Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-43

B (sjálfur)
gegn
A (Oddgeir Einarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Börn
  • Umgengni
  • Aðför
  • Innsetningargerð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 14. mars 2025 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 28. febrúar 2025 í máli nr. 67/2025: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að sonur hans og gagnaðila verði tekinn úr umráðum gagnaðila og afhentur honum svo umgengni geti farið fram með nánar tilgreindum hætti.

4. Með úrskurði héraðsdóms var krafa leyfisbeiðanda tekin til greina en Landsréttur felldi hann úr gildi. Í úrskurði Landsréttar kom fram að rétturinn hefði með dómi 24. febrúar 2023 ákveðið að gagnaðili færi með forsjá sonar aðila og mælt fyrir um umgengni leyfisbeiðanda við hann. Landsréttur tók fram að ljóst væri að leyfisbeiðandi hefði ítrekað verið við neyslu fíkniefna eftir að sá dómur féll og gert að sæta fangelsi samkvæmt tveimur dómum héraðsdóms í samtals um átta mánuði. Hefðu forsendur dómsins um umgengni leyfisbeiðanda því ekki gengið eftir. Þá skorti verulega á upplýsingar um núverandi stöðu hans. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að þegar litið væri til þeirrar óvissu sem uppi væri um stöðu leyfisbeiðanda yrði að líta svo á að gagnaðili hefði leitt að því nægar líkur að hagsmunum barnsins kynni að vera stefnt í hættu með umgengni hans. Var því talið varhugavert að gerðin næði fram að ganga, sbr. 1. mgr. 45. gr. og 4. mgr. 50. gr. barnalaga nr. 76/2003.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur en ella að málið hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann til þess að mikilvægt sé að Hæstiréttur fjalli um álitaefni málsins, meðal annars hvort Landsrétti hafi verið fært að taka afstöðu til þess hvort forsendur dóms Landsréttar um forsjá og umgengni væru brostnar. Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir leyfisbeiðanda og horft hafi verið fram hjá því hvaða afleiðingar synjun aðfarar geti haft fyrir hann og barn hans. Málið varði jafnframt sérstaklega mikilvæga hagsmuni barnsins og hafi grundvallarþýðingu fyrir málið. Loks varði kæruefnið mikilsverða almannahagsmuni.

6. Eins og málið liggur fyrir verður á það fallist að skilyrði 3. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.