Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-266

Póstmarkaðurinn ehf. (Hörður Felix Harðarson lögmaður)
gegn
Íslandspósti ohf. (Andri Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samkeppni
  • Skaðabætur
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 20. desember 2018 leitar Póstmarkaðurinn ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 23. nóvember sama ár í málinu nr. 276/2018: Póstmarkaðurinn ehf. gegn Íslandspósti ohf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslandspóstur ohf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna ólögmætra og saknæmra aðgerða gagnaðila en þær hafi verið andstæðar 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og komið í veg fyrir starfsemi leyfisbeiðanda við söfnun og miðlun bréfapósts á tímabilinu frá nóvember 2008 til febrúar 2010. Í héraðsdómi sem staðfestur var í Landsrétti var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda með þeim rökum að hún hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað í apríl 2014 þar sem leyfisbeiðandi hafi haft vitneskju um ætlað tjón og þann sem bæri ábyrgð á því í síðasta lagi í mars 2010, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Beiðni sinni til stuðnings vísar leyfisbeiðandi til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem ekki hafi reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti. Telur hann ótækt að álykta að hann hafi við upphaf starfsemi sinnar í mars 2010 haft vitneskju um hið ætlaða tjón. Engar rekstrartölur hafi legið fyrir til að meta hvort hagnaður yrði af starfseminni og margir aðrir óvissuþættir hafi eðli máls samkvæmt valdið því að ekki hafi þegar í byrjun verið unnt að sjá fyrir hver afkoma yrði af rekstrinum, svo sem viðbrögð keppinauta hans. Að þessu leyti telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Er beiðninni því hafnað.