- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
Fimmtudaginn 16. desember 2010. |
|
Nr. 292/2010. |
Páll Skaftason (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Smíðanda ehf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur.
P slasaðist er hann fékk járnflís í auga við vinnu sína hjá S. Slysið varð við tilraun P til að losa hólk, sem ryðgaður var fastur, af vél sem notuð var til að beygja steypustyrktarjárn. P krafði S um bætur vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut við slysið. Reisti hann kröfu sína einkum á því að hann hafi fengið ófullnægjandi tæki til verksins og verkstjórn verið áfátt, en hann hafi ekki fengið leiðbeiningar um hvernig verkið skyldi unnið. Þá hafi öryggisgleraugu ekki verið tiltæk á vinnustaðnum. Ekki var fallist á framangreint og talið að P og vinnufélagar hans hafi sjálfir tekið ákvörðun um hvaða aðferðir og hvernig verkfæri þeir skyldu nota til að losa hólkinn. P hafi sýnt eðlilega varúð þótt sú aðferð sem hann hafi beitt hafi leitt til þess að slys varð með óútskýrðum hætti. Var því talið að óhapp hafi valdið slysi P og það yrði ekki rekið til saknæmrar háttsemi S sem það bæri skaðabótaábyrgð á. Var S því sýknað í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. maí 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 7.915.754 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.804.202 krónum frá 9. maí 2005 til 1. nóvember sama ár og af 7.915.754 krónum frá þeim degi til 26. desember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómsstigum felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi slasaðist alvarlega á auga 9. maí 2005 við vinnu sína hjá stefnda, sem hafði tekið að sér að reisa hús á Selfossi. Slysið varð við tilraunir áfrýjanda til að losa hólk, sem ryðgaður var fastur, af vél sem notuð var til að beygja steypustyrktarjárn. Þær tilraunir leiddu til þess að járnflís hrökk í auga áfrýjanda. Matsmenn töldu meðal annars að hann hafi hlotið af þessu 15% varanlega örorku og 15 stiga varanlegan miska og leitar áfrýjandi skaðabóta af þessu tilefni úr hendi stefnda. Reisir hann kröfu sína einkum á því að hann hafi fengið ófullnægjandi tæki til verksins og verkstjórn verið áfátt, en hann hafi ekki fengið leiðbeiningar um hvernig verkið skyldi unnið. Þá hafi verið nauðsynlegt að hafa hlífðargleraugu við framkvæmd verksins, en hvorki hafi verið lagt fyrir hann að nota slík gleraugu né verið unnt að ganga að þeim vísum á vinnustaðnum. Það hafi sérstaklega verið athugað fyrr sama morgun vegna annars verks, þar sem þörf hafi verið á þeim. Stefndi hafi með þessu brotið gegn ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum, sem settar hafa verið með stoð í þeim eins og nánar greinir í héraðsdómi.
Stefndi krefst sýknu og telur ósannað að starfsmenn hans eigi nokkra sök á slysinu, heldur hafi það orðið vegna eigin sakar áfrýjanda sjálfs eða óhapps. Hann mótmælir jafnframt að slysið megi rekja til þess að ákvæði laga eða reglna hafi verið brotin, en um slíkt hafi ekki verið að ræða. Vinnueftirlit ríkisins hafi samdægurs rannsakað atvik málsins og í skýrslu stofnunarinnar 26. september 2005 sé komist að þeirri niðurstöðu að slysið hafi hlotist af því einu að áfrýjandi hafi ekki notað öryggisgleraugu við að spenna hólkinn upp. Í skýrslunni segi jafnframt að slík gleraugu hafi verið til á staðnum en ekki notuð, og engar athugasemdir verið gerðar um önnur atriði. Stefndi heldur fram að áfrýjanda hefði verið hægast að biðja verkstjóra um gleraugu hafi hann sjálfur ekki getað fundið þau áður en hann hóf verkið. Það hafi hann ekki gert, en þess í stað ákveðið sjálfur með tveimur starfsfélögum sínum að nota kúbein til að losa hólkinn án samráðs við verkstjóra. Áfrýjandi hafi sex ára starfsaldur að baki við járnabindingar og unnið sama verk við beygjuvélina áður. Í ljósi aldurs hans og starfsreynslu hafi ekki þurft að benda honum sérstaklega á hvenær þörf væri á að nota öryggisgleraugu. Stefndi hafi mátt treysta því að áfrýjandi og starfsfélagar hans gættu fyllsta öryggis við verkið.
II
Fram er komið að áðurnefnd beygjuvél hafði fyrir slysið verið staðsett utan dyra og aðila greinir ekki á um að það hafi leitt til þess að hólkurinn festist. Um skeið hafði hún verið notuð til að beygja 10 mm þykkt steypustyrktarjárn, en þennan dag þurfti að vinna með 16 mm þykkt járn í henni. Svo það væri unnt þurfti að losa hólkinn af og koma öðrum fyrir sem hæfði verkinu.
Meðal málsgagna eru myndir af umræddri vél. Þær sýna að upp úr vinnuborði ofan á henni gengur nokkurra cm hár stautur og utan um hann liggur nefndur hólkur. Eiður Ingi Sigurðarson var verkstjóri á staðnum og í skýrslu fyrir dómi bar hann að þennan dag hafi þurft að losa hólkinn af vélinni. Áfrýjandi hafi gefið sig fram til að vinna verkið og kvaðst vitnið hafa beðið hann um að setja ryðolíu á hólkinn, en síðan hafi átt að bíða og sjá til hvort það dygði. Jafnframt kvaðst Eiður hafa nefnt við áfrýjanda að „einhver græja“ hlyti að vera til sem hentaði í verkið. Hafi hann þá helst haft í huga þvingu eða leguþvingu, sem maður frá verkstæði þyrfti að koma með. Vitnið gat ekki borið um tilraunir áfrýjanda til að losa hólkinn eða slysið sjálft, en engin þörf hafi verið að flýta verkinu.
Fyrir dómi kvað áfrýjandi framkvæmdir við húsbygginguna hafa verið skammt á veg komnar á slysdegi og verksvæðið ekki komið í fastar skorður. Þurft hafi að losa hólkinn eða „skinnuna“ af beygjuvélinni í skyndi vegna úttektar byggingarfulltrúa, sem skyldi gerð eftir hádegi sama dag. Starfsreynsla áfrýjanda við að klippa, binda og beygja járn hafi þá verið rúmlega þrjú ár. Hann hafi oft þurft áður að skipta um hólk á beygjuvél, en aldrei lent í því fyrr að hann væri svo fastur sem í þetta sinn. Hann hafi „fyrir einhverjum 10 mín.“ sprautað ryðolíu á hólkinn, en þá hafi hann og tveir vinnufélagar hans tekið til við að reyna að losa hann af með verkfærum, sem voru fyrir hendi á staðnum. Verkstjórinn hafi ekki verið tiltækur þegar þetta var ákveðið, en ekki mundi áfrýjandi hver þeirra þriggja hafi tekið þessa ákvörðun eða þeir allir í senn. Fyrir dómi lýsti hann þessu þannig að „við vorum búnir að reyna með töng að toga þetta upp, og það lá þarna við hliðina kúbeinið og við fórum allir að bjástra við það til skiptis. Ég held ég fari rétt með að Bjarni var líka búinn að prófa að taka á því og svo tek ég svona nett á því og sé að skinnan er aðeins farin af stað, en vill ekki betur til en það að flísast upp úr henni og flísin fer í gegnum augað á mér.“ Aðspurður neitaði áfrýjandi að hafa slegið á kúbeinið þegar slysið varð, en hann taldi vinnufélaga sína þó hafa gert það „áður en ég fer og tek á því.“ Lítil rifa hafi myndast við skinnuna og þar hafi hann reynt að koma kúbeininu undir og mjaka skinnunni upp. Ekki kom fram hjá áfrýjanda að kúbeinið hafi skroppið af skinnunni við þessar tilraunir eða hvað geti hafa valdið því að flísin skaust upp í auga hans. Taldi hann flísina hafa komið úr skinnunni en ekki kúbeininu. Í skýrslu lögreglu 20. maí 2005 segir á hinn bóginn að „ekki var að sjá að flísast hefði upp úr skinnunni sjálfri ...“.
Tvær lögregluskýrslur voru teknar af vinnufélaga áfrýjanda, Bjarna Gunnari Sigurðssyni, hin fyrri 24. maí 2005 og sú síðari 20. nóvember 2006. Í þeirri fyrri kvað hann þá hafa notað stórt kúbein og hann lamið á það með hamri. Síðar í sömu skýrslu var borið undir hann að áfrýjandi kannaðist ekki við að Bjarni hafi slegið á kúbeinið þegar óhappið varð og kvaðst sá síðarnefndi ekki muna hvort hann hafi gert það þá. Í síðari lögregluskýrslunni var haft eftir Bjarna að þeir félagar hafi við framkvæmd annars verks að morgni slysdagsins leitað að hlífðargleraugum og ekki fundið „en þeir hafi vitað um ein gleraugu einhvers staðar á vinnusvæðinu.“ Fyrir dómi kvaðst hann oft áður hafa unnið sams konar verk við beygjuvélina og í umrætt sinn. Þeir hafi lamið „við hliðina á“ hólkunum til að reyna að losa hann og síðan beitt kúbeini eftir að svolítið los var komið á hann. Sérstaklega aðspurður um skýrslu sína hjá lögreglu 20. maí 2005 sagði vitnið að vera kynni að þeir hafi „lamið á kúbeinið til þess að fá það undir, en við vorum ekki að lemja á það akkúrat þegar þetta skeði, held ég“. Taldi hann sig þá hafa verið búinn að gefast upp á þessu og verið á leið í annað verk, sem þurfti að vinna. Hann kvað stefnda hafa átt öryggisgleraugu og sama morgun hafi vitnið leitað mjög vel að þeim en þau ekki verið á staðnum. Að jafnaði hafi vitnið ekki notað öryggisgleraugu við að beygja járn og hann hefði ekki heldur talið nauðsynlegt að nota þau við að losa upp hólkinn af beygjuvélinni. Verklag þeirra við að losa hólkinn hafi ekki verið neitt frábrugðið því sem viðhaft var áður við sams konar verk, en hólkurinn hafi verið óvenju fastur í umrætt sinn.
Annar vinnufélagi áfrýjanda, Ágúst Ragnar Gestsson, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa verið í mikilli óreglu á þessum tíma og ekkert muna um atvik málsins annað en að flís hafi skotist við tilraunir til að ná upp skinnu með kúbeini. Fyrir Hæstarétt var lögð skýrsla hans hjá lögreglu á Siglufirði 13. október 2009. Þar segir meðal annars: „Engin hlífðargleraugu voru á staðnum við vorum að leita að þeim um morguninn þegar við vorum að beygja járn ég man það vel. En svo þegar þetta er búið að gerast þá var hoppað út í Byko sem var hliðin á og þau keypt svo að þau yrðu á staðnum þegar vinnueftirlit og lögregla kæmu á staðinn það er alveg á hreinu.“ Lögregluskýrslan var gefin þremur og hálfum mánuði áður en vitnið kom fyrir héraðsdóm og bar þar eins og fyrr var rakið. Skýrslan var þó ekki lögð fram fyrr en við meðferð málsins fyrir Hæstarétti.
III
Í tilkynningu stefnda til Vinnueftirlits ríkisins kemur fram að slys áfrýjanda hafi orðið klukkan 11:30 þann 9. maí 2005. Skýrsla vinnueftirlitsins 26. september 2005 ber með sér að Eiður Ingi Sigurðarson verkstjóri hafi tilkynnt um það klukkan 15:30 daginn sem slysið varð og fulltrúi stofnunarinnar verið kominn á staðinn til vettvangsrannsóknar hálftíma síðar. Þar segir jafnframt að hinn slasaði hafi ekki notað öryggisgleraugu, en þau fundist á vinnustaðnum þegar rannsókn fór fram. Verkstjórinn var spurður um það fyrir dómi hvort hann hafi útvegað eða keypt gleraugu sérstaklega fyrir skoðun vinnueftirlitsins á slysdegi. Svar hans var að hann hafi beðið þá sem sjái um bókhald stefnda að kanna hvenær öryggisgleraugu voru keypt á þessum tíma. Það hafi reynst vera í apríl og lok maí 2005, en engin á slysdegi. Gleraugun hafi því verið til á verkstaðnum þegar slysið varð. Að framan var greint frá skýrslu Ágústs Ragnars Gestssonar hjá lögreglu og fyrir dómi skömmu síðar, þar sem hann mundi ekkert um málsatvik. Að því virtu er skýrsla hans hjá lögreglu haldlaus og er ekkert fram komið sem styður að stefndi hafi eftir slysið en fyrir komu fulltrúa Vinnueftirlist ríkisins aflað gleraugna til að hafa tiltæk við rannsóknina. Að virtri skýrslu Vinnueftirlits ríkisins verður við það að miða að öryggisgleraugu hafi verið til á vinnustaðnum þegar slysið varð, þótt ekki sé unnt að slá neinu föstu um hvar þau voru geymd umrætt sinn.
Í reglum um notkun persónuhlífa nr. 497/1994 er í 3. gr. sett sú meginregla að slíkar hlífar skuli nota þegar ekki er unnt að komast hjá áhættu eða takmarka hana nægilega með ráðum, sem veita almenna vernd eða annarri tilhögun við skipulagningu vinnu. Í 6. gr. segir að starfsmenn skuli að jafnaði nota persónuhlífar í samræmi við leiðbeinandi skrá í II. viðauka við reglurnar, sbr. þó 3. gr., þegar aðrar ráðstafanir teljist betri að mati Vinnueftirlits ríkisins. Viðauki II., sem vísað er til í 6. gr., hefur að geyma leiðbeinandi skrá, sem þó er ekki tæmandi, yfir störf og starfssvið þar sem nauðsynlegt geti verið að nota persónuhlífar. Í 3. tölulið er upptalning starfa þar sem talin er þörf fyrir augn- eða andlitshlífar. Störf við járnabeygingar eru þar ekki á meðal.
Verkstjóri stefnda lagði fyrir áfrýjanda að bera ryðolíu á hólkinn og sjá til hvert gagn það gerði. Þeim síðarnefnda var þannig ekki falið að vinna verkið frekar, en þegar af þeirri ástæðu hafði verkstjórinn ekki tilefni til að afhenda áfrýjanda öryggisgleraugu eða leiðbeina honum sérstaklega. Áfrýjandi og vinnufélagar hans tóku sjálfir ákvörðun um að losa hólkinn með þeim aðferðum og verkfærum, sem að framan var getið, um 10 mínútum eftir að hafa sprautað á hann ryðolíu. Augnhlífa mun almennt ekki hafa verið talin þörf við að beygja járn í vélinni og af framburði vitnisins Bjarna Gunnars Sigurðssonar er ljóst að fyrir slys áfrýjanda hafi vitnið ekki talið meiri áhættu fólgna í því að losa hólkinn af vélinni en við að beygja járn með henni. Sú ályktun getur þó augljóslega ekki átt við um þá aðferð, sem viðhöfð var í byrjun, að berja með hamri á kúbeinið til að komast undir skinnuna. Hvað sem því líður verður að leggja til grundvallar þá frásögn áfrýjanda að slík vinnubrögð hafi ekki valdið slysinu, heldur hafi hann þegar það varð tekið „nett“ á kúbeininu til að komast undir skinnuna. Með þessu sýndi áfrýjandi eðlilega varúð þótt þessi aðferð hafi þrátt fyrir það leitt til þess að slys varð með óútskýrðum hætti. Að öllu virtu verður niðurstaða málsins sú að óhapp hafi valdið slysi áfrýjanda og að það verði ekki rakið til neinnar saknæmrar háttsemi áfrýjanda sem hann beri skaðabótaábyrgð á. Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. febrúar 2010, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Páli Skaftasyni, kt. 130563-5469, Heimahaga 8, 800 Selfossi, gegn Smíðanda ehf., kt. 481001-2180, Eyravegi 32, 800 Selfossi, og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands, kt. 690689-2009, Ármúla 3, 105 Reykjavík, með stefnu sem birt var 11. febrúar 2009.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða stefnanda 8.109.767 kr. með 4,5% ársvöxtum af 1.804.202 kr. frá 9. maí 2005 til 1. nóvember 2005 en frá þeim tíma af allri fjárhæðinni til 26. desember 2007. Krafist er dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af allri stefnufjárhæðinni, auk áfallinna vaxta, frá 26. desember 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.
Dómkröfur stefnda, Smíðanda ehf., eru aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar dómkröfur.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Hinn 9. maí 2005 slasaðist stefnandi alvarlega á auga við vinnu hjá stefnda að Austurvegi 64a á Selfossi þar sem stefndi hafði tekið að sér byggingu á iðnaðar- og þjónustuhúsi fyrir Mjólkurbú Flóamanna. Samdægurs fór Gísli Rúnar Sveinsson, umdæmisstjóri Vinnueftirlits ríkisins, á staðinn til vettvangsrannsóknar. Í greinargerð hans um tildrög slyssins, atvik og aðstæður segir m.a. að stefnandi hafi, ásamt Bjarna Gunnari Sigurðssyni og Ágústi Ragnari Gíslasyni, verið að losa hólk sem var fastur á öxli beygjuvélar, sem beygir steypustyrktarjárn, til að hægt væri að setja hjól á öxulinn til að beygja 16 mm steypujárn í vélinni. Þeir hefðu notað ryðolíu og síðan kúbein til að ná hólknum upp af öxlinum en við það hafi járnflís skotist í auga stefnanda.
Upplýst er að stefnandi var vanur vinnu við járnabindingar, en var að hefja störf hjá stefnanda og að koma sér fyrir á byggingastað er hann slasaðist.
Aðila greinir á um hvort stefndi beri bótaábyrgð á slysinu eða ekki.
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefnandi byggir á því að aðbúnaður og hollustuhættir á vinnustað hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur þegar hann slasaðist. Honum hafi verið falið að beygja steypustyrktarjárn í beygjuvéla, sem ekki var mögulegt fyrr en skinna, sem föst var í vélinni, var losuð. Hann hafi tíu dögum fyrr óskað eftir að skinnan yrði losuð en því hafi ekki verið sinnt og hafi það komið í hans hlut og tveggja vinnufélaga hans að losa skinnuna án nokkurra leiðbeininga um hvernig það væri gert. Þá vísar hann til þess að hann hafi ásamt félögum sínum leitað árangurslaust að öryggisgleraugum á vinnustaðnum áður en verkið hófst.
Um réttarheimildir vísar stefnandi til ákvæða IV. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ákvæða 37. gr., 42. gr. og 46. gr. sömu laga, ákvæða 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð og ákvæða 4. gr., 8. gr. og 9. gr. sömu reglugerðar. Þá er vísað til ákvæða 3. gr., 6. gr. og 8. gr. þágildandi reglugerðar nr. 431/1997 um notkun tækja. Einnig er vísað til ákvæða 3. gr., 3., 5. og 6. mgr. 4. gr. reglna um notkun persónuhlífa nr. 497/1994 og ákvæða II. viðauka við reglugerðina.
Bótaútreikningar og bótafjárhæð: Af hálfu stefnandi var, hinn 23. febrúar 2007, leitað til Sigurjóns Sigurðssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. til að meta líkamstjón stefnanda vegna slyssins hinn 9. maí 2005. Matsgerðin er dagsett 26. september 2007. Undir fyrirsögninni Samantekt segir: „Páll fékk járnflís í hægra auga við vinnu og gekkst undir þrjár aðgerðir eftir slysið. Fjarlæga varð augastein og auk þess er ör/og aflögun á hornhimnu augans. Matsmenn telja tímabært að leggja mat á afleiðingar slyssins og telja matsmenn að heilsufar hafi verið orðið stöðugt 01.11.2005 og er hann kominn í fulla vinnu.
Við mat á tímabili óvinnufærni er miðað við gögn málsins og upplýsinga á matsfundi. Hann var alveg frá vinnu fram í júlí 2005 og vann þá í eina viku að hluta og varð síðan aftur óvinnufær og hóf störf aftur 01.09.2005 í hálfu starfi. Hann var kominn í fulla vinnu 01.11.2005. Þótt hann hafi reynt að vinna tímabundið í stuttan tíma í júlí 2005 telja matsmen hann að fullu óvinnufæran tímabilið 09.05.2005-31.08.2005 og að hálfu vinnufæran tímabilið 01.09.200[5]-31.10.2005.
Tímabil þjáningar telst vera hið sama og tímabil óvinnufærni og þar af telst hann rúmliggjandi í 10 daga vegna innlagnar á sjúkrahús.
Matsmenn telja ekki þörf á frekari meðferð en eins og fram hefur komið er hætt á frekari tjóni og er tekið tillit til þess við ákvörðun miska. Matsmenn telja sig ekki geta metið endingartíma á linsu til notkunar í hægra auga.
Mat á varanlegum miska er miðað við tap á augasteini með sjónskerðingu á hægra auga að teknu tilliti til frekara tjóns. Varanlegur miski er metinn 15 stig.
Við mat á varanlegri örorku er litið til afleiðinga slyssins og aðstæður tjónþola. Um er að ræða 44 ára karlmann með takmarkaða menntun. Hann hefur starfað sem sjómaður og við byggingarvinnu í landi. Tekjusaga eftir slys gefur vart tilefni til að ætla að tekjutjóns hafi gætt en í því sambandi verður að hafa hugfast að stuttur tími er liðinn frá slysi. Ljóst er að afleiðingar slyssins há honum nokkuð í núverandi starfi í byggingarvinnu en hann getur ekki notað linsu í þeirri vinnu vegna ryks. Vegna skerðingar á sjón og náttblindu getur hann tæplega stjórnað byggingarkrana nema við bestu skilyrði og hæpið er að hann fái meiraprófið sem bílstjóri. Með hliðsjón af þessu telja matsmenn rétt að meta honum nokkra varanlega örorku sem telst réttilega metin 15%.“
Tölulega sundurliðar stefnandi kröfu sína þannig:
1. Tímabundið atvinnutjón |
584.482 kr. |
2. Þjáningabætur |
215.920 kr. |
3. Bætur vegna varanlegs miska |
1.003.800 kr. |
4. Bætur vegna varanlegrar örorku |
6.111.552 kr. |
5. Útlagður kostnaður o.fl. |
194.013 kr. |
Samtals |
8.109.767 kr. |
Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á: Af hálfu stefnda er byggt á því að ekki sé sannað að félagið eða starfsmenn þess eigi sök á slysi stefnanda. Samkvæmt umsögn vinnueftirlitsins hafi stefnandi slasast vegna þess að hann notaði ekki öryggisgleraugu við að koma tilgreindri beygjuvél til að beygja steypustyrktarjárn í verkhæft ástand, en öryggisgleraugu hafi verið á staðnum. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að stefnandi notaði öryggisgleraugu við verkið. Hafi hann ekki getað fundið þau, áður en hann hóf verkið, var honum í lófa lagið að biðja verkstjóra og eiganda stefnda, sem var á staðnum, um öryggisgleraugu.
Þá er byggt á því að stefnandi hafi verið 41 árs að aldri þegar hann slasaðist og með 6 ára starfsreynslu að baki sem járnabindingamaður. Honum hafi því mátt vera ljós hættan af því að geta fengið flís í augað við að spenna hólkinn upp af öxlinum með kúbeini með þeim hætti sem hann gerði án þess að nota öryggisgleraugu eða andlitshlíf.
Varakröfu sína byggir stefnda á því að stefnandi eigi í öllu falli meginsök á slysinu og verði því að bera tjón sitt sjálfur í hlutfalli við þá sök. Þá beri að hafna kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, en sá kröfuliður sé áætlaður. Einnig beri að hafna kröfulið um útlagðan kostnað sem hluta af höfuðstól stefnukröfu, en um sé að ræða kostnað við að staðreyna tjón stefnanda og tilheyri hann því málskostnaði.
Kröfu um dráttarvexti er andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Niðurstaða: Stefnandi, Páll Skaftason, bar fyrir rétti að hann hefði verið búinn að starfa hjá stefnda, Smíðanda ehf., í tvo mánuði þegar hann slasaðist, þar af viku á verkstað þar sem hann slasaðist. Búið hefði verið að steypa fótamennt öðrum megin og til hafi staðið að byrja á að steypa sökkla á verkstað, en um tvö aðskilin hús hafa verið að ræða. Skipulagið á verkstað hafi verið eins og oft er, þegar verk byrjar, að tíminn er knappur og aðföng að koma smám saman á verkstað. Reyndar hafi verið búið að girða vinnusvæðið og vinnuskúrinn nýlega kominn hinum megin, en ekki lokið að ganga frá ýmsum lausum hlutum. Verkstaður hefði ekki verið kominn í fastar skorður þegar hann slasaðist.
Páll sagði að er hann hóf að losa umrædda skinnu hafi verið búið að panta úttekt á verkstað. Hann hafi verið búinn að beygja á þessari beygjuvél 10 millimetra járn, en til þess að úttektin gæti farið fram þá hafi þurft að beygja 16 millimetra járn og þá þurfti að hafa það á stærra hjóli, sem kallað er, í miðjunni til þess að járnið yrði löglega beygt. Þurft hefði að framkvæma þetta í skyndi þar sem búið var að panta úttekt eftir hádegi. Þeir hafi álitið að það væri framkvæmanlegt með kúbeini, þar sem þeir hefðu komið því undir og mjakað því örlítið af stað og haldið að það gæti gengið áfram. Kvað Páli sér hafa fundist að pressa væri á því að klára þetta fyrir hádegi.
Páll kvaðst hafa verið búinn að vinna við járnabindingar í þrjú og hálft ár á þessum tíma en aldrei áður lent í því að skinna væri föst á vélum en oft og iðulega skipt um hjól. Þetta hafi komið til vegna þess að vélin hafði ekki verið notuð lengi við að beygja svona svert járn. Páll kvaðst ekki muna hver hefði tekið ákvörðun um hvernig þetta yrði gert. Líklega hefðu þeir þrír, sem voru að vinna við þetta, ákveðið það. Þeir hefðu verið búnir að reyna með töng að toga þetta upp. Kúbeinið hefði legið þarna til hliðar og þeir allir farið að bjástra við þetta til skiptis. Bjarni hafði líka reynt að taka á því og síðan hafi hann sjálfur tekið nett á því og séð að skinnan var aðeins farin af stað, en þá hafi ekki viljað betur til en að það flísaðist upp úr henni og flísin hafi farið í gegnum auga á honum.
Páll sagði að verkstjóri hefði ekki leiðbeint þeim, hvernig að verkinu skyldi staðið, og þeir hefðu ekki verið varaðir við hættu sem gæti verið samfara því. Hann kvaðst ekki hafa vitað að hætta gæti verið samfara þessu, en reyndar hefði verið gáfulegt að vera með öryggisgleraugu ef þau hefðu verið til staðar. Hann hefði viljað hafa þann valkost.
Páll sagði að þeir hefðu vitað að öryggisgleraugu voru ekki til staðar þar sem þeir hefðu verið að klippa vír um morguninn. Þeir hefðu leitað að öryggisgleraugum en ekki fundið á vinnustaðnum. Þeir hefðu frestað að klippa vírinn vegna skorts á öryggisgleraugum.
Lögð var fyrir Pál skýrsla Vinnueftirlits ríkisins um slysið [dskj. nr. 7] og vísað til þess að þar kæmi fram að hann hefði starfað u.þ.b. í sex ár við járnabindingar. Páll sagði að þetta stæðist ekki. Hann kvaðst á þessum tíma hafa verið búinn að starfa í þrjú ár og einn eða tvo mánuð við járnabindingar.
Lagt var fyrir Pál dskj. nr. 6b, sem greinir frá símaviðtali lögreglu við Pál 23. maí 2005. Vísað var til þess sem þar segir: „Páll sagðist hafa verið að reyna að spenna upp skinnu sem sat föst á hólk í miðju járnabeygjuvélarinnar. Páll sagðist hafa verið búinn að setja WD-40 á skinnuna og notað stórt blátt kúbein til að reyna að “lempa“ skinnuna til.“ Spurt var hvers vegna hann hefði sett WD-40 á skinnuna. Páll sagði að það hefði hann gert til að losa ryð sem var undir. Hann hefði sprautað þessu á skinnuna u.þ.b. tíu mínútum áður. Páll sagði að verkstjóri hafi ekki verið tiltækur þegar þeir ákváðu að nota kúbein til að losa skinnuna. Hann kvaðst ekki hafa slegið á kúbeinið, þegar hann notaði það við að reyna að losa skinnuna, en minnist þess að félagar hans hefðu gert það er þeir reyndu með kúbeininu að losa skinnuna.
Páll sagði að hann hefði verið beðinn um að beygja járn til að úttekt gæti farið fram.
Bjarni Gunnar Sigurðsson, vinnufélagi stefnanda, bar fyrir rétti að þeir hefðu fengið beygjuvélina í slæmu ástandi. Hún hefði staðið úti og hjólin ofan á henni verið byrjuð að festast, en þau eigi að vera laus. Hann hafi reiknað með að ryð hefði komist á milli. Þeir hefðu reynt að losa þetta hjól. Hann kvaðst hafa unnið við þetta í mörg ár og oft lent í því að þurfa að losa hjólið. Við að standa lengi herðist á þessu. Því lengur sem þær standa því fastara verði hjólið.
Bjarni Gunnar sagði að erfiðlega hafi gengið að losa þetta hjól. Þeir hefðu verið búnir að lemja á það og við hliðina á því til að losa það. Það hafi aðeins verið byrjað að losna þegar þeir reyndu fyrst að taka undir það með hamri. Þeir hefðu bara reynt að ná því lausu. Þeir hefðu ekki verið varaðir við að hætta gæti verið samfara þessu. Hann hefði oft lent í þessu áður og hafi aldrei verið varaður við neinu. Þeir hefðu ekki verið með öryggisgleraugu, en hefði þeim dottið í huga að nota þau þá voru þau ekki til á staðnum þennan dag. Hann hefði leitað að þeim fyrr um morguninn þegar hann fór að skera bindivír með slípirokk. Hann hefði orðið að gera það með lokuð augun.
Vísað var til þess að vinnueftirlitið hefði skráð að hlífðargleraugu hefðu verið á staðnum. Bjarni Gunnar sagðist vita með vissu að Smíðandi ehf. átti öryggisgleraugu en þau voru ekki komin á þennan vinnustað á þessum tíma. Hann hafi leitað snemma um morguninn að þeim þar sem hann þurfti að nota bindivír. Hann hafi fundið slípirokk en ekki gleraugu, en hann noti alltaf gleraugu þegar hann skeri bindivír. Hann hafi leitað mjög vel.
Bjarni Gunnar kvaðst ekki að jafnaði nota öryggisgleraugu við að beygja járn. Hann kvaðst ekki hafa notað öryggisgleraugu við að losa skinnur og hjól á beygjuvélum. Hann hafi ekki álitið það nauðsynlegt.
Vísað var til að í símaskýrslu lögreglu, dskj. nr. 6c, komi m.a. fram: „Bjarni sagði að þeir hefðu ekki verið að vinna við beygjuvélina heldur hefðu þeir verið að þrífa og smyrja vélina. Bjarni sagði að þeir hefðu notað stór kúbein (90 sm lang) og sagðist Bjarni hafa lamið á kúbeinið með hamri. Bjarni sagði að Páll hefði sagt að hann sæi allt svart og talað um að eitthvað hefði farið í augað [á] sér. Haft var símasamband við Bjarna þann 25.05.2005 klukkan 08:15. Bjarna var kynnt að Páll kannist ekki við að Bjarni hafi slegið með hamri þegar óhappið átti sér stað. Bjarni sagði að þeir hefðu verið að slá á kúbeinið með hamrinum en sagðist ekki mun hvort það hafi verið þegar járnflísin fór í augað á Páli.“
Bjarni Gunnar kvaðst kannast við framangreinda lýsingu, en hann hafi staðið bak við Palla þegar hann fékk í augað. Hann muni ekki eftir að hafa þá verið að gera nokkuð með honum. Hann minni að hann hafi þá verið búinn að gefast upp á þessu og verið farinn að gera eitthvað annað sem þeir þurftu að gera. Hann hafi verið kominn eitt skref á bak við Pál. Hann kvaðst muna að þeir hefðu lamið á kúbeinið til að fá það undir en þeir hafi ekki verið að lemja á það akkúrat þegar þetta skeði. Hann kvaðst ekki kannast við að Eiður, Gestur eða einhver annar verkstjóri eða forsvarsmaður stefnanda hafi lagt eitthvað sérstaklega fyrir þá hvernig þeir ættu að gera þetta. Hann kvaðst halda að þeir hefðu ekki vitað af þessu.
Bjarni Gunnar sagði að hann, Páll og Ágúst Ragnar hefðu séð um járnabindinguna. Þeir hafi fengið ákveðin tæki, sem þeir þurftu að setja í samband, finna snúrur og allt þetta, þannig að þeir hefðu séð um þetta sjálfir. Þeir hafi verið venjulegir launamenn en þekkt miklu betur inn á þessar vélar en yfirmennirnir.
Ágúst Ragnar Gestsson bar símleiðis fyrir rétti að þeir hefðu verið að eiga við beygjuvél með kúbeini við að ná skinnu er flís skaust úr þessi. Hann kvaðst hafa verið í mikill óreglu á þessum tíma og muni ekki eftir þessu. Hann kvaðst ekki muna hvort hlífðargleraugu voru á staðnum.
Eiður Ingi Sigurðsson verkstjóri bar fyrir rétti að losa hefði þurft hólk af beygjuvélinni. Páll hafi viljað fara í verkefni og kvaðst Eiður hafa beðið hann um að nota ryðolíu til þess og ætli að hann hafi gert það. Svo hafi verið ætlað að sjá hvað ryðolían myndi gera.
Lögð var fyrir Eið skýrsla vinnueftirlitsins um slysið, dskj. nr. 7. Hann staðfesti það sem þar stendur um vinnubrögð Páls, Bjarna og Ágústs þegar þeir voru að losa hólk sem var fastur uppi á öxli í beygjuvél, þegar járnflís skaust í auga Páls hinn 9. maí 2005. Eiður sagði að þeir hefðu unnið fyrir Smíðanda ehf. við járnabindingar. Hann sagði að Páll væri mjög vanur járnabindingamaður og reyndur við járnabeygingar.
Eiður kvaðst ekki hafa haft beina aðkomu að því hvernig þeir ákváðu að losa hólkinn með kúbeini. Hann hafi talað um að það hlyti að vera til sérstakt verkfæri til að losa hólkinn og hafi viljað bíða og sjá hvað ryðolían myndi gera. Hann kvaðst ekki hafa verið á staðnum þegar slysið varð. Hann kvað öryggisgleraugu hafa verið á staðnum. Hann kvaðst ekki hafa keypt öryggisgleraugu rétt fyrir skoðun vinnueftirlitsins. Samkvæmt bókhaldi félagsins hefðu öryggisgleraugu verið keypt í apríl og í lok maí [2005], en ekki hinn 9. maí.
Eiður kvaðst ekki vita hvaða tegund af öryggisgleraugum voru notuð hjá Smíðanda ehf. Þau hefðu verið keypt í Byko og Húsasmiðjunni. Hann taldi að hefðbundin aðferð væri ekki við að losa svona hólk á beygjuvél. Hann sagði að engin tímapressa hefði verið á að ljúka þessu. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna ekki var hringt á verkstæði til að fá þetta gert. Hann hafi sagt þeim að bera á ryðolíu og sjá svo til hvað gerðist. Síðan hafi hann ekki vitað meira fyrr en Páll var kominn upp á sjúkrahús.
Eiður sagði að ekki hafi verið búið að gera heilbrigðis- og öryggisáætlun þegar slysið varð, hún hafi verið í vinnslu. Þetta hafi allt verið í vinnslu, vinnusvæðið í byggingu jafnframt vinnu á staðnum.
Upplýst er að Páll var vanur járnabindingarmaður þegar slysið varð. Og svo sem hann greindi sjálfur frá taldi hann líklegt að hann og félagar hans, Bjarni Gunnar og Ágúst Ragnar, hefðu saman ákveðið að losa skinnu eða hólk, sem var fastur á öxli beygjuvélar, til að unnt væri að setja hjól á öxulinn til að beygja 16 mm steypujárn á vélinni. Þá er upplýst að þeir reyndu án árangurs til skiptis að losa umrædda hluti beygjuvélarinnar með kúbeini.
Ekki verður ráðið með ótvíræðum hætti af gögnum málsins að yfirmenn þeirra hafi lagt fyrir þá að ljúka því að setja hjól á öxul beygjuvélarinnar til beygja 16 mm steypujárn fyrir hádegi þennan dag. Þvert á móti heldur Eiður verkstjóri því fram að engin tímapressa hafi verið að ljúka þessu. Þá verður af framburði Bjarna Gunnars ráðið að hann, Páll og Ágúst Ragnar hafi sjálfir séð um járnabindinguna og þekkt betur en yfirmenn þeirra þau tæki og tól sem til þess þurfti. Er því fjarstæða að skortur á leiðbeiningum frá yfirmönnum þeirra hafi ráðið hvernig þeir stóðu að verki við að losa skinnu eða hólk, sem var fastur á öxli beygjuvélarinnar. Og hafi skort öryggisgleraugu, er ljóst, að Páll og Bjarni Gunnar töldu ekki brýna þörf á þeim í vinnu við að koma beygjuvélinni í gagnið til að beygja 16 mm steypujárn. En Bjarni Gunnar bar fyrir rétti að hann notaði að jafnaði ekki öryggisgleraugu við að beygja járn og Páll sagði í símaviðtali við lögregluna, sbr. dskj. nr. 6b, að ekki væri venja að nota öryggisgleraugu við járnabeygjuvélina. Þá báru Páll og Bjarni Gunnar fyrir rétti að þeir hefði leitað að öryggisgleraugum fyrr um morguninn til að nota við að skera bindivíra og Páll bar að þeir hefðu frestað að klippa vírinn vegna skorts á öryggisgleraugum. Þeir frestuðu hins vegar ekki að nota, án öryggisgleraugna, kúbein á beygjuvélina án þess að hafa um það samráð við verkstjóra. Telja verður því að um óhappatilviljun hafi verið að ræða þegar járnflís skaust í auga stefnanda.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Smíðandi ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Páls Skaftasonar.
Málskostnaður fellur niður.