Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-119

Nýja tæknihreinsunin ehf. (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
A (Kristinn Bjarnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignakaup
  • Ógilding samnings
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 28. mars 2019 leitar Nýja tæknihreinsunin ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í málinu nr. 502/2018: Nýja tæknihreinsunin ehf. gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. A leggst gegn beiðninni.

Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðila til efnda á greiðslu samkvæmt kaupsamningi um iðnaðarhúsnæði í [...] að fjárhæð 17.000.000 krónur. Með framangreindum dómi Landsréttar sem staðfesti héraðsdóm var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga á þeim grunni að gagnaðili hafi verið andlega ófær um að skilja og takast á hendur þá fjárhagslegu skuldbindingu sem hafi falist í kaupsamningnum.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem engar sannanir hafi legið fyrir um að gagnaðili hafi verið svo andlega veikur að hann hafi ekki skilið þá skuldbindingu sem hafi falist í kaupsamningnum. Þá sé niðurstaða Landsréttar í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar sem hafi sett ströng skilyrði til að ógilda megi samninga á grundvelli andlegra veikinda samningsaðila. Að þessu leyti hafi úrslit málsins jafnframt almennt gildi.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.