Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-131
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lögmannsþóknun
- Fyrning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 16. apríl 2019 leita Lögskil ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í málinu nr. 624/2018: Lögskil ehf. gegn Nýborg ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Nýborg ehf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu tveggja reikninga sem gefnir voru út á árinu 2017 vegna lögfræðiþjónustu sem hann kveðst hafa veitt gagnaðila á árunum 2003 til 2013. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda með þeim rökum að krafan hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað 20. desember 2017 og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til því þar hafi verið lögð til grundvallar röng lýsing atvika þvert á skýr gögn sem fyrir liggi í málinu og séu óumdeild. Þá vísar hann til þess að með greiðslu gagnaðila inn á skuldina 27. desember 2013 og fyrirmælum gagnaðila til sín 20. mars 2014 og 9. mars 2015, um að ráðstafa inneign á fjárvörslureikningi inn á skuldina, hafi fyrning verið rofin og krafan því ekki verið fyrnd þegar málið var höfðað. Loks telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.