Hæstiréttur íslands

Mál nr. 595/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sjómaður
  • Sjóveð
  • Útgerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 3. nóvember 2010.  

Nr. 595/2010.

Þorbergur Kjartansson

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

gegn

Bp Skipum Afríku ehf.

(Sigurður Helgi Guðjónsson hrl.)

Kærumál. Sjómenn. Sjóveð. Útgerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Þ kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem máli hans á hendur B var vísað frá dómi. Þ krafðist viðurkenningar á sjóveðrétti í skipi B til tryggingar greiðslu á kröfu vegna starfa hans um borð í skipinu á tilgreindum tímabilum. Útgerð skipsins á þeim tíma sem krafa Þ tók til var að hans sögn, S, en B hélt því hins vegar fram að dótturfélag þess F hefði gert skipið út á þessum tíma. Þ höfðaði málið á hendur B til viðurkenningar á sjóveðrétti án þess að hafa gert reka að því að fá viðurkenningu fyrir því að hann ætti kröfu sem félli undir 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en samkvæmt ákvæðinu er krafa skipverja um laun og aðra þóknun vegna starfa um borð í skipi tryggð með sjóveðrétti. Talið var að Þ gæti beint málssókn um viðurkenningu á slíkri kröfu gegn útgerð skipsins, en ekki gegn B. Með því að Þ hefði ekki leitað viðurkenningar á því að sjóveðréttarkrafa hans hefði stofnast gæti hann ekki krafist þess að sjóveðréttur yrði viðurkenndur til tryggingar henni, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst í máli þessu viðurkenningar á sjóveðrétti í skipi varnaraðila, QUO VADIS, skipaskrárnúmer 1012, til tryggingar greiðslu á kröfu vegna starfa hans um borð í skipinu á tilgreindum tímabilum. Útgerð skipsins á þeim tíma sem krafa sóknaraðila tekur til var að hans sögn, Sæblóm hf., en varnaraðili heldur því á hinn bóginn fram að dótturfélag þess að nafni Fleur de Mer í Marokkó hafi gert skipið út á þessum tíma.

Sjóveð verður til þegar sjóveðréttarkrafa stofnast. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 er krafa skipverja um laun og aðra þóknun vegna starfa um borð í skipi tryggð með sjóveði. Sóknaraðili höfðar mál þetta á hendur varnaraðila til viðurkenningar á sjóveðrétti án þess að hafa gert reka að því að fá viðurkenningu fyrir því hann eigi kröfu sem fellur undir 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga. Málssókn um viðurkenningu á slíkri kröfu getur hann beint gegn útgerð skipsins, en ekki gegn varnaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. júní 1999 í málinu númer 37/1999, sem birtur er á bls. 2628 í dómasafni réttarins það ár. Með því að sóknaraðili hefur ekki leitað viðurkenningar á því að sjóveðréttarkrafa hans hafi stofnast getur hann ekki krafist þess að sjóveðréttur verði viðurkenndur til tryggingar henni, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þorbergur Kjartansson, greiði varnaraðila, Bp Skipum Afríku ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 3. september sl., var höfðað 5. febrúar sl. Stefnandi er Þorbergur Kjartansson, 325 Av. Hassan II, Agadir, Marokkó. Stefndi er Bp Skip Afríka ehf., Lágmúla 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkenndur verði sjóveðréttur samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 í skipinu QUO VADIS, skipaskránúmer 1012, eign stefnda, til tryggingar á kröfu stefnanda um greiðslur fyrir störf um borð í skipinu á tímabilinu frá 11. til 31. maí, frá 15. til 30. september, frá 1. til 31. október og þann 1. nóvember, allt á árinu 2009. Enn fremur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt málskostnaðar-reikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, komi til hennar, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi en til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað.

I.

Stefnandi lýsir atvikum málsins þannig að hann hafi verið ráðinn skipstjóri um borð í skipinu QUO VADIS sem nú sé í eigu stefnda. Stefnandi kveðst hafa verið ráðinn til starfa um borð í skipinu á ákveðnum kjörum án þess þó að skriflega væri gengið frá ráðningarkjörum við hann. Stefnandi hafi ekki að öllu leyti fengið greitt fyrir vinnu sína árið 2009 eða fyrir samtals 67 daga. Höfuðstóll kröfu stefnanda nemi USD 42.750. Ljóst sé af gögnum málsins að viðurkennd sé krafa að fjárhæð USD 42.456,50 eða nánast öll krafa hans. Því sé ljóst að ekki sé ágreiningur um rétt stefnanda til endurgjalds vegna vinnu um borð í skipinu QUO VADIS á umræddum tímabilum heldur sé einkum óleyst úr því hvert skuli vera fyrirkomulag greiðslunnar en samningaviðræður standa yfir milli aðila um það atriði.

Krafa stefnanda er byggð á 1. tölul. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og um heimild til málshöfðunar til viðurkenningar á sjóveðrétti vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Óumdeilt sé að stefnandi hafi verið við vinnu um borð í skipinu QUO VADIS umrædd tímabil. Hann eigi því lögvarinn rétt til endurgjalds fyrir þá vinnu, samkvæmt meginreglum vinnuréttar og almennum reglum kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Stefnandi hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína um borð frá og með 11. maí 2009 sem marki upphaf kröfu stefnanda og þar með upphaf sjóveðréttarins, sbr. 201. gr.

Stefnandi heldur því fram að í 1. mgr. 197. gr. siglingalaga sé með ótvíræðum hætti kveðið á um stofnun sjóveðréttar vegna fjárkröfu stefnanda, sem hann eigi á hendur viðsemjanda sínum, vegna greiðslu fyrir vinnu um borð í skipinu. Hér sé um að ræða sérstakan rétt sem verði til þegar skilyrði siglingalaga séu fyrir hendi án þess að aðgerða sé þörf í því skyni. Kröfu stefnanda um viðurkenningu á sjóveðrétti í skipinu QUO VADIS sé beint að stefnda, eiganda skipsins, á grundvelli 2. mgr. 197. gr. siglingalaga.

Krafa hans á hendur stefnda sé að öllu leyti óháð endanlegri fjárkröfu stefnanda. Málshöfðunin sé nauðsynleg til að tryggja réttindi stefnanda, vegna reglu 201. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sem kveði á um fyrningu sjóveðréttar sé veðréttinum ekki fylgt eftir innan árs frá því til hans stofnaðist. Augljóst sé því að stefnandi hafi verulega lögvarða hagsmuni af því að fá sjóveðréttinn viðurkenndan með dómi. Í nefndum ákvæðum siglingalaga sé ekki á nokkurn hátt gert að skilyrði fyrir viðurkenningu sjóveðréttarins að hin tryggða krafa sé óumdeild og fjárhæð hennar fyrirliggjandi, enda væri gildi veðréttarins verulega takmarkað með slíku.

II.

Frávísunarkrafa stefndu er byggð á því að kröfugerð í stefnu samræmist ekki 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d- og e-lið ákvæðisins. Stefnandi geri kröfu um að viðurkenndur verði sjóveðréttur í skipi stefnda til tryggingar launakröfu stefnanda, á hendur öðrum aðila en stefnda, án þess að fjárhæð kröfunnar sé tilgreind eða vinnuveitanda stefnanda sé stefnt. Stefndi hafi hvorki verið vinnuveitandi stefnanda né eigandi umrædds skips á því tímabili sem um ræðir. Stefndi hafi eignast skipið QUO VADIS með afsali 17. desember 2009.

Af hálfu stefnda er á því byggt að til að hann þurfi að þola sjóveðrétt í skipi sínu til tryggingar launakröfum stefnanda hefði þurft að stefna vinnuveitanda stefnda til greiðslu eða a.m.k. til viðurkenningar kröfunnar. Gera verði skýra fjárkröfu í málinu sem sjóveðréttinum sé ætlað að tryggja. Ekki sé unnt að krefjast eingöngu viðurkenningar á sjóveðrétti á hendur eiganda skips án þess að kröfufjárhæð, dómur um greiðslu eða mál sé jafnframt höfðað á hendur skuldara. Þeir sem ætli að fá sjóveðrétt staðfestan með dómi þurfi jafnframt að höfða mál á hendur skuldara kröfunnar þar sem dæma þyrfti skuldara til að greiða kröfuna og fá sjóveðrétt staðfestan gagnvart eiganda skips. Þar sem stefnandi hafi hvorki áður beint lögsókn að vinnuveitanda sínum um launakröfu sína né gert kröfu á hendur honum í máli þessu beri að vísa málinu frá dómi. Þessu til stuðnings vísaði lögmaður stefnda í málflutningi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 37/1999 sem kveðinn var upp 10. júní 1999.

Stefndi heldur því fram að málið sé vanreifað. Það liggi ekki fyrir hver fjárhæð kröfunnar er sem sjóveðréttinum sé ætlað að tryggja. Krafan verði að vera ótvíræð, rökstudd og tilgreind svo unnt sé að krefjast fullnustu hennar og til að hægt sé að taka dómkröfu orðrétt upp í dómsorði. Krafan sé ódómtæk eins og hún sé úr garði gerð. Ógerningur sé að staðfesta sjóveðrétt fyrir ótilgreindri kröfufjárhæð enda rýri það verulega stöðu og kröfur annarra veðhafa. Þá verði ekki bætt úr annmörkum að þessu leyti með vangaveltum um kröfufjárhæðina. Það heyri til nauðsynlegrar reifunar máls af þessu tagi, að stefnandi geri fullnægjandi grein fyrir því á hverju stefnufjárhæðin byggist og stefnufjárhæðar sé getið í dómkröfu málsins sem sjóveðrétti sé ætlað að tryggja. Annmarkar á málinu að þessu leyti séu til þess fallnir að hamla því að stefndi geti varist dómkröfunni. Stefndi sé ekki aðili að samningssambandi milli stefnanda og vinnuveitanda hans.

III.

Ágreiningurinn í þessum þætti málsins snýst um það hvort krafa stefnanda sé nægilega skýr og ákveðin þannig að samræmist 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og enn fremur um það hvort nauðsyn hafi borið til að beina lögsókninni jafnframt að vinnuveitanda stefnanda. Nánar tiltekið snýst ágreiningurinn um það hvort heimilt sé að leita viðurkenningar sjóveðréttar, samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, án þess að fjárhæð kröfunnar sé tilgreind í dómkröfu og lögsókn hafi áður verið beint að þeim aðila sem skuldin hvílir á.

Samkvæmt d- lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda, svo sem viðurkenningu á tilteknum réttindum. Skilyrði þess að höfðað verði mál til viðurkenningar á sjóðveðrétti, samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, er að í dómkröfum sé fjárhæð kröfunnar, sem leitað er staðfestingar veðréttar fyrir, nákvæmlega tilgreind, sbr. enn fremur 1. mgr. sömu greinar. Krafa stefnanda um viðurkenningu sjóðveðréttar til tryggingar kröfu stefnanda um greiðslur fyrir störf á tilteknum tímabilum þykir því ekki nægilega skýr og ákveðin. Að þessu leyti er kröfugerð stefnanda í andstöðu við meginreglu d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa málinu frá dómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Þorbergur Kjartansson, greiði stefnda, BP Skipum Afríku ehf., 250.000 krónur í málskostnað.