Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-86

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Aðalsteini Steinþórssyni (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður), Ingimar Eydal Óskarssyni (Magnús Hrafn Magnússon lögmaður), Karli Óskari Geirssyni (Bjarki Þór Sveinsson lögmaður) og Stefáni Gumundssyni (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Reglugerðarheimild
  • Refsiheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 15. mars 2018 sem barst Hæstarétti 24. apríl sama ár leita Aðalsteinn Steinþórsson, Ingimar Eydal Óskarsson, Karl Óskar Geirsson og Stefán Guðmundsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. febrúar 2018 í máli nr. 14/2018: Ákæruvaldið gegn Stefáni Guðmundssyni, Aðalsteini Steinþórssyni, Ingimar Eydal Óskarssyni og Karli Óskari Geirssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með framangreindum dómi Landsréttar voru umsækjendur allir sakfelldir fyrir brot gegn 5. mgr. 1. gr., sbr. 29. gr. laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum og 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr. og 2. málslið 1. mgr. 4. gr., sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998 um leyfi til farþegaflutninga með skipum með því að hafa, sem skipstjórar á tilteknum hvalaskoðunarbátum, siglt með of marga farþega í nánar tilgreindum tilvikum. Var refsiábyrgð Stefáns Guðmundssonar jafnframt reist á því í nánar tilgreindum tilvikum að hann var fyrirsvarsmaður félags sem gerði út bátana. Þá var Aðalsteinn Steinþórsson jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 8. gr., sbr. 233. gr. siglingalaga nr. 34/1985 með því að hafa siglt í tiltekið sinn án skipsskjala. Voru umsækjendur sýknaðir af annarri háttsemi sem þeim var gefin að sök í málinu. Lýtur ágreiningur málsins einkum að því hvort sakfelling umsækjenda samkvæmt framangreindu hafi verið byggð á fullnægjandi refsiheimildum.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjun lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild  3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.