Hæstiréttur íslands
Mál nr. 24/2023
Lykilorð
- Fæðingarorlof
- EES-samningurinn
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
- Tryggingagjald
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2023. Hún krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 2. september 2020 þar sem staðfest var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs 3. mars sama ár um áætlun greiðslna til áfrýjanda í fæðingarorlofi. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnda á báðum dómstigum.
3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Í málinu deila aðilar um útreikning bóta til áfrýjanda úr Fæðingarorlofssjóði í kjölfar þess að hún ól barn árið 2020. Telur hún ófullnægjandi að greiðslur úr sjóðnum hafi hvorki tekið tillit til tekna sem hún aflaði í Danmörku né að litið hafi verið til stöðu hennar á íslenskum vinnumarkaði. Heldur hún því fram að ákvörðun um að hún fengi aðeins lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi hafi verið í andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn). Af þeim sökum beri að fella úr gildi fyrrgreindan úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála en með honum var staðfest ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að lögum samkvæmt hafi áfrýjandi ekki átt rétt til frekari greiðslna.
5. Í héraði gerði áfrýjandi þá kröfu að bæði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs og úrskurður nefndarinnar yrðu felld úr gildi. Héraðsdómur vísaði frá dómi kröfu áfrýjanda um að ákvörðun sjóðsins yrði felld úr gildi en sýknaði stefnda af kröfu um að fella úr gildi úrskurðinn sem staðfesti ákvörðunina. Áfrýjandi kærði ekki ákvæði dómsins um frávísun og tekur kröfugerð hennar hér fyrir dómi mið af því.
6. Leyfi til að áfrýja héraðsdómi í málinu beint til Hæstaréttar var veitt 5. maí 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-52, á þeim grunni að dómur í því gæti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Var jafnframt talið að ekki væru þær aðstæður fyrir hendi sem kæmu í veg fyrir að málinu yrði áfrýjað beint til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 134/2022.
Málsatvik
7. Áfrýjandi flutti 1. september 2015 til Danmerkur þar sem hún stundaði sérfræðinám í læknisfræði auk þess að vera í fullu starfi sem læknir. Hún flutti aftur til Íslands 17. september 2019 og var þá barnshafandi. Í kjölfarið hóf hún fullt starf á Landspítalanum og var fyrsti starfsdagur hennar 30. september það ár.
8. Áfrýjandi tilkynnti Fæðingarorlofssjóði 15. janúar 2020 um tilhögun væntanlegs fæðingarorlofs. Hún sótti síðan 22. sama mánaðar um greiðslur úr sjóðnum. Með umsókninni fylgdu launaseðlar hennar frá Landspítalanum vegna nóvember og desember 2019. Jafnframt lét hún í té staðfestingu um búsetu sína í Danmörku frá árinu 2015 auk upplýsinga um laun sem hún fékk greidd þar.
9. Með bréfi 28. janúar 2020 staðfesti Fæðingarorlofssjóður móttöku á umsókn áfrýjanda og veitti henni upplýsingar um málsmeðferð og greiðslur úr sjóðnum. Umsóknin var samþykkt með ákvörðun 3. mars sama ár. Þar kom fram að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum samkvæmt skrám skattyfirvalda miðað við 12 mánaða samfellt tímabil sem lyki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Þar sem áfrýjandi hefði ekki haft neinar tekjur hér á landi á því tímabili yrði mánaðarleg greiðsla til hennar 184.119 krónur á mánuði miðað við fullt fæðingarorlof. Um var að ræða lágmarksgreiðslur samkvæmt 7. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.
10. Með bréfi 28. maí 2020 kærði áfrýjandi fyrrnefnda ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurði nefndarinnar 2. september sama ár var ákvörðunin staðfest.
11. Áfrýjandi fæddi barnið 26. mars 2020 og var í fæðingarorlofi til 29. september sama ár.
12. Í málinu liggur fyrir að áfrýjandi fékk laun í Danmörku á tímabilinu frá september 2018 til ágúst 2020 eða þann tíma sem taldist viðmiðunartímabil tekna hennar samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, svo sem því ákvæði var breytt með lögum nr. 74/2008. Jafnframt er óumdeilt að þau störf hefðu veitt áfrýjanda rétt til fæðingarorlofs eftir dönskum lögum ef hún hefði búið þar áfram.
Ráðgefandi álit
13. Undir rekstri málsins í héraði var að frumkvæði héraðsdóms með úrskurði 26. nóvember 2021 leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Lutu spurningar dómsins að því hvort áskilið væri samkvæmt nánar tilgreindum reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu að EES-ríki reikni greiðslur í fæðingarorlofi eftir viðmiðunartekjum út frá heildarlaunum á vinnumarkaði á öllu svæðinu. Jafnframt hvort það bryti í bága við reglur sem þar gilda að einungis væri tekið tillit til heildarlauna á innlendum vinnumarkaði. EFTA-dómstóllinn lét í té ráðgefandi álit sitt með dómi 29. júlí 2022 í máli nr. E-5/21.
14. Í niðurstöðu sinni tók EFTA-dómstóllinn fram að meginregluna um söfnun starfstímabila við mat á bótarétti, í samræmi við a-lið 29. gr. EES-samningsins, væri að finna í 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa. Reglugerð þessi var tekin upp í EES-samninginn 1. júlí 2011 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011. Tók EFTA-dómstóllinn fram að 6. gr. reglugerðarinnar væri ætlað að tryggja að beiting réttar til frjálsrar farar leiddi ekki til þess að launþegar yrðu sviptir þeim hagsbótum almannatrygginga sem þeir hefðu notið ef þeir hefðu aðeins unnið í einu EES-ríki. Annað kynni að letja launþega á Evrópska efnahagssvæðinu til að nýta sér réttinn til frjálsrar farar og teldist hindrun á honum. Þetta lyti að bótarétti sem væri óumdeildur í tilviki áfrýjanda, en ekki útreikningi bóta.
15. Um útreikning bóta vísaði EFTA-dómstóllinn til 21. gr. reglugerðarinnar og tók fram að hann tæki mið af tekjum greiddum á innlendum vinnumarkaði, sbr. dóm Evrópudómstólsins 15. desember 2011 í máli C-257/10. Því bæri ekki að miða við tekjur sem aflað væri í öðrum EES-ríkjum.
16. Á hinn bóginn taldi EFTA-dómstóllinn það ekki samrýmast 21. gr. reglugerðarinnar, þegar tekna hefði verið aflað í öðru EES-ríki, að miða við að engra tekna hefði verið aflað í því EES-ríki þar sem sótt væri um bætur. Markmið reglugerðarinnar væri að samhæfa almannatryggingakerfi EES-ríkjanna til að tryggja að réttur fólks til frjálsrar farar væri virkur. Þar af leiðandi miðaði reglugerðin að því að koma í veg fyrir að launþegi sem hefði nýtt rétt sinn til frjálsrar farar og starfað í fleiri en einu EES-ríki, nyti lakari kjara en launþegi sem aðeins hefði starfað í einu EES-ríki nema hlutlæg rök væru fyrir því. Réttur fólks til frjálsrar farar væri skertur ef ríkisborgari EES-ríkis væri verr settur í heimaríki sínu fyrir það eitt að hafa nýtt sér þennan rétt, sbr. dóm Evrópudómstólsins 23. janúar 2020 í máli C-29/19. Túlka yrði 21. gr. reglugerðarinnar með hliðsjón af 29. gr. EES-samningsins en hún hefði verið sett vegna þess ákvæðis og til að styðja við frjálsa för launþega.
17. Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sagði að skylda til að koma í veg fyrir að farandlaunþegar yrðu verr settir við það að nýta sér rétt til frjálsrar farar fæli aðeins í sér að bætur til þeirra skyldu vera hinar sömu og þær hefðu verið ef launþegi hefði ekki neytt þess réttar, sbr. dóm Evrópudómstólsins 9. nóvember 2006 í máli C-205/05. Þar af leiðandi bæri samkvæmt 21. gr. reglugerðarinnar, með hliðsjón af markmiðum 29. gr. EES-samningsins, að reikna viðmiðunartekjur launþega vegna starfstímabils í öðru EES-ríki út frá áætluðum tekjum launþega í sambærilegri stöðu og með sambærilega starfsreynslu og hæfi og launþegi í því ríki þar sem sótt væri um bæturnar. Þótt EFTA-dómstóllinn teldi það verkefni íslenskra dómstóla að meta viðmiðunartekjur benti hann á að þær tekjur sem áfrýjandi hefði aflað hér á landi sex mánuðum fyrir barnsburð kynnu líklega að veita vísbendingu um sambærilegar tekjur við beitingu 21. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt þessu var svar EFTA-dómstólsins við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hann eftirfarandi:
6. gr. og 2. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa áskilja ekki að þar til bær stofnun EES-ríkis skuli reikna bótafjárhæð, í máli líkt og því sem er til meðferðar hjá landsdómstólnum, á grundvelli tekna sem aflað var í öðru EES-ríki. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, með hliðsjón af markmiði 29. gr. EES-samningsins, skal þó miða fjárhæð bóta, líkt og þeirra sem um ræðir í málinu sem er til meðferðar hjá landsdómstólnum, sem veittar eru farandlaunþega sem aðeins aflaði tekna í öðru EES-ríki á því tímabili sem miðað er við samkvæmt landslögum, við tekjur launþega með sambærilega starfsreynslu og hæfi og sem gegnir svipuðu starfi í því EES-ríki þar sem sótt er um bætur.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
18. Áfrýjandi heldur því fram að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála um að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um lágmarksgreiðslur til hennar í fæðingarorlofi fari í bága við EES-samninginn og þær reglur sem af honum leiða. Af þeim sökum beri að fella úrskurðinn úr gildi.
19. Áfrýjandi telur það andstætt grundvallarreglu EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga og frjálsa för launþega á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 28. gr. samningsins, að taka hvorki tillit til þeirra launa sem hún aflaði í Danmörku á viðmiðunartímabili tekna hennar samkvæmt 2. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 95/2000 né stöðu hennar á íslenskum vinnumarkaði eftir að hún flutti til landsins. Einnig fari slík tilhögun í bága við 29. gr. samningsins en samkvæmt ákvæðinu beri á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka samningsins, að leggja saman öll tímabil sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð bóta.
20. Áfrýjandi vísar til þess að skýra beri lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Af því leiði að gefa verði lögum eftir fremsta megni þá merkingu sem rúmast innan marka þeirra og kemst næst því að svara til sameiginlegra reglna á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig sé þess að gæta að EES-samningurinn hafi lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. sömu laga. Auk þess hvíli sú þjóðréttarlega skuldbinding á Íslandi samkvæmt bókun 35 við samninginn að veita ákvæði sem EES-regla er innleidd með forgang gagnvart öðru lagaákvæði ef ósamræmi er þar á milli. Þá bendir áfrýjandi á að sérstaklega hafi verið áréttað í 34. gr. laga nr. 95/2000 að við framkvæmd þeirra skyldi taka tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland eigi aðild að en EES-samningurinn sé af þeim toga.
21. Áfrýjandi bendir á að í ljósi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu þurfi ekki að líta til tekna áfrýjanda í Danmörku heldur skuli miðað við laun fyrir sambærilegt starf á innlendum vinnumarkaði. Að þessu gættu telur hún að skýra megi samspil EES-reglna og íslenskra laga þannig að miða beri við laun í sambærilegu starfi og launþegi gegni hér á landi feli það í sér hærri bætur fyrir farandlaunþega en leiðir af 13. gr. laga nr. 95/2000. Annað færi í bága við EES-samninginn sem hafi lagagildi hér á landi.
22. Verði ekki talið unnt að túlka 13. gr. laga nr. 95/2000 til samræmis við EES-samninginn telur áfrýjandi að sú niðurstaða sem samrýmist honum eigi að ganga framar lögunum. Í því sambandi leggur hún áherslu á rétt launþega til frjálsrar farar samkvæmt 28. gr. EES-samningsins en sá réttur verði í raun ekki tryggður ef launþegar fari á mis við réttindi með því að nýta sér hann. Til að tryggja þennan rétt sé í 29. gr. samningsins mælt fyrir um að réttur til bóta stofnist og bætur séu greiddar þrátt fyrir flutninga milli ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessar reglur sem hafi lagagildi hér á landi beri að virða sem sérreglur og almennar reglur 13. gr. laga nr. 95/2000 víki fyrir þeim.
Helstu málsástæður stefnda
23. Stefndi bendir á að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 95/2000 hafi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna numið 80% af heildarlaunum á tólf mánaða samfelldu tímabili sem hafi lokið sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Tekið hafi verið fram að einungis skyldi miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði á umræddu tímabili. Samkvæmt þessum ákvæðum telur stefndi vafalaust að áfrýjandi hafi aðeins átt rétt á lágmarksgreiðslum úr sjóðnum, sbr. 7. mgr. 13. gr. laganna. Þessi niðurstaða leiði beint af lögunum hvað sem líði reglum EES-samningsins.
24. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2000 hafi Fæðingarorlofssjóður verið fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald nr. 113/1990, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins. Ekki hafi verið greitt tryggingagjald af þeim tekjum sem áfrýjandi hafi aflað í Danmörku á viðmiðunartíma samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 og því hafi þær að réttu lagi ekki haft áhrif á greiðslur til hennar úr sjóðnum. Jafnframt hafi ekki staðið nein heimild að lögum til að taka tillit til stöðu hennar á íslenskum vinnumarkaði eftir að hún flutti til landsins.
25. Stefndi tekur fram að áfrýjandi hafi í stefnu til héraðsdóms ekki byggt málatilbúnað sinn á því að miða ætti greiðslur í fæðingarorlofi við tekjur launþega hér á landi með sambærilega starfsreynslu, hæfi og í svipuðu starfi og hún. Þetta hefði þó verið henni í lófa lagið þar sem hún hafi í stefnu vísað til dómafordæma Evrópudómstólsins um svipuð álitaefni. Því hafi áfrýjanda verið kunnugt um niðurstöður þess dómstóls sem gefið hafi henni tilefni til að byggt yrði á þeirri málsástæðu í öndverðu. Þessari málsástæðu sé því mótmælt sem of seint fram kominni.
Löggjöf og réttarframkvæmd
Lög um fæðingar- og foreldraorlof
26. Í 13. gr. þágildandi laga nr. 95/2000 var fjallað um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þegar áfrýjandi var í fæðingarorlofi hljóðuðu svo þau ákvæði greinarinnar í 1., 2., 4. og 7. mgr. sem reynir á við úrlausn málsins, eins og lögunum hafði verið breytt með lögum nr. 90/2004, 74/2008, 143/2012, 136/2011 og 140/2013:
[1] Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns [...]
[2] Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns [...] Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a [...] Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. [...]
[4] Þegar starfsmaður uppfyllir skilyrði 1. mgr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skal hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 7. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans. [...]
[7] Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris [...] í 50–100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur 135.525 kr. á mánuði.
27. Í 8. mgr. 13. gr. fyrrgreindra laga var heimild fyrir ráðherra til að hækka lágmarksgreiðslu eftir 7. mgr. með reglugerð. Samkvæmt 6. mgr. 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 1238/2019, nam þessi fjárhæð 184.119 krónum á mánuði í fæðingarorlofi áfrýjanda.
28. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að áðurnefndum lögum nr. 90/2004 og breyttu 13. gr. laga nr. 95/2000 sagði að lagt væri til að kveðið yrði skýrt á um að ekki skyldi taka tillit til tekna sem foreldri hefði unnið til „utan innlends vinnumarkaðar“. Ekki væri um að ræða efnisbreytingu heldur einungis verið að treysta framkvæmd laganna. Einnig kom fram í athugasemdunum, í samhengi við öflun réttar til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, að foreldri þyrfti að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði þann tíma sem tæki að ávinna sér þann rétt. Í ljósi þess að Fæðingarorlofssjóður væri fjármagnaður með tryggingagjaldi væri eðlilegra að foreldri hefði unnið þann tíma á innlendum vinnumarkaði þannig að greitt hefði verið af tekjum þess tryggingagjald í tiltekinn lágmarkstíma.
29. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að fyrrgreindum lögum nr. 74/2008, er einnig breyttu 13. gr. laga nr. 95/2000, kom fram að áfram væri gert ráð fyrir að miða skyldi við meðalheildarlaun foreldris fyrir það tímabil sem það hefði verið á „innlendum vinnumarkaði“ ef það hefði ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu. Jafnframt sagði að áfram yrði tekið fram í lögunum að ekki skyldi taka tillit til tekna sem foreldrar hefðu unnið til „utan innlends vinnumarkaðar“.
30. Um milliríkjasamninga var fjallað í 34. gr. laga nr. 95/2000 en ákvæðið var svohljóðandi:
Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.
31. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 95/2000 kom fram að einkum væri vísað til EES-samningsins. Með ákvæðinu ætti að tryggja að framkvæmd laganna yrði í samræmi við gerðir á sviði almannatrygginga og félagsmála sem hefðu orðið eða yrðu hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
32. Með lögum nr. 74/2008 var gerð sú breyting á 13. gr. laga nr. 95/2000 að taka bæri tillit til starfstíma foreldris í öðru aðildarríki að EES-samningnum við mat á því hvort það ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, enda hefðu störf þess veitt því rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Í lögskýringargögnum kom fram að þessi breyting væri gerð til samræmis við EES-samninginn og þær gerðir sem felldar hefðu verið undir VI. viðauka við hann. Aftur á móti kom ekki fram í lögskýringargögnum hvernig þjóðréttarlegar skuldbindingar horfðu við með tilliti til útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Jafnframt var með lögum nr. 136/2011 gerð breyting á 13. gr. laganna til að tryggja samræmi við EES-samninginn þannig að rýmkuð var heimild til að líta til starfa í öðru EES-ríki með tilliti til þess hvort réttur stofnaðist til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Í lögskýringargögnum vegna þeirrar lagasetningar kom fram að helsta tilefni breytinganna væru athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA sem lutu að samlagningu starfstímabila foreldra sem flyttust milli EES-ríkja en ekki var þar heldur vikið að útreikningi greiðslna úr sjóðnum með tilliti til EES-reglna.
33. Lög nr. 95/2000 voru leyst af hólmi með gildandi lögum nr. 144/2020 um sama efni. Að því leyti sem hér hefur verið rakið eru þau óbreytt frá því sem var í tíð eldri laga.
Lög um Evrópska efnahagssvæðið
34. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 hefur meginmál EES-samningsins, auk nánar tilgreindra gerða, lagagildi hér á landi. Í 3. gr. samningsins skuldbinda aðildarríki hans sig til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af honum leiða og varast ráðstafanir sem teflt geta í tvísýnu að markmiðum samningsins verði náð. Í 7. gr. hans kemur síðan fram að gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við hann eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar bindi samningsaðila séu þær eða verði teknar upp í landsrétt með nánar tilgreindum aðferðum.
35. Samkvæmt 119. gr. EES-samningsins eru bókanir við samninginn óaðskiljanlegur hluti hans. Af því leiðir að þær hafa sama gildi og meginmál samningsins að þjóðarétti. Í bókun 35 er fjallað um framkvæmd EES-reglna en hún er svohljóðandi með formálsorðum:
Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og
þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig;
Stök grein
Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.
36. Í því skyni að fullnægja þeim skuldbindingum sem felast í bókun 35 var svohljóðandi regla lögfest í 3. gr. laga nr. 2/1993:
Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.
37. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 2/1993 kom fram að innlend lög sem ættu sér stoð í EES-samningnum yrðu jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum að því leyti að yngri lög vikju þeim ekki ef þau stönguðust á nema löggjafinn tæki það sérstaklega fram. Þetta væri nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í bókun 35 væri og skýrt tekið fram að þessi skýringarregla skyldi ekki hafa í för með sér framsal á löggjafarvaldi og væri 3. gr. við það miðuð.
Um samspil EES-reglna og landsréttar
38. Fyrrgreind regla í 3. gr. laga nr. 2/1993 um að skýra skuli lög og reglur til samræmis við EES-reglur byggist á þeirri rótgrónu lögskýringarreglu norræns réttar að lög skuli túlka til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Að baki þessu býr að almennt verður að gera ráð fyrir að löggjafinn hafi metið gildandi lög í samræmi við slíkar skuldbindingar þegar undir þær var gengist og gætt hafi verið að þeim við síðari lagasetningu. Í nokkrum mæli hefur reynt á skýringu laga með tilliti til EES-reglna eins og hér verður nánar rakið.
39. Í dómi Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010 reyndi á hlutlæga skaðabótaábyrgð dreifingaraðila á vöru vegna skaðsemistjóns samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Í málinu lá fyrir að slík ábyrgð dreifingaraðila var í ósamræmi við EES-reglur eins og þær höfðu verið túlkaðar í dómi Evrópudómstólsins 10. janúar 2006 í máli C-402/03. Hæstiréttur tók fram að lögskýring eftir 3. gr. laga nr. 2/1993 tæki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum yrði svo sem framast væri unnt gefin merking sem rúmaðist innan þeirra og næst kæmist því að svara til sameiginlegra reglna sem giltu á Evrópska efnahagssvæðinu. Hún gæti á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið yrði fram hjá orðum íslenskra laga. Orð 10. gr. laga nr. 25/1991, eins og þau hljóðuðu á þessum tíma, um beina ábyrgð dreifingaraðila á skaðsemistjóni gagnvart tjónþola, hefðu ótvíræða merkingu og gæfu ekkert svigrúm til að hliðra þeirri ábyrgð með skýringu samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993. Þessi niðurstaða um að lögskýring gæti ekki leitt til þess að litið yrði fram hjá orðum íslenskra laga hefur síðan ítrekað verið staðfest, sbr. dóma réttarins 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013, 10. maí 2013 í máli nr. 306/2013, 2. október 2014 í máli nr. 92/2013 og 26. nóvember 2015 í máli nr. 243/2015. Einnig má vísa til dóma Hæstaréttar 24. maí 2006 í máli nr. 274/2006, 15. júlí 2014 í máli nr. 429/2014 og 5. maí 2015 í máli nr. 291/2015. Í síðastgreindum þremur málum var því hafnað að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um hvort sú refsiábyrgð sem reyndi á væri ósamrýmanleg reglum EES-samningsins. Um það sagði að hún færi eftir íslenskum lögum án þess að vísað væri sérstaklega til 3. gr. laga nr. 2/1993.
40. Ef ókleift er að skýra íslensk lög til samræmis við EES-samninginn þannig að ósamræmi skapist annars vegar á milli lagareglu sem ætlað er að innleiða EES-reglu hér á landi og hins vegar annarrar lagareglu þarf að leysa úr því hvor reglan ráði niðurstöðu um það atriði sem er til úrlausnar. Hér reynir á forgangsreglur sem leysa úr slíkum árekstri til að koma í veg fyrir tvær eða fleiri niðurstöður um sama tilvik. Þessar forgangsreglur geta bæði verið skráðar og óskráðar. Sem dæmi um þær síðarnefndu má nefna regluna um að æðri reglur gangi fyrir lægra settum reglum (lex superior) en samkvæmt henni ganga stjórnlög framar almennum lögum og almenn lög framar almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Einnig gildir sú óskráða forgangsregla að sérregla gangi framar almennri reglu (lex specialis) en mjög matskennt getur verið hvenær regla telst almenn og hvenær sértæk. Þá er einnig óskráð forgangsregla að yngri lög gangi framar eldri lögum (lex posterior). Til viðbótar við þessar reglur gilda síðan skráðar forgangsreglur af ýmsu tagi. Má í dæmaskyni nefna 18. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningarréttar, 93. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og 210. gr. laga nr. 80/2022 um loftferðir en allar þessar reglur varða þjóðréttarsamninga.
41. Í dómi Hæstaréttar 15. maí 2003 í máli nr. 477/2002 var, í ljósi 3. gr. laga nr. 2/1993 og lögskýringargagna um það ákvæði, komist að þeirri niðurstöðu að 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins um bann við skattlagningu, sem væri til þess fallin að vernda óbeint framleiðsluvörur eins samningsaðila gagnvart framleiðsluvörum annarra aðila samningsins, bæri að skýra sem sérreglu um skattalega meðferð á innflutningi frá öðrum EES-ríkjum er gengi framar eldra ákvæði í lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Eftir að EES-samningnum var veitt lagagildi með lögum nr. 2/1993 hefði því verið óheimilt að gera greinarmun á bókum á íslensku og öðrum tungumálum við álagningu virðisaukaskatts. Að frátöldum þessum dómi eru þess ekki dæmi að Hæstiréttur hafi talið löggjöf sem innleiddi EES-reglu ganga framar öðrum lögum. Þvert á móti má hér nefna dóm réttarins 6. apríl 2006 í máli nr. 220/2005 en þar vísaði Hæstiréttur til forsendna héraðsdóms þess efnis að beitt yrði tilteknum ákvæðum laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að þau færu í bága við 11. eða 36. gr. EES-samningsins. Hér má einnig benda á þá dóma réttarins sem áður er vikið að í 39. lið dómsins.
42. Ef frá er talinn fyrrgreindur dómur Hæstaréttar í máli nr. 477/2002 hefur 3. gr. laga nr. 2/1993 í dómaframkvæmd réttarins aðeins verið talin fela í sér reglu við lögskýringu um túlkun laga til samræmis við EES-samninginn. Þannig hefur ekki verið lagt til grundvallar að það ákvæði feli í sér almenna forgangsreglu í samræmi við bókun 35 við samninginn.
43. Ef einstaklingar eða lögaðilar fara á mis við að njóta réttinda sinna á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum getur reynt á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins að fullnægðum skilyrðum sem um hana gilda, sbr. dóm Hæstaréttar 16. desember 1999 í máli nr. 236/1999 og fleiri dóma þar sem reynt hefur á þá bótaábyrgð. Eftir atvikum getur þetta kallað á viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt 31. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
Niðurstaða
Aðild og málatilbúnaður
44. Dómkröfur áfrýjanda fyrir Hæstarétti lúta að því að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 3. september 2020 og beinir hún þeirri kröfu að íslenska ríkinu. Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála segir að hún skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til hennar. Hún sé sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Í 2. gr. laganna er kveðið á um skipan hennar. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. að formaður nefndarinnar gegni jafnframt embætti forstöðumanns hennar, hafi yfirstjórn með höndum og beri ábyrgð á fjárhag og daglegum rekstri. Hann fari með fyrirsvar nefndarinnar út á við og ráði starfsfólk. Samkvæmt því fullnægir úrskurðarnefndin kröfum um að teljast aðildarhæf. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. fyrrnefndra laga eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds. Hún starfar þannig sem æðra stjórnvald.
45. Í dómi Hæstaréttar 30. mars 2000 í máli nr. 324/1999 sagði að ekki yrði talið að unnt væri með dómi að ógilda stjórnvaldsákvörðun nema því stjórnvaldi sem ákvörðun hefði tekið, væri stefnt til varnar í málinu. Vísað hefur verið til þessa dóms í síðari dómum réttarins. Þrátt fyrir það hefur skapast um það nokkur festa í dómaframkvæmd að sjálfstæðar stjórnsýslu- og úrskurðarnefndir á kærustigi eigi ekki aðild að dómsmálum sem rekin eru um úrskurði þeirra. Hefur verið talið rétt að beina kröfum um gildi þeirra að því stjórnvaldi sem tók ákvörðun á lægra stjórnsýslustigi, sbr. dóm Hæstaréttar 17. febrúar 1997 í máli nr. 63/1997 sem birtur er á bls. 643 í dómasafni réttarins það ár og dóma réttarins 21. mars 2002 í máli nr. 378/2001 og 14. desember 2001 í máli nr. 431/2001. Þessi dómaframkvæmd er hins vegar hvorki undantekningalaus né hafin yfir gagnrýni þar sem æðra stjórnvald hefur að jafnaði sjálfstæða rannsóknarskyldu og niðurstaða þess sem til úrlausnar er fyrir dómi kann að vera andstæð niðurstöðu þess lægra setta og byggð á öðrum gögnum og röksemdum. Aðild æðra setts stjórnvalds að dómsmáli í stað þess lægra setta getur því ekki aðeins haft formlega þýðingu heldur einnig efnislega.
46. Í dómi Hæstaréttar 1. nóvember 2023 í máli nr. 16/2023 var sú staða uppi að lægra settu stjórnvaldi var stefnt þótt ákvörðun þess hefði verið endurskoðuð af innviðaráðherra sem æðra stjórnvaldi. Í dóminum sagði að þegar mál væru á forræði sjálfstæðra ríkisstofnana hefði dómaframkvæmd verið nokkuð á reiki um hvort beina skyldi málsókn að viðkomandi stofnun einni, einungis að ríkinu eða að báðum aðilum. Hæstiréttur taldi að réttara hefði verið í ljósi atvika máls og kröfugerðar að reka málið samhliða gegn íslenska ríkinu, meðal annars vegna þess að innviðaráðherra kvað upp endanlegan úrskurð í málinu. Ekki voru þó talin nægjanleg efni til þess að vísa því frá héraðsdómi.
47. Í þessu máli er hvorki lægra né æðra setta stjórnvaldinu sem ákvörðun tóku á stjórnsýslustigi stefnt til að þola dóm um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála heldur íslenska ríkinu. Um slíka aðild má vísa til dóms Hæstaréttar 14. apríl 2011 í máli nr. 500/2010 en í því var Póst- og fjarskiptastofnun stefnt fyrir hönd Jöfnunarsjóðs alþjónustu. Í dóminum kom fram að máli skyldi að meginreglu beint að íslenska ríkinu þótt það varðaði atriði sem heyrðu undir sérstaka stofnun þess eða sjóð, enda væri ekki mælt á annan veg í lögum eða viðkomandi stofnun eða sjóður lyti sjálfstæðri stjórn. Ekki var talið að þær undantekningar ættu við og var málinu vísað frá héraðsdómi vegna brests á aðildarhæfi sjóðsins.
48. Við úrlausn um aðild í máli þessu má líta til þess að dómaframkvæmd um aðild stjórnvalda í málum sem lúta að gildi úrskurðar æðra setts stjórnvalds, sem endurskoðað hefur ákvörðun lægra stjórnvalds, hefur verið talsvert á reiki og almenn lagafyrirmæli skortir. Þá má líta til þess að í 3. gr. laga nr. 95/2000 sagði að ráðherra færi með yfirstjórn fæðingar- og foreldraorlofsmála samkvæmt lögunum svo og að í 1. og 2. mgr. 4. gr. var kveðið á um að Fæðingarorlofssjóður skyldi vera í vörslu Vinnumálastofnunar sem sæi um reikningshald og daglega afgreiðslu hans í umboði ráðherra. Ekki var mælt fyrir í lögunum að Fæðingarorlofssjóður hefði sérstakan fyrirsvarsmann eða lyti sérstakri stjórn. Sjóðurinn telst því ekki hafa aðildarhæfi. Vinnumálastofnun sem samkvæmt framansögðu hefur ákvörðunarvald yfir sjóðnum hefur aftur á móti forstöðumann og sérstaka stjórn samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og nýtur því aðildarhæfis. Þótt réttilega hefði átt að beina kröfum í máli þessu jafnframt að Vinnumálastofnun er með vísan til alls framangreinds og sérstaklega fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 16/2023 ekki næg ástæða til að vísa því frá dómi af sjálfsdáðum.
49. Eins og áður greinir reisir áfrýjandi kröfu sína um að felldur verði úr gildi umræddur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála á því að niðurstaða hans fari í bága við EES-samninginn og þær reglur sem af honum leiða. Til stuðnings þessu vísaði áfrýjandi í héraðsdómsstefnu til 28. gr. samningsins um frjálsa fólksflutninga og frjálsa för launþega á Evrópska efnahagssvæðinu. Jafnframt vísaði hún þar til 29. gr. samningsins sem ætlað væri að tryggja að launþegar sem nýttu sér rétt til frjálsrar farar væru ekki sviptir bótum sem þeir hefðu ella notið. Enn fremur nefndi hún fyrrgreinda reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 sem hefur að geyma nánari fyrirmæli til að samhæfa almannatryggingakerfi EES-ríkja svo að tryggt sé að réttur fólks til frjálsrar farar sé virkur. Eftir að aflað hafði verið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hefur áfrýjandi jafnframt haldið því fram að miða ætti bætur til hennar í fæðingarorlofi við tekjur launþega hér á landi með sambærilega starfsreynslu, hæfi og í svipuðu starfi og áfrýjandi.
50. Að því leyti sem hér hefur verið rakið er málatilbúnaður áfrýjanda í samræmi við lögskýringu EFTA-dómstólsins á viðeigandi EES-reglum. Áfrýjandi breytti að þessu leyti áherslum í málatilbúnaði sínum jafnskjótt og tilefni var til en þær rúmast jafnframt innan þeirrar meginmálsástæðu hennar að með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið farið á svig við EES-samninginn og þær reglur sem af honum leiða. Verður áfrýjandi því ekki talin hafa raskað grundvelli málsins þannig að það hafi gert stefnda erfitt fyrir að halda uppi vörnum í málinu. Er þá haft í huga að í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er gert ráð fyrir að slíks álits sé aflað eftir að mál hefur verið höfðað. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnda að málatilbúnaður áfrýjanda að þessu leyti fari í bága við 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.
Um greiðslur til áfrýjanda úr Fæðingarorlofssjóði
51. Við úrlausn um beiðni áfrýjanda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði var lagt til grundvallar í samræmi við 1. og 12. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 að áfrýjandi hefði öðlast rétt til greiðslna úr sjóðnum. Eins og áður segir lýtur ágreiningur málsins að útreikningi greiðslna.
52. Svo sem áður er rakið komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu í ráðgefandi áliti sínu 29. júlí 2022 að samkvæmt 2. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, með hliðsjón af markmiði 29. gr. EES-samningsins, skyldi miða fjárhæð bóta, eins og þeirra sem mál þetta lýtur að, sem veittar væru farandlaunþega er aðeins aflaði tekna í öðru EES-ríki, á því tímabili sem miðað væri við eftir landslögum, við tekjur launþega með sambærilega stöðu á vinnumarkaði og í því EES-ríki þar sem sótt væri um bætur. Þær EES-reglur sem hér er vísað til hafa verið leiddar í íslenskan rétt með annars vegar 2. gr. laga nr. 2/1993 sem lögfesti meginmál EES-samningsins og hins vegar reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar, en þar var í 1. gr. mælt fyrir um að reglugerð (EB) nr. 883/2004 öðlaðist gildi hér á landi. Reglugerð nr. 442/2012 var meðal annars sett á grundvelli heimildar í 35. gr. laga nr. 95/2000.
53. Þótt ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins séu ekki bindandi að íslenskum rétti hafa þau í réttarframkvæmd verið lögð til grundvallar við skýringu á efni EES-reglna. Að baki býr sú grundvallarregla EES-samningsins og laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið að stuðla beri að samkvæmni í skýringum á EES-reglum og þar með samræmdri framkvæmd EES-samningsins. Markmiðið með því er að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem grundvallast á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum eins og fram kemur í aðfaraorðum EES-samningsins. Að þessu gættu verður lagt til grundvallar að sú skuldbinding leiði af samningnum að fjárhæð greiðslna til foreldris í fæðingar- og foreldraorlofi eigi að ákveða með hliðsjón af tekjum launþega með sambærilega stöðu á innlendum vinnumarkaði.
54. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 skyldi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og bar þá að miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lyki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Í ákvæðinu var tekið fram að einungis ætti að miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefði verið á innlendum vinnumarkaði en aldrei skyldi miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í 4. mgr. sömu greinar kom síðan fram að starfsmaður, sem öðlast hefði rétt til greiðslna úr sjóðnum en ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu, skyldi öðlast rétt til lágmarksgreiðslna samkvæmt 7. mgr. greinarinnar í samræmi við starfshlutfall sitt. Eins og áður er rakið var sérstaklega áréttað í lögskýringargögnum að við greiðslu úr sjóðnum skyldi ekki tekið tillit til tekna sem foreldri aflaði erlendis heldur skyldi aðeins miðað við meðalheildarlaun þess á innlendum vinnumarkaði. Að baki þessu bjó að Fæðingarorlofssjóður var samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna fjármagnaður með tryggingagjaldi en slíkt gjald var ekki greitt af launum sem aflað var erlendis.
55. Svo sem hér hefur verið rakið er beinlínis gert ráð fyrir því í lögum nr. 95/2000 að launþegi sem flytur til landsins frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu fái ekki notið greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem taki mið af launum hér á landi fyrir sambærilegt starf og hann gegndi á viðmiðunartímabili. Er hann þannig verr settur en launþegi sem starfað hefði hér á landi. Aftur á móti var gerð breyting á lögunum með lögum nr. 74/2008 og nr. 136/2011 til að tryggja að starfstímabil í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu teldist til ávinnslutímabils til að réttur skapaðist til greiðslu úr sjóðnum samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna. Með þessu var komið til móts við skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum að því er varðaði ávinnslu réttar til að fá greitt úr sjóðnum án þess þó að gerðar væru breytingar til samræmis við samninginn til að koma í veg fyrir að launþegi frá öðru EES-ríki yrði verr settur hvað fjárhæð greiðslna úr sjóðnum varðaði með flutningi til landsins. Að því leyti var sú skuldbinding ekki innleidd með því að haga lögum nr. 95/2000 til samræmis við hana. Verður heldur ekki talið að þessu verði hliðrað með skýringu til samræmis við EES-samninginn andstætt skýru og ótvíræðu orðalagi laga sem gefa ekkert svigrúm til þess, sbr. þá dóma sem raktir eru í 39. lið dómsins.
56. Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið verður fallist á það með héraðsdómi að Vinnumálastofnun sem fer með Fæðingarorlofssjóð hafi ekki getað virt að vettugi skýr og afdráttarlaus fyrirmæli laga nr. 95/2000 við ákvörðun um greiðslu úr sjóðnum til áfrýjanda. Er þá jafnframt haft í huga að lögin hafa að geyma sérreglur um sjóðinn og þau eru yngri en lög nr. 2/1993 sem veittu EES-samningnum lagagildi. Jafnframt var reglugerð (EB) nr. 883/2004, sem tekin var upp í samninginn, aðeins innleidd með almennum stjórnvaldsfyrirmælum án þess að gerðar væru samhliða breytingar á lögum nr. 95/2000 til samræmis við umrædda skuldbindingu til greiðslu úr sjóðnum sem leiðir af samningnum. Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sýkna beri stefnda af kröfu áfrýjanda um að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 2. september 2020. Jafnframt verður staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfu áfrýjanda, A, um að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 2. september 2020 þar sem staðfest var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs 3. mars sama ár um áætlun greiðslna til hennar úr sjóðnum í fæðingarorlofi.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.