Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-95
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Galli
- Fjártjón
- Úrbætur
- Matsgerð
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 7. maí 2025 leitar Landstólpi ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. apríl sama ár í máli nr. 234/2024: Annir ehf. gegn Landstólpa ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili höfðaði mál þetta á hendur leyfisbeiðanda og krafðist skaðabóta vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna kaupa á sambyggðri rúllu- og pökkunarvél af leyfisbeiðanda sem haldin hefði verið galla vegna titrings. Leyfisbeiðandi hafnaði því að um væri að ræða galla, en tímabundinn titringur væri alltaf til staðar í slíkum vélum, vélin hafi verið nothæf og hristingurinn aðeins staðið yfir í stuttan tíma hverju sinni.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Landsréttur taldi að í ljósi fyrirliggjandi mælinga um titring í vélinni, sem ekki hefði verið hnekkt og fengju stuðning í vætti vitna og þess að áfrýjandi lét framkvæma viðgerð á vélinni án þess að staðreyna hvaða árangur hún hefði borið svo og að óumdeilt væri að titringurinn hefði horfið skömmu síðar, stæði áfrýjanda nær að sýna fram á að hann hefði horfið af öðrum ástæðum en vegna viðgerðarinnar. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að titringur í vélinni hefði verið verulegur og meiri en búast mátti við og því falið í sér galla í skilningi 17. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup sem leyfisbeiðandi bæri ábyrgð á. Landsréttur tók fram um skaðabótakröfu gagnaðila að ekkert hefði legið fyrir í málinu um að vélin hefði verið ónothæf. Þá hefði gagnaðili tekið aðra vél á leigu þrátt fyrir að hafa staðið til boða endurgjaldslaus afnot af vél annarrar tegundar frá leyfisbeiðanda. Þar sem gagnaðili hefði ekki sýnt fram á nauðsyn þess að leigja vél frá þriðja aðila var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfu um skaðabætur vegna þess kostnaðar. Þá var vísað til þess að kostnaður við öflun matsgerðar og lögfræðikostnaður því tengdur teldist til málskostnaðar. Að mati Landsréttar var gagnaðila nauðsynlegt að afla matsgerðar dómkvadds manns til að sýna fram á galla í vélinni og knýja á um úrbætur. Breytti þá engu þótt um drög að slíkri matsgerð hefði verið að ræða enda lægi fyrir að það hefði verið á grundvelli þeirra draga sem leyfisbeiðandi hefði ráðist í fyrrgreindar úrbætur. Var leyfisbeiðandi sýknaður af skaðabótakröfu gagnaðila en með vísan til grunnraka 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. a-, e- og g-liði 129. gr. sömu laga, gert að greiða gagnaðila samtals 4.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu um sönnunarkröfur í kaupa- og kröfurétti. Landsréttur hafi með dómi sínum lagt að jöfnu neytendakaup og lausafjárkaup. Gagnaðili sé ekki neytandi heldur félag í atvinnurekstri. Hann hafi haldið fram galla án þess að sýna fram á af hverju hinn ætlaði galli stafaði. Þá hafi gallinn horfið án þess að sýnt væri fram á það með óyggjandi hætti af hvaða ástæðu. Enn fremur byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Með honum sé skjali sem sé skilmerkilega merkt sem drög veitt vægi matsgerðar þrátt fyrir að henni hefði verið hafnað í héraðsdómi. Þá hafi leyfisbeiðandi verið sýknaður af kröfu gagnaðila en engu að síður gert að greiða honum mats- og lögmannskostnað með vísan til grunnraka 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Sú niðurstaða Landsréttar gangi þvert gegn skýru orðalagi ákvæðisins.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi, meðal annars um greiðslu skaðabóta vegna galla í lausafjárkaupum og um ákvörðun málskostnaðar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.