Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-278

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Hafsteini Oddssyni (Lúðvík Bergvinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Hættubrot
  • Sönnun
  • Matsgerð
  • Hafnað

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 10. nóvember 2020 leitar Hafsteinn Oddsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 23. október sama ár í málinu nr. 635/2019: Ákæruvaldið gegn Hafsteini Oddssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur og leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa veist að A með ítrekuðum höggum og spörkum í andlit og búk, klætt hana úr öllum fötunum og því næst yfirgefið hana þar sem hún lá nakin, mikið slösuð og án bjargar úti á götu. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í fjögur ár og honum gert að greiða A miskabætur.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Byggir hann á því að meðferð málsins hafi verið stórlega ábótavant og vísar í þeim efnum meðal annars til þess að matsmaður, sem hafði skilað skriflegri matsgerð og viðbótarmatsgerð, hafi við aðalmeðferð málsins í munnlegri skýrslugjöf fyrir héraðsdómi breytt niðurstöðu sinni í tengslum við tilurð áverka í andliti og á höfði brotaþola frá því sem fram kom í matsgerðum hans og vísað í því sambandi til nýrra myndvinnslugagna sem ekki hafi verið meðal framlagðra gagna málsins. Hafi héraðsdómur ákveðið að leggja umrædd gögn fram sjálfur í málinu og heimilað matsmanninum að fjalla um þau frekar. Hafi framburður matsmannsins verið grundvöllur fyrir niðurstöðu dómsins. Að mati leyfisbeiðanda hafi málsmeðferðin að þessu leyti hvorki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 né meginreglur sakamálaréttarfars um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Að þessu leyti telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir meðferð sakamála. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að lögregla hafi ekki gætt hlutlægni við rannsókn málsins og meðal annars horft framhjá ýmsum atriðum sem gátu horft til sýknu. Mikilvægt sé að mati leyfisbeiðanda að Hæstiréttur taki vinnubrögð lögreglu og sönnunarmat fyrir dómi til sérstakrar skoðunar í málinu. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að mikilvægt sé að fá endurskoðun á þeirri ákvörðun héraðsdóms að fjölskipa ekki dóminn í málinu í ljósi umfangs þess og þar sem verulega hafi reynt á sönnunarmat og gildi sönnunargagna.

Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.