Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-148
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattalög
- Tekjuskattur
- Einkahlutafélag
- Dráttur á máli
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 15. október 2025 leitar Piotr Listopad leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 2. sama mánaðar í máli nr. 155/2024: Ákæruvaldið gegn Piotr Listopad. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir meiri háttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2017 til og með 2019, vegna tekjuáranna 2016 til og með 2018, með því að vanframtelja skattskyldar tekjur frá félagi í hans eigu. Refsing hans var ákveðin fangelsi í sex mánuði en hún skilorðsbundin til tveggja ára. Auk þess var hann dæmdur til greiðslu sektar í ríkissjóð en ella að sæta fangelsi í tólf mánuði. Í héraðsdómi kom fram að leyfisbeiðandi hefði verið eigandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins og í samræmi við það borið ábyrgð á því að rekstur þess væri í lögmætu formi. Hefði hann skilað efnislega röngum skattframtölum, vanframtalið tekjur sínar og þannig komið sér hjá greiðslu á verulegri fjárhæð opinberra gjalda. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi hefði reist varnir sínar á því að hinar ætluðu vanframtöldu tekjur hefðu ekki verið tekjur heldur endurgreiðslur félagsins á fjármunum sem hann hefði átt inni hjá því. Um hefði verið að ræða laun, vörur sem leyfisbeiðandi hefði sjálfur keypt í þágu félagsins og lán sem hann hefði veitt félaginu við stofnun þess. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri að finna í nýjum gögnum sem leyfisbeiðandi hefði lagt fyrir Landsrétt eða í framburði hans og vitnis fyrir réttinum sem væri til þess fallið að skjóta stoðum undir málsvörn hans.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að það sé rangt sakarmat Landsréttar að telja sannað að hann hafi vísvitandi og af stórkostlegu hirðuleysi vanframtalið tekjur sínar á árunum 2016 til og með 2018. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi hann lagt fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði lánað félaginu fé og að ekki hefði verið um að ræða tekjur heldur endurgreiðslu á skuld félagsins við eiganda. Þá hefði Landsréttur ekkert tillit tekið til þess að samkvæmt 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt þurfi ásetningur eða stórkostlegt hirðuleysi að koma til. Einnig telur leyfisbeiðandi það rangt mat hjá Landsrétti að hann hafi sýnt af sér ásetning eða stórfellt gáleysi samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þegar hann treysti á ráðleggingar bókara og viðskiptafræðings við úttektir úr félaginu. Það geti í versta falli hafa verið einfalt gáleysi og því hafi borið að sýkna hann af kröfum ákæruvalds.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.