Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-133

A (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)
gegn
B skiptastjóra (sjálfur)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Atvinnurekstrarbann
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 29. nóvember 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 15. nóvember 2023 í máli nr. 704/2023: A gegn B skiptastjóra. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila varðar hvort leyfisbeiðandi skuli sæta atvinnurekstrarbanni samkvæmt fyrirmælum XXVI. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 133/2022 um breytingu á lögunum.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem leyfisbeiðanda var gert að sæta atvinnurekstrarbanni í þrjú ár. Gagnaðili málsins er skiptastjóri þrotabús C ehf. en leyfisbeiðandi var fyrirsvarsmaður félagsins og eini eigandi þess. Í úrskurði héraðsdóms var rakið að ekkert lægi fyrir um hvort leyfisbeiðandi hefði verið ákærður eða dæmdur til refsingar fyrir þá háttsemi sem gagnaðili vísaði til í rökstuðningi sínum fyrir atvinnurekstrarbanni og tengdist rekstri C ehf . Þá kom fram að um ábyrgð leyfisbeiðanda færi eftir lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994. Var leyfisbeiðandi talinn með vítaverðum hætti hafa virt að vettugi skyldur sínar sem fyrirsvarsmaður C ehf. Mat héraðsdóms var að háttsemi leyfisbeiðanda við rekstur félagsins nægði ein og sér til þess að fyrir hendi væru skilyrði til að lagt yrði atvinnurekstrarbann á hann og ekki yrði séð að rök stæðu til þess að bannið yrði ákveðið skemur en í þrjú ár.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði mikilvæga háttsemi og hafi ríkt fordæmisgildi þar sem kæruefnið varði nýja löggjöf um atvinnurekstrarbann. Hann vísar til þess annars vegar að mikilvægt sé að Hæstiréttur leysi úr því hvort hin nýju réttarúrræði teljist til refsikenndra viðurlaga og hins vegar sé áríðandi að Hæstiréttur kveði upp úr hvort og með hvaða hætti lög nr. 133/2022 gildi með afturvirkum hætti. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til misvísandi túlkunar héraðsdómstóla á framangreindum atriðum. Þá telur hann að forsendur úrskurðar um atvinnurekstrarbann standist ekki og skilyrði XXVI. kafla laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um túlkun ákvæða XXVI. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.