Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-126

A (Unnar Steinn Bjarndal lögmaður)
gegn
B (Birgir Már Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Fjárslit
  • Kaupmáli
  • Hjón
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 27. október 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 13. sama mánaðar í máli nr. 465/2022: A gegn B, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra samkvæmt XIV. kafla laga nr. 20/1991. Meðal ágreiningsefna er hvort kaupmáli milli aðila frá 14. ágúst 2017 verði lagður til grundvallar við fjárskipti þeirra þar sem meðal annars er kveðið á um að tilgreind fasteign sé séreign gagnaðila.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfu gagnaðila þess efnis að kaupmálinn yrði lagður til grundvallar þannig að fasteignin teldist séreign hans. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki yrði byggt á ákvæðum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga við úrlausn málsins. Um málatilbúnað leyfisbeiðanda byggðan á 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að gegn mótmælum gagnaðila yrði ekki talið sannað að kaupmálinn hefði verið gerður vegna veikinda hans. Var fallist á það með héraðsdómi að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að það væri bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 104. gr. að leggja kaupmálann til grundvallar við skiptin.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi um meðal annars skýringu 104. gr. hjúskaparlaga. Þannig sé sérstök þörf á því að skýra beitingu ákvæðisins hvað varðar sanngirnismat þegar ákvæðinu er beitt um séreignir. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar sé röng í ýmsu tilliti, meðal annars um beitingu 104. gr. hjúskaparlaga.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að kæruefnið geti haft fordæmisgildi um skýringu á 104. gr. hjúskaparlaga þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðnin er því tekin til greina.