Hæstiréttur íslands
Mál nr. 325/2003
Lykilorð
- Fjársvik
- Merkjabrot
- Myndverk
- Lögreglurannsókn
- Sönnunarbyrði
- Sératkvæði
|
Miðvikudaginn 19. maí 2004. |
Nr. 325/2003. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn A og (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) B(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) |
Fjársvik. Merkjabrot. Málverk. Lögreglurannsókn. Sönnunarbyrði. Sératkvæði.
A og B voru sakaðir um skjalafals og fjársvik með því að hafa blekkt viðskiptavini í nánar greindum tilvikum til að kaupa myndverk, sem þeir hafi átt þátt í fölsun á. P reisti aðalkröfu sína um frávísun málsins á því, að unnt hefði verið að rannsaka þau ákæruatriði, sem til meðferðar voru, áður en ákæra var gefin út í eldra máli á hendur honum, en A var með dómi Hæstaréttar árið 1999 sakfelldur fyrir sams konar brot í þremur nánar tilgreindum tilvikum. Talið var óhjákvæmilegt að líta til þess að málið væri umfangsmikið og ekki fljótrannsakað. Yrði það að vega þyngra en sjónarmið A um drátt á rannsókn og um rétt hans til þess að dæmt yrði um allar sakir á hendur honum í einu lagi. Þá yrði að líta svo á, að ætlað brot varðandi hvert myndverk væri sjálfstætt og gæti því sætt ákæru sem slíkt. Var frávísunarkröfu A því hafnað. Varðandi myndverk gerð á pappír var fallist á mat héraðsdóms um að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna nægilega fram á að þau verk stöfuðu ekki frá þeim, sem þau voru kennd við með höfundarmerkingum. Voru A og B því sýknaðir af þeim ákæruliðum er þessi verk vörðuðu. Lögregla hafði við rannsókn málsins leitað til kunnáttumanna um rannsóknir og álitsgerðir vegna þeirra olíumálverka sem málið varðaði. Staða Listasafns Íslands sem eins kærenda í málinu var óhjákvæmilega talin valda því að þær sérfræðilegu álitsgerðir, sem lögregla hafði aflað hjá starfsmönnum listasafnsins fyrir útgáfu ákæru, gætu ekki talist tækar fyrir dómi til sönnunar um atriði sem vörðuðu sök ákærðu. Gilti þá einu hvort um væri að ræða myndverk, sem listasafnið hafi lagt fram kæru um, eða verk sem því væru óviðkomandi. Var ekki talið að þau sönnunargögn, sem eftir stæðu, nægðu til þess að ákæruvaldið gæti talist hafa axlað þá sönnunarbyrði, sem á því hvíli. Voru ákærðu því einnig sýknaðir af sakargiftum þeim er vörðuðu umrædd olíumálverk. Sératkvæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. júlí 2003 að ósk beggja ákærðu en einnig af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði A verði sakfelldur samkvæmt A. hluta ákæru kafla I, II og IV, eins og hún er rakin í héraðsdómi, og refsing hans þyngd, að ákærði B verði sakfelldur samkvæmt B. og C. hluta ákæru og refsing hans þyngd og að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur úr hendi ákærða A vegna ákæruliðar 32 að fjárhæð 625.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 5. janúar 1999 til greiðsludags.
Ákærði A gerir þær dómkröfur aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi að öllu leyti eða að hluta, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði B krefst sýknu.
Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið fallið frá A. hluta ákæru kafla III og nær málið því nú til alls 45 ákæruliða. Einnig er fallið frá ákærulið 48 að því er varðar ákærða A. Þá eru ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti aðrar skaðabótakröfur en vegna ákæruliðar 32, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
I.
Tildrög frávísunarkröfu ákærða A eru þau að með ákæru 1. júlí 1998 var höfðað refsimál á hendur honum vegna sölu á þremur myndverkum, en talið var að höfundarmerkingu þeirra hefði verið breytt. Hann var sakfelldur vegna þessa í Héraðsdómi Reykjavíkur með dómi 5. mars 1999, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 4. nóvember sama ár í málinu nr. 161/1999, bls. 4035 í dómasafni. Í dóminum var talið sannað að verkin hafi ákærði A keypt á uppboðum hjá fyrirtækinu Bruun Rasmussen í Danmörku og hafi þau þá öll verið auðkennd sem verk danska málarans Wilhelm Wils. Hér heima hafi verkin verið merkt íslenska listamanninum Jóni Stefánssyni og þannig seld fyrir verulegar fjárhæðir. Báru kaupendur verkanna fyrir dómi að það hefði verið ákvörðunarástæða fyrir kaupunum að þau væru eftir íslenska málarann. Talið var að ákærða hefði ekki getað dulist að myndverkin væru seld með rangri höfundarmerkingu. Hafi hann með sölunni notfært sér villu kaupendanna um höfund verkanna og haft þannig fé af þeim. Voru brot hans heimfærð til ákvæða 3. mgr. 159. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Brotin voru talin ófyrnd, sbr. 3. mgr. 81. gr. sömu laga. Var ákærði A dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði fyrir þessi brot auk brota á lögum um bókhald. Hann afplánaði þá refsivist að fullu, enda var óskum hans um reynslulausn hafnað, þar sem aðrar kærur fyrir svipuð brot væru til rannsóknar hjá lögreglu. Þegar ákæra 1. júlí 1998 var gefin út lágu þegar fyrir kærur á hendur honum vegna fjölmargra þeirra myndverka, sem ákært er fyrir í þessu máli. Samkvæmt málatilbúnaði ákærða voru það meðal annars verk, sem greinir í ákæruliðum 1 til 3, 6, 8, 12, 15 til 18, 20, 28 og 29. Þegar dómur var kveðinn upp í Hæstarétti 4. nóvember 1999 hafði verkum þessum enn fjölgað.
Ákærði A reisir frávísunarkröfuna á því að unnt hefði verið að rannsaka þau ákæruatriði, sem nú eru til meðferðar, áður en ákæra var gefin út í fyrra málinu, enda hafi lögregla vitað eða mátt vita um þau. Samkvæmt 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga hafi hann átt rétt á að gegn honum væri rekið eitt mál í stað tveggja eða fleiri og rannsókn og málsókn dregin í langan tíma meðan fyrsta málið var til meðferðar. Vísar hann um þetta til 77. gr. og 111. gr. laga nr. 19/1991 og telur að ekki hafi átt að gefa út ákæru í fyrra málinu fyrr en rannsókn væri lokið varðandi öll myndverkin. Heldur hann því fram að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar svo sem áskilið sé í 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 3. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þá hafi málið verið dregið í 7 til 8 ár og þannig verið brotið gegn reglu um hæfilegan málshraða.
Í úrskurði héraðsdóms 14. febrúar 2003 um frávísunarkröfu ákærða A var fallist á sjónarmið hans um drátt á rannsókn málsins og um rétt hans til þess að dæmt yrði um allar sakir á hendur honum í einu lagi vegna refsimats og atriða tengdra reynslulausn. Hins vegar var talið óhjákvæmilegt að líta til þess að málið væri umfangsmikið og ekki fljótrannsakað auk þess sem kærur hefðu verið að berast lögreglu fram á árið 1999. Talið var að þetta yrði að vega þyngra en fyrrnefnd atriði og var kröfu ákærða því hafnað, en tekið fram að þau skyldu aftur á móti koma til skoðunar í sambandi við refsiákvörðun yrði hann sakfelldur.
Þegar ákæra var gefin út 1. júlí 1998 í fyrra máli ákæruvaldsins gegn ákærða A var rannsókn eingöngu talið lokið vegna þriggja myndverka í skilningi 77. gr. laga nr. 19/1991 og voru sakargiftir varðandi þau látnar fylgjast að, svo sem rétt var, sbr. 1. mgr. 23. gr. sömu laga, en líta verður svo á að ætlað brot varðandi hvert myndverk sé sjálfstætt og geti því sætt ákæru sem slíkt með hliðsjón af 111. gr. laganna. Með þessum athugasemdum verður fallist á röksemdir héraðsdóms og staðfest niðurstaða hans um frávísunarkröfu ákærða.
II.
Eins og málið liggur fyrir í Hæstarétti er ákærði A borinn sökum um skjalafals og fjársvik með því að hafa í 33 nánar greindum tilvikum blekkt viðskiptavini á listmunauppboðum og í verslun Gallerís Borgar hf. til að kaupa myndverk, sem hann hafi boðið eða látið bjóða til sölu eftir að hafa falsað eftir atvikum upplýsingar um tilurð verkanna, en ýmist hafi hann falsað eða látið falsa bæði myndverkin og höfundarmerkingu þeirra eða eingöngu höfundarmerkingu. Í tveimur tilvikum öðrum er ákærði sakaður um að hafa látið bjóða tvö fölsuð myndverk til sölu á listmunauppboðum í Danmörku. Snúa þannig samtals 35 liðir í ákæru að ákærða A og varða þeir jafnmörg myndverk. Í 30 tilvikum er um að ræða olíumálverk, en í 5 tilvikum hafa verkin verið gerð á pappír og ýmist unnin með blýanti, vatnslitum, tússlitum, pastellitum eða vaxkrít. Af þessum verkum eru 33 höfundarmerkt íslenskum listamönnum, en tvö dönskum listamanni.
Í málinu er ákærði B sakaður um skjalafals og fjársvik með því að hafa í 9 nánar greindum tilvikum blekkt viðskiptavini á listmunauppboðum og í verslun Gallerís Borgar hf. og við listmunauppboð tiltekinna fyrirtækja í Danmörku til að kaupa myndverk, sem hann hafi boðið eða látið bjóða til sölu eftir að hafa ýmist falsað eða látið falsa bæði myndverkin og höfundarmerkingu þeirra eða eingöngu höfundarmerkinguna. Í einu tilviki öðru er ákærði borinn sökum um að hafa látið bjóða til sölu falsað myndverk á listmunauppboði í Danmörku. Beinast því alls 10 liðir í ákæru að ákærða B. Varða þessir ákæruliðir 5 olíumálverk og 5 myndverk, sem gerð hafa verið á pappír með vatnslitum eða tússlitum. Í öllum tilvikum er um að ræða verk, sem hafa verið höfundarmerkt íslenskum listamönnum.
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hefur af hálfu ákæruvaldsins ekki verið leitast við að sýna fram á að ákærðu hafi hvor um sig í einhverju tilviki falsað sjálfir eða fengið aðra til að falsa fyrir sig nánar tiltekin myndverk. Því er á hinn bóginn haldið fram ákærðu hafi ekki getað dulist að einstök myndverk, sem hvorn þeirra varða, hafi verið boðin til sölu með falsaðri höfundarmerkingu, en með því hafi þeir hagnýtt sér rangar hugmyndir kaupenda og eftir atvikum haft af þeim fé. Verður að líta svo á að háttsemi, sem þannig er lýst, falli nægilega innan verknaðarlýsingar ákæru, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991.
III.
Sakargiftir, sem snúa að myndverkum gerðum á pappír, koma fram í ákæruliðum 2, 6, 16, 17 og 21 að því er ákærða A varðar, en 40 til 44 varðandi ákærða B. Eins og ítarlega er lýst í hinum áfrýjaða dómi var í öllum þessum tilvikum staðið þannig að tæknilegri rannsókn á vegum lögreglu á þessum myndverkum að Rannver H. Hannesson, forvörður og varðveislustjóri Landsbókasafns Íslands Háskólabókasafns, og enskur sérfræðingur að nafni Peter Bower gerðu athuganir á pappír í verkunum, einkum til að greina gerð hans og uppruna. Auk þessa var eftir gögnum málsins aflað álitsgerða listfræðinga um myndverkin, sem hér um ræðir, að undanskildu því fyrstnefnda.
Með vísan til forsendna héraðsdóms um einstaka ofangreinda ákæruliði verður fallist á það mat hans að af hálfu ákæruvalds hafi ekki tekist með framangreindum gögnum eða öðru því, sem fært hefur verið fram í málinu, að sýna nægilega fram á að myndverkin, sem þessir liðir í ákæru taka til, stafi ekki frá þeim, sem þau eru kennd við með höfundarmerkingum. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu beggja ákærðu af þeim ákæruliðum, sem hér um ræðir.
IV.
Sem fyrr segir eru ákærðu í alls 35 liðum ákæru bornir sökum, sem varða olíumálverk. Eru þetta nánar tiltekið liðir 1, 3 til 5, 7 til 15, 18 til 20, 22 til 34 og 38, sem beinast að ákærða A, en liðir 39 og 45 til 48, sem snúa að ákærða B.
Svo sem nánar greinir í héraðsdómi fylgdu mörgum kærum, sem vörðuðu þessi myndverk, forrannsóknarskýrslur frá Ólafi Inga Jónssyni forverði, sem jafnframt kom í ýmsum tilvikum fram sem umboðsmaður kærenda. Öllum framangreindum ákæruliðum er sammerkt að lögreglan fól Viktori Smára Sæmundssyni, forverði hjá Listasafni Íslands, að annast tæknilega rannsókn á myndverkunum ásamt dr. Sigurði Jakobssyni efnafræðingi og sérfræðingi við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð ítarleg grein fyrir því hvernig staðið var að þessum rannsóknum, bæði almennt og nánar varðandi einstök myndverk, sem þessir ákæruliðir snúa að. Í meginatriðum fólst rannsókn Viktors Smára í skoðun einstakra myndverka undir smásjá og síðan með útfjólubláu ljósi, innrauðu ljósi og röntgengeislum, auk þess að ljósmynda verkin. Með þessu leitaðist hann meðal annars við að kanna aldur og tegund málningar á yfirborði einstakra verka og hvað finna mætti undir yfirborðinu, en sjónum var einnig beint sérstaklega að höfundarmerkingum á þeim. Auk þessa rannsakaði hann atriði, sem vörðuðu frágang einstakra verka, þar sem það átti við, svo sem ummerki eftir breytingar á þeim eða blindrömmum, sem þau eru fest á. Tók hann jafnframt ásamt öðrum forverði á bilinu tvö til sex sýni af málningu á hverju myndverki. Þessi sýni rannsakaði síðan dr. Sigurður með svokallaðri innrauðri litrófsmælingu. Á grundvelli þessara rannsókna gerði Viktor Smári skýrslu um hvert myndverk, sem hér um ræðir. Greindi hann þar ítarlega frá því, sem hann taldi fram komið um hvert verk, og dró meðal annars af því ályktanir um hvort þau gætu í raun stafað frá þeim, sem þau voru kennd við. Auk þessa leitaði lögregla álitsgerðar listfræðinga um þessi myndverk, en þar áttu hlut að máli Hrafnhildur Schram, sem þá var starfsmaður Listasafns Einars Jónssonar, Júlíana Gottskálksdóttir, sem þá var starfsmaður Listasafns Íslands, og Kristín Guðnadóttir, sem þá var starfsmaður Listasafns ASÍ. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir ályktunum þeirra í einstaka atriðum.
Með framangreindri gagnaöflun neytti lögregla heimildar í 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 til að leita til kunnáttumanna um sérfræðilega rannsókn. Verða á engan hátt með réttu bornar brigður á færni áðurnefndra manna til að gegna þessu hlutverki við rannsókn málsins og láta þar með í té álit, sem gerði ákæruvaldinu kleift að meta hvort tilefni væri til saksóknar, sbr. 1. mgr. 77. gr. og 112. gr. sömu laga. Af þessu leiddi á hinn bóginn ekki að niðurstöður rannsókna, sem leitað var á þessum grundvelli, yrðu sjálfkrafa taldar viðhlítandi til sönnunar fyrir dómi í opinberu máli. Gæta verður að því að kærur til lögreglu vegna myndverkanna, sem liðir 40 og 48 í ákæru taka til, komu fram í nafni Listasafns Íslands. Verkið, sem um ræðir í fyrrnefnda ákæruliðnum, mun listasafnið hafa keypt á uppboði hjá Gallerí Borg hf. 6. nóvember 1994, en kæra út af því var sett fram 18. júní 1997 af hálfu Ólafs Inga Jónssonar sem umboðsmanns safnsins. Myndverkið, sem ákæruliður 48 snýr að, keypti Listasafn Íslands á uppboði hjá áðurnefndu dönsku fyrirtæki Bruun Rasmussen 25. september 1996, en forráðamaður safnsins beindi kæru út af verkinu til lögreglu 28. nóvember 2002.
Fallast verður á það með ákærðu að staða Listasafns Íslands sem kæranda í þessu máli valdi því óhjákvæmilega að sérfræðilegar álitsgerðir, sem lögregla aflaði á framangreindan hátt hjá starfsmönnum þess fyrir útgáfu ákæru, geti ekki talist tækar fyrir dómi til sönnunar um atriði, sem varða sök ákærðu, en einu verður að gilda í þeim efnum hvort um er að ræða myndverk, sem listasafnið lagði fram kæru um, eða verk, sem því voru óviðkomandi. Breytir engu í þessu sambandi að byggt hafi verið að nokkru á hliðstæðum sönnunargögnum frá starfsmönnum Listasafns Íslands í máli því, sem Hæstiréttur felldi áðurnefndan dóm á 4. nóvember 1999, enda voru myndverk þau, sem sakargiftir þar lutu að, safninu óviðkomandi. Verður af þessum sökum ekki komist hjá því að líta við sönnunarmat framhjá niðurstöðum rannsókna, sem unnar voru af starfsmönnum Listasafns Íslands fyrir atbeina lögreglu. Úr þeim bresti á sönnunarfærslu, sem hér um ræðir, hefði hins vegar af hálfu ákæruvalds mátt bæta undir rekstri málsins með því að leita eftir dómkvaðningu kunnáttumanna samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 til að leggja mat á þau atriði, sem nauðsyn kann að hafa borið til, en til þess var fullt tilefni vegna athugasemda í málatilbúnaði ákærðu fyrir héraðsdómi.
Að því virtu, sem að framan greinir, geta staðið eftir til sönnunar um sakargiftir í málinu niðurstöður áðurnefndra tæknirannsókna, sem dr. Sigurður Jakobsson annaðist, að því leyti, sem þær gætu staðið óháðar rannsóknarstörfum Viktors Smára Sæmundssonar, auk álitsgerða tveggja þeirra listfræðinga, sem áður er getið, og tveggja annarra listfræðinga, sem tjáðu sig fyrir dómi um einstök myndverk. Ennfremur rithandarrannsókn, sem Haraldur Árnason þáverandi lögreglumaður annaðist á höfundarmerkingu nokkurra myndverka, og vitnaskýrslur ættingja tiltekinna listamanna, sem verk í málinu hafa verið kennd við, og annarra manna, sem kunnugir voru störfum þessara listamanna. Auk þessa nýtur við gagna varðandi nokkur myndverk, sem snúa að skýringum ákærðu á uppruna þeirra. Þótt telja megi að nokkrar og í mörgum tilvikum verulegar líkur hafi verið færðar fram með þessu fyrir því að myndverk, sem hér um ræðir, stafi ekki frá þeim, sem þau hafa verið kennd við, geta þessi sönnunargögn í engu tilviki nægt til þess að ákæruvaldið geti talist hafa axlað þá sönnunarbyrði, sem um ræðir í 45. gr. laga nr. 19/1991. Verður því jafnframt að sýkna báða ákærðu af sakargiftum samkvæmt þeim ákæruliðum, sem varða umrædd olíumálverk.
Með vísan til þessa og 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður að vísa frá héraðsdómi skaðabótakröfu Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á hendur ákærða A.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærðu, A og B, eru sýknir af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Skaðabótakröfu Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á hendur ákærða A er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun, sem skipuðum verjendum beggja ákærðu voru ákveðin í héraðsdómi, og málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Ragnars Aðalsteinssonar og Karls Georgs Sigurbjörnssonar, 1.200.000 krónur í hlut hvors.
Sératkvæði
Hrafns Bragasonar og
Garðars Gíslasonar
Við erum sammála atkvæði meirihluta dómenda um frávísunarkröfu ákærða A. Við erum því hins vegar ósammála að staða Listasafns Íslands sem kæranda í málinu valdi því óhjákvæmilega að sérfræðilegar álitsgerðir, sem lögreglan aflaði hjá starfsmönnum þess fyrir útgáfu ákæru, geti ekki talist tækar fyrir dómi til sönnunar um atriði, sem varða sök ákærðu. Við teljum því að líta megi til þessara rannsókna við úrlausn málsins. Verða rök fyrir þessari skoðun færð fram síðar í atkvæðinu. Við erum því sammála að úr þeim bresti á sönnunarfærslu, sem meirihlutinn telur vera á málinu, hefði mátt bæta í héraði með því að leita eftir dómkvaðningu kunnáttumanna samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þessi niðurstaða meirihlutans hefði hins vegar að okkar mati átt að leiða til ómerkingar héraðsdóms og að lagt yrði fyrir dóminn að afla slíks mats áður en héraðsdómur væri kveðinn upp að nýju.
I.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir ákærðu, rannsókn málsins, úrskurðum í málinu, sérfræðivitnum, tækni- og vísindarannsóknum og álitsgerðum listfræðinga í ítarlegu máli. Af hálfu ákæruvaldsins hafa verið gerðar athugasemdir við þennan hluta dómsins. Varða þær aðallega umfjöllun um tækni- og vísindarannsóknir. Í héraðsdómi sátu tveir embættisdómarar auk meðdómanda sem sérfróður er á sviði listfræði. Bent er á að þætti héraðsdómsins, sem fjallar um myndverk sem upprunalega voru máluð með olíulitum, lýkur með þessum orðum: „Heimildum ber hins vegar saman um það að menn hafi farið að framleiða alkýð til íblöndunar í málningu um 1927 og þykir því mega slá því föstu að alkýð hafi ekki verið blandað í listamannaliti fyrir þann tíma.“ Á þessari ályktun byggi héraðsdómur í sex ákæruliðum eða liðum 11, 15, 20, 31, 34 og 39 með orðalagi svo sem: „Með vísan til þess sem áður er komið fram að um framleiðslu- og notkunarsögu alkýðs er óvissa í málinu og er ekki hægt að útiloka ... hafi notað alkýðbundna liti á listamannaferli sínum.“ Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að hér sé um misskilning héraðsdómsins að ræða.
Ítarleg grein er gerð fyrir tækni- og vísindarannsóknum á olíumálverkunum, sem til rannsókna voru, í héraðsdómi á bls. 35-41 og má til þess vitna. Þar er lýst rannsóknaraðferðum Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar á Listasafni Íslands, sem kom að þeim rannsóknum að ósk lögreglu, sýnatöku sem hann framkvæmdi með aðstoðarmanni sínum og í viðurvist Haralds Árnasonar rannsóknarlögreglumanns. Síðan er lýst rannsóknum sem dr. Sigurður Jakobsson efnafræðingur á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir á sýnunum og greinargerð sem Viktor Smári tók saman um notkun alkýðs. Rannsóknarmennirnir hafa staðfest skýrslur sínar fyrir dómi. Samkvæmt vitnisburðum þeirra og annarra vísinda- og tæknimanna, sem komu fyrir dóminn, má greina á milli heimilis- og iðnaðarmálningar annars vegar og listmálunarlita hins vegar. Stafi það af því að í þeim fyrrnefndu sé notað mun meira af fylliefni en í listmálunarlitum. Þá er því jafnframt haldið fram af þeim að einnig megi greina mun á listmálunarlitum og svokölluðum hobbylitum þar sem þeir síðarnefndu séu hafðir vatnsleysanlegir. Í gögnum málsins er greint frá því hvaðan úr hverju verki sýni voru tekin. Litrófsgreiningar sem gerðar voru undir stjórn dr. Sigurðar Jakobssonar efnafræðings á sýnunum sýndu að málningin í þeim hefði verið framleidd sem listmálunarlitir og alkýðbindiefnið, sem greindist í þeim, hefði verið blandað út í listmálunarliti þegar verkin voru árituð og sum þeirra yfirmáluð. Ekki hefði verið um tilbúna framleiðsluvöru að ræða. Það hafi fyrst verið 1967 sem almenningur og listamenn gátu nálgast alkýðbindiefnið eitt og sér þótt það hafi verið fundið upp um 1924. Eftir 1967 hafi og fyrst verið farið að blanda alkýð saman við listmálunarliti svo verkið þornaði fyrr. Auk íslensku tækni- og vísindamannanna hefur Mads Christian Christensen forstöðumaður Þjóðminjasafns Dana komið fyrir héraðsdóm, en hjá safninu var myndverk, sem um er fjallað í ákærulið 28, rannsakað með tveimur aðferðum eða með gasi samkvæmt svokallaðri GCMS og í öðru lagi FTIR, sem er sú aðferð sem íslenskir vísindamenn beittu. Hann sagði að þeir noti venjulega þessar tvær aðferðir við rannsóknir sínar á olíumálverkum því þær fylli út í göt hvor fyrir annarri og gefi því betra öryggi. Hins vegar hefði í þeim tilvikum sem hér um ræðir ekki verið nauðsynlegt að nota báðar aðferðirnar til að komast að niðurstöðu, en það hefði veitt meira öryggi. Hann veitti sömu upplýsingar og íslensku vísindamennirnir um að málning sem framleidd væri fyrir listamenn væri dýrari og væntanlega með betri litarefnum og í henni væru engin fylliefni eins og í húsamálningu. Sagði hann að ekki væri unnt að útiloka að listamenn notuðu málningu sem ekki væri beinlínis ætluð til listmálunar en með FTIR-aðferðinni mætti sjá þessi fylliefni eða með röntgengeislum á mismunandi tegundum. Verður að fallast á það með ákæruvaldinu að um einhvern misskilning geti verið að ræða hjá héraðsdómi í framangreindri ályktun og að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að olíuverkunum, sem í ákæru greini, hafi ýmist sjálfum verið breytt eða áritun þeirra þegar alkýðbindiefni hefur verið blandað út í litinn.
Þá er af hálfu ákæruvaldsins gerð athugasemd við þá ályktun héraðsdóms, þar sem segir um pappírsverkin, sem til umfjöllunar eru: „Ekki hafa verið efnagreind nein sýni úr pappírsverkunum sem hér koma við sögu og tiltölulega fá þeirra hafa verið rannsökuð í smásjá.“ Er því haldið fram af hálfu ákæruvaldsins að sérhvert rannsóknartilvik hafi verið rannsakað undir smásjá til að flokka pappírinn eftir framleiðanda og sérkennum og um þetta hafi sérfræðingarnir fylgt viðurkenndum rannsóknaraðferðum til að greina pappírinn og uppruna hans.
Í héraðsdómi á bls. 41-46 er ítarleg frásögn af rannsóknum þeim sem gerðar voru á pappírnum sem notaður var í myndverkin, en þær voru framkvæmdar af Rannver Hannessyni forverði á Landsbókasafni Háskólasafni og enska sérfræðingnum Peter Bower. Fyrir Hæstarétti hefur verið fallið frá ákæru vegna fjölda pappírsverka sem merkt eru Svavari Guðnasyni listmálara og í eigu danska galleríseigandans Leif Jensen. Gögn málsins bera það með sér að sérhvert rannsóknartilvik hafi verið rannsakað undir smásjá til flokkunar eftir framleiðanda og sérkennum og fullyrðingar í héraðsdómi eru því ekki réttar. Hins vegar hefur af hálfu ákæruvaldsins því ekki verið hnekkt að ekki hafi verið efnagreind sýni úr pappírsverkunum að öðru leyti en því að trefjasýni úr sumum þeirra að minnsta kosti voru send til greiningar til Skógræktar ríkisins. Þeir sérfræðingar sem þær rannsóknir gerðu hafa ekki komið fyrir dóm og verður því að taka undir það álit héraðsdóms að ekki sé að fullu ljóst hvaða þýðingu greining þeirra hefur. Þótt rannsóknir þeirra sérfræðinga sem lögreglan leitaði til um pappírinn geti gefið vísbendingar um breytingu myndverkanna er þannig nokkur óvissa um niðurstöðurnar sem veldur því að einar sér verða þær ekki lagðar til grundvallar niðurstöðu málsins.
II.
Ákærðu hafa haldið því fram að álitsgerðir og skýrslur sérfræðinga, sem ákæran styðst við og vitnisburðir sem þessir sérfræðingar hafa gefið fyrir héraðsdómi, séu að engu hafandi vegna vanhæfni þeirra, stöðu í lögreglurannsókninni, starfstengsla þeirra innbyrðis og starfshagsmuna, auk tengsla við Ólaf Inga Jónsson forvörð, sem kærði fölsun margra myndverkanna til lögreglu fyrir hönd eigenda þeirra. Benda þeir á að sérfræðivitnin Viktor Smári Sæmundsson, dr. Sigurður Jakobsson, Rannver Hannesson og Peter Bower hafi áður en sum verkanna voru kærð unnið bráðabirgðarannsóknir á einhverjum þeirra og síðar unnið að sérfræðirannsókn málsins fyrir lögreglu. Þá vinni sérfræðivitnið Viktor Smári hjá Listasafni Íslands og hafi á þess vegum unnið að verki sem síðar var kært og hafi verið ritari á fundi þar sem sú ákvörðun var tekin. Þá halda þeir því fram að listfræðingarnir, sem fengnir hafi verið til að gefa álitsgerðir um myndverkin, Kristín Guðnadóttir, Júlíana Gottskálksdóttir og Hrafnhildur Schram, hafi ýmist unnið eða vinni hjá Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur eða undirstofnunum þeirra. Söfnin séu meðal kærenda, og hafi Kristín og Júlíana unnið við sum verkin án þess að gera athugasemdir, og hafi jafnvel tekið þátt í að kaupa þau, en nú þyki þau grunsamleg.
Rannsókn opinberra mála er í höndum lögreglu og um hana gildir IX. kafli laga nr. 19/1991. Markmið hennar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að henni lokinni sé fært að ákveða hvort höfða skuli opinbert mál og afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Það er skylda lögreglu að draga fram í máli jafnt það sem valda kann sýknu sakbornings sem sekt hans. Í héraðsdómi er ítarleg grein gerð fyrir lögreglurannsókninni. Samkvæmt 70. gr. laga nr. 19/1991 skal sá sem hefur með höndum rannsókn opinbers máls leita til kunnáttumanna þegar þörf er á sérfræðilegri rannsókn, svo sem efnafræðilegri rannsókn, letur- og skriftarrannsókn, bókhaldsrannsókn o.s.frv., eins og þörf var á í máli þessu. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. sömu laga er það hlutverk verjenda eftir að til máls er komið að draga fram í málinu allt það sem verða má sakborningi til sýknu eða hagsbóta og gæta réttar hans í hvívetna. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir aðkomu þáverandi verjanda ákærða A að lögreglurannsókninni. Var honum í maí 1998 gerð grein fyrir því hvernig sýni voru tekin til greiningar og kom hann að ábendingum um sýnatökuna og hvernig að rannsókn skyldi standa. Þar er einnig gerð ítarleg grein fyrir sérfræðigögnum sem ákærði B aflaði og kom á framfæri. Að 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari eftir ósk aðila eða af sjálfsdáðum dómkvatt kunnáttumenn, einn eða fleiri til að framkvæma mats- og skoðunargerðir í opinberu máli. Samkvæmt 1. mgr. 64. gr. sömu laga á að gefa ákæranda og sakborningi eða verjanda hans kost á að vera viðstaddir þegar dómkvaðning fer fram og gefa þeim kost á að benda á ákveðna menn til dómkvaðningar. Gögn málsins bera það ekki með sér að sakborningar eða verjendur þeirra hafi farið fram á dómkvaðningu matsmanna til að yfirfara rannsóknargögn málsins eða hluta þeirra. Fallast verður á það með héraðsdómi að sumar viðbárur verjenda ákærðu eigi ekki við rök að styðjast og séu í raun langsóttar. Er þá sérstaklega átt við athugasemdir við faglega hæfni rannsóknarmanna og álitsgefenda. Þá hafa þeir ekki sýnt fram á að lögreglan hafi beitt þá hlutdrægni eða að trúverðugleiki rannsóknarmannanna verði dreginn í efa þótt þeir hafi áður en vinna þeirra að lögreglurannsókninni hófst unnið sem fagmenn einstakar bráðabirgðarannsóknir fyrir kærendur eða gefið almennar fræðilegar umsagnir, sbr. dóm Hæstaréttar 4. nóvember 1999, í málinu nr. 161/1999, að því er Viktor Smára Sæmundsson forvörð varðar, en þar er fjallað um hæfi hans. Hann hafði ekki aðeins unnið fyrir Ólaf Inga Jónsson forvörð heldur einnig fyrir ákærða A, sbr. síðar varðandi ákærulið 32. Fallast verður einnig á það með héraðsdómi að ekkert sé í gögnum þeim sem frá sérfræðingunum hafa farið sem bendi til þess að framangreind tengsl við kærendur hafi nokkru skipt um framgöngu þeirra. Listasafn Íslands á tvö af ákærutilvikunum. Annað er pappírsverk sem kært var af Ólafi Inga fyrir safnið, en hann er sjálfstætt starfandi forvörður. Viktor Smári kom ekki að rannsókn þessa verks hjá lögreglu eða kæru þess. Af gögnum málsins verður heldur ekki séð að hann hafi átt hlut að kæru hins verksins til lögreglu, það er ákæruliðar 48, utan þess að vera sem starfsmaður ritari á fundi 28. nóvember 2002 þar sem sú ákvörðun var tekin, en þá var rannsókn hans fyrir lögregluna löngu lokið. Framganga hans fyrir dómi var í aðalatriðum bundin við að staðfesta þá rannsókn. Þá er það að athuga að Listasafn Íslands er opinber stofnun sem starfar samkvæmt lögum nr. 58/1988 þar um og er það hlutverk safnsins að vera meginsafn myndlistar í landinu og miðstöð rannsókna, heimildasöfnunar og kynningar á íslenskri myndlist. Safnið hefur þannig ekki hagsmuni af því að myndverk í þess eigu reynist falsað heldur miklu fremur að rannsóknir leiði í ljós að verk sé það ekki. Hins vegar verður að hafa það í huga við mat á sönnunarstöðu málsins að rannsóknarmennirnir styðjast nokkuð hver við annan. Þá er það að athuga að íslensku listfræðingarnir, sem álit gáfu í málinu, hafa unnið og vinna á söfnum sem eiga sum kærðra verka eða á söfnum þeim tengdum. Þá mótast álit þeirra eðlilega mjög af matskenndum atriðum, og geta því vart orðið til annars en stuðnings öðrum sönnunargögnum. Það að þeir og aðrir listfræðingar hafi átt hlut að kaupum einhverra verkanna verður óhjákvæmilega látið hafa áhrif á mat á því hvað ákærðu hlutu að mega gera sér grein fyrir þegar þeir seldu verkin, verði talið að þeir hafi ekki komið að breytingum á þeim.
III.
Í héraðsdómi er það rakið að ákærði A hafi stundað sígilt myndlistarnám í Danmörku 19821987 og hafið störf hjá Gallerí Borg sama ár og hann lauk námi. Árið eftir hafi hann byrjað að fara út til Danmerkur á vegum gallerísins í því skyni að kaupa þar myndverk eftir íslenska listamenn. Hann hafi keypt fimmtung í fyrirtækinu 1990 eða 1991 og í janúar 1993 hafi hann og kona hans keypt fyrirtækið allt og rekið það undir nafninu Gallerí BorgUppboðshús ehf. Ákærði hefur skýrt frá því að um þúsund verk hafi verið seld á vegum fyrirtækisins árlega og stundum fleiri. Rekstrinum hafi verið sjálfhætt eftir að kviknaði í starfsstöð fyrirtækisins 20. febrúar 1999. Fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota 15. nóvember 2000. Heldur ákærði því fram að við brunann hafi fjöldi gagna Gallerís Borgar farið forgörðum og skýri það og flutningar fyrirtækisins að hann geti ekki nú framvísað gögnum um viðskipti þess.
Ákærði A skýrði svo frá fyrir dómi að þegar hann fór til Danmerkur á vegum Gallerís Borgar til listaverkakaupa hafi hann áður auglýst í stærstu þarlendum dagblöðum eftir verkum 10-15 nafngreindra íslenskra listamanna og að hann yrði á ákveðnu hóteli á uppgefnum tíma. Hann hélt því fram að hefði hann ætlað sér að falsa málverk eftir einhvern þessara höfunda myndi hann treysta sér til þess, að minnsta kosti tæknilega, svo ekki yrði uppgötvað, því hann hefði lært þessar aðferðir á listaskólanum í Danmörku. Ákærði A vildi ekki viðurkenna að hann og ákærði B hafi verið samstarfsmenn og taldi að í raun hafi þeir í mörg ár verið keppinautar. Hann kvaðst hins vegar hafa selt mikið af málverkum sem ákærði B kom með til sölu til Gallerís Borgar. Hann viðurkenndi þó að ákærði B hefði bæði keypt og selt verk í nafni Gallerís Borgar eða hans sjálfs en hélt því fram að það hefði langoftast verið að sér forspurðum. Hann hafi margoft fengið senda reikninga frá Danmörku yfir varning sem ákærði B hafi verið að kaupa og hafi honum skilist að þetta gerði hann til að losna við virðisaukaskatt af vörum sem hann keypti á uppboðum í Danmörku. Fyrir lögreglu við yfirheyrslu í desember 2002 hélt ákærði A því fram að hann myndi ekki tildrög að sölu flestra þeirra myndverka, sem í málinu greinir, því svo langt væri liðið frá því salan hefði farið fram og gögnin glötuð. Fyrir dómi hafði hann uppi sömu viðbárur. Hann sagði hins vegar að myndir sem komið var með til sölu hefðu verið skráðar á sérstakt skráningarblað þar sem eigandi myndar var tilgreindur eða sá sem kom með myndina. Skráning eigendasögu hafi ekki farið fram á það blað að öðru leyti. Þær hefðu verið skrifaðar niður en ekki hengdar upp. Skráningarblöðin hafi verið varðveitt eftir uppboðið en eigendasögurnar ekki. Er þetta staðfest af Úlfari Þormóðssyni sem var framkvæmdarstjóri Gallerís Borgar næst á undan ákærða A eða fram til áramóta 1992/1993.
Fyrir héraðsdómi greindi ákærði B frá því að hann hafi lokið sveinsprófi í húsamálun frá iðnskóla hér á landi og meistaraprófi í þeirri iðngrein í Danmörku. Hann hafi auk þess stundað nám hjá dönskum manni, Kai Fessel að nafni í „hálfgerðri forvörslu á húsum“. Hann kvaðst hafa stundað það að kaupa fasteignir á nauðungaruppboðum eða af lánastofnunum, gera þær upp og leigja út eða selja. Þá hafi hann verið með ferðaskrifstofu í Kaupmannahöfn. Hann sagðist hafa sótt fjölmarga fyrirlestra hjá listfræðingum og kannað slóðir þekktra málara. Hann hafi stundað það að kaupa og selja myndir og hafi þannig selt um 70 myndir hjá Gallerí Borg. Hann kvaðst sjálfur hafa þrifið allar myndirnar og gert við smávægilegar skemmdir þegar þörf krafði. Hann hafi hins vegar fengið aðra til að gera við stærri skemmdir. Hann kvaðst einnig hafa gert við myndir fyrir aðra. Hann sagðist aldrei hafa málað sjálfur enda hafi hann enga menntun á því sviði. Um samband sitt við ákærða A sagði hann að þeir hafi staðið sig að því að bjóða hvor á móti öðrum á dönskum uppboðum. Jafnvel þegar engir aðrir voru að bjóða í verkin hafi þeir verið að keyra upp verðið hvor fyrir öðrum. Þeir hafi því gert með sér samkomulag um að vera ekki endilega að þessu heldur skipta verkunum á milli sín og fá þau þannig miklu ódýrari. Hann taldi hins vegar ekki að þeir hefðu verið í raunverulegri samvinnu. Hann hefði ekki átt öðru vísi samskipti við ákærða A en ýmsa aðra, til dæmis Peter Christmas Möller hjá Kunsthallen. Þegar málið hefði komið upp og íslenska rannsóknarlögreglan fór að hafa samband við viðskiptaaðila hans í Danmörku hafi rekstri hans þar verið sjálfhætt, til dæmis hafi banki sinn lokað fyrir viðskipti við sig eftir að lögreglan leitaði upplýsinga um viðskiptin hjá bankanum.
IV.
Í dómi Hæstaréttar 4. nóvember 1999, sem áður er til vitnað, var talið sannað að þrjú verk sem ákærði A keypti á uppboðum hjá danska uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen, og öll voru verk danska málarans Wilhelm Wils og auðkennd honum, voru seld hjá Gallerí Borg árituð nafni íslenska málarans Jóns Stefánssonar. Var talið sannað að áritun Wils hefði verið slípuð niður með sandpappír og hulin málningu og verkið merkt á ný. Sýndu rannsóknir að málningin á árituninni og undir henni innhéldu alkýðbundin efni sem var yngri gerðar en svo að Jón Stefánsson hefði haft tök á að nota það. Báru kaupendur verkanna allir að það hefði verið ákvörðunarástæða kaupanna að þau voru talin eftir íslenska málarann. Fyrir Hæstarétti var því ekki haldið fram af hálfu ákæruvaldsins að ákærði A hefði breytt auðkenni verkanna, en talið var að honum hefði ekki getað dulist að myndverkin voru seld með rangri höfundarmerkingu og hafi hann með sölu þeirra notfært sér villu kaupendanna og þannig haft fé af þeim. Héraðsdómur mat framburð hans í því máli á tildrögum sölunnar ótrúverðan.
Viktor Smári Sæmundsson forvörður hefur lýst því í skýrslu þeirri sem hann tók saman fyrir lögregluna um þær tækni- og vísindarannsóknir sem framkvæmdar voru og í framburði sínum fyrir héraðsdómi að aðferðin við breytta höfundarmerkingu flestra þeirra myndverka sem málið fjallar um minni mjög á eða sé í raun sú sama og við verkin þrjú í hæstaréttardóminum 4. nóvember 1999, en þau voru til sölu hjá galleríinu á svipuðum tíma. Verður með vísun til dómsins á því byggt að ákærða A hafi, þegar öll myndverk málsins voru seld, verið kunn þessi aðferð við breytingu á áritun verka í auðgunarskyni. Í héraðsdómi er á það bent að hann hafi haft mikinn fjölda myndverka til sölu og ljóst sé að uppruni flestra þeirra hafi verið óumdeildur. Það breytir því þó ekki að sá sem hefur viðskipti með málverk hlýtur að vera meðvitaður um ábyrgð sína á því að uppruni verkanna sé rétt greindur og verður því að kanna verk sérstaklega leiki einhver vafi um upprunann.
Á það verður að fallast með héraðsdómi að það sé grundvallaratriði í málinu að staðreyna hvort hvert einstakt myndverk geti talist falsað. Rannsókn málsins hefur hins vegar í litlu sem engu snúist um það hvort ákærðu sjálfir fölsuðu myndirnar og málflutningur ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti beindist í raun ekki að sönnunarfærslu um það atriði heldur að því hvort sannað væri að ákærðu hefðu hlotið að gera sér grein fyrir því að svo væri háttað um myndverkin. Því verður að kanna hverjar aðstæður voru að sölu verkanna.
Ákærði B hefur viðurkennt að hafa gert eða látið gera að myndverkunum en samt neitað því að hafa átt við áritun þeirra. Hefur ekki verið sýnt fram á að ákærðu hafi sjálfir staðið að fölsunum á verkunum eða áritunum þeirra. Þá verður fallist á það með héraðsdómi að fram sé komið að alþekkt sé að listmálarar máli yfir eldri verk sín vegna þess að þeir séu óánægðir með þau eða af öðrum ástæðum. Þá er það vitað að listmálarar eiga það til að merkja eldri verk sín sem áður hafa verið ómerkt.
Hér á eftir verður vikið að hverju ákæruatriði fyrir sig, fyrst að því er varðar ákærða A en síðar ákærða B, og fjallað um hvort þar greindum myndverkum hafi verið breytt í blekkingarskyni og hvort ákærðu séu sekir um skjalafals og fjársvik eins og í ákæru greinir.
V.
Í ákærulið 1 er ákærða A gefið að sök að láta selja olíumálverk þekkts dansks höfundar sem verk listmálarans Kristínar Jónsdóttur á uppboði Gallerís Borgar í Reykjavík 3. maí 1992. Staðfesta ber það álit héraðsdóms að mynd þessi sé fölsuð. Í ákæru er háttsemi ákærða A talin varða við 3. mgr. 159. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði kvaðst ekkert muna eftir þessum viðskiptum þegar hann var fyrst yfirheyrður varðandi þetta myndverk og rannsókn beindist gegn honum sem grunuðum 11. desember 2002. Að framan er því lýst að líta verði á brot varðandi hvert myndverk sem sjálfstætt brot. Fyrningarfrestur fer að 3. tl. 1. mgr. 81. gr., sbr. 3. mgr. sömu greinar almennra hegningarlaga og var því ætlað brot ákærða fyrnt þegar rannsóknin hófst gegn honum.
Í ákærulið 4 er ákærður A sakaður um að láta selja olíumálverk óþekkts höfundar sem listaverk Þórarins B. Þorlákssonar í verslun Gallerís Borgar 4. desember 1992. Staðfest er sú niðurstaða héraðsdóms að myndin sé fölsuð. Sama gildir um þennan ákærulið og ákærulið 1, að ætlað brot ákærða var fyrnt þegar rannsókn hófst gegn honum sem sakborningi að því er þetta myndverk varðar.
Í ákæruliðum 2, 3, 8 og 12 er ákærða A gefið að sök að láta selja teikningu og þrjú olíumálverk óþekkts listamanns sem verk Þórarins B. Þorlákssonar á uppboðum 4. júní 1992, 3. desember 1992, 2. maí 1993 og 27. mars 1994. Rannsókn hófst á hendur honum sem grunuðum 11. nóvember 1997 og eru því ætluð brot ekki fyrnd. Þórarinn B. Þorláksson var fæddur 1867 og látinn 1924. Í héraðsdómi eru raktar þær rannsóknir sem fram fóru á myndverkunum. Niðurstaða þeirra er sú að rannsóknarmenn telja yfirgnæfandi líkur fyrir því að áritun allra verkanna hafi verið breytt með alkýðbundnum litum og séu verkin ekki eftir Þórarin. Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að olíumálverkin væru öll fölsuð en taldi að álit sérfræðinganna varðandi teikninguna samkvæmt ákærulið 2 veitti aðeins vísbendingar um fölsun en væru ekki nægilega sterkar til þess að fölsun teldist sönnuð. Ákærði A sagðist fyrir lögreglu 1997 hafa keypt allar þessar myndir af dönskum héraðsdómara, Torben Möller, sem nú er látinn, en fæddur var 1907. Bróðursonur hans Sören Möller fullyrti fyrir dómi að myndirnar væru ekki frá Torben komnar, svo sem lýst er í héraðsdómi. Kona Sörens staðfesti þetta með honum. Héraðsdómur mat þessa framburði trúverðuga. Persónuskilríki Torbens Möllers hafa verið lögð fram í málinu og passar lýsing ákærða A á Torben illa við mynd í skírteininu. Samkvæmt takmörkuðum bókhaldsgögnum sem fundist hafa frá Gallerí Borg virðist ákæruliður 3 gerður upp við Lilju Klein fyrrum sambúðarkonu ákærða B. Um þetta verður þó ekkert fullyrt þar sem bókhaldsgögnin eru ófullkomin, en ákærði A var, svo sem áður greinir, dæmdur fyrir bókhaldsbrot með dómi Hæstaréttar 4. nóvember 1999. Ákærði lagði fram kvittun sem hann kvaðst hafa fengið frá Torben Möller og kvaðst síðar hafa látið auglýsa eftir honum í dönsku blaði. Tæknideild Kaupmannahafnarlögreglunnar rannsakaði rithönd á kvittuninni og var það niðurstaða hennar að margt gæfi til kynna að um falsaða nafnritun væri að ræða og hún hefði verið gerð eftir fyrirmynd. Héraðsdómur mat skýringar ákærða ekki sennilegar en taldi þó að ekki væri unnt að útiloka að Torben Möller hefði tekið að sér að selja þessar myndir fyrir einhvern annan og framburði ákærða væri því ekki hnekkt.
Þegar framangreint er virt, til þess litið að ákærði rekur öll myndverkin til sama upphafs og áritun allra verkanna hefur verið breytt á líkan hátt og gert var í þeim tilvikum sem sönnuð þóttu í dómi Hæstaréttar 4. nóvember 1999, sem áður er rakinn, aðferð sem ákærða var kunn, þykir þegar gögn málsins eru metin í heild fyllilega sannað að ákærði A hafi hlotið að gera sér grein fyrir því að hér var ekki um myndverk Þórarins B. Þorlákssonar að ræða þegar verkin voru seld. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru vegna þessara verka.
Í ákærulið 5 er ákærða A gefið að sök að hafa látið selja olíumálverk óþekkts höfundar sem verk Þórarins B. Þorlákssonar á uppboði Gallerís Borgar 7. mars 1993. Í héraðsdómi er greint frá rannsóknum, sem fram fóru á verkinu. Niðurstaða kannana Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar að fengnum rannsóknum hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands var að verkinu hafi verið breytt og ný höfundarmerking sett á það með alkýðbundnu litefni. Ætlaður höfundur lést 1924 eða þremur árum áður en farið var að nota alkýðbundið litarefni í nokkra málningu. Merki er um það að áritun neðst í hægra horni myndarinnar hafi verið afmáð, en núverandi áritun er í vinstra horni. Júlíana Gottskálksdóttir listfræðingur hefur gefið það álit, svo sem greinir í héraðsdómi, að verkið geti ekki verið eftir Þórarinn B. Þorláksson. Engar upplýsingar eða gögn er að finna hjá Gallerí Borg um myndina. Í forrannsóknarskýrslu segir að frá 27. september 1987 til 9. mars 1997 hafi verið seld á uppboðum hjá Gallerí Borg sjö málverk eftir sama höfund sem heiti nöfnum eins og Kvöldroði, Sólarlag, Sólsetur og Skútur í sólarlagi. Myndefnið hér er líkt en myndin er kölluð Snæfellsjökull. Ákærði sagðist ekki muna eftir myndinni þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu í desember 2002, enda langt um liðið frá því hún var seld. Hann sagði þó að sér fyndist myndin gæti verið komin frá Danmörku. Þegar honum var bent á að rannsókn sýndi að myndin væri gömul en fjöllin á henni hins vegar nýmáluð svaraði hann „að það hefði bara orðið eldgos.“ Fyrir dómi ítrekaði hann þessa skoðun sína og kvaðst byggja þá skoðun sína á því að Þórarinn B. Þorláksson hefði búið um tíma þar í landi og landslagið væri líkt dönsku landslagi.
Héraðsdómur sló því föstu að myndin væri ekki eftir Þórarinn B. Þorláksson, Aðferð við breytingu á myndverkinu svipar til breytinga á myndverkunum, sem voru efni máls í hæstaréttardómi 4. nóvember 1999. Þegar litið er til skýringa ákærða A um landslag myndarinnar og fjallanna í því er ljóst að það hefði átt að gefa honum tilefni til að efast um að hún væri eftir Þórarinn B. Þorláksson og rannsaka hana betur. Það gerði hann ekki. Því þykir fyllilega sannað að ákærði hafi hlotið að gera sér grein fyrir því að myndin væri ekki eftir greindan listmálara og verður hann því sakfelldur í þessum ákærulið.
Í ákæruliðum 6 og 15 er ákærða A gefið að sök að hafa selt fölsuð myndverk sem verk Jóhannesar S. Kjarvals á uppboði fyrirtækisins 7. mars 1993 og í galleríinu 9. júní 1994. Jóhannes S. Kjaraval var fæddur 1885 en dáinn 1972. Fyrra verkið er vatnslitamynd en það síðara olíumálverk. Í héraðsdómi er lýst rannsóknum á myndunum. Rannver Hannesson forvörður hefur metið það svo út frá pappírsrannsóknum, tæknilegri vinnslu mynda og litanotkun að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að fyrri myndin sé fölsuð og Peter Bower segir í álitsgerð að verk þetta sé ekki gert á pappír sem sé dæmigerður fyrir listamanninn, svo sem um er getið í héraðsdómi. Þá gaf Kristín Guðnadóttir listfræðingur það álit að myndin bæri ekki augljós höfundareinkenni Kjarvals. Héraðsdómur taldi líkur fyrir því að myndin væri fölsuð en taldi það ósannað. Myndin var á uppboðinu slegin Kjarvalsstöðum. Í héraðsdómi er greint frá rannsóknum sem fram fóru á síðari myndinni og eru í samræmi við rannsóknir annarra olíumálverka. Var það niðurstaða Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar að loknum þeim rannsóknum að málverkið sem ber heitið, Litaspjald í landslagi, sé málað yfir gamalt verk, merkt V.N. 1911, sem að öllum líkindum sé verk eftir danska málarann Valdemar Carl Neiindam frá árinu 1911. Það sé málað með alkýðbundinni málningu sem mjög litlar líkur séu á að Kjarval hafi notað þar sem hann hafi málað sínar síðustu myndir sama ár og framleiðsla efnisins til listmálunarlita hafi hafist. Greinileg merki séu um að reynt hafi verið að hylja eða afmá gamlan stimpil á bakhlið verksins sem ef til vill gefi upplýsingar um að eldri sölustaður verksins hafi verið danska galleríið Kunsthallen. Kristín Guðnadóttir gaf samhljóða álit um þetta verk og hið fyrra. Héraðsdómur taldi sterkar líkur fyrir því að verkið væri falsað en taldi það þó ósannað í sakamáli. Ákærði A bar fyrir lögreglu 1997 að hann hefði fengið þessar myndir hjá Pétri heitnum Péturssyni stórkaupmanni, sem bæði hafi keypt og selt margar myndir hjá Gallerí Borg. Sonur Péturs heitins og Guðmundur Axelsson, sem talinn er hafa þekkt vel hvaða myndir Pétur átti, hafa borið á móti þessu en eingöngu Guðmundur hefur komið fyrir dóm. Ákærði A telur sig hafa fundið söluspjöld yfir þessar myndir en ekki hefur hann framvísað þeim.
Yfirgnæfandi líkur eru fyrir því að báðar þessar myndir séu ekki höfundarverk Kjarvals samkvæmt framansögðu og því er fyrr greinir í dómi þessum. Í myndverkunum er aðferð við fölsun myndanna um sumt önnur en í tilvikum þeim sem getið er um í hæstaréttardómi 4. nóvember 1999. Fyrri myndin er keypt af Kjarvalsstöðum en samkvæmt gögnum málsins er það almennt álit að þeir er þar starfi beri glöggt skyn á list Kjarvals. Framburður ákærða um tilkomu verkanna á uppboðið er ekki nægjanlega hrakinn og ekki er loku fyrir það skotið að verkið hafi verið á fyrri uppboðum gallerísins. Ekki hefur verið sýnt fram á að ákærði hafi breytt myndunum. Það verður því að teljast nokkrum vafa undirorpið að ákærði hafi þegar þau voru seld hlotið að gera sér grein fyrir því að myndverkin væru líkast til fölsuð. Verður hann því sýknaður af broti vegna þessara ákæruliða.
Í ákærulið 25 er ákærða A gefið að sök að hafa látið selja olíumálverk óþekkts höfundar sem verk Jóhannesar S. Kjarvals á uppboði fyrirtækisins 2. apríl 1995. Myndin kallast Frá London. Í héraðsdómi er greint frá rannsóknum sem fram fóru á myndinni. Eru það samskonar rannsóknir og þær er gerðar voru á öðrum olíumálverkum málsins og afstaða er tekin til fyrr í dóminum. Niðurstaða þeirra rannsókna var sú að skimun í útfjólubláu ljósi og smásjárskoðun gáfu til kynna nýlegar breytingar á myndefni og áritun verksins. Niðurstaða bindiefnagreininga gáfu til kynna að alkýðbindiefni væri í yngri áritun og breytingum á myndefni. Kjarval hefði ekki haft tök á að nota alkýð í listmálunarliti. Merki voru um að eldri áletrun hefði verið niðurslípuð og síðan málað yfir hana. Ummerki og vinnubrögð voru þau sömu og við breytingar á myndverkum þeim sem um er getið í hæstaréttardómi 4. nóvember 1999. Í áliti Kristínar Guðnadóttur listfræðings um verkið segir að Kjarval hafi dvalist í London í nokkra mánuði veturinn 19111912. Verk hans frá þeim tíma séu smáar og varfærnislegar vatnslitamyndir og geti þetta verk ekki verið málað af honum á þeim tíma. Engin bókhaldsgögn fundust hjá Gallerí Borg um sölu verksins.
Ákærði A var spurður um þessa mynd hjá lögreglu 14. desember 2002 og aftur fyrir dómi við aðalflutning málsins. Þá sagði hann að sig minnti að myndin hefði komið frá ákærða B. Það hefði verið sérstakt að fá mynd eftir Kjarval frá London. Hann viðurkenndi að hann hefði aldrei séð málverk eftir Kjarval frá London. Fyrir dómi sagði hann að það hafi þótt merkilegt á sínum tíma þegar þetta verk kom frá London. Hann gagnrýndi jafnframt listfræðilegt álit Kristínar Guðnadóttur og vitnaði til bókar hennar, Jóhannes S. Kjarval, Mótunarár 1885-1930, um dvöl Kjarvals í London, um að Kjarval hefði notað tímann til að skoða söfn og mála. Taldi hann að við skoðun myndar frá þessum tíma megi sjá nýja litameðferð og ákefð í hinum rauðgullna logandi himni sem beri vitni vaxandi meðvitund um tjáningargildi litarins. Væru þetta áhrif frá enska málaranum Turner. Fyrir dómi margítrekaði hann að myndin hefði vakið mikla athygli. Ákærði B sagði fyrir dómi að í sjálfu sér neitaði hann að myndin hefði verið seld fyrir sig. Það væri hins vegar rétt hjá ákærða A að hann hafi keypt þrjár myndir eftir Kjarval á Portugal Road í London, „allar frá Turnertímanum“ og hafi selt þær í Gallerí Borg. Eitt af þeim hafi verið Hestamennirnir sem sýnst hafi ekta og Kjarvalsstaðir hafi kært en tekið aftur. Hann kvað sig muna eftir annarri mynd aðeins minni en þeirri sem um ræði í þessum ákærulið og með meira rautt í himninum. Það hafi náttúrlega getað verið þessi mynd en hann treysti sér ekki til að staðfesta það. Af þessum framburðum ákærðu er langlíklegast að myndin sé frá ákærða B komin, enda máttu ákærðu vita að ekki þýddi að bjóða upp á mörg olíuverk kennd við Kjarval frá Lundúnatímanum, því af framburði þeirra má ráða að þeir eru vel lesnir í þeim bókum sem út hafa komið um listmálunarár hans.
Héraðsdómur taldi hafið yfir allan vafa að myndin væri fölsuð og ber með vísun til framangreindra rannsókna að staðfesta það. Hins vegar segir í dóminum að engin sérstök atvik eða gögn séu í málinu sem bendi sérstaklega til þess að ákærða hafi verið um það kunnugt. Á það er ekki unnt að fallast. Samkvæmt listfræðilegum gögnum málsins er ekki vitað um eina einustu olíumynd eftir Kjarval frá Lundúnatíma hans. Ákærði A mundi vel eftir myndinni og tilstandi í kring um hana og kannaðist við að hafa ekki vitað um olíumálverk eftir Kjarval frá þessum tíma. Að framan er það rakið að leggja verði það til grundvallar í málinu að honum hafi verið vel kunn aðferð við að breyta verkum með þeim hætti sem hér um ræðir og er sams konar og við myndverk þau sem fjallað er um í hæstaréttardómi 4. nóvember 1999. Einföld skoðun hefði leitt í ljós breytingar á verkinu og árituninni en fullt tilefni var til hennar þegar allt í einu birtust þrjú verk sem haldið var fram að væri frá greindu tímabili. Það að engin skoðun fór fram á verkinu og þekking hans á breytingaraðferðinni bendir eindregið til þess að hann hafi hlotið að vita þegar myndin var seld að því hefði verið breytt. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir þetta verk.
Í ákæruliðum 29 og 38 er ákærði A sakaður um að hafa látið selja yfirmáluð olíumálverk óþekkts höfundar sem verk Jóhannesar S. Kjarvals á uppboði Gallerís Borgar 21. apríl 1996 fyrra verkið og selt í galleríinu það síðara 1994 eða 1995. Í héraðsdómi er skýrt frá rannsóknum á verkunum. Eru rannsóknaraðferðirnar þær sömu og þar er lýst. Var talið að þau væru bæði í heild máluð yfir eldri olíuverk með alkýðbundnum litarefnum. Sama er að segja um áritanir verkanna. Yfirborð yngri málningarlaga var hreint og sýndi ekki merki öldrunar. Ummerki voru um slípun svæðis í kringum áritanir beggja verkanna og báru aðferðirnar sömu merki og fjöldi annarra rannsóknartilvika. Það var niðurstaða rannsóknarmanna og listfræðings, sem rakin er í héraðsdómi, að hvorugt verkið væri eftir Kjarval. Héraðsdómur taldi verkin fölsuð með tilvísun til þessa og ber að staðfesta þá niðurstöðu.
Ákærði A sagðist hafa keypt fyrri myndina í Danmörku og hafi komið á heimili þar þeirra erinda en kvaðst ekkert muna frekar um þetta. Síðara verkið taldi hann að ákærði B hefði komið með í sölu. Ákærði B sagði fyrir dómi að það væri misskilningur ákærða A. Hann hefði aldrei átt myndina. Héraðsdómur taldi að ekkert hefði verið fært fram í málinu sem sanni það að ákærða hefði verið kunnugt um að myndirnar væru falsaðar. Aðferðin við breytingu verkanna er um sumt önnur en í þeim tilvikum sem dæmt var um í Hæstarétti 4. nóvember 1999. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 19/1991 verður að telja að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna sekt ákærða samkvæmt þessum ákæruliðum.
Í ákærulið 7 er ákærða A gefið að sök að hafa látið selja olíumálverk óþekkts höfundar sem verk Nínu Tryggvadóttur á uppboði fyrirtækisins 2. maí 1993. Nína var fædd 1913 en dáin 1968. Í héraðsdómi er greint frá rannsóknum sem fram fóru á myndinni og eru rannsóknaraðferðirnar þær sömu og við önnur olíuverk málsins. Viktor Smári Sæmundsson forvörður segir myndina málaða á masónítplötu og beri skemmdir á jaðri hennar þess merki að hún hafi verið skorin eftir að myndin var máluð. Ummerki séu á myndinni um að upprunaleg höfundarmerking hafi verið skröpuð af verkinu, síðan hafi svæðið verið yfirmálað og ný áritun gerð með alkýðbundnum litarefnum. Áritunin hafi verið gerð yfir sprungur í verkinu og sé því tilkomin löngu eftir að það var málað. Ætlaður höfundur hafi málað sín síðustu verk áður en fyrstu alkýðefnin til listmálunar komu á markað. Hrafnhildur Schram listfræðingur segir verkið geta verið handbragð hvaða málara sem er sem hlotið hafi undurstöðumenntun í málun. Þess vegna geti verið um að ræða verk sem Nína Tryggvadóttir hafi unnið um það leyti sem hún hélt til náms í Kaupmannahöfn eða á námsárum þar. Dóttir listakonunnar kom fyrir dóm og er framburður hennar rakinn í héraðsdómi. Sagði hún móður sína ekki hafa málað á masónít fyrr en síðar á listferlinum. Héraðsdómur telur með tilvísun til framanritaðs nægar sönnur fram komnar um að mynd þessi sé fölsuð og er fallist á það.
Ákærði segist ekki muna eftir myndinni og telur héraðsdómur það í sjálfu sér ekki ótrúlegt. Ákærði taldi fyrir dóminum þetta vera æskuverk listakonunnar þegar hún hafi verið við nám og væri hún seld í góðri trú. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að engin gögn eða atvik bentu til þess að ákærði hafi vitað eða hlotið að vita að myndin væri fölsuð þegar hún var seld. Fram þykir komið að myndin hafi verið seld sem æskuverk listakonunnar og listfræðingurinn verður ekki öðruvísi skilinn en að verkið hafi í sjálfu sér samkvæmt myndmálinu geta staðist. Verður því þótt aðferðin við breytingu verksins sé út af fyrir sig eins og í þeim tilvikum sem um getur í Hæstaréttardómi frá 4. nóvember 1999, að telja ósannað að ákærði hafi hlotið að vita um breytingu myndarinnar.
Í ákæruliðum 20 og 27 er ákærði sakaður um samskonar verknaði og í ákærulið 7 á uppboðum 2. febrúar 1995 og 10. mars 1996. Verkin eru bæði seld sem æskuverk listakonunnar. Sömu rannsóknir fóru fram á þessum verkum og öðrum olíumálverkum sem í málinu greinir. Stærsti hluti fyrri myndarinnar reyndist vera málaður olíulitum en höfundarmerkingin og hluti myndflatarins málaður alkýðblönduðum litum. Síðari myndin var öll yfirmáluð alkýðblönduðum litum en rannsókn á röndum hennar virtist gefa til kynna að hún væri máluð yfir eldri mynd. Hrafnhildur Schram listfræðingur gaf það álit að hvorug myndin stæðist samjöfnuð við myndir Nínu Tryggvadóttur. Ákærði A telur sig hafa skoðað þessar myndir hjá tveimur konum einhvers staðar á Austurbrú í Kaupmannahöfn og hafi ákærði B verið með honum. Telur hann sig hafa að minnsta kosti selt síðari myndina fyrir ákærða B. Ákærði B telur sig muna eftir þessu ferðalagi á Austurbrú en engar myndir hafi verið keyptar í það sinn. Það hafi hins vegar komið fyrir í nokkur skipti þegar þeir A höfðu báðir auglýst eftir myndum að hann hafi fengið ákærða A til að skoða með sér jafnvel heilu dánarbúin með 20 íslenskum myndum eða fleiri. Í þetta sinn hafi það verið öfugt og ákærði A hafi fengið sig með sér. Héraðsdómur telur ósannað að fyrri myndin sé fölsuð þar sem ekki sé sýnt fram á að önnur áritun sé á eldri hluta myndarinnar. Hins vegar sé hafið yfir vafa að sú síðari sé það. Samkvæmt því sem segir í I. kafla atkvæðisins um rannsóknaraðferðir sérfræðinganna og það sem sýnt hefur verið fram á um framleiðslusögu alkýðs verður að telja það fullsannað að myndunum báðum hafi verið breytt og sé áritun beggja myndanna með því móti að listakonan hafi ekki getað merkt myndirnar. Fyrri myndin var keypt af Aðalsteini Ingólfssyni listfræðingi fyrir dóttur listakonunnar. Þar sem ekki er sýnt fram á það í málinu að ákærðu hafi breytt þessum myndum og ljóst að listfræðingur, sem telja verður gjörkunnugan verkum listakonunnar, gat villst á þeim verður ekki talið nægjanlega fram komið að ákærði A hafi hlotið að vita að myndunum hafði verið breytt áður en þær voru seldar og væru ekki eftir Nínu Tryggvadóttur.
Í ákærulið 31 er ákærða A ennfremur gefið að sök að hafa látið selja yfirmálað olíumálverk óþekkts höfundar sem verk Nínu Tryggvadóttur á uppboði Gallerís Borgar 6. nóvember 1994. Í héraðsdómi er getið um rannsóknir sérfræðinga á verkunum og eru aðferðir þeirra þær sömu og þar er lýst. Niðurstaða rannsóknanna var sú að verkið væri heilmálað með alkýðbundnum litum og fernis yfir eldra verk. Eldra verkið beri merki slípunar með sandpappír. Sömu aðferðum sé hér beitt og við önnur yfirmáluð verk sem ákært sé út af. Engin öldrunarmerki sjáist á efra lagi málningarinnar. Flúorljómun verksins gefi til kynna nýlegan lit eða litarefni með alkýðinnihaldi. Blindrammi og léreft beri með sér að vera eldri en frá upphafi sjöunda áratugarins. Viktor Smári Sæmundsson forvörður taldi að Nína Tryggvadóttir hefði ekki getað verið höfundur verksins. Hrafnhildur Schram listfræðingur hefur gefið það álit að myndbygging svipi til verka listakonunnar frá árunum 1957-1967 en ýmis höfundareinkenni hennar séu ekki á þessu verki og það standist engan veginn listrænan samanburð við önnur abstrakt verk hennar. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur keypti verkið á uppboði fyrir dóttur listakonunnar. Engin gögn fundust um söluna hjá galleríinu. Ákærði A segist hafa selt verkið fyrir ákærða B og spurði hvort þetta gæti ekki verið slök mynd eftir listakonuna. Ákærði B vildi fyrir dómi benda á að myndin væri stórskemmd og væri hún allt öðru vísi en þegar hún var seld. Hann hafi átt nokkur lík verk í Kaupmannahöfn eftir listakonuna og hann treysti sér ekki til að segja til um hvort hann hefði átt þessa mynd, eins og hún liti út. Nánar aðspurður neitaði hann að hafa átt myndina.
Héraðsdómur taldi sterkar líkur á því að myndin væri fölsuð en ekki væri þó óhætt að telja það sannað. Á sama hátt og við myndir samkvæmt ákæruliðum 20 og 27 verður að telja fullsannað að verk þetta sé ekki eftir Nínu Tryggvadóttur. Hins vegar þegar litið er til framburðar listfræðingsins um myndbyggingu verksins og þess að annar listfræðingur keypti verkið, en telja verður hann gjörkunnugan verkum listakonunnar, verður ekki talið sannað að ákærði A hafi hlotið að vita um fölsun verksins.
Í ákæruliðum 9, 18, 24, 26 og 32 er ákærða A gefið að sök að hafa látið selja olíumálverk óþekkts höfundar sem listaverk Jóns Stefánssonar á uppboðum Gallerís Borgar 2. maí 1993, 6. nóvember 1994, 5. mars 1996, 4. maí 1995 og í versluninni 5. janúar 1999. Jón Stefánsson fæddist 1881 og lést 1962. Rannsóknum á verkunum er ítarlega lýst í héraðsdómi. Aðferðin við rannsókn allra verkanna er sú sama og eins og áður er lýst varðandi önnur þau olíuverk sem ákæra varðar. Myndefni allra verkanna eru uppstillingar. Niðurstaða rannsókna á öllum verkunum er að áritun sé gerð með alkýðbundnu litarefni en málverkið sé málað með olíulitum. Framleiðsla á listmálunarefni með alkýði hafi ekki verið hafin þegar listmálarinn lést. Merki séu um það á öllum verkunum að átt hafi verið við málningarlag þeirra í kring um eldri áritun. Álit listfræðings og vitna er að engin myndanna geti verið eftir Jón Stefánsson. Ákærði A hefur hafnað áliti listfræðings og bent á að samkvæmt heimildum hafi Jón Stefánsson ekki viljað sýna þau verk sem hann málaði fyrstu 15 ár listmálaraferils síns. Engin gögn fundust hjá Gallerí Borg varðandi þessar myndir og ákærði kveðst ekkert muna eftir viðskiptunum nema samkvæmt ákærulið 32. Þá mynd segir hann keypta í Kaupmannahöfn af gömlum hjónum samkvæmt auglýsingu. Hann fór með myndina til Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar og bað hann um að hreinsa hana. Viktor Smári segir að myndin hafi verið yfirmáluð á sérkennilegan hátt að hluta og hafi þeir ákærði komið sér saman um að fjarlægja þann hluta. Þegar málið kom upp hafi hann skilað verkinu og látið fylgja bréf þar sem hann lét af því vita að áritunin væri grunsamleg. Ákærði A kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir bréfinu en vefengdi þó ekki að hann hefði fengið það. Eftir þetta seldi ákærði myndverkið. Hafði hann þá þegar verið yfirheyrður af lögreglu vegna að annarra mynda, sem hann hafði selt eftir sama höfund.
Héraðsdómur taldi fullsannað að áritun myndverka samkvæmt þessum ákæruliðum hefði öllum verið breytt. Verður á það fallist með vísun til niðurstöðu rannsóknanna. Ákærði A var í héraði einungis talinn sannur að sök samkvæmt ákærulið 32. Aðferðin við breytingu áritunar verkanna er öll sú sama og áþekk því eða eins og við myndirnar í Hæstaréttardómi 4. nóvember 1999, sem áður er frá skýrt. Þær myndir voru einnig sagðar eftir Jón Stefánsson. Þegar litið er til þess sem segir í héraðsdómi um breytingu myndanna, atriða þeirra sem rakin eru hér að framan um aðferðina við breytingu á áritun þeirra, sem er sú sama í öllum tilvikum og fram kom og sannað þótti í framangreindum hæstaréttardómi, þykir ekki varhugavert að telja fullsannað að ákærði A hafi hlotið að vita að áritanir myndverka samkvæmt þessum ákæruliðum hafði öllum verið breytt þegar þær voru seldar og að verkin væru ekki eftir Jón Stefánsson listmálara.
Í ákærulið 10 er ákærða A gefið að sök að láta selja olíumálverk óþekkts höfundar sem verk Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) á uppboði Gallerís Borgar 31. október 1993. Muggur var fæddur 1891 og dáinn 1924. Sömu rannsóknir fóru fram á þessu verki og öðrum olíumálverkum málsins og var sömu aðferðum beitt. Ítarlega er frá þeim skýrt í héraðsdómi. Niðurstaða þeirra er að nafnskriftin virðist nýleg og máluð yfir örfínar sprungur með málningu sem að mestu leyti sé olía. Málningin sé örþunn og í henni hafi fundist trjákvoða sem talin var feneysk terpentína og alkýð. Merkingar á blindramma hafi líklega sumar verið fjarlægðar en aðrar yfirmálaðar. Í gegnum málninguna mátti greina áletrunina, BACHS, Kunsthandel, Gl. Strand 36, Köbenhavn. Samsetning blindrammans var upprunaleg og af þeirri gerð sem kom fram um og eftir 1930. Ummerki voru um slípun við áritun verksins og afmáða eldri merkingu undir og neðan við þá sýnilegu. Var það mat Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar eftir þessar rannsóknir að myndin gæti ekki verið eftir Mugg. Verkið er merkt stöfunum GTh. Haraldur Árnason lögreglufulltrúi og rithandarsérfræðingur rannsakaði höfundarmerkinguna og bar hana saman við tólf óumdeild verk. Var niðurstað hans sú að skriftarlegt misræmi væri á milli áritunar myndarinnar og ósviknu verkanna. Formið á G-inu væri ekki að finna í ósviknu myndunum. Hann hafði þó þann almenna fyrirvara á niðurstöðu sinni að rannsóknargögnin væru af skornum skammti. Þá var það niðurstaða hans að VSC skimun gæfi ekki vísbendingar um eldri merkingu verksins. Kristín Guðnadóttir gaf listfræðilegt álit á verkinu og taldi að engin augljós höfundareinkenni tengdu verkið við Mugg. Engin gögn fundust hjá Gallerí Borg yfir sölu myndarinnar og ákærði A kvaðst ekki muna eftir myndinni og sagðist ekki skilja hvað mönnum þætti að henni. Héraðsdómur taldi það í sjálfu sér ekki ótrúlegt að A myndi ekki eftir myndinni.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu á grundvelli framangreindra rannsókna að myndin væri ekki eftir Mugg. Er fallist á þá niðurstöðu. Engin gögn hafa verið færð fram um það að ákærði A hafi breytt áritun myndarinnar. Hins vegar er G í áritun myndarinnar allt annað en á þeim tólf verkum sem rithandarsérfræðingurinn hafði til samanburðar. Olíumálverk eftir Mugg eru fremur sjaldgæf. Að framan er það rakið að ákærða A var kunnug sú aðferð sem viðhöfð var til að breyta verkinu. Einföld skoðun á myndinni hefði átt að leiða í ljós að þörf var á ítarlegri könnun á aldri myndarinnar og blindrammans. Hefði þá komið í ljós að myndin var máluð eftir 1930 og gat ekki verið eftir Mugg. Það að ekki er upplýst um slíka könnun bendir svo eindregið til að ákærða A hafi verið um þetta fullkunnugt að telja verður sannað að hann hafi hlotið að vita að myndin var ekki eftir Mugg þegar hún var seld.
Í ákærulið 11 er ákærði A sakaður um að hafa látið selja yfirmálað olíumálverk óþekkts höfundar sem verk Júlíönu Sveinsdóttur á uppboði Gallerís Borgar 27. mars 1994. Júlíana Sveinsdóttir var fædd 1889 og lést 1966. Í héraðsdómi er skýrt frá rannsóknum sem gerðar voru á myndverkinu og aðferðunum við þær. Sömu aðferðum var beitt við þær rannsóknir sem á öðrum olíuverkum málsins. Í samantekt Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar um þær er komist að þeirri niðurstöðu að málverkið sé nánast heilmálað og áritað með alkýðbundinni málningu yfir eldra olíumálverk. Greindur höfundur hafi ekki haft tök á nota slíka málningu. Yfirborð efsta málningarlags sé mjög hreint og beri engin merki öldrunar. Afmáð áletrun sé á bakhlið blindramma og merki eftir afmáðan límmiða. Léreftið sé nýlegt og beri ekki með sér fjögurra áratuga öldrunar. Ummerki og aðferð við gerð verksins séu þau sömu og komið hafi fram í fjölda annarra rannsóknartilvika. Í héraðsdómi er rakið álit Hrafnhildar Schram listfræðings á myndinni. Segir hún að myndefnið sverji sig í ætt við þau verk sem Júlíana Sveinsdóttir málaði í Vestmannaeyjum 1946-1965. Málað sé yfir eldri mynd en það sé óþekkt hjá listakonunni frá þessum tíma. Niðurstaða listfræðingsins er að fyrirmynd að verkinu sé sótt til málverks listamannsins, Löngunef frá árinu 1949, þótt það sé nefnt Heimaklettur og sé eftirgerð þess. Verkið var keypt af bróðursyni listakonunnar sem gjörþekkir verk hennar. Ákærði A sagðist ekki muna eftir þessum viðskiptum en ráma í að hafa keypt verkið í Danmörku eins og fjölda annarra mynda eftir Júlíönu, en listakonan hafi málað sömu fyrirmyndirnar oft.
Héraðsdómur taldi að líkur væri fyrir því að myndin væri ekki eftir listakonuna en óræk sönnun væri ekki fyrir því. Með vísun til framanskráðs verður að telja að full sönnun sé fyrir því að myndverkið sé eftirgerð. Hins vegar hafa ekki verið færð fram gögn um að ákærði hafi falsað verkið eða keypt það með þeim hætti að hann hafi mátt átta sig á að það væri falsað. Aðferðin við fölsunina er önnur en við breytingu þeirra verka sem talið er fullsannað að ákærði þekkti. Verður ekki talið nægjanlega fram komið að hann hafi hlotið að gera sér grein fyrir að verkið var eftirgerð eða hafi átt að telja það tortryggilegt.
Í ákæruliðum 19 og 28 er ákærða A gefið að sök, sem í ákærulið 11, að hafa látið selja yfirmáluð verk óþekktra höfunda sem verk Júlíönu Sveinsdóttur, fyrra verkið í verslun Gallerís Borgar 16. febrúar 1995 en það síðara á uppboði 21. apríl 1996. Í héraðsdómi er sagt frá rannsóknum sem fram fóru á verkunum og aðferðir við þær tíundaðar. Auk rannsókna Viktors Smára Sæmundssonar og við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands var síðara verkið sent til Danmerkur og rannsakað þar í Þjóðminjasafninu. Áður hefur verið skýrt frá framburði forstöðumanns safnsins um þá rannsókn. Hrafnhildur Schram listfræðingur gaf álit um bæði verkin og segir þau ekki bera höfundarmerki listakonunnar og taldi myndirnar vera samsuðu myndefna fleiri verka hennar. Ákærði A kvaðst muna eftir fyrra verkinu en ekki tildrög að sölu þess og taldi héraðsdómur það ekki ótrúlegt út af fyrir sig. Ákærði kvaðst hafa keypt síðari myndina hjá Erik Goldschmidt lögmanni í Kaupmannahöfn, sem nú er látinn, en hann mun hafa verið tengdur Íslandi og átti íslenskar myndir. Systursonur lögmannsins kannaðist ekki við að hafa séð myndina á heimili lögmannsins og staðfesti kona systursonarins það. Kaupandi myndarinnar sagði fyrir dómi að fljótlega eftir að hann fékk myndina í hendur hafi komið í ljós að á henni voru gallar og hann hafi grunað að ekki væri allt í lagi með hana. Hann hafi farið með myndina til Ólafs Inga Jónssonar forvarðar og í ljós hafi komið að hún var yfirmáluð. Hann hafi rætt við ákærða sem hafi viljað láta Viktor Smára Sæmundsson forvörð líta á myndina. Niðurstaðan hafi orðið sú að Gallerí Borg endurgreiddi myndina 6-7 mánuðum eftir að hún var keypt. Kaup þessarar myndar hafi valdið sér miklum vonbrigðum og fyrirhöfn. Í gögnum málsins er afrit af reikningi frá 30. janúar 1991 sem sagður er vera frá Erik Goldschmidt vegna sölu krítarmyndar eftir Júlíönu Sveinsdóttur. Reikningurinn ber það með sér að hafa verið símsendur frá ferðaskrifstofu ákærða B í Kaupmannahöfn 28. október 1997 og lagður fram í málinu af ákærða A. Reikningurinn er gerður á ómerkt eyðublað með handrituðum haus. Ákærði B kvaðst í lögregluyfirheyrslu í Kaupmannahöfn 10. desember 1997 hafa keypt mynd af lögmanninum og þegar ákærði Aur hafi vegna rannsóknar málsins verið að reyna að hafa upp á honum hafi hann sent honum nótuna til þess að hann hefði upplýsingar um lögmanninn. Systursonur lögmannsins kvað dagsetninguna á reikningum og undirskriftina geta verið frá lögmanninum komna en annað ekki. Nafn lögmannsins væri rangt skrifað í haus kvittunarinnar.
Héraðsdómur taldi með tilvísun til rannsókna á myndverkunum að þau væru hvorugt eftir Júlíönu Sveinsdóttur. Dómurinn taldi ósannað að ákærði A hefði hlotið að vita að fyrri myndin væri stæling. Hins vegar segir í dóminum um síðari myndina að enda þótt ekki sé unnt að útiloka að Erik Goldschmidt hafi selt frá sér myndir sé þess að gæta að kvittunin sem ákærði A hafi fengið frá meðákærða beri það með sér að annar en lögmaðurinn hafi ritað hausinn. Útilokað sé að lögmaður hafi látið ákærða B rita haus á kvittunina. Hafnaði dómurinn því að kvittunin stafaði frá lögmanninum og sló því föstu að ákærði A hafi látið útbúa hana fyrir sig í blekkingarskyni. Það hafi verið hreint yfirvarp að hann lét myndina í rannsókn til Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar enda hafi myndin þá verið komin úr eigu hans og búið að kvarta yfir henni. Var talið fullsannað að hann hafi hlotið að vita að myndin væri fölsuð þegar hann seldi hana og var hann talinn sekur um brot samkvæmt þessum ákærulið.
Fallast ber á það með héraðsdómi með vísun til framangreindra rannsókna að myndverkin séu ekki eftir Júlíönu Sveinsdóttur. Þá ber að fallast á það með héraðsdómi að ekki sé nægjanlega sannað að ákærði hafi hlotið að vita að fyrra málverkið væri ekki eftir listakonuna. Héraðsdómur hefur metið frásögn ákærðu um tilurð kvittunar frá lögmanninum Erik Goldschmidt ótrúverðuga. Grunsemdir vöknuðu strax hjá kaupandanum eftir að hann hafði fengið myndina í hendur um að hún væri ekki ósvikin og telur myndina hafa borið með sér að hún væri gölluð. Er hann þó ekki sérfræðingur um myndlist eða sölu myndlistar svo sem telja verður ákærða A. Hefði ákærði því engu að síður átt að átta sig á að verkið var ekki í lagi og skoðað það nánar eða látið skoða það. Þar sem ljóst er að það lét hann fyrirfarast verður að staðfesta héraðsdóm með vísun til raka hans að öðru leyti um sakfellingu ákærða vegna þessa verks.
Í ákærulið 13 er ákærði A sakaður um að hafa látið selja olíumálverk óþekkts höfundar sem listaverk Þorvalds Skúlasonar á uppboði Gallerís Borgar 27. mars 1994. Þorvaldur Skúlason var fæddur 1906 og dáinn 1984. Í héraðsdómi er rannsóknum á verkinu lýst og eru rannsóknaraðferðirnar þær sömu og við önnur olíumálverk málsins. Niðurstöður rannsóknanna voru þær að um væri að ræða gamalt verk en áritun og grænmálað svæði umhverfis hana væri mun yngra en verkið sjálft. Upprunaleg höfundarmerking sé, Poul S. 37., hún sé máð og yfir hana málað, en hluti hennar notaður í nýja höfundarmerkingu. Þessi greining var staðfest af Hersteini Brynjólfssyni forverði af gefnu tilefni frá ákærða, eins og sagt er frá í héraðsdómi. Þorvaldur Skúlason gat einkum á síðari hluta listaferils síns notað alkýðbundna listmálunarliti samkvæmt framansögðu en ekki 1937. Niðurstaða Kristínar Guðnadóttur listfræðings var sú að ekki væri unnt að greina nein höfundareinkenni Þorvalds Skúlasonar á verkinu og skeri það sig verulega frá verkum listamannsins á fjórða áratugnum. Með tilvísun til þessa sló héraðsdómur því föstu að myndin væri ekki eftir Þorvald. Engin bókhaldsgögn fundust hjá Gallerí Borg varðandi myndina. Ákærði kvaðst ekki muna eftir henni en giskaði á að hann hefði keypt hana hjá Gallery Profilen í Árósum, en ekkja listamannsins og dóttir hefðu selt um 100 myndir hjá því galleríi. Þessi frásögn hans er öll óstaðfest.
Myndin ber engin höfundareinkenni Þorvaldar Skúlasonar. Einföld könnun hefði leitt í ljós að átt hafði verið við höfundarmerkingu verksins. Í dómi Hæstaréttar 4. nóvember 1999 var ákærði A fundinn sekur um að hafa selt myndverk þar sem sömu aðferðum var beitt og við þessa mynd til þess að villa um fyrir kaupendum. Fram er þannig komið að honum var aðferðin kunn. Verður að telja nægjanlega fram komið að honum hafi hlotið að vera kunnugt þegar verkið var selt að verkið stafaði ekki frá Þorvaldi Skúlasyni.
Í ákæruliðum 14 og 22 er ákærða A gefið að sök að hafa látið selja olíumálverk óþekkts höfundar sem listaverk Ásgríms Jónssonar á uppboði 15. maí 1994 það fyrra en það síðara 2. apríl 1995. Ásgrímur Jónsson var fæddur 1876 og látinn 1958. Í héraðsdómi er greint frá rannsókn og rannsóknaraðferðum á olíuverkunum. Niðurstaða rannsóknanna var sú að áritun myndanna væri ekki í samræmi við óvéfengdar áritanir greinds höfundar. Nafnskriftin væri skyggð, yfirmáluð með alkýðbundu litarefni sem ætlaður höfundur hafði ekki tök á að nota. (1101 -)Ummerki væru um að miði og áletrun á bakhlið blindramma hafi verið afmáð á fyrri myndinni. Var talið að afar ólíklegt væri að Ásgrímur Jónsson hefði merkt myndirnar. Júlíana Gottskálksdóttir sagði í áliti sínu að vinnubrögð við myndirnar stæðust ekki samanburð við myndir listamannsins. Héraðsdómur taldi sannað að myndirnar væru ekki eftir Ásgrím Jónsson. Ákærði A sagðist hafa selt fyrri myndina fyrir ákærða B, en hann kannaðist ekki við það en taldi sig hafa átt svipaða mynd. Hins vegar kvaðst ákærði A ekki muna eftir viðskiptum með seinni myndina.
Báðar myndirnar eru málaðar olíulitum og bera þess merki að vera gamlar en átt hefur verið við áritun þeirra og henni breytt á svipaðan hátt og í öðrum myndum sem til rannsóknar voru. Fram þykir komið að áritun verkanna sé það nýleg að ætlaður höfundur hafi ekki getað merkt þær. Ekkert er fram komið sem bendir sérstaklega til þess að ákærði A hafi átt að vera á varðbergi gagnvart myndunum og verður því að telja þrátt fyrir að honum hafi sannanlega verið kunn sú aðferð sem beitt var við breytingu merkingarinnar að telja ekki nægjanlegar sannanir fram komnar fyrir því að hann hafi hlotið að vita að merkingin var fölsuð.
Í ákæruliðum 16 og 17 er ákærði A sakaður um að hafa látið selja fölsuð myndverk sem verk danska listamannsins Asger Jorn á uppboði Gallerís Borgar 9. júní 1994. Myndirnar hafi ákærði látið gera eftir þekktum viðfangsefnum listamannsins. Í héraðsdómi er greint frá rannsóknum þeim sem fram fóru á myndverkunum. Segja rannsóknarmennirnir Rannver Hannesson og Peter Bower að myndirnar séu báðar unnar með pastellitum og síðari einnig með vaxkrít. Fyrri myndin sé gerð á pappír í fílabeinslit sem sé að öllu leyti samsvarandi Ingres-pappír frá Hahnemühle í litnum elfenbein en vatnsmerkið sé að öllum líkindum í kanti sem skorinn sé. Engin öldrunarmerki sjáist á pappírnum sem sé óeðlilegt þar sem myndin sé ársett 1946. Rifumyndun á jöðrum svo nýlegs pappírs sé ósannfærandi. Síðari myndin sé gerð á nýlega, gulleita og grófa skissu- eða teiknipappírsörk. Pappírinn innihaldi tréni og vatnsmerki finnist ekki.
Í héraðsdómi er sagt frá rannsókn á pappír, sem fannst í húsleit hjá ákærða, en ekki þykja efni til að fjalla um hann fyrir Hæstarétti. Þess er ranglega getið í héraðsdómi, svo sem áður er skýrt frá, að pappír myndanna hafi ekki verið skoðaður í smásjá. Peter Bower kvað fyrir dómi að fyrra verkið væri dagsett meira en 20 árum áður en pappírsmyllan sem þar um ræðir notaði baðmullarlinter í framleiðslu sína, sem finnist á þessum pappír. Sé þetta afgerandi merki um fölsun. Troels Andersen listasafnsstjóri, sem er helsti sérfræðingur Dana um verk Asgers Jorn, gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Framburðar hans er þar getið og grein gerð fyrir vitninu og menntun þess. Hann er safnstjóri yfir stærsta safni á verkum eftir Asger Jorn og þangað munu þeir leita sem vilja vita vissu sína um verk kennd við listamanninn. Álit hans á fyrra verkinu var það að litanotkun þess sýndi mjög frumstæða tilraun til að herma eftir notkun listamannsins og Ingres-pappír hafi ekki verið notaður af listamanninum 1946 þegar þessi mynd á að hafa verið gerð. Þá sé ártalið ekki sett þar sem Jorn var vanur að hafa það. Síðari myndina kvað hann einnig vera fölsun og væri hún svo illa gerð að hafi fyrri myndin verið tilraun til eftiröpunar væri það ekki einu sinni reynt við þessa, ekki hafi verið hirt um annað en að setja nafn Jorns á myndina. Í framburði hans kom fram að hann hafði fengið bréf frá Bruun Rasmussen og ljósmyndir af verkunum, en þá hafði kaupandi verkanna boðið þær til kaups í dönsku blaði. Hann sagði að sér hefði þá strax þótt þær afskaplega vafasamar.
Héraðsdómur taldi ekki alveg óhætt að slá því föstu að sannað væri að myndirnar væru falsaðar. Að framan er því lýst að einhver misskilningur virðist hafa ríkt fyrir héraðsdómi á því hversu vandaðar rannsóknir sérfræðinganna voru. Þykir enginn vafi leika á því að myndirnar séu eftirgerðir með tilvísun til framburðar vitnisins Troels Andersen og rannsókna sérfræðinganna. Ákærði A sagðist í yfirheyrslu fyrir lögreglu í desember 2002 og eins fyrir dómi hafa fengið myndirnar frá ákærða B og hélt því fram að þetta hefði verið í fyrsta og eina skipti sem myndir eftir Asger Jorn hefðu verið seldar á Íslandi. Hann hélt því fram að hann hefði selt þær í góðri trú. Ákærði B sagðist hafa staðið í þeirri trú að hann væri að kaupa myndirnar fyrir ákærða A. Hann hefði ekkert haft upp úr sölunni. Hann sagði að kona að nafni Írene Antolívena forvörður, sem hann hafi stundum keypt myndir af, hefði boðið sér þessar myndir og hafi þær átt að vera komnar frá lækni að nafni Elsa Fonberg, sem eitthvað hafi átt að vera samtvinnuð listamanninum. Hann kvaðst ekki hafa haft áhuga á að kaupa þær en hafi sagt ákærða A frá þeim og hann talið spennandi að taka myndirnar með á uppboð. Aðspurður gat hann litlar upplýsingar gefið um greindan forvörð en gat þess að hann hefði vitað að listaverkasalarnir Lenny Simonsen og Simon Simonsen í Kaupmannahöfn hafi verslað við hana. Hann hafi hringt í þá til að athuga hvort einhver peningur væri í þessum myndum og komist þá að því að þeir hefðu vitað að þessi kona væri með þessar myndir til sölu. Lögreglan reyndi að hafa upp á téðum forverði en án árangurs.
Ákærðu B og ákærði A höfðu í mörg ár keypt myndir í Danmörku til sölu þar og á Íslandi. Þeir þekktu því báðir vel til á danska listaverkamarkaðinum. Þeim var ljóst að Asger Jorn er einn þekktasti og eftirsóttasti listmálari Dana og hlutu að þekkja til mynda hans. Þeir hafa einnig hlotið að vita hvernig ætti að fá fullvissu sína um það hvort myndir eftir Jorn væru ósviknar. Af viðbrögðum listaverkasala í Kaupmannahöfn þegar myndirnar voru boðnar þeim er ljóst að þeim þóttu þær tortryggilegar. Ákærða B mátti ljóst vera að fyrst listaverkasalarnir sem hann leitaði til höfðu ekki haft áhuga á myndunum væri rétt að hugsa sig um tvisvar áður en þær voru keyptar. Þótt ekki komi skýrlega fram að ákærði A hafi haft sömu vitneskju og ákærði B hlaut honum, með sína kunnáttu, sem öðrum listaverkasölum á þessum markaði, að þykja þær torkennilegar. Við þær kringumstæður bar honum að kanna uppruna þeirra og hvort kunnáttumenn viðurkenndu myndirnar. Þar sem hann virðist ekki hafa gert það verður telja hafið yfir allan vafa að honum hafi verið ljóst að þær voru torkennilegar en skeytt því engu. Verður að telja hann sekan um þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru varðandi þessar myndir.
Í ákærulið 21 er ákærða A gefið að sök að hafa selt falsað myndverk sem verk Svars Guðnasonar á Uppboði Gallerís Borgar fimmtudaginn 2. febrúar 1995. Svavar Guðnason var fæddur 1909 og látinn 1988. Í héraðsdómi er greint frá pappírsrannsóknum þeirra Rannvers Hannessonar og Peters Bower á verkinu en það er gert með pastellitum á Ingres-pappír frá Hahnemühle. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að pappírinn sem myndin er máluð á hafi ekki verið framleiddur fyrr en frá og með 1963, sem útilokar ekki að Svavar Guðnason hafi málað myndina. Listfræðingarnir sem skoðuðu myndina voru á einu máli um að myndin væri ekki eftir Svavar en Thor Vilhjálmsson, sem vel er kunnugur listaverkum Svavars, taldi það vel geta verið. Ákærði A dregur í efa mat listfræðinganna. Hann virðist ekki hafa verið spurður að því fyrir dómi hvaðan myndin hefði komið og ekkert fannst í bókhaldi Gallerís Borgar um hana. Héraðsdómur taldi að þótt einhverjar líkur gætu verið fyrir því að mynd þessi væri fölsuð væri það ósannað með tilvísun til framanskráðs. Verður að fallast á það og sýkna ákærða af þessum ákærulið.
Í ákærulið 23 og 30 er ákærði A sakaður um að hafa látið selja fölsuð olíumálverk sem verk Svavars Guðnasonar á uppboðum Gallerís Borgar 2. febrúar 1995 samkvæmt fyrri ákærulið en 7. mars 1993 þeim síðari. Því er haldið fram af ákæruvaldinu að fyrrnefnda verkið sé gert eftir þekktu verki. Sami einstaklingur keypti bæði verkin. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir rannsókn á myndverkunum og er aðferð við þær rannsóknir sú sama og á öðrum olíumálverkum málsins. Jafnframt er greint frá rannsóknarniðurstöðum í dóminum. Viktor Smári Sæmundsson forvörður, sem vann að þessum rannsóknum, sagði fyrir dómi að fyrrnefnda verkið væri nánast heilmálað með alkýðbundnum litum og einnig áritunin. Þá hafi greinst í henni síðari tíma akrylefni. Myndin sé ársett 1942 og ætti áritunin þá að vera það einnig þar sem hún beri það með sér að vera gerð í blautt efni. Þessi efni hafi hins vegar fyrst komið fram 1963. Viktor Smári sagði að ýmsar breytingar hefðu verið gerðar á síðarnefnda verkinu með alkýðblandaðri málningu. Verkið hefði verið slípað niður og sé höfundarmerking þess gerð ofan í nýjan lit og grilli þar í fölrauðan lit sem hann taldi vera úr eldri höfundarmerkingu. Listfræðingarnir Júlíana Gottskálksdóttir og Kristín Guðnadóttir, sem álit gáfu um myndirnar, töldu þær ekki bera höfundareinkenni Svavars Guðnasonar og sögðu verkið samkvæmt fyrri ákæruliðnum vera eftirgerð verks Svavars, Mikrokosmos. Thor Vilhjálmssyni fannst myndirnar mjög ólíkar verkum listamannsins, án þess að vera alveg sannfærður um síðari myndina.
Í héraðsdómi eru taldar fram komnar nægar sannanir fyrir því að myndum þessum hafi verið breytt. Að framan er því lýst að Svavar Guðnason hafði tækifæri til að nota alkýðbundna liti og gat því út af fyrir sig unnið með slíka liti að eldri verkum. Aðferðir við breytingu verkanna eru hins vegar með svipuðum hætti og við önnur yfirmáluð verk.
Í héraðsdómi er skýrt frá skýrslu sem ekkja listamannsins gaf fyrir lögreglu og tekin var upp á myndband, en hvorki hefur það eða endurrit þess verið lagt fram. Hinsvegar gerðu lögreglumenn útdrátt úr skýrslunni sem ekkjan staðfesti síðan með undirritun sinni og það sama gerði lögmaður hennar. Ekkjan hefur ekki komið fyrir dóm. Er því samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 erfitt að byggja á skýrslu hennar. Ákærði A sagði fyrst að þessar myndir væru komnar frá Danmörku en vildi ekki gefa upp hvaðan. Síðar taldi hann þær komnar frá ekkju Svavars og þegar því var neitað sagðist hann ekki muna hvaðan þær væru. Úlfar Þormóðsson, sem var framkvæmdarstjóri Gallerís Borgar á undan ákærða A hefur fyrir dómi staðfest að ekkja Svavars hafi selt myndir eftir hann hjá galleríinu, en hafi verið ófús að gangast við því opinberlega. Engin bókhaldsgögn fundust um myndir þessar. Þótt héraðsdómur hafi metið það svo að nokkur ósennileika blær væri á frásögn ákærða og breyting myndanna svipi til annarra tilvika þar sem fölsun þótti sönnuð þykir eins og sönnunaraðstöðu er háttað ekki fram komin næg gögn til sakarfellis ákærða.
Í 33 og 34 ákærulið er ákærði A sakaður um að hafa selt yfirmáluð olíumálverk sem verk Svavars Guðnasonar á uppboðum Kunsthallen í Kaupmannahöfn 5. desember 1995 og 18. september 1996. Þau voru keypt af sama einstaklingi. Í héraðsdómi er lýst rannsóknum og rannsóknaraðferðum sem fram fóru á myndum þessum. Voru þær í samræmi við það sem gert var varðandi önnur olíumálverk sem tortryggileg þóttu og ákært er út af. Var það niðurstaða rannsóknarmanna að Svavar Guðnason hefði ekki málað myndirnar samkvæmt þessum ákæruliðum. Þá töldu þeir að málað hefði verið yfir með alkýðbundum litum en undir væri merki um eldri olíumálverk. Það var einnig mat listfræðinganna sem álit gáfu að verkin væru ekki eftir listamanninn, svo sem rakið er í héraðsdómi. Thor Vilhjálmssyni þóttu myndirnar mjög ólíkar verkum Svavars. Sá munur þótti vera á myndunum að sú fyrri bar merki þess að höfundaráritun hefði verið slípuð í burtu en sú síðari bar engin slík merki. Taldi héraðsdómur að fyrri myndin væri örugglega fölsuð en ekki óhætt í sakamáli að telja að síðari myndin væri það. Með rökum þeim sem að fölsun myndanna er leidd í héraði er langlíklegast að þær séu ekki verk Svavars Guðnasonar.
Ákærði A sagðist fyrir dómi hafa keypt myndirnar í Danmörku en ekki muna af hverjum og hafa í bæði skiptin farið beint á uppboð með þær. Hann kvaðst ekkert gefa fyrir listfræðilega álitið á myndunum. Engin gögn hafa fundist um kaup ákærða á myndum þessum. Að framan er því lýst að Svavar Guðnason hafði möguleika á að nota alkýðbundna liti. Ekki er óþekkt að listamenn máli yfir myndir sínar eða merki ómerktar myndir síðar á listamannaævi sinni. Þykja ekki fram komnar nægar sannanir fyrir því að ákærði A hafi hlotið að sjá að myndirnar væru torkennilegar og ber því að sýkna hann af þessum ákæruliðum.
VI.
Í ákærulið 39 er ákærða B gefið að sök að hafa látið selja olíumálverk óþekkts höfundar sem verk Ásgríms Jónssonar á uppboði Gallerís Borgar 7. mars 1993. Ásgrímur Jónsson var fæddur 1876 og látinn 1958. Í héraðsdómi er greint frá rannsóknum sem gerðar voru á myndverkinu og aðferðum við þær. Er þar um að ræða sömu aðferðir og við rannsóknir annarra olíumálverka málsins. Í skýrslu Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar um þær rannsóknir segir að myndin sé gerð á kartonpappír og merkt, Ásgr. J. Myndefnið sé maður að lesa við kertaljós. Í útfjólubláu ljósi megi sjá viðgerðir á yfirborði málverksins. Þessar viðgerðir séu að líkindum ekki gerðar af fagmanni þar sem frjálslega sé farið með liti og málað yfir skemmdirnar. Í hægra horni að neðan sé viðgert svæði sem sé umfangsmeira en þörf virðist á, en þetta sé hefðbundinn staður áritunar. Áritun verksins sé hins vegar í vinstra horni og þrígerð, fyrst að því er virðist með oddmjóum hlut, síðan sé tvisvar málað yfir farið með þunnum svörtum lit. Efra lagið sé mjög þunnt og gegnsætt en það neðra dekkra og ógegnsætt. Greindist alkýð í neðra laginu en fernis í því efra. Viðgerðin sjálf reyndist gerð með olíulitum. Þar sem Ásgrímur Jónsson lést 1958 töldu rannsóknarmenn útilokað að hann hefði getað merkt myndir sínar með alkýðbundnum listmálunarlitum. Í héraðsdómi er einnig greint frá því áliti Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðings að hún dragi í efa að Ásgrímur hafi málað myndina og telur hún verkið ekki standast samjöfnuð við verk hans. Héraðsdómi þótti ekki alveg óhætt að telja sannað að myndverkið væri ekki eftir Ásgrím þótt það þætti ólíklegt. Með vísun til þess sem áður segir í II. kafla og þess sem að framan greinir um alkýðbundna áritun verksins þykir fram komið að Ásgrímur Jónsson hafi ekki áritað verkið.
Ákærði B kannast við að hafa látið selja myndina fyrir sig og hafa fyrir söluna gert við hana sjálfur enda beri hún það með sér. Vel geti verið að Ásgrímur Jónsson hafi ekki merkt myndina en flestir viðurkenni að hann hafi vel getað málað hana. Segist hann hafa keypt myndina hjá uppboðshúsi Stuer Lauridsen. Lisbeth Stuer Lauridsen, sem rekur fyrirtækið, sagði fyrir héraðsdómi að hún væri 99% viss um að verkið hefði ekki verið selt hjá sér. Sagði hún að fengi fyrirtækið málverk úr dánarbúum væri farið yfir þau og teldust þau einhvers virði væru þau seld sérstaklega. Nánar aðspurð sagðist hún aldrei hafa séð þetta verk og hefði fyrirtækið selt verkið væri til kvittun fyrir því. Kaupandi verksins á uppboði Gallerís Borgar sagði fyrir dómi að ítalskur forvörður, sem hjá sér hafi starfað við viðgerðir á myndverkum, hefði bent sér á að verk þetta væri falsað. Ákærði B hefur ekki lagt fram gögn um hvar verkið var fengið. Hann viðurkennir að hafa gert að verkinu. Þótt ekki sé sannað að hann hafi merkt verkið Ásgrími Jónssyni verður þegar litið er til þess hversu umfangsmikill málverkasali hann hefur verið og í ljósi fjölda þeirra verka, sem hann hefur selt hjá Gallerí Borg eða ákærða A og tortryggileg verða að teljast, að hann hafi þekkt þá aðferð sem beitt var við áritun margra verkanna. Hann hefur því hlotið að gera sér grein fyrir því við vinnu sína að verkinu að Ásgrímur Jónsson hafði ekki merkt það og bar að vekja athygli á því við söluna. Verður að sakfella hann fyrir þennan ákærulið.
Í ákærulið 40 er ákærði B sakaður um að hafa látið selja myndverk sem listaverk Jóhannesar S. Kjarvals á uppboði Gallerís Borgar 6. nóvember 1994. Myndin er unnin með vatnslitum og tússbleki á okkurgulan pappír og merkt Kjarval. Í héraðsdómi er skýrt frá rannsóknum þeirra Rannvers Hannessonar forvarðar og Peter Bower á pappírnum. Héraðsdómur taldi niðurstöðu þeirra ekki afgerandi. Myndin var keypt af Listasafni Íslands undir nafninu Reginsund, og mun hafa verið talið að hún færi skissa að olíumálverki Kjarvals frá 1938. Kristín Guðnadóttir listfræðingur hefur leitt rök að því að myndin sé ekki eftir Kjarval. Héraðsdómur taldi að líkur væri fyrir þeirri niðurstöðu en ekki væri þó óhætt að slá því föstu. Ákærði B kvaðst hafa keypt verkið sem eftir óþekktan listamann hjá Köbenhavns Auktioner 1994. Héraðsdómur hefur ekki lagt mat á þann framburð. Niels Aage Valdimar Hansen matsmaður hjá fyrirtækinu sagði fyrir héraðsdómi að ákærði ætti þá að geta framvísað kvittun. Jafnframt sagði hann að óhugsandi væri að verk merkt Kjarval hefði farið fram hjá honum og það selt sem óþekkt
Af ofanskráðu verður að fallast á það með héraðsdómi að langlíklegast sé að verkið sé falsað. Saga ákærða um hvernig hann eignaðist myndina hefur á sér ótrúleikablæ. Hins vegar, þegar litið er til þess hver kaupir verkið, ekki er kvartað vegna þess fyrr en með kæru Ólafs Inga Jónssonar forvarðar 18. júní 1997 og ekki eru færð fram gögn um það að ákærði hafi merkt Kjarval verkið, verður ekki talið nægilega sannað að hann hafi hlotið að gera sér grein fyrir því að verkið var torkennilegt.
Í ákæruliðum 42, 43 og 44 er ákærði B sakaður um að hafa látið selja myndverk sem listaverk Jóhannesar S. Kjarvals á uppboði Gallerís Borgar 19. mars 1996. Verkin voru öll keypt af Kjarvalsstöðum. Myndirnar eru unnar á pappír með vatnslitum. Í héraðsdómi er skýrt frá rannsóknum þeirra Rannvers Hannessonar forvarðar og Peter Bower á pappírnum. Hefur héraðsdómur ekki talið þessar rannsóknir afgerandi. Kristín Guðnadóttir listfræðingur hefur gefið álit á verkunum. Álits hennar er getið í héraðsdómi. Leiðir hún líkur að því að verkin séu eftirgerðir af þremur tilgreindum verkum Kjarvals. Ákærði B kveðst hafa keypt myndirnar úr dánarbúi Gunnu Paulsen áður Vogel. Hann hafi keypt í allt fimm verk úr búinu þar af tvö sem Kjarval og Tove hafi gefið Gunnu í brúðkaupsgjöf 1918. Hann hafi þetta úr gjafabréfi aftan af einni myndinni. Ákærði bendir á að myndirnar séu keyptar af listfræðingum.
Héraðsdómur telur líkur fyrir því að myndirnar séu eftirgerðir verka Kjarvals. Ósannað er að ákærði B hafi unnið að eftirgerð myndanna. Þær voru á uppboðinu keyptar af Kjarvalsstöðum en telja verður að þangað sé að leita sérfræðiálits um verk listamannsins. Verður að telja ósannað að ákærði hafi hlotið að gera sér grein fyrir því að um eftirgerðir væri að ræða.
Í ákæruliðum 46 og 47 er ákærða B gefið að sök að hafa látið selja tvö myndverk sem verk Jóhannesar S. Kjarvals á uppboði Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn 28. mars 1996. Í héraðsdómi er skýrt frá rannsóknum á myndunum og rannsóknaraðferðum, sem eru þær sömu og við önnur olíumálverk málsins. Í skýrslu Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar um niðurstöðu rannsóknanna segir að fyrra verkið sé málað þunnri málningu á fínofið léreft og strekkt á blindramma með blásaumi. Samsetningin hafi virst upprunaleg. Myndefnið sé uppstilling í landslagi sem sýni litaspjald í forgrunni en fjall í bakgrunni. Verkið sé höfundarmerkt Kjarval með ljósgulum lit í hægra horni að neðan. Það sé að mestu málað yfir aðra mynd og sé málað yfir sprungur í eldri myndina. Hefðbundin olíumálning komi fram á jöðrum verksins en litirnir í yngra verkinu og árituninni innihaldi alkýðbundna málningu. Efni sem líkist einhverskonar vaxi sé á yfirborði verksins og valdi því að litir undir því virðist daufari og málverkið fái á sig blæ gamallar óhreinnar myndar. Í smásjá megi sjá að svæði í vinstra horni hafi verið slípað niður og undir megi sjá leifar af áritun í blásvörtum lit. Þar sem alkýðefni í listmálunarliti hafi ekki verið framleitt fyrr en sama ár og Kjarval málaði sín síðustu verk verði að telja afar ólíklegt að hann hafi notað það efni til listmálunnar. Skýrsla Viktors Smára Sæmundssonar um rannsóknirnar á síðara verkinu er mjög á sömu lund, nema að sú mynd sé máluð á grófan hessíanstriga. Á bakhlið verksins sé yfirmáluð áritun þar sem lesa megi, J..... Jacobsen 42. Samkvæmt rannsóknunum hafi verið málað með alkýðlitum yfir eldra olíumálverk sem samkvæmt merkingu á bakhlið hafi verið frá 1942. Taldi forvörðurinn að myndin gæti ekki verið eftir Kjarval. Álits Kristínar Guðnadóttur listfræðings er getið í héraðsdómi. Það var niðurstaða hennar að hvorug myndin gæti verið eftir greindan listamann og væru viðvaningslegar eftirgerðir þekktra verka hans. Uppboðsfyrirtækið hefur endurgreitt myndirnar.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að báðar myndirnar væru falsaðar. Er fallist á þá niðurstöðu með vísun til þess sem áður segir í II. kafla og þess sem hér að framan er rakið. Í héraðsdómi eru raktar frásagnir ákærða B um hvaðan og hvernig hann fékk myndirnar og framburðir vitna um trúverðugleika þeirrar frásagnar. Héraðsdómur hefur ekki lagt trúnað á frásagnir ákærða og dæmt hann sekan samkvæmt þessum tveimur ákæruliðum. Með vísun til raka héraðsdóms ber að staðfesta þá niðurstöðu.
Í ákærulið 41 er ákærði B sakaður um að hafa látið selja myndverk sem verk Nínu Tryggvadóttur á uppboði Gallerís Borgar 2. febrúar 1995. Verkið er unnið með vatnslitum á upprunalega, óskorna örk. Í héraðsdómi er lýst rannsóknum Rannvers Hannessonar forvarðar og Peter Bower á pappírnum. Telja þeir hann samsvara að öllu leyti Ingres-pappír frá Hahnemühle. Það er athugavert við frásögn héraðsdóms að dómurinn telur að engin smásjárrannsókn hafi farið fram á pappírnum en samkvæmt framansögðu mun slík skoðun hafa verið gerð á pappír allra vatnslitaverkanna í málinu. Álit Hrafnhildar Schram listfræðings, en þess er getið í héraðsdómi, var að greindur höfundur hefði ekki gert myndina. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur, sem keypti myndina á uppboðinu fyrir dóttur listakonunnar, taldi hins vegar þegar hann kom fyrir héraðsdóm að myndin væri mjög í anda þeirra mynda, sem listakonan var að gera 1942-1947. Héraðsdómur taldi rannsókn sérfræðinganna ekki afgerandi og ósannað væri að myndin væri fölsuð. Ákærði B sagðist við meðferð málsins hafa keypt myndina hjá Lisbet Stuer Lauridsen sem eftir óþekktan listamann en merkta stöfunum N.T. Taldi hann ákærða A hafa keypt af honum myndina handa konu sinni en selt hana síðar á uppboði. Lísbeth Stuer Lauridsen sagði fyrir dómi að hún útiloki það 99% að myndin geti hafa verið á uppboði hjá sér. Farið sé yfir allar myndir sem komi til sölu og hún hafi þekkt Nínu Tryggvadóttur sem listamann í yfir 20 ár. Ákærði hefur ekki framvísað kvittun fyrir kaupum myndarinnar. Héraðsdómur hefur ekki metið trúverðugleika framburðar ákærða.
Ýmis rök hníga samkvæmt ofanskráðu að því að myndin sé ekki höfundarverk Nínu Tryggvadóttur en ekki þykja þó alveg nægar sannanir færðar fram fyrir því að myndin sé ranglega höfundarmerkt og eignuð henni. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
Í ákæruliðum 45 og 48 er ákærði B sakaður um að hafa látið selja tvö myndverk sem listaverk Svavars Guðnasonar. Það fyrra á uppboði Kunsthallen í Kaupmannahöfn 26. apríl 1995 en það síðara á uppboði hjá Bruun Rasmussen 25. september 1996. Svavar Guðnason var fæddur 1909 og látinn 1988. Í héraðsdómi er lýst rannsóknum sem fram fóru á verkunum og aðferðum við þær. Kemur þar fram að sömu aðferðum var beitt við rannsóknina sem við önnur olíumálverk málsins. Samkvæmt skýrslu Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar um niðurstöðurnar er fyrra verkið málað yfir eldra verk og hluti þess síðara er yfirmálað og þannig breytt. Efri málningarlögin séu máluð með alkýðbundum listmálunarlitum svo og áritun verkanna. Eldri málningarlög séu niðurslípuð undir áritun. Komið hafi i ljós að ummerki og vinnubrögð séu þau sömu og í fjölda annarra rannsóknartilvika og telur forvörðurinn fram komið að verkin séu ekki eftir ætlaðan höfund. Álit listfræðinganna Júlíönu Gottskálksdóttur og Kristínar Guðnadóttur, sem rakið er í héraðsdómi, er að myndirnar beri ekki höfundareinkenni greinds listamanns. Héraðsdómur taldi bæði verkin fölsuð. Með vísun til rökstuðnings dómsins ber að staðfesta á niðurstöðu.
Ákærði B sagði við meðferð málsins að hann hefði keypt fyrri myndina af Robert Dalmann Olsen í Kaupmannahöfn eftir sýningu sem hann hafði haldið á myndum Svavars. Hann hafi farið heim til Dalmann Olsen til þess að sækja myndina og hafi staðgreitt hana. Engin gögn hafa verið lögð fram um þessi viðskipti. Síðari myndina sagðist hann hafa selt í nafni Gallerís Borgar, en hann hafi fengið verkið hjá forverði að nafni Anatolíva sem hafi verið í einhverri samvinnu við gallerí í Svíþjóð og hafi selt töluvert af myndum í Kaupmannahöfn. Feðgarnir Lenny og Simon Simonsen hafi verslað mikið við hana. Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði fyrir héraðsdómi að lögreglan hefði reynt að hafa upp á greindum forverði og meðal annars rætt við Leif Jensen, sem ákærði hafi nefnt að kannaðist við hana, en allt án árangurs. Héraðsdómur taldi ekki óhætt að hafna skýringum ákærða á því hvernig hann væri að myndunum kominn. Var því talið ósannað að hann hefði vitað að myndirnar voru falsaðar þegar hann lét þær frá sér.
Sönnur hafa ekki verið færðar fyrir því að ákærði hafi falsað myndirnar. Listasafn Íslands keypti síðari myndina en telja verður að sérfræðingar um list Svavars Guðnasonar hafi komið að þeim kaupum. Með vísan til þess að héraðsdómur hefur ekki hafnað skýringum ákærða hefur ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að ákærði hafi hlotið að vita að myndirnar væru ekki eftir listamanninn. Ber því að sýkna hann af þessum ákæruliðum.
VII.
Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að ákærðu séu sannir að sök um að hafa látið selja, ákærði A 16 myndverk og ákærði B 3 myndverk, sem þeir hlutu að vita að ekki voru eftir ætlaða listamenn. Ákvörðunarástæða kaupendanna allra var að verkin væru eftir greinda höfunda og var verðlagning þeirra við það miðuð. Myndirnar seldust allar fyrir umtalsverðar fjárhæðir af þessum sökum. Brotin voru framin í ávinningsskyni og vörðuðu almenna hagsmuni og eru þau réttilega heimfærð í ákæru til 3. mgr. 159. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu eru sakfelldir fyrir nokkur brot hvor og ber því að tiltaka refsingu þeirra með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga.
Sakaferill ákærða A hefur ekki þýðingu nema sex mánaða fangelsisdómur sá sem áður er um getið og hann hlaut fyrir að selja þrjár falsaðar myndir auk bókhaldsbrota. Fyrir liggur að ákærði sat af sér allan dóminn og átti ekki kost á reynslulausn af hluta hans vegna þess að lögreglurannsókn þessa máls var ekki lokið. Þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir voru framin á árunum 1993, 1994, 1995, 1996 og 1999. Refsing ákærða verður því hegningarauki við greindan dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin með framangreind sjónarmið í huga tólf mánaða fangelsi. Þegar haft er í huga að ákærði fékk ekki reynslulausn af hluta refsingarinnar í fyrra málinu og að lögreglurannsókn þessa máls hefur tekið óhæfilega langan tíma þykir mega ákveða að fresta framkvæmd níu mánaða af fangelsisrefsingu hans og sá hluti falla niður að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði B hlaut sjö mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir þjófnað og skjalafals árið 1983 og fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjársvik 1990. Refsing hans í þessu máli þykir hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi með vísun til framangreindra sjónarmiða. Þar sem rannsókn lögreglu þykir hafa tekið óþarflega langan tíma sem hefur haft verulegt óhagræði í för með sér fyrir ákærða þykir mega fresta framkvæmd fjögurra mánaða af refsingu hans og sá hluti falla niður að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um 625.000 króna skaðabætur til handa Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. vegna ákæruliðar 32.
Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærðu greiði sameiginlega 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins að öðru leyti en því að hvor þeirra skal greiða málsvarnarlaun síns verjanda, hæstaréttarlögmannanna Ragnars Aðalsteinssonar og Karls Georgs Sigurbjörnssonar, sem ákveðast 800.000 krónur til hvors.