefndi B hafi þvingað stefnanda til samfara með því að taka hana kverkataki og skipa henni að afklæðast. Stefndu hafi síðan allir tekið þátt í kynmökunum og hafi því verið um hópnauðgun að ræða. Frásögnum stefndu af atburðinum beri ekki saman nema að því leyti að allir segi þeir að samþykkis stefnanda fyrir kynmökunum hafi ekki verið leitað. Stefnandi sé hrekklaus manneskja sem engum geri illt og trúi ekki neinu slíku um aðra. Hún hafi verið hrædd um líf sitt og metið aðstæður þannig, eins og konum sé ráðlagt að gera, að því yrði best bjargað á þann hátt að berjast ekki á móti aðförum stefndu. Stefndu hafi engan veginn getað litið svo á að stefnandi hafi með þessum hætti gefið samþykki sitt til kynmakanna og öllum megi vera ljóst að til þess að kynmök, af því tagi sem hér um ræði, geti talist eðlileg verði ótvírætt samþykki konu að liggja fyrir. Sönnunarbyrði um að samþykki stefnanda hafi legið fyrir hvíli á stefndu og þeim hafi engin sönnun tekist.
Öll viðbrögð stefnanda að kynmökunum afstöðnum og sjúkrasaga hennar í framhaldi af því beri þess skýran vott að hún hafi orðið fyrir alvarlegu andlegu áfalli.
Stefndu hafi svívirt líkama og æru stefnanda með alvarlegri líkamsárás sem leitt hafi til andlegs áfalls og sé hér um refsivert brot að ræða.
Stefnandi byggi miskabótakröfu sína á hendur stefndu á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en samkvæmt ákvæði í þeirri lagagrein sé heimilt að láta þann sem beri ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við.
Þá byggi stefnandi einnig kröfu sína á almennu skaðabótareglunni. Stefndu hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi valdið stefnanda tjóni sem sé afleiðing af athöfnum þeirra. Þeim beri að bæta stefnanda tjónið.
Stefnandi heldur því fram að rannsókn lögreglu á atburði þeim sem mál þetta snýst um hafi verið verulega áfátt sem leitt hafi til niðurfellingar saksóknar gegn stefndu, B, D og C. Stefnandi hafi orðið fyrir miklu andlegu áfalli vegna þessa og miska þar af leiðandi.
Ekki hafi þess verið krafist að stefndi C sætti gæsluvarðhaldi á meðan leitað var hinna stefndu, B og D, sem ekki hafi verið gert fyrr en seint og um síðir. Þeir tveir hafi ekki verið yfirheyrðir fyrr en 8. og 9. ágúst þegar þeir hafi verið boðaðir til lögreglu. Stefndu hafi aftur gefið skýrslu í nóvember og þar við látið sitja. Brýnt hafi verið að ná til allra stefndu strax svo að þeir gætu ekki samræmt framburði sína. Ekki hafi verið gerð tilraun til þess að leita að leigubílstjóranum sem ekið hefði upp í [...].
Samkvæmt lögreglulögum nr. 90/1996 hafi lögreglan það hlutverk m.a. að vinna að uppljóstran brota og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt sé fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála. Samkvæmt 111. gr. þeirra laga eigi hver refsiverður verknaður að sæta ákæru nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum. Í IX. kafla laganna sé mælt fyrir um að lögregla skuli rannsaka sérhvert mál þannig að aflað sé allra tiltækra gagna um þann verknað sem um ræði. Lögreglustjórinn í Reykjavík hafi vanrækt þessar skyldur.
Þá vísar stefnandi til 14. og 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi nr. 10/1979, 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu til stuðnings miskabótakröfu sinni. Auk þessa kveðst stefnandi byggja miskabótakröfu á hendur ríkinu á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Af hálfu stefndu, B, D og C, er því haldið fram að þeir hafi ekki þröngvað stefnanda til kynmaka heldur hafi þau farið fram með fullu samþykki hennar. Stefnandi hafi ekki nokkurn hátt streist á móti heldur sýnt fullt samþykki til kynmakanna í vilja og verki. Stefndu hafi aldrei orðið varir við neinn ótta hjá stefnanda. Um þetta sé framburður stefndu samhljóða og einnig samhljóða í öllum meginatriðum. Hins vegar gæti ýmislegs ósamræmis í framburði stefnanda.
Stefnandi hefði með auðveldum hætti getað neitað kynmökunum sýndist henni svo. Það hafi hún og gert þegar stefndi B hafi viljað hafa frekari mök við hana og þótt stefndi reiddist því hafi hann virt þá ákvörðun stefnanda. Við rannsókn á líkama og fötum stefnanda hafi engin merki komið í ljós um það að henni hafi verið þröngvað til kynmaka. Hafa verði í huga að forleikur að kynlífsathöfnum og athafnirnar sjálfar fari fram með líkamlegri tjáningu en án orðræðna og ekki sé með nokkru móti hægt að fallast á að sérstakt samþykki verði að liggja fyrir áður en samræði hefst sé vilji sýndur í verki. Kynlíf fleiri en tveggja sé vel þekkt og hluti af eðlilegu kynlífi.
Stefnandi verði að bera ábyrgð á eigin gerðum og viðbrögð hennar eftir að hún yfirgaf stefndu hafi ekki verið í neinu samræmi við það sem fram hafi farið. Upplýst sé að stefnandi hafi verið haldin þunglyndi, sem hún hafi þó ekki viðurkennt fyrir dómi. Það geti auk annars haft margháttuð áhrif á líðan manna.
Til þess að bótaskylda skapist samkvæmt 26. gr. skaðabótalaganna þurfi að vera fyrir hendi ólögmæt og saknæm háttsemi og sama eigi við um skaðabótaskyldu samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Stefnandi hafi ekki leitt í ljós að stefndu hafi nokkur lög brotið. Skaðabótaskylda stefndu sé þannig ekki fyrir hendi og því beri að sýkna þá.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er því hafnað að rannsókn lögreglu á atburði þeim er mál þetta snýst um hafi verið ábótavant. Rannsókn máls með tilliti til þess hvort ákært verði eða ekki fari ekki fram í þágu brotaþola. Þannig sé ekki fyrir að fara réttarsambandi á milli stefnanda og íslenska ríkisins um annað en að eiga þess kost að setja fram bótakröfu í máli gegn sakborningi. Sé því hér um aðildarskort stefnanda að ræða sem leiði til sýknu. Um þessar málsástæður vísar stefndi til dóms Hæstaréttar frá 29. nóvember 2001 í máli nr. 178/2001.
Verði ekki á þessar málsástæður fallist sé á því byggt að rannsókn lögreglu hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og lögreglulaga nr. 90/1996. Í rannsókn lögreglunnar hafi engin ólögmæt meingerð falist gegn persónu, frelsi, friði eða æru stefnanda. Ekki hafi heldur verið saknæmri eða ólögmætri háttsemi til að dreifa. Sé því hvorki fyrir að fara bótagrundvelli samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga né almennu skaðabótareglunni. Því beri að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af kröfum stefnanda.
VII
Fallast ber á það með stefnda, íslenska ríkinu, að í því tilviki sem hér um ræðir sé ekki fyrir hendi það réttarsamband á milli stefnda og stefnanda sem leitt getur til þess að stefnandi geti haft uppi bótakröfu á hendur stefnda eins og gert er í þessu máli. Má um það að öðru leyti vísa til dóms Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp 29. nóvember 2001 í máli nr. 178/2001. Ber því að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af kröfum stefnanda. Rétt þykir að þessir aðilar málsins, stefndi íslenska ríkið og stefnandi, beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins að því er varðar þennan þátt þess.
Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu ber stefnanda og stefndu, B, D og C, nokkuð saman um það hver aðdragandi þess var að þau fóru saman í leigubíl upp í [...]. Stefnandi og stefndi B hafa bæði borið fyrir dóminum að þau hafi látið vel hvort að öðru í leigubílnum. Stefnandi hefur hins vegar neitað því að þau hafi haldið því áfram þegar í [...] kom. Ekkert er komið fram um það að stefndu hafi sammælst um að hafa kynmök við stefnanda saman eða hver í sínu lagi.
Stefnandi heldur því fram að stefndi B, þar sem þau voru tvö ein í herberginu í íbúðinni, hafi skyndilega reiðst, án þess hún vissi af hverju, tekið sig tvívegis hálstaki en sleppt því síðan og beðið sig afsökunar. Í framhaldi af þessu hafi stefndi B skipað sér að fækka fötum og byrjað við sig samfarir sem hún hafi ekki þorað að mótmæla af ótta við að verða fyrir líkamsmeiðingum.
Stefndi B hefur hins vegar borið að samfarir þeirra stefnanda hafi byrjað með eðlilegum hætti þó þannig að hann viðurkennir að stefnandi hafi verið „eitthvað feimin í fyrstu“ og sagt sér „að vera ekki að þessu.“ Framburður annarra stefndu er hins vegar á þann veg að ekkert hafi heyrst úr herberginu í fyrstu, en stefndi B hafi reiðst þegar stefnandi vildi ekki halda áfram samförum við hann eftir að þau höfðu hætt samförum sem þau áttu í upphafi og eftir að stefndi B hafði farið fram á salerni í íbúðinni og komið þaðan aftur.
Framburður stefnanda um að stefndi B hafi beitt hana ofbeldi, síðan beðist afsökunar og í framhaldi af því skipað henni að afklæðast, þykir ekki nægja gegn framburði stefndu um þetta atvik til þess að hægt sé að byggja á því að upphaf samfara þeirra stefnda B hafi verið afleiðing af ofbeldi hans.
Stefndu viðurkenna allir að hafa átt kynmök við stefnanda en halda því fram að það hafi verið með samþykki hennar, ekki beinu heldur í verki.
Stefndi B lýsti því fyrir dóminum að þar sem hann var í samförum við stefnanda hafi hann kallað á stefnda D í því skyni að hann tæki þátt í samförunum með þeim stefnanda. Stefndi B lýsti því einnig að hann hefði ekki spurt stefnanda að því hvort hún væri samþykk því að þau þrjú hefðu kynmök saman og sýnist þannig að eigin frumkvæði, án atbeina stefnanda, hafa stofnað til þeirra kynmaka sem á eftir fóru. Stefndi D hefur og lýst því að hann hafi ekki leitað eftir samþykki stefnanda við þessum kynmökum en litið svo á að hún væri samþykk þeim þar sem hún hefði tekið að sjúga lim sinn.
Stefndi C sagði að hann hefði eitthvað reynt samfarir við stefnanda og stefnandi hafi tekið lim sinn orðalaust og sogið hann. Engin orðaskipti hafi farið fram.
Stefnandi heldur því fram að öll kynmök sem fram fóru að [...] hafi verið án samþykkis síns og gegn vilja sínum.
Vera kann að kynmök fleiri en tveggja á sama tíma geti talist eðlilegur þáttur kynlífs. Hvað sem því líður verður ekki öðru vísi litið á, eins og atvikum og atburðarás var háttað að [...] en stefndu hafi, með þeim aðförum sínum að hafa kynmök við stefnanda, með þeim hætti sem að framan segir og eins og þeir sjálfir hafa lýst fyrir dómi, framið ólögmæta meingerð gegn stefnanda og æru hennar. Á þessari meingerð bera stefndu, B, D og C, ábyrgð og verða samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 dæmdir til að greiða stefnanda miskabætur.
Ekki er leitt í ljós að stefnandi hafi orðið fyrir beinum líkamlegum meiðingum af hálfu stefndu, B, D og C. Stefnandi átti við þunglyndi að stríða fyrir atburðinn. Það breytir ekki því að hún varð fyrir andlegu áfalli við atburðinn sjálfan eins og fram kemur í mati sálfræðings sem ekki hefur verið hnekkt. Þá er því haldið fram af hálfu stefnanda að hún hafi orðið fyrir öðru áfalli og miska þegar ljóst var að ekki yrði höfðað opinbert mál gegn stefndu vegna kæru hennar á hendur þeim. Sú ákvörðun er vissulega tengd atburðinum. Stefnandi beindi miskabótakröfu vegna þessarar ákvörðunar að íslenska ríkinu en af þeirri kröfu er ríkið sýknað fyrr í þessum dómi. Stefndu þykja ekki eiga að bera ábyrgð á afleiðingum ákvörðunarinnar. Með framangreint í huga þykja miskabætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar kr. 1.100.000 sem stefndu greiði in solidum með dráttarvöxtum eins og krafist er.
Stefnandi fékk gjafsókn í máli þessu 24. september 2003.
Rétt þykir að stefndu greiði stefnanda in solidum kr. 300.000 í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar með virðisaukaskatti samtals kr. 1.000.000.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð.
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A. Hvorugur þessara aðila greiði hinum málskostnað.
Stefndu, B, D og C, greiði stefnanda in solidum kr. 1.100.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 2. mars 2004 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda in solidum kr. 300.000 í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, Huldu Rúriksdóttur hdl., kr. 1.000.000.