Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-198
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Kröfugerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 15. október 2018 leitar þrotabú VBS eignasafns hf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í málinu nr. 573/2018: Þrotabú VBS eignasafns hf. gegn þrotabúi JB Byggingafélags ehf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með beiðni 19. október 2018 leitar þrotabú JB Byggingafélags ehf. jafnframt leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurðinn fyrir sitt leyti.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðandans þrotabús JB Byggingafélags ehf. um að fjórar kröfur hans með nánar tilteknum fjárhæðum verði viðurkenndar við gjaldþrotaskipti á leyfisbeiðandanum þrotabúi VBS eignasafns hf. með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Héraðsdómur tók kröfurnar til greina með úrskurði 25. júní 2018, en í ofangreindum úrskurði Landréttar var sú niðurstaða staðfest um þrjár af kröfunum og þeirri fjórðu hafnað. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort annmarkar séu á kröfulýsingu og kröfugerð leyfisbeiðandans þrotabús JB Byggingafélags ehf. fyrir dómi, þar sem annars vegar hafi ekki verið krafist riftunar viðkomandi ráðstafana og hins vegar viðurkenningar á fjárkröfu á hendur þrotabúinu á þeim grundvelli.
Beiðni sinni til stuðnings vísar leyfisbeiðandinn þrotabú VBS eignasafns hf. til þess að niðurstaða ofangreinds úrskurðar Landsréttar og rökstuðningur fyrir henni feli í sér nýja reglu um kröfugerð í dómsmáli til riftunar ráðstafana þrotamanns á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 og hafi málið því verulegt fordæmisgildi. Þá feli úrskurðurinn í sér lokaákvörðun um þau ágreiningsefni sem deilt er um í málinu og hafi hann því grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Bendir leyfisbeiðandinn jafnframt á að málið varði talsverða fjárhagslega hagsmuni sem skipti miklu fyrir kröfuhafa hans. Að lokum telur leyfisbeiðandi að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til enda gangi hann þvert gegn fyrirmælum XX. kafla laga nr. 21/1991 og dómafordæmum Hæstaréttar um að endurgreiðslu- og bótakröfur komi því aðeins til álita að kveðið sé samhliða á um riftun ráðstafana.
Leyfisbeiðandinn þrotabú JB Byggingafélags ehf. telur skilyrði 167. gr. laga nr. 91/1991 ekki vera uppfyllt, hvorki að því er varðar sig né leyfisbeiðandann þrotabú VBS eignasafns hf. Verði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandanum þrotabúi VBS eignasafns hf. verði veitt kæruleyfi leiði það til þess að fallast verði á umsókn leyfisbeiðandans þrotabús JB Byggingafélags ehf. samkvæmt 3. mgr. 177. gr., sbr. 5. mgr. 174. gr. Verði ekki fallist á að veita gagnaðila kæruleyfi falli umsókn þessa leyfisbeiðanda jafnframt niður.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrlausn um kæruefnið hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram fyrri dómsúrlausnir þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er því hafnað umsókn leyfisbeiðandans þrotabús VBS eignasafns hf. um kæruleyfi og þar með einnig umsókn leyfisbeiðandans þrotabús JB Byggingafélags ehf.