Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-112
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Börn
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 8. júlí 2024 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. júní sama ár í máli nr. 133/2023: Ákæruvaldið gegn X. Dómurinn var birtur ákærða 13. júní 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir kynferðisbrot gegn brotaþola frá því að hún var þrettán ára þar til hún varð sextán ára. Refsing hans var ákveðin fangelsi í fimm ár auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna.
4. Leyfisbeiðandi kveðst með áfrýjun aðallega vilja ná fram ómerkingu héraðsdóms og dóms Landsréttar en til vara að dómur Landsréttar verði ómerktur. Til þrautavara leitar hann eftir endurskoðun á niðurstöðum reistum á skýringu eða beitingu réttarreglna, niðurstöðum sem byggðar séu á sönnunargildi annarra gagna en munnlegs framburðar og endurskoðun á ákvörðun viðurlaga og fjárhæð einkaréttarkröfu. Leyfisbeiðandi vísar einkum til þess að fyrir sitt tilstilli hafi eftir uppsögu héraðsdóms komið fram umfangsmikil samskiptagögn af miðlinum Snapchat. Leyfisbeiðandi telur gögnin í samræmi við framburð sinn fyrir lögreglu og héraðsdómi í aðalatriðum en í ósamræmi við framburð brotaþola. Hann telur samskiptagögnin sýna að hann hafi ekki verið látinn njóta þess grundvallarréttar við meðferð málsins í héraði að vera talinn saklaus uns sekt er sönnuð. Með tilkomu gagnanna hafi forsendur héraðsdóms orðið úreltar og leyfisbeiðandi ekki fengið endurskoðun æðra dóms á þýðingarmestu hlutrænu sönnunargögnum málsins. Þetta feli í sér að meðferð málsins sé stórlega ábótavant. Leyfisbeiðandi telur þá niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga að sannað teljist gegn staðfastri neitun hans að hann hafi gerst sekur um nauðgun og kynferðisbrot gegn brotaþola samkvæmt ákærulið I.1. Að lokum telur leyfisbeiðandi að við ákvörðun refsingar hafi ekki verið tekið tillit til atriða sem horfi til refsimildunar.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.