Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-22
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Aðildarhæfi
- Verksamningur
- Laun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 28. febrúar 2022 leitar körfuknattleiksdeild Í.R. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. sama mánaðar í máli nr. 708/2020: Körfuknattleiksdeild Í.R. gegn Sigurði Gunnari Þorsteinssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili telur ekki efni til að verða við beiðninni.
3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til samnings sem þeir gerðu árið 2019 um að gagnaðili myndi æfa og leika körfuknattleik hjá leyfisbeiðanda. Í hans fyrsta leik slasaðist hann á fæti og var að mati læknis ófær um að spila íþróttina næstu 12 mánuði. Í kjölfarið reis ágreiningur milli aðila um greiðslu verklauna á grundvelli framangreinds samnings. Gagnaðili höfðaði mál á hendur leyfisbeiðanda og krafðist nánar tiltekinna greiðslna á grundvelli hans. Byggir hann á því að samningurinn geri ráð fyrir að hann gæti orðið fyrir meiðslum við störf sín og því geti meiðslin ekki leyst leyfisbeiðanda undan greiðsluskyldu. Leyfisbeiðandi telur hins vegar að þar sem ekki hafi orðið af vinnuframlagi af hálfu gagnaðila hafi hann ekki unnið það verk sem samningurinn kvað á um.
4. Í dómi héraðsdóms var litið til þess að ákvæði fyrrgreinds samnings bentu eindregið til þess að áhætta vegna slysa, sem ættu sér stað í körfuknattleikjum, hvíldi á leyfisbeiðanda. Var því fallist á kröfu gagnaðila til gjaldfallinna greiðslna til 18. mars 2020 þegar leiktímabilinu lauk. Í dómi Landsréttar voru þau ákvæði samningsins sem lúta að meiðslum leikmanns rakin. Talið var að ekki væri unnt að ráða annað af málsgögnum en að gagnaðili hefði sinnt endurhæfingu sinni af þeirri kostgæfni sem honum bar og hann þannig uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningnum. Með vísan til þess en að öðru leyti með hliðsjón af forsendum héraðsdóms var hann staðfestur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Í málinu reyni á álitaefni um rétt íþróttafólks til greiðslu samkvæmt verksamningi þegar það verður fyrir meiðslum. Ekki hafi áður reynt á sambærilegt álitaefni fyrir Hæstarétti og því muni dómur í málinu hafa fordæmisgildi. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að í dómi Landsréttar hafi ekki verið tekið tillit til þess að gagnaðili hafi verið verktaki en ekki launamaður. Jafnframt hafi Landsréttur lagt ranglega til grundvallar að gagnaðili hafi efnt samninginn fyrir sitt leyti.
6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi meðal annars um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.