Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-160

A, B og C (Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður)
gegn
D (Tryggvi Agnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Erfðaskrá
  • Kaupmáli
  • Óskipt bú
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 7. desember 2022 leita A, B og C leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 23. nóvember 2022 í máli nr. 627/2022: A, B og C gegn D. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að dánarbú E verði tekið til opinberra skipta.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfu leyfisbeiðenda. Gagnaðili hafði fengið leyfi til setu í óskiptu búi eftir lát eiginmanns síns, föður leyfisbeiðenda. Gagnaðili og E voru í hjúskap og gerðu með sér erfðaskrá þar sem kveðið var á um heimild langlífari maka til setu í óskiptu búi án samþykkis fjárráða eða ófjárráða stjúpniðja, sbr. 3. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Landsréttur tók fram að skilja yrði málatilbúnað leyfisbeiðenda svo að gagnaðila hefði af ýmsum ástæðum ranglega verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi og bæri því að verða við kröfu þeirra um opinber skipti á dánarbúinu á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Landsréttur taldi ekki vera fyrir hendi þau atvik sem veita erfingja heimild samkvæmt 13. til 17. gr. erfðalaga til að krefjast þess að opinber skipti færu fram. Þá vísaði Landsréttur til þess að samkvæmt 2. mgr. 74. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 væri heimilt að tímabinda séreignarákvæði kaupmála og væri slíkt ákvæði að finna í kaupmála gagnaðila og eiginmanns hennar. Ákvæði í erfðaskrá um að þau féllu frá því „að eiga hjúskaparrétt yfir eignum hins“ gæti ekki breytt þessari niðurstöðu þar sem ákvæðið væri samkvæmt orðanna hljóðan bundið „við hjúskapinn“. Taldi Landsréttur því að skilja yrði erfðaskrána og kaupmálann svo að með þeim hefðu þau samið um að séreignafyrirkomulag skyldi vera í gildi meðan á hjúskap þeirra stæði og eftir atvikum við slit hans en falla niður við andlát annars þeirra.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi þar sem málið varði grundvallaratriði um skilin á milli séreigna og hjúskapareigna í hjúskapar- og erfðarétti. Málið sé fordæmisgefandi um túlkun á því tímamarki sem líta eigi til við flokkun eigna í hjúskapareignir og séreignir við upphaf dánarbússkipta samkvæmt 11. gr. erfðalaga, sbr. einnig 1. mgr. 74. gr. hjúskaparlaga. Leyfisbeiðendur vísa til þess að hvorki fyrri dómaframkvæmd né fræðiskrif gefi til kynna að eðlilegt sé að veita tímabundnum kaupmála samkvæmt 2. mgr. 74. gr. hjúskaparlaga sömu réttaráhrif og kaupmálaákvæði samkvæmt 3. mgr. 74. gr. laganna við túlkun á 11. gr. erfðalaga. Því sé nauðsynlegt að Hæstiréttur taki afstöðu til túlkunar á 11. gr. erfðalaga að þessu leyti. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísa þau einkum til þess að hinn kærði úrskurður byggi á rangri túlkun á 11. gr. erfðalaga en þau telja að ekki fái staðist sú túlkun Landsréttar að tímabundinn kaupmáli geti haft sömu réttaráhrif og kaupmálaákvæði þeirrar sérstöku gerðar sem getið er um í 3. mgr. 74. gr. hjúskaparlaga.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Beiðninni er því hafnað.