Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-13
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Greiðsla
- Lán
- Sönnunarmat
- Áfrýjunarfrestur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 12. janúar 2025 leitar Sigurður Gísli Björnsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. desember 2024 í máli nr. 772/2023: Elísabet Erla Dungal gegn Sigurði Gísla Björnssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort tuttugu milljóna króna greiðsla leyfisbeiðanda til gagnaðila hafi verið lán eða átt rætur að rekja til viðskipta með hlutafé sem leyfisbeiðandi hafi tekið þátt í ásamt gagnaðila og eiginmanni hennar.
4. Með dómi héraðsdóms var fallist á að um lán hefði verið að ræða og gagnaðila gert að greiða leyfisbeiðanda fjárhæðina. Í dómi Landsréttar kom fram að þegar litið væri til gagna málsins, þar með talið samskipta sem lögð hefðu verið fyrir réttinn, teldist gagnaðili hafa leitt líkur að því að hin umdeilda greiðsla ætti rætur að rekja til viðskipta sem leyfisbeiðandi hefði tekið þátt í. Eins og atvikum væri háttað félli það í hlut leyfisbeiðanda að sýna fram á að um peningalán hefði verið ræða sem gagnaðila bæri að endurgreiða. Hvorki gögn málsins né framburðir vitna styddu þann málatilbúnað hans. Var gagnaðili því sýknuð af kröfum leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómurinn hafi verulegt fordæmisgildi. Niðurstaðan sé á skjön við dómafordæmi Hæstaréttar þess efnis að móttakandi greiðslu beri sönnunarbyrði um eðli hennar og ávallt sé litið á millifærslu sem peningalán ef ekki takist sönnun um annað. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að um sé að ræða sérlega mikilvæga hagsmuni sína. Hann sé eignalaus og stórskuldugur en þegar greiðslan hafi verið innt af hendi hafi fjárhagur hans verið með öðrum hætti. Þá sé niðurstaða Landsréttar röng að efni til. Gagnaðili hafi engin gögn lagt fram um ætluð viðskipti önnur en ódagsettan kaupsamning um hlutafé í Northern Seafood ehf. við félag í eigu lögmanns leyfisbeiðanda. Það hafi staðið gagnaðila nær að ganga frá skjölum um sölu hlutafélags í sinni eigu fyrir tugi milljóni króna auk þess sem skattframtöl hennar beri ekki með sér að hún hafi selt hlutafé.
6. Í 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að umsókn um áfrýjunarleyfi skuli senda Hæstarétti innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms. Þegar sótt var um áfrýjunarleyfi var liðinn 31 dagur frá uppkvaðningu dóms Landsréttar. Umsókn um áfrýjunarleyfi barst því ekki innan lögmæltra tímamarka. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi hafnað.