Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-252
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Frávísun
- Kæruheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 11. september 2019 leitar Bjarki H. Diego eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 28. ágúst sama ár í málinu nr. 448/2019: Bjarki H. Diego gegn íslenska ríkinu á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að ógiltur verði úrskurður ríkisskattstjóra 30. desember 2011 um endurákvörðun opinberra gjalda hans fyrir gjaldárið 2006 svo sem honum var breytt með úrskurði yfirskattanefndar 9. desember 2013. Héraðsdómur vísaði málinu frá með þeim rökum að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr dómkröfum sínum. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með framangreindum úrskurði. Leitar leyfisbeiðandi kæruleyfis til að fá því hnekkt frávísun málsins frá héraðsdómi.
Samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 76/2019 sem tóku gildi 14. júní 2019, er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Getur úrskurður Landsréttar samkvæmt því sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir úrskurður Landsréttar ekki kæru til Hæstaréttar eftir framangreindri heimild ef þar hefur verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun svo sem hér er um að ræða.
Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni, er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Þar er ekki að finna heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar þar sem staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að vísa máli að hluta eða öllu leyti frá dómi. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.