Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-93

A (Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður)
gegn
B og C (Helgi Þorsteinsson Silva lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ærumeiðingar
  • Meiðyrði
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 30. apríl 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 86/2024: A gegn B og C. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu ummæla sem gagnaðilar settu fram í greinargerð til kærunefndar húsamála og greiðslu miskabóta.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að með ummælum gagnaðila hefði verið fullyrt að leyfisbeiðandi væri andlega veik. Landsréttur tók fram að til þess væri að líta að ummælin hefðu komið fram eftir að leyfisbeiðandi sem bjó þá í sama fjölbýlishúsi og gagnaðilar hafði kært þau til kærunefndarinnar og sakað þau og aðra íbúa meðal annars um skemmdarverk og lygar. Þegar litið væri til þess samhengis sem ummælin hefðu verið sett fram í og fyrirliggjandi gagna yrði ekki annað lagt til grundvallar en að gagnaðilar hefðu verið að lýsa skoðun sinni á ástæðu ósættis aðila. Hefðu þau verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna. Þá væru nefndarmenn í kærunefndinni bundnir trúnaði og ekkert lægi fyrir um að ummælunum hefði verið dreift enda væri nafnleyndar gætt við birtingu úrskurða nefndarinnar. Taldi Landsréttur því að tjáning gagnaðila hefði rúmast innan þess frelsis sem þau nytu samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og hafi jafnframt verulegt almennt gildi. Með aðdróttun sinni hafi gagnaðilar brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar sem séu mikilsverð stjórnarskrárvarin réttindi. Þá geti úrslit málsins haft verulegt almennt gildi um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs, einkum með tilliti til aðgreiningar milli staðhæfinga um staðreyndir og gildisdóma. Þá hafi verulegt almennt gildi að fá dóm Hæstaréttar um þýðingu þess að ummælin hafi komið fram gagnvart einstaklingum sem bundnir séu trúnaði. Að auki byggir leyfisbeiðandi á að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið ábótavant og dómur Landsréttar bersýnilega rangur.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.