Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-5
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Félagsdómur
- Fyrning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 6. janúar 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2024 í máli nr. E-1354/2024: A gegn B ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðilum til greiðslu 205.964 króna ásamt nánar tilgreindum vöxtum, vegna ferða til og frá vinnu í verslun gagnaðila […] í […] á árunum 2017 til 2019, á þeim tíma dags sem strætisvagnar ganga ekki. Leyfisbeiðandi byggði kröfuna á niðurstöðu Félagsdóms 30. nóvember 2021 í máli nr. 9/2021.
4. Héraðsdómur féllst ekki á að fyrningu kröfu leyfisbeiðanda hefði verið slitið með málsókn Alþýðusambands Íslands fyrir Félagsdómi. Var niðurstaðan sú að krafa leyfisbeiðanda í málinu væri fyrnd og gagnaðili sýknaður.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi fordæmisgildi um hvort málshöfðun stéttarfélags fyrir Félagsdómi slíti fyrningu en á það hafi ekki reynt áður. Leyfisbeiðandi tekur fram að hér geti ekki átt við tilvísun héraðsdóms til dóms Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 549/2002, þar sem ekki var litið svo á að viðurkenningakrafa Öryrkjabandalagsins vegna tekjuskerðingar hefði ekki rofið fyrningu. Dómurinn hafi gengið í tíð eldri fyrningarlaga og geti hann ekki haft fordæmisgildi. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða héraðsdóms taki ekki mið af sérstöðu stéttarfélaga sem með lögum sé fengið vald til að fá úrlausn um túlkun kjarasamnings án þess að þurfa að gera kröfu fyrir hvern og einn félagsmann. Loks telur leyfisbeiðandi að standi héraðsdómur óhaggaður muni dómsmálum fjölga.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að fullnægt sé því skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða verulega samfélagsþýðingu að öðru leyti. Beiðni um áfrýjunarleyfi beint til Hæstaréttar er því hafnað.