Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-164

Allt annað ehf. (Jónas Fr. Jónsson lögmaður)
gegn
Þorsteini Magnússyni, Saskiu Freyju Schalk, Fredericus Marinus Emiel Schalk og Elínborgu Kristínu Þorláksdóttur (Guðjón Ármann Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Lóðarleigusamningur
  • Útburðargerð
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 24. nóvember 2025 leitar Allt annað ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 10. sama mánaðar í máli nr. 664/2025: Allt annað ehf. gegn Þorsteini Magnússyni, Saskiu Freyju Schalk, Fredericus Marinus Emiel Schalk og Elínborgu Kristínu Þorláksdóttur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðilar verði með beinni aðfarargerð bornir út af fasteign á lóð hans og þau og annað sem þeim tilheyrir fjarlægt af lóðinni, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989. Með úrskurði héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að réttur leyfisbeiðanda væri ekki svo skýr að unnt væri að fallast á kröfu hans og henni því hafnað. Landsréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni enda hafi það verulega þýðingu fyrir eigendur fasteigna og aðila í fasteignaviðskiptum. Auk þess hafi það fordæmisgildi varðandi það hvenær réttur gerðarbeiðanda sé svo skýr að hægt sé að fallast á kröfur hans. Þá kunni einnig að hafa fordæmisgildi hvernig framburður vitnis, sem ekki hafi skynjað atvik af eigin raun, er metinn og um vægi vitnaskýrslna samanborið við þinglýst gögn. Úrlausn um kæruefnið hafi jafnframt grundvallarþýðingu um hvort leyfisbeiðandi geti nýtt jörð sína á þann hátt sem hann kýs. Loks telur leyfisbeiðandi niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga enda hafi rétturinn litið fram hjá traustfangsreglum þinglýsingalaga og ljáð óljósum vitnisburði meira vægi en skriflegum gögnum.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.