Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-96

Grímur Víkingur Þórarinsson (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Árna Reynissyni ehf. og Árna Reynissyni (Baldvin Hafsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Vátryggingarsamningur
  • Vátryggingamiðlun
  • Uppgjör
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 8. mars 2019 leitar Grímur Víkingur Þórarinsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. febrúar sama ár í málinu nr. 454/2018: Grímur Víkingur Þórarinsson gegn Árna Reynissyni ehf. og Árna Reynissyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Árni Reynisson ehf. og Árni Reynisson leggjast gegn beiðninni.

Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 15.000.000 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar vegna ætlaðrar vanrækslu gagnaðila, sem fengust við vátryggingamiðlun, um að endurnýja starfstryggingu hans hjá ensku vátryggingafélagi. Í héraði reisti leyfisbeiðandi kröfu sína meðal annars á því að starfstryggingin hafi fallið niður af þessum sökum og hann farið á mis við bætur úr henni vegna óvinnufærni. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila að svo stöddu þar sem ekki hafi legið fyrir hvort leyfisbeiðandi hafi orðið fyrir tjóni, hvert það tjón væri og hvort það stafaði af bótaskyldri háttsemi gagnaðila. Við munnlegan flutning málsins fyrir Landsrétti lagði leyfisbeiðandi fram gögn um uppgjör bóta við vátryggingafélag sem hann kvað hafa yfirtekið skyldur upphaflegs vátryggjanda gagnvart sér. Breytti hann af þessum sökum dómkröfu sinni á þann hátt að til frádráttar henni kæmi greiðsla á 15.000.000 krónum og stóð þannig ágreiningur aðilanna upp frá því um dráttarvexti af kröfunni og málskostnað. Landsréttur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda með þeim rökum að með uppgjörinu hafi hann fallið frá frekari kröfum á hendur vátryggingafélaginu, þar með talið um dráttarvexti og kostnað af innheimtu bóta. Skorti því orsakatengsl milli háttsemi gagnaðila og ætlaðs tjóns leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem hann hafi ekki afsalað sér rétti til dráttarvaxta og málskostnaðar úr hendi gagnaðila með fyrrnefndu uppgjöri. Þá vísar hann til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um starfsheimildir vátryggingamiðlara og réttindi og skyldur þeirra gagnvart vátryggðum, auk þess sem reyni á túlkun kvittunar og áhrif hennar á rétt tjónþola. Loks varði málið mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.