Hæstiréttur íslands
Mál nr. 489/2014
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Gjöf
- Nákomnir
|
Fimmtudaginn 19. febrúar 2015. |
Nr. 489/2014.
|
LBI hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Steinþóri Gunnarssyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Gjöf. Nákomnir.
Þrotabú L hf. höfðaði mál gegn S til að fá rift tilteknum kaupaukagreiðslum sem S hafði fengið greiddar og krafðist endurgreiðslu sömu fjárhæðar. Ekki var talið að S hefði verið nákominn L hf. í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og því var hafnað kröfu félagsins um riftun á grundvelli 1. mgr. 133. gr. laganna. Þá þótti ósannað að gjafatilgangur hefði búið að baki greiðslunum þannig að þeim yrði rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. sömu laga. Var S því sýknaður af kröfum L hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2014. Hann krefst þess að rift verði greiðslum sínum í formi kaupauka til stefnda, samtals að fjárhæð 47.308.800 krónur, sem inntar voru af hendi með jöfnum greiðslum að fjárhæð 9.461.760 krónur 1. júní, 1. júlí, 1. ágúst, 1. september og 1. október 2008. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 47.308.800 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júní 2008 til 4. ágúst 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var stefndi með samningi 12. maí 2003 ráðinn forstöðumaður verðbréfamiðlunar áfrýjanda, sem þá hét Landsbanki Íslands hf. Samkvæmt samningnum bar stefndi ábyrgð á daglegum rekstri deildarinnar, auk þess að sinna öðrum þeim störfum sem honum yrðu falin af stjórn bankans hverju sinni. Stefndi gegndi stöðu sinni hjá bankanum allt þar til Fjármálaeftirlitið ákvað 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda, víkja stjórn hans frá og skipa honum skilanefnd. Stefnda var síðan sagt upp starfi sínu 24. sama mánaðar. Áfrýjandi er í slitum en frestdagur við þau er 15. nóvember 2008.
Samkvæmt ráðningarsamningi stefnda átti hann að fá greiddan kaupauka mánaðarlega. Hefur áfrýjandi höfðað málið til að fá rift kaupauka sem stefnda var greiddur á tímabilinu 1. júní til 1. október 2008, auk þess sem áfrýjandi krefst endurgreiðslu fjárhæðar sem svarar til kaupaukans. Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að um hafi verið að ræða riftanlega ráðstöfun samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Verði ekki á það fallist byggir áfrýjandi á því að kaupaukinn hafi verið gjafagerningur sem verði rift eftir 1. mgr. 131. gr. sömu laga. Um heimild til að rifta ráðstöfunum við slit fjármálafyrirtækis fer eftir 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
II
Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu launa eða öðru endurgjaldi fyrir vinnu á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag frá þrotamanni til nákominna, ef greiðslan var bersýnilega hærri en sanngjarnt var miðað við vinnuna, tekjur af atvinnurekstrinum eða önnur atvik.
Til stuðnings því að stefndi hafi verið nákominn áfrýjanda vísar hinn síðarnefndi til 4. og 6. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991. Eftir þeim ákvæðum teljast nákomnir maður og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hluta í eða menn, félög eða stofnanir sem eru í sambærilegum tengslum. Með lögum nr. 95/2010 voru gerðar breytingar á umræddri 3. gr. laganna, en þau lög gilda ekki um sakarefni málsins, sbr. 1. mgr. 22. gr. þeirra.
Í hinum áfrýjaða dómi eru raktir kaupréttarsamningar sem stefndi gerði við áfrýjanda. Þeim til viðbótar gerðu aðilar slíkan samning 21. apríl 2003 um 7.500.000 hluti á genginu 4,12 krónur fyrir hlut. Þá gerðu aðilar með sér þrjá ódagsetta samninga um kaupauka miðað við ávöxtun af hlutum í áfrýjanda, en einn þeirra var um 5.000.000 hluti á genginu 4,12 krónur á hlut, annar um 15.000.000 hluti á genginu 7 krónur á hlut og sá þriðji um 10.000.000 hluti á genginu 14,25 krónur á hlut. Þrír af þessum samningum voru óuppgerðir þegar áfrýjandi var tekinn til slita og lýsti stefndi kröfu sinni á grundvelli þeirra við slitin, en með dómi Hæstaréttar 21. júní 2011 í máli nr. 333/2011 var henni hafnað.
Á það verður ekki fallist með áfrýjanda að stefndi hafi átt verulegan hluta í bankanum í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 á grundvelli framangreindra samninga. Þá verður heldur ekki talið að stefndi hafi í krafti þeirra samninga eða stöðu sinnar sem yfirmaður verðbréfamiðlunar bankans, sem var ein af nokkrum deildum verðbréfasviðs hans, verið í aðstöðu til að hafa áhrif á starfsemi bankans með sambærilegum hætti og ef hann ætti verulegan hlut í honum. Samkvæmt þessu verður stefndi ekki talinn hafa verið nákominn bankanum. Þegar af þeirri ástæðu er ekki fullnægt skilyrðum til riftunar samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 21/1991. Kröfur áfrýjanda á þeim grundvelli verða því ekki teknar til greina.
III
Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Þetta ákvæði hefur verið skýrt þannig að undir það falli hver sú ráðstöfun, sem rýrir eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim er nýtur góðs af henni, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni og hún falli ekki undir 3. mgr. sömu greinar sem tekur til venjulegra tækifærisgjafa og svipaðra ráðstafana af smærra tagi.
Samkvæmt fyrrgreindum ráðningarsamningi 12. maí 2003 skyldi áfrýjandi greiða stefnda kaupauka mánaðarlega. Frá því stefndi var ráðinn til áfrýjanda munu þær greiðslur hafa verið inntar af hendi, en stefndi heldur því fram að kaupaukinn hafi verið reiknaður miðað við þóknunartekjur þeirrar deildar sem hann veitti forstöðu. Þetta er í samræmi við vætti þess bankastjóra áfrýjanda, sem tók ákvörðun um greiðslur til stefnda, en hann sagði fyrir héraðsdómi að greiðslurnar hefðu frá öndverðu verið ákveðnar á þessum grundvelli. Þá er óumdeilt í málinu að greiðslur til stefnda tóku mið af því hámarki sem ákveðið hafði verið og var tiltekið margfeldi fastra launa, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Að þessu gættu hefur áfrýjandi ekki leitt í ljós að gjafatilgangur hafi búið að baki kaupaukagreiðslum til stefnda þannig að þeim verði rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, LBI hf., greiði stefnda, Steinþóri Gunnarssyni, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2014.
Þetta mál, sem var dómtekið 20. mars sl., er höfðað af LBI hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 16, Reykjavík, með stefnu, birtri 23. apríl 2012, á hendur Steinþóri Gunnarssyni, kt. 220866-4409, Bollagörðum 14, Seltjarnarnesi.
Stefnandi krefst þess að rift verði greiðslum Landsbanka Íslands hf., til og í þágu stefnda á kaupaukum í formi bónusgreiðslna, samtals að fjárhæð 47.308.800 kr., sem inntar voru af hendi með mánaðarlegri greiðslu, að fjárhæð 9.461.760 kr., 1. júní 2008, 1. júlí 2008, 1. ágúst 2008, 1. september 2008 og 1. október 2008.
Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 47.308.800 kr. með vöxtum, samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 9.461.760 krónum frá 1. júní 2008 til 30. júní 2008, af 18.923.520 krónum frá 1. júlí 2008 til 31. júlí 2008, af 28.385.280 krónum frá 1. ágúst 2008 til 31. ágúst 2008, af 37.847.040 krónum frá 1. september 2008 til 30. september 2008, af 47.308.800 krónum frá 1. október 2008 til 4. ágúst 2011 en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Að auki krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Með úrskurði, 4. apríl 2013, hafnaði héraðsdómur kröfu stefnda um vísun málsins frá dómi.
Málavextir
Landsbanki Íslands var rótgróið fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins til ársins 1997 þegar hann var gerður að hlutafélagi. Hann sinnti viðskipta- og fyrirtækjabankastarfsemi, fjárfestingarbankarekstri, markaðsviðskiptum, eignastýringu og einkabankastarfsemi. Árið 2003 seldi ríkið hann einkaaðilum. Eftir það stækkaði hann verulega og færði starfsemi sína að miklu leyti til annarra landa.
Stefndi var ráðinn forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbanka Íslands hf. með ráðningarsamningi, 12. maí 2003, og gegndi því starfi fram að falli bankans haustið 2008. Verðbréfamiðlunin var hluti af verðbréfasviði bankans og var næsti yfirmaður stefnda framkvæmdastjóri þess sviðs.
Samkvæmt 1. gr. ráðningarsamningsins bar stefndi ábyrgð á daglegum rekstri sviðsins, framþróun þess og uppbyggingu. Stefndi átti auk þessa að sinna öðrum þeim störfum sem honum yrðu falin af bankastjórn hverju sinni.
Í 3. gr. ráðningarsamningsins er fjallað um launakjör stefnda í fjórum málsgreinum. Þar á meðal er í 2.-4. málsgrein kveðið á um rétt stefnda til kaupauka:
Kaupauki skal greiddur mánaðarlega. Grunnur að kaupauka eru heildartekjur sviðsins að frádregnum föstum kostnaði, til viðmiðunar er gert ráð fyrir að hvert sæti kosti kr. 30.000.000,- á ári. Myndaður er sameiginlegur kaupaukapottur þar sem lagt er 10% hlutfall af heildartekjum að frádregnum föstum kostnaði. Úthlutað er úr þeim kaupaukapotti af forstöðumanni verðbréfamiðlunar, starfsmannastjóra og framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs.
Hámark kaupauka skal nema tvöföldum árslaunum, þannig að heildarlaun geta numið að hámarki þreföldum árslaunum.
Endursamið verður um hlutfallstölu þegar að rekstraráætlun næsta árs á eftir liggur fyrir.
Stefndi kveðst hafa verið eftirsóttur starfsmaður vegna mikillar reynslu og þekkingar á sviði verðbréfamiðlunar. Hann hafi auk þess notið trausts viðskiptavina, sem hafi verið sístækkandi hópur öll þau ár sem hann vann við verðbréfamiðlun. Stjórnendur bankans hafi sóst eftir starfskröftum hans á árinu 2003 og hafi ráðið hann frá öðru fjármálafyrirtæki. Þegar stefndi hafi starfað hjá bankanum um nokkurra ára skeið, við góðan orðstír, hafi önnur fjármálafyrirtæki falast eftir starfskröftum hans. Forsvarsmönnum bankans hafi verið ljóst hversu mikilsverður starfskraftur stefndi væri í raun og hafi því ákveðið að gera vel við hann. Í þeim tilgangi hafi verið gerðir sérstakir samningar við stefnda um kaupauka auk kaupréttarsamninga um tiltekna hluti í bankanum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Í mars 2006 undirritaði bankastjórinn, Sigurjón Þ. Árnason, samkomulag þess efnis að stefndi gæti fengið allt að 300% álag á laun frá og með 1. mars 2006 yrði árangur deildarinnar umfram sett markmið. Þremur mánuðum síðar, í ágúst 2006, var gerður viðauki við ráðningarsamning stefnda þess efnis að honum yrði greiddur allt að 350% kaupauki í samræmi við bónuskerfi verðbréfamiðlunar og bankans, að teknu tilliti til frammistöðu deildarinnar og stefnda, frá og með 1. ágúst 2006. Viðaukinn var undirritaður af framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, Atla Atlasyni, og bankastjóra, Sigurjóni Þ. Árnasyni. Rúmu hálfu ári síðar undirritaði Sigurjón Þ. Árnason, samkomulag um að kaupauki stefnda gæti orðið allt að 400% á mánuði frá og með 1. apríl 2007.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt ráðningarsamningnum og þeim skjölum sem bankastjórinn og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs undirrituðu í mars og ágúst 2006 og bankastjórinn einn í apríl 2007 hafi greiðsla kaupauka verið háð afkomu (árangri) sviðsins. Grunnur kaupaukans hafi verið 10-15% af heildartekjum sviðsins að frádregnum föstum kostnaði og hafi átt að leggja hann í sameiginlegan pott. Úthlutun úr þeim potti hafi lotið ákvörðunarvaldi stefnda, sem framkvæmdastjóra verðbréfamiðlunar og framkvæmdastjóra starfsmannasviðs. Úthlutun úr pottinum til stefnda mátti að hámarki nema 400% álagi mánaðarlauna hans. Framkvæmd úthlutunar skyldi vera í samræmi við bónuskerfi verðbréfamiðlunar og bankans, að teknu tilliti til frammistöðu deildarinnar og stefnda. Við ákvörðun á árangurstengdum greiðslum til stefnda hafi því borið að hafa til hliðsjónar svokölluð „Meginsjónarmið með árangurstengdu launakerfi Landsbankans“ (MmÁLL) en þau hafi verið notuð við útreikninga bónusgreiðslna í bankanum frá maí 2006. Þar hafi verið gert ráð fyrir, sem lykilatriði við bónusgreiðslur, að þær væru almennt tengdar afkomu bankans í heild en einnig tekið tillit til afkomu sviðs og starfseiningar ásamt mati á árangri starfsmanns og samvinnu við aðrar einingar innan bankans.
Í bónusreglunum (MmÁLL) er fjallað sérstaklega um bónusgreiðslur til lykilstarfsmanna og stjórnenda hagnaðareininga svo sem verðbréfamiðlunar. Þar kemur meðal annars fram að:
Grunnur að bónusum eru heildartekjur deildar umfram allan beinan og óbeinan kostnað vegna hennar. Myndaður er sameiginlegur bónuspottur þar sem lagt er 10-15% hlutfall af heildartekjum deildarinnar að frádregnum kostnaði. Úthlutað er úr þeim bónuspotti af forstöðumanni í samráði við framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, framkvæmdastjóra verðbréfasviðs og bankastjóra (yfirmanni launamála).
Kaupauki nemur 50%-200% álagi á laun í tilfelli sérfræðinga en allt að 350% í tilfelli yfirmanna, samkvæmt fyrirfram ákv. samningi við hvern og einn starfsmann.
Það sértilvik gildir um bónusa verðbréfamiðlunar að þeir eru gerðir upp mánaðarlega með mánaðartöf, en ekki c.a. tvisvar á ári eins og í tilfelli annarra.
Stefndi tekur fram að sú hækkun á hundraðshluta bónusgreiðslu, sem var undirrituð 1. apríl 2007, hafi ekki verið háð ákveðinni árangurstengingu deildarinnar eins og lesa megi úr samkomulaginu gerðu 1. mars 2006. Jafnframt sé í þessu samkomulagi ekki vísað til meginsjónarmiða með árangurstengdu launakerfi stefnanda, (MmÁLL) enda ljóst að þetta séu ekki bindandi tilmæli við framkvæmd kaupaukakerfis stefnanda.
Stefndi áréttar að þessir samningar um kaupauka á laun hans, fyrir vel unnin störf, hafi verið gerðir fyrir tilstilli og tilstuðlan bankans. Það sé þessu til staðfestingar að stefndi riti ekki sjálfur undir viðaukana við ráðningarsamninginn, þar sem stefnda sé veittur kaupauki heldur bankastjórinn, Sigurjón Árnason, og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs bankans, Atli Atlason.
Samkvæmt upphaflegum ráðningarsamningi, 12. maí 2003, skyldi Landsbanki Íslands hf. gera kaupréttarsamning við stefnda um 7.500.000 nafnsverðshluti á næstu fimm árum samkvæmt sérstökum kaupréttarsamningum. Tveir kaupréttarsamningar voru gerðir við stefnda, annars vegar 11. febrúar 2004 um 10.000.000 hluti á viðmiðunargenginu 7 fyrir hvern hlut og hins vegar 1. apríl 2005 um aðra 10.000.000 hluti á viðmiðunargenginu 14,25 fyrir hvern hlut. Auk þessa voru gerðir þrír ódagsettir samningar við stefnda um kaupauka þar sem kaupaukafjárhæð til hans skyldi taka mið af verðþróun hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. miðað við tiltekið upphafsgengi sem var tilgreint í hverjum samningi.
Miklar sviptingar urðu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum haustið 2008 og flestir íslensku bankanna urðu ógjaldfærir. Til þess að bregðast við yfirvofandi aðstæðum voru, 6. október 2008, sett lög nr. 125/2008, svonefnd neyðarlög, sem heimiluðu íslenskum stjórnvöldum að yfirtaka fjármálafyrirtæki meðal annars banka í greiðsluerfiðleikum. Á grundvelli þessara laga óskaði stjórn Landsbanka Íslands hf. eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki yfir stjórn og starfsemi bankans og var bankanum skipuð sérstök skilanefnd 7. október 2008.
Skilanefnd bankans sagði stefnda upp störfum 24. október 2008. Í uppsagnarbréfinu var tekið fram að lokauppgjör launa stefnda færi fram 1. apríl 2009. Stefndi hafði þá sett fram kröfur um kaupréttar- og kaupaukagreiðslur sem skilanefndin og síðar slitastjórnin höfnuðu. Hæstiréttur skar úr ágreiningnum í dómi nr. 333/2011, og taldi stefnda ekki eiga rétt til samningsbundins kaupaukaréttar, þar sem hann hefði ekki tilkynnt skriflega að hann myndi nýta sér kaupaukaréttinn.
Með lögum nr. 129/2008, sem tóku gildi 15. nóvember 2008, var fjármálafyrirtækjum veitt sérstök heimild til þess að fá greiðslustöðvun sem gat lengst staðið í tvö ár. Samkvæmt þeim lögum var ákveðið að frestdagur, samkvæmt 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., vegna greiðslustöðvunar sem fengin yrði á grundvelli laganna skyldi vera gildistökudagur þeirra.
Landsbanka Íslands hf. var með úrskurði, 5. desember 2008, veitt heimild til greiðslustöðvunar sem stóð til 26. febrúar 2009 og síðar framlengd til 26. nóvember 2009. Inntaki greiðslustöðvunar bankans var, með setningu laga nr. 44/2009 sem tóku gildi 22. apríl 2009, breytt með því að slitameðferð hans hófst innan hennar. Í því fólst meðal annars að um málsmeðferðina gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Að beiðni skilanefndar bankans skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur bankanum slitastjórn 29. apríl 2009. Hún birti innköllun til kröfuhafa í Lögbirtingablaðinu 30. apríl 2009 og rann sex mánaða kröfulýsingarfrestur því út við lok dags 30. október 2009.
Á fyrsta kröfuhafafundi um lýstar kröfur, 23. nóvember 2009, var því lýst yfir formlega að sýnt væri að bankinn gæti ekki efnt skuldbindingar sínar að fullu.
Stefnandi, LBI hf., Landsbanki Íslands í slitameðferð, gengur út frá því að bónusgreiðslur til stefnda hafi verið háðar því skilyrði að hagnaður væri af rekstri þeirrar deildar sem hann veitti forstöðu og samkvæmt skjalinu „Meginsjónarmið með árangurstengdu launakerfi Landsbankans“ (MmÁLL) hafi aðeins mátt ráðstafa 10-15% af hagnaði umfram kostnað til starfsmanna hennar. Þak á bónusgreiðslu hafi numið 400% álagi á laun stefnda. Í maí 2008 hafi mánaðarlaun stefnda numið 2.348.607 krónur og hafi mánaðarleg kaupaukagreiðsla til hans samkvæmt ráðningarkjörum því að hámarki geta orðið 9.394.428 krónur, svo framarlega sem önnur skilyrði væru uppfyllt.
Á tímabilinu janúar til október 2008 voru stefnda greiddir tíu kaupaukar, samtals að fjárhæð 76.384.000 krónur, sem sundurliðast svona:
Bónusgreiðslur til Steinþórs Gunnarssonar á árinu 2008 (allar tölur í þús. króna) |
|||||||||
Jan 08 |
Feb 08 |
Mar 08 |
Apr 08 |
Maí 08 |
Jún 08 |
Júl 08 |
Ág 08 |
Sept 08 |
Okt 08 |
12.000 |
7.040 |
7.168 |
7.168 |
7.168 |
7.168 |
7.168 |
7.168 |
7.168 |
7.168 |
Heildargreiðsla Landsbanka Íslands hf. á kaupauka til stefnda og/eða í þágu hans á árinu 2008 nam samtals 106.211.035 krónum og sundurliðast þannig:
Greiðslur til stefnda vegna kaupauka 49.099.635 kr.
Greidd 35,72% staðgreiðsla vegna kaupauka 27.284.365 kr.
Greiðsla 6% mótframlags í lífeyrissjóð 4.583.040 kr.
Greiðsla 26% mótframlags í séreignalífeyrissjóð 9.859.840 kr.
Greitt tryggingargjald vegna kaupauka (5,34%) 5.384.155 kr.
Samkvæmt bónusreglunum (MmÁLL) voru bónusgreiðslur verðbréfamiðlunar gerðar upp mánaðarlega með mánaðartöf. Bónusgreiðsla greidd 1. júní 2008 skyldi því miðast við afkomu í apríl 2008, júlí-greiðsla 2008 tók mið af afkomu í maí 2008 og þannig áfram. Að sögn stefnanda liggur hvorki fyrir hvernig fjárhæð hverrar mánaðarlegrar bónusgreiðslu stefnda á árinu 2008 var fundin út né hvernig tekin var ákvörðun um að hún skyldi greidd hverju sinni.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt yfirliti um rekstur hafi verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf., sem stefndi veitti forstöðu, verið rekin með tapi á rekstrarárinu 2008 er nam 524.543.147 kr.
Rúmum þremur og hálfu ári eftir að bankanum var skipuð skilanefnd og liðlega tveimur árum eftir skipan slitastjórnar, sendi stefnandi stefnda, 4. júlí 2011, yfirlýsingu um riftun á þeim ráðstöfunum sem fólust í greiðslu kaupauka á tímabilinu janúar til og með október 2008 og krafist greiðslu þeirra fjármuna sem stefndi hafði fengið greidda og/eða greiddir höfðu verið í hans þágu auk vaxta. Lögmaður stefnda mótmælti riftun, 17. ágúst 2011, og hafnaði endurgreiðslu fjárins. Meðal annars með hliðsjón af þeim mótmælum takmarkaði slitastjórn riftunarkröfu sína og lækkaði fjárkröfur í samræmi við það.
Tæpu ári síðar, 23. apríl 2012, var lögmanni stefnda birt stefnan í þessu máli.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi krefst, á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., riftunar á ráðstöfunum sem fólust í greiðslu kaupauka til stefnda á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, nánar tiltekið á tímabilinu frá og með júní 2008 til og með október 2008. Mánaðarleg greiðsla hafi numið 7.168.000 krónum auk mótframlags á þá fjárhæð í lífeyrissjóð stefnda, 2.293.760 krónum. Greiðsla á mánuði hafi því samtals numið 9.461.760 krónum og heildargreiðsla á tilgreindu tímabili 47.308.800 krónum.
Stefnandi byggir á því að eins og tekjum af atvinnurekstri Landsbanka Íslands hf. hafi verið háttað árið 2008, með hliðsjón af veikri fjárhagsstöðu bankans að öðru leyti og almennum erfiðleikum á fjármálamörkuðum heimsins, sem fóru vaxandi er leið á árið, hafi verið bersýnilega ósanngjarnt að greiða stefnda svo háan mánaðarlegan árangurstengdan kaupauka að þeirri fjárhæð sem að framan greinir. Við mat á því hvað teljist bersýnilega ósanngjarnt í þessu tilliti verði að líta til annarra launa og endurgjalds sem stefndi hafði á tilgreindu tímabili. Föst mánaðarlaun hans hafi verið um það bil 2,4 milljónir auk 32% lífeyrissjóðsframlags vinnuveitanda. Þá hafi stefndi, eins og áður greinir, átt réttindi sem fólust í kaupréttar- og kaupaukasamningum. Líta þurfi til þess að kaupaukar á grundvelli rekstrarafkomu Landsbanka Íslands hf. hafi almennt ekki verið greiddir starfsmönnum bankans vegna rekstrarársins 2008 og að rekstrarafkoma þess sviðs sem stefndi stýrði hafi ekki gefið tilefni til þess að greiddir væru kaupaukar á grundvelli árangurs á þann hátt sem gert var.
Samkvæmt 133. gr. laga nr. 21/1991 verði greiðslu launa og annars endurgjalds einungis rift teljist viðtakandi nákominn þrotamanni í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi haldi því fram og byggi á því að stefndi hafi verið nákominn Landsbanka Íslands hf. í skilningi 6. töluliðar þess ákvæðis.
Við mat á því hvort stefndi teljist nákominn verði að líta til þess að stefndi hafi gegnt stöðu yfirmanns hjá Landsbanka Íslands hf. sem fól í sér víðtækar heimildir til að ráðstafa hagsmunum bankans. Þá hafi stefndi haft mikla persónulega fjárhagslega hagsmuni af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu Landsbanka Íslands hf. vegna þeirra kaupréttar- og kaupaukasamninga sem hann hafði gert við bankann. Reiknað verðmæti þeirra hagsmuna hafi verið um það bil 264.200.000 króna í byrjun júní 2008 miðað við umsamið viðmiðunargengi og skráð markaðsgengi hlutabréfa í bankanum. Stefnandi byggi á því að þegar horft sé til stöðu og heimilda stefnda, sem forstöðumanns verðbréfamiðlunar, og þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem hann hafði af verðmæti hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. teljist hvort atriði um sig sambærileg tengsl sem um ræðir í 4. og 5. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991. Verði ekki á það fallist leiði heildstætt mat á tilgreindum atriðum til þess að slík tengsl teljist vera fyrir hendi.
Til vara byggir stefnandi á því að framangreindar greiðslur til stefnda hafi verið umfram skyldu, án gagngjalds og hafi leitt til auðgunar stefnda á kostnað bankans og þar með séu greiðslurnar gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Ráðstöfun bónusgreiðslna til stefnda á árinu 2008 hafi verið í andstöðu við sett markmið um afkomu sviðsins og þannig í andstöðu við gildandi reglur um bónusgreiðslur þar sem þær voru greiddar þrátt fyrir rekstrarlegt tap sviðsins. Miðað við fyrirliggjandi útreikning á tekjum og kostnaði sviðsins sé ljóst að greitt hafi verið langt umfram skyldu.
Fjárkrafa stefnanda styðjist við 142. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi byggir á því að á grundvelli þess ákvæðis sé stefnda skylt að endurgreiða stefnanda 47.308.800 kr. Sú fjárhæð sundurliðast þannig:
A. Bónusgreiðsla/kaupauki greidd út 1. júní 2008 7.168.000 kr.
Mótframlag vinnuv. í lífeyrissjóð vegna bónusgr. 2.293.760 kr.
Samtals 9.461.760 kr.
B. Bónusgreiðsla/kaupauki greidd út 1. júlí 2008 7.168.000 kr.
Mótframlag vinnuv. í lífeyrissjóð vegna bónusgr. 2.293.760 kr.
Samtals 9.461.760 kr.
C. Bónusgreiðsla/kaupauki greidd út 1. ágúst 2008 7.168.000 kr.
Mótframlag vinnuv. í lífeyrissjóð vegna bónusgr. 2.293.760 kr.
Samtals 9.461.760 kr.
D. Bónusgreiðsla/kaupauki greidd út 1. september 2008 7.168.000 kr.
Mótframlag vinnuv. í lífeyrissjóð vegna bónusgr. 2.293.760 kr.
Samtals 9.461.760 kr.
E. Bónusgreiðsla/kaupauki greidd út 1. október 2008 7.168.000 kr.
Mótframlag vinnuv. í lífeyrissjóð vegna bónusgr. 2.293.760 kr.
Samtals 9.461.760 kr.
Alls 47.308.800 kr.
Stefnandi byggir á því að framangreindar greiðslur Landsbanka Íslands hf. hafi komið stefnda að notum og að endurkrafan sé ekki hærri en nemi tjóni bankans vegna hinna riftanlegu ráðstafana.
Stefnandi krefst almennra vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá greiðsludögum og þar til einn mánuður var liðinn frá því stefnda barst riftunaryfirlýsing og fjárkrafa stefnanda, dags. 4. júlí 2011, en frá þeim tíma krefst stefnandi dráttarvaxta.
Stefnandi byggir riftunar- og fjárkröfu sínar á 133. gr., 131. gr. og 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um málshöfðunarfrest í þessu máli er vísað til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Vaxtakrafa stefnanda byggir á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. sérstaklega 6. og 4. gr. laganna. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 og því sé nauðsynlegt að taka tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að skilyrðum 133. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé ekki fullnægt.
Samkvæmt 133. gr. megi rifta launum, öðru endurgjaldi fyrir vinnu og eftirlaunum til nákominna sem innt hafi verið af hendi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, hafi greiðslan verið bersýnilega hærri en sanngjarnt var miðað við vinnu, tekjur af atvinnurekstrinum og önnur atvik. Aðeins megi þó rifta að því leyti sem greiðslan var hærri en sanngjarnt var.
Skilyrði þess að unnt sé að rifta þeim greiðslum, sem falli undir 133. gr., sé að þær séu bersýnilega hærri en sanngjarnt var. Í því orðalagi felist ótvírætt, að reglunni sé einungis ætlað að ná til grófra tilvika af þessu tagi.
Við sanngirnismatið verði að taka mið af ýmsum þáttum, svo sem vinnuframlagi og sérfræðiþekkingu þess sem í hlut eigi og atvika allra, meðal annars þess hvort launagreiðandi hafi staðið við skyldur sínar að öðru leyti gagnvart launamanni.
Á herðum stefnanda hvíli sönnunarbyrði fyrir því hvað hafi verið sanngjörn laun, bónusar og kaupaukar á því tímabili sem stefndi starfaði fyrir Landsbankann. Þegar meta skuli hvað sé sanngjörn launagreiðsla í skilningi áðurnefndrar 133. gr. verði að horfa til magns og gæða vinnuframlags, sérfræðiþekkingar og hvort vinnuframlag viðkomandi hafi skapað vinnuveitandanum sérstakar og afmarkaðar tekjur. Stefnandi verði að sanna hver hafi verið hin sanngjörnu laun stefnda, þar sem aðeins sé hægt að rifta þeim hluta launagreiðslunnar sem teljist ósanngjarn.
Við sanngirnismatið verði einnig að horfa til þess, eins og áður sé getið, að stefnandi hafi komist undan efndum á hluta af launakjörum stefnda, bæði varðandi kaupauka og kauprétti sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 333/2011. Stefndi hafi þannig í raun aldrei fengið þau laun að fullu, sem bankinn, hafi skuldbundið sig til að greiða honum fyrir störf hans, sem hann innti af hendi frá ráðningu þar til kaupauki og kaupréttur urðu virkir.
Áður hafi verið gerð grein fyrir sérþekkingu stefnda sem og hversu eftirsóttur starfskraftur hann var sökum reynslu sinnar á umræddu sviði.
Stefnandi vísi ítrekað til þess að svið verðbréfamiðlunar bankans hafi verið rekið með tapi og þar af leiðandi hafi verið bersýnilega ósanngjarnt að greiða stefnda umræddan kaupauka. Stefnandi hafi þó ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf., sem stefndi veitti forstöðu, hafi verið rekin með tapi á rekstrarárinu 2008 er nam 524.543.147 kr. Áréttað sé að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn til staðfestingar framangreindu.
Stefnandi leggi fram yfirlit yfir bónusgreiðslur starfsmanna verðbréfamiðlunar en engar upplýsingar um afkomu sviðsins í heild. Meginmálatilbúnaður stefnanda lúti að því að umræddar greiðslur hafi verið bersýnilega ósanngjarnar sökum lakrar afkomu verðbréfamiðlunar. Þeirri fullyrðingu geti stefnandi ekki kastað fram án þess að leggja fram viðhlítandi gögn því til sönnunar, sem hann hafi ekki gert.
Vart geti leikið vafi á því í bókhaldi stefnanda hverjar voru tekjur verðbréfamiðlunar, þar sem deildin, hafi gefið út reikninga vegna þeirra verðbréfaviðskipta, sem hún kom á eða tók þátt í og skópu tekjur stefnanda. Á þeim árum, sem stefndi starfaði í deildinni ásamt 8 til 12 öðrum starfsmönnum að jafnaði, hafi deildin skilað um 15 milljörðum í tekjur. Á fram lögðu yfirliti yfir þjónustu- og rekstrartekjur bankans, megi jafnframt sjá hversu fáir starfsmenn verðbréfamiðlunar hafi skapað bankanum hlutfallslega miklar tekjur. Á árinu 2008 hafi starfsmenn verðbréfamiðlunar oftast verið 13. Um mitt ár 2008 hafi þeir skilað bankanum liðlega 1,5 milljörðum króna í tekjur. Þá sé rétt að geta þess að deildin hafi selt framvirka samninga á hlutabréf og skuldabréf. Þessir samningar hafi ekki verið vistaðir undir verðbréfamiðlun og tekjur af þeim, sem nemi einhverjum tugum milljarða, hafi því ekki verið færðar verðbréfamiðluninni til tekna.
Stefndi hafi aldrei heyrt það fyrr en hjá slitastjórn stefnanda að verðbréfadeildin hafi verið rekin með tapi. Stefndi hafi ekki komið að bókhaldi Landsbanka Íslands og hafi ekki haft nein afskipti af skráningu tekna hans. Stefndi hafi ekki heldur komið að frágangi mánaðar-, ársfjórðungs- eða ársuppgjöra stefnanda, enda slík vinna ekki í hans verkahring.
Stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að þær greiðslur sem stefndi fékk hafi verið bersýnilega hærri en sanngjarnt var. Í þeim efnum ítrekar stefndi að hann hafi ekki fengið greiddan nema hluta þeirra launa, sem honum bar sannanlega að fá á grundvelli samninga sinna við stefnanda. Kaupaukar, sem stefnandi lofaði stefnda, hafi verið eða hafi átt að vera sérstök umbun hans fyrir vel unnin störf, enda hafi hann gegnt mikilvægu tekjumyndandi starfi fyrir bankann. Því til stuðnings megi nefna að Atli Atlason, fyrrum framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Landsbanka Íslands, og annar þeirra sem samþykkti og ritaði undir kaupaukasamninga stefnda, hafi, við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis, lýst yfir því að greiðslur bónusa á umræddu tímabili hafi verið leiðrétting á fyrr greiddum bónusum. Þrátt fyrir að rannsóknarskýrsla Alþingis, sem kom út á vormánuðum 2010, sé ekki sönnunargagn í skilningi einkamálaréttarfars geti framangreind yfirlýsing leitt í ljós tilgang með bónusgreiðslum á tímabilinu og jafnframt ýtt undir þau sjónarmið að sanngjarnt og eðlilegt hafi verið að greiða umrædda kaupauka á tilgreindum tíma.
Í þeim tilvikum, þar sem riftun á greiðslu launa hafi komið til álita, verði aðeins rift að því leyti sem greiðslan hafi verið hærri en sanngjarnt hafi verið. Stefnanda, sem beri þá sönnunarbyrði, hafi ekki tekist að leiða í ljós ósanngirni í greiðslu. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda enda teljist hann hvorki nákominn stefnanda, eins og nánar verði gerð grein fyrir, né teljist greiðslan hærri en sanngjarnt hafi verið að teknu tilliti til atvika allra, þar með talið vinnuframlags stefnda, sérfræðiþekkingar hans og að því virtu að stefndi hafi ekki fengið greiddan nema lítinn hluta þeirra kaupauka og kauprétta sem hann átti tilkall til.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann sé ekki nákominn stefnanda í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991, eins og ákvæðið var orðað þegar þau atvik gerðust, sem málatilbúnaður stefnanda tekur til. Fyrrnefnt ákvæði 3. gr. hafi verið rýmkað með 3. gr. laga nr. 95/2010. Í 22. gr. laganna segi:
Ákvæðum 3. gr. verður ekki beitt til skilgreiningar á orðinu nákominn að því leyti sem reynt getur á merkingu þess varðandi atvik sem gerðust fyrir gildistöku laga þessara, sbr. þó 4. mgr. þessarar greinar.
Lög nr. 95/2010 hafi verið samþykkt á Alþingi 15. júní 2010 og öðlast gildi við birtingu þeirra 28. júní sama ár. Greiðslur bónusa til stefnda hafi farið fram á árinu 2008. Tilvísun stefnanda til 5. töluliðar 3. gr. sé því alfarið röng.
Stefndi hafnar tilvísunum stefnanda til síðari hluta 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 jafnframt á sömu forsendum, en með gildistöku fyrrnefndra laga nr. 95/2010 hafi 4. töluliður verið rýmkaður, á þá leið að heimild til riftunar milli nákominna næði ekki einungis til manns og félags eða stofnunar sem hann eða honum nákominn eigi verulegan hlut í, heldur einnig ef hann sæti í stjórn eða stýrði daglegum rekstri félags, nánar tiltekið hafi eftirfarandi setningu verið bætt inn:
...eða þar sem hann eða maður honum nákominn situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri.
Sá málatilbúnaður stefnanda að stefndi teljist nákominn þar sem hann hafi gegnt stöðu yfirmanns hjá stefnanda sé rangur.
Þeim málatilbúnaði stefnanda að stefndi teljist nákominn vegna kaupréttarsamninga sinna sé jafnframt hafnað. Stefndi hafi aldrei átt hluti í stefnanda. Stefndi hafi aðeins átt skilyrt réttindi til að eignast hluti í stefnanda á starfstíma sínum, sem hann nýtti að hluta. Stærstan hluta kaupréttarskuldbindinga sinna gagnvart stefnda hafi Landsbanki Íslands aldrei efnt. Kauprétturinn hafi ekki skapað stefnda neinn rétt hluthafa í félaginu. Hlutabréf, sem nota hafi átt til að gera upp kauprétti við stefnda og aðra starfsmenn bankans, hafi verið eign aflandsfélaga og stefnanda einnig óviðkomandi. Stefndi hafi því aldrei haft þeirra hagsmuna að gæta sem 3. gr. laga nr. 21/1991 áskilji svo að viðkomandi teljist nákominn í skilningi ákvæðisins. Stefndi hafi ekki einu sinni ratað inn á lista stefnanda um innherja í skilningi 121. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Á fram lögðu skipuriti bankans, úr ársreikningi hans fyrir árið 2007, megi sjá að sú staða sem stefndi gegndi sé einu þrepi ofar almennum starfsmönnum Landsbanka Íslands. Fyrir ofan stefnda í valdastiganum hafi því verið forstöðumenn sem töldust innherjar í skilningi laga um verðbréfaviðskipti, bankastjórar og loks bankaráð.
Riftunarregla 133. gr. laga nr. 21/1991 taki aðeins til greiðslna nákominna, en ekki annarra. Matið á því hvort maður, félag eða stofnun teljist nákominn skuldara, eigi að miðast við þann tíma, þegar sú ráðstöfun fór fram, sem krafist er riftunar á. Stefndi hafnar því að hann teljist nákominn í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann ítrekar að stefnandi geti ekki borið fyrir sig rýmkun á hugtakinu nákominn með gildistöku laga nr. 95/2010. Stefndi hafi ekki átt hlut í bankanum á þeim tíma sem sköpum skipti, það er frá upphafi árs 2008 fram til 1. október sama ár. Útreikningar stefnanda, um áætlað verðmæti þeirra hagsmuna sem stefndi hefði getað fengið á grundvelli kauprétta- og kaupaukasamninga, séu tilhæfulausir og hafi ekki neina þýðingu við mat á því hvort stefndi geti talist nákominn í skilningi títtnefnds ákvæðis 3. gr. laga um nr. 21/1991.
Gegn þeirri málsástæðu stefnanda til vara að greiðslur til stefnda hafi verið umfram skyldu, án gagngjalds og hafi leitt til auðgunar stefnda á kostnað bankans í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti byggir stefndi á því að skilyrði greinarinnar um gjafagerning séu ekki uppfyllt. Til grundvallar framangreindri kröfu sinni vísi stefnandi enn á ný til afkomu sviðs verðbréfamiðlunar. Stefndi ítrekar að stefnandi hafi ekki lagt fram viðhlítandi gögn til grundvallar slíkri fullyrðingu. Stefnandi vísi til útreikninga á tekjum og kostnaði sviðsins. Þeir útreikningar séu ekki meðal framlagðra gagna stefnanda og slíka útreikninga hafi stefndi aldrei séð.
Í gjafahugtaki áðurnefndrar 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti séu þrjú meginskilyrði, þ.e. að gjöfin rýri eignir skuldarans, að hún leiði til eignaaukningar hjá viðtakanda hennar og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að framangreind skilyrði séu fyrir hendi.
Áður hafi verið gerð grein fyrir tilkomu og tilgangi viðkomandi kaupaukasamninga. Bónusgreiðslur á grundvelli þeirra samninga byggðu á vinnuréttarsambandi stefnda og bankans. Þessar greiðslur hafi verið á forræði starfsmannasviðs bankans, sem Atli Atlason hafi stýrt. Sú fullyrðing stefnanda að gjafatilgangur hafi legið að baki umræddum greiðslum sé rökleysa.
Stefndi hafni því alfarið að skilyrði 131. gr. séu uppfyllt. Stefnanda hafi ekki með nokkru móti tekist að sýna fram á að greiðslur til stefnda hafi rýrt eignir hans í skilningi ákvæðisins. Ljóst sé að bónusgreiðslur til stefnda hafi verið smáræði af mánaðarlegri veltu bankans sem og í samhengi við heildarkröfur á hendur þrotabúinu. Í þeim efnum megi benda á að sé krafa stefnanda sett í samhengi við heildareignir Landsbanka Íslands um mitt ár 2008 sé ljóst að hlutfallið sé um 0,0012% af heildareignum bankans sem námu um 4.000 milljörðum króna á þessum tíma.
Að öllu framangreindu virtu og þá einkum sé horft til skilyrða er ákvæði 131. og 133. gr. laga um gjaldþrotaskipti feli í sér, sem stefnanda hafi ekki með nokkru móti tekist að sýna fram á að séu uppfyllt, krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda.
Tómlæti
Vilji svo ólíklega til að ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda á grundvelli framangreindra málsástæðna byggir stefndi á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til að krefja stefnda um endurgreiðslu sökum tómlætis.
Bónusgreiðslur stefnda hafi byggst á vinnuréttarsambandi hans og bankans. Um það vinnuréttarsamband hafi, auk ráðningarsamnings frá 12. maí 2003, gilt samningar um kauprétti og kaupauka. Starfsmannahald bankans hafi séð um að efna þessa samninga gagnvart stefnda. Þessar greiðslur hafi verið á forræði starfsmannasviðs bankans, sem Atli Atlason stýrði.
Bónusgreiðslur til stefnda hafi verið inntar af hendi á árinu 2008, eða fyrir um fjórum árum. Núverandi stjórnendur bankans, hafi frá því, er þessar greiðslur voru inntar af hendi, unnið ársuppgjör fyrir árið 2008, 2009, 2010 og 2011. Ætla verði að þau hafi verið endurskoðuð eða í það minnsta skoðað og gengið úr skugga um, hvort tekjur og gjöld væru rétt og að baki tekju- og gjaldfærslum væru viðhlítandi gögn.
Draga megi í efa að meint ofgreiðsla bónusa til stefnda hafi fyrst orðið stefnanda ljós í júlí 2011 þegar stefndi lýsti yfir riftun eða liðlega 26 mánuðum eftir að slitastjórnin tók til starfa, sbr. það sem fyrr segir.
Stefndi ítrekar að skilanefnd stefnanda hafi notið lögfræðiþjónustu tveggja lögmanna slitastjórnar frá árslokum 2008. Í það minnsta annar þeirra hafi komið að skoðun á launauppgjöri til stefnda, meðal annars vegna kauprétta og kaupauka í mars 2009. Þá hafi setið í skilanefnd um tíma, og starfi nú hjá stefnanda í slitastjórn, yfirlögfræðingur stefnanda, Ársæll Hafsteinsson. Ársæll hljóti að hafa haft nokkra innsýn í umrædda samninga. Þar að auki hafi skilanefndin sem og slitastjórnin lengi notið starfskrafta Atla Atlasonar, fyrrum framkvæmdastjóra starfsmannasviðs stefnanda, sem ritaði undir og samþykkti kaupaukasamninga stefnda. Honum hafi því verið fullkunnugt um efni og fjárhæðir kaupaukasamninga stefnda á starfstíma sínum hjá skilanefndinni og síðar slitastjórninni.
Að framangreindu virtu verði að telja það afar ótrúverðugt að stefnandi hafi ekki fyrr en í júlí árið 2011 kannað sérstaklega þær launagreiðslur sem hann telji nú bæði bersýnilega ósanngjarnar og að ekki hafi verið fótur fyrir.
Stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að höfða málið í tæpt ár frá því að riftunaryfirlýsing barst stefnda. Á þeim töfum hafi stefnandi ekki gefið nokkrar skýringar, sbr. það sem fyrr segir.
Í vinnurétti hafi tómlæti rík áhrif eins og Hæstiréttur hafi ítrekað staðfest í dómum sínum. Stefnandi hafi unnið öll launauppgjör; hann hafi haft á sínum snærum heila deild með framkvæmdastjóra og sérhæfðum starfsmönnum, innri og ytri endurskoðun og því hafi starfsmenn stefnanda mátt treysta því að útreikningur launa og bónusa væri réttur.
Að öllu framangreindu virtu sem og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða er rakin eru hér að framan, hafni stefndi því að skilyrði séu til að rifta greiðslu bónusa til hans á grundvelli 133. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. enda hafi stefnandi sökum tómlætis glatað öllum rétti til að endurheimta ofgreidda bónusa úr hendi stefnda.
Varakrafa
Vilji svo ólíklega til að stefndi verði ekki sýknaður af kröfum stefnanda krefst hann verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda. Sú krafa sé að mestu grundvölluð á sömu málsástæðum og krafa stefnda um sýknu. Stefndi áréttar sérstaklega í þeim efnum að aðeins verði rift að því leyti sem greiðslan var hærri en sanngjarnt var, skv. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 21/1991. Við sanngirnismatið verði að taka mið af ýmsum þáttum, svo sem vinnuframlagi og sérfræðiþekkingu þess sem eigi í hlut. Þá verði jafnframt að horfa til eðlis málsins sem og atvika allra. Stefnandi hafi hvorki lagt fram gögn né rakið atvik að öðru leyti til að sýna fram á að greiðslurnar teljist bersýnilega ósanngjarnar, eins og orðað sé í stefnu. Þá hafi stefnandi ekki tekið tillit til þess við útreikninga kröfufjárhæðar að stefndi hafi innt af hendi skatta og launatengd gjöld af umræddum greiðslum. Vandséð sé hvernig stefnandi telji sig eiga kröfu á hendur stefnda vegna skatta sem sannanlega hafi runnið í ríkissjóð.
Að lokum mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess að dráttarvextir verði miðaðir við dómsuppsögu fari svo ólíklega að kröfur stefnanda verði teknar til greina.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi einkum til ákvæða 3. gr., 131. gr. og 133. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem og ákvæðis 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefndi byggir kröfu sína um málskostnað á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvað kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun varðar vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Niðurstaða
Stefnandi, LBI hf., Landsbanki Íslands í slitameðferð, höfðar þetta mál til þess að fá rift þeim ráðstöfunum bankans sem fólust í því að greiða stefnda kaupauka í formi bónusgreiðslna og voru inntar af hendi 1. júní, 1. júlí, 1. ágúst, 1. september og 1. október 2008.
Stefndi var ráðinn forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans. Hann hóf störf í apríl 2003 en undirritaði ráðningarsamning 12. maí 2003. Honum var sagt upp störfum 24. október 2008 en fékk greidd laun á uppsagnarfresti út apríl 2009. Samkvæmt ráðningarsamningnum fékk hann föst laun og naut ýmissa fríðinda. Til viðbótar við þau voru, eftir því sem næst verður komist, útfærðar þrjár leiðir til þess að auka tekjur hans af starfinu en á sama tíma tryggja hollustu hans við bankann.
Fyrsta útfærslan var kaupauki í formi afkastahvetjandi bónusgreiðslna næðust ákveðin markmið deildarinnar um arðsemi. Í 3. gr. ráðningarsamnings bankans við stefnda segir að kaupauka skuli greiða mánaðarlega. Grunnur hans séu heildartekjur sviðsins að frádregnum föstum kostnaði. Til viðmiðunar sé gert ráð fyrir því að hvert sæti kosti 30 milljónir króna á ári. Myndaður sé sameiginlegur kaupaukapottur þar sem lagt sé 10% hlutfall af heildartekjum að frádregnum föstum kostnaði. Forstöðumaður verðbréfamiðlunar, starfsmannastjóri og framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs skuli úthluta úr þessum kaupaukapotti.
Kaupauki stefnda í formi bónusgreiðslna nam í upphafi 200% en stjórnendur bankans hækkuðu hlutfall hans, tvisvar árið 2006 og einu sinni árið 2007. Með síðustu hækkuninni gat álagið hæst numið 400% af mánaðarlaunum. Stefndi fékk greiddan bónus á laun, mánaðarlega, þar til hann hætti störfum hjá bankanum.
Næsta útfærsla var kaupréttur að hlutabréfum í bankanum. Samkvæmt 6. gr. ráðningarsamningsins átti bankinn, samhliða þeim samningi, að gera við stefnda samning um rétt hans til að kaupa 7.500.000 hluti nafnverðs á næstu fimm árum, samkvæmt nánari útfærslu í sérstökum kaupréttarsamningi. Um þann rétt gerði stefndi tvo samninga við bankann, 11. febrúar 2004 og 1. apríl 2005, báða um 10.000.000 hluta, annan á genginu 7 fyrir hvern hlut en hinn á genginu 14,25 fyrir hvern hlut.
Þriðja útfærsla aukinna tekna stefnda af starfinu var kaupaukaréttur. Hans er ekki getið í ráðningarsamningnum en um þann rétt gerði stefndi þrjá samninga við bankann. Þeir eru allir ódagsettir en fjalla um greiðslur bankans til stefnda sem tækju mið af verðþróun hlutafjár í bankanum út frá tilteknu umsömdu upphafsgengi.
Þegar bankinn var tekinn til slita lýsti stefndi kröfu við slitin þar sem hann krafðist greiðslu annars vegar á grundvelli samninga um kauprétt á hlutabréfum í bankanum og hins vegar á grundvelli samninga um kaupauka.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 333/2011 var það niðurstaðan að stefndi hefði ekki átt rétt til greiðslu við slit bankans, annars vegar vegna þess að stefndi hefði átt rétt til að kaupa hlutabréf í bankanum en ekki rétt til að fá kaupréttinn gerðan upp með reiðufé og hins vegar vegna þess að réttur hans til kaupauka í formi ávöxtunar á tiltekinn fjölda hluta hefði runnið honum úr greipum þar sem hann fylgdi ekki fyrirmælum kaupaukasamningsins og tilkynnti bankanum skriflega að hann hygðist nýta sér réttinn.
Eins og áður segir vill stefnandi með þessu máli rifta þeim ráðstöfunum Landsbanka Íslands sem fólust í því að greiða stefnda kaupauka í formi bónusgreiðslna og voru inntar hendi 1. júní, 1. júlí, 1. ágúst, 1. september og 1. október 2008.
Stefnandi telur í fyrsta lagi að 1. mgr. 133. gr. laga nr. 21/1991 veiti honum heimild til þess að rifta þessum ráðstöfunum. Bónusgreiðslurnar séu hluti af launum stefnda hjá bankanum og stefndi hafi verið nákominn bankanum þegar þær voru inntar af hendi.
Málsaðilar deila hvorki um að greiðslurnar falli innan efnis 133. gr. laga nr. 21/1991 né heldur að þær hafi verið inntar af hendi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sem var, 15. nóvember 2008.
Þá málsástæðu að stefndi hafi verið nákominn bankanum þegar ráðstafanirnar fóru fram byggir stefnandi á því að tengsl hans við bankann hafi verið sambærileg þeim tengslum sem tilgreind eru í 4. og 5. tölulið, sbr. 6. tölulið, 3. gr. laga nr. 21/1991 eins og það ákvæði hljóðaði á þessum tíma.
Með lögum nr. 95/2010 var ákvæði 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. breytt. Þess vegna þykir rétt að taka upp orðalag 4.-6. töluliðar eins og það var fyrir þá breytingu þar sem beita ber ákvæðum laganna eins og þau voru þegar þær ráðstafanir fóru fram sem stefnandi vill rifta.
3. gr. Orðið nákomnir er í lögum þessum notað um þá sem eftirfarandi tengsl standa milli:
...
4. mann og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hluta í,
5. tvö félög eða stofnanir ef annað þeirra eða maður nákominn öðru þeirra á verulegan hluta í hinu,
6. menn, félög og stofnanir sem eru í sambærilegum tengslum og um ræðir í 1.5. tölul.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að stefndi hafi gegnt stöðu yfirmanns hjá bankanum. Í þeirri stöðu hafi falist víðtækar heimildir til þess að ráðstafa hagsmunum bankans, sem jafnist á við heimildir framkvæmdastjóra fyrirtækja. Í öðru lagi hafi stefndi haft mikla persónulega, fjárhagslega hagsmuni af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu Landsbanka Íslands hf. vegna þeirra kaupréttar- og kaupaukasamninga sem hann hafi gert við bankann. Þegar horft sé til stöðu og heimilda stefnda sem forstöðumanns verðbréfamiðlunar og þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem hann hafi haft af verðmæti hlutafjár í Landsbankanum á þessum tíma felist í hvoru atriði um sig tengsl sambærileg þeim sem lýst sé í 4. og 5. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991.
Að mati dómsins nægir staða stefnda ein og sér, sem forstöðumanns verðbréfamiðlunar, ekki til þess að hann teljist hafa verið nákominn bankanum. Í skipuriti bankans raðaðist starf stefnda í fjórða þrep talið ofan frá þar sem bankaráð var efst, bankastjórn næst og framkvæmdastjórar sviða bankans stóðu í þriðja þrepi. Hann hafði að vísu mannaforráð þar sem hann var yfirmaður starfsmanna verðbréfamiðlunar sem voru ýmist aðeins færri eða aðeins fleiri en tíu. Yfirmaður hans var framkvæmdastjóri verðbréfasviðs bankans. Stefndi var aldrei staðgengill hans. Það voru hins vegar forstöðumenn annarra deilda. Stefndi var hvorki fruminnherji né innherji í Landsbanka Íslands.
Stefnandi hefur ekki heldur sýnt fram á þá fullyrðingu sína að stefndi hafi haft víðtækar heimildir til þess að skuldbinda bankann þótt hann hafi haft tilteknar heimildir. Í framburði vitnisins Sigurjóns Þ. Árnasonar kom fram að stefndi hefði haft heimildir til þess að nýta fjármuni bankans í því skyni að koma á viðskiptum milli tveggja viðskiptavina. Hefði viðskiptavinur viljað selja bréf fyrir 100 milljónir króna en stefndi hefði einungis fundið kaupanda að bréfum fyrir 80 milljónir króna hefði hann mátt nota fé bankans til þess að kaupa bréf fyrir 20 milljónir króna til þess að koma viðskiptunum á. Hann hefði síðan þurft að losa sig við þessi bréf innan skamms tíma. Að sama skapi hafi stefnda verið heimilt að nýta fé bankans til þess að safna fyrir kaupanda sem vildi kaupa tiltekið magn hlutafjár, til dæmis í öðru fjármálafyrirtæki, en vildi einungis kaupa það allt á einu bretti en ekki í smáskömmtum til þess að ekki fréttist á markaðnum að hann væri að kaupa sig inn í það félag. Heimildir stefnda til að nýta fé bankans hafi verið bundnar við að koma á viðskiptum um verðbréf og um þær hafi gilt skráðar reglur.
Stefnandi byggir þessu til viðbótar á því að stefndi hafi haft áhrif á ákvörðun eigin bónusgreiðslna. Í því sambandi styðst stefnandi við ódagsett og óundirritað skjal sem ber titilinn Meginsjónarmið með árangurstengdu launakerfi Landsbankans. Þar er fjallað um ástæður hvatakerfis bankans, hvaða mælikvarðar séu lagðir til grundvallar hvatakerfinu almennt og einnig sérstaklega fyrir tiltekna hópa starfsfólks. Einn hópurinn er lykilstarfsmenn og stjórnendur í hagnaðareiningum. Þar á meðal eru taldar verðbréfamiðlun, gjaldeyris- og afleiðuviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf en þessar deildir heyrðu allar undir verðbréfasvið. Í þessum undirkafla skjalsins er fyrst tiltekið að grunnur að bónusum séu heildartekjur deildar umfram allan beinan og óbeinan kostnað vegna hennar. Myndaður skuli sameiginlegur bónuspottur og í hann lögð 10-15% af heildartekjum deildarinnar að frádregnum kostnaði. Síðan segir: Úthlutað er úr þeim bónuspotti af forstöðumanni í samráði við framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, framkvæmdastjóra verðbréfasviðs og bankastjóra (yfirmanni launamála).
Þessi lýsing á grundvelli bónusgreiðslna er keimlík 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings stefnda sem grein er gerð fyrir í upphafi niðurstöðukafla en þar er einnig tekið fram að forstöðumaður verðbréfamiðlunar, starfsmannastjóri og framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs skuli úthluta úr þessum kaupaukapotti. Á þessari setningu í ráðningarsamningi stefnda, sem og áður tilvitnaðri setningu í Meginsjónarmiðum með árangurstengdu launakerfi Landsbankans, byggir stefnandi það að stefndi hafi haft áhrif á eigin bónusgreiðslur.
Fyrir dómi bar stefndi að aldrei hefði verið farið eftir þeim lið í ákvæði 3. gr. ráðningarsamningsins þar sem var tilgreint að grunnur að kaupauka væru heildartekjur sviðsins að frádregnum föstum kostnaði og að til viðmiðunar væri gert ráð fyrir að hvert sæti kostaði 30.000.000 kr. á ári. Hann bar að bónusgreiðslur til hans og annarra starfsmanna verðbréfamiðlunar hefðu verið ákveðnar af bankastjóranum, Sigurjóni Þ. Árnasyni, út frá þeim þóknanatekjum sem þeim hefði tekist að afla bankanum mánaðarlega. Bankastjórinn hafi ákveðið að ekki yrði farið eftir reglum um bónuspott sem nokkrir starfsmenn hittust til að deila úr.
Vitnið Sigurjón Þ. Árnason bar að það kaupaukakerfi sem þegar hefði verið samið við stefnda um þegar vitnið hóf störf hjá bankanum, skömmu eftir ráðningu stefnda, hafi verið flókið og erfitt í útfærslu. Þeir sem að því komu hafi ekki verið sammála um hvernig ætti að túlka það nákvæmlega. Þetta fyrirkomulag hefði verið til þess fallið að valda miklum deilum og því hafi orðið að samkomulagi að einvörðungu yrði horft til þóknanatekna. Auðveldara væri að útfæra bónusgreiðslur frá því viðmiði og ekki þyrfti stöðugt að horfa til þess hvaða hlutfall af heildarrekstrarkostnaði bankans ætti að falla á verðbréfamiðlunina og draga það frá. Af þessum sökum hafi eingöngu verið litið til þeirra þóknanatekna sem deildin aflaði bankanum.
Deildin hafi haft markmið sem hún hafi viljað ná. Bónusar hafi verið greiddir eftir því hvort markmiðið náðist eða ekki og hversu miklum tekjum umfram markmiðið deildin aflaði.
Stefndi hefur ekki leitt vitni til staðfestingar því að við ákvörðun og útdeilingu bónusgreiðslna til starfsmanna verðbréfamiðlunar Landsbanka Íslands hafi verið unnið eftir skjalinu Meginsjónarmið með árangurstengdu launakerfi Landsbankans og þeim lið í ráðningarsamningi stefnda þar sem fjallað er um það sama, en stefndi og vitnið Sigurjón Þ. Árnason hafa báðir hafnað því að það hafi verið gert.
Dómurinn telur því að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að stefndi hafi haft heimild til þess að ráðstafa fjármunum bankans þannig að það hefði þýðingu við mat á hugtakinu nákominn í 3. gr. laga nr. 21/1991 né að hann hafi sjálfur haft áhrif á ákvörðun þeirra bónusa sem honum voru greiddir.
Stefnandi telur jafnframt að fjárhagslegir hagsmunir stefnda af fjárhagsstöðu og rekstarafkomu Landsbanka Íslands vegna kaupréttar- og kaupaukasamninga sem voru hluti kjara hans hafi tengt hann bankanum á sambærilegan hátt og lýst var í 4. og 5. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991 eins og hún var orðuð árið 2008.
Að mati dómsins verður rétti sem starfsmaður hefur til að kaupa hlutabréf í bankanum í framtíðinni, sýnist honum það vænlegt þegar hann hefur áunnið sér réttinn, ekki jafnað til þess að hann eigi verulegan hluta í bankanum. Í kaupréttarsamningunum er tekið fram að starfsmaður öðlist ekki réttarstöðu hluthafa fyrr en kaupréttinum hafi verið skipt út fyrir hlutabréf í félaginu. Tveir fuglar í skógi eru bara tveir fuglar í skógi. Þrátt fyrir umsamið leyfi til að kaupa tvo fugla í skógi á mjög góðum kjörum eru þeir hvorki tveir fuglar í hendi né einn, ekki einu sinni fjöður í hendi, eins og dómur Hæstaréttar í máli nr. 333/2011 sýnir. Það nægir ekki að hugur leyfishafans beri hann hálfa leið. Áður en hann getur ráðstafað fuglunum verður hann fyrst að eignast þá og fanga. Að mati dómsins jafnast kaupréttur að hlutabréfum ekki á við eignarrétt að þeim enda fylgja kaupréttinum einum og sér ekki sömu réttaráhrif og eignarréttinum. Því verður ekki talið að kaupréttur stefnda að hlutabréfum í bankanum hafi skapað honum tengsl við bankann sem jafnist á við þau tengsl sem er lýst í 4. og 5. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991 eins og það ákvæði var orðað árið 2008.
Hinu sama gegnir um þær viðbótargreiðslur sem stefndi átti rétt til samkvæmt samningum við bankann um kaupauka. Samkvæmt þeim samningum átti stefndi rétt til greiðslna sem tækju mið af ávöxtun nánar tilgreinds fjölda hlutabréfa í bankanum á ákveðnum tímabilum. Hann átti ekki bréfin sjálf. Sá samningur veitti stefnda því einungis rétt á ákveðnu tímabili til að taka úr hreiðri fugls í skógi egg, óvíst hversu stórt það yrði, sem vonast var til að fuglinn verpti. Sá samningur veitti stefnda hvorki eignarrétt að fuglinum né rétt til þess að kaupa hann. Samningar stefnda við bankann um kaupauka eru því ekki taldir hafa tengt stefnda við Landsbanka Íslands á sambærilegan hátt og lýst er í 4. og 5. tl. 3. gr.
Stefnandi hefur því hvorki fært sönnur á að stefndi hafi haft umfangsmiklar heimildir til þess að ráðstafa fjármunum bankans né að hann hafi komið að ákvörðunum eigin bónusa. Þá verður ekki séð að hann hafi notið þeirrar stöðu innan bankans að sambærilegt geti talist við þá aðstöðu sem kveðið var á um í 4. og 5. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991. Heildarmat á stöðu hans og þeim réttindum sem stefndi átti von á vegna samninga sinna við bankann um kauprétt að hlutabréfum og um kaupauka getur ekki heldur leitt til þess að hann verði talinn hafa verið í sambærilegum tengslum við bankann og lýst er í 4. og 5. tl. 3. gr. Af þessum sökum verður að hafna því að stefndi hafi verið nákominn Landsbanka Íslands. Riftun ráðstafananna verður því ekki reist á 1. mgr. 133. gr. laga nr. 21/1991 og því þarf ekki að fjalla um hvort önnur skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.
Stefnandi byggir í öðru lagi á því að bónusgreiðslur til stefnda hafi verið umfram skyldu, án gagngjalds og hafi leitt til auðgunar stefnda á kostnað bankans og þar með séu greiðslurnar gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Ráðstöfun bónusgreiðslna til stefnda á árinu 2008 hafi verið í andstöðu við sett markmið um afkomu sviðsins og þannig í andstöðu við gildandi reglur um bónusgreiðslur þar sem þær voru greiddar þrátt fyrir rekstrarlegt tap sviðsins. Miðað við fyrirliggjandi útreikning á tekjum og kostnaði sviðsins sé ljóst að greitt hafi verið langt umfram skyldu.
Þegar stefndi réð sig til starfa hjá Landsbanka Íslands var, 12. maí 2003, gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Þar segir að kaupauki skuli greiddur mánaðarlega. Tilgreint er að hámark kaupauka skuli nema tvöföldum árslaunum þannig að heildarlaun geti numið að hámarki þreföldum árslaunum. Tekið er fram að endursamið verði um hlutfallstölu kaupaukans þegar rekstraráætlun næsta árs á eftir liggi fyrir.
Samkvæmt fram lögðum gögnum var hlutfallstala kaupaukans hækkuð í 300% frá og með 1. mars 2006 með ákvörðun Sigurjóns Þ. Árnasonar bankastjóra og Atla Atlasonar starfsmannastjóra þó að uppfylltu því skilyrði að deildin næði árangri umfram sett markmið. Við ráðningarsamning stefnda var gerður viðauki, undirritaður af Atla Atlasyni, þar sem hlutfallstalan var hækkuð í 350% frá 1. ágúst 2006 að teknu tilliti til frammistöðu deildarinnar og starfsmannsins og með ákvörðun Sigurjóns og Atla gat bónus stefnda orðið allt að 400% frá og með 1. apríl 2007.
Gögn málsins sýna einnig að hver starfsmaður verðbréfamiðlunar aflaði bankanum umtalsvert meiri tekna en starfsmenn sem unnu að öðrum verkefnum. Gögn málsins sýna einnig að verðbréfamiðlunin aflaði bankanum 1,529 milljarða í þóknanatekjur á fyrstu sex mánuðum ársins 2008. Það nálgast þóknanatekjur deildarinnar hálft árið 2006, sem voru 1,620 milljarðar, en var þó heldur rýrara en árið 2007 þar sem deildin aflaði bankanum á hálfu ári 2,150 milljarða í þóknanatekjur. Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna hvert var markmið um tekjuöflun deildarinnar árið 2008. Stefnandi hefur því ekki sýnt fram á að sá bónus sem var greiddur stefnda hafi verið í andstöðu við sett markmið og enn síður að stefndi hafi ekki unnið fyrir þessum bónusgreiðslum þannig að líta beri svo á að þær hafi verið gjöf til hans en ekki gjald. Af þessum sökum verður riftun ráðstafananna því ekki heldur byggð á 131. gr. laga nr. 21/1991.
Þar sem því hefur verið hafnað að stefndi hafi verið nákominn Landsbanka Íslands í skilningi 6. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 eins og það ákvæði hljóðaði fyrir breytingu með lögum nr. 95/2010 svo og því að bónusgreiðslur til stefnda sem bankinn innti af hendi í júní, júlí, ágúst, september og október 2008 hafi verið gjöf í skilningi 131. gr. laganna er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um riftun þeirra ráðstafana sem fólust í þessum greiðslum. Hann er því jafnframt sýknaður af endurgreiðslukröfu stefnanda.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir að meðtöldum virðisaukaskatti hæfilega ákveðinn 1.004.000 kr.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Steinþór Gunnarsson, er sýkn af kröfum stefnanda, LBI hf.
Stefnandi greiði stefnda 1.004.000 kr. í málskostnað.