Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-14
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Dánarbússkipti
- Endurupptaka
- Erfðaréttur
- Eignarréttur
- Jarðalög
- Óðalsréttur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 10. febrúar 2022 leita A, B, C, D, E, F, G H og I leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 21. janúar 2022 í máli nr. 787/2021: A o.fl. gegn sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að felld verði úr gildi ákvörðun gagnaðila 12. mars 2021 um að synja beiðni þeirra um endurupptöku einkaskipta á dánarbúum J og K á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991. Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðenda þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að nýjar eignir hefðu komið fram frá lokum einkaskipta á dánarbúi J og skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991 því ekki uppfyllt. Þá hefðu leyfisbeiðendur ekki fært fyrir því haldbær rök að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laganna væru uppfyllt til endurupptöku einkaskipta á dánarbúi K.
4. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins geti haft fordæmisgildi um yfirfærslu eignarréttinda og um grundvallarþætti á sviði erfðaréttar. Þannig hafi úrslit málsins verulegt gildi um eignarhald á þeim óðalsjörðum sem enn voru til 1. júlí 2021. Þá sé túlkun Landsréttar á þágildandi 52. gr. jarðalaga nr. 81/2004 röng. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni þeirra.
5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.