Hæstiréttur íslands

Mál nr. 665/2008


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Lífeyrisréttur
  • Almannatryggingar
  • Eignarréttur
  • Jafnræðisregla
  • Stjórnsýsla
  • Vanhæfi
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. desember 2009.

Nr. 665/2008.

Gildi-lífeyrissjóður

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Margréti Ingibjörgu Marelsdóttur

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Lífeyrissjóður. Lífeyrisréttur. Almannatryggingar. Eignarréttur. Jafnræðisregla.

Stjórnsýsla. Vanhæfi. Sératkvæði.

 

M, sem var metin algerlega óvinnufær vegna örorku árið 1982, fékk greiddan fullan örorkulífeyri úr lífeyrissjóði frá þeim tíma til 1. nóvember 2007 og síðast frá G. Í samræmdri reglugerð Sambands almennra lífeyrissjóða var kveðið á um rétt til örorkulífeyris, sem skyldi aldrei vera hærri en sem næmi þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefði sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Nánast samhljóða ákvæði var í samþykktum þeirra lífeyrissjóða, sem M naut örorkulífeyris úr, og er slíkt ákvæði að finna í grein 12.3 í samþykktum fyrir G. Á aðalfundi G 26. apríl 2006 voru samþykktar tillögur stjórnar sjóðsins um breytingar á greininni, þannig að við bættist að við útreikning tekjumissis skyldi meðal annars tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans og lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum sem hann nyti vegna örorkunnar. Fjármálaráðherra staðfesti breytingarnar 7. júlí 2006. M fékk í kjölfarið tilkynningu um lækkun lífeyris, þar sem leitt hefði verið í ljós að tekjur M væru hærri eftir orkutap en fyrir. Samkvæmt því yrði M greiddur 37% örorkulífeyrir. Skerðing á örorkulífeyri kom ekki til framkvæmda fyrr en 1. nóvember 2007 og frá þeim tíma hefur G einungis greitt M hluta þess lífeyris, sem hún naut fram að því. M höfðaði mál og hélt því fram að G hefði verið óheimilt með öllu að skerða örorkulífeyrir hennar vegna tekna, sem hún nyti úr almannatryggingum. Fallist var á kröfu M í héraðsdómi, þar sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu hefði verið vanhæfur til að fjalla um breytingar á samþykktum G. Hæstiréttur taldi hins vegar að ekki hefði reynt á hæfi ráðuneytisstjórans í málinu, þar sem hann hefði hvorki staðfest breytingar á samþykktum G né hefði því verið hnekkt að hann hefði ekki komið að meðferð og undirbúningi málsins. Ekkert væri heldur komið fram um vanhæfi fjármálaráðherra í málinu eða annarra starfsmanna. M bar því ennfremur við að lífeyrisréttur hennar væri eign sem nyti verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og sá réttur hefði orðið virkur fyrir um aldarfjórðungi. Þá bryti skerðingin í bága við 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem hún hefði á löngum tíma öðlast réttmætar væntingar til þess að greiðslur til hennar yrðu með óbreyttu fyrirkomulagi. Í málinu kom fram að tíðni örorku hjá G hefði aukist jafnt og þétt og væri með því hæsta sem gerðist. Að mati G væri óhjákvæmilegt að vinna að því að almannatryggingar tækju með einum eða öðrum hætti við stærri hluta örorkutrygginga, en það væri forsenda fyrir því að lífeyrissjóðir gætu staðið myndarlega við það meginhlutverk að tryggja ellilífeyri sjóðfélaga. Fallist var á með G að lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða veittu lífeyrissjóðum verulegt svigrúmt til að ákveða greiðslu lífeyris í samræmi við fjárhag og horfur til framtíðar. Ofangreind breyting á samþykktum G fól í sér viðbrögð hans við verulega auknum útgjöldum vegna örorkulífeyristrygginga. Helsta markmiðið var að lækka útgjöld og það var gert með því að takmarka greiðslur miðað við það að tekjur sjóðfélaga, sem beinlínis komu til vegna örorku, yrðu ekki hærri en framreiknaðar atvinnutekjur fyrir örorkutap hefðu orðið. Þetta átti við um M. Var talið að málefnalegar ástæður hefðu þannig búið að baki þessum breytingum á samþykktunum. Þá var ekki fallist á með M að ákvæði stjórnarskrárinnar girtu fyrir að réttur hennar til lífeyris yrði skertur á þann hátt að G takmarkaði fjárhæð hans við það að gera hana jafnsetta og ef orkutap hefði ekki orðið. Jafnframt yrði að líta til þess að heimild til að skerða örorkulífeyri vegna greiðslna frá almannatryggingum hefði frá upphafi verið í samþykktum þeirra lífeyrissjóða, sem M hefði fengið greitt úr. Ekki hefði verið um samræmda framkvæmd að ræða hjá sjóðnum, heldur hefði lífeyrisþegum verið mismunað eftir því hvort þeir hefðu einhverjar atvinnutekjur eða ekki, en ef þeim var til að dreifa hefðu bæði þær og greiðslur frá almannatryggingum verið dregnar frá örorkulífeyri sjóðanna. Jafnræðis hefði þannig ekki gætt innan hóps örorkulífeyrisþega, en M hefði verið meðal þeirra sem að þessu leyti hefði notið ívilnunar. Var G sýknaður af kröfu M.

                          

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi 7. október 2008. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 19. nóvember 2008 og var áfrýjað öðru sinni 8. desember sama ár. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu en til vara ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefnda, sem fædd er 1947, mun hafa greitt iðgjöld í lífeyrissjóð í rúman áratug þar til hún varð óvinnufær árið 1981. Ári síðar var hún metin algerlega óvinnufær vegna örorku og hefur ekki orðið breyting á því síðan. Hún fékk greiddan fullan örorkulífeyri úr lífeyrissjóði eftir það til 1. nóvember 2007 og síðast frá áfrýjanda. Ágreiningur aðilanna er til kominn vegna þess að frá þeim tíma hefur áfrýjandi einungis greitt stefndu hluta þess lífeyris, sem hún naut fram að því, þar sem áfrýjandi hefur skert lífeyrinn vegna greiðslna úr almannatryggingum sem hún fær vegna örorku sinnar.

Í héraðsdómsstefnu krafðist stefnda þess að viðurkennt yrði að við útreikning áfrýjanda á lífeyrisgreiðslum til hennar skyldi „ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingarbóta sem stefnandi fær greiddar frá öðrum.“ Áfrýjandi krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi, meðal annars vegna þess að viðurkenningarkrafa stefndu gengi of langt til að vera dómtæk og væri háð óvissum atvikum, sem síðar gætu gerst. Með úrskurði héraðsdóms 19. febrúar 2008 var krafa áfrýjanda tekin til greina að hluta á þann veg að vísað var frá dómi kröfu stefndu, sem laut að frádrætti lífeyris- og bótagreiðslna frá öðrum lífeyrissjóðum en áfrýjanda og kjarasamningsbundnum tryggingabótum. Að öðru leyti var frávísunarkröfu áfrýjanda hafnað. Þessi úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Samkvæmt dómsorði hins áfrýjaða dóms er áfrýjanda óheimilt að draga frá örorkulífeyri stefndu „þann örorkulífeyri og tekjutryggingu er hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins.“ Stefnda krefst staðfestingar dómsins. Í yfirliti frá Tryggingastofnun ríkisins um greiðslur til stefndu, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, kemur fram að örorkulífeyrir og tekjutrygging eru stærstu einstöku tegundir greiðslna, sem stefnda nýtur úr almannatryggingum vegna örorku sinnar. Tegundir greiðslna eru þó fleiri, sem samkvæmt hljóðan dómsorðs falla þá utan þess, sem héraðsdómur taldi óheimilt að draga frá lífeyri hennar.

Varakrafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að við úrlausn málsins í héraði hafi engin afstaða verið tekin til annarra málsástæðna en þeirra, sem varði gildi staðfestingar fjármálaráðherra 7. júlí 2006 á breytingum á samþykktum fyrir áfrýjanda. Varðandi þetta er til þess að líta að niðurstaða héraðsdóms réðist af því að fallist var á með stefndu að þáverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu hafi verið vanhæfur til að fjalla um breytingar á samþykktum áfrýjanda, sem lagðar höfðu verið fyrir ráðuneytið til staðfestingar, og þar með einnig allir undirmenn hans í ráðuneytinu. Með því að héraðsdómur taldi þessa málsástæðu eina nægja til úrslita í málinu voru engin efni til að hann tæki afstöðu til annarra röksemda, sem aðilarnir færðu fyrir kröfum sínum. Eru þegar af þessari ástæðu engin efni til að verða við kröfu áfrýjanda um heimvísun málsins.

II

Á þeim tíma sem áðurnefndar breytingar voru gerðar á samþykktum áfrýjanda var Baldur Guðlaugsson, þáverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, jafnframt formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, sem starfar samkvæmt lögum nr. 155/1998. Stefnda heldur fram að áfrýjandi hafi ásamt þrettán öðrum lífeyrissjóðum haft samráð um sambærilegar breytingar á samþykktum sínum og gerðar voru á samþykktum áfrýjanda og lagt þær fyrir ráðuneytið til samþykktar. Einn þessara sjóða hafi verið Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og staðfesti ráðuneytið breytingar á samþykktum hans 3. mars 2006. Vegna þessa hafi ráðuneytisstjórinn ekki einungis verið vanhæfur til meðferðar máls um að staðfesta breytingar á samþykktum síðastnefnda lífeyrissjóðsins, heldur einnig hinna sjóðanna þrettán. Undirmenn ráðuneytisstjórans hafi einnig verið vanhæfir „vegna aðildar yfirmanns þeirra að málinu og hagsmuna hans og ráðuneytisins“.

Samkvæmt 28. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skulu allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs tilkynntar fjármálaráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laganna og samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Bréf ráðuneytisins, þar sem staðfestar voru breytingar á samþykktum áfrýjanda, var ekki undirritað af ráðuneytisstjóranum heldur tveimur öðrum starfsmönnum ráðuneytisins „fyrir hönd ráðherra“ eins og þar segir. Meðal málskjala er bréf fjármálaráðuneytisins til Umboðsmanns Alþingis 22. apríl 2007 þar sem tekið var fram að ráðuneytisstjórinn hafi ekki komið að meðferð og undirbúningi málsins.

Samkvæmt lögum nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands með áorðnum breytingum fer ráðherra með stjórn ráðuneytis, en í 10. til 12. gr. laganna er kveðið á um starfslið hans þar. Meðal starfsmanna er ráðuneytisstjóri, sem stýrir ráðuneyti undir yfirstjórn ráðherra. Ráðuneytisstjórinn staðfesti hvorki breytingar á samþykktum áfrýjanda né hefur því verið hnekkt að hann hafi ekki komið að meðferð og undirbúningi málsins. Þegar af þeirri ástæðu reynir ekki á hæfi hans til að standa að því verki. Ekkert er fram komið um vanhæfi fjármálaráðherra í málinu eða þeirra starfsmanna hans, sem önnuðust undirbúning og afgreiðslu málsins fyrir hans hönd, en ráðuneytisstjórinn getur ekki talist hafa verið næsti yfirmaður þessara starfsmanna í skilningi 5. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 73/1969. Þegar af þessum sökum er hafnað kröfu stefndu sem reist er á málsástæðu, sem lýtur að ætluðu vanhæfi ráðuneytisstjórans.

III

Í málatilbúnaði stefndu kemur fram að hún hafi greitt iðgjöld til lífeyrissjóðs ASB og BSFÍ og verður ráðið að hún hafi upphaflega notið örorkulífeyris úr þeim sjóði. Hann mun hafa sameinast Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar árið 1986, sem aftur rann saman við nokkra aðra lífeyrissjóði 1996, en þá varð til Lífeyrissjóðurinn Framsýn. Sá sjóður og Lífeyrissjóður sjómanna voru síðan sameinaðir 1. júní 2005 undir nafni áfrýjanda. Við hverja sameiningu yfirtók nýr sjóður skuldbindingar forvera sinna. Meðal málskjala er sá hluti svonefndrar samræmdrar reglugerðar Sambands almennra lífeyrissjóða 1976, sem fjallar um örorkulífeyri, hluti reglugerðar fyrir Lífeyrissjóð Dagsbrúnar og Framsóknar 1981 um sama efni og samþykktir fyrir Lífeyrissjóðinn Framsýn 2002, svo og samþykktir fyrir áfrýjanda, eins og þær voru upphaflega 2005 og eftir breytingu 2006.

Í samræmdri reglugerð Sambands almennra lífeyrissjóða var í 12. gr. kveðið á um rétt til örorkulífeyris, sem samkvæmt 1. mgr. skyldi „aldrei ... vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.“ Nánast samhljóða ákvæði var í 12. gr. reglugerðar fyrir Lífeyrissjóð Dagsbrúnar og Framsóknar og í grein 12.1.2. í samþykktum Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Í 12. gr. samþykkta fyrir áfrýjanda er kveðið á um rétt til örorkulífeyris, en í grein 12.3. segir meðal annars eftirfarandi: „Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 14.4. vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.“ Á aðalfundi áfrýjanda, sem haldinn var 26. apríl 2006, lagði stjórn hans til að gerðar yrðu breytingar á nokkrum greinum samþykktanna, þar á meðal á grein 12.3. Sú tillaga, sem hér skiptir helst máli, var þess efnis að bætt yrði inn í greinina nýjum málslið, svohljóðandi: „Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar.“ Að auki var lagt til að greininni yrði breytt þannig að heimilt yrði að úrskurða sjóðfélaganum svonefndar viðmiðunartekjur, sem væru meðaltal tekna síðustu þriggja almanaksára fyrir orkutapið vegna sjóðfélaga, sem hafi fengið úrskurðaðan örorkulífeyri fyrir 1. janúar 2006, en frá þeim degi taki viðmiðunartekjurnar þeim breytingum, sem verði á vísitölu neysluverðs. Á aðalfundinum voru tillögur stjórnar áfrýjanda um breytingar á samþykktum hans samþykktar samhljóða og voru þær sem fyrr segir staðfestar af fjármálaráðherra 7. júlí 2006.

Lög nr. 55/1980 um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda höfðu að geyma fáein ákvæði um starfsemi þeirra lífeyrissjóða, sem ekki störfuðu samkvæmt sérstökum lögum, en þau ákvæði voru leyst af hólmi með lögum nr. 129/1997. Í tengslum við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna voru sérstök lög um síðarnefnda sjóðinn afnumin með lögum nr. 137/2004.

IV

Í kjölfar þess að fjármálaráðuneytið staðfesti breytingar á samþykktum fyrir áfrýjanda fékk stefnda tilkynningu frá Greiðslustofu lífeyrissjóða 28. júlí 2006, sem bar fyrirsögnina „Tilkynning um lækkun lífeyris“. Þar var meðal annars tekið fram að gerð hafi verið heildarathugun á tekjum örorkulífeyrisþega, sem leitt hafi í ljós að samanlagðar tekjur væru í sumum tilvikum umfram þau viðmiðunarmörk, sem kveðið væri á um í samþykktum og reglum lífeyrissjóða. Við útreikning tekjumissis skuli meðal annars tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum, sem sjóðfélagi njóti vegna örorkunnar, og hafi verið ákveðið að leiðrétta örorkulífeyri til samræmis við þessa niðurstöðu frá og með 1. nóvember 2006. Fram kom hvaða breyting yrði gerð í tilviki stefndu og að hún kæmi til framkvæmdar þann dag. Nánari skýringar voru síðan veittar í bréfi áfrýjanda til stefndu 16. október sama ár. Greint var frá efni greinar 12.3. í samþykktum fyrir áfrýjanda eins og hún er eftir breytingu, en þess jafnframt getið að í eldri mynd hafi verið tekið fram í ákvæðinu að réttur til örorkulífeyris stofnist ekki hafi sjóðfélaginn ekki orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Þá kom fram að við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skuli ákveða sjóðfélaga svonefndar viðmiðunartekjur, en meðaltal árstekna stefndu fyrir orkutapið á árunum 1978 til 1980, framreiknað með vísitölu neysluverðs, næmi 1.441.496 krónum. Heildartekjur stefndu á árinu 2005 hafi orðið 1.822.074 krónur. Þessi samanburður leiði í ljós að tekjur stefndu séu hærri eftir orkutap en fyrir, en áfrýjanda sé ekki heimilt að greiða örorkulífeyri nema örorkan hafi leitt til tekjuskerðingar. Samkvæmt því yrði stefndu greiddur 37% örorkulífeyrir frá 1. nóvember 2006.

Þrátt fyrir yfirlýst áform áfrýjanda um að skerðing á örorkulífeyri kæmi til framkvæmdar síðla árs 2006 mun hún ekki hafa gert það fyrr en 1. nóvember 2007. Á þeim tíma sem leið á milli urðu nokkur bréfaskipti um málið milli áfrýjanda og Öryrkjabandalags Íslands. Í bréfi Greiðslustofu lífeyrissjóða til stefndu 29. ágúst 2007 kom fram að uppreiknaðar meðaltekjur hennar í 6 af 8 árum fyrir orkutap nemi 1.581.117 krónum, en tekjur árið 2006 verið 2.015.654 krónur. Samkvæmt samanburði á tekjum fyrir og eftir orkutap muni greiðslur frá áfrýjanda á mánuði breytast úr 70.014 krónum miðað við ágúst 2007 í 26.277 krónur. Ekki er deilt um tölulegar niðurstöður á grundvelli útreikningsaðferðar áfrýjanda, heldur um heimild til þeirrar skerðingar á lífeyri sem um ræðir.

V

Af hálfu áfrýjanda er fram komið að í október 2007 hafi 3.307 sjóðfélögum hans verið greiddur örorkulífeyrir. Af þeim hafi 775 orðið fyrir áhrifum af breyttri framkvæmd við útreikning örorkulífeyris, ýmist þannig að greiðslur hafi hækkað, lækkað eða fallið niður. Einungis lítill hluti þeirra mun hafa fallið í fyrstnefnda flokkinn.

Við aðalmeðferð málsins í héraði gaf Vigfús Ásgeirsson skýrslu, en auk þess eru nokkur bréf frá honum meðal málskjala. Vitnið er sjálfstætt starfandi tryggingastærðfræðingur og kvaðst starfa sem slíkur fyrir áfrýjanda, en áður fyrir Lífeyrissjóð sjómanna. Vitnið gat þess að eftir að samþykktum áfrýjanda var breytt 2006 hafi því orðið ljóst að fyrir breytinguna hafi í mörgum tilvikum ekki verið farið eftir samþykktunum við greiðslu örorkulífeyris, en vitnið taldi að í þeim hafi á þeim tíma falist að tekjur ættu ekki að aukast eftir orkutap frá því sem áður var vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum. Því hafi borið að lækka örorkulífeyri með tilliti til tekna frá almannatryggingum, sem væru til komnar vegna örorku. Framkvæmdin muni hins vegar hafa verið sú að ef örorkulífeyrisþegi hafi ekki haft neinar atvinnutekjur hafi aðrar tekjur ekki komið til frádráttar lífeyrisgreiðslum, en ef hann hafi haft einhverjar atvinnutekjur þá hafi bæði þær og tekjur frá almannatryggingum komið til frádráttar. Þessi framkvæmd hafi gilt hjá áfrýjanda og „fyrirrennurum hans“ en ekki hjá öllum lífeyrissjóðum. Kvaðst vitnið ekki hafa gert formlega tillögu til stjórnar áfrýjanda um breytingu á þessari framkvæmd, heldur hafi stjórnin þegar tekið ákvörðun um að gera það þegar vitninu varð kunnugt um hvernig þetta hafi verið tíðkað. Þá kom fram hjá vitninu að sumir lífeyrissjóðir hafi sérstaklega tekið upp í samþykktum sínum að meginhlutverk þeirra væri að tryggja ellilífeyri sjóðfélaga sinna og að það sé „ríkjandi sjónarmið.“ Vegna hárrar örorkutíðni og þar með greiðslu örorkulífeyris hafi áður komið fyrir hjá báðum þeim lífeyrissjóðum, sem síðar urðu að áfrýjanda, að þurft hafi að skerða réttindi ellilífeyrisþega.

Stefnda mun auk örorkulífeyris frá áfrýjanda ekki hafa haft aðrar tekjur en frá almannatryggingum og engin skerðing orðið hjá henni vegna þeirra fyrr en 1. nóvember 2007.

VI

Í samþykktum fyrir áfrýjanda er kveðið á um fjórar tegundir lífeyris, sem honum ber að greiða að skilyrðum uppfylltum, en það eru elli-, örorku-, maka- og barnalífeyrir. Áfrýjandi vísar til þess að hann starfi samkvæmt lögum nr. 129/1997, sem veiti einstökum lífeyrissjóðum svigrúm til að setja sjálfir í samþykktum sínum málefnalegar reglur um hvernig réttur ávinnst til einstakra tegunda lífeyris með greiðslu iðgjalda í sjóðinn, þar á meðal örorkulífeyri, sbr. 6. mgr. 15. gr. Áfrýjandi sé sameignarsjóður og njóti ekki bakábyrgðar neins. Honum sé því skylt að haga greiðslum í samræmi við efnahag sinn hverju sinni og verði eignir að nægja fyrir lífeyrisskuldbindingum. Þá verði að hafa í huga að það sé ekki einungis hagur þeirra, sem þegar séu byrjaðir að taka lífeyri sem taka þurfi tillit til, heldur verði einnig að tryggja hag þeirra „öftustu í röðinni“, sem séu alla jafna yngstu greiðendur iðgjalda. Þannig verði að taka mið af hagsmunum allra sjóðfélaga við ákvörðun lífeyrisgreiðslna hverju sinni, en lífeyrisþegar njóti greiðslna úr einum og sama sjóði sem sé til skipta fyrir alla sjóðfélaga. Um þetta vísar áfrýjandi sérstaklega til 27. gr. laga nr. 129/1997 þar sem segir að samþykktir lífeyrissjóðs skuli við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Breytingar á samþykktum lífeyrisjóðs, hvort heldur er til aukningar eða skerðingar á rétti til lífeyris, geti því verið óhjákvæmilegar, en mat á því sé í höndum sjóðsins sjálfs. Áfrýjandi vísar einnig til þess að í grein 10.6. í samþykktum hans segi að sjóðurinn leggi sérstaka áherslu á ellilífeyristryggingar og áskilji sér heimild til að verja þau réttindi umfram önnur við endurskoðun á réttindaákvæðum samþykktanna.

Meðal málskjala er minnisblað framkvæmdastjóra áfrýjanda 20. nóvember 2007, sem ber fyrirsögnina „Örorkulífeyrisskuldbindingar sem hlutfall af heildarskuldbindingum.“ Þar kemur fram að hjá Lífeyrissjóði sjómanna hafi það hlutfall verið 6,1% árið 1986, 9,3% árið 1999 og 15,8% árið 2004. Hjá Lífeyrissjóðnum Framsýn hafi það verið 11,1% árið 1999 og 20,6% 2004. Hjá áfrýjanda hafi þetta hlutfall verið 19,1% árið 2006. Í málatilbúnaði áfrýjanda er á því byggt að hlutfall skuldbindinga vegna örorkulífeyris hafi aukist hratt og langt umfram það, sem gengið hafi verið út frá á sínum tíma við ákvörðun um skiptingu lífeyris til rétthafa einstakra tegunda hans. Þetta hafi óhjákvæmilega orðið á kostnað annarra bótaþega og engin leið að víkjast undan því að gera þær breytingar á samþykktum sjóðsins, sem áður var lýst. Engu breyti um nauðsyn þessarar aðgerðar þótt iðgjald til lífeyrissjóða af vinnutekjum hafi verið hækkað á síðustu árum og framlag fengist samkvæmt lögum nr. 177/2006 til að létta undir með þeim lífeyrissjóðum, sem þyngstar skuldbindingar hvíli á vegna örorkulífeyrisgreiðslna, en áfrýjandi sé á meðal þeirra. Við þessu hafi orðið að bregðast eins og gert var. Þá sé í 15. gr. laga nr. 129/1997 mælt fyrir um örorkulífeyri og samkvæmt 1. mgr. hennar sé það skilyrði fyrir slíkum rétti að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Við skýringu á því hvað sé tekjuskerðing verði að bera saman tekjur annars vegar fyrir og hins vegar eftir orkutap, þar með taldar tekjur sem sjóðfélaginn öðlast rétt til vegna orkutapsins, svo sem úr almannatryggingum, en þetta sé jafnframt í samræmi við meginreglur skaðabótaréttar, sbr. nú 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Áfrýjandi byggir einnig á því að auk þess að vera í lögum hafi heimild til að skerða örorkulífeyri vegna greiðslna úr almannatryggingum falist í samþykktum sjóðsins áður en þeim var breytt, en rétt hafi þótt að taka fram berum orðum að það ætti eins við um tekjur frá almannatryggingum og aðrar tekjur.

Í málatilbúnaði stefndu er haldið fram að áfrýjanda hafi verið óheimilt með öllu að skerða örorkulífeyri hennar vegna tekna, sem hún njóti úr almannatryggingum. Lífeyrisréttur hennar sé eign, sem njóti verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Til þess verði að líta að sá réttur hafi orðið virkur fyrir um aldarfjórðungi, en samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar séu því settar þrengri skorður að hrófla við lífeyrisréttindum, sem séu orðin virk, en þeim sem séu ekki enn orðin það. Skerðingin verði heldur ekki réttlætt með fjárskorti áfrýjanda því samkvæmt reikningum hans sé afkoman góð. Stefnda telur jafnframt að skerðing á örorkulífeyri hennar brjóti í bága við 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem hún hafi á löngum tíma öðlast réttmætar væntingar til þess að greiðslur til hennar yrðu með óbreyttu fyrirkomulagi. Þá hafi stjórn áfrýjanda enga grein gert fyrir því hvernig hún réttlætti afnám eða skerðingu örorkulífeyrisgreiðslna til sjóðfélaga eða með hvaða lagaheimild hún setti örorkulífeyrisþega skör lægri en aðra sjóðfélaga. Þá njóti áfrýjandi nú fjárframlaga úr ríkissjóði, sem standi undir greiðslu verulegs hluta örorkulífeyrisskuldbindinga, sem á honum hvíli. Séu gerðir áfrýjanda í andstöðu við meðalhófsreglu íslenskrar stjórnskipunar. Málsástæður aðilanna eru öðru leyti raktar í hinum áfrýjaða dómi.

VII

Meðal málskjala eru skýrsla og tillögur viðræðunefndar 21. febrúar 2005 um sameiningu þeirra tveggja lífeyrissjóða, sem síðar mynduðu áfrýjanda. Með nefndinni störfuðu tryggingastærðfræðingar beggja sjóðanna. Þar segir meðal annars að tíðni örorku hjá báðum sjóðunum sé með því hæsta sem gerist. Breyttar forsendur að þessu leyti auki mjög lífeyrisskuldbindingar beggja sjóðanna og sé reiknað með að 18 til 20% iðgjalda fari í að mæta þeim. Óhjákvæmilegt sé að taka mið af þessu við mótun tillagna um samhengi iðgjalda og réttindaávinnslu. Hækkun lágmarksiðgjalds í 12%, sem komi til framkvæmdar 1. janúar 2007, mæti þessum aðstæðum að miklu leyti um sinn, en þó sé sýnt að örorkuskuldbindingar hins nýja sjóðs verði miklar. Því sé óhjákvæmilegt að vinna að því að almannatryggingar taki með einum eða öðrum hætti við stærri hluta örorkutrygginga, en það sé forsenda fyrir því að lífeyrissjóðir geti staðið myndarlega við það meginhlutverk að tryggja ellilífeyri sjóðfélaga. Sístækkandi hlutdeild örorkulífeyris skerði óhjákvæmilega getu þeirra til að greiða ellilífeyri og við því verði að bregðast. Áður var þess getið að tæpum tveimur árum síðar var ákveðið með lögum nr. 177/2006 að veita fjárframlag úr ríkissjóði til að létta undir greiðslu örorkulífeyris hjá þeim lífeyrissjóðum, sem slíkar skuldbindingar hvíla þyngst á.

Í fundarboði 10. mars 2006 um ársfund áfrýjanda segir að aðildarsamtökum hans séu með því sendar til kynningar tillögur um breytingu á þremur greinum samþykkta hans. Þessu fylgdi greinargerð þar sem segir meðal annars um fyrirhugaða breytingu á grein 12.3. í samþykktunum að örorkulífeyristryggingu áfrýjanda sé ætlað að bæta sjóðfélögum atvinnutekjutap upp að tilteknum mörkum. Bætur vegna 100% örorku séu að jafnaði töluvert lægri en sem svari tekjutapi sjóðfélagans. Bótakerfinu sé í engu tilviki ætlað að bæta meira en sem nemi raunverulegu tjóni og þurfi því að halda vel til haga hverjar hafi verið tekjur sjóðfélagans fyrir orkutapið því ekki komi til endurskoðunar á lífeyri frá áfrýjanda fyrr en heildarbætur vegna örorkunnar séu orðnar hærri en fyrri tekjur.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 129/1997 er með lífeyrissjóði átt við félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í I., II. og III. kafla laganna. Að framan var greint frá efni 15. gr., 27. gr. og 28. gr. laganna og í 39. gr. er mælt fyrir um tryggingafræðilega athugun og viðmið við ákvörðun lífeyrisgreiðslna. Fallist er á með áfrýjanda að lögin veiti lífeyrissjóði verulegt svigrúm til að ákveða greiðslu lífeyris í samræmi við fjárhag og horfur til framtíðar og að bregðast við aðstæðum hverju sinni með því eftir atvikum að auka eða skerða greiðslur til lífeyrisþega. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 129/1997 skulu samþykktir lífeyrissjóðs við það miðaðar að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Við ákvörðun um efni þeirra verður ekki einungis horft til greiðslugetu sjóðs til skamms tíma, heldur einnig til framtíðar og að sjóður geti þar með staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þeim, sem enn hafa ekki hafið töku lífeyris. Sú breyting á samþykktum áfrýjanda, sem um ræðir í málinu, fól í sér viðbrögð hans við verulega auknum útgjöldum vegna örorkulífeyristrygginga. Helsta markmiðið var að lækka útgjöld og það var gert með því að takmarka greiðslur miðað við það að tekjur sjóðfélaga, sem beinlínis komu til vegna örorku, yrðu ekki hærri en framreiknaðar atvinnutekjur fyrir orkutap hefðu orðið. Þetta átti við um stefndu, en svo sem áður er fram komið hafði hún fyrir 1. nóvember 2007 samanlagt hærri tekjur frá áfrýjanda og úr almannatryggingum vegna örorku sinnar en nam framreiknuðum atvinnutekjum hennar. Málefnalegar ástæður bjuggu þannig að baki þeim breytingum á samþykktunum, sem hér um ræðir. Heimild til slíkrar takmörkunar á greiðslu örorkulífeyris fólst í 1. mgr., sbr. 6. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 og í grein 12.3. í samþykktum áfrýjanda. Sú heimild fólst einnig í sömu grein samþykktanna áður en við hana var aukið með ákvörðun ársfundar 2006 og staðfestingu fjármálaráðherra 7. júlí sama ár og enn fyrr í samþykktum Lífeyrissjóðsins Framsýnar, reglugerð Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar og reglugerð Sambands almennra lífeyrissjóða, sem áður var getið.

Ekki verður fallist á með stefndu að 72. gr. stjórnarskrárinnar girði fyrir að réttur hennar til lífeyris verði skertur á þann hátt að áfrýjandi takmarki fjárhæð hans við það að gera hana jafnsetta og ef orkutap hefði ekki orðið. Vísun stefndu til tiltekinna dóma Hæstaréttar skiptir heldur ekki máli, en þar var um að ræða tilvik þar sem sérlög giltu um viðkomandi lífeyrissjóð og mælt var í einstökum atriðum fyrir um rétt sjóðfélaga til hverrar tegundar lífeyris í lögunum sjálfum. Stefnda byggir jafnframt á 65. gr. stjórnarskrárinnar og telur jafnræði raskað með aðgerð áfrýjanda, auk þess sem hún hafi notið fulls lífeyris um langt skeið og mátt vænta þess að framkvæmd greiðslna yrði óbreytt. Vegna þessa verður að líta til þess að heimild til að skerða örorkulífeyri vegna greiðslna frá almannatryggingum hefur frá upphafi verið í samþykktum þeirra lífeyrissjóða, sem stefnda hefur fengið greitt úr, þótt ekki hafi verið gripið til þess fyrr en á árinu 2007. Ekki var um samræmda framkvæmd að ræða hjá sjóðunum, heldur var lífeyrisþegum mismunað eftir því hvort þeir hefðu einhverjar atvinnutekjur eða ekki, en ef þeim var til að dreifa voru bæði þær og greiðslur frá almannatryggingum dregnar frá örorkulífeyri sjóðanna. Jafnræðis var þannig ekki gætt innan hóps örorkulífeyrisþega, en stefnda var meðal þeirra sem að þessu leyti naut ívilnunar. Tilvísun hennar til langrar framkvæmdar á greiðslu óskerts lífeyris getur að þessu virtu engu skipt fyrir heimild áfrýjanda til að breyta samþykktum sínum og framkvæmd, þótt það verði til þess að takmarka greiðslur til stefndu. Aðrar málsástæður stefndu standa heldur ekki til þess að krafa hennar verði tekin til greina. Samkvæmt öllu framanröktu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Gildi-lífeyrissjóður, er sýkn af kröfu stefndu, Margrétar Ingibjargar Marelsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Sératkvæði

Viðars Más Matthíassonar

setts hæstaréttardómara

Ég er í meginatriðum sammála því sem fram kemur í köflum I til VI í atkvæði meiri hluta dómenda.

Vafalaust er að áfrýjanda er heimilt að breyta samþykktum sínum, meðal annars í þeim tilgangi að skerða greiðslur lífeyris, þar með talið örorkulífeyris, ef fjárhagur sjóðsins krefst þess. Er honum þetta raunar skylt ef tryggingafræðilegar athuganir á fjárhag sjóðsins verða með nánar tilgreindum hætti, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997.

Breytingar á samþykktum, og eftir atvikum breytingar á túlkun ákvæða samþykkta, sem leiða til skerðingar á lífeyrisgreiðslum er áfrýjanda þó skylt að framkvæma þannig að virt séu, að því marki sem unnt er, réttindi þeirra sem greiðslna njóta. Fyrir liggur að stefnda hafði fengið greiddan örorkulífeyri í 25 ár á grundvelli tiltekinnar túlkunar á reglum sem giltu um hvaða greiðslur frá almannatryggingum og fleirum skyldu dragast frá örorkulífeyrisgreiðslum til hennar. Ljóst er að ákvörðun stjórna þeirra lífeyrissjóða, sem önnuðust greiðslur til hennar, en þeir eru tilgreindir í III kafla atkvæðis meiri hluta dómenda, um þennan frádrátt, sem fylgt var allan framangreindan tíma, var ívilnandi fyrir stefndu, sé miðað við orðalag þeirra ákvæða sem um ræðir. Er einnig gerð grein fyrir efni þeirra ákvæða í sama kafla í atkvæði meiri hluta dómenda. Réttindi stefndu að þessu leyti voru áunnin og mátti hún að öðru jöfnu áfram gera ráð fyrir sambærilegri túlkun á frádráttarreglum nema þörf væri vegna fjárhagsstöðu áfrýjanda að gera á þeim breytingar sem skertu greiðslur til hennar. Hafa verður í huga, þegar metið er hvers ber að gæta við slíkar breytingar að krafa stefndu um örorkulífeyri er lögbundin og reist á 15. gr. laga nr. 129/1997. Í þeim lögum er ekki að finna sérstaka heimild fyrir því að lífeyrissjóðir ákveði í samþykktum sínum að ein tegund lífeyris, það er ellilífeyrir, skuli hafa forgang umfram aðrar tegundir lífeyris, þegar metið er hvort skerða þurfi réttindi þeirra sem njóta lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum. Einnig verður að líta til þess að réttindi stefndu voru virk réttindi, enda hafði hún notið þeirra í aldarfjórðung.

Réttur stefndu til örorkulífeyris nýtur verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar. Verður því að áskilja að áfrýjandi sýni fram á að breytingar þær sem hann gerði á samþykktum sjóðsins og ákvörðun í framhaldi af því um skerðingu á greiðslu örorkulífeyris til stefndu hafi verið nauðsynlegar vegna fjárhags sjóðsins og að með þeim hafi hann ekki gengið lengra en nauðsyn krafði til að bæta úr fjárhagsstöðunni þannig að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar.

Í tillögu og greinargerð um samruna Lífeyrissjóðs Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna, forvera áfrýjanda, 21. febrúar 2005 er tekið fram að tryggt sé að engin áunnin réttindi verði skert. Í sérstökum kafla um breytingar á örorkulífeyri er tekið fram að tillögur séu gerðar um skerptar reglur um skilyrði örorkulífeyris, en af þeim kafla verður ekki ráðið að áform séu um meiri háttar skerðingu á greiðslu örorkulífeyris til einstakra sjóðfélaga. Í þessum kafla segir meðal annars. ,,Síhækkandi hlutdeild örorkulífeyris skerðir óhjákvæmilega getu sjóðanna til að greiða ellilífeyri og við því verður að bregðast. Er í þessu efni lögð áhersla á frumkvæði og ábyrgð aðildarsamtaka vinnumarkaðarins og heildarsamtaka lífeyrissjóðanna við endurskoðun á reglum um örorkulífeyri og þátttöku almannatrygginga í þessari grein lífeyristrygginga.“

Breyting sú á samþykktum áfrýjanda, sem skerðing á greiðslu örorkulífeyris til stefndu er reist á, var samþykkt á aðalfundi áfrýjanda 26. apríl 2006 og staðfest af fjármálaráðherra 7. júlí sama ár. Breytingin á örorkulífeyrisgreiðslum var tilkynnt stefndu 28. júlí 2006.

Hafa ber í huga að á þeim tíma, sem framangreind breyting á samþykktum var gerð í því skyni að skerða greiðslu örorkulífeyris til stefndu og fleiri sjóðfélaga urðu eftirtalin atvik til þess að styrkja mjög fjárhagsstöðu áfrýjanda og gera hann betur í stakk búinn til að inna af hendi lífeyrisgreiðslur þar með talið greiðslu örorkulífeyris og aðrar skuldbindingar sínar.

Í fyrsta lagi var um það samið í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins í mars 2004 að lágmarksiðgjöld til lífeyrissjóða skyldu hækka um 20%, það er úr 10% í 12% af launum og skyldi hækkunin taka gildi 1. janúar 2007. Í áðurnefndri greinargerð 21. febrúar 2005 sem fylgdi tillögum um samruna forvera áfrýjanda segir um þessa breytingu: ,,Aðilar vinnumarkaðarins sömdu í mars 2004 um tveggja prósentustiga hækkun iðgjalda. Meðal röksemda fyrir þessari hækkun voru að lenging meðalævi og veruleg þynging örorkubyrði kallaði á þessa hækkun svo unnt væri að viðhalda óbreyttum réttindum.“

Í öðru lagi lá einnig fyrir að við framlengingu framangreindra kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins gaf ríkisstjórnin 15. nóvember 2005 yfirlýsingu um að ríkissjóður myndi greiða sem svarar 0.25% af gjaldstofni tryggingagjalds ,,til jöfnunar greiðslubyrði lífeyrissjóða.“ Breyting þessi var gerð með lögum nr. 177/2006, sem breyttu lögum nr. 113/1990 um tryggingagjald. Hún tók gildi 1. janúar 2007. Markmið þessarar breytingar var að jafna þann aðstöðumun sem lífeyrissjóðir búa við í ljósi þess hve misþungt örorkulífeyrisgreiðslur falla á þá. Í reglugerð nr. 988/2007 um úthlutun og greiðslu fjárframlags ársins 2007 til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða kemur fram að áfrýjandi fékk vegna þessa 370.026.303 krónur í framlag úr ríkissjóði árið 2007 vegna örorkubyrði sinnar. Þetta var hæsta framlag til einstaks lífeyrissjóðs það árið. Greiðslur þessar áttu að hækka úr 0.15% af gjaldstofni 2007 í 0.20% árið 2008 og 0.25% árið 2009. Ljóst var því að þær myndu fara hækkandi næstu tvö árin, en ekki lá fyrir hvort framhald yrði á greiðslunum að liðnum þessum þremur árum.

Í þriðja lagi urðu veruleg umskipti til hins betra í ávöxtun fjármuna lífeyrissjóða síðustu árin fyrir 2006. Þannig er upplýst í tilkynningu áfrýjanda frá 2007 um ávöxtun fjármuna sjóðsins  að raunávöxtun eigna hans hafi verið 9.6% árið 2006 og meðalraunávöxtun áranna 2002 til 2006 hafi verið 11%. Vegna þessarar ríkulegu ávöxtunar voru réttindi sjóðfélaga aukin um 7% árið 2006 og um 10% árið 2007. Í niðurstöðu tryggingafræðilegrar úttektar á áfrýjanda í árslok 2006 kemur fram að heildarstaða sjóðsins sé jákvæð svo verulegu nemi og hin góða staða krefjist þess að réttindi sjóðfélaga verði aukin.

Eins og áður greinir er það álit mitt að hin virku réttindi stefndu, sem fólust í örorkulífeyrisgreiðslum til hennar, yrðu ekki skert nema fjárhagur áfrýjanda krefðist þess. Við þá skerðingu yrði meðal annars að gæta að réttindum hennar og annarra sem nytu greiðslna úr sjóðnum. Við þær aðstæður var stjórn sjóðsins skylt að fá álit tryggingafræðings á áhrifum þeirra breytinga sem gerðar yrðu á samþykktum sjóðsins í þessu skyni, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997.

Áfrýjandi hefur hvorki lagt fram tryggingafræðilegar úttektir sem sýna fram á nauðsyn þeirra breytinga, sem hann tilkynnti stefndu 28. júlí 2006, né um það hvaða áhrif þær breytingar höfðu á getu hans til þess að greiða lífeyri og standa ella við skuldbindingar sínar. Ekkert liggur heldur fyrir um það, hvort aðrar og vægari leiðir hefðu verið færar. Verður að líta til þess að skerðing á fjárhæð örorkulífeyris til stefndu var meira en 60%.

Samkvæmt framansögðu tel ég að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði hafi verið fyrir hendi til að ákveða og framkvæma þær breytingar á greiðslu örorkulífeyris til stefndu sem um ræðir. Tel ég af þessum ástæðum að niðurstaða héraðsdóms eigi að vera óröskuð. Ég tel einnig að áfrýjandi eigi að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2008.

Mál þetta höfðaði Margrét Ingibjörg Marelsdóttir, kt. 250147-2959, Hólmgarði 10, Reykjavík, með stefnu birtri 15. október 2007 á hendur Gildi lífeyrissjóði, kt. 561195-2779, Sætúni 1, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 23. maí sl., en endurupptekið og dómtekið á ný 30. júní sl. 

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að við útreikning stefnda á örorkulífeyrisgreiðslum til stefnanda skuli ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar. 

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. 

                Stefnandi er sjóðfélagi í hinum stefnda lífeyrissjóði.  Henni er greiddur örorku­lífeyrir.  Hún var fyrst sjóðfélagi í Lífeyrissjóõi ASB.  Eftir nokkrar sameiningar lífeyrissjóða var lífeyrissjóðurinn Gildi stofnaður og er stefnandi félagi í honum. 

                Stefnandi fór að vinna fyrir launum á árinu 1962.  Hún var á vinnumarkaði þar til hún gekkst undir brjósklosaðgerð á Landspítalanum í nóvember 1981.  Sú aðgerð tókst illa og var önnur framkvæmd á árinu 1982.  Ekki er ástæða til að rekja sorglega sjúkrasögu stefnanda, en örorka hennar var metin 75% á árinu 1982 og hefur henni verið greiddur örorkulífeyrir síðan.  Stefnandi var metin til örorku og hóf töku lífeyris er í gildi var Reglugerð fyrir Lífeyrissjóð Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Verkakvennafélagsins Framsóknar er tekið hafði gildi 1. janúar 1981. 

                Samkvæmt 11.-14. gr., sbr. og 2. gr. reglugerðarinnar skyldi sjóðurinn tryggja sjóðfélögum ellilífeyri, örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri.  Í 12. gr. er fjallað um örorkulífeyri.  Þar segir:  ... Þrátt fyrir örorku á enginn rétt á örorkulífeyri, meðan hann heldur fullum launum fyrir starf, það er hann gegndi, eða fær jafnhá laun fyrir annað starf, sem veitir lífeyrissjóðsréttindi, og aldrei skal lífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. 

                Þrátt fyrir þetta ákvæði var örorkulífeyrir stefnanda frá lífeyrissjóði hennar ekki lækkaður vegna greiðslna er hún fékk frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt lögum um almannatryggingar.  Stefnandi hefur ekki haft launatekjur frá því að örorka hennar var metin. 

                Á árinu 2005 var Lífeyrissjóðurinn Gildi, stefndi í máli þessu, stofnaður.  Voru þá sameinaðir Lífeyrissjóðurinn Framsýn og Lífeyrissjóður sjómanna.  Voru sjóðnum settar samþykktir og hljóðaði grein 12.3 svo: 

                Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.  Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 14.4. vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skal leggja til grundvallar meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið...  Í úrskurði um lífeyri skal jafnframt greina hvaða launatekjur eru lagðar til grundvallar útreikningi, svo sjóðfélaga megi vera ljóst við hvaða mörk lækkun örorkulífeyris vegna tekna er miðað. Örorkulífeyrisþega er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar samkvæmt launaframtali, sé þess óskað... 

                Á ársfundi stefnda 26. apríl 2006 var að tillögu stjórnar gerð breyting á samþykktunum.  Breytingin fólst í því að bætt var í grein 12.3 þessu ákvæði: 

                Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar.  

                Þessum texta er bætt við ákvæðið framan við orðin Í úrskurði um lífeyri skal jafnframt greina hvaða launatekjur...

                Með bréfi dagsettu 30. maí 2006 leitaði stefndi eftir staðfestingu fjármála­ráðuneytisins á breytingunum.  Í bréfinu er vísað til bréfs Vigfúsar Ásgeirssonar, tryggingastærðfræðings sjóðsins, þar sem segir m.a. að breytingarnar beinist að orðalagi, stjórn og rekstri sjóðsins og hafi óveruleg eða engin áhrif á réttindi sjóðfélaga. 

                Vigfús Ásgeirsson gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Hann kvaðst hafa talið að framangreind breyting á samþykktum hefði lítil áhrif á réttindi sjóðfélaga.  Breytingin hafi verið gerð til að skýra betur ákvæði um tekjumissi.  Hann kveðst hafa komist að því að í framkvæmdinni hafi ekki verið litið til greiðslna frá Tryggingastofnun til frádráttar örorkulífeyri, ef viðkomandi hafði engar aðrar tekjur.  Hins vegar hafi þessar greiðslur frá Tryggingastofnun verið dregnar frá þegar viðkomandi hafði aðrar tekjur að auki.  Þessi framkvæmd hafi verið hjá Gildi og  forverum Gildis, en ekki hjá öllum lífeyrissjóðum. 

                Ráðuneytið leitaði eftir umsögn Fjármálaeftirlitsins.  Í umsögn þess, sem dagsett er 5. júlí 2006, segir um þá breytingu sem hér er um deilt að hún sé nánari útlistun á viðmiðum við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið.  Í lok umsagnarinnar segir að eftirlitið hafi yfirfarið breytingarnar og geri ekki athugasemdir við efni þeirra. 

                Tveimur dögum síðar, 7. júlí 2006, tilkynnti fjármálaráðuneytið að breytingarnar hefðu verið staðfestar. 

                Hinn 28. júlí 2006 ritaði Greiðslustofa lífeyrissjóða stefnanda bréf um skerðingu örorkulífeyris hennar. Þar er er tekið fram að við útreikning tekjumissis skuli taka tillit til atvinnutekna lífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almanna­tryggingum og lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta.  Vegna þess að heildartekjur stefnanda á árinu 2005 voru hærri en umreiknaðar heildartekjur fyrir orkutap skyldi lífeyrir stefnanda skertur verulega frá 1. nóvember 2006. 

                Er stefnanda barst bréf þetta leitaði hún til Öryrkjabandalagsins.  Spunnust af því nokkur bréfaskipti bandalagsins við stefnda og fjármálaráðuneytið.  Er ekki tilefni til að rekja þau bréfaskipti hér. 

                Loks kvartaði Öryrkjabandalagið til Umboðsmanns Alþingis.  Gerði banda­lagið einkum athugasemdir við hæfi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins og starfs­manna þess og vanrækslu á eftirlitsskyldu samkvæmt 28. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Umboðsmaður hefur ekki lokið umfjöllun sinni. 

                Í stefnu er fullyrt að þrettán aðrir lífeyrissjóðir hafi breytt samþykktum sínum á sama veg og stefndi á árinu 2006.  Einn þeirra sé Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.  Formaður stjórnar þess sjóðs er Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármála­ráðuneytinu.  Við endurupptöku málsins 30. júní sl. voru lögð fram gögn um breytingar er gerðar voru hjá Söfnunarsjóðnum.  Þær voru efnislega keimlíkar þeim breytingum á samþykktum stefnda sem hér er um deilt.  Þannig var bætt við 11. gr. samþykktanna, í gr. 11.2, m.a. orðunum Við mat á tekjumissi er tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og frá öðrum lífeyrissjóðum... 

                Breytingarnar voru samþykktar í stjórn Söfnunarsjóðsins 21. nóvember 2005 og staðfestar af fjármálaráðuneytinu 3. mars 2006.  Staðfestingin var rituð á bréfsefni ráðuneytisins og undirrituð fyrir hönd ráðherra af þeim Elmari Hallgríms Hallgrímssyni og Ingva Má Péturssyni. 

                Þessir sömu starfsmenn ráðuneytisins rituðu með sama hætti undir bréf um staðfestingu á breytingum á samþykktum stefnda 7. júlí 2006. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda 

                Stefnandi vísar til þeirrar samræmdu reglugerðar sem hafi verið í gildi fyrir lífeyrissjóði í Sambandi almennra lífeyrissjóða á árinu 1982, er hún hóf töku örorku­lífeyris.  Af 12. gr. reglugerðarinnar leiði að lífeyrir skyldi ekki vera hærri en sem nam þeim launum er hún hafði er hún varð fyrir orkutapi.  Aðrar tekjur, t.d. greiðslur almannatrygginga, hafi ekki haft áhrif á lífeyrisgreiðslurnar.  Ein heimild hafi verið til að lækka lífeyri.  Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. mátti lækka eða fella niður greiðslur ef viðkomandi endurheimtu starfsorku sína að nokkru eða öllu leyti.  Reglugerðinni hafi verið breytt nokkrum sínnum, en þessum reglum hafi ekki verið breytt.  Þannig hafi sama regla gilt er Lífeyrissjóðurinn Framsýn var stofnaður og samþykktir hans tóku gildi 1. júlí 2002. 

                Stefnandi segir að stefndi telji að með umræddum breytingum á samþykktum sjóðsins telji hann unnt að bæta við nýjum frádráttarliðum til að lækka lífeyris­greiðslur.  Greiðslur úr almannatryggingum séu nú dregnar frá lífeyri og ekki sé tekið tillit til iðgjaldagreiðslna stefnanda til sjóðsins.  Sú breyting hafi nú verið gerð að í stað þess að lífeyrisþegar gætu treyst því að upphafleg ákvörðun um lífeyri miðuð við tekjur og örorkustig stæðist til frambúðar, skyldi nú afnema eða skerða lífeyrinn með hliðsjón af m.a. auknum greiðslum úr almannatryggingum.  Þessi breyting sé afturvirk í þeim skilningi að hún breyti réttarstöðu stefnanda á þann hátt að réttindi þau sem hún hefur notið um aldarfjórðungsskeið eru verulega skert.  Þessi aðferð leiði að lokum til þess að réttindi stefnanda til lífeyris frá stefnda falli niður. 

                Stefnandi segir að líta verði svo á að samningur hafi komist á milli sín og viðkomandi lífeyrissjóðs er hún hóf aðild að honum.  Þrátt fyrir það hafi stefndi ein­hliða, og án samráðs eða rökstuðnings, tekið umrædda ákvörðun sem leitt hafi til skerðingar lífeyris.  Bendir stefnandi jafnframt á að réttindi hennar hafi verið orðin virk er breytingin var ákveðin. 

                Stefnandi vísar til 15. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Þar sé lýst lágmarksréttindum til örorkulífeyris. 

                Stefnandi segir að þegar lífeyrissjóður ákvarðaði réttindi stefnanda á sínum tíma hafi þau orðið að eignarréttindum og njóti því verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Eftir þetta hafi hvorki sjóðurinn né löggjafinn fullt forræði á því hvernig réttindum er hagað.  Þannig verði rétturinn ekki skertur einfaldlega með því að sjóðurinn telji að stefnandi hafi fengið of mikið greitt samkvæmt eldri viðmiðunum. 

                Stefnandi bendir á 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem fjalli um friðhelgi eignarréttar eins og 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Fjöldi dómafordæma styðji það að hin virku lífeyrisréttindi stefnanda séu eign í skilningi beggja ákvæðanna.  Þá starfi stefndi samkvæmt lögum um lífeyrissjóði og skyldur og réttindi sjóðsins ráðist af lögum.  Beita beri mannréttindaákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu um réttarsamband stefnanda og stefnda. Breytingarnar á ákvæðum í samþykktum stefnda eigi sér ekki stoð í almennum lögum og brjóti í bága við eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar.

                Stefnandi segir að samkvæmt íslenskum rétti sé gerður munur á lífeyris­réttindum sem eru óvirk og réttindum sem eru virk.  Bendir hún á dóm Hæstaréttar í máli nr. 368/1997. 

                Stefnandi segir að það stoði ekki stefnda að bera fjárhagsvanda fyrir sig.  

                Stefnandi bendir á að skerðing réttinda sinna stafi ekki af aðstæðum sem hana varði, heldur sé hún vegna breyttra reglna sjóðsins.  Réttindi hennar hafi verið orðin virk og því notið eignarréttarverndar.  Ekki sé lagaheimild til að skerða réttindi hennar svo sem gert hafi verið.  Skerðingarheimildir hafi ekki verið í samþykktum sjóðsins fyrir breytinguna 2006.  Vísar stefnandi hér til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu.  Jafnframt til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kjartans Ásmundssonar. 

                Stefnandi vísar til sjónarmiða um réttmætar væntingar og réttaröryggi.  Hún hafi ekki getað séð fyrir að greiðslur til hennar yrðu skertar eftir svo langan tíma.  Þvert á móti hafi hún öðlast réttmætar væntingar til að greiðslur til hennar yrðu með óbreyttu sniði.  Þá sé aðlögunartími mjög stuttur. 

                Stefnandi telur að umrædd skerðing á lífeyri hennar sé brot gegn 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.  Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé ekki gerður neinn munur á þeim lífeyrisréttindum sem þar sé mælt fyrir um.  Enginn flokkur lífeyrisþega hafi forgang til greiðslna úr sjóðunum.  Réttindi sem sjóðfélagar afli sér með greiðslu iðgjalda sé af löggjafans hálfu liður í að uppfylla skilyrði 76. gr. stjórnarskrárinnar.  Um skylduaðild sé að ræða. 

                Stefnandi telur sig hafa sætt ójafnræði og verið mismunað svo í bága fari við 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Því hlutverki almannatrygginga að aðstoða öryrkja sé skipt á milli Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða.  Lögfest hafi verið ákvæði sem ætlað sé að tryggja öllum sem eins er ástatt um sambærilegan lágmarkslífeyri.  Einungis hluti lífeyrissjóðanna hafi skert eða afnumið örorkulífeyri eins og stefndi hafi gert.  Gæta verði að jafnræði gagnvart öðrum lífeyrissjóðum þegar litið sé til hlutverks stefnda og annarra lífeyrissjóða.  Innan sjóðsins hafi heldur ekki verið gætt jafnræðis.  Einn hópur sé tekinn út úr og virk lífeyrisréttindi hans skert. 

                Stefnandi segir að ekki hafi komið fram málefnaleg rök af hálfu stefnda fyrir umræddri ákvörðun. 

                Stefnandi bendir á að ekki hafi verið gerð grein fyrir markmiðinu með umræddri breytingu á samþykktum og þá hvaða aðrar leiðir hefðu verið færar til að ná því markmiði sem að væri stefnt.  Breytingarnar leiði til þess að hún sé svipt nærri tveimur þriðju hlutum af örorkulífeyri sínum og rúmlega þriðjungi heildartekna sinna.  Ekki sé ljóst hvernig hún geti, á svo skömmum tíma sem gefinn var, aðlagast tekju­skerðingunni eða aflað annarra tekna.  Telur stefnandi þessar aðgerðir gegn sér í andstöðu við meðalhófsreglu íslenskrar stjórnskipunar og leiði það til þess að taka beri kröfur hennar til greina. 

                Stefnandi segir að fjórtán lífeyrissjóðir hafi haft samflot um breytingu á samþykktum og hafi fjármálaráðuneytið að fengnum umsögnum Fjármálaeftirlitsins staðfest sambærilegar breytingar á samþykktum allra sjóðanna.  Einn þessara sjóða sé Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.  Formaður stjórnar þess sjóðs, Baldur Guðlaugsson, sé jafnframt ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.  Hann sé því yfirmaður þeirra starfs­manna ráðuneytisins sem staðfestu breytingar á samþykktum sjóðanna.  Því hafi þeir verið vanhæfir til meðferðar málsins og sé staðfesting ráðuneytisins á breytingunum því ógild.  Jafnframt bendir stefnandi á að málefnið hafi verið lagt fyrir ráðuneytið með villandi hætti sem hafi leitt til þess að umsögn Fjármálaeftirlitsins varð jákvæð.  Þetta leiði einnig til þess að staðfestingin sé ógild. 

                Stefnandi kveðst reka mál þetta sem viðurkenningarmál samkvæmt heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 

                Við aðalmeðferð málsins mótmælti stefnandi sem of seint fram komnum staðhæfingum stefnda um að greiðslur Tryggingastofnunar hefðu verið dregnar frá örorkulífeyri hjá þeim sem hefðu haft aðrar tekjur að auki. 

                Málsástæður og lagarök stefnda 

                Stefndi gerir nokkra grein fyrir því í greinargerð sinni að örorkulífeyrisþegum hjá lífeyrissjóðum hafi fjölgað á síðustu tveimur áratugum.  Þessi fjölgun hafi leitt til þess að örorkulífeyrisskuldbindingar sjóðanna hafi hækkað sem hlutfall af heildar­skuldbindingum sjóðanna.  Hefur hann lagt fram gögn um þessa þróun í málinu.  Fram hafi komið við sameiningu Lífeyrissjóðs sjómanna og Lífeyrissjóðsins Framsýnar á árinu 2005 að annað hvort yrði að skerða rétt til örorkulífeyris eða að hluti af byrðinni yrði lagður á Tryggingastofnun.  Tryggingastærðfræðingar hafi einnig bent á þá hættu sem sjóðunum stafaði af þessari fjölgun örorkulífeyrisþega. 

                Stefndi segir að viðurkenningarkrafa stefnanda sé of víðtæk og að hún sé í andstöðu við lög.  Hún sé hvorki takmörkuð við ákveðna fjárhæð né tímabil.  Ef fallist yrði á kröfuna væri stefnda óheimilt í öllum tilvikum um alla framtíð að draga hinar tilgreindu greiðslur frá örorkulífeyrisgreiðslum til stefnanda, óháð því hvort það væri að hluta eða öllu leyti og hvort sem bæturnar væru hærri eða lægri en tekjutap stefnanda af völdum orkutaps síns.  Slík niðurstaða væri í andstöðu við lög, einkum 1. og 6. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997. 

                Stefndi byggir á því að málefnaleg rök hafi staðið til breytinganna og að á þeim hafi verið almenningsþörf.  Það séu málefnaleg rök að færa framkvæmdina til samræmis við orðalag 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997.  Löggjafinn miði við að örorkulífeyrisþegar eigi rétt á greiðslum sem nemi tekjumissi vegna orkutaps.  Því hljóti það að vera lögmætt fyrir stefnda að miða við það einnig.  Tekjuskerðingar­hugtak laganna beri að skýra til samræmis við meginreglur íslensks skaðabótaréttar, sbr. t.d. 5. gr. laga nr. 50/1993. 

                Þá sé nauðsyn þess að sjóðurinn geti staðið við framtíðarskuldbindingar sínar málefnaleg rök fyrir því að falla frá ívilnandi framkvæmd sjóðanna tveggja er sameinuðust í stefnda.  Vísar stefndi hér til skyldu sinnar samkvæmt 27. gr. áðurnefndra laga.  Kveðst stefndi sérstaklega mótmæla því að einungis sé lögmætt að skerða greiðslur til sjóðfélaga ef sjóðurinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.  Þá mótmælir stefndi því að góð afkoma á undanförnum árum leiði til þess að ómálefnalegt sé að breyta fyrirkomulagi á greiðslum til örorkulífeyrisþega. 

                Stefndi tekur sérstaklega fram að breytingin eða leiðréttingin á framkvæmd gildi til frambúðar.  Hún beinist að öllum þeim sem síðar kunni að öðlast rétt til örorkulífeyris. 

                Stefndi vekur athygli á gr. 10.2 í samþykktum Framsýnar og gr. 10.6 í samþykktum sínum.  Sér sé skylt að leggja megináherslu á ellilífeyristryggingar. 

                Stefndi heldur því fram að jöfnunarframlag ríkisins til lífeyrissjóða, þeirra á meðal stefnda, tengist skylduaðild að sjóðunum.  Tilgangur ríkisins með því að leggja fram fé sé að tryggja að félagar í lífeyrissjóðum, sem greiða hlutfallslega mörgum örorkulífeyri, geti vænst sambærilegs ellilífeyris og félagar í öðrum sjóðum þar sem færri njóta örorkulífeyris.  Framlaginu sé ekki ætlað að standa undir aukningu õrorku­lífeyrisgreiðslna. 

                Stefndi telur skerðinguna byggja á skýrri lagaheimild í 1. og 6. mgr. 15. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Tekur hann fram að hann telji skerðinguna hafa verið heimila án breytinga á samþykktunum þar sem hún sé í samræmi við áðurnefnt ákvæði og reglur í samþykktum þeirra sjóða er stefnandi hefur verið félagi í og þegið örorkulífeyri frá.  Breytingin sé aðeins nánari útfærsla á meginreglu laganna um að bætt skuli tekjuskerðing. 

                Stefndi segir að löggjafinn hafi framselt honum vald til að breyta samþykktum sínum um útreikning og skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris.  Breytingin hafi hlotið staðfestingu að fenginni umsögn.  Öll skilyrði hafi verið uppfyllt.  Telur stefndi að með 6. mgr. 15. gr. laganna hafi ákvörðunarvald verið framselt til sín.  Það eitt og sér leiði til sýknu. 

                Stefndi mótmælir því að ákvæði um lágmarksvernd í 4. gr. laga nr. 129/1997 hafi verið brotin. 

                Stefndi telur sig hafa gætt meðalhófs við breytingu á samþykktum og skerðingu greiðslna til stefnanda.  Breytingin á samþykktunum hafi verið byggð á hlutlægu áliti sérfræðinga.  Ákveðið hafi verið að leggja til breytingar á samþykktunum, þótt það hafi ekki verið nauðsynlegt til að breyta framkvæmdinni.  Breytingin hafi verið samþykkt einróma á ársfundi og 16 mánaða aðlögunarfrestur hafi verið gefinn.  Stefndi mótmælir því að breytingin hafi verið ákveðin einhliða, án rökstuðnings og með ómálefnalegum rökum.  Ársfundurinn hafi verið auglýstur í fjölmiðlum og tillögur hafi legið frammi á skrifstofu stefnda í tvær vikur fyrir fundinn.  Tillögurnar hafi verið sendar aðildarfélögum og Samtökum atvinnulífsins sex vikum fyrir fundinn, sbr. 22. gr. samþykkta sjóðsins.  Stefnandi hafi átt þess kost að láta málið til sín taka á fundinum 26. apríl, en ekki gert það. 

                Stefndi mótmælir því að hann hafi lagt breytingarnar fyrir ráðuneytið og fjármálaeftirlitið með villandi hætti.  Bréfið til ráðuneytisins hafi verið samið af tryggingastærðfræðingi sem sé sjálfstætt starfandi og hafi opinbert leyfi.  Skylt sé að láta tryggingastærðfræðing hafa eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðs.  Hann semji sitt bréf á eigin ábyrgð og stefndi kveðst aðeins hafa vitnað í bréf hans er hann sendi breytingarnar á samþykktunum til ráðuneytisins.  Þá hafi Fjármálaeftirlitið ekki gert neina athugasemd við mat tryggingastærðfræðingsins. 

                Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hafi verið vanhæfur til að fjalla um málið.  Jafnvel þó annmarki hafi verið á máls­meðferð sé hann óverulegur og geti ekki valdið ógildi staðfestingar samþykktanna.  Þá hafi sérfræðimatið á breytingunum verið í höndum annars stjórn­valds.  Loks vísar stefndi til þeirra sjónarmiða er ráðuneytið hafði uppi í bréfum sínum til lögmanns stefnanda. 

                Við endurupptöku málsins benti stefndi jafnframt á að Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri hefði ekki komið neitt nálægt afgreiðslu málsins í ráðuneytinu.  Þá hefði staðfestingin verið gerð fyrir hönd ráðherra, en ráðherra sé ekki vanhæfur í þessu máli.  Þá sé þessi staðfesting ekki sjórnvaldsathöfn í skilningi stjórnsýslulaga og því gildi ákvæði laganna um sérstakt hæfi ekki um meðferð þessa málefnis. 

                Stefndi mótmælir því að breytingar á reglum um örorkulífeyri þurfi að byggja á mati á högum og aðstæðum hvers sjóðfélaga.  Í lögum um skyldutryggingu lífeyris­réttinda komi fram á tæmandi hátt þær reglur er gildi um breytingar á samþykktum um örorkulífeyri.  Þá segir stefndi að áhrif skerðingarinnar á fjárhag stefnanda séu óljós.  Þá geti skerðing ekki verið óhófleg þegar hún sé í samræmi við lög. 

                Stefndi kveðst telja að einungis þær væntingar stefnanda að fá greiðslu í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma geti verið réttmæta.  Hún geti aðeins vænst þess að fá tekjumissi bættan.  Þá sæki hún rétt sinn í sameignarsjóð.  Réttindi geti tekið breytingum í samræmi við hagsmuni annarra sjóðfélaga og fjáthagsstyrk sjóðsins. 

                Stefndi segir að frá öndverðu hafi verið heimilt að breyta samþykkum sjóðanna.  Stefnandi hafi ekki getað vænst þess að réttur til örorkulífeyris héldist óbreyttur um alla tíð.  Þó að lífeyrisréttindi njóti eignarréttarverndar veiti greiðslur í samtryggingarsjóð ekki rétt til tiltekinnar bótaupphæðar.  Dómaframkvæmd sé ótvíræð um þetta og vísar stefndi bæði til hæstaréttardóma og dóma Mannréttinda­dómstólsins.  Tekur hann sérstaklega fram að dómur í máli Kjartans Ásmundssonar hafi ekki fordæmisgildi í þessu máli hvað varðar mat á réttmætum væntingum og meðalhóf. 

                Stefndi mótmælir því að skerðing réttinda stefnanda sé afturvirk.  Skilningur stefnanda á hugtakinu sé ekki í samræmi við hefðbundinn skining í íslenskum rétti. 

                Stefndi kveðst hafa gætt jafnræðis milli sjóðfélaga í sambærilegri stöðu.  Segir hann breytinguna vera almenna og hafa áhrif á kjör 775 örorkulífeyrisþega af 3307.  Hún hafi neikvæð áhrif á stöðu 698 lífeyrisþega.  Skerðingin sé misjöfn en allir lúti sömu útreikningsreglum.  Þá mótmælir stefndi því að hann eigi að gæta jafnræðis við örorkulífeyrisþega utan sjóðsins.  Hann hafi aðeins forræði yfir málefnum eigin sjóðfélaga.  Þá sé ekki hægt að bera saman stöðu örorkulífeyrisþega og ellilífeyris­þega.  Því geti sambærilegar reglur ekki gilt um þá. 

                Stefndi segir að dómaframkvæmd sé ótvíræð um að almennar skerðingar greiðslna, í þeim tilgangi að sjóður geti staðið við skuldbindingar sínar, feli ekki í sér brot gegn jafnræðisreglu.  Þá mótmælir stefndi því að hann hafi brotið gegn 76. gr. stjórnarskrárinnar.  Löggjafinn hafi talið hagsmuni öryrkja nægilega tryggða með því að þeim væri einungis bætt tekuskerðing.  Aðgerðir sínar séu í samæmri við það. 

                Auk þeirra lagaákvæða er áður getur vísar stefndi til laga nr. 87/2998 og laga nr. 100/2007. 

                Forsendur og niðurstaða 

                Stefndi starfar á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Samkvæmt 15. gr. laganna skulu sjóðfélagar eiga rétt á örorkulífeyri.  Ekki er í lögunum að finna nákvæmar reglur um lífeyrinn.  Í 1. mgr. kemur þó fram að á meðal skilyrða þess að félagar eigi rétt á lífeyrinum er að þeir hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.  Nánari reglur er að finna í samþykktum hvers sjóðs, þ.á m. í samþykktum stefnda. 

                Lög nr. 129/1997 leystu af hólmi ákvæði laga nr. 55/1980.  Ekki var í þeim lögum mælt fyrir um tiltekna örorkutryggingarvernd sjóðfélaga í lífeyrissjóðum. 

                Samkvæmt 15. gr. laga nr. 129/1997 er örorkulífeyrir ekki skilyrðislaust lífeyrir tiltekinnar fjárhæðar.  Honum er ætlað að bæta tekjuskerðingu.  Í þessu felst munur á örorkulífeyri og ellilífeyri, sem vissulega er ætlað að bæta mönnum tekjumissi er þeir hætta störfum, en ekki er sett skilyrði um lækkun tekna fyrir því að ellilífeyrir verði greiddur.  Ellilífeyrir skal greiddur hvernig sem tekjur lífeyrisþegans hafa þróast, en ekki er heimilað í 14. gr. laganna að lækka hann vegna annarra tekna. 

                Er stefnandi hóf töku örorkulífeyris var hún, eins og áður segir, félagi í Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar.  Þá var svo fyrir mælt í niðurlagsákvæði 1. mgr. 12. gr. reglugerðar sjóðsins að örorkulífeyrir skyldi ekki vera hærri en sem næmi tekjumissi sjóðfélagans.  Ekki var í ákvæði þessu tekið sérstaklega fram að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins skyldi draga frá, en heldur ekki sagt að þær skyldi ekki draga frá.  Af reifun aðila á málinu virðist mega ganga út frá því að ekki hafi verið gerðar neinar þær breytingar á reglum um örorkulífeyri sem máli skipti fyrir ágreiningsefni þessa máls fyrr en margnefnd breyting var samþykkt á ársfundi stefnda í apríl 2006. 

                Þegar ákvæði 12. gr. nefndrar reglugerðar fyrir Lífeyrissjóð Dagsbrúnar og Framsóknar og 12. gr. samþykkta stefnda frá 2005 eru skoðuð blasir við að eftir orðanna hljóðan skulu allar tekjur, þ.á m. greiðslur frá Tryggingastofnun, dragast frá örorkulífeyrisgreiðslum sjóðanna.  Stefndi segir raunar að greiðslurnar hafi verið dregnar frá lífeyri allra nema þeirra sem ekki höfðu neinar aðrar tekjur.  Var það staðfest í skýrslu Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings fyrir dómi.  Stefnandi hefur ekki haft aðrar tekjur frá því að hún missti heilsuna.  Þessi framkvæmd virðist á sínum tíma ekki hafa verið í samræmi við settar reglur og hún fól í sér ákveðna mismunun gagnvart þeim sem höfðu aðrar tekjur.  Ekki var mælt svo fyrir í samþykktum stefnda eða fyrirrennara hans að ákveðin fjárhæð kæmi ekki til lækkunar örorkulífeyris.  M.ö.o. ekki var ákveðið neitt frítekjumark í þessu sambandi. 

                Þannig virðist um árabil hafa verið greiddur til nokkurs hluta sjóðfélaga stefnda örorkulífeyrir nokkru hærri en mælt var fyrir um í samþykktum.  Þó telja megi að í þessu hafi falist nokkur mismunun var unnt að leggja af þá mismunun með annars konar breytingum en þeim sem gripið var til.  Stjórn stefnda taldi nauðsynlegt að breyta samþykktum sjóðsins til að leggja af þá framkvæmd sem tíðkuð hafði verið.  Dómurinn telur einnig að þetta hafi verið nauðsynlegt. 

                Samkvæmt 28. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 3. gr. laga nr. 84/1998, skal tilkynna fjármálaráðherra allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs.  Öðlast breytingar ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laganna og ákvæðum gildandi samþykkta sjóðsins.  Það verkefni ráðherra samkvæmt lögum þessum að staðfesta samþykktir lífeyrissjóða og breytingar á þeim verður að telja vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1995, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. 

                Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda starfar samkvæmt lögum nr. 155/1997.  Fjármálaráðherra skipar sjö manna stjórn sjóðsins, sbr. 3. gr., sem fer með yfirstjórn hans, sbr. 4. gr.  Lög nr. 155/1997 vísa ekki til laga nr. 129/1997, en vegna ákvæðis 1. mgr. 1. gr. þeirra laga gilda þau um Söfnunarsjóðinn að svo miklu leyti sem ekki eru lögfest sérákvæði um hann.  Samkvæmt 15. gr. laga nr. 155/1997 skulu samþykktir Söfnunarsjóðsins samdar af stjórn hans og staðfestar af ráðherra.  Sömu reglur hljóta að gilda um breytingar á samþykktunum. 

                Að framan eru raktar þær breytingar á samþykktum stefnda sem deilt er um í málinu og breytingar sem gerðar voru á samþykktum Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda á svipuðum tíma.  Breytingar þessar á samþykktum beggja sjóðanna voru staðfestar af fjármálaráðuneytinu.  Rituðu tveir starfsmenn ráðuneytisins undir staðfestingarbréfið.  Breytingar á 11. gr. samþykkta Söfnunarsjóðsins eru keimlíkar breytingum þeim á 12. gr. samþykkta stefnda sem hér er um deilt.  Ekki er upplýst í málinu hver framkvæmdin var áður hjá Söfnunarsjóðnum varðandi frádrátt frá örorkulífeyri, en breytingin bendir til þess að framkvæmdin hafi verið svipuð þeirri er var hjá stefnda. 

                Ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherra, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 73/1969 með síðari breytingum.  Þeir starfsmann sem staðfestu í umboði ráðherra margnefnda breytingu á samþykktum stefnda eru því undirmenn hans.  Vegna stöðu sinnar sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda var Baldur Guðlaugsson vanhæfur til að fjalla um efnislega sambærilegar breytingar og gerðar voru á samþykktum Söfnunarsjóðsins hjá öðrum lífeyrissjóðum, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1995.  Á sama hátt voru allir undirmenn hans í ráðuneytinu vanhæfir til meðferðar málsins, sbr. 5. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna.  Ekki verður fallist á að verkefni þetta hafi varðað smávægilega hagsmuni eða að þáttur ráðuneytisstjórans í því hafi verið lítilfjörlegur, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna.  Þá skiptir ekki máli hér þó staðfestingin hafi verið gerð fyrir hönd ráðherra.  Staðfesting ráðuneytisins á umræddum breytingum á samþykktum stefnda var því ógild. 

                Stefndi hefur mótmælt því að dómur verði kveðinn með þeirri niðurstöðu er í kröfu stefnanda greinir.  Segir hann að slíkur dómur yrði of víðtækur þar sem hann myndi binda hendur stefnda um ókomna tíð og koma í veg fyrir breytingar á samþykktum sjóðsins.  Á þetta er ekki unnt að fallast.  Dómur sem viðurkennir réttindi, jákvæð eða neikvæð, miðast við atburði sem gerst hafa.  Hann tekur ekki til þeirra atburða er síðar munu gerast og þeirra breytinga  er síðar kunna að taka gildi á samþykktum stefnda eða lagareglum.  Verður því í dómsorði mælt svo fyrir að óheimilt sé að draga örorkulífeyri og tekjutryggingu er stefnanda er Tryggingastofnun ríkisins greiðir stefnanda, frá örorkulífeyri hennar hjá stefnda. 

                Í samræmi við þessa niðurstöðu verður stefnda gert að greiða 700.000 krónur í málskostnað til stefnanda.  Er þar tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, Allan Vagn Magnússon og Hervör Þorvaldsdóttir. 

D ó m s o r ð

                Stefnda, Lífeyrissjóðnum Gildi, er óheimilt að draga frá örorkulífeyri stefnanda, Margrétar Ingibjargar Marelsdóttur, þann örorkulífeyri og tekjutryggingu er hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins. 

                Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.