Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-45
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Forsjá
- Umgengni
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 24. mars 2023 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. febrúar 2023 í máli nr. 577/2022: A gegn B og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um forsjá og umgengni við barn þeirra.
4. Með dómi Héraðsdóms var leyfisbeiðanda dæmd forsjá barns aðila en gagnaðila dæmd regluleg umgengni við það, fyrst um sinn undir eftirliti en síðar skyldi hún vera án eftirlits. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms um forsjá leyfisbeiðanda en jók umgengni gagnaðila við barnið að loknum aðlögunartíma undir eftirliti. Landsréttur vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003, ætti barn rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það byggi ekki hjá, enda væri það ekki andstætt hagsmunum þess. Af gögnum málsins yrði ráðið að með gagnaðila og barni hans hefði myndast hlýleg tengsl sem mikilsvert væri að varðveita og styrkja og að gagnaðili teldist fær um að skapa barninu öruggt og uppbyggilegt umhverfi ef hann héldi sig frá neyslu.
5. Leyfisbeiðandi vísar til þess að málið hafi verulegt almennt gildi um heimildir og eða skyldur dómstóla, í málum á grundvelli barnalaga, til þess að fylgjast með gagnaöflun og hlutast til um að nauðsynlegra gagna verði aflað, sbr. 42. gr. laganna. Telur leyfisbeiðandi að Landsréttur hafi vanrækt að hlutast til um gagnaöflun og færa rök fyrir breytingum sínum á niðurstöðu héraðsdóms sbr. 3. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Engar forsendur hafi verið til þess að tvöfalda reglulega umgengni við barnið. Málsmeðferðinni hafi því verið stórlega ábótavant og dómurinn sé bersýnilega rangur að efni til. Þá telur leyfisbeiðandi jafnframt að niðurstaða í ágreiningi um forsjá þessa barns varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni umfram það sem almennt eigi við í forsjármálum, enda sé öryggi barnsins í húfi.
6. Það athugist að þó svo að í dómi Landsréttar hafi verið kveðið á um að frá 2. september 2023 skuli umgengni gagnaðila við barnið ekki lengur vera undir eftirliti sérfræðings í málefnum barna geta breyttar aðstæður leitt til þess að sýslumaður nýti heimild sína samkvæmt 6. mgr. 47. gr. barnalaga nr. 76/2003 til breytinga á skipan inntaks umgengisréttar. Að þessu sérstaklega gættu og að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að umgengni barna við foreldra sína. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.