Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-187
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Tjáningarfrelsi
- Ærumeiðingar
- Friðhelgi einkalífs
- Ómerking ummæla
- Miskabætur
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 5. júlí 2021 leitar Reynir Traustason leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. júní 2021 í málinu nr. 198/2020: Arnþrúður Karlsdóttir gegn Reyni Traustasyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu þriggja nánar tilgreindra ummæla sem gagnaðili hafði uppi sem annar tveggja þáttastjórnenda tiltekins útvarpsþáttar. Krafðist leyfisbeiðandi þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og að gagnaðila yrði gert að greiða sér miskabætur. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu á tveimur ummælum gagnaðila og taldi að í þeim hefðu falist ærumeiðandi aðdróttanir í garð leyfisbeiðanda sem hafi einnig falið í sér brot gegn 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var gagnaðila gert að greiða leyfisbeiðanda miskabætur. Með dómi Landsréttar var gagnaðili á hinn bóginn sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að tilgreind ummæli hefðu varðað málefni sem ættu erindi til almennings og væru hluti mikilvægrar þjóðfélagsumræðu. Af þeim sökum yrði að játa rúmt frelsi til tjáningar. Þegar virt væri í hvaða samhengi tilgreind ummæli hefðu verið látin falla væri fallist á að þau hefðu falið í sér gildisdóm og lýst skoðunum og ályktunum gagnaðila um leyfisbeiðanda og störf hans. Taldi dómurinn að gagnaðili hefði með ummælum sínum ekki vegið svo að æru leyfisbeiðanda að það hafi farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsis sem lög og réttarframkvæmd hefðu mótað.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Hann telur Landsrétt hafa með niðurstöðu sinni gengið of langt í því að sýkna gagnaðila af kröfum sínum um ómerkingu tilgreindra ummæla og gengið þannig á rétt hans til friðhelgi einkalífs. Landsréttur hafi meðal annars lagt rangt mat á ýmis lykilatriði í málinu og byggt á röngum forsendum, auk þess sem dómurinn hafi ekki rökstutt sérstaklega niðurstöðu sína um að ummælin teldust gildisdómar. Þá standist ekki sú niðurstaða Landsréttar að leyfisbeiðandi njóti minni réttar til friðhelgi einkalífs í málinu, sökum þess að honum hafi ítrekað verið stefnt fyrir dóm af öðrum aðilum. Þá byggir leyfisbeiðandi jafnframt á því að málið hafi verulegt almennt gildi hvað varðar stefnumörkun í niðurstöðu mála á umræddu réttarsviði. Loks byggir hann á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, einkum friðhelgi einkalífs.
5. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á, einkum um mörk gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir. Beiðnin er því samþykkt.