Hæstiréttur íslands
Mál nr. 315/1998
Lykilorð
- Farmskírteini
- Vátrygging
- Skaðabætur
| 
 | Fimmtudaginn 18. febrúar 1999. | 
| Nr. 315/1998. | Tryggingamiðstöðin hf. (Valgarð Briem hrl.) gegn Kvisti ehf. (Jón Finnsson hrl.) | 
Farmskírteini. Vátrygging. Skaðabætur.
Í fól T að selja 602.560 kg. af loðnumjöli. T gerði farmsamning við K fyrir milligöngu skipamiðlarans Þ. Í farmskírteini undirrituðu af Þ f.h. K var þyngd farmsins sérstaklega tilgreind. T vátryggði farminn hjá TM og seldi síðan farminn til C með cif-skilmálum. Þegar uppskipun fór fram kom í ljós að 20.360 kg vantaði á loðnumjölsfarminn. TM greiddi C vátryggingarbætur vegna tjónsins. Endurkrafði TM síðan K, sem farmflytjanda, um greiðsluna. K hafnaði kröfunni á þeim grundvelli að í farmskírteininu hefði verið almennur fyrirvari sem takmarkaði ábyrgð farmflytjanda. Talið var að í fyrirvara skírteinisins fælist svo almenn og víðtæk takmörkun ábyrgðar að hún fengi ekki staðist ákvæði siglingalaga, sem setja skorður við því að farmflytjandi takmarki ábyrgð sína á farmi sem hann tekur til flutnings. K var því gert að greiða TM stefnufjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 1998. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 690.202 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. nóvember 1997 til greiðsludags, en til vara að hann verði dæmdur til að greiða aðra lægri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf lögmanns áfrýjanda 14. ágúst 1998 til löggilts vigtarmanns í Vestmannaeyjum, sem undirritaði vigtarvottorð 18. mars 1997 um loðnumjölsfarm frá Ísfélagi Vestmannaeyja hf., sem deila málsaðila er sprottin af og fluttur var með skipinu „Saar Genoa“. Var þar borin fram fyrirspurn um það, hvernig staðið hafi verið að vigtun farmsins í umrætt sinn. Í svari vigtarmannsins 21. ágúst 1998 kemur meðal annars fram, að allt mjölið hafi verið sett í sekki, sem síðan voru losaðir í lest skipsins. Hafi mjölið bæði verið vegið í verksmiðju og aftur við útskipun þess úr vöruskemmu, en þessi aðferð hafi þótt nákvæm og örugg.
Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti hafa einnig verið lögð fram gögn varðandi þann hluta mjölfarmsins, sem fluttur var í miðlest skipsins í sömu ferð frá Reykjavík til Hull í Englandi. Reyndist sá hluti farmsins vera 7.530 kg þyngri við affermingu en við fermingu. Ekki liggur fyrir skýring á þessu misræmi.
II.
Málsaðila greinir hvorki á um að stefndi hafi verið farmflytjandi í merkingu siglingalaga nr. 34/1985 né að úrlausn ágreinings þeirra skuli ráðast af íslenskum lögum. Þá er útreikningur kröfufjárhæðar ágreiningslaus. Lýtur deila málsaðila að því einu hvort fyrirvari stefnda í farmskírteini, sem getið er í héraðsdómi, leysi hann undan ábyrgð vegna þeirrar rýrnunar, sem fram kom á mjölfarminum við affermingu hans í Bretlandi.
Í farmskírteini var skráð sú lýsing á farminum, að um væri að ræða laust loðnumjöl, 602.560 kg að þyngd. Reisir áfrýjandi kröfu sína einkum á reglu 1. mgr. 110. gr. siglingalaga um að farmskírteini sé grundvöllur réttarstöðu farmflytjanda og viðtakanda farms, en áfrýjandi hafi með greiðslu tjónsbóta öðlast rétt viðtakanda farmsins gagnvart stefnda. Sé farmskírteinið sönnun þess að stefndi hafi veitt viðtöku vöru eins og greint sé í farmskírteininu, nema annað sannist, sbr. 1. mgr. 111. gr. sömu laga. Almennur fyrirvari um takmörkun ábyrgðar, eins og sá sem prentaður sé á stöðluðu eyðublaði farmskírteinisins, fái engu breytt um bótaskyldu stefnda skili hann ekki farminum í sama ástandi og við honum var tekið, en samkvæmt 1. mgr. 118. gr. siglingalaga verði ekki með samningi vikið frá ákvæðum 111. gr. sömu laga.
Stefndi vísar til stuðnings sýknukröfu sinni einkum til ákvæða 2. mgr. 102. gr., 103. og 2. mgr. 111. gr. siglingalaga. Þá reisir hann kröfu sína jafnframt á því, að lengi hafi tíðkast að hafa í prentuðum farmskírteiniseyðublöðum sams konar fyrirvara um ábyrgð farmflytjanda eins og þann, sem hér reynir á. Þetta sé því hluti almennt viðurkenndra flutningsskilmála og um það hafi farmsendanda verið fullkunnugt.
III.
Í siglingalögum eru skorður settar við því að farmflytjandi takmarki ábyrgð sína á farmi, sem hann tekur við til flutnings. Er þær að finna í þeim ákvæðum siglingalaga, sem stefndi vísar til, auk 68. gr. sömu laga. Fyrirvari í farmskírteini því, sem gefið var út í umboði stefnda og hér reynir á, er almennur og beiting hans eftir orðanna hljóðan myndi girða nær alveg fyrir ábyrgð farmflytjanda á lýsingu vöru gagnvart handhafa farmskírteinis. Verður fallist á með áfrýjanda að sú takmörkun ábyrgðar, sem í þessu felst, sé svo almenn og víðtæk að ekki fái staðist í ljósi 2. mgr. 102. gr. siglingalaga, sbr. og 2. mgr. 111. gr. sömu laga. Getur stefndi því ekki borið fyrir sig umrætt ákvæði farmskírteinisins til að komast hjá bótaskyldu vegna tjóns áfrýjanda. Verður aðalkrafa áfrýjanda því tekin til greina með dráttarvöxtum frá 4. desember 1997, en þá var liðinn einn mánuður frá því að áfrýjandi krafði stefnda um bætur. Skal stefndi jafnframt greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndi, Kvistur ehf., greiði áfrýjanda, Tryggingamiðstöðinni hf., 690.202 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. desember 1997 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Héraðsdómur Reykjaness 15. júní 1998.
Ár 1998, mánudaginn 15. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. E-82/1998: Tryggingamiðstöðin hf. gegn Kvisti ehf.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. maí sl., var þingfest 27. janúar 1998. Stefnandi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík en stefndi er Kvistur ehf., kt. 100146-4449, Ásbúð 31, Garðabæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð 690.202.- krónur með dráttarvöxtum frá 4. nóvember 1997 til greiðsludags samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 og til greiðslu málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
Málavextir.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. fól Tryggva Péturssyni & Co. Ltd. sem umsýsluaðila að selja 602.560 kg. af loðnumjöli. Tryggvi Pétursson & Co. Ltd. gerði flutningssamning við stefnda Kvist ehf., fyrir milligöngu Þorvaldar Jónssonar skipamiðlara. Tók stefndi að sér að flytja vöruna frá Vestmannaeyjum til Gunnes hafnarinnar í Bretlandi með M.S. ,,Saar Genoa”. Skipið lagði úr höfn frá Vestmannaeyjum þann 18. mars 1997 og loðnumjölsfarmurinn vigtaður í Vestmannaeyjum þann dag af löggiltum vigtarmanni, og reyndist magnið þá vera 602.560 kg. Á því skjali staðfestir skipstjóri skipsins ,,Saar Genoa” þunga farmsins með áletrun sinni á vigtarvottorðið.
Farmskírteini var útgefið 18. mars 1997 og undirritaði Þorvaldur Jónsson skipamiðlari það fyrir hönd Kvists hf., tímaleigutaka skipsins og fyrir hönd skipstjóra viðkomandi skips. Á farmskírteininu er tilgreint undir liðnum ,,Shippers description of goods” að um sé að ræða íslenskt fiskimjöl, 602.560 kg að þyngd. Kílóafjöldi mjölsins er þannig sérstaklega tilgreindur á farmskírteininu.
Tryggvi Pétursson & Co. Ltd. tryggði farminn hjá stefnanda og seldi síðan farminn fyrirtækinu Chemicals and Feeds Limited og fylgdi tryggingin með í kaupunum.
Ms. Saar Genoa er 3.0047 tonn, byggt árið 1994. Lestar skipsins eru boxlaga og lestinni skipt í þrennt með færanlegum stálskilrúmum. Fiskimjölsfarmurinn í umræddri ferð skipsins var lestaður í þremur höfnum. Í Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Hornafirði. Farmur frá Reykjavík til Hull, 570 tonn, var lestaður í miðlest skipsins, farmur frá Vestmannaeyjum til Gunness í Skotlandi í III lest, 602,5 tonn og farmur frá Hornafirði til Leith, 336 tonn, í I lest skipsins. Farmarnir voru algerlega aðgreindir með skilrúmunum. Sami kaupandi var að förmunum til Leith og Gunness.
Mjög vont veður var í mars 1997 þegar skipið var lestað á viðkomandi höfnum. Á Hornafirði var veðurspá svo slæm að ákveðið var í samráði við seljanda og kaupanda að láta skipið sigla til þess að eiga ekki á hættu á að skipið lokaðist inni, enda þótt ekki hefðu verið lestuð nema 336 af 500 tonnum sem ætlunin var að skipið tæki þar.
Þegar uppskipunin fór fram í Gunness þann 27. mars kom í ljós að vöntun á loðnumjölsfarminum sem var í eigu Chemicals and Feeds Limited var 20.360 kg. Upplýsingum um vöntunina var strax komið til stefnda með símbréfi. Í því bréfi er greint frá því að fyrirtækið Chemicals and Feeds Limited líti svo á að skipstjórinn og farmflytjandi beri alla ábyrgð á þeim kostnaði og því tjóni sem hlýst af vöntuninni.
Stefnandi greiddi Chemicals and Feeds Ltd. vátryggingabætur vegna tjónsins í samræmi við vátryggingasamning. Lögmaður stefnanda krafði síðan stefnda sem farmflytjanda um greiðslu tjónsins að fjárhæð kr. 690.202.-, með bréfi dagsettu 4. nóvember 1997. Stefndi hafnaði þeirri kröfu með bréfi dagsettu 14. nóvember 1997 með almennri vísun til flutningsskilmála á viðkomandi farmbréfum.
Farmskírteini dags. 18. mars 1997 hefur verið lagt fram í málinu þar segir í vörulýsingu að um 602.560 kg. af loðnumjöli sé að ræða. Þá segir í skilmálum: ,,Weight, measure, quality, quantity, condition, contents and value unknow.”
Þorvaldur Jónsson skipamiðlari kom fyrir dóm. Hann hefur starfað við skipamiðlun frá 1967 og sá um að koma á samningi milli farmeiganda og stefnda. Hann sagði rýrnun á fiskimjöli mjög algenga og stundum væri verð miðað við losað magn en ekki lestað magn. Stundum væri samið um ákveðið hámarksfrávik. Þorvaldur sagðist hafa útbúið farmskírteini og skrifað undir fyrir hönd skipstjóra.
Ómar Hlíðkvist Jóhannsson, framkvæmdarstjóri stefnda, kom fyrir dóm. Hann sagði algengt að misræmi væri milli lestaðs og losaðs magns, ýmist of eða van. Fiskimjöl væri yfirleitt lestað þannig að bifreiðar kæmu með mjölið í sílói og létu það renna á færiband, sem flytti það upp í lest. Væri hvasst fyki mjölið í tonnavís. Stundum væri mjölið flutt að skipi í 1 1/2 tonna sekkjum og þeir hífðir um borð og losaðir í lest. Á áfangastað væri fiskimjölinu mokað upp úr lest með vélum og sett á vörubifreiðar sem flyttu það í burtu.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir stefnukröfu sína á því að stefndi sé bótaskyldur fyrir því tjóni sem stefnandi hafi þurft að inna af hendi til félagsins Chemicals and Feeds Ltd. Stefndi sé ábyrgur fyrir tjóninu sem flytjandi farmsins og tímaleigutaki skipsins. Skipamiðlarinn Þorvaldur Jónsson hafi undirritað farmskírteinið en það hafi hann gert fyrir hönd stefnda og fyrir hönd skipstjórans. Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. laga nr. 34/1985 sé stefndi ábyrgur fyrir tjóni farmsins þrátt fyrir að einhver annar annist flutning vörunnar að nokkru eða öllu leyti.
Staðfest sé með skírteini löggilts vigtarmanns að þegar fiskimjölið var vigtað í Vestmannaeyjum þann 18. mars 1997 vó farmurinn 602.560 kg. Skipstjóri skipsins ,,Saar Genoa” hafi staðfest þann þunga með undirskrift sinni við hliðina á undirritun hins löggilta vigtarmanns. Skipstjóranum hafi því verið mæta vel kunnugt um hversu mikið magn af fiskimjölsfarmi fór um borð í umrætt sinn. Kílóafjöldinn hafi verið skýrlega og nákvæmlega tilgreindur á farmskírteininu þrátt fyrir að slík tilgreining sé ekki nauðsynleg. Tilvitnað vigtarvottorð og farmskírteini sé sönnun þess að stefndi sem farmflytjandi, veitti viðtöku og lestaði 602.560 kg af fiskimjöli þann 18. mars 1997 um borð í ,,Saar Genoa” í Vestmannaeyjum. Skýrsla frá höfninni í Gunness staðfesti vöntun upp á 20.360 kg af fiskimjöli. Hafi stefnandi þurft að greiða bætur á grundvelli vátryggingasamnings vegna þeirrar vöntunar og þar með eignast endurkröfurétt á hendur farmflytjanda. Endurkröfunni sé beint að stefnda sem farmflytjanda skipsins, m.a. með vísan til ákvæða siglingalaga og ákvæða Haag-reglna.
Stefndi byggir á því að á framhlið farmskírteinisins sé almennur fyrirvari þar sem segir m.a.: ,,Weight, measure, quality, quantity, condition, contents and value unknow.” Varan hafi verið seld ,,fio” þ.e. ,,free in and out.” Lestun og losun vörunnar hafi því ekki verið á vegum farmflytjanda heldur farmsendanda og móttakanda hennar. Sama máli gegni um vigtun vörunnar. Hún hafi ekki heldur verið á vegum stefnda, hvorki hérlendis né erlendis. Samkvæmt 102. gr., sbr. 103. gr. siglingalaga nr. 34/1985 beri vörusendandi ábyrgð gagnvart farmflytjanda á því að rétt sé sú tilgreining á vöru sem skráð sé í farmskírteini samkvæmt ósk hans og upplýsingum. Stefndi telur að ekki megi byggja á 111. gr. siglingalaga því að ákvæði þeirrar greinar eigi einungis við þegar skipstjóri má sjá að upplýsingar um farminn eru bersýnilega rangar en lætur hjá líða að skrá athugasemd. Öðru máli gegni þegar um sé að ræða laust fiskimjöl. Þá sé skipstjóri ekki í aðstöðu til þess að sannreyna vigt
Niðurstaða.
Stefndi Kvistur eh. var tímaleigutaki skipsins, ,,Saar Genoa”. Þorvaldur Jónsson skipamiðlari hafði milligöngu í málinu og undirritaði farmskírteini fyrir hönd stefndu. Ágreiningslaust er að stefndi kom fram sem farmflytjandi gagnvart farmsendanda Ísfélagi Vestmannaeyja hf. ,,Saar Genoa” lestaði vöruna á þremur höfnum á Íslandi. Farmarnir voru aðgreindir með skilrúmi í lest. Bæði við lestun og losun voru farmarnir vigtaðir af löggiltum vigtarmönnum og var niðurstaðan sú að 20.360 kg vantaði á loðnumjölsfarminn.
Fram hefur komið í málinu að algengt er að einhver munur sé á þyngd fiskimjöls í lausu við lestun annars vegar og við losun hins vegar, ýmist of eða van. Stundum sé samið um að uppskipað magn skuli gilda og einnig þekkist að miðað sé við meðalvigt. Samkvæmt 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ber farmflytjandi ábyrgð á farmi ef hann skemmist eða glatast meðan hann er í vörslum farmflytjanda. Ákvæði 101. - 103. gr. fjallað um efni farmskírteinis. Af þeim ákvæðum má ráða að farmflytjandi er skyldugur til þess að gefa út farmskírteini og tilgreina í því upplýsingar um farminn. Ef farmsendandi krefst þess skal kveðið nánar á um tegund vöru, þyngd, mál eða stykkjatölu, allt eftir skriflegum upplýsingum sem farmsendandi lætur í té. Þar er því aðeins að farmflytjandi sjái augljóslega að upplýsingar farmsendanda um merki, þyngd, mál eða stykkjatölu standast ekki, að honum ber að gera athugasemdir í farmskírteini.
Í þessu tilfelli var um lausan farm að ræða. Ekki verður talið að skipstjóri hafi verið í aðstöðu til þess að staðreyna eða ganga úr skugga um að það magn sem fór um borð væri rétt vigtað. Hann átti ekki um annað að velja en að taka gildar þær magntölur sem löggiltur vigtarmaður gaf upp. Sama gildir um það magn sem fór upp úr skipinu í losunarhöfn. Þá ber einnig að líta til skilmála farmskírteinis. Þar er tekið fram að þyngd farms sé óþekkt.
Samkvæmt öllu ofansögðu verður talið að sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda í máli þessu. Verður talið að skipstjóri hafi ekki verið í aðstöðu til þess að sannreyna uppgefið magn. Vigtun var ekki á hans ábyrgð og í farmskírteini er tekið fram að þyngd farms sé óþekkt. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til máls nr. E-21/1998: Tryggingamiðstöðin hf. gegn Kvisti ehf., en það mál var rekið samhliða þessu máli. Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Kvistur ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.